Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2008

Afborganir til LÍN 1. sept. ....ráðamenn þjóðarinnar, hvað eruð þið að hugsa??.... eða eruð þið að hugsa yfir höfuð???

Sumarið er tíminn, segir Bubbi, en ég segi að haustið sé tíminn. Það er allavega minn tími. Þegar það fer að hausta færist kyrrð og ró yfir mína sál, pressan á útivist fer minnkandi og það fer að verða leyfilegt að kúra bara undir teppi á sófanum með kertaljós alls staðar. Og mér finnst það æðislegt.

Á haustin er maður líka að verða vel mettur af grillmat og allavega ég fer að hlakka til þess að elda þennan venjulega gamaldags heimilismat eins og kjötbollur í karrý.... eða í brúnni sósu með kartöflumús, fisk í raspi, spaghetti og kjötsósu, hrísgrjónagraut og lifrarpylsu, kjötsúpu og pottrétti með hrísgrjónum.

Á haustin kemst rútínan aftur í gang, skólinn byrjar, unglingurinn hættir að vaka fram eftir, ég fer að lesa bækur undir teppi í sófanum og svo getur maður skipt frá hvítvíni yfir í rauðvín þegar mann langar að hugga sig. Af því að hver drekkur hvítvín, í svartamyrkri með beljandi rigningu eða stórhríð..... ?? Tounge

Haustið hefur þó löngum haft einn leiðinlegan fylgifisk og það er afborgunin af námslánunum sem alltaf kemur með gjalddaga 1. september. Og líka núna. Og þetta er ÞUNGA afborgunin, sem er tekjutengd, þannig að hún getur alveg verið einhver summa sem telur í hundruðum þúsunda en ekki tugum.... Og þessi greiðsluseðill valt einmitt inn í póstkassann minn í dag. Og eins og kvíða- og áhyggjumanneskju er von og vísa fékk ég náttúrlega nettan sting í magann, bara við það að sjá umslag merkt LÍN í bréfabunkanum mínum. Eins og strútnum sæmir, var ég að sjálfsögðu búin að gleyma að afborgunin af námslánunum væri þessi mánaðarmót. Og ég horfði á umslagið í nokkra klukkutíma áður en ég tók af skarið og opnaði það..... því að sjálfsögðu átti ég ekki rassgat fyrir afborguninni. Ég þurfti að fá mér kaffi og kveikja mér í sígarettu áður en ég settist niður, andaði djúpt og reif upp bréfið...... "Fuck, fuck, fuck", hvíslaði ég með sjálfri mér og fórnaði höndum. Og einu sinni enn: "FUCK!" .....ég kveikti mér í annarri og skoðaði seðilinn vel og vandlega þar til allt í einu rann upp fyrir mér ljós: AMEN. GREIÐSLUÞJÓNUSTAN InLove

Auðvitað tekur greiðsluþjónusta mín í Landsbankanum reikninginn. Ég er nú búin að borga allt árið heilan helv... slatta á mánuði, einmitt til þess að mæta afborgunum eins og þessum, .......svo, allar áhyggjur burt, eins og hendi væri veifað. Ég var alveg búin að gleyma því að Lánasjóðurinn væri inni í þessarri þjónustu minni. En oh my God, (og ég veit að það er bannað að leggja sér Guðs orð til hégóma ..... eða einhvers.....), anyway þá fyrst þyngdist ég um 40 kíló og svo léttist um þau aftur á nokkrum klukkutímum, geri aðrir betur. En ég lofa þá konu sem er þjónustufulltrúi minn í Landsbankanum og skal fullyrða, að aldrei hefur önnur eins dís starfað við þessi mál, hún hefur gjörsamlega breytt lífi mínu frá því að hún fékk mig til að fara í þessa greiðsluþjónustu Smile

Fór samt að skoða þennan seðil frá LÍN betur, og fæ ekki betur séð en ég sé að skulda 1,3 milljónir í verðbætur á lánin mín frá þeim. SHIT! Nú er ekki eins og námsmenn séu að lifa lúxuslífi á þessum námslánum, ég var á mínum lánum frá 1996 og fékk 80.000 kr. á mánuði. Á þessu átti ég að lifa. Ég var einstæð móðir með eitt barn, í útlöndum, (þar af leiðandi ekki kostur á aðstoð frá aðstandendum við pössun, skyldi maður vilja vinna eitthvað með náminu, enda lækka allar tekjur hvorteðer rétt þinn á námsláni), átti að borga húsaleigu, (sem var á mínum námstíma lægst um 36.000 kr og hæst 49.000 kr. (Ísk)), mat, skólabækur, föt fyrir bæði mig og afkvæmið, (og í hans tilfelli var auðvitað um að ræða vetrarskó, vetrargalla, úlpu, gúmmístígvél, inniskó, sumarskó, sandala, sumarjakka osfrv. hvert einasta ár), ferðakostnað með lestum og strætó áttu lánin einnig að dekka, rafmagn og hita (sem ekki er gefins í Danmörku!!) og allt annað sem maður þarf til þess að lifa. Auk þess fékk ég lán fyrir einni ferð til Íslands á ári, en ég nýtti þær ekki allar. Samt sem áður skuldaði ég um 4 milljónir eftir að námi lauk og núna mörgum árum seinna er skuldin komin upp í 5.622.730.- ....!!! Samt er ég búin að vera að borga af þessum lánum því sem nemur rúmlegum mánaðarlaunum mínum á ári, í heil 5 ár!!!

Á þetta fyrirkomulag að virka hvetjandi fyrir ungmenni að hefja háskólanám??? Af hverju í ósköpunum eru þessi lán verðtryggð?? Getur ríkið ekki séð af þessarri verðtryggingu með því sjónarmiði að afla auðs fyrir íslenska þjóðfélagið, sem að sjálfsögðu felst í því að sem flestir mennti sig? Alls staðar annars staðar á Norðurlöndunum er það viðurkennd fjárfesting hvers ríkis, að gefa sem flestum færi á að mennta sig á háskólastigi. Í því fellst auður og framtíð þjóðfélagsins til lengri tíma litið. En nei, íslenska ríkið ætlar að græða á því að hafa lánað slippum og snauðum námsmönnum fé til að mennta sig, græða á því svo um munar. 1,3 milljónir hafa bæst við mín námslán með verðtryggingunni!!!!

Og auk þess, þegar þú kemur úr námi og hefur ekkert á milli handanna annað en einbeittan vilja til þess að vinna þér inn pening, þá verður þér refsað svo um nemur. Ef þú vinnur svo, svo mikið, þá skalt þú "skíta-ný-skriðin-úr-háskóla-auminginn" þinn borga hátekjuskatt, þú færð lægri húsaleigubætur og vaxtabætur, barnabæturnar þínar verða að engu plús það að afborganir þínar af námslánunum þínum verða þér ofviða, vegna þess að allt er þetta tekjutengt. Þú færð hvergi séns í þessu landi til þess að koma undir þig fótunum. Þótt svo að þú sért að borga þeim mun meira til ríkisins með þinni miklu vinnu, ertu verðlaunaður með rassskellingu. Er þetta ekki bara að hvetja til þess, að við öll höldum okkur innan ákveðins tekjuramma, þar sem við borgum sem lægstan skatt og fáum sem mest á móti frá ríkinu? Ég er búin að reikna þetta út, og það borgar sig fyrir mig að vinna minna, borga minna til ríkisins í formi skatta, fá meira í barnabætur og borga minna af námslánum. Auk þess sem ég á þá meiri frítíma. Er ekki eitthvað að hjá ráðamönnum þessarar þjóðar???

Einhverju sinni var í félagsmálaráðuneytinu maður, sem vildi breyta þessu. Hann vildi auka sveigjanleika þessarrar svokallaðrar millistéttar í þjóðfélaginu, stéttin sem er nýkomin úr námi, á ekki neitt en vinnur sér inn dágóðar tekjur á pappírnum, þetta er unga nýmenntaða stéttin sem vinnur hörðum höndum að því að koma sér upp húsnæði, bíl og öðru. Stéttin sem er með ung börn á framfæri, börnin sem eiga eftir að sjá um þetta þjóðfélag seinna meir. Þessi stétt er að vinna rassgatið út úr buxunum á sér til þess að koma sér fyrir í Ófjölskylduvænu þjóðfélagi en fær bara að launum, spark í rassinn frá hinu opinbera, og þá er ég ekki að tala um alla "ný"útskrifuðu viðskiptafræðingana hjá KB banka..... Hvar er þessi hugsjón núna þegar þessi maður fór frá Félagsmálaráðuneytinu? Hver hefur tekið hana upp? Sá sem mun gera það, mun fá mitt atkvæði í næstu kosningum....

 


Alltaf brjálað að gera og mikið gaman ...... eða hvað....?

Sæmilega viðburðarrík helgi að baki..... byrjaði á rólegu kósý kvöldi með syninum á föstudeginum, eða það hljómar allavega mun betur heldur en að hann hafi haft meiri áhuga á að eyða kvöldinu með vinum sínum heldur en mömmu gömlu..... en allavega í huganum var ég búin að frátaka og helga kvöldið þessum unglingi, þótt við höfum í raun lítið gert saman annað en að borða kvöldmatinn og grenja yfir handboltafréttunum..... jæja okey, ég grenjaði en hann hélt karlmennsku sinni.....Crying

Svaf svo hressilega yfir mig á morgunvakt laugadagsins.... aldrei gaman að vera vakin af símanum 20 mínútum seinna en maður ætti með réttu að sitja tilbúinn, hvít/bláklæddur með kaffibolla fyrir framan sig. Ég vaknaði í loftköstum og fór út í loftköstum. Róaðist svo þegar leið á daginn Joyful

Svo var sumarlokapartý lillu systur á laugadagskvöldið, og my man hvað allt var flott hjá henni. Fullt af veitingum, áfengið flaut, margar Pína Có Lödur drukknar og góð tónlist, að ógleymdu frábærlega skemmtilegu fólki í öllum krókum. Bræður mágs míns eru flottir gítarspilarar og héldu þeir uppi stuði á sólpalli þeirra hjúa löngu eftir miðnætti, okkur gestum, og örugglega aðeins minna nágrönnunum, til mikillar gleði...... Sungu allir sem tungu gátu hreyft Hotel California, Stál og hnífur og Space Oddity. (Þeir sem gátu ekki hreyft tunguna á ensku hreyfðu hana í öðru og blautara hljómfalli.... ) Tounge

Unglingurinn var heima með vin sinn til halds og trausts á meðan móðirin djammaði. Pöntuðu þeir félagar pizzu og leigðu DVD-myndir og gátu eiginlega ekki beðið eftir að ég færi út um dyrnar. Unglingnum hafði reyndar boðist að gista á heimili vinarins, en það var ekki nærri eins mikið sport..... þeir voru búnir að setja sig í stellingar löngu áður en ég fór af stað og mér leið eins og ég væri komin í hjónaband eða eitthvað, þegar ég stöðugt var að fá pirraðan "mann" í baðherbergisdyrnar með spurninguna: "Ertu ekki að verða tilbúin???" ..... "Hvenær ferðu?...." Devil

Ekki af því að til stæði leynipartý hjá drengnum og vininum, enda fann ég þá þegar ég kom heim, sofandi hvorn um annan, með fæturna út af svefnsófanum (af því að þeir höfðu greinilega af einhverri ástæðu, sem var mér hulin, valið að sofa þvert yfir sófann í staðinn fyrir langsum.....) og poppskálina ennþá á milli þeirra, reyndar með nokkrum "poppum" hingað og þangað um bæði rúmið og herbergið..... en hva... Wink

Það var SAMT vaknað til úrslitaleiksins en ég viðurkenni alveg að ég sótti mér fleiri aukatíma í svefni þegar leikurinn var búinn. Þaut svo á kvöldvakt kl. 15 og skyldi þar með drenginn aftur eftir einan..... með fyrirmæli um kvöldmatargerð af hæstu sort. Þannig hafði ég tekið fram og stillt upp á réttri hellu einum potti, einni mælikönnu, einum pakka af tómatsúpudufti og einum písk. Í ísskápnum var svo skál með soðnum makkarónum sem drengnum finnst gott að hafa út í súpunni. Nákvæm fyrirmæli um matreiðsluna fylgdu..... greinilega ekki nógu nákvæm þó, því um kvöldið fékk ég upphringingu á Slysó: "Mamma, hvort setur maður vatnið eða duftið fyrst??" og ....."og sjóða, er það þegar það fer að bobbla í pottinum?" .... já, er nema von að krakkin spyrji.... Wink

Annars nokkuð róleg vakt á Slysadeildinni í kvöld, þyrlan lenti einu sinni með slasaða og alltaf nokkur viðbúnaður í kringum það en sem betur fer engin alvarleg meiðsl þar í þetta skiptið.

En shit hvað það er yndislegt að vinna á góðum vinnustað og með góðu fólki. Manni líður alls ekki eins og maður sé að fara í vinnuna, því ég er í rauninni að fara að hitta fullt af súper skemmtilegu samstarfsfólki, fólk sem er virkilega fært á sínu sviði og fólk sem er alls ekki leiðinlegt að eyða átta tíma vakt með. Þetta er næstum eins og að fara með skemmtilegu fólki á kaffihús nema í okkar tilfelli göntumst við á hlaupunum, í pásum og þegar hlé gefst á milli verkefna. Hjá okkur vekja líka sífellt ný atvik tilefni kátínu þar sem áreitið er óendanlegt og eitt einkennir þessa "kaffihúsaferð" starfsfólks slysadeildar og það er að við getum aldrei fundið kaffibollann okkar af því að það er næsta víst að á hverri vakt sé einhver einn með tiltektaræði, sem reglulega hendir öllum bollum sem ekki sitja í hendi einhvers akkúrat þá stundina..... Cool ....nefni að sjálfsögðu engin nöfn...... Wink

Ójá, það er sko mikið dýrmætt að eiga góða vinnufélaga, vinnufélaga sem maður virkilega þarf að stóla á og eiga öfluga samvinnu með á stundum, vinnufélaga sem bakka mann upp ef þarf, sem þú getur talað við á alvarlegri nótunum.... og léttu.... vinnufélaga sem þú getur hlegið með og grínast, vinnufélaga sem þér líður vel með. Það er gulls ígildi. Á slysadeildinni upplifum við margt gott, margt slæmt og margt mjög sorglegt saman, við þurfum að vinna saman skipulega og líka sem einstaklingar, allir verða að skila sínu hlutverki svo hlutirnir gangi fyrir sig og svoleiðis aðstæður verða til þess að þú kynnist innri manni þinna vinnufélaga betur en gengur og gerist á mörgum vinnustöðum. Þú heldur ekkert uppi einhverri stálgrímu þegar þú færð mikið slasað lítið barn á borðið fyrir framan þig, mikið slasaða einstaklinga úr bílslysum eða mann á besta aldri með heilablóðfall...... Við upplifum saman líf og dauða, við vinnum saman í mörgum mjög erfiðum aðstæðum og þurfum virkilega að eiga gott samstarf. Þetta allt gerir það, að við þekkjumst vel, samskipti eru yfirleitt góð, vandamál eru leyst hér og nú og stefnan er sú, að þú eigir aldrei að ganga út frá vinnustaðnum með óleyst mál, leiðindi eða móral í bakpokanum. Auðvitað kemur það stundum fyrir á krítískum mómentum að fólk hnýtir í hvert annað, þú hnýtir í einhvern eða einhver hvæsir á þig, en ég held að við höfum öll skilning á því að þannig er mannlegt eðli, við bregðumst misjafnt við stressaðstæðum, við berum líka misjafna ábyrgð og allt svona er gleymt strax. Við tökum því ekki persónulega. Og allt þetta er einmitt svo frábært við allt starfsfólk slysadeildarinnar, hvort sem það eru læknar, hjúkrunarfræðingar, sjúkraliðar, starfsmenn sem sjá um að flytja fólk á milli staða og þrífa sóðaskapinn eftir okkur á sárastofum eða í gipsherberginu, sjá um að við höfum alltaf allt til taks sem við þurfum af hjúkrunar- og læknishlutum, ræstingafólkið eða fólkið í móttökunni. Á slysadeildinni eru allir í sama liðinu, hvaða stöðu sem fólk hefur. Ekket okkar er ómissandi og ekkert starf hefur minna gildi en annað. Við erum öll í sama liðinu og það er ákveðin vellíðun og samkennd sem það vekur með fólki, þótt við fáum misjafnlega borgað.....

Ég ætla að tileinka þessa færslu öllu því frábæra fólki sem ég vinn með dagsdaglega á slysadeildinni. Ég hef sjaldan unnið með jafn samstilltum hópi fólks sem aðeins vill gera sitt besta og mér finnst þetta fólk ekki njóta sanngirnis eða sannmælis þegar alltaf er verið að tala um hve langur biðtími er á slysadeildinni. Fólk er alls ekki að gera sér grein fyrir hve umfangsmikil starfsemi þessarar deildar er og hve eitt lítið atvik getur haft mikil áhrif á alla aðra starfsemi og biðtíma.

Takk til ykkar, samstarfsfólk mitt..... mér bara þykir ógeðslega vænt um að eiga ykkur að í dagsins önn Smile

Og p.s. þið kollegar mínir, sem þykist alltaf vera að lesa "mig" hér..... setjið þá inn komment til mín svo ég geti séð að þið voruð hérna...... InLove


Grenjandi af gleði í náttbuxunum....

Þvílíkur stórleikur sem strákarnir buðu okkur upp á í hádeginu, ég þori að veðja að atvinnulífið hafi verið lamað þennan tíma í dag á meðan þeir spiluðu. Leikgleðin, baráttan, þeir stoppuðu aldrei og unnu upp forskot á Spánverjana aftur og aftur, þrátt fyrir sorglega nýtingu á mörgum dauðafærum.

Ég skal segja ykkur það að ég grét af gleði og samkennd þegar ein mínúta var eftir í leikslok og íslenska liðið var þegar byrjað að fagna af bekknum. Ég var að rifna af monti yfir að vera Íslendingur og ég er viss um að fleiri hafa átt bágt með sig þá stundina. Mér sýndist Valtýr Björn vera svo hrærður að hann gæti varla talað eftir leikinn og Þorgerður Katrín þurrkaði tár þegar rætt var við hana stuttu seinna í Menntamálaráðuneytinu.

Það er ekki minnsta spurning hvar ég verð á sunnudagsmorguninn, ekkert fær stöðvað mig í að horfa á úrslitaleikinn.

Áfram strákar, djöfull eruð þið flottir!!! Smile 


Ég fæ borgað per vinnuhlutfall í þágu sjúklinga ........ á hvernig samningi er borgarstjórnin???

Síminn minn hringir á öllum tímum sólarhringsins. Stundum hringir hann eftir hádegið, stundum seinni partinn, stundum á kvöldin og mjög oft snemma á morgnana, t.d. klukkan 8:17.... 8:47...... 9:02...... 9.27 ......11:15 og svo framvegis eftir guðs óleyfilegu stígum. Næstum aldrei fæ ég hringingu frá vinum mínum eða fjölskyldu því að þegar maður vinnur svona óreglulegan vinnutíma og hefur gert í mörg ár, þá er það orðin yfirlýst skoðun manns náinna; "við hringjum ekki í þig, því við vitum aldrei hvenær þú ert sofandi eða vakandi..... HRINGD ÞÚ í okkur þegar þú ert vakandi og hefur tíma!!!" ......þess vegna er símareikningur minn ótæpilega hár..... (mér finnst að Landspítalinn ætti að taka þennan lið með í launaútreikning okkar starfsmanna......)

Ókristilegur tími, fyrir mér, fer eftir því hvernig vakt ég VAR að vinna eða eftir því hvernig vakt ég ÉR AÐ FARA að vinna..... þannig er ókristilegur tími sólarhringsins eiginlega alla tíma hringsins í mínu lífi, mismunandi eftir dögum og mánuðum..... annaðhvort er ég sofandi eftir vakt eða að hvíla mig fyrir vakt. Og að sama skapi er oft "kristilegur" tími hjá mér þegar hjá öðrum er ókristilegur.... ég er oft vakandi þegar flestir eru sofandi og næstum engin leið er til þess að fá fasta reglu á svefntíma eða matarvenjur mínar. Það er nákvæmlega ENGIN rútína í mínu lífi nema skóladagar sonar míns, sem ég neyðist til að halda við lýði.... vakandi eða sofandi, eða hálft af hvoru.....

Svona er þessu farið með flest vaktavinnufólk. Annaðhvort erum við vakandi sofandi í einhverjum erindagjörðum eða sofandi vakandi í öðrum.... Engin furða að mínir nánustu hafi fyrir löngu hætt að þora að hringja í mig.....

Þannig er það því, að oftast þegar síminn minn hringir þá sýnir númerabirterinn minn eitthvert stofnananúmerið.... já, gott fólk, það er svo gott sem öll mín innkomandi símtöl núorðið; stofnanasímtöl og svo Mr. K. sem er sá eini sem nokkurnveginn veit hvernig, hvar og hvenær ég er að vinna.... Í yfir 90% af tilfellum byrja númerin á 543..... og þá veit ég að það er símtal frá Landspítalanum. Og líklegra en ekki, þá eru þessi símtöl þess gerðar, að það er verið að biðla til mín um að taka vaktir á einhverri deild..... allavega get ég alveg stólað á það að ekki er verið að hringja frá "yfirbyggingu" spítalans til að bjóða mér betri laun fyrir vel unnin störf.....

Svo undantekningarlaust þá vel ég það, að svara ekki þessum símtölum, þ.e. þegar símtölin eru að vekja mig, sem þau mjög oft eru að gera. Ég nenni ekki að víla og díla um vaktir hálfsofandi og svo er því eiginlega líka þannig farið, að eins og staðan á LSH er núna, þá get ég eiginlega valið um vaktir.... ef ég missi af þessarri deild þá bara býð ég fram þjónustu á næstu.... ef mig vantar pening og þar af leiðandi vakt. Ég get alltaf skapað mér vinnu og valið á milli deilda.

Ég geri mér grein fyrir því að ég hef ákveðið forskot.... ég vann í nokkur ár fyrir einkafyrirtæki sem leigði mig inn á spítalann og því hef ég núna unnið á yfir 15 deildum spítalans reglulega, með þeim tíma sem ég vann á krabbameinsdeild LSH og blóðmeinadeildinni..... svo vann ég á hjúkrunarheimili og á Sjúkrahúsinu Vogi ..... svo ég hef ágætis víðtæka reynslu af hinu og þessu.

Ég get auðveldlega gengið inn á margar deildir spítalans og unnið, ég þekki orðið fólk á næstum öllum deildum spítalans og ég get vel sagt það með vissu, að maður er alls staðar velkominn. Ekki kannski alltaf ÉG sem persóna, en ÉG sem starfskraftur er alls staðar velkomin..... þannig er bara staðan fyrir okkur hjúkrunarfræðinga í dag. Við þurfum alltaf að vinna mikið fyrir laununum okkar en við erum í þeirri stöðu að við getum virkilega haft áhrif á launin okkar..... þ.e. unnið meira til að fá meira, sem er meira en margir geta. Fyrir það er ég svo mikið þakklát.

Þess vegna argast ég ekki út í þessar símhringingar sem ég fæ. Þetta eru atvinnutækifærin mín. Og ég veit að "þau" verða ekki fúl þótt ég svari ekki klukkan 8:47, heldur hringi til baka klukkan 12 þegar ég er alveg vöknuð..... þau eru bara þakklát fyrir að heyra í mér. Enda er ég ekki KOSIN til að vinna fyrir þau, ég er bara eitt af þeirra tækifærum..... ég mæti, sinni ákveðinni vinnu, stimpla mig út og fæ borgað fyrir það sem ég inni af hendi á meðan ég var á staðnum.... ég er ekki fengin þangað til að halda áfram að leysa málin eftir að ég stimpla mig út í lok dags..... nei, þá hefur næsta vakt tekið yfir. Þess vegna eru þrískiptar vaktir í heilbrigðiskerfinu....

Ég fæ borgað fyrir þá tíma sem ég vinn, þá tíma sem ég eyði í sjúklingavinnu á spítalanum...... ég fæ EKKERT borgað fyrir að vera vakin á öllum tímum sólarhringsins, ég fæ EKKERT borgað fyrir að tala í korter við ritarann á taugadeildinni um ýmsar vaktir og ég fæ EKKI HELDUR NEITT borgað fyrir það að plana og víla um alls konar vaktir sem ég ætla að taka á smitsjúkdómadeildinni. Svo af hverju skyldi ég taka símann, nema þegar mér hentar?

Aftur á móti fá borgarfulltrúar okkar greitt fyrir það að vera í vinnu fyrir okkur. Ég er ekki að segja að þau eigi að vera í vinnu 24/7..... en þau skulda okkur að minnsta kosti það, að skýra okkur frá því sem er að gerast í borgarmálunum. Við kusum þau FYRIR okkur en ekki öfugt..... Ef verið er að ræða nýjan meirihluta, nýjan minnihluta, minni nýjanhluta osfrv., þá er það þeirra skylda að upplýsa okkur, okkur sem kusum þau og okkur sem borgum þeirra laun, um hvað er í gangi. Það hlýtur eitthvað meira að vera innifalið í 217.000 kr. mánaðarlaunum Gísla Marteins heldur en tvær fundarsetur. Það er hreinlega hluti af starfi borgarstjórnarinnar að svara fjölmiðlum og nota fjölmiðla til að koma upplýsingum til okkar þegnanna.

Að lauma sér út um brunastiga er eitthvað það lélegasta sem ég hef séð í íslenskri pólitík..... þetta er eitthvað það aumasta..... það mætti halda að þau væru bara þarna fyrir sig sjálf en ekki fyrir borgarbúa sem þó eru að borga launin þeirra. Þetta er eitthvað það lágkúrulegasta sem hægt er að ímynda sér, og þegar maður fær ítrekað fréttir af því að "Þorbjörg Helga svaraði ekki símtölum", eða "Gísli Marteinn tók ekki símann"!, ... "ekki var unnt að ná í borgarstjórann að svo stöddu" ...... osfrv ofrv. þá undrar maður sig::: HVER ER AÐ VINNA FYRIR HVERN??? Þetta fólk skyldi átta sig á því, að við höfum engan áhuga á þeim sem persónum heldur höfum við áhuga á þeim störfum sem þau gegna og hvernig þau inna af hendi þessi störf. Þau þurfa ekki að lauma sér út um einhverjar leynileiðir til að skýla sér fyrir fjölmiðlum eins og þau séu Jennifer Lopes og Tom Cruise.

Ég tek ekki símann minn að eigin vali þegar Landspítalinn herjar á mig, en ég er ekki heldur kjörin þangað til að sinna hjúkrunarerindum mínum, ég geri það í þágu fólksins þegar mér hentar, enda fæ ég ekki borgað nema ég sé á staðnum og fyrir þær stundir sem ég er á staðnum. Ég fæ EKKI borgað fyrir að sitja í símanum.... þótt ég sé að tala við LSH.... í mínum frítíma.

Gísli Marteinn og fleiri, telja sig yfir það hafna að svara þeim sem kusu hann og flokkinn hans, Þorbjörg Helga hagar sér eins og ég geri eftir næturvakt, einfaldlega tekur ekki símann..... common, í umboði hverra ert þú að vinna, kona??? Svaraðu spurningum borgarbúa. Heldurðu að þú sért bara þarna fyrir sjálfa þig??? Villi Vill bara lýgur um sig þveran og endilangan og undrast svo að fólk sé að undrast yfir honum!!! Vilhjálmur minn, hefur þú EITTHVAÐ gert til að ávinna þér traust borgarbúa??? Svar: NEI, EKKERT, þvert á móti, þú hefur átt stærstan þáttinn í því að eyðileggja Sjálfstæðisflokkinn!!. ......Jórunn, hefur þú eitthvað gert annað en að fjasa um sama málefnið í tvö ár, hvað hefur gerst? Þú ert ekki enn búin að ná lendingu með þitt aðalmál??? Hvað ertu búin að vera að gera? Og Kjartan, veistu eitthvað í hvorn fótinn þú átt að stíga??? Það skiptir örugglega engu máli, því að ég veit ekki hvor fóturinn er vitlausari hvort sem er. Júlíus Vífill ER ekki neitt í þessum málum, hvorki er né segir, svo hann skiptir engu máli, hann er bara með á myndunum svo að borgarstjórnarflokkurinn líti út fyrir að vera stærri..... Og ÞÚ, sem ég kaus ekki einu sinni til borgarstjóra en verður það samt..... ég vil ekki sjá þig. HVAR ER LÝÐRÆÐIÐ Í ÞESSU ÖLLU??? ....Ég veit vel að ég er að gleyma einhverjum af strumpunum, en ég get ómögulega munað hverjum..... getur ekki skipt svo miklu máli.....

Þessi hópur er til athlægis. Ég er búin að vera skráð Sjálfstæðismanneskja síðan ég var 17 ára, en ég er búin að segja mig úr flokknum. Ég geri mér grein fyrir því að ég er ekkert úrslitaatkvæði í þessum flokki og það er allt í lagi. Ég vildi bara "make a statement..... " .... þetta er ekki hegðun sem mér finnst í lagi og mér finnst ekki í lagi að forysta Sjálfstæðisflokksins sitji á rassinum og geri nákvæmlega ekki neitt, og láti þennan ömurlega borgarstjórnarflokk rífa fylgi flokksins niður..... svo ég geri það sem ég get.... ég segi mig úr þessum bjánalega flokki. Ég er búin að fá nóg af sirkus. Punktur. Basta.


Væntar og óvæntar karlkynsheimsóknir.....

Sonur minn hefur verið hjá pabba sínum síðustu 10 dagana, eða það var að minnsta kosti planið. Með vaxandi aldri drengsins og auknu sjálfstæði er hann þó meira móbíll og sjálfbjarga heldur en hann var og hefur hann því verið að birtast á heimilinu okkar á öllum tímum dagsins, oft á reiðhjóli pabba síns. Reyndar eru fótboltaæfingar alla daga nema föstudaga og því hafa komur hans hingað á heimilið verið í tengslum við æfingarnar en oft hafa þær þó lengst verulega í annan endann. Sem auðvitað er allt í lagi..... ég var að vinna 16 tíma á dag alla vikuna og hafði því ekki hugsað mér að versla neitt inn til heimilisins þannig að einu aukaverkanirnar af þessum óvæntu heimsóknum og dvölum sonarins á heimilinu fyrir mig, voru eilítil matarinnkaup.

Ég hafði þó hugsað mér gott til glóðarinnar á föstudaginn. Mr. K. ætlaði að vera utanbæjar í pallasmíðum við bústaðinn sinn alla helgina en ég hafði stórfelld partýplön þar sem slysadeildin, bráðamóttakan við Hringbraut og slökkviliðið ætluðu að hafa hópeflisdag á laugadeginum með tilheyrandi djammi um kvöldið. Mig langaði samt aðeins að ná að knúsa kallinn eftir langa og erfiða vinnuviku, svo ákveðið var að herrann myndi koma í smá heimsókn til mín, á leið sinni austur seinnipartinn. Engin æfing var hjá unglingnum og því ekki von á að hann birtist skyndilega í dyrunum, íbúðin þannig "barn"laus og hægt að gera fullorðinshluti í friði.... Smile

Ég var að vinna 17 tíma næturvakt aðfaranótt föstudagsins og það var því dauðþreyttur hjúkrunarfræðingur sem skreið undir sæng klukkan 10 á föstudagsmorgni. Ég rankaði úr rotinu þegar Mr. K. hringdi til að vekja mig sjö klukkutímum seinna og skrölti fram óstyrkum fótum og ennþá með augun hálflokuð. Þau glenntust þó snarlega upp þegar ég rak augun í risaskó drengsins míns í forstofunni..... ég rauk inn í stofu og fann drenginn í mesta sakleysi í sófanum að horfa á sjónvarpið. "Bíddu, bíddu, hvað ert þú að gera hér??", nánast hvæsti ég. Hann leit upp með undrunarsvip: "Ég ætlaði í fótbolta með Ísleifi", svaraði hann. "Og af hverju eruð þið þá ekki úti í fótbolta?", hvæsti ég aftur og gat næstum ekki leynt pirringnum. "Við erum búnir að vera í fótbolta, ég nennti bara ekki að hjóla heim til pabba alveg strax", svaraði hann hinn rólegasti Pinch

Ég strunsaði inn á bað til að bursta tennur og hugsa næsta leik í stöðunni. Þó hann sé yndislegur, hann sonur minn, þá var hann ekki alveg inklúderaður í plönum mínum fyrir þennan eftirmiðdag. Ég gaf mér góðan tíma inni á baði og kom svo fram, reyndi að hljóma hin rólegasta og eins casual og ég gat: "Jóhann minn, viltu ekki fara að drífa þig til pabba þíns?"

Hann: "Jú, ég er alveg að fara." Var samt búinn að kveikja á tölvunni og leit ekki upp þegar hann svaraði. Ég reyndi að vera þolinmóð og líta út eins og það væri ekkert stress í gangi. Þegar drengurinn sýndi ekkert fararsnið á sér korteri seinna var ég orðin dálítið óþolinmóð og kallaði fram: "Jóhann minn, farðu nú að drífa þig af stað!"

Hann bara: "Já, róleg...."

Ég: "Það er líka komið svo mikið rok, drífðu þig, annars verður svo erfitt að hjóla."

Hann: "Það var líka rok þegar ég kom."

Ég gat líklega ekki leynt óþolinmæði minni lengur þegar ég nánast skipaði honum að standa upp og fara af stað. Hann var pínu hissa og spurði: "Hvað, ertu að reka mig af heimilinu mínu???" Woundering

Já, eiginlega var ég að því, þótt ég væri að reyna að fara fínt í það..... en ég meina, maður hlýtur nú að eiga rétt á smá privacy, er það ekki? Að minnsta kosti á þeim tíma sem drengurinn Á opinberlega að vera í sumarfríi hjá pabba sínum.... þá á maður ekki að eiga það á "hættu" að hann labbi inn á hvaða tíma sólarhringsins sem er.....

Þetta atvik varð til þess að ég gerði mér grein fyrir því, hvað við einstæðu foreldrarnir erum í raun heppin fyrir þessa aðrahvora helgi sem við getum ráðstafað að vild, án tillits til barna. Þessar helgar getum við sofið út, farið út úr bænum, unnið, djammað og bara gert allt sem okkur langar til án þess að þurfa að redda pössun eða vakna snemma. Þessar helgar getur maður haft alveg fullorðins. Og svo haft hinar helgarnar á móti alveg helgaðar krökkunum. Þetta er í raun algjör lúxus. Því þótt við elskum börnin okkar alveg út af lífinu, þá er nú ósköp gott að vera barnlaus öðru hvoru, er það ekki? Halo

Ég náði barnlausa tímanum mínum með Mr. K. ..... núna er komið sunnudagskvöld, ég er búin að djamma og hvíla mig og nú er ég barasta farin að sakna drengsins míns, núna má hann alveg fara að drífa sig heim til mömmu sem elskar hann nú mest af öllu, þrátt fyrir allt.....InLove


Óendanlegur farsi í ráðhúsinu....

Ég verð að viðurkenna að ég nenni ekki einu sinni að lesa eða hlusta á þessa frétt hér, finnst alveg nóg að hafa heyrt óminn af þessu í sjónvarpsfréttunum. Það er bara þannig, að það er ekkert sem er fréttnæmt eða kemur á óvart lengur í þessum gjörsamlega óstarfhæfa borgarstjórnarflokki..... það er eiginlega meira fréttnæmt ef þau eru ekki að klúðra einhverju, og mér fyndist það virkilega áhugaverð frétt ef þetta fólk færi nú að vinna að málefnum borgarinnar í stað þess að sparka í rassgatið á hvort öðru. Hvað erum við að borga mörgum fyrrverandi borgarstjórum biðlaun í dag???

Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki lengur mitt atkvæði né traust í Reykjavík og það er langt síðan hann glataði því.


mbl.is Hanna Birna borgarstjóri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svona vítt og breitt um allt og ekkert......

Ojá, ójá, massa bloggleti..... hef bara haft öðrum hnöppum að hneppa..... eins og:

Ég fór í útilegu með syni, systur og systursonum........ við tjölduðum tjaldvagninum á Laugum í Sælingsdal, í Dölunum, sem reyndist vera alveg yndislegur leyndarstaður.... alls ekki margir á tjaldstæðinu, fjall í baksýn og reyndar allan hringinn í kring, lækur sem rann í gegnum mitt tjaldstæðið og hitnaði upp í líkamsgráður þegar á leið...., mikill gróður og einstaklega fallegt umhverfi..... eini mínusinn var að Ríkið í Búðardal var bara opið milli kl. 17 og 18 virka daga...... en við fórum bara í fjöruferð með strákana á meðan við systur biðum eftir að Ríkið opnaði aftur á mánudeginum.....Tounge

.....fjöruferð sem leiddi til þess að það sprakk á stóra Ford jeppanum okkar, og við systur þurftum að taka á honum stóra okkar..... með fjóra fjöruga drengi í bílnum, staddar úti í rassgati og með gat í dekkinu..... eeeeennnn við systur redduðum því eins og öllu öðru þessa daga, fundum út úr því HVORT það væri varadekk og líka HVAR það væri staðsett, og svo HVERNIG við ættum að koma því þaðan sem það var og þangað sem það átti að vera..... osfrv. osfrv....... styðst frá að segja, þá gekk þetta allt vel...... nema, við misstum af Ríkinu í Búðardal....Crying

En, við náðum heitasta degi ársins,  og örugglega á heitasta stað landsins, í okkar útilegu..... nebbla í Laugum í Sælingsdal var 28 stiga hiti og allir voru næstum því allsberir á tjaldstæðinu..... þónokkuð af flottum rössum að glápa á..... kannski ekki eins og í Laugardalslaug, en samt.....Cool

Svo fór sonurinn til Eyja með systur minni og fjölskyldu hennar..... fjölskylda mannsins hennar er úr Eyjum svo sonurinn fékk að upplifa Þjóðhátíð meðal heimamanna, hann fékk að vera í Dalnum til kl. 01 eftir miðnætti, og svo fékk hann heiðurinn af því að vera aðalbarnapía systur minnar og stóð hann sig að sögn vel..... enda sver hann sig í móðurætt sína.....Wink

Einhverntímann um þetta leytið fór ég 18 holur á Kiðjabergsvellinum, og gerði það bara býsna vel..... svona miðað við mig..... Ég sem er algjör golf-hálfviti, fékk það hrós frá Mr. K. að nú væri ég loksins hæf.... og fær.... til þess að spila við "almennilega" golfara.... eins og hann..... ég var allavega ekki allan tímann að eltast við kúlurnar mínar hingað og þangað... þær voru alltaf inni á brautinni og teighöggin mín heppnuðust öll ágætlega... miðað við mig sko.... þetta var ógeðslega skemmtilegt... og á eftir fengum við okkur hvítvín og bjór í golfskálanum með "öðrum golfsnillingum".....Smile

Á þessum tíma náði ég líka að fá brjóskloskast..... brjósklos sem hefur hrjáð mig í lengri tíma, en þurfti endilega að fá "gennembrud" á þessum tíma...... en það mál er undir control now..... ætli ég fari ekki í aðgerð fljótlega núna eftir margra ára sterasprautur í rassinn, sem by the way, eru langt frá því að vera þægilegar.....GetLost

Annars hef ég eytt tíma mínum í sumarbústað Mr. K., þar sem ég hef fengið útrás á margan hátt, þar á meðal fyrir áráttuhegðun mína, þar sem ég hef endurraðað eldhúsi hans eftir mínu höfði, spáð í skáparöðun, kysst og knúsað flottan karlmann og svo raðað handklæðum eftir litum og öðru eftir stafrófsröð....Wink

Og svo náttúrlega er ég byrjuð að vinna líka eftir sumarfrí, og það er bara tough, en líka gaman, maður þarf bara að venjast því. Frábært fólk sem ég vinn með, alltaf nóg að gera, en maður er bara aldrei alveg tilbúinn til að hætta í sumarfríi..... en ég er að æfa mig.....Blush

Skrifa betur næst og vonandi um meira mikilvægari hluti..... er í "afeitrun" og "aðlögun" eftir sumarfrí núna.......

Kíki á ykkur næst...... verð að fara að sofa núna.... Wink


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband