Ég finn til í hjartanu....

Ég finn verulega til í hjartanu mínu. Á síðustu dögum hef ég frétt af þremur gömlum vinkonum sem allar eru í verulegum erfiðleikum í dag vegna atvinnuleysis þeirra og maka þeirra. Allar með fullt hús af börnum á grunnskólaaldri. Engin þeirra óráðsíukona og allar ágætlega menntaðar. Eins og allir aðrir í þjóðfélaginu, höfðu þær og makar þeirra sniðið sér stakk eftir vexti í íbúðar- og húsakaupum, gert áætlanir fram í tímann miðað við sína innkomu og nú er allt fallið til jarðar og hver dagur kvíðvænlegur.

Ég veit vel að þær og fjölskyldur þeirra eru langt frá því þær einu sem eiga í miklum erfiðleikum um þessar mundir. Ég veit líka að margar fjölskyldur áttu verulega erfitt jafnvel löngu áður en kreppan skall á. Fjölmargar fjölskyldur náðu aldrei inn í góðærið og hef ég jafnan talið mína litlu tveggja manna þar á meðal. Eftir að hafa yfirfarið málin, get ég þó vel séð að síðustu árin gátum við mæðginin leyft okkur ýmislegt sem örugglega var ekki á allra færi, þótt við næðum aldrei með tærnar að hælunum á þeim sem höfðu það virkilega gott og áttu fimmþúsundkalla á milli allra fingra dagsdaglega.

Við mæðginin höfum alltaf þurft að spá í hverja krónu, versla hagstætt, gera verðsamanburð og sleppa mörgu. Það var ekki alltaf til peningur fyrir klippingu og strípum þegar hárið kallaði á það, við pöntuðum ekki pizzur heim í lok mánaðarins, stundum höfðum við ekki efni á því að fara í bíó. Við eigum ekki flatskjá eða leðursófasett, ekki stóran jeppa, ekki Kitchen Aid mixara, ekki tvöfaldan amerískan ísskáp með vatns- og ísmolavél, engin fín málverk, ekki rúmteppi úr dýrum húsgagnabúðum eða fullt af fínum, ónotuðum fötum hangandi inni í skáp. Við eigum gamla eikarborðstofuborð foreldra minna sem þau fengu í brúðkaupsgjöf, reyndar með nýjum stólum, gömlu borðstofuskápar foreldra minna standa einnig stoltir í minni stofu í dag, eldhússtólarnir eru úr gamalli sambúð bróður míns, stofuborðið mitt keypti ég í verslun sambærilegri Hagkaupum á mínum námsárum í Danmörku. Ef við mæðginin leyfðum okkur lúxus í einhverri mynd þá blæddum við fyrir það í öðrum innkaupum. En við eyddum pening, svo sannarlega eyddum við pening en okkar peningur fór í annað. Og ég sé það núna að þótt ég hafi aldrei talið mig njóta góðærisins þá höfum við alveg eytt verulegum fjárhæðum í alls konar hluti sem líklega verða að teljast til góðæris, hluti og upplifanir sem kannski var ekki á allra færi að gera..... þótt margir hafi getað gert hvorutveggja.

Við höfum ferðast töluvert, átt mjög margar góðar upplifanir í útlöndum og spókað okkur bæði á sólarströndum og í stórborgum þar sem við höfum þrammað um gamlar byggingar og kirkjur, skoðað merka staði og borðað á veitingastað tvisvar á dag.... bæði tvö ein og í fylgd með Mr. K. og syni. Við höfum farið í nokkrar fjallgöngur um hálendi Íslands og fjölmargar útilegur víðsvegar um landið. Við höfum haldið dýrar grillveislur með vinum og fjölskyldu. Við höfum farið í fótboltaferðir, bæði með félagi einkasonarins og til að horfa á Liverpool spila. Við höfum líka lagt áherslu á að komast í leikhús a.m.k. einu sinni á ári og við höfum farið út að borða oftsinnis. Ekkert af þessu telur í veraldlegum eigum en það telur virkilega í stundarglasinu sem mælir góðar minningar og samverustundir. Og einhvernveginn yljar það betur akkúrat núna heldur en fínt leðursófasett og flatskjár. Því þótt stofusjónvarpið taki heilmikið pláss aftur fyrir sig, þá er fín mynd á því og það er mjög áhorfanlegt. Auk þess getum við tengt myndavélina okkar við það og horft á myndirnar okkar úr öllum okkar ferðum, fjallgöngum og útilegum. Og sófarnir okkar duga fyllilega þótt þeir séu nokkurra ára gamlir.

Ég tel mig heppna því ég held vinnunni minni. Vissulega finn ég fyrir samdrætti bæði vegna hækkandi afborgana á lánum, hækkandi matvöruverðs og því að yfirvinna á LSH hefur dregist verulega saman og það hefur hingað til verið yfirvinnan sem hefur haldið okkur hjúkrunarfræðingum á floti. En ég hef í það minnsta vinnu. Og ég er nógu heilbrigð til að komast til og frá vinnu. Ég get farið sjálf á fætur, þarf ekki aðstoðarfólk til að klæða mig og hjálpa mér með mínar daglegu athafnir. Sonur minn er heilbrigður og hraustur og ég á góða fjölskyldu. Ég veit að þetta má sín kannski ekki mikils ef þú átt ekki fyrir mat ofan í fólkið þitt og sjálfan þig, en þetta er samt þakkarvert og ég ætla að vera þakklát fyrir að vera svona heppin. Af einskærum vana til þess að pirra mig, lít ég inn í ísskápinn minn í kvöld og pirra mig á því að koma ekki gosflösku þar inn því hann er svo fullur. Auðvitað á ég að þakka fyrir að eiga fullan ísskáp af mat og hafa efni á því að kaupa gos.

Sumir hafa haft það betra en við síðustu árin og sumir verra. Ég ætla ekki að velta mér upp úr því, því ég er fullkomlega ánægð með okkar líf eins og það hefur verið. Okkur hefur raunverulega ekki skort neitt þótt ég hafi oft pirrað mig á því að geta ekki gert og keypt meira og alltof oft borið mig saman við þá sem meira höfðu..... en við höfum haft það gott og við höfum virkilega upplifað fullt. Það kreistir hjarta mitt að sjá fólk og fjölskyldur riða til falls, mörg þeirra höfðu það mikið betra en mín litla fjölskylda síðustu árin en það fær mig ekkert til að finna minna til með þeim. Við eigum öll að finna til samkenndar núna. Ef ég gæti á einhvern hátt hjálpað þeim sem standa illa núna um mundir þá myndi ég gera það með glöðu geði og það finnst mér að við eigum öll að gera. Það þarf ekki að vera í formi peninga því við getum hjálpað á margan annan hátt. Við getum boðið hvort öðru í kvöldmat, gefið notuðu fötin af börnunum okkar til þeirra sem eiga börn á líku reki, keyrt saman í vinnu, boðið barnapössun, deilt Mogganum eða hvað sem er. Og ef einhverntímann er þörf á því að við stöndum saman sem þjóðfélag og styðjum við hvort annað, þá er það núna.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Ragna Alexandersdóttir

Elsku Lilja mín lífið er stutt er minningin um lífið varir að eilífu.

Ég hef ekki heyrt nokkurn mann á dánarbeði tala um að hann hefði átt að vinna meira Ég hef oft upplifað að´´Eg hhhhefði átttt að vera meira með þeim sem ég elsakaaaaaaaaa.

Mundu bara að vera þú.

Anna Ragna Alexandersdóttir, 10.1.2009 kl. 23:09

2 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Núna þakkar maður fyrir það að hafa atvinnu.  Allt of margir hafa misst vinnuna sína.  Ég finn til með þessu fólki sem er að missa allt sitt.  Ein dóttir mín er búin að missa íbúðina sína en fékk leiguíbúð strax, með börnin sín þrjú.  Hún verður gerð gjaldþrota fljótlega, en hefur góða og trygga vinnu sem betur fer. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 11.1.2009 kl. 00:04

3 Smámynd: Róslín A. Valdemarsdóttir

Úbbs.... nú þarf ég að fara að hugsa - djöfuls frekja er ég greinilega!!

Þú ert góð kona Lilja!


Svona svo ég gleymi því ekki var amma að spyrja hvort þú værir enn í íþróttum. Hélt það hafi verið styttra síðan greinilega... vissi ekki að þú værir orðin svona "gömul"...

Róslín A. Valdemarsdóttir, 11.1.2009 kl. 00:44

4 Smámynd: Lilja G. Bolladóttir

Þetta er bara hræðilegt og ömurlegt ástand hvernig sem á það er litið, og hér sitja stjórnvöld SOFANDI yfir því að fjölskyldur og heimili eru í upplausn.

Anna Ragna: Ert þú að vinna með deyjandi fólki? Þá meina ég hvort þú ert að vinna í heilbr.geiranum eða öðru slíku? Ég hef margsinnis staðið við hlið deyjandi fólks og ég minnist þess heldur ekki að þau hafi haft áhyggjur af Bensinum sínum eða hlutabréfum..... frekar hvort þau hefðu gefið barnabörnunum nógu mikið af sjálfum sér og sínum tíma eða afkomendum yfirleitt.

Jóna: Ég veit ekki alveg hvað ég á að segja í sambandi við dóttur þína þar sem ég þekki ekkert til, en mér þykir bara ömurlegt að fólk skulu þurfa að missa heimili sín, sérstaklega þegar það eru börn í myndinni sem þarf að rífa upp úr sínum hverfum. Þetta er sjálfskaparhelvíti íslensku þjóðarinnar að miklu leyti (ekki okkar aumingjunum ;-) ))) En þetta á ekki að bitna á börnunum, það er algjörlega mín skoðun. Þau eiga rétt á að lifa eins óbreyttu lífi og frekast er unnt, og umfram allt í sínum hverfum þar sem þau halda í sína vini og stunda sama skólann. Það á ríkisstjórnin að leggja áherslu á og standa vörð um ..... og þau eru einfaldlega ekki að standa sig í stykkinu!!!!

Lilja G. Bolladóttir, 11.1.2009 kl. 00:48

5 Smámynd: Anna Ragna Alexandersdóttir

Já Lilja ég vinn við dauðans dyr og vildi bara láta vita að vinnan er ekki það sem deyandi fólk er að hugsa um. Get a grip on you self.

Anna Ragna Alexandersdóttir, 11.1.2009 kl. 00:58

6 Smámynd: Lilja G. Bolladóttir

Okey, Anna Ragna: ert þú að vinna á líknardeildinni eða í einhverju svipuðu?? Eða ertu í útfararþjónustu.... eða hvað. Tell me

Lilja G. Bolladóttir, 11.1.2009 kl. 01:16

7 Smámynd: Anna Ragna Alexandersdóttir

Eftir gengin ævispor ótal myndir geymast

Anna Ragna Alexandersdóttir, 11.1.2009 kl. 01:21

8 Smámynd: Lilja G. Bolladóttir

Úff, fyrirgefðu framhleypnina, kæra Anna Ragna..... ég tók allt mið af því að þú værir að vinna með deyjandi, ekki að þú værir að tala af persónulegri reynslu..... ég bið þig innilega afsökunar

Lilja G. Bolladóttir, 11.1.2009 kl. 01:28

9 Smámynd: Anna Ragna Alexandersdóttir

Elsku stelpan mín það er ekkert að fyrirgefa þannig er nú bara lífið.

En það er eiðvað sem segir mér að þú ert ekki sátt í dag. Mundu elsku Lilja mín að það ert þú sem ert stjórnandinn og það getur oft verið erfitt.

Anna Ragna Alexandersdóttir, 11.1.2009 kl. 01:37

10 Smámynd: Róslín A. Valdemarsdóttir

.. gleymdi að segja þér það að ég get málað fyrir þig...., en hvort það tækist vel veit ég ekki!

Róslín A. Valdemarsdóttir, 11.1.2009 kl. 01:40

11 Smámynd: Lilja G. Bolladóttir

 ójá, auðvitað er maður ekki alltaf sáttur, Anna Ragna, og verður líklegast aldrei alveg sama hvernig spil maður hefur á hendi. En ég er nógu ánægð, er ekki bara fínt að segja það? Ekkert okkar er sátt,  en ég er alveg nógu sátt með minn status í lífinu og vona að þú sért það líka

Lilja G. Bolladóttir, 11.1.2009 kl. 01:54

12 Smámynd: Anna Ragna Alexandersdóttir

Hvernig hefur þú það ?

Anna Ragna Alexandersdóttir, 11.1.2009 kl. 01:57

13 Smámynd: Lilja G. Bolladóttir

húffpúff, ég hef það í rauninni ágætt, eins og ég sagði þá á ég frábæran son, ég á góðan mann til að halla mér að, ég á yndislega fjölskyldu, ég hef vinnu, bý í "eigin" íbúð og allt gengur sinn vanagang...... en ég er mjög uggandi og svartsýn, hef heyrt um svo marga sem klára sig ekki, bæði nákomna og aðra og eins og ég segi; hjarta mínu blæðir fyrir þetta fólk..... (ég er náttla algjör grenjuskjóða, það geta allir vitnað um sem þekkja mig, en stundum get ég bara farið að gráta yfir þessu ástandi))).......

En, hvernig hefur þú það, mín kæra??

Lilja G. Bolladóttir, 11.1.2009 kl. 02:11

14 Smámynd: Róslín A. Valdemarsdóttir

... ég er ekkert skemmtileg greinilega! hmmpfff...

Róslín A. Valdemarsdóttir, 11.1.2009 kl. 02:15

15 Smámynd: Lilja G. Bolladóttir

 já farðu í fýlu, Róslin .....

Lilja G. Bolladóttir, 11.1.2009 kl. 02:29

16 Smámynd: Róslín A. Valdemarsdóttir

Ég fer ekkert í fýlu, ég kann ekki að fara í fýlu út í ættingja...
Á ég ekki bara að koma í heimsókn?, rölti bara yfir!

Róslín A. Valdemarsdóttir, 11.1.2009 kl. 02:36

17 Smámynd: Kristín Bjarnadóttir

Elsku Lilja mín þetta er geysilega góð grein, mér finnst gosflöskudæmið æðislegt!

bestu kveðjur!

Kristín Bjarnadóttir, 11.1.2009 kl. 11:40

18 Smámynd: Sigrún Óskars

góður pistill hjá þér, þetta er sorglegt þegar fólk hefur ekki lengur vinnu. Ég er eins og þú heppin að hafa vinnu og fasta innkomu. 

p.s. sá myndir hjá þér á "facebook" og þetta er hin sama Sólveig, sem vann með mér fyrir hundrað (og Rabbi sjúkraflutningsmaður úr Hafnarfirði - ekki satt?)

Sigrún Óskars, 11.1.2009 kl. 11:50

19 Smámynd: Halla Rut

Góð grein hjá þér.

Til hamingju með að eiga svona yndislegan son og fjölskyldu.

Annast finnst mér of lítið gert úr mikilvægi þess að hafa góða vinnu hér að ofan. Þótt fólk kannski finnist það ekki aðalmálið þegar það er að deyja þá er það grunnur þess að geta átt gott líf þ.e. á einhverjum eðlilegum mælikvarða.

Halla Rut , 11.1.2009 kl. 13:48

20 Smámynd: Anna Ragna Alexandersdóttir

Elsku Lilja mín ég hef það gott og er þakklát fyrir það að eiga góða fjölskyldu góðan mann og tvö dásamleg börn og góðan tengdason, ég eignaðist mitt fyrsta barnabarn síðastiðið ár. Ég á gott hús og gott fyrirtæki. Ég mála í frístundum. Ég get ekki kvartað en mér var gefið í vöggugjöf sterka réttlætiskennd og ég á líka stutt í grátinn og það sem hryggir mig í dag er hvað Íslenska þjóðin hefur verið hlunnfarinn.

Átt þú góðan dag Lilja mín.

Anna Ragna Alexandersdóttir, 11.1.2009 kl. 14:15

21 Smámynd: Helga Linnet

Þessi kreppa mun draga fleiri niður í svaðið en maður getur órað fyrir. Ég er svo óheppin að vera atvinnulaus en fæ verkefni við og við en við hjónin höfum ekki fjárfest í rándýrri eign. Við byggðum einbýlishús árið 2000 og höfum byggt það eftir efnum sem þýðir að við erum ekki með há lán á okkur. Vissulega finnum við alveg fyrir hvað lánið íþyngja okkur og ég er í sömu sporunum og þú með að við leyfðum okkur ýmsan "glaðning" eins og að fara erlendis og út að borða en aldrei á krít...allt saman ef við höfðum efni á því.

Ef minn maður heldur vinnunni þá náum við að halda heimilinu en ef hann missir vinnuna.....þá förum við alveg niður í svaðið. Ég vil ekki hugsa um það núna. Núna lifi ég fyrir það að njóta náttúrunnar í sinni mynd og skottast oftar en ekki út með myndavélina með í minn daglega göngutúr.

En eins og þú, þá er ég svo heppin að eiga góða fjölskyldu og það sem við lifum fyrir í dag er að faðma hvort annað og njóta augnabliksins.

Matarkarfan hefur hækkað um 40-60% hjá okkur og það sem ég er fúlust yfir er að 1.5L af mjólk kostar 150kr en 2L gos kostar 130kr.... Mér finnst allt í lagi ef öl og sælgæti yrði hækkað um 500% og þá frekar haldið hollustunni í lægri álagningu, þá fyrst getur maður sagt að gos og sælgæti sé munaðarvara!

Lilja, segðu mér hvaða staður, landshluti, gata eða hús er þér kær. Aldrei að vita nema maður fari með myndavélina á staðinn í atvinnuleysinu.

Helga Linnet, 11.1.2009 kl. 21:25

22 Smámynd: Guðrún Þorleifs

Alltaf hittir þú á góða punkta í pistlum þínum.

Góðar minningar, góð heilsa, góðar samvistir við sína, eru verðmæti sem aldrei verða metin til fjár eða greiddur skattur af. En verðmæti sem við þurfum að muna eftir að njóta.

Kær kveðja frá mér, sem er að spá í að fara að sofa aftur 

Besti tíminn til að msnast við örverðið í Ammríkuhreppi

Guðrún Þorleifs, 12.1.2009 kl. 03:57

23 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Mér finnst viðhorf þitt frábært.

Þú hefur líka lifað fyrir launin þín og það situr eftir í minningunum og mikið held ég að sonurinn sé og verði þér þakklátur.

Takk fyrir mig.

Jenný Anna Baldursdóttir, 12.1.2009 kl. 14:46

24 identicon

Hæ elsku Liljan mín og velkomin aftur á bloggið. Alltaf svo gott að lesa pælingarnar þínar. Tek undir þarna með þér í flestu ef ekki öllu.

Ég læt mér sko líka nægja gömul húsgögn núna og hef nýtt mér mikið gamla búslóð ömmu minnar, sem og fengið lánað hjá vinum. Flatskjár verður ekki á dagskrá næstu árin held ég. Ég gat nú samt ekki annað en tíst upphátt þegar ég las "úr gamallri sambúð bróður míns", en það fékk mann nú til að hugsa hvað það er víst langt síðan maður byrjaði í þessu basli. Og en er maður að baslast. *Dæs*.

En innilega til hamingju með árangurinn í reykleysinu. Ég er svo stollt af þér. Hver dagur er sigur, og ég vona að þú sért dugleg að hrósa þér.

Knús og kossar, Lovya.

Gunna (IP-tala skráð) 13.1.2009 kl. 10:49

25 Smámynd: Anna Ragna Alexandersdóttir

Anna Ragna Alexandersdóttir, 13.1.2009 kl. 22:58

26 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Fínn pistill. Ég hef aldrei verið í lífsgæðakapphlaupinu. Alltaf þurft að halda mig á jörðinni.  Lagt meiri áherslu á að gera eitthvað skemmtilegt heldur en að fjárfesta í innbúi. Enda margt orðið slitið og ljótt. En við mæðgur höfum farið árlega til útlanda.  Þetta hefur alltaf verið spurning um val. Ég vil frekar eiga fyrir rauðvíni en flottum græjum! Nú get ég glaðst yfir að hafa ekki tapað stórum fjárhæðum í hlutabréfum! En staðan er bara skelfileg og ég sé engar aðgerðir stjórnvalda til að verja heimilin.

Hólmdís Hjartardóttir, 14.1.2009 kl. 10:53

27 identicon

Sæl Lilja.

Mjög góður pistill og þarfur þessa dgana og líka alltaf.

Já það er ekki gott að vita af fólki sem er í slæmri stöðu fjárhagslega....

það er ömurlegt að geta ekki hjálpað . Það þekki ég.

En símtal við viðkomandi getur breytt svartsýni í bjartsýni.

Og að muna eftir Brosinu þegar þið hittist.

Hlýlegu handtaki

og faðmlag frá hjartanu

allt er þetta vel þegið hjá fólki í svona aðstæðum

og umfram aldrei að gefast upp á því

að uppörva viðkomandi hversu slæmt sem ástandið er.

þú ert rík og ég get samgleðst þér.

Ekkert er betra en að eiga samheldna fjölskyldu,hvort hún er lítil eða stór.

Kær kveðja til ykkar.

Þórarinn Þ Gíslason (IP-tala skráð) 18.1.2009 kl. 03:32

28 Smámynd: Hólmgeir Karlsson

Rakst hér inn fyrir tilviljun af bloggi sameiginlegs bloggvinar. Góður pistill hjá þér, sem var til þess að ég fór að glugga í fleiri greinar hjá þér. Langar að hrósa þér fyrir greinina "þjóð í vanda" sem er einstakur og vel hugsaður pistill.

Bestu kveðjur

Hólmgeir Karlsson, 19.1.2009 kl. 13:14

29 Smámynd: Lilja G. Bolladóttir

Fyrirgefið mér, að ég er svona stopull bloggari. Mér þykir vænt um kommentin frá ykkur öllum og takk fyrir þau

Lilja G. Bolladóttir, 22.1.2009 kl. 02:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband