Færsluflokkur: Dægurmál

Landspítalinn - alvarlega á villigötum..... einu sinni enn......

Alveg er það eftir stjórn Landspítalans, (LSH), að ætla að blóðmjólka enn eina starfsstéttina á spítalanum. Núna sem sagt læknaritara. Ég man ekki hvað mörg læknabréf eru enn óskrifuð á LSH, skv. fréttum Stöðvar 2 í kvöld, þau hlaupa á þúsundum - og að sjálfsögðu er ætlast til að læknaritarar geri þetta í yfirvinnu, án þess að fá yfirvinnu borgaða! Auk þess sem þeim er hótað, að spítalinn muni bjóða þessa starfsemi út til einkafyrirtækja..... og þetta hljómar einhvernveginn þannig, að ef þið gerið þetta ekki, þá munið þið missa vinnuna. Þetta er ekki sagt svona, en svona hljómar það. Og að sjálfsögðu eru læknaritarar reiðir, en það hafa svo margar aðrar stéttir verið á undan þeim. Þær stéttir hafa einungis í raun verið kúgaðar af því, að vilji þær vinna í "akut-bransanum", þá er LSH eini vinnustaðurinn sem þeim býðst. Og það er akkeri Landspítalans, það er það eina sem þeir hafa að bjóða og oft það eina sem heldur fólki þarna áfram í vinnu.

Þessi krafa spítalans er í raun algjörlega í stíl við allt annað sem stjórn LSH ætlast til af starfsfólki sínu. Núna skal ég þó passa mig á því að alhæfa ekki um aðrar stéttir, en þær sem ég þekki mjög vel til, og því ætla ég sérstaklega taka fyrir stétt hjúkrunarfræðinga - þá stétt sem ég tilheyri.

Það skal tekið fram, að eftir nokkurra ára starf á spítalanum var mér stórlega misboðið af starfsmannastefnu LSH og lét ég mig hverfa á aðrar slóðir, en sl. 2 ár hef ég unnið fyrir einkafyrirtæki sem hefur leigt mig (og fleiri hjúkrunarfræðinga) inn á spítalann. Ég hef á vegum þess fyrirtækis unnið á fjölmörgum deildum spítalans og telst mér svo til að ég hafi því frá útskrift minni unnið á ca. 13-15 deildum LSH, og tel ég því að ég þekki nokkuð vel til á mörgum sviðum og deildum þessarar stofnunar, auk þess sem ég hef heyrt skoðanir tuga hjúkrunarfræðinga........ og lækna og sjúkraliða, en það er ekki mitt að fjalla um þeirra mál hér.

Landspítalinn hefur um árabil, leyfi ég mér að fullyrða, mergsogið hvern einasta hjúkrunarfræðing sem hefur unnið á spítalanum. Þeir hafa haft það að vopni, að geri hjúkrunarfræðingar ekki eins og yfirstjórn fyrirskipar og/eða ætlast til, þá líði sjúklingarnir fyrir það. Og það myndu þeir að sjálfsögðu gera í stórum stíl, myndu hjúkrunarfræðingar grípa til aðgerða - og þess vegna viðgengst þessi ótrúlega pískun á manneskjum í þessu tiltekna starfi hjá hinu opinbera.

Ef þú ert hjúkrunarfræðingur á Landspítalanum; á skurðlækningasviði, endurhæfingasviði, svæfinga- og gjörgæslusviði, og sérstaklega á lyflækningasviðum LSH, þar sem ástandið er hvað alverst, (nú skal ég ekki fjölyrða um geð-, - barna-, kvennasvið eða önnur svið en þau sem ég nefni), þá færð þú sjaldan frið......ekki í vinnunni og ekki í einkalífinu!! Stöðugt er herjað á þig að taka aukavaktir, það er hringt í þig á öllum tímum sólarhringsins til að biðja þig að mæta inn, mæta fyrr, mæta seinna og vera lengur, breyta vöktum eða vinna tvöfalt. Þú ert jafnvel skikkaður til að mæta í vinnu í miðju sumarfríi, (það er a.m.k. horft öðruvísi á þig ef þú, einn af öllum hinum, neitar), jafnvel..... og haha taktu nú eftir; jafnvel þótt fyrir aðeins 5 árum hafi LSH bannað fólki, sem vildi vinna sér inn aukapening í sumarfríinu, að vinna, því þá þurfti spítalinn að borga þér aukalega og þú áttir að fá auka sumarfrísdag út á það, en núna ertu beinlínis skikkaður til þess. OG núna allt í einu er spítalinn ekki skuldbundinn til að borga þér þessar aukagreiðslur sem hann var áður skuldbundinn til. Reglur spítalans fara nefninlega alltaf eftir því sem hentar honum best hverju sinni. Þeir hjúkrunarfræðingar sem halda fast í rétt sinn gagnvart spítalanum eru einfaldlega stimplaðir af mörgum sviðstjórum og allavega af yfirstjórninni, (ef þeim einhverntímann berst það til eyrna í þessum óskiljanlega langa stjórnunarstiga LSH), sem......UPPREISNARSEGGIR OG ÓSAMSTARFSFÚSIR HJÚKRUNARFRÆÐINGAR!  Þér er stöðugt stillt upp við vegg og alltaf eru þau vopn notuð, að ef þú gerir ekki það sem um er beðið, þá líði sjúklingar og samstarfsfólk fyrir þitt nennuleysi. Og hver vill að samstarfsfólk sitt þurfi að hlaupa enn hraðar en þau þurfa nú þegar, vegna þín. Og ekki viltu að sjúklingarnir líði nokkuð, vegna þín. Alltaf ertu hankaður á samviskunni, og enn og aftur, það er eitt af fáu vopnum Landspítalans, og jafnvel eina vopn hans, gegn þér.

Það er löngu búið að skilgreina, hve mörgum sjúklingum, einn hjúkrunarfræðingur getur borið ábyrgð á, á hverri deild....... og jafnvel gæti sá fjöldi sjúklinga hafa minnkað ef eitthvað er, í takt við stöðugar framfarir í læknavísindunum, flóknari lyfjameðferðir, eldri sjúklinga og ótímabærar útskriftir á almennar deildir af gjörgæsludeildum, (sem er í takt við það, að þungum sjúklingum gjörgæsludeildanna fjölgar líka og starfsfólk þeirra, sem og vinnuaðstaða, líka er í lágmarki). Fólki er bjargað núna, sem ekki hefði lifað áður, þyngd hjúkrunar eykst því líka umtalsvert á endurhæfingasviðum spítalans, þar sem þeir sjúklingar koma til endurhæfingar. En stöðugt er litið fram hjá þeim öryggismörkum sem sett eru.

Sem dæmi: Margar deidir hafa skilgreint sína hjúkrunarþyngd þannig, að tvo hjúkrunarfræðinga þurfi á næturvakt. Samt sem áður gerist það margoft, að þú ert eini hjúkrunarfræðingurinn á þeirri vakt, þá jafnvel með 25 sjúklinga eða fleiri á þinni ábyrgð. Og það er langt frá því að allir sofi á nóttunni á sjúkrahúsi, þótt þeir geri það alla jafna annars staðar. Auk þess er fólk á sjúkrahúsi veikt, og þarf því oft stöðuga umönnun. Það sér hver maður, að ekki má mikið út af bregða til þess að þú sért komin langt fram úr öryggismörkum. Ef þú lendir í minniháttar bráðatilviki inni á einni sjúkrastofu, ert þú ekki til taks inni á þeirri næstu - hver vill lenda í því að þurfa að bíða eftir aðstoð þegar þú heldur að þín stund sé að renna upp???

Annað dæmi: Margar deildir hafa nú lokað nokkrum rúmstæðum vegna skorts á hjúkrunarfræðingum (og stundum sjúkraliðum). Öllum spítalanum á að vera ljóst, að sú tiltekna deild tekur aðeins t.d. 17 sjúklinga (e.t.v. í stað 23). En þessa tölu er bara valtað yfir, enginn tekur mark á henni. Hún er bara formlega sett upp, það getur enginn fylgt þessarri tölu. Og það þýðir ekkert fyrir þig að vera vakstjóri á vakt og ætla að neita bráðamóttöku eða slysadeild um innlögn, vegna þess að þá á LSH annað vopn í hinni hendinni, nefninlega svokallaða innlagnarstjóra. Og ef að innlagnarstjóri segir að þú, og þín deild, verðið að taka við þessum sjúklingi, þá þýðir lítið að fara að tala um einhverjar fjöldatakmarkanir. Skítt með einhver öryggismörk!, sem nota bene eru hugsuð sjúklingnum til góða en ekki til að spara hjúkrunarfræðingnum vinnu!

Það skal tekið fram, að alls ekki skal sakast við innlagnarstjóra eða slysa- og bráðadeildir. Við erum í öll í vinnu hjá sama apparatinu. Það er augljóst öllum, að slysa- og bráðadeildirnar þurfa að losna við sjúklingana til að geta tekið við nýjum, og innlagnarstjóri er aðeins að reyna að finna sem farsælasta lausn á öllum málum. En það breytir því ekki, að þá liggja langtum fleiri sjúklingar á mörgum deildum, en starfandi hjúkrunarfræðingar viðkomandi deildar geta ráðið við. En svona er það á Landspítalanum: orð innlagnastjóra á vakt skulu standa, alveg sama hvað þú segir eða hversu þunga sjúklinga þú hefur á þinni ábyrgð.

Enn eitt dæmið: Ég hef (oftar en einu sinni eða tvisvar) mætt á kvöldvakt, þar sem ég hef á minni ábyrgð 13-14 sjúklinga. Það er ætlast til þess að þú takir til lyf fyrir tvær lyfjagjafir fyrir alla þessa sjúklinga, (því flestir fá lyf bæði með kvöldmatnum og svo aftur fyrir svefninn), - í mörgum tilfellum þarf að blanda lyfin og gefa þau í æð, annaðhvort í sprautuformi eða innrennsli í poka (sem þá þarf að taka niður aftur), i sumum tilfellum þarf að mylja þau og leysa upp og gefa í gegnum slöngu inn í maga og enn fleiri fá lyf í öðruvísi sprautuformi, t.d. í húðina eða í vöðva. Það er ætlast til að þú talir við alla sjúklingana þína og gefir þeim smá af þínum tíma, upplýsir aðstandendur bæði á staðnum og í gegnum símann, jafnvel takir á reiðum og ósáttum aðstandendum, og aðstandendum í sorg og krísu...... þú þarft að skipta á sárum, soga slím úr öndunarvegi sjúklinga, taka þátt í líkamlegri aðhlynningu og umönnun sjúklinganna, sem og andlegri hjúkrun á þeim öllum, þú ert að sinna meira veikum einstaklingum (og allir hjúkrunarfræðingar vita, að þarf ekki nema einn mikið veikan einstakling, til að allt planið riðlist), þú verður að grípa inn í skyndilegar blæðingar eða annað í þeim stíl, sinna bráðum uppákomum, hafa samskipti við vakthafandi lækna vegna bráðra uppákoma..... og mjög oft lendir þú líka í því að einn af sjúklingunum þínum deyr, annaðhvort brátt eða fyrirséð, en hvortveggja krefst þess að líkið sé þvegið og búið um það, og mikillar umhyggju fyrir aðstandendur sem og nærveru fyrir þá - ...... auk þess sem þú átt að skrifa skýrslu um hvern einasta sjúkling..... og gefa munnlega skýrslu til næstu vaktar. ........og svo undra sjúklingar og aðstandendur sig stundum á því, að hjúkrunarfræðingurinn sést sjaldan, segja að hjúkrunarfræðingar í dag séu "horfnir" frá rúmum sjúklinganna og til skriffinnsku!! Það getur kannski verið eitthvað til í því, vegna þess að með tilkomu ýmilsegrar annarrar þjónustu, eins og öflugri heimaþjónustu, veitingu á ýmsum hjálpartækjum, aðstoð ýmissra annarra eins og félagsráðgjafa, presta, sálfræðinga, næringarráðgjafa, iðjuþjálfa og sjúkraþjálfara verður ósjálfrátt meiri þörf fyrir skriffinnsku, að sjálfsögðu. Ekkert af þessu "startast" sjálfkrafa, það er hjúkrunarfræðingurinn sem hefur milligöngu um alla þessa liði. Og við erum ekki alltaf bara að "slóra" eða "kjafta" þótt við séum inni á skrifstofunni. Stór hluti af minum vinnutíma fer fram í símanum við hina ýmsu aðila.

Það er skammarlegt að segja frá því, en á svona vöktum eins og ég lýsti áður, þá hefur oft komið fyrir að ég hrósa happi yfir því, að sjúklingurinn sé "á klósettinu" eða "í símanum", þegar ég kem inn með lyfin...... því þá þarf ég ekki að tefjast við það að tala við hann/hana! Þegar þú berð ábyrgð á svona mörgum sjúklingum, og berð þessar margar skyldur á herðum á einni átta tíma vakt, þá er það ekki óeðlilegt að fara heim, og hafa ekki einu sinni séð framan í kannski einn til tvo af þínum sjúklingum...... ekki af því að þú hafðir ekki áhuga á því, heldur af því að þú hafðir ekki tíma til að sinna þeim, svo eins gott að þeir urðu ekki alvarlega veikir á vaktinni, því þá hefði maður þurft að velja: Hvor er meira veikur?? Og vel að merkja, það er ekki gaman að yfirgefa vinnu sína aftur og aftur með þá tilfinningu í maganum, að þú hafir ekki sinnt þinni vinnu nógu vel. En ef þú ættir að ná því, þá kemstu aldrei heim á þínum tíma. Og mjög algengt er, að hjúkrunarfræðingur sé á vakt til miðnættis og eigi að mæta aftur á vakt kl. 8 morguninn eftir, þannig að það gefur ekki mikið svigrúm fyrir yfirvinnu. Þótt þú svo gjarnan vildir klára þína vinnu þannig að þú værir sáttur við hana - þú nærð því eiginlega aldrei!

Eða hvað? Er það það sem yfirstjórn LSH ætlast til..... að hjúkrunarfræðingar velji hver sé mest veikastur á vaktinni og þar af leiðandi mest þess virði að fá tíma hjúkrunarfræðingsins? Maður þarf ekki að vera bráðveikur til þess að þurfa hjúkrunarfræðinginn. Sumir eru nýgreindir með krabbamein, kannski krabbamein í ristli eða lungum eða brjósti, og þeir eru ekki bráðveikir akkúrat við greiningu en þurfa kannski mikið á spjalli við hjúkrunarfræðinginn að halda. Þeir eru hræddir, óvissir, þurfa nærveru, útskýringar og leiðbeiningar, aðstandendur þurfa líka nærveru og útskýringar..... en ekki endilega á sama tíma og sjúklingurinn, þannig að þú getur ekki alltaf slegið tvær flugur í einu höggi.  En stundum þarf maður að labba út frá svona sjúklingum og halda sínu "kalda" andliti, til þess að sinna öðru....... hver hefur mestu þörfina? Það er ekki gaman að þurfa að yfirgefa sjúkling, sem kallar á þig með öllu sínu andliti og líkamstjáningu en segir ekki neitt, bara af því að þú þarft að skipta á sári hjá öðrum eða gefa sýklalyf í æð. Enda hafa margir sjúklinar sagt, að versta sjúkdómstímabil þeirra hafi verið, tímabilið sem þeir greindust. Þar fengu þeir verstu þjónustuna og verstu hjúkrunina. Sem er ekki óeðlilegt miðað við stærðr deildanna sem fólk greinist yfirleitt á og svo stærðir krabbameinsdeildanna.

Hjúkrunarfræðingum á LSH er gert að sinna öllu sem kemur upp á, það gildir einu hversu þunga sjúklinga þú hefur nú þegar á þinni könnu, þú skalt þá bara hlaupa hraðar, tala hraðar, sleppa því að borða og/eða pissa, ekki svara símtölum frá börnunum þínum og þú kemst alls ekki í neitt eins og að hringja í bankann þinn..... eða að komast í bankann (dream on), eða jarðaför (dream on), eða sérstaka viðburði (dream ennþá meira)........ þá skaltu bara skipta vakt og ef þú getur það ekki, þá sorry. Eftir alla þína yfirvinnu, sveigjanleika og yfirnáttúrulegt umburðarlyndi gagnvart vinnuveitanda þínum, er þér ekkert veitt til baka. EKKERT!

Og svo undrast yfirstjórn Landspítalans, að þeir geti ekki mannað deildirnar. Þeir láta eins og þetta sé algjörlega nýtt vandamál sem aðeins leit dagsins ljós i fyrra eða hitteð fyrra. Það sanna er, að Landspítalinn hefur gjörsamlega hunsað öll þau aðvörunarmerki sem hann hefur fengið í gegnum árin. Hann hefur ekki hlustað á starfsfólkið sitt, ekki umbunað því, ekki þakkað því (ekki einu sinni sent því jólakort, hvað þá jólagjöf Errm), aldrei verðlaunað fólkið sitt fyrir eitt eða neitt. Þeim er alltaf bara gert að hlaupa hraðar, vinna meira, sinna fleirum, pissa minna........ en alltaf að vera jafn effektivt Á SÖMU SKÍTALAUNUNUM. En Spítalinn gleymir aldrei að skamma þau eða áminna fyrir minna vel gerð störf. 

Mér finnst ágætt að stjórnendur Landspítalans séu nú við það að drukkna í þeim drullupytti, sem þeir eru búnir að vera svo duglegir við að moka sig ofan í síðustu árin! Ojá, það er ekki eins og þeir hafi aldrei verið aðvaraðir. En hvað segir maður um opinbera starfsmenn, það er eiginlega ógerlegt að losna við þá úr starfi....... svo við eigum greinilega bjarta tíma framundan.....


Skyldi maður lenda á bannlista í Borgarleikhúsinu?

Ekki veit ég af hverju ég er allt í einu byrjuð að fá DV sent á mánudögum - ekki bað ég um það, svo mikið er víst, en það hefur nú í nokkrar vikur komið vel innpakkað í póstkassann minn í vikubyrjun. Yfirleitt les ég það ekki en strákurinn opnar það alltaf, því það er umsögn um enska boltann í miðjunni. Í dag blaðaði ég hins vegar lauslega í gegnum það og sá leikhúsgagnrýni hins "alræmda" Jóns Viðars Jónssonar..... sá hinn sami og var nýlega tekinn af boðslista Borgarleikhússins á frumsýningar, af því að leikhússtjóranum líkaði ekki orðalag hans í gagnrýni einni, eins fáránlegt og það nú er!! Það er greinilega bannað að hafa neikvæða skoðun á stykkjum Borgarleikhússins, eða í það minnsta að birta hana. Jafnvel þótt þú sért ráðinn til að hafa skoðun og boðinn til þess að birta þína skoðun..... ja, þetta er greinilega erfiður línudans.  

Í dag var Jón Viðar að rýna í uppsetninguna á Jesú Kristi Súperstjörnu og ég áttaði mig eiginlega ekki alveg á því, hvað honum fannst um sýninguna í heild sinni. Við að lesa rýnina fékk ég á tilfinninguna, að honum hefði fundist hún í verri kantinum. Krummi með of blíða rödd fyrir verkið og vantaði kraftinn, kórinn ráfaði um í reiðileysi á sviðinu, textinn skildist ekki því hann var öskraður í staðinn fyrir að vera sunginn og leikstjórnin bar vott um reynsluleysi. Hann endar samt á að gefa sýningunni þrjár og hálfa stjörnu af fimm, sem er nú bara nokkuð gott, er það ekki? Reyndar hrósaði hann sviðsmyndinni mikið, en hún getur nú varla verið þriggja og hálfrar stjörnu virði ef flest annað er miður gott? 

Ég er að fara í Borgarleikhúsið að sjá sýninguna nk. laugadagskvöld og ég verð að segja, að nú er ég virkilega spennt. Það eru greinilega mjög skiptar skoðanir á þessarri uppfærslu. Ég er einlægur aðdáandi Jesus Christ Superstar og hef séð verkið í tveimur uppfærslum - og þar bar uppsetning Verzlunarskólans árið 1994 af (held að ártalið sé rétt), auk þess sem ég hef horft á bíómyndina ca. 140 sinnum. Ég var reyndar útskrifuð úr Verzló þegar skólinn setti sýninguna upp á nemendamóti sínu, en sem J.C.S.-aðdáandi, og sem fyrrum nemandi, gat ég ekki látið mig vanta á uppsetninguna. Og verð ég að segja, að sú sýning er ein sú besta sem ég hef nokkurn tímann séð, að mörgum öðrum ólöstuðum. Þar var magnaður tónlistarflutningur, frábærir dansarar og danshöfundar, og þótt þarna væru ekki atvinnumenn á ferð var það ekki að sjá. Reyndar, eins og svo oft fyrr og síðar í nemendamótsuppsetningum Verzló, voru þarna í hópnum einstalingar sem í dag eru þekktir söngvarar og danshöfundar eins og Valgerður Guðnadóttir, Selma Björnsdóttir og Nanna Jónsdóttir.

En nú verður spennandi að sjá hvort rokkóperan sem nú er til sýningar, standist mínar háu væntingar.... og hvort hún nái að velta Verzló úr fyrsta sætinu á mínum lista. Ég hlakka til að sjá Júdas því hann er í svo dramatísku hlutverki og ég hlakka til að heyra söng Pílatusar og Heródesar.......  það er, ef leikhússtjórinn nú ekki bannar mér að mæta í leikhúsið, fyrir þá sök að hafa aðra skoðun en hann í gagnrýnendamálinu......Cool 


Prestinum heilsað með beruðum afturendanum!!

Ég fór í svo skemmtilegt brúðkaup sl. laugadagskvöld, ég held barasta að þetta sé eitt það skemmtilegasta brúðkaup sem ég hef verið viðstödd - verður flokkað sem brúðkaup aldarinnar þar til annað sannast..... eða þar til ég giftist einhvern tímann sjálf.

Það voru vinir mínir Helga og Einar sem gengu í það heilaga, Helga var svo falleg brúður og allt tókst eins og best var á kosið, líka ræðan sem ég hélt fyrir þau hjón. Reyndar lenti ég í smá óhappi, sem gæti varla hafa hent aðra manneskju og kom engum sem til mín þekktu í brúðkaupinu, hið minnsta á óvart. Þegar ég var að renna upp kjólnum mínum áður en ég fór af stað, stóð rennilásinn eitthvað aðeins á sér. Það er ekki auðvelt að vera single kona og þurfa að renna upp þröngum kjól á bakinu, svo ég þurfti að beita ýmsum hnykkingum og skrekkjum til að ná rennilásnum langleiðina upp...... það má vera að ég hafi rykkt eitthvað aðeins of fast í lásinn í hamaganginum. Bróðir minn kom til að keyra mig í kirkjuna og kláraði að renna kjólnum alveg upp fyrir mig. Hann benti mér á að það væri smá glufa í rennilásnum. Ég hélt nú að það gerði ekki mikið til, þar sem ég ætlaði að vera í svokölluðum ermum yfir kjólnum, svo smá glufa í rennilásnum myndi ekki sjást neitt. Eitthvað hefur glufan stækkað í bílnum á leiðinni, því þegar ég fór úr kápunni í kirkjunni, benti presturinn mér vinsamlega á, að ég væri eiginlega bara opin niður á rófubein Frown Þetta var nú ekki gæfuleg byrjun á kvöldinu og ekki beinlínis kurteisisleg kveðja til prestsins, að snúa svona beruðum afturendanum að henni, en þetta bjargaðist með aðstoð einnar vinkonunnar á staðnum. Hún var með svarta fínlega slæðu, með silfurþráðum í og þessa slæðu var hægt að binda um mig miðja og hún féll svona ágætlega inn í neðri hluta kjólsins að ég gat hreyft mig frjálslega um salinn og snúið mér á alla kanta á dansgólfinu. Smile

Reyndar stóð einn maður öðrum fremur á dansgólfinu þetta kvöld og það var faðir brúðgumans, sem er á níræðisaldri. Það var nú ekki að sjá á honum, þar sem hann sveiflaði dömunum um dansgólfið og var gersamlega óþreytandi. Ég tók einn góðan snúning með honum, snúning sem entist í gegnum rúmlega þrjú ansi fjörug lög. Ég var aðeins farin að svitna og stakk upp á stuttri pásu, aðallega hafði ég, hjúkrunarfræðingurinn, áhyggjur af hjartastarfsemi gamla mannsins, en hann hélt nú ekki...... ég fékk mér sæti með púlsinn nett hækkaðan og þörf fyrir að væta kverkarnar, en sá gamli sneri sér bara að annarri dömu og hélt áfram án þess að blikka auga! Þetta kalla ég nú mann í lagi!!


Pabbahelgar....

Ekki er nú öll vitleysan eins. Ég sit hér kl. 2:30 um nótt, þegar ég ætlaði að vera búin að snúa sólarhringnum við...... og svo ætlar Ástþór að bjóða sig aftur fram sem forseta. Hefur maðurinn ekki ennþá skilið að þjóðin vill hann ekki og hvernig er þetta með lýðræðið? Er þetta ekki hluti af lýðræðinu, þ.e. að við höfum hafnað honum tvisvar, og er honum þá stætt á því að bjóða sig fram í þriðja skiptið?? Ef engir aðrir frambjóðendur koma fram, á þá að eyða peningum okkar skattborgara í formlegar kosningar, sem allir vita niðurstöðuna úr fyrirfram? Ekki vegna þess að ég sé sérstakur aðdáandi Ólafs Ragnars, en held að hann hafi staðið sig ágætlega, eftir á að hyggja. Ég veit allavega hvar mitt atkvæði liggur, standi valið milli þessarra tveggja.

Er að fara í brúðkaup á morgun hjá vinkonu minni. Í einhverri fljótfærni bauðst ég til að halda ræðu, en hún virðist ekki koma eins auðveldlega fram og ég hélt fyrirfram. Ég hélt að ég myndi bara hrista hana fram úr erminni, en er að fá vægt kvíðakast yfir þessu uppátæki núna þegar engin orð streyma fram. En vissulega er hægt að hafa stærri áhyggjuefni en eina ræðu Woundering Bara fá sér góðan hvítvínssopa fyrst!!

Ég hugsa að við gerum bara djamm úr þessu, við María vinkona, enda kominn tími á endurfundi hjá okkur. Báðar barnlausar þessa helgi og báðar í tjúttskónum! Þessar pabbahelgar geta vel talist til betri uppfinninga, þótt reyndar ég hafi notað þær betur fyrr í tíðinni, þegar drengurinn var yngri. Þá taldi maður dagana að helginni niður, hafði alltaf einhver rosaleg plön og var dauðþreyttur að taka við barninu aftur eftir helgina, en núna...... þá bara eiginlega sakna ég þess að hafa hann ekki þessar helgar - ætli maður sé þá loksins að þroskast eða er þetta bara merki um að ég er að eldast?? Undecided

Þarf að hugsa það mál aðeins.....


Enn eitt nýárið......

Þá er enn eitt nýárið gengið í garð, eða öllu heldur fauk það inn. Ég náði mér nú í gubbupest á gamlársdag, svo kvöldið var tekið mjög rólega, eyddi því með Kjartani gamla (minn eigin og íslenski mr. Big) og syni hans - aðeins öðruvísi en planað var en þar sem maginn var ekki upp á sitt besta var partýskapið ekki upp á marga fiska. Sem var kannski jafngott, því daginn eftir hafði pabba boðið mér að koma með á Bessastaði, þar sem hann átti að veita stórriddarakrossinum viðtöku.

Það var stolt dóttir, og algjörlega óþunn, sem horfði á forsetann hengja orðuna um háls pabba síns um miðjan nýársdag. Pabbi vissi reyndar ekkert að stórriddarakrossinn væri hengdur um hálsinn, heldur hélt hann að orðan væri næld í barminn eins og þessi "venjulegi" riddarakross, þannig að hann hélt jafnvel að forsetinn ætlaði að kirkja hann, þegar hann vatt sér aftur fyrir pabba og fór að reyra eitthvað að hálsinum á honum. Wink Á eftir var boðið upp á kampavín og svo voru Bessastaðir opnaðir fyrir alls konar "fyrirfólki" í þjóðfélaginu. Ég ákvað nú bara að njóta staðar og stundar eins og forsetinn hvatti fólk til - líka þar sem litlar líkur eru á því að ég verði boðin þarna í hús aftur á þessum degi Wink Gaman að sjá hverjir teljast góðu þegnar þessa þjóðfélagsins og hljóta heimboð forsetans í nýársboð. Það er þó skemmst frá því að segja, að þetta var skemmtileg upplifun, ég tók í höndina á nokkrum ráðherrum og sendiherrum, að ógleymdum forsetahjónunum sjálfum, en fáa þekkti ég nú þarna.... ekki fyrr en við vorum við það að fara, þá gekk inn Hreiðar Már bankastjóri með meiru, gamall vinur og miðstjórnarfélagi úr Verzló, sem ég hef örugglega ekki séð í 15 ár. Rétt náði að heilsa upp á hann og smella kossi á kinnina á honum. Gleymdi samt að biðja hann að strika út yfirdráttinn minn hjá KB.... Cool 

Nú er bara að bíða eftir þrettándanum, svo það sé hægt að taka niður jólatréð og sprengja síðustu raketturnar og svo ætti allt að fara að ganga sinn vanagang aftur hjá mér eftir langt og gott jólafrí. Ég hef ekki átt svona jólafrí síðan ég var í skóla og mér fannst ég hafa unnið vel fyrir því, þetta eru búnir að vera letidagar í bland við hangikjöt og jólaboð en nú tekur alvara lífsins við aftur. Ég veit ekki alveg hvar eða hvenær ég fer að vinna aftur, stend á smá krossgötum innan fyrirtækisins en það skýrist líklega á næstu dögum. Þannig að það er um að gera að njóta þessarra síðustu daga, og það ætla ég að gera. Þarf þó að fara að snúa sólarhringnum við aftur. Best að byrja strax!

Þangað til næst.......


Um daginn og veginn og tjörnina

Jæja, búið að vera nóg að gera hjá Liljunni. Drengurinn ennþá í útlöndum, og ég bara búin að vera að vinna og vinna og vinna. Nú er hann búinn að vera í burtu í 9 daga, og ég var að fatta það þegar ég setti í þvottavél í dag, að þetta var fyrsta vélin sem ég setti í síðan hann fór !! - og þetta voru meira að segja rúmfötin mín sem ég var að þvo í dag, svo það telst nú ekki með sem svona hversdagsþvottur. En ég er náttúrlega ekki alltaf úti að leika mér og að leika mér að því að brjóta ís á pollum í strigaskóm, en ekki kuldaskóm, af því að það er ekki nógu coooolll.

Jæja, fór út á lífið með Maju pæju á laugadagskvöldinu fyrir viku síðan - vá, er það virkilega vika síðan!! Það var bara mjög gaman, kom alveg á óvart, þar sem ég var ekki beint í djammgírnum áður en ég fór út. Ég hitti marga, en týndi auðvitað Maríu, en það gerist nú yfirleitt þegar við förum saman. HItti svo Helgu og Einar yfir á Rex, en þar var eitthvað partý sem var beint í framhaldi af afmæli sem einhver flugþjónn hélt. Mjög gaman líka, því venjulega er ekki sérstaklega gaman á Rex, ekki svo ég muni nýlega. Kom samt frekar seint heim, nógu seint til að mæta Fréttablaðs-stráknum í forstofunni - jæja, ég gat þá kippt blaðinu með mér upp en hafði nú ekki orku til að lesa það fyrr en á mánudeginum. Ekki af því að ég svaf allan daginn, heldur af því að ég fór að vinna seinni partinn á sunnudeginu og vann fram á mánudagsmorgun.

Á miðvikudaginn byrjaði ég svo í skólanum, í kúrs í heilsuhagfræði ........ já sumir mega vel hlægja og hugsa um mig að læra hagfræði. Þótt ég hafi nú ekki beint brillerað í hagfræðinni í Verzló, er ekki efi í mínum huga, að ég get lært þetta fag eins og allir aðrir, bara þegar mig langar til þess. Ég var nú heldur ekkert of sleip í stærðfræðinni í Verzló, ég held ég hafi fengið 2 á stúdentsprófi, en það var bara vegna þess að ég hafði engan áhuga á stærðfræði. Nokkrum árum seinna tók ég stærðfræði í Verkfræðiháskóla í Danmörku, tók hana þá upp á sama plan og stærðfræðideildirnar í MR og Verzló gera, og þá fékk ég nú 9 - HAHA. Þótt ég hafi ekki skilið kennarann í næstum 3 mánuði, þá lærði ég bara eftir bókinni og sýnidæmunum. Ef ég nú klára masterinn í þessu fagi, mun ég kallast Heilsuhagfræðingur, og þá held ég að ég verði að senda gamla hagfræðikennaranum mínum, honum Valdimari Hergeirssyni, afrit af skirteininu mínu - bara svona að gamni. Því hann hafði nú oft ekki mikla trú á mér í þessu fagi. Hann sagði meira að segja einu sinni við mig: "Og þú, Lilja, sem átt svona kláran hagfræðing sem pabba." Smile

Jæja, við sjáum til, sjáum til. Eftir skólann á miðvikudagskvöldið ákvað ég að ganga niður í bæ, ætlaði að hitta Maríu vinkonu á kaffihúsi þar. Ég gekk framhjá háskólabyggingunum, eftir Hringbrautinni og svo Tjarnargötu og Bjarkargötu, og það var svo fallegt að ganga þarna. Snjór yfir öllu og meira að segja tvær turtildúfur á skautum á tjörninni - mig langar á skauta. Þetta er nú með fallegri stöðum að ganga á í veðri sem þessu. Ákvað að bíða eftir Maju í Iðuhúsinu, alltaf gaman að skoða bækur og svo gæti ég fengið mér cappucino uppi ef hún myndi láta bíða lengi eftir sér. Hitti þá Hjálmar, gamla buddy, einn af Pizza Hut staffinu frá því í gamla daga. Hef sko ekki séð hann í öruggleg 10 ár, en það var ekki að heyra. Við kjöftuðum heillengi og svo þegar María kom, kjöftuðum við enn lengur, þannig að við Maja eyddum eiginlega öllum kaffihúsatímanum okkar þarna, standandi fyrir framan afgreiðsluborðið hans (hann er sko að vinna þarna). Ég átti að mæta á næturvakt kl. 23, svo við María rétt náðum að fá okkur Caffe latte á Café Paris og svo pylsur á BB, áður en ég þurfti að þjóta. En gaman samt.

Daginn eftir fór ég í jarðaförina hennar Jóhönnu Björnsdóttur, læknis. Hún lést eftir hestaslys daginn fyrir gamlársdag, mjög sorglegt. Það var svo mikið af fólki í kirkjunni, að margir stóðu - í sjálfri Hallgrímskirkju. Jóhanna var yndisleg kona, eins og auðvitað allir vita sem þekktu hana. Ég á alltaf pínu bágt með mig í jarðaförum, hvort sem ég þekkti viðkomandi mikið eða lítið, jafnvel þótt ég sé þar til að sýna samúð mína öðrum. Þetta gekk þó ágætlega hjá mér þar til kistan var borin út, það var svo sorglegt að hugsa að hún lægi í kistunni, og að sjá dætur hennar, sem á rúmum 5 árum eru búnar að missa báða foreldra sína af slysförum. Þarna gat ég ekki haldið aftur af mér lengur.

Mér finnst undanfarið, svo mörg hrikaleg slys hafa gerst, og mér finnst að við eigum virkilega að fara að vera þakklát fyrir það sem við höfum og njóta þess, í staðinn fyrir stöðugt að æða áfram og lengra í lífsgæðakapphlaupinu, þar sem hlutir eins og brotin nögl eru nóg til að eyðileggja daginn, því það þarf auðvitað að laga þessa nögl sem fyrst. Ég ætla allavega að reyna að forgangsraða öðruvísi, setja tímann heima með syni mínum ofar því að eignast nýjan sjónvarpsskáp eða nýja hátalara. Við megum þakka fyrir hvern dag sem við eigum, og það er ekki víst að við myndum vilja liggja t.d. á morgun á banalegu, og hafa eytt síðasta deginum eins og við eyddum deginum í dag. Ég ætla að hafa þetta á bak við eyrað héðan í frá.

Ég tók maraþon svefndag yfir helgina, svaf í heila 14 tíma í einum rykk, án þess einu sinni að opna auga. Hún var náttúrlega kærkomin þessi hvíld, þar sem lítið hafði farið fyrir henni innan um allar næturvaktirnar og allt hitt sem ég þurfti að gera í síðustu viku. En ég bætti um betur, var vakandi í ca. 2 tíma og svaf svo aftur í aðra 10!! Var nú hálfringluð þegar ég vaknaði seint eftir hádegi í dag, en dreif mig og reif allt af rúminu hjá mér, viðraði sængurnar og setti hreint á rúmið (og nýtt, því ég fékk ný rúmföt í jólagjöf, ummm, hlakka til að fara að sofa í kvöld) Fór svo í langan göngutúr um mitt elskulega Breiðholt og kom stálslgin inn - mundi þá að ég hafði líklega ekki borðað neitt síðan aðfaranótt laugadagsins, svo úr því varð að bæta. Það var bara ekkert gott til, því það var eins með verslunarferðir og þvottinn - það hafði ekkert verið keypt inn síðan unglingurinn fór til Ameríku. Úff, nú skil ég piparsveinana, sem alltaf eru með tóman ísskáp og jafnvel eldhúsþurrkur til að skeina sér á klósettinu Cool Jæja, þetta bjargaðist með brauði úr frystinum, og svo er ég búin að liggja og lesa Konungsbók Arnaldar Indriðasonar - mjög góð, finnst mér! Ég ætlaði reyndar í bíó í kvöld, en þetta var miklu betra, rólegt kvöld heima í náttfötunum með bók, tv, kók og nammi (því nóg er til af sælgæti á þessu heimili, jólanammið flæðir út úr nammiskúffunni, þar sem við mæðginin erum ekki miklir nammigrísir). Ég náði meira að segja að ryksuga stigaganginn, en það er aðeins vika síðan ég átti að skila honum af mér......

Á morgun erum við systurnar að fara í lunch hjá Önnu frænku, sem er móðursystir mín en gengur ekki undir öðru nafni í allri fjölskyldunni en Anna frænka. Hún kom til landsins á gamlársdag svo það er kominn tími á að hitta hana. Tvíburarnir Ásthildur og Anna Maja koma líka, svo það verður örugglega gaman - ég hlakka til Smile Um kvöldið ætlum við systkinin að hittast og undirbúa eitthvað fyrir afmælið hans pabba, en hann verður 60 ára í febrúar, kallinn. Við ætlum að semja ræðu og útbúa kannski slide show eða finna upp á einhverju sniðugu. Ég ætlaði að reyna að ná fyrirlestri á LSH um "kulnun hjúkrunarfræðinga í starfi", myndi langa til að heyra þennan fyrirlestur en hann verður að víkja ef lunchinn dregst. Ég get nú ekki eytt hverjum einasta degi inná þessum spítala, þótt mér þyki vinnan mín skemmtileg!!

Jæja, best að fara að kúra sig í hreina rúminu mínu í nýju rúmfötunum, namminamm.

Þangað til næst, take care!!


Góður dagur :-)

Jæja, ég virðist ætla að blogga smá, er allavega að byrja á minni annarri færslu!

Þetta hefur verið góður dagur, hingað til. Drengurinn fór til Ameríku í gær, og er lentur eftir smt. 16 tíma ferðalag. Skrýtið, að þegar hann var minni, þá fannst manni svona tvær vikur alveg guðdómlegar, að fá tveggja vikna frí frá því að vera mamma - en núna..... kann ég kannski ekkert annað? Er ég búin að skilgreina sjálfa mig sem svo mikla mömmu, að ég veit ekki hvað ég á að gera þegar einkabarnið er í burtu? Er þetta eins og öllum hinum líður kannski venjulega, þegar þið eruð barnlaus? Allavega sakna ég hans strax en er samt ákveðin í því, að nota tímann vel..... þótt ég sé ekki enn byrjuð á því. En það kemur, það kemur..... ætla að vera dugleg í ræktinni í næstu viku, inn á milli vaktanna minna, sko. Jafnvel nota kvöldin til að fara í bíó og á kaffihús, eitthvað sem "venjulegt" fólk sem er ekki í vaktavinnu, gerir oft í viku. Með okkur einstæðu foreldra, sem jafnframt vinnur vaktavinnu, gildir það nefninlega, að fríkvöldin frá vinnunni þýða kvöld með fjölskyldunni en ekki kvöld í SAM-bíóunum eða annað. Mann langar ekkert að vera að heiman mörg kvöld í viku, sem óneitanlega gerist þegar vaktavinna blandast inn í eðlilegt social líf - þannig að ergo, vaktavinnuforeldrar fara minna út en annað fólk. Kannski gildir öðru um okkur einstæðu foreldrana, því við eigum mömmu- og pabbahelgar - lúxus sem sambúðarfólk á ekki kost á LoL

Jæja, í nótt var ég að vinna á taugalækningadeildinni í Fossvoginum - fyrsta vaktin þar og ég var eina hjúkkan. Þetta var ekkert tiltökumál, gekk vel fyrir sig, enda held ég að maður sé orðinn ansi sjóaður í hinum ýmsu deildum, starfssviðum og í því að kynnast nýju fólki. Ég er alltaf að verða meira og meira ánægð, með að hafa hætt að vinna á Vogi og snúið mér algjörlega að Liðsinni. Það hentar fólki eins og mér, sem á það til að fá leið á því sem það er að gera, að geta skipt um starfsumhverfi, samstarfsfólk og sjúklingahópa reglulega - ég er allavega mjög ánægð. Mér finnst ekki erfitt að labba inn á nýja deild og kynnast nýju fólki og setja mig inn í nýja hluti - þetta er áskorun og mér finnst gaman að þeim Smile

Ég gerði fyrsta "góðverk" ársins þegar ég kom heim af vaktinni í morgun. Helgistundin mín er, þegar ég kem heim af næturvakt, fæ mér kók og sígó og les Moggann áður en ég fer að sofa. Á meðan ég var að lesa Moggann, varð mér litið út um gluggann og sá þar þúsundir, jæja allavega hátt í hundrað smáfugla í leit að æti - þeir sátu allir á einum og sama auða blettinum á bílastæðinu, þrátt fyrir að þar væri ekkert æti. Mamma mín er nú annáluð smáfuglakona og kannski hefur hún smitað mig eitthvað, en ég fékk svo mikla samúð með þessum greyjum, sem voru nýbúin að venjast hlýjundunum á landinu og svo allt í einu BÚMM snjór á eyjunni. Ég tók mig til og leit inn í ísskáp að leit að æti (er nú orðin ansi sérfróð um æti fugla frá mömmu minni, en skv. henni borða þeir allt, nema hrísgrjón má maður ekki gefa þeim, því þau bólgna of mikið út í maganum á þessum fljúgandi verum) - en ég fann þetta dýrindis hreindýrapaté frá því á gamlárskvöld - svolítið útjaskað og litlar líkur á því að ég hafi lyst á því í framtíðinni, en þeim er alveg sama. Svo hreindýrapaté á plastdisk og svo skar ég niður tvö epli og setti á diskinn, tölti niður í náttbuxunum og strigaskóm og stráði þessu á grasið. Ég stóð spennt við gluggann þegar ég kom upp, þetta var næstum eins og að gefa einhverjum gjöf og sjá hvort viðkomandi líkaði hún........ og viti menn, eins og þeim hefði verið vísað á staðinn af æðri máttarvöldum komu þeir fljúgandi og tylltu sér til að éta matinn - frá mér Smile Tístið í þeim heyrðist upp til mín, stoltu fuglamömmunnar, sem stóð og fylgdist með þeim út um eldhúsgluggann. Þá kom stóri krummi, en það virðist óvenju mikið af krummum í nágrenni heimilis míns - þeir voru svo sem ekki að éta eitt frá litlu fuglunum, frekar eins og þeir væru að stríða þeim - flugu í djúpum dýfum niður að fuglahrúgunni bara til þess að þyrla þeim öllum upp. Skrýtið hvernig þessir krummar "ganga" eða öllu heldur hoppa út á hlið, þeir ganga allir eins og þeir séu haltir, hafið þið tekið eftir því?? Jæja, en þarna leið mér vel, ég get kannski ekki bjargað eða breytt heiminum, en ég get bjargað nokkrum smáfuglum frá svelti snemma á laugardagsmorgni. Og með það fór ég að sofa, glöð í bragði. Eitt góðverk á dag kemur skapinu í lag Smile

Skilnaður Magna og Eyrúnar:::: Nei, kemur ekki á óvart! Ég hef í lengri tíma talað um, hve þolinmóð þessi kona hlýtur að vera..... fyrst að hleypa manninum sínum út á svona egótripp, en svo er því langt frá því lokið þegar hann loksins snýr til baka. Dilana, Dilana, Dilana....... allt virtist ganga út á að halda kontakti við gömlu félagana og halda lífi í glæðunum sem sköpuðust eftir Rock Star. Það hefur kannski gleymst að halda lífi í hjónabandinu. Ég hef allavega oft talað um það, að ég væri fyrir löngu búin að fá allavega snert af afbrýðisemi, ef ég væri Eyrún. Og hvað er þetta með sólgleraugun, Magni? Eru þau gróin við skallann á þér??? Mér finnst þau hálfglötuð, fyrirgefið, on day and night, inni og úti og alltaf á hausnum. Varla svo mikil sól hérna á Íslandi...... Kannski bara þessi nýja rock star ímynd, en maður breytir ekki bara um ímynd á einni nóttu. Jæja, nóg um það, óska þeim hins besta, sérstaklega Eyrúnu.

Jæja, best að fara að drífa sig út á djammið - vinkonan bíður og mín á enn eftir að fara í sturtu. Kemur engum á óvart sem þekkir mig, alltaf á síðasta snúningi, þótt ég verði að segja mér það til bóta að það hefur aaaaaðeeeiiiins lagast sl. vikurnar. Ég get nú náð að gera mig tilbúna á einum klukkutíma og jafnvel hálftíma (ef ég sleppi hárinu), miðað við 2 tíma áður.

Jæja, later.

Lilja


Engin fyrirsögn

Jæja, þá er maður bara farinn að blogga...... var nú enn og aftur vakandi of lengi og var að leika mér í tölvunni, og datt inn á að prófa þetta. Veit ekki hvort það verður að einhverju í framtíðinni, en allt í lagi að prófa.

Við litla fjölskyldan erum að undirbúa ferð Jóhanns til Ameríku á næstu dögum, hann er auðvitað rosa spenntur en ég aðeins farin að kvíða fyrir að sjá ekki gæjann í heilar 2 vikur. Ég er eitthvað að stressa mig yfir að þurfa að gera svo mikið, en svo þegar ég stoppa sjálfa mig aðeins af, þá er þetta ekkert mál. Mér finnst ég bara alltaf vera að undirbúa eitthvað, fyrst afmæli drengsins, jólin, áramótin og svo þetta - en ég er nú alveg þekkt fyrir að mikla fyrir mér litla hluti. Þarf að læra að slaka aðeins á og takmarka í hugsunum.

Annars gengu áramótin vel fyrir sig hérna á bænum, foreldrar mínir í mat og drykk, við skutum þó nokkru upp en fannst áramótaskaupið ömurlegt. Ég hef annars heyrt skiptar skoðanir á því, sumir fíluðu það vel og öðrum fannst það glatað. Ég var allavega ekki að fatta húmorinn í því - fannst bara að það væri verið að hafa mig að fífli, að ég skyldi sitja yfir þessu og vera stöðugt að bíða eftir einhverju skemmtilegu.

Kvöldið fyrir gamlárskvöld var annars prófraun mín í því að halda stórt heimili. Var að passa fyrir Þórunni systur og Sidda, einn 8 mánaða, annan 3ja ára og þriðja 8 ára ..... plús minn 12 ára gaur. Ég verð nú bara að segja það að  ég lít systur mína öðrum augum eftir þessa reynslu. Einn grátandi á gólfinu á meðan annar hellti niður og hinir tveir voru að rífast....... nei, þetta var sko ekki svona allan tímann, en á meðan á því stóð var ég algjörlega upptekin af því að sinna börnunum, og þegar síminn hringdi, þá fannst mér ég vera svo busy að ég gat ekki einu sinni svarað símanum Frown Ég ætlaði að elda kjúklingabringur ofan í liðið en sá fljótt að það yrði mér ofviða - ég gat bara alls ekki tekið mér svo stórt hlutverk í hendur á meðan ég var að sinna svona mörgum börnum, svo heimsend pizza varð maturinn þetta kvöld . Líklega kemst þetta í æfingu, en ég skil ekki hvernig systir mín fer að þessu, og samt gera allt annað........ undirbúa þvílíku kaffiboðin, halda sér fínni og sætri, hugsa um heimilið og það er alltaf fínt hjá henni!!! Mér fannst ég varla komast á klóið! En þetta var yndislegt, Þórunn mín, ég er sko alveg til í að taka þetta verkefni að mér aftur - mér tókst meira að segja að svæfa þann minnsta!!

Jæja, í bili ætla ég ekki að segja neitt meira, klukkan er orðin alltof margt og þótt ég sé í fríi á morgun, þá er nú ágætt að fara og halla sér núna. Kannksi og kannski ekki geri ég eitthvað meira í þessu bloggi - nú er ég allavega með síðu og svo sé ég bara til Smile

Góða nótt


Fyrsta bloggfærsla

Þessi færsla er búin til af kerfinu þegar notandi er stofnaður. Henni má eyða eða breyta að vild.

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband