Einu sinni var..... ég Sjálfstæðiskona. Núna....... veit ég það ekki lengur!

Það er líklega að bera í bakkafullan lækinn, að ætla að tjá sig um borgarstjórnarmálin síðustu daga. En mig langar samt að koma minni skoðun á framfæri.Ég er ein þeirra sem var orðin langleið á stjórnartíð R-listans með allri þeirra skuldasöfnun, og ég vildi Sjálfstæðisflokkinn til valda þegar Reykvíkingar síðast fengu að kjósa um borgarstjóra sinn. Ég var manna glöðust að þeir skyldu vinna sigur í þessum kosningum, og jafnvel fannst mér Vilhjálmur að vissu leyti eiga það skilið, að fá að ljúka sínum langa ferli í borgarráði, sem borgarstjóri - þótt ég í raun væri ekki mikill aðdáandi hans. Ég var fylgjandi meirihlutanum, þótt vissulega hafi mér þótt það í hæsta máta undarlegt, að Sjálfstæðisflokkurinn skyldi velja til samstarfs, þann eina mann Framsóknar sem náði lýðræðislegu kjöri inn í borgarráð. Ekki fannst mér fara mikið fyrir lýðræðinu í því samhengi, að sá flokkur sem borgarbúar höfðu greinilega gjörsamlega hafnað í kosningunum, skyldi samt sem áður eignast Forseta borgarstjórnar. En svona er víst pólitíkin, svo ég ákvað frekar að gleðjast yfir sigri minna manna og kvenna í kosningunum heldur en að ergja mig á þessum eina Framsóknarmanni. Hann væri nú bara einn, drjúgur með sig, Framsóknarmaðurinn.En hann reyndist meira en það. Hann reyndist vera naðra. Einhverskonar Júdas okkar samtíma. Og þótt ég að sumu leyti skilji hans sjónarmið, um að ómögulegt sé að vinna með sundruðum flokki Sjálfstæðismanna- og kvenna í borgarstjórn, þá fannst mér æði kaldhæðnislegt, að þetta eina peð Framsóknarmanna, sem lýðræðið hefði hafnað, skyldi samt sem áður hafa vald til þess að sprengja samstarfið og hefja nýtt með öðrum flokkum. En Björn Ingi var heldur ekki lengi í Paradís, og galt meðal annars Davíð B. Eggertsson, sem örugglega var ágætur svo langt sem hann náði, fyrir hans hnífsstungur í bök hinna mjög svo sáru Sjálfstæðismanna- og kvenna í borgarráði. Og þeir voru opinberlega svo sárir, reiðir og bitrir. Svo mikið, að þeir voru farnir að hljóma eins og samhljóða harmkór, sífellt veinandi og skrifandi um þau svik sem þau höfðu orðið fyrir. Þau voru eins og unglingur í ástarsorg, sígrenjandi sama hlutinn og allir fyrir löngu orðnir leiðir á að hlusta á þau syngjandi sama sönginn, um leið og þau reyndu að koma því að, og fullvissa borgarbúa um, að þau sjö væru öll svo "rosalega" góðir vinir og berðu fullkomið traust hvort til annars. Maður má ekki gleyma því, að þau líka skemmtu sér saman! Vá, það gaf okkur örugglega enn meira traust á þennan hóp...... að þau hagi sér svona algjörlega edrú og í vinnunni..... hvernig eru þau þá í glasi og í fríi??? Já, maður bara spyr.Maður hlaut auðvitað að velta því fyrir sér, af hverju þeim væri svo mikið í mun, að telja okkur "hinum heimsku" trú um það, að þau væru öll svona góðir vinir. Þau hafa eflaust haldið að cirka sextán af "okkur heimsku" ættu heilbrigða skynsemi, sjónvarp og útvarp, og að þessi hluti hlustaði einstöku sinnum á fréttir og myndaði sér sína skoðun á málunum. Það vita það allir, að sexmenningarnir og Vilhjálmur voru á engan hátt samstíga og þau eru ef til vill á einhvern bizarre hátt vinir.Manni fannst eiginlega nóg um, að Gulliver (Vilhjálmur) og putarnir (sexmenningarnir) vældu hver í kór við annan í fjölmiðlum og á bloggsíðum, en að Gulliver myndi ganga svona langt, að tapa gjörsamlega æru sinni á þann hátt sem hann gerði núna..... það hefði ekki mig, Sjálfstæðiskonuna, órað fyrir. Hefur hann ekki heyrt neitt um það, að tapa og bera höfuðið hátt?? Að ganga stoltur fram og berjast áfram á heiðarlegan hátt?? Gulliver hefur greinilega ákveðið að enda sinn pólitíska feril með höfuðið á kaf í drullu, einhverri mestri pólitískri drullu sem um getur. Sú drulla getur ekki einu sinni talist ljósblá. Líklega var Gulliver orðinn "doldið" svekktur, að hafa setið þetta lengi í borgarráði og sem borgarfulltrúi og aldrei fengið að vera æðsti strumpur og greinilega hefur hann ákveðið að leggja allt í sölurnar til þess að svo mætti verða. Svo hann fórnaði pólitískri framtíð litlu strumpanna sinna, fyrir eiginhagsmunapot, og fórnaði í leið flestum þeim málefnum sem við, Sjálfstæðismenn, kusum flokkinn fyrir í borgarstjórn. Við kusum ekki Ólaf F. Magnússon, eins og tölur glögglega sýna...... ekki frekar en við kusum Björn Inga Hrafnsson á sínum tíma. En Vilhjálmi er líklega nokk sama hvað við kjósendur veljum. Hann hefur aðeins eitt málefni á sinni dagskrá, og það er að verða borgarstjóri áður en hann deyr. Og hann ætlar að ná því..... hann skal ná því, sama hvað!Ég lýsi því hér með yfir, að Sjálfstæðisflokkurinn í borgarmálum, hefur tapað trausti mínu. Bæði Vilhjálmur og strumparnir hans, sem þó margir hverjir eru hinir vænstu strumpar og strympur. En að verða svona leiksoppar og undirgefin peð Gullivers æðsta Strumps, sýnir ekki mikið áræði, frumkvæði eða í rauninni, leyfi ég mér að segja, skýra hugsun. Ég vil fá að sjá þau málefni sem ég kýs, verða að veruleika í höndum þeirra manna, sem ég kaus til að gera þau að veruleika. Ég vil ekki sjá þessi málefni verða að verslunarmynt fyrir völd og ég vil ekki sjá þetta fólk kasta þeim efnum sem ég kaus þau fyrir, fyrir borð...... bara svo þau geti hefnt sín á Birni Inga, Degi, Svandísi og Margréti, og hætt að grenja.Ég má.... og mun.... hatt minn og húfu éta, ef forysta Sjálfstæðisflokksins innst inni og í raun styður þetta brölt og klúður. Að svo heiðvirðir menn sem Geir H. Haarde og Illugi Gunnarsson skulu láta hafa eftir sér, að þeim finnist ekkert athugavert við þennan farsa allan saman, lætur mig aðeins byrja að efast um þá líka. Ef til vill verða þeir að koma svona fram, svo ekki opinberist fyrir hinum almennu, "heimsku" Sjálfstæðismönnum hversu mikil sundrung ríkir í raun í flokknum. Kannski verður formaðurinn að "bakka" þennan heimskulega leik upp, en hvað gerir þessi uppbökkun fyrir formanninn? Ojá, ég er reið út í Sjálfstæðisflokkinn í þessu máli, og það var þá varla á mál Árna Johnsen að bæta, eða hneykslið þegar þeir tóku upp samstarf við Björn Inga Hrafnsson. Ég þori varla að nefna Íraksstríðið! Ég hef verið meðlimur Sjálfstæðisflokksins síðan ég var 17 ára, en minn mælir er svo gott sem fullur. Ég mun virkilega endurskoða minn hug fyrir næstu kosningar og það er sorglegt til þess að vita, að svo fámennur og óræður her borgarstjórnarliðs flokksins, með Gulliver Strump í fararbroddi, skuli verða til þess að fæla margt fólk frá flokknum. Og eins og orðin gefa til kynna, þá er ég ekki að tala um mig eina. Ég vinn á einum fjölmennasta vinnustað landsins og hef heyrt skoðanir flokkssystkina minna vítt og breitt - þ.e.a.s. skoðanir frá "the silent part" Sjálfstæðisflokksins. Já, kannski glymur virkilega hæst í tómri tunnu......

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Ég er alls ekki sjálfstæðiskona. En það er fyrst og fremst Villi sem er að skandalisera. Ég held ekki að putarnir séu hamingjusamir og margir sjálfstæðismenn eru ósáttir við þennan gjörning. Ég held að gamli góði Villi verði ekki borgarstjóri á ný. Hann er rúinn  trausti.

Hólmdís Hjartardóttir, 24.1.2008 kl. 21:01

2 Smámynd: Lilja G. Bolladóttir

Ég er algjörlega sammála..... en af hverju fylgja þá putarnir kallinum eins og heimskir hundar? Af hverju rísa þeir ekki upp og þá einfaldlega kljúfa sig frá Villa? Hann er hvort eð er búinn að vera í pólítík en þau eiga framtíðina fyrir sér. Hverstu hliðhollur þarftu að vera, og ef þú ert það, ertu þá ekki bara heimskur?

Lilja G. Bolladóttir, 24.1.2008 kl. 21:21

3 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Eihverjir munu yfirgefa Villa vertu viss

Hólmdís Hjartardóttir, 24.1.2008 kl. 21:26

4 Smámynd: Lilja G. Bolladóttir

Ég vona það..... a.m.k. þeirra vegna - þau eiga í mínum augum ekki mikla framtíð fyrir sér eins og málin standa í dag. Þau verða að taka afstöðu og ef þetta er afstaða þeirra, munu þau blæða fyrir hana. Held ég.

Lilja G. Bolladóttir, 24.1.2008 kl. 21:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband