Landspítalinn - alvarlega á villigötum..... einu sinni enn......

Alveg er það eftir stjórn Landspítalans, (LSH), að ætla að blóðmjólka enn eina starfsstéttina á spítalanum. Núna sem sagt læknaritara. Ég man ekki hvað mörg læknabréf eru enn óskrifuð á LSH, skv. fréttum Stöðvar 2 í kvöld, þau hlaupa á þúsundum - og að sjálfsögðu er ætlast til að læknaritarar geri þetta í yfirvinnu, án þess að fá yfirvinnu borgaða! Auk þess sem þeim er hótað, að spítalinn muni bjóða þessa starfsemi út til einkafyrirtækja..... og þetta hljómar einhvernveginn þannig, að ef þið gerið þetta ekki, þá munið þið missa vinnuna. Þetta er ekki sagt svona, en svona hljómar það. Og að sjálfsögðu eru læknaritarar reiðir, en það hafa svo margar aðrar stéttir verið á undan þeim. Þær stéttir hafa einungis í raun verið kúgaðar af því, að vilji þær vinna í "akut-bransanum", þá er LSH eini vinnustaðurinn sem þeim býðst. Og það er akkeri Landspítalans, það er það eina sem þeir hafa að bjóða og oft það eina sem heldur fólki þarna áfram í vinnu.

Þessi krafa spítalans er í raun algjörlega í stíl við allt annað sem stjórn LSH ætlast til af starfsfólki sínu. Núna skal ég þó passa mig á því að alhæfa ekki um aðrar stéttir, en þær sem ég þekki mjög vel til, og því ætla ég sérstaklega taka fyrir stétt hjúkrunarfræðinga - þá stétt sem ég tilheyri.

Það skal tekið fram, að eftir nokkurra ára starf á spítalanum var mér stórlega misboðið af starfsmannastefnu LSH og lét ég mig hverfa á aðrar slóðir, en sl. 2 ár hef ég unnið fyrir einkafyrirtæki sem hefur leigt mig (og fleiri hjúkrunarfræðinga) inn á spítalann. Ég hef á vegum þess fyrirtækis unnið á fjölmörgum deildum spítalans og telst mér svo til að ég hafi því frá útskrift minni unnið á ca. 13-15 deildum LSH, og tel ég því að ég þekki nokkuð vel til á mörgum sviðum og deildum þessarar stofnunar, auk þess sem ég hef heyrt skoðanir tuga hjúkrunarfræðinga........ og lækna og sjúkraliða, en það er ekki mitt að fjalla um þeirra mál hér.

Landspítalinn hefur um árabil, leyfi ég mér að fullyrða, mergsogið hvern einasta hjúkrunarfræðing sem hefur unnið á spítalanum. Þeir hafa haft það að vopni, að geri hjúkrunarfræðingar ekki eins og yfirstjórn fyrirskipar og/eða ætlast til, þá líði sjúklingarnir fyrir það. Og það myndu þeir að sjálfsögðu gera í stórum stíl, myndu hjúkrunarfræðingar grípa til aðgerða - og þess vegna viðgengst þessi ótrúlega pískun á manneskjum í þessu tiltekna starfi hjá hinu opinbera.

Ef þú ert hjúkrunarfræðingur á Landspítalanum; á skurðlækningasviði, endurhæfingasviði, svæfinga- og gjörgæslusviði, og sérstaklega á lyflækningasviðum LSH, þar sem ástandið er hvað alverst, (nú skal ég ekki fjölyrða um geð-, - barna-, kvennasvið eða önnur svið en þau sem ég nefni), þá færð þú sjaldan frið......ekki í vinnunni og ekki í einkalífinu!! Stöðugt er herjað á þig að taka aukavaktir, það er hringt í þig á öllum tímum sólarhringsins til að biðja þig að mæta inn, mæta fyrr, mæta seinna og vera lengur, breyta vöktum eða vinna tvöfalt. Þú ert jafnvel skikkaður til að mæta í vinnu í miðju sumarfríi, (það er a.m.k. horft öðruvísi á þig ef þú, einn af öllum hinum, neitar), jafnvel..... og haha taktu nú eftir; jafnvel þótt fyrir aðeins 5 árum hafi LSH bannað fólki, sem vildi vinna sér inn aukapening í sumarfríinu, að vinna, því þá þurfti spítalinn að borga þér aukalega og þú áttir að fá auka sumarfrísdag út á það, en núna ertu beinlínis skikkaður til þess. OG núna allt í einu er spítalinn ekki skuldbundinn til að borga þér þessar aukagreiðslur sem hann var áður skuldbundinn til. Reglur spítalans fara nefninlega alltaf eftir því sem hentar honum best hverju sinni. Þeir hjúkrunarfræðingar sem halda fast í rétt sinn gagnvart spítalanum eru einfaldlega stimplaðir af mörgum sviðstjórum og allavega af yfirstjórninni, (ef þeim einhverntímann berst það til eyrna í þessum óskiljanlega langa stjórnunarstiga LSH), sem......UPPREISNARSEGGIR OG ÓSAMSTARFSFÚSIR HJÚKRUNARFRÆÐINGAR!  Þér er stöðugt stillt upp við vegg og alltaf eru þau vopn notuð, að ef þú gerir ekki það sem um er beðið, þá líði sjúklingar og samstarfsfólk fyrir þitt nennuleysi. Og hver vill að samstarfsfólk sitt þurfi að hlaupa enn hraðar en þau þurfa nú þegar, vegna þín. Og ekki viltu að sjúklingarnir líði nokkuð, vegna þín. Alltaf ertu hankaður á samviskunni, og enn og aftur, það er eitt af fáu vopnum Landspítalans, og jafnvel eina vopn hans, gegn þér.

Það er löngu búið að skilgreina, hve mörgum sjúklingum, einn hjúkrunarfræðingur getur borið ábyrgð á, á hverri deild....... og jafnvel gæti sá fjöldi sjúklinga hafa minnkað ef eitthvað er, í takt við stöðugar framfarir í læknavísindunum, flóknari lyfjameðferðir, eldri sjúklinga og ótímabærar útskriftir á almennar deildir af gjörgæsludeildum, (sem er í takt við það, að þungum sjúklingum gjörgæsludeildanna fjölgar líka og starfsfólk þeirra, sem og vinnuaðstaða, líka er í lágmarki). Fólki er bjargað núna, sem ekki hefði lifað áður, þyngd hjúkrunar eykst því líka umtalsvert á endurhæfingasviðum spítalans, þar sem þeir sjúklingar koma til endurhæfingar. En stöðugt er litið fram hjá þeim öryggismörkum sem sett eru.

Sem dæmi: Margar deidir hafa skilgreint sína hjúkrunarþyngd þannig, að tvo hjúkrunarfræðinga þurfi á næturvakt. Samt sem áður gerist það margoft, að þú ert eini hjúkrunarfræðingurinn á þeirri vakt, þá jafnvel með 25 sjúklinga eða fleiri á þinni ábyrgð. Og það er langt frá því að allir sofi á nóttunni á sjúkrahúsi, þótt þeir geri það alla jafna annars staðar. Auk þess er fólk á sjúkrahúsi veikt, og þarf því oft stöðuga umönnun. Það sér hver maður, að ekki má mikið út af bregða til þess að þú sért komin langt fram úr öryggismörkum. Ef þú lendir í minniháttar bráðatilviki inni á einni sjúkrastofu, ert þú ekki til taks inni á þeirri næstu - hver vill lenda í því að þurfa að bíða eftir aðstoð þegar þú heldur að þín stund sé að renna upp???

Annað dæmi: Margar deildir hafa nú lokað nokkrum rúmstæðum vegna skorts á hjúkrunarfræðingum (og stundum sjúkraliðum). Öllum spítalanum á að vera ljóst, að sú tiltekna deild tekur aðeins t.d. 17 sjúklinga (e.t.v. í stað 23). En þessa tölu er bara valtað yfir, enginn tekur mark á henni. Hún er bara formlega sett upp, það getur enginn fylgt þessarri tölu. Og það þýðir ekkert fyrir þig að vera vakstjóri á vakt og ætla að neita bráðamóttöku eða slysadeild um innlögn, vegna þess að þá á LSH annað vopn í hinni hendinni, nefninlega svokallaða innlagnarstjóra. Og ef að innlagnarstjóri segir að þú, og þín deild, verðið að taka við þessum sjúklingi, þá þýðir lítið að fara að tala um einhverjar fjöldatakmarkanir. Skítt með einhver öryggismörk!, sem nota bene eru hugsuð sjúklingnum til góða en ekki til að spara hjúkrunarfræðingnum vinnu!

Það skal tekið fram, að alls ekki skal sakast við innlagnarstjóra eða slysa- og bráðadeildir. Við erum í öll í vinnu hjá sama apparatinu. Það er augljóst öllum, að slysa- og bráðadeildirnar þurfa að losna við sjúklingana til að geta tekið við nýjum, og innlagnarstjóri er aðeins að reyna að finna sem farsælasta lausn á öllum málum. En það breytir því ekki, að þá liggja langtum fleiri sjúklingar á mörgum deildum, en starfandi hjúkrunarfræðingar viðkomandi deildar geta ráðið við. En svona er það á Landspítalanum: orð innlagnastjóra á vakt skulu standa, alveg sama hvað þú segir eða hversu þunga sjúklinga þú hefur á þinni ábyrgð.

Enn eitt dæmið: Ég hef (oftar en einu sinni eða tvisvar) mætt á kvöldvakt, þar sem ég hef á minni ábyrgð 13-14 sjúklinga. Það er ætlast til þess að þú takir til lyf fyrir tvær lyfjagjafir fyrir alla þessa sjúklinga, (því flestir fá lyf bæði með kvöldmatnum og svo aftur fyrir svefninn), - í mörgum tilfellum þarf að blanda lyfin og gefa þau í æð, annaðhvort í sprautuformi eða innrennsli í poka (sem þá þarf að taka niður aftur), i sumum tilfellum þarf að mylja þau og leysa upp og gefa í gegnum slöngu inn í maga og enn fleiri fá lyf í öðruvísi sprautuformi, t.d. í húðina eða í vöðva. Það er ætlast til að þú talir við alla sjúklingana þína og gefir þeim smá af þínum tíma, upplýsir aðstandendur bæði á staðnum og í gegnum símann, jafnvel takir á reiðum og ósáttum aðstandendum, og aðstandendum í sorg og krísu...... þú þarft að skipta á sárum, soga slím úr öndunarvegi sjúklinga, taka þátt í líkamlegri aðhlynningu og umönnun sjúklinganna, sem og andlegri hjúkrun á þeim öllum, þú ert að sinna meira veikum einstaklingum (og allir hjúkrunarfræðingar vita, að þarf ekki nema einn mikið veikan einstakling, til að allt planið riðlist), þú verður að grípa inn í skyndilegar blæðingar eða annað í þeim stíl, sinna bráðum uppákomum, hafa samskipti við vakthafandi lækna vegna bráðra uppákoma..... og mjög oft lendir þú líka í því að einn af sjúklingunum þínum deyr, annaðhvort brátt eða fyrirséð, en hvortveggja krefst þess að líkið sé þvegið og búið um það, og mikillar umhyggju fyrir aðstandendur sem og nærveru fyrir þá - ...... auk þess sem þú átt að skrifa skýrslu um hvern einasta sjúkling..... og gefa munnlega skýrslu til næstu vaktar. ........og svo undra sjúklingar og aðstandendur sig stundum á því, að hjúkrunarfræðingurinn sést sjaldan, segja að hjúkrunarfræðingar í dag séu "horfnir" frá rúmum sjúklinganna og til skriffinnsku!! Það getur kannski verið eitthvað til í því, vegna þess að með tilkomu ýmilsegrar annarrar þjónustu, eins og öflugri heimaþjónustu, veitingu á ýmsum hjálpartækjum, aðstoð ýmissra annarra eins og félagsráðgjafa, presta, sálfræðinga, næringarráðgjafa, iðjuþjálfa og sjúkraþjálfara verður ósjálfrátt meiri þörf fyrir skriffinnsku, að sjálfsögðu. Ekkert af þessu "startast" sjálfkrafa, það er hjúkrunarfræðingurinn sem hefur milligöngu um alla þessa liði. Og við erum ekki alltaf bara að "slóra" eða "kjafta" þótt við séum inni á skrifstofunni. Stór hluti af minum vinnutíma fer fram í símanum við hina ýmsu aðila.

Það er skammarlegt að segja frá því, en á svona vöktum eins og ég lýsti áður, þá hefur oft komið fyrir að ég hrósa happi yfir því, að sjúklingurinn sé "á klósettinu" eða "í símanum", þegar ég kem inn með lyfin...... því þá þarf ég ekki að tefjast við það að tala við hann/hana! Þegar þú berð ábyrgð á svona mörgum sjúklingum, og berð þessar margar skyldur á herðum á einni átta tíma vakt, þá er það ekki óeðlilegt að fara heim, og hafa ekki einu sinni séð framan í kannski einn til tvo af þínum sjúklingum...... ekki af því að þú hafðir ekki áhuga á því, heldur af því að þú hafðir ekki tíma til að sinna þeim, svo eins gott að þeir urðu ekki alvarlega veikir á vaktinni, því þá hefði maður þurft að velja: Hvor er meira veikur?? Og vel að merkja, það er ekki gaman að yfirgefa vinnu sína aftur og aftur með þá tilfinningu í maganum, að þú hafir ekki sinnt þinni vinnu nógu vel. En ef þú ættir að ná því, þá kemstu aldrei heim á þínum tíma. Og mjög algengt er, að hjúkrunarfræðingur sé á vakt til miðnættis og eigi að mæta aftur á vakt kl. 8 morguninn eftir, þannig að það gefur ekki mikið svigrúm fyrir yfirvinnu. Þótt þú svo gjarnan vildir klára þína vinnu þannig að þú værir sáttur við hana - þú nærð því eiginlega aldrei!

Eða hvað? Er það það sem yfirstjórn LSH ætlast til..... að hjúkrunarfræðingar velji hver sé mest veikastur á vaktinni og þar af leiðandi mest þess virði að fá tíma hjúkrunarfræðingsins? Maður þarf ekki að vera bráðveikur til þess að þurfa hjúkrunarfræðinginn. Sumir eru nýgreindir með krabbamein, kannski krabbamein í ristli eða lungum eða brjósti, og þeir eru ekki bráðveikir akkúrat við greiningu en þurfa kannski mikið á spjalli við hjúkrunarfræðinginn að halda. Þeir eru hræddir, óvissir, þurfa nærveru, útskýringar og leiðbeiningar, aðstandendur þurfa líka nærveru og útskýringar..... en ekki endilega á sama tíma og sjúklingurinn, þannig að þú getur ekki alltaf slegið tvær flugur í einu höggi.  En stundum þarf maður að labba út frá svona sjúklingum og halda sínu "kalda" andliti, til þess að sinna öðru....... hver hefur mestu þörfina? Það er ekki gaman að þurfa að yfirgefa sjúkling, sem kallar á þig með öllu sínu andliti og líkamstjáningu en segir ekki neitt, bara af því að þú þarft að skipta á sári hjá öðrum eða gefa sýklalyf í æð. Enda hafa margir sjúklinar sagt, að versta sjúkdómstímabil þeirra hafi verið, tímabilið sem þeir greindust. Þar fengu þeir verstu þjónustuna og verstu hjúkrunina. Sem er ekki óeðlilegt miðað við stærðr deildanna sem fólk greinist yfirleitt á og svo stærðir krabbameinsdeildanna.

Hjúkrunarfræðingum á LSH er gert að sinna öllu sem kemur upp á, það gildir einu hversu þunga sjúklinga þú hefur nú þegar á þinni könnu, þú skalt þá bara hlaupa hraðar, tala hraðar, sleppa því að borða og/eða pissa, ekki svara símtölum frá börnunum þínum og þú kemst alls ekki í neitt eins og að hringja í bankann þinn..... eða að komast í bankann (dream on), eða jarðaför (dream on), eða sérstaka viðburði (dream ennþá meira)........ þá skaltu bara skipta vakt og ef þú getur það ekki, þá sorry. Eftir alla þína yfirvinnu, sveigjanleika og yfirnáttúrulegt umburðarlyndi gagnvart vinnuveitanda þínum, er þér ekkert veitt til baka. EKKERT!

Og svo undrast yfirstjórn Landspítalans, að þeir geti ekki mannað deildirnar. Þeir láta eins og þetta sé algjörlega nýtt vandamál sem aðeins leit dagsins ljós i fyrra eða hitteð fyrra. Það sanna er, að Landspítalinn hefur gjörsamlega hunsað öll þau aðvörunarmerki sem hann hefur fengið í gegnum árin. Hann hefur ekki hlustað á starfsfólkið sitt, ekki umbunað því, ekki þakkað því (ekki einu sinni sent því jólakort, hvað þá jólagjöf Errm), aldrei verðlaunað fólkið sitt fyrir eitt eða neitt. Þeim er alltaf bara gert að hlaupa hraðar, vinna meira, sinna fleirum, pissa minna........ en alltaf að vera jafn effektivt Á SÖMU SKÍTALAUNUNUM. En Spítalinn gleymir aldrei að skamma þau eða áminna fyrir minna vel gerð störf. 

Mér finnst ágætt að stjórnendur Landspítalans séu nú við það að drukkna í þeim drullupytti, sem þeir eru búnir að vera svo duglegir við að moka sig ofan í síðustu árin! Ojá, það er ekki eins og þeir hafi aldrei verið aðvaraðir. En hvað segir maður um opinbera starfsmenn, það er eiginlega ógerlegt að losna við þá úr starfi....... svo við eigum greinilega bjarta tíma framundan.....


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég hef starfað við hjúkrun í ríflega 25 ár og veit því að allt er þetta satt og rétt hjá þér. Mér finnst að við eigum að fá greitt fyrir það að vera sífellt truflaðar heima. Mér þykir afar leiðinlegt að vekja fjölda manns hverja einustu helgi og biðja það að koma í vinnu. Ánægð með þessi skrif þín. Er svartsýn á samninga þrátt fyrir að allir flokkar hafi viljað bæta kjörin FYRIR KOSNINGAR. Lifðu heil.

Hólmdís Hjartardóttir (IP-tala skráð) 8.1.2008 kl. 22:51

2 Smámynd: Lilja G. Bolladóttir

Við verðum að standa saman í næstu samningum, þýðir ekkert að vera svartsýn. Ef við allar/öll höfum þá sýn, þá gerist aldrei neitt. En eitt er að breyta samningum og annað að breyta viðhorfi LSH til síns eigins starfsfólks. Þar þurfum við kannski ennþá mest að standa saman. Við eigum ekki að þurfa að líða þetta!

Kv. Lilja

Lilja G. Bolladóttir, 9.1.2008 kl. 00:02

3 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Það eru ekki bara hjúkrunarfræðingar sem er þrælað út á allt of lágum launum, á það ekki við allt starfsfólk spítalanna? elliheimilanna, og ýmissa hjúkrunarheimila vegna manneklu, og lágra launa. Það væri munur ef allar ríkisstofnanir þyrftu að búa við svipuð kjör, þá yrði nú örugglega gert eitthvað í málunum.

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 9.1.2008 kl. 02:02

4 Smámynd: Lilja G. Bolladóttir

Jú, það er rétt Jóna, en ég get því miður ekki verið talsmaður allra stétta. Það svíður mér samt mikið að vera með 4 ára háskólanám auk fullt af annarri viðbótamenntun, bæði í formi námskeiða og á háskólastigi, og alltaf vera með helmingi lægri laun en t.d. bróðir minn, sem er viðskiptafræðingur að menntun, en vinnur í ráðuneyti (sem sagt líka hjá Ríkinu).  Hans menntun er aðeins 3 ár í háskóla eða 25% styttri en mín menntun.

Það er sko mikið rétt að það þarf að hækka öll þessi laun, ég hef líka unnið á hjúkrunarheimilum og ef maður getur ekki einu sinni komið ÍSLENSKUM ÓFAGLÆRÐUM starfsmanni í skilning um það sem á að gera og hvernig á að gera það rétt, hvernig á maður þá að koma ÚTLENDUM starfsmanni, sem skilur hvorki íslensku né ensku, í skilning um það?? Og þetta er ekki sagt af rasisma heldur af súrri reynslu minni af hjúkrunarheimilum. Ég geri mér grein fyrir því að það þarf að manna þessi störf og á meðan staðan er svona í launamálum, þá verður hún líka svona í starfsmannamálum. Það þarf stórt átak hér á bæ!!!

Lilja G. Bolladóttir, 9.1.2008 kl. 02:11

5 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Ég miða mig einmitt við 2 bræður mína verkfræðinga. Það er himin og haf á milli, þó eru þeir í vinnu hjá bæjarfélagi. Sagði upp starfi mínu á Droplaugarstöðum vegna vankunnáttu í pólsku og lágra launa. Laun ófaglærðra eru auðvitað líka skammarlega lág. Framkoma þar við starfsmenn er engu betri en á Lsp.

Hólmdís Hjartardóttir, 9.1.2008 kl. 02:44

6 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Það er svona með þessar dæmigerðu kvennastéttir, alltaf píndar niður í launum, eða haldið niðri.  Ég á tvær dætur sem vinna á Grund og eru þær báðar í vinnuþrælkun,  önnur er sjúkraliði og hin starfsstúlka í umönnun.  Eins og þú lýsir eru stöðugar hringingar í frítíma og gríðarlegt vinnuálag.  En þær eru samt ánægðar í vinnunni. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 9.1.2008 kl. 03:00

7 Smámynd: Lilja G. Bolladóttir

Það er gott að þínar stúlkur eru ánægðar í vinnunni, það er auðvitað það sem heldur þessu batteríi gangandi.

Ég var aðstoðardeildarstjóri í Skógarbæ, og þar fannst mér tíðkast vinnuþrælkun sem braut alla samninga. Skólafólk, sem kom til að vinna sumarvinnu, var oft látið vinna t.d. 3-4 helgar í röð, frí eina helgi og svo aftur vinna næstu 2 helgar osfrv. Það sagði sig nú eiginlega fyrirfram að veikindaforföllin myndu verða tíð hjá þessu fólki - það er ekkert skólafólk að ráða sig í sumarvinnu til að vinna allar helgar!!! - þetta benti ég deildarstjórum þar á bæ á, en þær héldu sínu striki, með þeim afleiðingum að veikindaforföll voru gífurleg þetta sumarið og ekkert af þessu fólki kom aftur í vinnu sumarið á eftir.

Iðulega voru bæði fastráðnir og lausráðnir látnir vinna föstudagskvöld eða aðfaranótt laugadags á fríhelginni sinni - sem er klárlega brot á samningum. Ég er ógeðslega ákveðin með svona hluti (eftir mína reynslu sem "þræll" á LSH), - svo ég hvatti fólk óhikað til að mótmæla og neita þessu (ég var ekki vinsæl þá hjá hjúkrunarforstjóranum, sem hélt hún gæti bara tekið alla í ras....).  Ég vissi af biturri reynslu, að þú færð nákvæmlega ekkert fyrir að fórna þér fyrir starfið í þessum geira.....

Ástandið á Skógarbæ er ömurlegt núna, var þolanlegt þegar ég var að vinna þar, en ég heyri út undan mér að það tollir enginn þar í vinnu.

Væri óskandi ef stjórnendur og menn í samninganefndum ríkis og bæjar myndu gera sér grein fyrir, að vilji þeir gott starfsfólk þá þarf að borga góð laun! Og hana nú - orðið alltof langt hjá mér, ég bara sleppi mér alltaf þegar ég fer út í þessi mál......

Lilja G. Bolladóttir, 9.1.2008 kl. 03:31

8 Smámynd: Lilja G. Bolladóttir

Og vá, klukkan orðin hálf fjögur!!! Mér á aldrei eftir að takast að snúa þessum sólarhring við. Þetta verður hell þegar ég byrja aftur að vinna

Lilja G. Bolladóttir, 9.1.2008 kl. 03:35

9 Smámynd: Guðrún Þorleifs

Takk fyrir þennan pistill. Það sem ég þekki til sem aðstandandi styður það sem þú skrifar. Varðandi Skógarbæ og ástandið þar þá hef ég nokkrum sinnum í mínu bloggi komið pent inn á þá aðstöðu sem pabbi er í. Hef ekki farið inn á framkomu yfirstjórnar við mömmu sem aðstandenda þar eða okkur systkinin. vá, hef aldrei mætt öðru eins viðhorfi og ég mætti þar á fundi! ..og þetta fagmenntað lið í ummönnun kom fram eins og örgustu dónar við okkur! Eftir þennan fund var ég ekki hissa á því hve mamma var í mikilli rúst.

Þetta er málaflokkur sem orðið hefur útundan í okkar þjóðfélgi og er til háborinnar skammar í heild sinni. 

Guðrún Þorleifs, 10.1.2008 kl. 15:04

10 Smámynd: Sigrún Óskars

Datt inní þessa færslu þína og er þér hjartanlega sammála. Ég vinn á LSH og veit alveg hvað þú ert að fara. Þú ættir að skrifa í blöðin, segja fólki á Íslandi í dag í hvaða stöðu við hjúkrunarfræðingar erum. Launin eru eiginlega grátleg, alltaf talað um heildarlaun en ekki föst mánaðarlaun. Aldrei talað um vinnuna á bak við launin- alla yfirvinnuna - allar bakvaktirnar, sem við erum skildug að taka. Baráttukveðjur,

Sigrún Óskars, 18.1.2008 kl. 15:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband