Bloggfærslur mánaðarins, september 2008

Enn og aftur greiða skattgreiðendur brúsann.....

Það gustar um fjármálamarkaðinn, það má með sanni segja. Eitthvað grunaði mann að væri í aðsigi þegar forsætisráðherra og dýralæknirinn funda tvo daga í röð með Seðlabankastjórum og það um helgi. Það er alveg trúanlegt að ekki sé óalgengt að þessir menn vinni um helgar, en þarna var greinilega um krísufundi að ræða, hvað sem Geir Haarde reyndi að bera af sér í sjónvarpsviðtölum. Maðurinn talar ennþá og æ oftar til íslensku þjóðarinnar, eins og þjóðinni komi nákvæmlega ekkert við, það sem er að gerast í ríkisfjármálum. Hann talar til þjóðarinnar eins og faðir svarar börnum sínum, þegar hann vill ekki segja þeim sannleikann. Hljómar sem sagt mjög ósannfærandi og sem kjósanda og sjónvarpsáhorfanda finnst mér ótrúlegt að hann geti svarað okkur á þann hátt sem hann gerir; "Já, það var rætt um marga hluti á þessum fundi", segir hann um einn fundinn. Svarar sem sagt engu. "Já, menn skulu nú ekki leggja neitt sérstakt í það, þótt við fundum á sunnudegi. Við vinnum oft um helgar..... gott að geta talað saman í næði." Fenguð þið ekki líka gríðarlegar upplýsingar út úr þessu svari? Já, við trúðum því alveg að ekkert sérstakt stæði til, sérstaklega þar sem ráðherrann kom líka fyrr heim frá New York en til stóð.

Annað kom nú á daginn. Það voru engin hugguleg kaffiboð í gangi milli ráðherranna og Seðlabankans. Það má vel vera að það hafi verið nauðsynleg aðgerð, að ríkissjóður legði Glitni til nýtt hlutafé, ekki hef ég vit til þess að dæma um það. En ég hef þó nógu mikið vit á milli eyrnanna til þess að tjá mig um það, að mér finnst það gjörsamlega óafsakandi, að við almenningur og skattborgarar, skulum þurfa að blæða fyrir fjármálafyllerí bankastjórnar Glitnis. Það getur vel verið að aðstæður á alþjóðlegum fjármálamörkuðum séu óvenju erfiðar um þessar mundir en bankastjórn Glitnis hefur algjörlega upp á eigin spýtur hagað sér eins og aldrei myndi ský draga fyrir sólu. Þeir hafa farið allt of geyst í útrás sína og hagað sínum seglum þannig, að þegar skóinn byrjaði að kreppa höfðu þeir enga burði til þess að takast á við það.

Hinn almenni skattgreiðandi hefur ekki laun upp á 10-12 milljónir á mánuði, hinn almenni skattgreiðandi hefur ekki forgangskauprétt á hlutabréfum á hagstæðum kjörum, hinn almenni skattgreiðandi fer ekki í milljóna króna laxveiði ár hvert með félögum sínum og góðgerðarmönnum..... eða á alla stærri úrslitaleiki enska og spænska boltans. Hinn almenni skattgreiðandi drekkur ekki kampavín með hádegismatnum og borðar kavíar á vinnufundum sínum, hann flýgur heldur ekki með einkaþotum og þyrlum milli funda og atburða..... hinn almenni skattgreiðandi myndi aldrei fá Elton John til að spila í afmælisveislum sínum en nú á hinn almenni skattgreiðandi að borga brúsann fyrir óráðsíu þessarra manna. Ég veit ekki með ykkur, en mér finnst bara réttast að þessir menn taki skellinn sjálfir. Við erum ekki að tala um neina smámynt, heldur 84 MILLJARÐA KRÓNA, sem ríkissjóður ætlar að leggja Glitni til í hlutafjárframlag. 84 milljarða króna. Á meðan menntakerfið er svelt, Háskólasjúkrahúsið skuldar birgjum sínum tugi milljóna, ekki er hægt að gera mannsæmandi kjarasamninga við ríkisstéttirnar og geðsjúkir gista á götunum. Jahá.....

Eigendur og bankastjórn Glitnis mega skammast sín. Það er ekki nema vika síðan Lárus Welding lýsti því yfir í Silfri Egils að staða bankans væri góð og engin hætta væri á að bankinn yrði þjóðnýttur. Eigendur hlutabréfa í bankanum sem fyrir nokkru áttu t.d. 800.000 kr. í bréfum, eiga nú 100.000 kr. Eftir yfirlýsingar bankastjórans fyrir viku síðan, stóðu þessir hlutabréfaeigendur líklega í þeirri trú, að bréfin þeirra væru örugg en nokkrum dögum seinna eru þeir búnir að stórtapa á sínum viðskiptum. Ekki hef ég trú á því að eigendur Glitnis njóti trausts í fjármálaheiminum eftir þetta. Og í fyrsta skiptið á ævi minni er ég glöð yfir því, að ég hafi aldrei verið nógu rík til að fjárfesta í hlutabréfum. Það virðist allt vera að fara til andskotans.....


Ísland fyrir unga fólkið, eða gamla.... BULL SHIT!!! ...Ísland fyrir ráðherrana!!! YEAH...

Ég stend á krossgötum þessa dagana. Ég er einstæð móðir með einn ungling á framfæri, ég er með fjögurra ára háskólamenntun auk fjölmargra kúrsa, námskeiða og háskólakúrsa á mastersstigi, en laun mín fyrir þessa menntun, eftir nærri 10 ára starfsreynslu, duga varla mér og syni mínum til framfærslu. Ég þakka bara guði fyrir að ég er ekki einstæð með þrjú börn og enga háskólamenntun. Þá væri ég á Félagsmálastofnuninni, það er alveg næsta víst.

Ég vinn aldrei minna en 100% vinnu, miklu oftar um 120% vinnu, og slaki ég á einn mánuðinn, þá vinn ég það upp þann næsta með því að vinna kannski 140-160% vinnu. Samt er ég alltaf að ströggla. Ég leyfi mér alveg einhverja hluti, eins og til dæmis reyki ég, sem kostar stórfjár, og við förum til útlanda á hverju ári, en í staðinn eyðum við ekki miklu í föt, húsgögn og annað því um líkt, a.m.k. ekki föt á mig. Unglingurinn er auðvitað unglingur, sem stækkar og þroskast og þarf stöðugt ný föt og stækkar stöðugt upp úr skónum sínum, hann þarf líka að fylgjast svolítið með í tískunni. Hann æfir fótbolta, og íþróttir eru ein besta forvörn fyrir vímuefni af hverju tagi og þess vegna borga ég með gleði fyrir það, að hann skuli haldast í fótboltanum.... en það þarf að borga félagsgjöld, kaupa gervigrasskó og takkaskó jafnóðum og hann vex upp úr þeim gömlu, þótt það sjái varla á þeim gömlu, hann er bara að vaxa svo hratt. Ég, hins vegar, eyði hvort eð er nær öllum mínum tíma í hvítum sjúkrahúsfötum, svo mér nægir að eiga föt til að komast í og úr vinnu, og svo nokkur dress til að fara út að djamma, sem reyndar gerist æ sjaldnar, og svo kannski ein stígvél og eina kápu..... then I'm set.....

Ég er að kaupa mína fyrstu eigin íbúð og það var ekki létt verk og hefði alls ekki verið mögulegt fyrir mig, nema foreldrar mínir hefðu hjálpað mér verulega, sem þau gerðu og get ég aldrei þakkað þeim nóg fyrir þann stuðning. Ég átti líka nokkrar skuldir frá námsárunum, því það lifir engin einstæð móðir af 80.000 kr. á mánuði, eins og ég fékk greitt mánaðarlega á mínum námsárum..... og oft minna, þar sem ég lærði í Danmörku fékk ég greitt samkvæmt genginu hverju sinni og fékk oft minna fyrir lánið en planið var. Þar af leiðandi safnaði maður sér óneitanlega einhverjum yfirdráttarlánum og jafnvel öðrum lánum, sem maður í dag sýpur seyðið af. Plús það að í dag er ég að borga rúmlega eins mánaðartekjur á ári, í afborganir af þessum "góðu" námslánum.

Ég fæ útborguð X- laun og af þeim fer stór hluti í greiðsluþjónustu, sem sér svo um að borga flesta mína föstu reikninga, og þar inni í eru tryggingar, LÍN, afborganir af skuldabréfum, RÚV (fyrst maður hefur ekkert val um það (!!)), orkuveitan, skólamatur fyrir krakkann og sitthvað fleira. Símareikning, Visa, Moggann og Stöð 2 sé ég sjálf um, því ég vil geta haft um það val, hvort ég kaupi þá þjónustu frá mánuði til mánaðar. Starfs míns vegna, vil ég hafa Stöð2 og Stöð2 sport2 í áskrift, því sonur minn ver mörgum kvöldum einn heima á meðan ég er að vinna, og þá finnst mér það viss sárabót fyrir hann að hafa aðgang að fjölbreyttari dagsskrá í sjónvarpinu, auk þess sem hann elskar auðvitað fótboltann á íþróttarás Stöðvar 2. Lái mér hver sem vill, en svona vil ég hafa það. Og mér finnst að ég ætti að hafa svigrúm til þess að leyfa syni mínum þetta, sem sárabætur fyrir það að mamma hans er að heiman fleiri, fleiri kvöld mánaðarins. Og jú, hann "vinnur" örlítið fyrir því með því að vaska upp á heimilinu ....stundum....

Um nokkurra mánaða skeið hef ég haldið saman kvittunum úr matarbúðum sem ég hef verslað við. Um daginn gerði ég upp septembermánuð, þótt hann sé ekki búinn, og hafði ég þá þegar eytt meira en helmingi af ráðstöfunartekjum okkar í mat. Og þá var ég samt búin að "highlæta" og draga frá ýmsan ónauðsynlegan kostnað, þ.e. kaup á einhverju sem má vel missa sín, en ég gjarnan vil hafa og eiga til að skapa hlýlegra andrúmsloft á mínu heimili, eins og t.d. kerti(!), gos, kex og ýmsa smáhluti. Það er vel ekki bannað í kreppunni að hafa það kósý og gott heima hjá sér, eða hvað??? Ég held allavega ekki að ráðherrar okkar neiti sér um þennan kostnað, þótt þeir séu mjög duglegir við að hvetja okkur hin til að spara.

Spurningin er: Hvar eigum við að spara, hæstvirtur ráðherra? Eigum við að spara í ljósanotkun, klósettpappír, hætta að þvo fötin okkar eða fara í sturtu í sundlaugunum í staðinn fyrir heima hjá okkur???? Svara þú mér því, Geir Hæsti Haarde eða Árni dýralæknir. Hvar eruð þið að spara? Segið okkur það. Eruð þið bara að éta nautahakk í staðinn fyrir piparsteik eða T-bone? Eruð þið að taka strætó í stað þess að keyra um í einkabílum? Eruð þið að handþvo þvottinn ykkar til að spara rafmagn?? Eruð þið að margnota fötin ykkar til að spara efnahreinsun á þeim, sem er á kostnað ríkisins?

Mér þætti gaman að vita hvar okkar "hæstvirtu", (og ég set það í gæsalappir, vegna þess að í mínum augum eru þeir ekkert hæst.... eitt eða neitt), herrar eru að spara, fyrst þeir eru svo duglegir að predikera fyrir okkur að spara í einkaneyslunni.

Einn vinnufélaga minna minntist á það í dag, að hún ætlaði að flytja erlendis um jólin. Og hún hvatti mig til að koma með. Við eigum syni á svipuðum aldri, myndum flytja í alþekktan Íslendingabæ í Svíþjóð, gætum leigt saman 200 fermetra hús fyrir minna en það sem við hvor um sig erum að borga í afborganir af okkar, minna en 100 fermetra húsnæði, við myndum vinna sömu vinnu fyrir hærri laun og það sem mestu skiptir, fá meira fyrir þá peninga sem við ættum eftir þegar búið væri að borga fastar skuldbindingar. Við gætum lifað lífinu, borðað gott og leyft okkur einhverja smáhluti án þess að vera með í maganum í þrjá mánuði á eftir. Og já, ég verð að segja, að ég er alvarlega farin að íhuga þennan kost. Flytja af þessu landi, þar sem maður er kúgaður af glataðri mynt, einokun í flugfargjöldum, óheyrilega dýru matvælaverði, háum vöxtum og verðtryggingu. Ég er farin að skoða íbúðir í Svíþjóð og stefni á að flytja í vor þegar unglingurinn klárar þennan bekk.

Og það sem verra er, ég er ekki ein um að íhuga þetta. Ég vinn á mjög fjölmennum vinnustað og á þeim vinnustað eru margir að hugsa sér til hreyfings, og þá, að huga á flutning til annarra landa. Er þetta það sem íslenska ríkisstjórnin er að reyna að fá fram? Er þetta það sem hún vill? Að missa stóran hluta af sínum vinnandi ungmennum, sem nota bene eru líka háskólamenntaðir, til erlendra ríkja, vegna þess að íslenska ríkið er svo ófjölskylduvænt, óhagstætt, of óstöðugt, gerir allt sem það getur til þess að erfiða ungu fólki íbúðarkaup, er með endalausar verðtryggingar á öllu, óstöðuga verðbólgu og yfirhöfuð ömurlegt efnahagsástand til að lifa og búa við. Við erum unga fólkið sem eigum eftir að ráða yfir landinu, en mörg okkar hafa ekki einu sinni áhuga á því, við viljum bara flýja landið okkar, og helst ekki koma aftur.... íslenska ríkið er að missa dampinn og ekki bara það, íslenska ríkið er hið nýja Pólland....eða Eistland, Lettland, Litháen. Fólk er að flýja héðan í stórum stíl á meðan stjórnvöld segja að það sé allt í lagi.... Everything´s gonna be all right og allt það kjaftæði.... Well, it ain't.....       

Nei, við erum mörg sem getum gert betur. Okkar starfskrafta er óskað í mörgum löndum þar sem hagstæðari efnahagsskilyrði eru, og að sjálfsögðu flýjum við og sækjum í þann kost. Við höfum val og við munum nýta okkur það. Og kannski er íslenska ríkisstjórnin þá fyrst að ná fram vilja sínum; að losna við margar gagnrýnisraddir svo hún geti farið sínu fram með sínum fautaskap.

Ég er farin að huga að mínum flutningi frá þessu landi. Ég vil geta lifað góðu lífi án þess að myrða mig á vinnunni. Ég vil geta borðað góðan mat án þess að blæða fyrir það. Og ég vil geta ferðast, án þess að Icelandair sé stöðugt að hafa mig að fífli.

Adios Islandos.....


Ekki vera að þvælast fyrir mér, ég á annríkt......!!

Kannist þið við það, þegar nær allir vegfarendur í kringum mann eru bara fyrir manni og pirra taugar manns óskaplega mikið? Þegar helv..... kallinn á gráa bílnum gaf ekki stefnuljós og þú misstir þess vegna af því að komast út á götuna, þegar konan fyrir framan þig getur alls ekki ákveðið hvort hún ætlar að ganga hægra megin eða vinstra megin fyrir framan þig, heldur sikksakkar til hliðanna svo þér er lífsins ómögulegt að komast fram úr henni? Einhver kellingavitleysingur talar svo mikið í símann sinn í búðinni, að hún keyrir innkaupakerruna sína á hælana á þér? Og svo framvegis....

Ég held við könnumst öll við þetta og getum viðurkennt, að á einhverjum tímapunkti lífsins hafi mann mest langað að hrinda manneskjunni fyrir framan sig eða blóta einhverjum fauskinum upphátt. Eða kannski er það bara ég sem hugsa svona, bara mín þolinmæði sem er lítil gagnvart þeim sem virðast vísvitandi vera á ferli til þess að tefja mig. Kannski er ég ekki aðeins að breytast í þann stressaða Íslending, sem ég fyrirleit þegar ég var nýflutt til landsins eftir áralanga dvöl í Danmörku..... ég er ef til vill Íslendingurinn....

Ég vil komast hratt yfir, ég veit yfirleitt í hvaða búðir ég ætla í Kringlunni eða hvaða hluti ég ætla að kaupa inn í matarbúðinni, ég er bara á þessum stöðum þegar ég hef einhver ákveðin markmið eða einhverja ákveðna hluti að sækja og þá vil ég komast að þeim hratt og örugglega. Nenni sko ekki að vera að dóla mér fram og til baka, ég vil bara fara inn og komast sem fyrst út aftur. Og vei þeim sem eru fyrir mér á þeirri leið. ....Hey, ég er manneskjan sem geng ítrekað á glerhurðir sem eiga að opnast rafrænt, af því að þær opnast ekki nógu hratt fyrir mig.....

Í dag held ég að Reykvíkingar hafi tekið sig saman um það að vera fyrir mér og tefja mig á einn eða annan hátt. Þessi samanteknu ráð hafa líklega farið fram hjá mér, vegna þess að ég missti af fréttunum í gærkvöldi. Einn bílstjórinn gat alls ekki ákveðið hvort hann ætlaði að beygja eða halda áfram keyrslunni, hann "blev ved med at" stíga á bremsuna og svo gefa örlítið í til skiptis. Líklega verið utanbæjarmaður. Sveitalubbi.

Ein konan í Nettó vissi ekki hvort hún ætti að ýta kerrunni á undan sér eða draga hana í öfuga átt á eftir sér, hún er örugglega í Vogarmerkinu, því þessarri iðju hélt hún áfram í gegnum búðina, og einhverra hluta vegna, var hún alltaf á minni leið. Mér til ómældrar ánægju, eins og þið heyrið. Ég á minni hraðferð, keyrandi mína kerru fyrir aftan hana, þegar hún allt í einu ákveður að snúa við og fara í hina áttina. Með tilheyrandi árekstri..... við mig....

Önnur ætlaði að kaupa shampoo, svo hún hafði stillt sér upp fyrir framan rekkann, með útstrekktan handlegginn sem hélt í körfuna þannig, að hún og karfan hennar saman, blokkeruðu nánast allan rekkann og enginn annar gat komist að fyrr en hún var búin að ákveða hvaða fuk... shampoo hún ætlaði að kaupa.

Enn önnur hlóð öllu sínu drasli upp á bandið við afgreiðslukassann, en mundi svo allt í einu eftir því að hún hafði líka ætlað að kaupa eitthvað annað..... svo hún hljóp inn í búð aftur og á meðan var ALLT STOPP á kassanum. Hennar vörur lágu á bandinu, búið að renna þeim í gegn, en konan ekkert sjáanleg með þennan ómissandi hlut sem hún varð að hlaupa eftir á síðustu stundu, og láta þannig meðborgara sína gjalda fyrir hennar gleymsku. Og þessi gæska var sko ekkert að flýta sér!

Afgreiðslufólk á kössum er kapítuli út af fyrir sig. Bandið hjá þeim rennur og rennur á meðan þeir eru að renna vörum kúnnans fyrir framan þig í gegn, en svo þegar það er búið stoppar bandið, og þar með stoppar það mig í að hlaða mínum vörum upp á afgreiðslubandið..... nema mig langi til að hlaða þeim upp í turn. Hálfur metri af auðu bandi frá mínum vörum og að afgreiðslumanneskjunni, ég ennþá með hálfa körfu af matvælum, en manneskjunni dettur aldrei í hug að færa bandið til óumbeðin, svo ég geti haldið áfram að tæma úr körfunni minni. Látum vera ef afgreiðslufólkið er 15 ára, en þegar það er yfir þrítugu, þá ætti ekki að þurfa að biðja þau um þetta...... og sama fólkið aftur og aftur og aftur.

Og svo þurfti maðurinn á undan mér að vera alveg einstaklega lengi að borga og færa bæði sig, sitt rassgat og kerruna sína úr þessum mjóa gangvegi sem er við afgreiðslukassana...... svo ég horfði bara á mína hluti hlaðast upp hinum megin við afgreiðslukonuna, en komst hvorki lönd né strönd. Var að spá í að hlaupa Breiðholtshringinn til þess að komast fram fyrir kallinn, en þá LOKSINS færði hann sig..... örlítið. Já, ég skal fúslega viðurkenna að þessi maður fékk "the look" frá mér. Góða helgi, mister....

Well, okey, kannski var ég örlítið ósofin eftir 18 tíma næturvakt, kannski onkupínku pirruð á veðrinu úti, nennti ekki að mála mig áður en ég fór út og vildi þess vegna bara ljúka þessu af hurtigst muligst...... okey, kannski var þolgæði mitt ekki upp á sitt besta í dag..... eða kannski, eru bara allir fífl og asnar nema ég.....

Ég gerði mér allavega grein fyrir því þennan seinnipart, að ég hefði alveg getað verið konan í VR-auglýsingunni, sú sem hvæsir á afgreiðslufólkið vegna þess að hún er svo stressuð sjálf, og það sem er grátleg staðreynd, að í dag hefði ég ekki einu sinni þurft að leika, svona var bara Lilja í dag..... í Íslandinu í dag.....

En í guðanna bænum, hættið að vera fyrir mér og pirra mig þegar ég á annríkt. Ég þarf sko að komast leiðar minnar, skiljið þið það ekki???

...............

P.S. Bara til öryggis, þar sem það eru kannski ekki allir sem lesa þetta, sem þekkja mig og minn stíl, þá á ég það til að vera svolítið ýkt í málflutningi og svo er nú yfirleitt 80% af því sem ég segi, bara bullshit, annaðhvort grín eða pirringur í nösunum á mér sem ég snýti yfirleitt mjög fljótlega út aftur.


I got klocked....

Ég var klukkuð...... tvisvar....

ætla að reyna að samræma þessi tvö "klukk" einhvernveginn.....

Spurningin er þá, hvort ég megi klukka tvöfalt tilbaka, eða hvort það gildir tveir fyrir einn í öfugri merkingu hérna.....

Okey, tveir kollegar klukkuðu mig, sem sagt Hólmdís hjúkrunarfræðingur hjá, að ég held, Heilsuverndarstöðinni og svo Sigrún skurðhjúkrunarfræðingur á LSH. Reyni að svara eftir bestu getu.

4 störf sem ég hef unnið:

Ég var fimleikakennari hjá Gerplu í mörg ár, byrjaði þegar ég var 14 ára....og já, þá var ég þegar búin að vinna tvö sumur í unglingavinnunni frægu, var ári á undan í skóla svo ég mátti byrja ári fyrr í unglingavinnunni, þar sem búið var að ferma mig.....líka ári á undan. Sem sagt svindlari alla tíð....

Ég vann hjá Tryggingastofnun Ríkisins í samtals 6 sumur, fimm þeirra á Sjúkratryggingadeildinni en eitt sumar sem ritari forstjórans; Eggerts heitins Þorsteinssonar.

Ég vann líka á Pizza Hut samhliða Verzló og samhliða öllum öðrum vinnum sem ég hef haft til fjölda ára. Hef líklega snemma fengið greininguna "workaholik".... Sökum "athyglisbrests" og fljótt áunnins leiða á öllu varð ég að skipta reglulega um umhverfi og það líka innan Pizza Hut.... vann til skiptis í eldhúsinu (þar sem mesta fjörið var), við afgreiðslu í borðsalnum þar sem bannað var að vera þunnur í vinnunni (öðru nafni við að taka niður pantanir og bera matinn á borðin....) og stundum tók ég það að mér að keyra út pizzur.

Svo vann ég í Seðlabankanum um tíma, sem ritari á hagfræðideildinni, minnir mig að það heiti. Þá var Arnór Sighvatsson, núverandi aðalhagfræðingur Seðlabankans, bara lítið peð á deildinni (nei, djók) ..... en ekki djók, þá var þáverandi yfirmaður minn sem heitir Már (man ekki hvers son), allavega góður vinur Ólafs Ragnars forseta...... þetta var sumarið sem Ólafur bauð sig fram til forseta í fyrsta skiptið og ég skrifaði grein í Morgunblaðið til að mótmæla framboði Ólafs.... og var EKKI í uppáhaldi hjá yfirmanni mínum eftir það. Ég kallaði þennan yfirmann minn óopinberlega alltaf "Ólaf Má Marðarson", því í mínum augum voru þeir þríeyki, þeir Ólafur Ragnar, Már og Mörður. Geti hver sem vill hvað ég á við......Cool

Jæja, anyway, og ég veit að ég er að nefna fimmta starfið, en það er líka það mikilvægasta og skemmtilegasta, sem sagt starfið sem ég púlaði í 4 ár í háskóla fyrir, sem sagt starf mitt sem hjúkrunarfræðingur og þar hef ég komið víða við. Verður að klukka mig aftur ef ég ætti að segja frá þeim starfsferli......

4 uppáhaldsbíómyndir:

Lady sings the blues - mynd um Billie Holiday en sú söngkona er í uppáhaldi hjá mér.

Matrix - framtíðarmynd sem mér finnst sérstaklega sérstök af sérstökum ástæðum.

Fight Club - ekki bara af því að Brad Pitt er í henni, heldur vegna þess að ég varð að horfa á hana tvisvar til að fatta hana..... þótt reyndar ég hafi dottið úr sófanum á meðan ég horfði á hana fyrir mörgum árum í góðra vina hópi, og gárungarnir í hópnum sögðu að ég hefði RUNNIÐ úr sófanum....... glætan..... Tounge

Hair og Jesus Christ Superstar eru líka í uppáhaldi og ég hef ekki tölu á því hve oft ég hef horft á hvora mynd fyrir sig..... alltof oft.

Annars er ég bíómyndafrík og hef horft ótaloft á sömu myndirnar sem ég ætla ekki að nefna hér. Á líka stórt safn af bíómyndum.

4 staðir sem ég hef búið á:

Vesturbærinn

Breiðholtið (Seljahverfið)

Danmörk

Breiðholtið.... verð að nefna það tvisvar vegna þess að ég hef búið í sex "Selum" frá því að ég flutti hingað fimm ára gömul með 6 ára millidvöl í Danmörku.... í þremur með foreldrum mínum og í þremur sem sjálfstæð móðir og húsmóðir.

4 uppáhaldssjónvarpsþættir:

Sex and the City

Greys Anatomy

Ýmsir þættir á Animal Planet

Friends (af gömlum vana, einstaklega gott afslöppunarefni)

Fréttir...... eru ekki uppáhalds, en einhvernveginn má ég helst ekki missa af þeim, verð að sjá þær á báðum stöðvum og á hæsta styrk á meðan ég er að elda..... og ég sem þoldi ekki þegar foreldrar mínir URÐU að sjá fréttir....!!

4 staðir sem ég hef heimsótt í fríum:

úff, þeir eru svo margir og líka margir leynistaðir sem ég á innanlands sem ég hef heimsótt í styttri fríum, jafnvel bara hálfsdagsfríum..... en til að nefna einhverja, ekki endilega í vinsældarröð.....:

Mexikó

Tyrkland

Lítil grísk eyja sem heitir Kos

Færeyjar

.......hvernig getur maður nefnt bara fjóra af öllum þeim stöðum sem maður hefur ferðast til??

4 síður sem ég skoða daglega:

Humm, ég skoða enga síðu daglega, en þær sem ég kíki á reglulega eru:

Hotmailinn minn

Bloggið hjá bloggvinum mínum og stundum þegar tími gefst hjá einhverjum sem ég hef ekki lesið oft/áður

Google

Ja.is ...... nota þessa síðu ótrúlega mikið

Í vinnunni fer ég reyndar oft á dag inn á Lsh.is, en það er yfirleitt til að finna símanúmer hjá einhverjum lækni, athuga hver er á vakt hverju sinni, fletta upp blóðprufum osfrv. .... telst ekki með þar sem það er vinnutengt.....

4 uppáhalds matartegundir:

Hamborgarhryggur með ÖLLU tilheyrandi

Hvítlauksgrillaður humar með góðu hvítvíni, ristuðu brauði, smjöri og góðum félagsskap.... helst fylgt á eftir með góðu ...lífi .....

Allt með karrý, má vera kjúklingur, nautagúllas, soðið lambakjöt, kjötfarsbollur, fiskbollur og jafnvel eintóm hrísgrjón eða kartöflur ..... svo lengi sem kryddið er karrý, þá finnst mér maturinn góður.

Langflestar súpur..... ég er alger súpumanneskja, finnst alltaf gott að fá heita og góða súpu og þá vil ég hafa "ostaklemmu" með sem ég alltaf dýfi ofan í súpuna þannig að brauðið verði mjúkt og blautt og osturinn fari að leka...... fíla þess vegna alls ekki kaldar súpur!

4 bækur sem ég hef oft lesið:

Oh my god......

Okey, allar Fimm-bækurnar, Ævintýra-bækurnar og Dularfullu-bækurnar eftir Enid Blyton las ég oftar en hægt er að telja sem krakki, byrjaði fjögurra-fimm ára og hætti eiginlega aldrei..... og reyndar las ég flestar barnabækurnar mínar miklu oftar en einu sinni, þótt ég læsi líka allar þær 10 bækur sem ég mátti fá lánaðar á bókasafninu í hverri viku.... ég var bókaormur með stóru BÉ-I. Ég er líka ótrúlega heppin, að báðir foreldrar mínir voru bóka"krakkar" og ég fékk bækur þeirra og þar sem ég var eina barn þeirra með bókaáhuga, þá á ég þessar bækur ennþá. Ég erfði þær fyrirfram...... Á kápunni á mörgum þeirra má sjá 7 ára-, 9 ára- eða 11 ára skrift móður minnar, þar sem hún hefur merkt sér sína gripi. Og á forsíðum margra minna bóka hefur pabbi minn skrifað nafn sitt og dagsetningu, og þetta eru dagsetningar eins og 7. mars 1954, eða 1956 og síðar. Í sumum má lesa áritanir frá þeim sem gaf bókina, eins og; "Til elsku lillu systur, frá Önnu systur". Þessar bækur eru ótrúlegur fjársjóður í mínum augum og eitt af því sem ég myndi gráta sárt ef íbúðin mín myndi brenna.

Sesselja Agnes eftir Maria Gripe, er unglingabók með svolítið draugalegu ívafi og hana las ég alloft, hef reyndar lesið hana líka sem fullorðin og sé alveg hvað það er við bókina sem greip mig svona mikið þegar ég var yngri.

Óbærilegur léttleiki tilverunnar eftir Milan Kundera las ég tvisvar en svo þegar ég byrjaði í þriðja skiptið, sagði skynsemin mér að sleppa því..... og ég fylgdi skynseminni, aldrei þessu vant. Þung bók sem nóg er að þræla sér í gegnum einu sinni, að mínu mati. Ég gerði það bara tvisvar til að öðlast skilning á einhverju sem ég taldi mig eiga eftir að öðlast skilning á, en gerði aldrei hvort sem er.

Egilssögu hef ég lesið aftur eftir að mér var skipað að lesa hana á skólaárum mínum, og mér finnst hún stórkostleg. Sama segi ég um Laxdælu, en hana las ég aftur vegna þess að sonur minn var að gera verkefni úr sögunni. Báðar væri ég til í að lesa aftur og þess vegna líka hinar Íslendingasögurnar sem maður las af illri nauðsyn í den.

Anatomy-iu bókina mína úr háskóla hef ég gluggað í alloft, jafnan þegar mig vantar upplýsingar eða fræðslu um ákveðna líkamsparta, bein eða líffæri..... yfirleitt vinnutengt, en engu að síður nauðsynlegt uppflettirit,.... ef rit skyldi kalla, öllu heldur bálk......, þegar maður man ekki alveg hvar eitthvað bein, einhver æð eða annað er staðsett í líkamanum.

Annars er það þannig á mínum fullorðinsárum, þá hef ég ekki þörf fyrir að lesa bækur oftar en einu sinni, kaupi þær gjarnan í kiljum, les þær og gef þegar ég er búin með þær. Nema þegar um einhver einstök verk er að ræða, þá vil ég fyrir einhverja áráttu endilega eiga bækurnar uppi í skáp..... Hef samt hvort eð er aldrei tíma til að lesa þessar bækur aftur.... Blush

Staðir sem ég vildi vera stödd á núna:

Rúmið mitt .... ekki verra ef Mr. K. væri þar líka.....

Barcelona.... þar ætla ég einhverntímann að búa í einhverntíma.

Langar ótrúlega að fara í Amazon-ferð og ferðast um Suður-Ameríku

Annars líður mér ágætlega þar sem ég er akkúrat núna í lífinu.....

Ég ætla að klukka:

Jenný Önnu (þótt hún eflaust hafi verið klukkuð áður..... klukk aftur, leikurinn er ekki búinn).... (jenfo.blog.is)

Gunnu mína (Gonzo-World ....gunna23.spaces.live.com)

Jón Arnar (jarnar.blog.is)

Jónu Kolbrúnu (huxa.blog.is)


Árni dýralæknir heldur áfram að brillera.....

Pínu skondið en mest mjög einkennilegt fannst mér að lesa síðu tvö í Morgunblaðinu í morgun. Þar er fyrst heljar fyrirsögn um mjög svo réttláta reiði ljósmæðra í garð okkar óvinsæla dýralæknisfjármálaráðherra. Herra fjármálaráðherra hyggst nefninlega alls ekki leiðrétta kjör ljósmæðra, sama þótt meirihluti þjóðarinnar standi að baki ljósmæðrum en á móti ráðherra og hans stefnu.... nei, hann ætlar einfaldlega að stefna þeim fyrir að segja starfi sínu lausu.

Bíddu.... síðan hvenær má maður ekki segja upp starfi sínu ef manni líkar ekki starfið, starfsumhverfið eða launin? Stendur einhversstaðar að maður sé æviráðinn þegar maður ræður sig hjá Ríkinu? Hvernig getur lögmæt uppsögn einhvers, þar sem tilskilinn uppsagnarfrestur er virtur, allt í einu verið ólögmæt? Hvað er maðurinn að hugsa?

Ég tel að með þessu útspili sé Árni Mathiesen að jarða bæði sjálfan sig og Sjálfstæðisflokkinn, sem nú þegar er djúpt sokkinn í óvinsældagröfinni. Nú er hann búinn að taka upp STÓRU skófluna til að dýpka gröfina. Þetta útspil fjármálaráðherrans mun án efa verða honum og flokknum dýrkeypt.

Á sömu síðu Morgunblaðsins má lesa að kynbundinn launamunur ríkisstarfsmanna hafi aukist um 3% milli áranna 2007 og 2008. "Óviðunandi niðurstaða", segir formaður Samfylkingarinnar, sitjandi Utanríkisráðherra og samherji Árna í ríkisstjórninni. Mikil þversögn og ósamstaða sem felst í yfirlýsingum þessarra tveggja samherja í ríkisstjórn okkar Íslendinga. Annar þeirra vill auka launamuninn enn frekar og stefna "óþægum" launþegum en hinum finnst launamisréttið óviðunandi. .....Eru þessir tveir aðilar örugglega í samstarfi í sömu ríkisstjórn??

Þessi niðurstaða um launamisréttið gengur líka þvert á stjórnarsáttmálann, þar sem það stóð skýrum stöfum að eyða ætti launamuni kynjanna og hækka laun kvennastétta. Hefur ríkisstjórnin ekki einmitt möguleika á að leiðrétta þennan mun, eða að minnsta kosti minnka örlítið, í yfirstandandi samningum við ljósmæður?? Og hafði hún ekki líka tækifæri til þess í nýlegum kjarasamningum við hjúkrunarfræðinga, sem er að miklum meirihluta kvennastétt. Hjúkrunarfræðingar sömdu niður fyrir sig, enn einu sinni og ríkisstjórnin gerði ekkert til að minnka launamun kynjanna í þeim samningum heldur.

Að sjálfsögðu eykst kynbundinn launamunur ríkisstarfsmanna þegar ríkisstjórnin gerir nákvæmlega EKKERT til að minnka hann eða eyða honum. Þvert á móti vinnur ríkisstjórnin GEGN stjórnarsáttmálanum, hún vinnur hörðum höndum og mjög markvisst að því að auka launamun kynjanna. Hvernig geta þeir verið þekktir fyrir að predika eitt og praktisera annað? Undrar þá að fylgi þeirra hrapar dag frá degi? Það er heldur ekki eins og þeir séu að vinna að því að afla sér vinsælda.

Og hvað á svona yfirlýsing að þýða frá Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur? Það er ekki nóg að segja eitthvað í Morgunblaðinu, maður verður að framfylgja því líka. Og er hún að því? Er ekki Samfylkingin í þessarri ríkisstjórn líka? Af hverju gerir þessi fylking ekki neitt? Samfylkingin mælist með mesta fylgi allra stjórnarflokka núna, ef fólk innan Samfylkingarinnar væru smart hugsandi þá myndu þau standa uppi í hárinu á Íhaldinu og knýja fram réttláta samninga við ljósmæður..... og í leiðinni auka fylgi sitt enn meira. Þóttist ekki Samfylkingin alltaf vera félagshyggjuflokkur, allavega áður en hún seldi stolt sitt og sannfæringu fyrir setu í ríkisstjórninni. Ansi mörg málin sem þessi fylking hefur þurft að éta ofan í sig gegn því að fá að vera "memm" í þessu samstarfi.

Ríkisstjórnin hefur öll tromp á hendi til að afla sér vinsælda á ný. Gera góða samninga við ljósmæður, eins og þjóðin öll vill, standið við það sem þið lofuðuð fyrir kosningar, rísið upp og farið að haga ykkur eins og fullorðnir ábyrgir einstaklingar, sem eruð að vinna FYRIR okkur en ekki á móti okkur.

Ef það er svigrúm í efnahagsmálum til að hleypa Þorgerði Katrínu tvisvar til Kína á tveimur vikum fyrir fáránlegar upphæðir, ef það er svigrúm til að halda eftirlaunum ykkar til streitu, ef það er svigrúm fyrir allar opinberu veislurnar ykkar, ef það er svigrúm fyrir það, að við borgum ykkur laun fyrir að viðhalda þessum kynbundna launamuni..... þá hlýtur að vera svigrúm til þess að hækka laun ljósmæðra. Og ef ekki, þá getum við alveg fórnað eins og tveimur til þremur alþingismönnum í staðinn.

Árni M. Mathiesen er til athlægis með þessu örvæntingar útspili sínu. Hann ætti að vera stærri maður en þetta. Ef þetta er það besta sem þú getur gert..... af hverju ferð þú þá ekki sjálfur að sinna þínu ljósmóðurstarfi og taka á móti kálfum eða lömbum??? Ég held að þú værir mun betri í því starfi heldur en því sem þú sinnir núna.

 

 


Útigangsmenn Reykjavíkur, velferðarráð og við hin öll.......

Ég er eitthvað löt við að skrifa þessa dagana, enda bæði haft nóg að gera og svo einhvernveginn hef ég ekki nennt að blogga neitt. Eitt mál hefur þó brunnið á mér í þónokkra daga núna, og ætla ég að láta verða af því að tala um það.

Það er viðtalið við útigangsmanninn Sigurð Gretti, sem var í Íslandi í dag fyrir ca. viku síðan. Mér fannst þetta átakanlegt að horfa á og ömurlegur raunveruleiki margra manna, kvenna og ungmenna í þessarri höfuðborg okkar Íslendinga, og líklega líka í fleiri bæjarfélögum. Raunveruleiki sem við ættum öll að skammast okkar fyrir að skuli viðgangast og raunveruleiki sem meirihluti Reykjavíkurbúa lokar augunum fyrir.

Ég hef gert óformlega könnun á áliti manna/kvenna á útigangsfólki, þ.e. að ég hef spurgt nánast flesta sem ég hef talað við á þessarri viku, hvort þau hafi séð viðtalið og svo hlerað viðbrögð þeirra og skoðun. Fólk virðist skiptast í þrjá hópa þannig, að sumum finnst þetta ólíðandi og svartur blettur á annars okkar ágæta velferðarkerfi, að fólk skuli þurfa að finna sér hita við sorpgáma í miðbæ Reykjavíkur á meðan borgarstjórnin situr sveitt við að skipta um meirihluta aftur og aftur. Þessum hópi fólks finnst það sjálfsögð skylda okkar meðborgara að hugsa um og hlúa að okkar minnsta bróður. Öðrum finnst þessir útigangsmenn ekki vera okkar minnsti bróðir, að þeir geti sjálfum sér um kennt, það sé ekki á okkar ábyrgð að sjá þeim fyrir húsaskjóli og þeir hafi sjálfir komið sér í þessa aðstöðu. Enn aðrir eru áhugalausir um þetta málefni og hafa þar af leiðandi ekki myndað sér neina skoðun. Sá hópur er sá versti, að mínu mati, vegna þess að mér finnst það mesta sinnuleysið, að hafa ekki einu sinni skoðun á því sem gerist í kringum mann í þjóðfélaginu. Þessu fólki er bara alveg sama hvernig hlutirnir eru, svo lengi sem það hefur aðgang að leikskólaplássi og kemst í sína naglasnyrtingu og líkamsrækt. Ömurleiki náungans skiptir þetta fólk engu máli, svo lengi sem það pissar ekki í garðinn þeirra eða sefur á gangstéttinni sem þau eiga leið um. Þessu fólki vorkenni ég mest. Gott að vera lokaður inni í glerklukku og upplifa bara sinn eigin litla heim. See no evil and hear no evil.....

Ég tilheyri fyrst nefnda hópnum. Mér finnst það ömurlegt að hluti af okkar meðborgurum skuli þurfa að hírast á götum úti á köldum og dimmum vetrarnóttum. Þetta velur sér enginn sem hlutskipti í lífinu og hlýtur hvert hugsandi mannsbarn að sjá að þarna hefur einhver ógæfa orðið þess valdandi að þetta fólk hefur hafnað í þessarri stöðu. Ógæfu er hægt að skilgreina á margan hátt, allt frá áföllum til geðsjúkdóma og fíknisjúkdóma. En.... þetta gæti verið bróðir þinn, eða mamma þín, systir eða vinur..... það veit það enginn fyrirfram hverskonar tökum áfengi og fíkniefni eiga eftir að ná á fólki, ekki einu sinni á þér sjálfum, fyrr en maður reynir. Við erum misjöfn að uppbyggingu að öllu leyti, bæði andlegu og líkamlegu. En við myndum aldrei láta of feitan mann sofa á götunni, bara vegna þess að hann væri með offitu sinni búinn að afla sér sykursýki, hjarta-og æðasjúkdóma, stoðkerfisvandamál, þunglyndi, félagsfælni og margt fleira. Þótt hann sé búinn að éta þetta allt utan á sig sjálfur. Getur sjálfum sér um kennt..... Reykingamaðurinn sem veldur sjálfum sér lungnaþembu, mögulega lungnakrabbameini, í öllu falli mæði og lélegu úthaldi, oft sykursýki, æðasjúkdómum, jafnvel heilablóðfalli og svo framvegis.... myndum við segja að það væri í lagi að hann svæfi úti, vegna þess að þetta sé hvort sem er allt honum sjálfum að kenna???

Nei, við getum það ekki. Við erum búin að byggja upp ákveðið velferðar- og heilbrigðiskerfi og innan þessa kerfis er alkoholismi skilgreindur jafn mikið sem sjúkdómur eins og hver annar sjúkdómur. Það er alltaf óljóst hvort kom á undan, hænan eða eggið, og að sama skapi er aldrei ljóst hvort kom á undan alkoholisminn, fíknin eða geðsjúkdómurinn, misnotkunin í æsku, ofbeldið á heimilinu eða eitthvað annað. Og stundum ekkert af þessu. Það er ekki okkar að dæma. Við erum búin að skilgreina þessa hluti í okkar heilbrigðiskerfi og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin er búin að skilgreina þá líka, svo samkvæmt skilgreiningu eigum við ÖLL jafnan aðgang að heilbrigðiskerfinu og jafnan aðgang að því að lifa okkar lífi með eins mikilli reisn og við getum. Og við getum örugglega öll verið sammála um það, að það felst ekki mikil reisn í því að sofa ofan á hitarist fyrir framan Landsbankann í Austurstræti og sníkja hundraðkalla af vegfarendum. Þú myndir örugglega óska bróður þínum betra hlutskipti í lífinu, hvernig svo sem hann hafi áður spilað úr sínum spilum. Mögulega spilaði hann illa vegna þess að hans hugur gat ekki betur, hans andlegi styrkur var ekki meiri, hans bakland var ekki styðjandi, hans félagslega færni var léleg, e.t.v. flosnaði hann upp frá námi vegna lesblindu eða hans sjálfsmynd var brotin niður á æskuárum. Hver veit? Og hver á að dæma? Okkur ber einfaldlega skylda til þess að huga að þessu fólki á sama hátt og við hugum að öllum öðrum sjúklingum.

Það sorglega er ........ og nú leyfi ég mér að segja m.a. eftirfarandi vegna þess að umtalaður Sigurður Grettir úr Íslandi í dag, er sjálfur búinn að opinbera sína lífssögu fyrir okkur alþjóð.... að ég "þekki" þennan mann frá því að ég vann á Vogi. Þennan mann og marga fleiri útigangsmenn Reykjavíkur. Þegar ég vann á Vogi sá ég þessa menn oft fyrst í miklum fráhvörfum, delerium og krömpum, maður hugsaði um þá og hjúkraði þeim á meðan þeir voru sem veikastir en svo þegar þeir urðu brattari eyddi maður stundum hálfu nóttunum á spjalli við marga þeirra. Og þar kemur að því sorglega, vegna þess að margir þeirra eru fjallmyndarlegir þegar runnið er af þeim og þeir orðnir hreinir og fínir, oft mjög gáfaðir og vel hugsandi menn. Þetta eru oft á tíðum menn sem hafa afburðargreind, eru vel lesnir og stundum vel menntaðir líka, vel inni í ýmsum stjórnmálaefnum, hafa vel rökstuddar skoðanir á hinum ýmsum málefnum, eins og t.d. virkjunum, umhverfisvernd, heilbrigðismálum og örorkulífeyri og svona mætti lengi telja áfram. Flestir þeirra lifa á örorkubótum og eru alls ekki að sækja sér meiri þjónustu í heilbrigðiskerfinu en aðrir. Þeir leita á bráðamóttökur spítalanna þegar þeir hafa ástæðu til, á meðan margt annað fólk þjóðarinnar er að koma vegna smávægilegra hluta, sem vel mættu bíða heimilislæknis og heilsugæslu. Þessir menn eiga yfirleitt engan heimilislækni og vegna þess að þeir eru "óstaðsettir í hús" þá eiga þeir ekki einu sinni vísan aðgang að ákveðinni heilsugæslu.

Almenningi á Íslandi hættir mikið til þess að líta niður á þetta fólk, setja alla alkoholista á sama bás og svo troða eiturlyfjaneytendum á básinn líka, þar sem þeir eiga alls ekki heima saman þessir tveir neysluhópar. Við lítum niður á þetta fólk, viljum helst ekki vita af þeim og horfum annaðhvort í hina áttina eða með fyrirlitningu á þau þegar við göngum fram hjá þeim, sem við flest gerum einhverntímann.

Þetta fólk er ekki að fara fram á mikið, aðeins þak yfir höfuðið og kannski aðstöðu til að þrífa sig og fötin sín..... og það er í þannig aðstöðu, að þeim er alveg sama þótt þau þurfi að deila þakinu og aðstöðunni með mörgum. Bara að þau þurfi ekki að liggja úti. Mjög margt af þessu fólki er líka á því sem kallast líknandi meðferð, þ.e. að þeim verður varla bjargað úr fíkn sinni eða þeirra sjúkdómur verður ekki læknaður, en þau eiga samt rétt á að lifa með, þó það sé ekki nema pínulítilli, reisn. Og það er skylda okkar að hjálpa þeim með það, alveg eins og við hjálpum öðrum sjúklingahópum sem ekki eiga von til lækningar.

Mér finnst velferðarráð Reykjavíkur ekki vera að standa sig og formaðurinn, Jórunn Frímannsdóttir, finnst mér ekki vera starfi sínu vaxin. Hún er búin að tala um einhver smáhýsi fyrir lítinn hluta þessa fólks í næstum því tvö ár, án þess að það gerist neitt í þessu máli. Jórunn sat fyrir svörum eftir viðtalið við Sigurð Gretti, í Íslandi í dag, þennan dag og hún svaraði nánast engu sem hún var spurgð um. Hún virtist ekki hafa nokkuð vit á því málefni sem fjallað var um. Hún endurtók í sífellu að verið væri að vinna í þessu máli og að hún hefði ekki upplýsingar um þetta og hitt eða hinar og þessar tölur, þótt hún afneitaði engu og fullyrti ekkert, hún gæti bara ekki svarað því að svo stöddu. Ég segi nú bara: Hvernig getur konan verið forstöðumaður ákveðins málaflokks í a.m.k. 18 mánuði án þess að hafa þess konar upplýsingar og/eða vitneskju um málaflokkinn??? Þessi kona er greinilega búin að vera að eyða sínum tíma í annað, eins og reyndar öll borgarstjórnin.... það hefur lítið gerst í öllum málaflokkum......

Sem fyrrum starfsmaður Heilsuverndarstöðvarinnar veit ég að þetta mál er búið að vera í bígerð MJÖG lengi..... hvað er sífellt að tefja? Hvernig væri að borgarstjórn færi að GERA eitthvað og kannski spara yfirlýsingar á móti. Við borgarbúar erum langþreytt á yfirlýsingum og nýjum stefnuyfirlýsingum, nú viljum við smá ACTION......

 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband