Færsluflokkur: Dægurmál

Má maður taka þetta úr skeið??

Var að vinna á slysadeildinni í dag, og þar var læknastúdent frá Hollandi, einn af mörgum frá Hollandi sem hafa verið á LSH þennan veturinn. Þetta er ekki í frásögur færandi, nema vegna þess að einfaldur tungumálamisskilningur okkar á milli, minnti mig á annað mjög skemmtilegt atvik, sem átti sér stað fyrir nokkrum árum.

Þannig var að hnáta ein frá Íslandi, var í læknanámi í Þýskalandi en ákvað að koma heim og vinna á LSH eitt sumarið. Við vorum báðar við vinnu á lungnadeildinni þennan dag og höfðum til meðhöndlunar konu, sem meðal fleiri einkenna hafði hvimleiðan svepp í leggöngunum. Ég sagði læknanemanum frá þessu, og hún ætlaði að kíkja yfir hvaða meðferð væri best við þessum kvilla. Hún lagðist yfir okkar íslensku lyfjaskrá og komst að því að lyfið Pevaryl væri mest notað við svona sveppi í leggöngunum.

Eitthvað kom þó ekki heim og saman í huga stúlkunnar og líklega hefur henni þótt aðferðir Íslendinga til að lækna þennan svepp, í hæsta máta undarlegar. Því hún kom til mín og sagði lágróma: "Segðu mér, Lilja, er ekki "supp" (stytting fyrir lyf í stílaformi), örugglega stílar?"  "Jú,jú", sagði ég, "nema þetta eru auðvitað vaginal stílar sem við erum að tala um" (vagina=leggöng og því vaginal stílar, stílar sem ætlað er að stinga þar inn).  Hún andvarpaði djúpt og sagði: "Já, okey, vegna þess að það stendur í Lyfjaskránni gefist í skeið." (!!!)

Vá, hvað við erum mikið búin að hlæja að þessu á spítalanum LoL LoL, ekki að henni, heldur að þessum fyndna misskilningi.

Sorry, Kata, ef þú lest þetta einhverntímann Cool - þetta var bara of fyndið til að segja ekki frá!

Jæja, er farin að elda.......


Nova hvað???

P.s. sökum athyglisbrests míns hef ég ekki einu sinni tekið eftir þessarri margumtöluðu auglýsingu á hliðarlínunni frá Nova, og sökum einbeitningarskorts þá truflar hún mig ekki hið minnsta. Ég einfaldlega leiði hana hjá mér!! Smile

Svona getur nú lífið verið þægilegt fyrir okkur!!


Er ég ofvirk með athyglisbrest??

Ég las grein í Mogganum um daginn, um ofvirkni og athyglisbrest hjá fullorðnum, og eftir það sannfærðist ég enn frekar um að ég væri haldin báðum kvillunum.... í mjög mismunandi mæli þó.

1. ofvirkir geta sjaldnast unnið 9-5 vinnu, sérstaklega ekki kyrrsetu vinnu eins og skrifstofuvinnu -> ég myndi hreinlega deyja úr leiðindum ef ég þyrfti að mæta á sama staðinn, á sama tíma alla daga og sitja í sama stólnum við sömu tölvuna. Ég myndi frekar vinna í Bónus því þar gæti ég allavega fært mig á milli kassa og stundum fengið að raða í hillur eða vera í mjólkurkælinum! Ég vil hafa líf og fjör í kringum mig og helst ekki vinna með sama fólkinu á hverjum degi - og alls ekki gera sömu hlutina dag eftir dag! Ergo, vaktavinna á spítalanum hentar mér súper dúper - nóg af lífi og fjöri og skemmtilegu fólki (og sjúklingum).

2. þeir sem um er rætt eiga erfitt með að standa í biðröðum  -> tíminn hjá mér líður aldrei jafn lengi og þegar ég þarf að bíða, og þurfi ég að sitja fundi eða fræðslu, get ég ekki hætt að líta á klukkuna. Ekki af því að mér leiðist efnið, ég á bara voða erfitt með að sitja svona lengi kyrr og halda athyglinni allan tímann. Ég er alltaf farin að spá í varalitinn á einhverri konunni, eða tölurnar á skyrtunni hjá öðrum eða eitthvað í þeim stíl, og ef mér leiðist extra mikið þá fer ég að ímynda mér hvers konar maka fyrirlesarinn eigi.... Og dett um leið út úr ýmsu öðru....... Ég get ekki einu sinni haldið athyglinni almennilega í rifrildum, því það má helst ekkert trufla mig á meðan - ég get alveg farið að spá í hvað tennurnar eru asnalegar í rifrildaranum mínum þegar hann segir "ess" eða "þonn" og þannig misst af einhverju sem hann er að segja á meðan. 

3.  Ofvirkir eiga fleiri sambönd á bakinu en aðrir fullorðnir einstaklingar -> Amen. Ekki af því að það hafi eitthvað sérstakt verið að mínum fyrrverandi, a.m.k. ekki neitt sem aðrir sáu, en ég finn alltaf eitthvað til að sannfæra sjálfa mig um að það sé eitthvað betra handan við hornið..... og kannski ekki einu sinni neitt betra, bara eitthvað nýtt og öðruvísi..... Og að fá mig í samband, það getur reynst þrautin þyngri.... Devil

4.  ......eiga erfitt með að skipuleggja sig og fresta oft að byrja á stærri verkefnum  -> ójá, Sick - erfitt og illmögulegt að koma sumum hlutum í framkvæmd, þeir vaxa mér bara svo ótrúlega í augum þegar ég hugsa um þá, að það að byrja á þeim væri hálfgert kraftaverk af minni hálfu.

a) hver sem þekkir mig, kannast ekki við "ritgerðirnar", "verkefnin", "fyrirlestrana" og annað, sem ég gat ekki rætt um við aðra af sektarkennd yfir óbyrjuðu verki, og svo sat Lilja nánast sleitulaust síðustu 3 sólarhringana fyrir skiladag...... (ekki það, að reyndar hefur mér alltaf gengið rosalega vel að læra og í skóla) Smile 

b) það getur vel tekið mig plús þrjár vikur, að hringja í þjónustufulltrúann í bankanum, eða Orkuveituna, Lánasjóðinn eða you name it.... öllum minna skemmtilegum símtölum er auðvelt fyrir mig að fresta - alltaf hægt að finna afsökun fyrir því að gera þetta frekar á morgun. (Úff púff, og ég sem á að ferma í vor - ímyndið ykkur píninguna fyrir mig!)

c) fresta öllu fram á síðustu stundu - þá eru engir back-up dagar til lengur og ég verð bara að gera hlutina. Sit þess vegna oft uppi með ótrúlegustu, í raun auðveldustu hluti í heimi..... alveg á síðasta séns.

5.  ......skipta oft um vinnu  -> já, reyndar var ég lengi í fyrstu vinnunni minni (eftir háskólaútskrift) en þegar ég loksins skipti vegna óánægju, rann það upp fyrir mér að maður á aldrei að vinna nokkurstaðar þar sem maður er óánægður. Og í mínum bransa er það nú bara kostur að hafa prófað ýmsa hluti. Kem til baka að þessu eftir eitt ár, ef ég er þá enn að vinna á slysó, þá stenst þessi kenning ekki!!

6.  .....eiga erfitt með að einbeita sér  -> reyndar er þetta tvískipt í mínu lífi, því ég á í engum erfiðleikum með að einbeita mér í vinnunni, en í einkalífinu er ég svolítið rjúkandi úr einu í annað. Kem heim úr Nettó með fullt af innkaupapokum, fer svo inn á bað til að ganga frá handsápu, tannkremi ofl., en sé í leiðinni að það þarf að pússa baðherbergisspegilinn, svo ég geri það svona rétt á meðan ég er þar. Þá man ég eftir að ég þarf að setja í þvottavél, svo þá fer ég að gera það - og ganga frá þvotti. Og þá sé ég að það er heldur betur kominn tími á að yfirfara sokkaskúffuna hjá unglingnum mínum, svo ég geri það líka. Labba svo fram og man þá að ég er ekki enn búin að ganga frá úr innkaupapokunum. (please, kannast ekki einhver við þetta??) Ég minni stundum á þessa óþreyjufullu í berjamó, þið vitið, þessa sem stökkva alltaf frá einu lynginu til annars án þess að klára að tína af lynginu. Og ófá eru þau skiptin sem ég þurfti nauðsynlega að taka fataskápinn í gegn í miðjum prófum, eða skrifa jólakortin eða þrífa eldhúsinnréttinguna - það var bara bráðnauðsynlegt að koma þessum hlutum í verk akkúrat á þessum tíma Pouty

7.  Ofvirkir eru oft mjög "spontant" persónuleikar og tala og akta oft áður en þeir hugsa hlutina til enda  -> uhumm..... Shocking það hefur nú ýmislegt fokið úr mínum munni, sem betur hefði verið látið ósagt - á misjafnlega mikilvægum stöðum. Óþarflega hreinskilin get ég líka verið - líka við yfirmenn mína, en ég leyfi mér að telja það mér til kosta, a.m.k. stundum. Og oftar en einu sinni hef ég ákveðið utanlandsferðir með minna en tveggja daga fyrirvara. Ójá, maður lifir bara einu sinni - carpe diem er minn hugsunarháttur Joyful

8.  Þetta fólk er mjög oft hálfgerðir spennufíklar  -> ekki hálfgerður heldur alger. Dæmi nú hver fyrir sig, sem þekkir mig!! (þ.m.t. ótrúleg óstundvísi sem nákunnugum þykir oft ekki vera neitt annað, en aðstæður sem ég skapa fyrir sjálfri mér (og öðrum) til að fá adrenalínið upp). Öðrum til mikilla hjartsláttatruflana. 

9.  Ljósi punkturinn er, að ofvirkir einstaklingar með athyglisbrest eru oft frámunalega skemmtilegt fólk Wink (skv. Mbl), fólk sem er fljótt að hugsa og átta sig á aðstæðum, fljótt að aðlaga sig (líklega vegna þess að þeir eru ekki vanir reglu í lífinu hvort sem er), spontant, eiga skemmtileg tilsvör á hverju strái og reytir af sér brandarana. Þannig er ég að sjálfsögðu líka!! Smile Og mikið meira til Tounge


Summary...

Jæja, mín er greinilega byrjuð að vinna aftur og eins og oft áður þegar ég tek mig til, þá er unnið mikið - svona tarnavinna hentar mér ágætlega en kemur óneitanlega niður á ýmsu öðru...... eins og t.d. blómstrandi rykkúlunum undir borðstofuborðinu og þeirri staðreynd að jólatréð stendur ennþá fullskreytt inni í stofunni Undecided Ég þurfti að hóta vini sonar míns um daginn, svo það myndi ekki fréttast til fyrirmyndarmæðranna í hverfinu, að mamma hans Jóhanns væri með jólin hjá sér ennþá í febrúar!

Ég er orðin ríkisstarfsmaður aftur eftir nokkurra ára hlé, og því fylgir að ég þarf að vera búin að plana sumarfrístímann minn í lok febrúar. Úff, og ég sem get ekki einu sinni planað næstu viku, hvað þá meira Gasp Þetta er óneitanlega svolítil pressa, og ef það er eitthvað sem fólk í nautsmerkinu þolir ekki, þá er það að þurfa að ákveða eitthvað undir pressu. Ég er nú samt svo heppin að ég fæ ekki að taka allt sumarfríið mitt í einu, og alls ekki yfir hásumarið, svo það léttir vissulega svolítið á pressunni!

Annað hefur valdið mér hugarangri, og það er að tölvan mín sótti sér einhverja flensu, líklega víruspest. Hún stórhægði á vinnuhraðanum þar til hún loksins gafst eiginlega upp, allavega á netvinnunni. Það tók heila eilífð að komast inn á netið og svo fraus hún þar æ ofan í æ. Ég tók því skyndiákvörðun a la Lilja í gær og skellti mér eftir vinnu í Elko og keypti nýjan grip, og það ekkert smá flotta tölvu Smile Svo nú get ég aftur skráð skoðanir mínar og fengið útrás fyrir innbyrgða reiði mína í garð Sjálfstæðisflokksins, sem er að fokka öllu upp í borginni minni. Ég nenni ekki að eyða fleiri orðum í það mál í bili, en mér finnst að Geir H. Haarde ætti að vakna upp og gera eitthvað í málunum áður en Vilhjálmur jarðar Sjálfstæðisflokkinn. Að sjálfsögðu á bara að kippa manninum út úr þessu öllu saman, fyrst hann ekki sér sóma sinn í að segja af sér sjálfur. Meira helv.... ......!

Fyrst ég var stödd í Elko á annað borð og í stórinnkaupum, ákvað ég að tími væri til að nútímavæðast enn frekar og fá mér líka flakkara. Minn elskulegi bróðir var með mér í för, þar sem hann hefur mesta vitið á svona græjum af öllum þeim sem ég þekki. Ég keypti sjónvarpsflakkara með mörg hundruð GB disk, og svo tók bróðir minn nýja flakkarann minn með sér heim og kóperaði allar sínar bíómyndir, sjónvarpsþætti og síðast en ekki síst alla tónlistina sína yfir á flakkarann. Hann kom svo í heimsókn í dag og tengdi græjuna við sjónvarpið og kenndi mér að nota hana, hvernig ég ætti að setja efni af tölvunni yfir á flakkarann og hvernig ég gæti á auðveldasta háttinn unnið með þetta - og vá hvað ég er glöð. Þetta er ekkert smá sniðugt...... ég vissi ekki að tvö lítil tæki með snúru gætu fært mér slíka gleði..... allavega ekki tæki í þessum notkunarflokki Wink Á morgun ætla ég að taka allar ljósmyndirnar mínar af gömlu tölvunni og setja yfir á flakkarann (því sá hluti gömlu tölvunnar virkar ennþá, sem betur fer!), og þá fer kannski að styttast í það að ég fari að sortera og senda í framköllun eitthvað af myndum síðustu ára!!

Svo er á dagskránni að hefja bumbubana-átak, ekki þó með bumbubananum fræga, heldur á að byrja rólega og taka á mataræðinu. Ég hef nú verið blessunarlega laus við að vera feit, en hef þó aukið mittisummálið svolítið síðustu árin, og ég er farin að átta mig á því, að það mun ekki minnka af sjálfu sér, svo aðgerða er þörf á þessu sviði. Best að byrja strax!

Jæja, nóg í bili, er allavega búin að láta vita að ég er ennþá lifandi og ég mun örugglega setjast fljótlega aftur við nýju, flottu tölvuna mína. Er farin að sofa núna Sleeping

 


Hana-at í g-streng í stað kosninga!!

Jahá, mitt summary vantaði eiginlega í síðustu bloggfærslu, en hlýtur nú að vera það, að ég skil nú greinilega alls ekkert í þessu lýðræði lengur. Væri ekki bara ódýrara fyrir okkur borgarbúa..... og jafnvel kjósendur almennt..... að sleppa bara kosningunum og halda frekar hana-at í mannamynd, þar sem sá sem goggar mest, svíkur mest, lýgur best og hraðast og bítur fastast frá sér, vinnur. Það væri a.m.k. vissulegra skemmtilegra fyrir okkur, "þau heimsku", að fylgjast með blessuðum strumpunum með Villa æðstastrump í fararbroddi, (sem að sjálfsögðu yrði að bera rauðan hanakamb á höfði), hoppandi um á einum fæti, með hendur bundar fyrir aftan bak - íklædd Tarzan skýlu, eða jafnvel g-streng. Það væri at og klæði sem hæfðu virðingunni, að mínu mati. Mætti jafnvel gera úr þessu einhverskonar sjónvarpsþátt, einhvern þátt sem tæki við af Laugadagslögunum jafnvel..... eitthvað sem héldi allri fjölskyldunni samhentri yfir sjónvarpinu. Fjölmiðlar gætu jafnvel birt einhverskonar úrslitatöflu, einhverja í stíl við þá sem þeir birta fyrir Eurovision. Já, ég held að þetta yrði jafnvel lýðræðislega og réttlátasta kosningin. Og þá fengjum við kjósendur kannski loksins eitthvað fyrir peningana okkar ..... smá skemmtun að kaupauki!!

Einu sinni var..... ég Sjálfstæðiskona. Núna....... veit ég það ekki lengur!

Það er líklega að bera í bakkafullan lækinn, að ætla að tjá sig um borgarstjórnarmálin síðustu daga. En mig langar samt að koma minni skoðun á framfæri.Ég er ein þeirra sem var orðin langleið á stjórnartíð R-listans með allri þeirra skuldasöfnun, og ég vildi Sjálfstæðisflokkinn til valda þegar Reykvíkingar síðast fengu að kjósa um borgarstjóra sinn. Ég var manna glöðust að þeir skyldu vinna sigur í þessum kosningum, og jafnvel fannst mér Vilhjálmur að vissu leyti eiga það skilið, að fá að ljúka sínum langa ferli í borgarráði, sem borgarstjóri - þótt ég í raun væri ekki mikill aðdáandi hans. Ég var fylgjandi meirihlutanum, þótt vissulega hafi mér þótt það í hæsta máta undarlegt, að Sjálfstæðisflokkurinn skyldi velja til samstarfs, þann eina mann Framsóknar sem náði lýðræðislegu kjöri inn í borgarráð. Ekki fannst mér fara mikið fyrir lýðræðinu í því samhengi, að sá flokkur sem borgarbúar höfðu greinilega gjörsamlega hafnað í kosningunum, skyldi samt sem áður eignast Forseta borgarstjórnar. En svona er víst pólitíkin, svo ég ákvað frekar að gleðjast yfir sigri minna manna og kvenna í kosningunum heldur en að ergja mig á þessum eina Framsóknarmanni. Hann væri nú bara einn, drjúgur með sig, Framsóknarmaðurinn.En hann reyndist meira en það. Hann reyndist vera naðra. Einhverskonar Júdas okkar samtíma. Og þótt ég að sumu leyti skilji hans sjónarmið, um að ómögulegt sé að vinna með sundruðum flokki Sjálfstæðismanna- og kvenna í borgarstjórn, þá fannst mér æði kaldhæðnislegt, að þetta eina peð Framsóknarmanna, sem lýðræðið hefði hafnað, skyldi samt sem áður hafa vald til þess að sprengja samstarfið og hefja nýtt með öðrum flokkum. En Björn Ingi var heldur ekki lengi í Paradís, og galt meðal annars Davíð B. Eggertsson, sem örugglega var ágætur svo langt sem hann náði, fyrir hans hnífsstungur í bök hinna mjög svo sáru Sjálfstæðismanna- og kvenna í borgarráði. Og þeir voru opinberlega svo sárir, reiðir og bitrir. Svo mikið, að þeir voru farnir að hljóma eins og samhljóða harmkór, sífellt veinandi og skrifandi um þau svik sem þau höfðu orðið fyrir. Þau voru eins og unglingur í ástarsorg, sígrenjandi sama hlutinn og allir fyrir löngu orðnir leiðir á að hlusta á þau syngjandi sama sönginn, um leið og þau reyndu að koma því að, og fullvissa borgarbúa um, að þau sjö væru öll svo "rosalega" góðir vinir og berðu fullkomið traust hvort til annars. Maður má ekki gleyma því, að þau líka skemmtu sér saman! Vá, það gaf okkur örugglega enn meira traust á þennan hóp...... að þau hagi sér svona algjörlega edrú og í vinnunni..... hvernig eru þau þá í glasi og í fríi??? Já, maður bara spyr.Maður hlaut auðvitað að velta því fyrir sér, af hverju þeim væri svo mikið í mun, að telja okkur "hinum heimsku" trú um það, að þau væru öll svona góðir vinir. Þau hafa eflaust haldið að cirka sextán af "okkur heimsku" ættu heilbrigða skynsemi, sjónvarp og útvarp, og að þessi hluti hlustaði einstöku sinnum á fréttir og myndaði sér sína skoðun á málunum. Það vita það allir, að sexmenningarnir og Vilhjálmur voru á engan hátt samstíga og þau eru ef til vill á einhvern bizarre hátt vinir.Manni fannst eiginlega nóg um, að Gulliver (Vilhjálmur) og putarnir (sexmenningarnir) vældu hver í kór við annan í fjölmiðlum og á bloggsíðum, en að Gulliver myndi ganga svona langt, að tapa gjörsamlega æru sinni á þann hátt sem hann gerði núna..... það hefði ekki mig, Sjálfstæðiskonuna, órað fyrir. Hefur hann ekki heyrt neitt um það, að tapa og bera höfuðið hátt?? Að ganga stoltur fram og berjast áfram á heiðarlegan hátt?? Gulliver hefur greinilega ákveðið að enda sinn pólitíska feril með höfuðið á kaf í drullu, einhverri mestri pólitískri drullu sem um getur. Sú drulla getur ekki einu sinni talist ljósblá. Líklega var Gulliver orðinn "doldið" svekktur, að hafa setið þetta lengi í borgarráði og sem borgarfulltrúi og aldrei fengið að vera æðsti strumpur og greinilega hefur hann ákveðið að leggja allt í sölurnar til þess að svo mætti verða. Svo hann fórnaði pólitískri framtíð litlu strumpanna sinna, fyrir eiginhagsmunapot, og fórnaði í leið flestum þeim málefnum sem við, Sjálfstæðismenn, kusum flokkinn fyrir í borgarstjórn. Við kusum ekki Ólaf F. Magnússon, eins og tölur glögglega sýna...... ekki frekar en við kusum Björn Inga Hrafnsson á sínum tíma. En Vilhjálmi er líklega nokk sama hvað við kjósendur veljum. Hann hefur aðeins eitt málefni á sinni dagskrá, og það er að verða borgarstjóri áður en hann deyr. Og hann ætlar að ná því..... hann skal ná því, sama hvað!Ég lýsi því hér með yfir, að Sjálfstæðisflokkurinn í borgarmálum, hefur tapað trausti mínu. Bæði Vilhjálmur og strumparnir hans, sem þó margir hverjir eru hinir vænstu strumpar og strympur. En að verða svona leiksoppar og undirgefin peð Gullivers æðsta Strumps, sýnir ekki mikið áræði, frumkvæði eða í rauninni, leyfi ég mér að segja, skýra hugsun. Ég vil fá að sjá þau málefni sem ég kýs, verða að veruleika í höndum þeirra manna, sem ég kaus til að gera þau að veruleika. Ég vil ekki sjá þessi málefni verða að verslunarmynt fyrir völd og ég vil ekki sjá þetta fólk kasta þeim efnum sem ég kaus þau fyrir, fyrir borð...... bara svo þau geti hefnt sín á Birni Inga, Degi, Svandísi og Margréti, og hætt að grenja.Ég má.... og mun.... hatt minn og húfu éta, ef forysta Sjálfstæðisflokksins innst inni og í raun styður þetta brölt og klúður. Að svo heiðvirðir menn sem Geir H. Haarde og Illugi Gunnarsson skulu láta hafa eftir sér, að þeim finnist ekkert athugavert við þennan farsa allan saman, lætur mig aðeins byrja að efast um þá líka. Ef til vill verða þeir að koma svona fram, svo ekki opinberist fyrir hinum almennu, "heimsku" Sjálfstæðismönnum hversu mikil sundrung ríkir í raun í flokknum. Kannski verður formaðurinn að "bakka" þennan heimskulega leik upp, en hvað gerir þessi uppbökkun fyrir formanninn? Ojá, ég er reið út í Sjálfstæðisflokkinn í þessu máli, og það var þá varla á mál Árna Johnsen að bæta, eða hneykslið þegar þeir tóku upp samstarf við Björn Inga Hrafnsson. Ég þori varla að nefna Íraksstríðið! Ég hef verið meðlimur Sjálfstæðisflokksins síðan ég var 17 ára, en minn mælir er svo gott sem fullur. Ég mun virkilega endurskoða minn hug fyrir næstu kosningar og það er sorglegt til þess að vita, að svo fámennur og óræður her borgarstjórnarliðs flokksins, með Gulliver Strump í fararbroddi, skuli verða til þess að fæla margt fólk frá flokknum. Og eins og orðin gefa til kynna, þá er ég ekki að tala um mig eina. Ég vinn á einum fjölmennasta vinnustað landsins og hef heyrt skoðanir flokkssystkina minna vítt og breitt - þ.e.a.s. skoðanir frá "the silent part" Sjálfstæðisflokksins. Já, kannski glymur virkilega hæst í tómri tunnu......

Viltu vera samvinnuþýð, vina mín?

Ekki langur svefn þetta, þennan sólarhring. Líklega svona sem vaktavinna fer með mann, en sem betur fer get ég sofið á morgun Wink ...... fyrir næstu vakt.

Ég lenti í því um daginn í vinnunni að þurfa að búa um allsvakalegt sár á ungri stelpu. Það vakti upp nokkrar minningar hjá mér..... nefnilega þegar ég hlaut sár, sem svipaði nokkuð til þessa.....

Það gerðist fyrir löngu síðan þegar ég var einhverju sinni að skemmta mér með nokkrum Verzló-vinkonum. Við ætluðum svo allar saman í partý á ákveðnum stað, en sá hængur var á, að við þurftum að klifra yfir hátt grindverk til að komast að partýstaðnum - og þetta grindverk var gert úr breiðum stálbútum sem enduðu í hvössum oddum. Ég þótti nú einna liprust, búin að eyða hálfri ævinni í fimleika, en einhverra hluta vegna stöðvaðist ég ofan á grindinni. Hinar stóðu fyrir neðan og sögðu mér að flýta mér, en ég sagði þeim aðeins að slaka á..... ég væri föst í einhverju þarna ofan á grindverkinu..... ég hélt kannski að gallabuxurnar mínar væru fastar í einhverju. Og svo lyfti ég mér upp á höndunum og ætlaði að kíkja nánar á þessa "flækju", en fann þá, að eitthvað sogaðist út úr aftanverðu lærinu á mér Sick Ég hafði þá gert mér lítið fyrir og "sest" ofan á einn af þessum járnoddum, sem stakkst á kaf inn í lærið á mér - án þess að ég hefði í rauninni fundið fyrir því. Ég fékk þetta djúpa sár í lærið sem blæddi einhver ósköp úr og buxurnar líkust því, að einhver hefði verið skotinn í þeim. Eitt stórt, hringlaga gat í buxunum með stærðar blóðpolli í kringum.....úff.

Ég fór einmitt á slysavarðsstofuna, en mín för var ekki til frægðar. Ég man, að ég var alls ekki edrú, og ég reifst og skammaðist út í allt og alla þarna. Ég grenjaði og gargaði og vildi sko ekki, að "einhver helv.... læknanemi" myndi sauma mig, og ég lá eins og alger ótemja á einhverjum bekk inni á nákvæmlega sömu stofu og ég nú sjálf þarf að taka á móti fólki í nákvæmlega sama ástandi.

Ó guð, hvað maður getur skammast sín. Ég er alveg viss um, að sá læknir sem saumaði mig svo á endanum, er einhver af þeim sem ég hef unnið nokkuð mikið með núna..... svona miðað við ártöl þá giska ég á karlkyns lækni sem er fæddur '63-'65 og ég held að ég hafi "pretty much" unnið með þeim flestum einhvers staðar Blush 

Þetta gerir kannski ekki svo mikið til núna, það er nú langt um liðið, en ég hef samt oft, í gegnum tíðina, spáð í hvaða læknir þetta gæti hafa verið. Það hjálpar manni samt óneitanlega, þegar maður er að eiga við drukkið, óalandi fólk, að muna samt...... að þau eru líka bara manneskjur. Kannski meira að segja bara litlar, hræddar manneskjur - með stæla Wink


Ég vil betra stuðningslið..... dududumm!!!

..... áfram Ísland öskrast úr öllum hornum - meira að segja var rólegt á slysló í kvöld á meðan landsleikurinn fór fram! Flestöll okkar á vakt, gátum setið og séð nánast allan leikinn..... eða, eins lengi og áhugi okkar varði. Flestir biðu með veikindi sín, þar til leikurinn var búinn.

Mér finnst stórlega vanta klapplið fyrir Ísland, klapplið sem segir eitthvað annað en endalaust "Áfram Ísland, dududududumm..... áfram Ísland dududududumm......" Og líka eitthvað annað en...... "Ísland, dududu.... Ísland dududu..... Ísland dududu....." Mér finnst vanta skipulagt klapplið, sem gjörsamlega aldrei stoppar, lið sem stöðugt heldur uppi stuði og stemmningu og hrífur aðra áhorfendur á pöllunum með sér. Þeir þurfa að eiga þema fyrir vörn og annað þema fyrir sókn, og alls konar söngva þess á milli til að halda áhorfendum, og ekki síst leikmönnum, í gírnum. Í sigurgírnum!

Ég hef farið á allmarga leiki erlendis, aðallega í Danmörku en líka á Englandi og þar er bara allt öðruvísi stemning. Pallarnir dúa af hoppum og æsingi, og þú þarft ekki að hafa vit eða skilning á, eða jafnvel gaman af leiknum, til þess að skemmta þér á svona leikjum. Þetta á reyndar við fótboltaleiki sem ég hef farið á, en miðað við að handbolti sé jafnmikil þjóðaríþrótt okkar og fótbolti er Englendingum, þá ættum við næstum að eiga rikisstyrkt klapplið, sem segir eitthvað annað en Ísland dududumm osfrv. Við þurfum að eiga lið sem syngur alls konar söngva, lið sem á STÓRAR trommur, lið sem lætur heyra mikið meira í sér og lið sem ekki bara deyr út í tvær karlmannsraddir sem segja lágt: "skora Ísland, skora....." Common, við hljótum að eiga eitthvað frumlegra en þetta, þessi lína er meira að segja stolin frá 11 ára leikmönnum Esso (N1) mótsins á Akureyri!!! Stuðningurinn er meiri á deildarleikjum HSÍ og vil ég þá sérstaklega nefna Haukamenn, sem eiga eitt besta stuðningslið allra (þótt ég sé ekki einu sinni Hafnafjarðarmær)!!

Við mæðginin förum alltaf á landsleiki Ísland í fótbolta, sem spilaðir eru hér á landi..... og þar hefur, bara á síðustu tveimur árum, átt sér stað stór breyting. Nú heyrist alltaf í mjög öflugum hópi, sem syngur, trommar og er m.a.s. með trommuheila með sér til að spila undir öll lög.... og það er geðveik stemmning sem hrífur alla áhorfendur með sér. Það er stuð og fjör á pöllunum nálægt þeim, og allir taka þátt. Allir eru hoppandi, dansandi, syngjandi og kallandi og þannig á þetta að vera! Þetta hefur líka skilað sér inn á völlinn, t.d. síðast þegar íslenska karlalandsliðið í fótbolta, spilaði á móti liði Spánverja. Alveg er ég viss um að stuðningur áhorfenda fleytti íslenska liðinu langt......!!!!! enda var fantagóð stemmning á áhorfendapöllunum. Þetta vil ég sjá í handboltanum. Og ég skal persónulega taka að mér stjórnina á trommunum ef það myndi hjálpa eitthvað!! Wink  

Ójá, það skal ég gera.......


Gæsahúð og Laxdæla á sömu helginni...

Bravó fyrir Jesus Christ Superstar!!! Það er skemmst frá því að segja, að mér fannst sýningin alveg mögnuð. Hrikalega góð, bæði hljómsveit og söngvarar. Við sátum á 5. bekk, sem voru alveg stórgóð sæti, ekki nógu nálægt til að vera frussað á, en nógu nálægt til að fá upplifunina beint í æð.

Ég get nú eiginlega tekið undir það með honum Jóni Viðari gagnrýnanda, að röddin hans Krumma hefði þurft að vera aðeins kraftmeiri - ótrúlegt en satt. Ég hélt fyrirfram að hann hlyti að hafa röddina í hlutverkið, en stundum fannst mér hann alls ekki komast eins hátt upp og samt halda kraftinum, eins og hann hefði þurft að gera. Eða kannski er ég bara orðin svo gegnsýrð af tónlistinni úr bíómyndinni, að mér finnst að allt eigi að vera eins og þar. Hann var engu að síður frábær í hlutverkinu, fannst mér. Eins og þau öll.

Ingvar var alveg æðislegur sem Pontíus Pílatus og ekki vissi ég að hann gæti sungið svona frábærlega! Það verður engu logið upp á manninn þann. Skopið fékk að vera með í verkinu og síðasta kvöldmáltíðin var t.d. útfærð sem pylsupartý, grillaðar á gasgrilli að sjálfsögðu LoL

Strákurinn minn var meira að segja rosalega hrifinn, enda þótt hann þekkti ekki fyrirfram tónlistina í verkinu. Eina sem ég saknaði svolítið, var hópur dansara - ég hefði viljað sjá dansatriði með þessarri frábæru tónlist. En hópurinn fær alveg toppeinkunn hjá mér engu að síður! Ég fékk margoft gæsahúð yfir flutningnum og það er gæðastimpill.

Nú er alvara lífsins skollin á aftur, ég er sem sagt byrjuð að vinna. Eyddi helginni á taugadeild LSH og það var bara fínt að komast aftur í gang eftir langt og gott frí. Auðvitað eins og alltaf þegar maður hefur nóg að gera, fer maður að sjá eftir að hafa ekki nýtt frídagana betur..... en ég bara hreinlega mundi ekki eftir neinu af því sem ég hefði átt að gera, akkúrat á meðan á fríinu stóð. Ég ætla t.d. að gera "scrap-bók" um son minn fyrir ferminguna hans, hafði hugsað mér að láta bókina liggja frammi í veislunni og gera eina opnu fyrir hvert æviár hans. Ég hefði nú getað eytt smá tíma í þetta í fríinu mínu. Eða þá hefði ég getað klárað að bora í veggina hjá mér (jahá, ég tók mig til og kenndi sjálfri mér að bora þegar biðtíminn eftir karlpeningnum í fjölskyldunni fór að verða óendanlega langur!!), og hengt upp myndir sem ennþá standa alltaf upp við vegg inní svefnherberginu..... en þær eru nú hvort sem er búnar að standa þar í tæp tvö ár, svo what the hell. Ég fékk gjafakort í Kringluna í jólagjöf frá Heilsuverndarstöðinni (vinnustaðnum mínum) - en ekki lá mér á að eyða innistæðunni á því.... a.m.k. eyddi ég ekki einum degi í búðaráp í fríinu mínu. Ég er ekki einu sinni búin að taka niður jólatréð Shocking....... en allt þetta vildi ég nú að ég hefði gert á meðan ég hafði allan tíma í veröldinni til þess. En svona er maður nú bara. Og hvað eyddi ég svo þessum dögum eiginlega í, spyr ég sjálfa mig núna. Ja, ég get allavega sagt, að ég lærði nokkuð vel inn á sjónvarpsdagsskrána...... og annar sófinn í stofunni er vel mótaður af rassinum á mér, eftir langar legur mínar þar. En svona daga verður maður líka stundum að fá að eiga.

Núna er ég búin að sitja síðustu tvo tíma og lesa yfir Laxdæluverkefni sonar míns. Hann hafði líka allt jólafríið til að gera þetta verkefni, og ég varaði hann margoft við því að slóra svona með það. Varaði hann við því að verða eins og mamma hans, sem alltaf bíður með alla hluti fram á síðustu stundu og helst lengur. En sonurinn sat heldur betur í súpunni þessa helgina, og er búinn að sitja sveittur við verkefnið báða dagana. Ég held nú samt að hann hafi lært sína lexíu á þessu...... hann á ennþá von til þess að verða ekki eins og ég, hann er enn ungur.

Núna ætla ég að drífa mig á date með Óla lokbrá - aftur vinnudagur á morgun og í þetta sinn á slysó.

Þar til næst.......


Þráinn vs. Lilja í máli Þorsteins Davíðssonar

Ég veit að mjög margir eru mér mikið ósammála um það efni sem ég ætla að rita um hér núna..... og það er gott, gott sem sagt að við erum ekki öll á sama máli um alla hluti. Það væri leiðinlegur heimur og væri t.d. mjög leiðinlegt að hlusta á Silfur Egils ef svo væri.

Það fer ofboðslega í taugarnar á mér, þegar fólk er að agnúast út í ráðningu Þorsteins Davíðssonar og hvernig Árni Mathiesen stóð að ráðningu hans. Mér finnst Þorsteinn gjalda mikið fyrir það að vera sonur föður síns í þessu máli.

Ég hlustaði á þá Þráin Bertelsson og Einar Kárason ræða þetta mál í Ísland í dag.... eða í kvöld öllu heldur, og það er alveg auðheyrt hvaða skoðun Þráinn hefur á, ekki bara Árna og þessu máli, heldur öllum Sjálfstæðisflokknum í heild sinni. Einar var mun diplomatiskari í sínu tali og talaði að minnsta kosti ekki, eins og hann væri öllum málkunnugur sem að málinu komu....... en Þráinn virtist þekkja hvern einasta umsækjanda sem og forsendur ráðherrans. Hann hikaði a.m.k. ekki við að segja, að "Þorsteinn hefði troðið sér inn í þetta embætti", bara út á það að vera sonur Davíðs Oddssonar. Og þegar Inga Lind spurði hann, hvort Þorsteinn hefði einfaldlega ekki bara sótt um eins og allir hinir umsækjendurnir, var Þráinn nú alveg með það á hreinu, að hinir hefðu sótt um, en Þorsteinn hefði troðið sér!

Ég efa það ekki, að oft á tíðum getur það verið akkelisarhæll frekar en hitt, að vera afkvæmi svo umdeilds manns.... og umdeildra manna og kvenna yfirhöfuð. Það vill örugglega enginn láta ráða sig fyrir þá verðleika eina, að vera fæddur inn í ákveðna fjölskyldu en ekki fyrir sína eigin verðleika. Að sama skapi trúi ég því, að stundum gæti það jafnvel verið erfiðara fyrir þig að fá eftirsóttar embættisstöður, því enginn vill heldur láta hengja sig fyrir það í fjölmiðlum, að hafa ráðið óhæfan/óhæfari einstakling einungis vegna þess að honum bauð pólitísk- eða flokksbræðraleg skylda til þess. Það er ekki ólíklegt að þú sem afkvæmi, segjum hér Davíðs Oddssonar, þurfir jafnvel að sanna þig enn fremur en aðrir umsækjendur, svo ekki sé hægt að hanka ráðningamenn þína á neinu. Og já, ég veit að þarna var nefnd til þess að meta hæfni umsækjenda. En hver segir, að menn innan þessarar nefndar séu ekki andsnúnir og beinlínis á móti Davíð Oddssyni, og hafi þess vegna metið umsækjendur eins og þeir gerðu? Jafnvel dregið Þorstein eins mikið niður í sínu mati, og þeim var mögulega stætt á og hampað öðrum á hans kostnað? Það eru alltaf tvær hliðar á öllum málum og vissulega þessu líka.

Það skal tekið fram að ég þekki hvorki Davíð Oddsson né Þorstein son hans, fyrir utan örlítið samstarf (og mikla samkeppni) nemendafélaga Verzló og MR hér á árum áður. Ég veit ekki hvers konar maður Þorsteinn er í dag, en óska honum heilla í nýja starfinu sínu. Og mér finnst ágætt hjá honum, að blása svona á þennan róg um sjálfan sig og sína ráðningu, eins og hann hefur gert.

Varðandi Þráin, þá getur engum sem hefur lesið pistla hans og dagbækur, hafa dulist sú andúð sem hann hefur á Sjálfstæðisflokknum og öllu því sem sá flokkur stendur fyrir. Persónulega finnst mér hans skrif lýsa honum sem einstaklega bitrum manni út í allt kerfið. Bitrum, og jafnvel öfundsjúkum manni, sem kennir auðmönnum Íslands og Sjálfstæðisflokknum um allt sem miður gott er í þjóðfélaginu. Oftar en ekki fjallar hann um, hvað Jón Ásgeir nú eyddi Bónuspeningunum sínum í, eða hversu margir "skuldsettir" menn keyri um götur borgarinnar á sínum dýru lánsbílum með sín lánsfellihýsi í eftirdragi, og þar fram eftir götunum...... á meðan hann sjálfur og almúginn megi elda naglasúpu í matinn kvöld eftir kvöld.  

Persónulega er mér alveg sama í hvað Jón Ásgeir eyðir sínum pening, eða hverjir eigi fellihýsi og hvernig þeir borguðu fyrir það. Ég vil bara eiga nóg fyrir mig og mína og gleðst yfir þeim fáu stundum sem ég á meira en nóg.

Mér finnst það synd hvernig Þráinn skrifar, vegna þess að hann er góður penni og húmoristi og gæti skrifað svo mikið, mikið skemmtilegri pistla. Vonandi nenni ég að byrja að lesa þá aftur!

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband