Gamlir hlutir með sögu og sál....

Suma daga er maður bara fúll á móti og í vondu skapi án þess í raun að hafa ástæðu til þess. Dagurinn í dag var svoleiðis dagur hjá mér. Án nokkurrar ástæðu. Ég mætti í vinnu kl. 8 í morgun og ég var bara ekki í góða grín- og spjallskapinu mínu. Þegar vinnudegi lauk fór það í taugarnar á mér, að það blési köldu og ekki sæist í sólina. Við vorum búin að hugsa okkur að fara upp í Bása og slá golfkúlur, en sú hugmynd kveikti ekki lengur í mér þegar heim var komið. Ég hugsaði með hryllingi til matseldar svo ég var ekki lengi að samþykkja eigin hugmynd um að panta pizzu heim. Meira að segja kötturinn fór í taugarnar á mér, eins og uppáþrengjandi ástmaður, kom mjálmandi á móti mér um leið og ég gekk inn um dyrnar og lagðist svo á bakið og glennti sig fyrir framan mig. Nú skyldi klóra..... hmm, ég ekki alveg í skapinu, sko.... með hausverk eða eitthvað því um líkt....

Og ohh, hefur alltaf verið svona ljótt heima hjá mér? Alltaf þessir sömu sófar (sem þó eru bara þriggja ára....), kattahár á borðstofustólunum (og svo blótaði ég kettinum fyrir að fara úr hárum), ennþá sprungin pera inni á baðherbergi, svo sem bara búin að vera sprungin í 3 vikur án þess að pirra mig að ráði fyrr en núna, en....., skóhillan brotin síðan frændurnir voru í fótboltaleik hérna inni fyrir mörgum mánuðum og af hverju ætli mér finnist svona mikið mál að fara í Ikea og kaupa nýja fokking skólhillu? Ennþá liggur höggbor á gólfinu inni í svefnherberginu mínu og myndastafli stendur (myndarlega) á bak við hurðina í sama herbergi - eins og ég væri nýflutt en er þó búin að búa hér í tvö ár. Einhverra hluta vegna kem ég mér bara ekki að verki í þessum málaflokki. Hvenær ætli ég fari að koma mér að því að koma einhverju skikki á, þó ekki væri nema suma hluti hérna á þessu heimili.

Alltaf sama sjónin sem blasir við manni þegar maður kemur heim. Dö, dö og dö. Alveg sama hvert maður lítur. Ég hafði mest löngun til að henda öllu út og kaupa allt nýtt inn, og fá þar að auki konu til mín, sem myndi taka allt í gegn OG bora í veggina fyrir þessum blessuðu myndum. Pirringurinn yfir ástandi heimilisins og eigin framtaksleysi var alveg að sliga mig hérna seinni partinn.

Til að leggjast ekki algjörlega í kör og volæði setti ég góða músík á og ákvað að taka aðeins til hendinni. Ekki mikið, bara aðeins að þurrka allavega af. Músíkin lyfti mér pínulítið upp og ég fór aðeins mýkri höndum um tuskuna, og hlutina mína, eftir því sem lundin léttist. Og þá gat ég meira að segja farið að sjá ýmislegt sjarmerandi við íbúðina mína og innanstokksmuni. Langflestir hlutirnir mínir eiga sér einhverja sögu, ekki neina merkilega kannski, en sögu engu að síður.

Borðstofuskápana mína keyptu foreldrar mínir sér fyrir þrjátíu árum. Þeir voru rándýrir og eiginlega fyrstu dýru hlutirnir sem þau keyptu sér - mjög fallegir, úr dökkum viði í enskum sveitastíl. Þessir skápar hafa fylgt mér í gegnum alla mína æsku og foreldrum mínum enn lengur, en þegar þau seldu húsið sitt fyrir nokkrum árum, höfðu þau ekki lengur pláss fyrir þessa skápa. Svo mér buðust þeir og þykir mér ótrúlega vænt um þessar mublur.

Einn lampann minn keypti ég mér á blönku námsárum mínum, hann var ef til vill ekki svo dýr, en ég þurfti samt að skera niður í matarinnkaupum í einhvern tíma fyrir okkur mæðgingin á móti lampa-útgjöldunum, en hvað hann veitti mér mikla gleði. Þó ekki sé fyrir annað, þá held ég alltaf upp á þennan lampa, því ég man hve lítið þurfti til að gleðja mann á þeim árum.

Stofuborðið mitt keypti ég líka á námsárum mínum, og hvað ég þurfti að hafa mikið fyrir því að koma því heim í hús. Ég fékk lánaðan bíl og litla kerru hjá vini mínum og svo keyrðum ég og vinkona mín ca. 70 km til að sækja borðið. Hún var ekki með bílpróf svo ég keyrði bílinn, en ég kunni hins vegar ekki að bakka bíl með svona kerru aftan í. Úr þeirri athöfn varð stórskemmtileg minning sem alltaf fær mig til að brosa.... endaði reyndar með því að ég þurfti að húkka kerruna af bílnum og draga hana á handafli yfir bílaplanið hjá vörugeymslunni, öðrum viðskiptavinum bæði til hláturs og öryggis.

Einn blómapott held ég sérstaklega upp á. Í honum var blóm sem besti vinur minn gaf mér, þegar ég flutti í fyrstu íbúðina mína eftir að ég sneri heim úr námsmannaútlegðinni í Danmörku. Blómið er reyndar löngu dautt en potturinn stendur áfram, nú með gerviblómi í..... en samt til minningar um góða vináttu.

Inni á gólfi hjá syni mínum stendur grænn kistill, mjög hentugur fyrir ýmislegt smádót sem maður veit ekkert hvað á að gera við. Millilendir yfirleitt allt í kistlinum áður en því er svo hent svona ári seinna. Þennan kistil smíðaði litla systir mín í skólasmíði þegar hún var tíu ára, og ég man alltaf eftir því þegar hún kom dröslandi honum heim, rosalega montin með sig. Enda mátti hún vel vera það. Hvernig kistillinn endaði á mínu heimili, er mér hulin ráðgáta en hér er hann okkur mæðginum til prýðis og góðra nota.

Í herbergi mínu stendur gamalt skrifborð, sem vinkona móðursystur minnar gaf mér þegar ég var átta ára. Á einni skúffunni er ennþá límmiði með Bambi, sem ég hef sett þar..... já fyrir margt löngu, þegar ég var ljóshærð, saklaus og með tíkarspena. Við þetta skrifborð stóð ég löngum stundum þegar ég var smástelpa og hamraði á eldgamla rafmagnsritvél sem mér hafði áskotnast. Það var þegar ég var harðákveðin í því að verða rithöfundur þegar ég yrði stór, og í neðstu skrifborðsskúffunni eru meira að segja ennþá allar þær sögur sem ég framleiddi sem krakki. Aldrei nokkurn tímann mun ég losa mig við þetta skrifborð. Aldrei.

Í eldhúsinu hangir gamaldags kryddskápur, einn af fáum hlutum sem hafa verið boraðir hérna upp (!!). Þessi skápur er í uppáhaldi, hann fékk ég í jólagjöf frá systrum mínum fyrir ca. 10 árum. Þá var ég líka blankur háskólanemi og hafði dáðst að þessum skáp í ákveðnum búðarglugga í Danmörku í marga mánuði, en aldrei tímt að kaupa hann. Hann er svolítið "sumó", þ.e.a.s. hann myndi í raun sóma sér betur í sumarbústað, en ég elska hann, þótt hann sé eiginlega allt of lítill fyrir öll kryddin mín, þá er hann mikil eldhúsprýði..... finnst mér allavega.

Ég á kaffistell, hvítt postulín með bláum blómum. Með því fylgir oggulítil mjólkurkanna og sykurkar, voðalega dúkkulegt, en þetta stell átti langamma mín, sem gekk bara undir nafninu "amma langa" hjá okkur frændsystkinum. Þetta er ekki "nýmóðins", eins og hún hefði orðað það, en mér þykir afar vænt um þetta kaffistell. Bara vegna þess að hún átti það og nú á ég það.

Í eldhúsglugganum mínum stendur gerðarleg, feit en mjög smart olíuflaska með alls kyns kryddum í. Elsta, besta vinkona mín dröslaði þessarri flösku með sér í handfarangri frá Ameríku fyrir nokkrum árum, því hún þekkti hana Lilju sína og vissi að þetta væri einmitt eitthvað sem mig myndi langa í. Sem var mikið rétt hjá henni, en nokkrum vikum seinna sá hún nákvæmlega eins flösku í búð í Kringlunni og fannst þá bara fyndið að hafa haft svona fyrir millilandaflutningunum af einmitt þessarri flösku. En einmitt þess vegna finnst mér vænt um hana! Já, bæði flöskuna og vinkonuna.

Já, sumir hlutir hafa fylgt mér lengi. Í pottaskápnum má finna lítinn skaftpott með dæld í botninum. Dældin er síðan ég var 19 ára og komst þannig í pottinn þegar ég lamdi einn gamlan kærasta og fyrsta sambúðing í hausinn með pottinum, ég held nú ekkert sérstaklega upp á pottinn af þeim sökum, en þetta er mjög góður eggjapottur. Og svo má alltaf brosa að hinu.....

Okey, það eru ekki allir hlutir á mínu heimili keyptir í Mirale, Heima eða Epal, en mér þykir samt ósköp vænt um þá velflesta. Þeir hafa fylgt mér lengi, eiga sér smá sögu, minna á gamla tíma og eru fullkomlega nothæfir. Auk þess sem það eru þessir hlutir sem láta mér líða HEIMA.

Og eftir eina svona yfirferð á heimili mínu, er ég ekki frá því að skapið sé aðeins betra..... aðeins sáttari við guð og menn, sjálfa mig og heimili mittWink


Túttilísa og Hlessilísa

Þegar ég var lítil átti ég mér tvær ímyndaðar vinkonur.... ímyndaðar eða ekki, það lá alltaf á milli hluta. Mamma mín spilaði með þegar ég talaði um þær, en örugglega fannst henni dóttir sín bara vera "doldið spes".

Stóru systur minni fannst ég bara klikkuð, og hún vék aldrei frá þeirri skoðun, og finnst það líklega ennþá.... að vissu leyti.

En sama hvað þeim fannst, þá átti ég þessar tvær vinkonur, sem hétu þeim mjög svo frumlegu og óþekktu nöfnum; Túttilísa og Hlessilísa. Og þetta er ekkert grín. Það kannast allir í minni fjölskyldu við Túttilísu og Hlessilísu....

Öllum fannst ég hvort eð er smá skrýtin... meira að segja foreldrar mínir fóru ekkert leynt með það að þeim fyndist ég ekki eins og önnur börn.... þau keyptu einu sinni stuttermabol handa mér, þar sem á var letrað með silfurstöfum: "Dont try to understand me.... just love me...." Kannski pínulítið táknrænt fyrir allt sem átti eftir að koma....

En Túttilísa og Hlessilísa fylgdu mér í mörg ár, alveg frá því að ég var um það bil tveggja ára og þar til ég fór í skóla..... þá hurfu þær á mjög dularfullan hátt.... já svona á Enid Blyton hátt....

Ég sat oft löngum stundum sem barn og lék við sjálfa mig, talaði við sjálfa mig, bjó til sögur og samtalsþætti, rifrildi og já.... ég bjó til heilu leikþættina algjörlega ein. Mamma sagði alltaf að ég hefði mjög fjörugt ímyndunarafl. Og aðrir kinkuðu bara skilningsríkir kolli, og urðu svo undarlegir á svipinn.

Ég varð allt í einu rangeygð og þurfti að fara í aðgerð þegar ég var þriggja ára. Ég man mjög vel eftir þessu, ég var alls ekkert hrædd vegna þess að Túttilísa var líka rangeygð og þurfti að fara í aðgerð á sama tíma og ég. Ég næstum man eftir henni á spítalanum, hún var alltaf að kíkja til mín og lét mér líða vel og mér fannst ég alls ekki sú eina í heiminum sem "óvart" hefði orðið rangeygð.

Móðir mín hlustaði þegjandi og samsinnandi á alls konar sögur mínar af þeim stöllum Túttilísu og Hlessilísu, en það runnu á hana tvær grímur einhverju sinni, þegar við vorum að koma heim úr KRON (þeirri, gömlu góðu búð), og við vorum að marsera inn í íbúðina, öll fjölskyldan... pabbi skellti útidyrahurðinni og ég fékk kast: ......"Hey, ætlarðu bara að skella á hana Túttilísu???" Og svo kastaði ég mér grenjandi í gólfið.....

Eða þegar móðir mín kom að mér þar sem ég æddi um gólf, haldandi um klofið og alveg að pissa í mig - og mamma mín sagði: "Lilja mín, drífðu þig á klósettið....." Og ég, sú litla, sirka þriggja, fjögurra ára sagði: "Nnnnneeeeiiii, ég get það ekki, Hlessilísa er á klósettinu...."

Þá var ekki laust við að mamma hnyklaði brýrnar, fengi smá hroll niður eftir bakinu og hugsaði með sjálfri sér: "Damn......"

Hún mamma mín hefur svo sem oft síðar hugsað "damn", "damn", "damn", þótt ekki væri það lengur yfir Túttilísu og Hlessilísu.... en við höfum öll spurgt okkur þeirrar spurningar: "hverjar voru þær og hvert fóru þær???"


Með kökk í hálsinum í morgunsárið.....

Það var yndislegt sumarveður, einhversstaðar mikið sunnar í Evrópu, algjörlega áhyggjulaust og tímalaust líf. Ég flatmagaði á sólbekk við sundlaugarbakkann, rauður kokteill í glasi á borðinu við hliðina á mér, sólarvörnin lá í skugga undir bekknum, tímarit lágu við fætur mínar en ég var of löt til að lesa. Lá bara og skoðaði mannlífið undan barðstóra stráhattinum mínum, hlustaði á krakkana svamla í lauginni og naut svala andvarans sem straukst yfir sólbrúnan líkamann öðru hvoru. Bekkurinn við hliðina á mér tilheyrði mínum heittelskaða, en hann var auður í augnablikinu. Minn elskaði hafði greinilega brugðið sér eitthvað frá, ætli ég hafi ekki verið hálfsofandi þegar hann tilkynnti mér hvert hann ætlaði. Handklæðið hans lá hálfrakt í kuðli á bekknum, björglasið hans tómt og sandalarnir hans á bak og burt.

Umm, ég dæsti, þetta var bara notalegt líf. Við tvö ein í sólarfríi, ekkert í heiminum sem truflaði, nákvæmlega ekkert. Aðeins við tvö að njóta lífsins og hvors annars. Ég dæsti meira, tók sopa af kokteilnum sem var orðinn heitur í sólinni, hélt áfram að njóta lífsins og fylgdist áhugalaus með fólkinu í kringum mig. En úpps, þarna var eitthvað sem stakk í augun.

Ég spottaði minn heittelskaða, þar sem hann kom gangandi í rólegheitum eftir gangstéttinni í töluverðri fjarlægð. Hann virtist ekkert vera að flýta sér, gekk hlæjandi og óþarflega nálægt einhverri gorgeous gellu. Það virtist fara mjög vel á með þeim og ég fékk þungan afbrýðisemissting í magann. Þau strolluðu eftir gangstéttinni og öðru hvoru rákust fingur þeirra saman, ekki óvart bjóst ég við, þar sem ég fylgdist laumulega með þeim á meðan ég þóttist vera sofandi. Þau fóru í sitthvora áttina rétt áður en þau komu að okkar sundlaugarsvæði, en á splittsekúndu áður en hún sneri sér frá honum strauk hann höndinni niður eftir bakinu á henni. Og ég skynjaði það bara eins og konur skynja, að einhver straumur var á milli þeirra.

Stingurinn í maganum á mér var nú orðinn að sárum verk og mér fannst best að þykjast vera sofandi þegar minn maður hlammaði sér niður á sólbekkinn við hliðina á mér, og kyssti mig EKKI.

Um kvöldið sagði hann mér, að hann ætlaði út að borða með hjónum sem hann hefði kynnst við kokteilbarinn fyrr um daginn, en ég mætti alveg koma með. Ég mátti alveg koma með. Hvort ég vildi koma með? Var þetta frí ekki lengur að snúast um okkur og okkur að gera eitthvað saman? Var ég nú orðin einhver sem MÁTTI koma með ef ég vildi? Í mínu eigin fríi með mínum heittelskaða. Needless to say, þá var þessi gorgeous gella að sjálfsögðu annar helmingur þessarra hjóna sem hann hafði kynnst, og þessi málsverður átti líklega að snúast um að minn elskaði gæti daðrað við hana og hún strokið sólbrúnu fótleggjum sínum við hans undir borðinu á meðan hún myndi hlæja að öllu sem kæmi út úr hans munni.

Það reif í hjartað mitt af sársauka og afbrýðisemi. Það var stór kökkur í hálsinum á mér, kökkur sem samanstóð af reiði, höfnun, undrun, niðurlægingu og þessum óbærilega sársauka. Ég var brjáluð, en kom engu orði upp, sama hvað ég reyndi. Ég opnaði munninn oft en út komu bara einhver óskiljanleg hljóð. Þar til ég fór að gráta.

..................

Þannig vaknaði ég í morgun hálfgrátandi, með sáran afbrýðisemissting í brjóstinu og bálreið út í einhvern mann, sem er ekki einu sinni til í raunveruleikanum! Ég á mér engan heittelskaðan og draumnum þóknaðist ekki að setja andlit á þessa karlkynsveru sem rak svona rýting í bakið á mér í mínu himneska fríi, engu að síður var það mjög ljóst að hann væri MINN.......  Ég var í fúlu skapi og með þungan hjartslátt fram undir hádegi. Reið og sár út í andlitslausa mannveru, sem aðeins hafði verið til í nokkrar mínútur í mínu eigin höfði í mínu eigin meðvitundarleysi..... og alls ekki á suðrænni sólarströnd heldur bara í mínu eigin rúmi í Breiðholtinu..... Mikið var ég þó fegin að minn raunveruleiki var í Breiðholtinu þessa stundina, en ekki í þessum aðstæðum suður frá, en ég réð samt ekki við þessa sterku óþægilegu tilfinningu, sem undirmeðvitund mín hafði kveikt á. Hvert í ósköpunum á maður eiginlega að beina svona tilkominni reiði??

Eflaust geta einhverjir sálfræðingar gert sér mat úr þessum draumförum mínum og skellt fram allskonar kenningum um bældar tilfinningar og kenndir í undirmeðvitund minni, en plís, ég frábið mér þesskonar psycho-analysum.

Mig dreymir bara betur næst..... Undecided


Laun heimsins eru vanþakklæti

Einhverju sinni samdi ég við son minn, eða öllu heldur þá samdi hann við mig um það, að ég myndi kaupa Sýn 2 (eða Stöð 2 sport 2 eða hvað það heitir núna) og hann myndi taka algjörlega að sér uppvaskið á heimilinu í staðinn. Eitthvað hefur þetta nú farist fyrir síðustu vikurnar, ég kem yfirleitt heim og ekkert hefur verið gert í eldhúsinu, og ekkert gerist þar heldur þótt ég sé komin heim og hummi, hósti og röfli yfir aðgerðarleysinu.

Ég get svo sem alveg séð í gegnum fingur mér, þegar strákurinn hefur átt langan dag með löngum skóladegi og æfingum, en hey..... minn dagur er líka mjög langur oft á tíðum, svo af hverju á ég að gefa undan hér?

Mér varð þó svolítið um í kvöld, þegar ég bað drenginn minn um einfalda hluti, og fékk fýlusvip á móti.

Ég: Jóhann minn, ertu svo til í að sækja þvottinn okkar niður í þvottahús?

(uhumm, þvottinn okkar..... þetta eru náttúrlega meira og minna fötin hans sem eru þvegin hérna og hengd upp. Ekki það, að ég sé alltaf í skítugum fötum, en vinn náttúrlega í þannig vinnu að ég er alltaf í hvítu fötunum í vinnunni og mín föt því mjög sparlega notuð, rétt í og úr vinnu og eitthvað pínu fyrir utan það....)

Hann: Ohh, ég þarf ALLTAF að vera að gera eitthvað... (með viðeigandi fýlusvip)

Ég hugsa: Je, right, alltaf að gera eitthvað..... eins og hvað???

Ég hugsa meira: Okey, hann er með unglingaveikina, ætla bara að taka á þessu á rólega háttinn.....

Svo ég segi: Jóhann minn, af því að ég er lasin og treysti mér ekki niður....

Hann með semingi og tilheyrandi pirringshljóðum: OOOkkkeeeyy.....

Og þau voru þung skrefin fyrir unglinginn niður í þurrkherbergið og upp aftur og sami fýlusvipurinn þegar hann dömpaði taukörfunni á forstofugólfið; voila, verkefnið unnið, ekkert endilega að bera taukörfuna inn í stofu til mömmu gömlu, hún getur bara sótt körfuna hingað fram í forstofu.... - hvað þá að honum dytti í hug að brjóta tauið saman!

Ég: Takk elskan. Ertu til í að koma með körfuna hingað inn?

Hann: Bíddu, átti ég ekki bara að ná í þetta tau???

(Körfunni svo sparkað inn í stofu)

Stuttu seinna ætlaði ég að byrja á nestissmurningum....

Ég: Jónann!!!

Hann: Hvvvaaaððð? (í fýlutón)

Ég: Hvað viltu í nesti á morgun?

Hann: É'veit'a'kki

Ég: Nennirðu að koma fram og velja þér djús og hvaða mjólkurmat þú vilt?

Hann: Ohh, okey.....

Svo líður og bíður.... og hún bíður og aldrei kemur unglingurinn.....

Ég: Ertu að koma?

Hann: Dísús, ég er að klára leikinn.....

Ég alveg að missa þolinmæðina: Komdu þér hérna fram á stundinni.

(eins og ég sé að smyrja þetta nesti fyrir sjálfa mig, og hundveik í þokkabót!!)

Þung skref heyrast úr barnaherberginu; plamp, plamp, plamp....

Hann: Hvaða æsingur er þetta? Mér er alveg sama hvað ég fæ með í nesti. Smyrðu bara eitthvað.

Ég: Jóhann minn, smyrðu þetta þá bara sjálfur, ef þetta er svona rosalega erfitt fyrir þig.... það er ekki eins og ÉG ætli að borða þetta á morgun.....

Og svo kom hin vanalega ræða mæðra við vanþakklát börn sín, um allt það sem þær eru að gera og hvað þau meta það lítið og blabla, mín var svo bara krydduð því að ég væri sárveik í ofanálg, og búin að fara að versla líka svona veik, og samt að gera allt þetta fyrir hann og, og, og og.....

Minn kippti sér nú lítið upp við það....

Hann: Humm, nei, ég var ekkert að segja að ég ætlaði að gera þetta sjálfur.  (Leit svo inn í ísskápinn).... : Ég skal bara hafa svona trópí með og svona dagmál og .... getur þú ekki bara gert einhverja samloku, mér finnst svo leiðinlegt þegar ég veit hvað er á henni fyrirfram....

Þá bráðnaði nú móðurhjartað pínulítið.... nú, svo það var það sem þetta snerist um, þeim unga finnst gaman að láta koma sér á óvart. Svo kveikti kvikindið á sér inní mér....

Já, ég skal koma þér á óvart, unglingur..... héðan í frá getur þú smurt þitt eigið nesti!!! Enda löngu orðinn nógu gamall til þess. Er þetta nógu mikið á óvart fyrir þig??

Svar ekki enn komið, enda er ég, agalausa foreldrið, ekki búin að skella þessum óvænta glaðningi í fésið á unglingnum..... 


I am sick of being sick...

Úff, ég er sko of slöpp til að böggast eitthvað á blogginu í kvöld. Ég, sem er ekki vön að fá flensur í mig, er búin að draga í mig anga af öllum umgangspestum frá áramótum. Hef í flest skiptin staðið upprétt áfram og haldið mínu striki, en í þetta skiptið varð ég að játa mig sigraða.

Ég veiktist á sunnudaginn en asnaðist auðvitað samt í vinnu á mánudaginn. Í gærmorgun komst ég bara ekki fram úr rúminu fyrir beinverkjum, hita, hósta, stífluðu nefi og höfuðverk. Mér fannst það virkilega slæmt þar sem ég átti að vera á endurlífgunarnámskeiði allan daginn, var búin að lesa heilan helling af undirbúningsefni og vildi alls ekki missa af þessu námskeiði. En ákvað að leyfa líkamanum að ráða í þetta skiptið og var heima í mínu eigin yfirlæti. Mín elskulega mamma kom við með gos handa mér (engar litabækur og liti, eins og þegar maður var lítill og veikur....) og svo eyddi ég deginum á sófanum yfir Grey´s Anatomy af flakkaranum mínum. Ég eyddi reyndar meirihluta kvöldsins yfir sama efni, og er nú eiginlega búin að horfa á alla þættina...... (psst.. Gunna, ertu ekki búin að downloada meira af þessum þáttum, mig fer að vanta.....Wink...)

Rétt áður en ég skreið upp í rúm í gærkvöldi, fékk ég algjört kuldakast, hríðskalf og þurfti meira að segja að herða mig upp til að geta sest á klósettsetuna fyrir nóttina. Ég var í flísbuxum og flíspeysu, en ákvað að fara í þykka göngusokka og sloppinn minn yfir áðurnefnda múnderingu og skreið þannig undir sæng - en var samt ennþá kalt. Vaknaði svo um miðja nótt í svitabaði dauðans..... og þetta var vísirinn að því sem koma skyldi í dag. Ég var miklu slappari í dag en í gær, fór ekki fram úr rúminu, klæddi mig í og henti af mér fötum til skiptis, þurfti að setjast upp til að hósta, svo mikið fann ég til í barkanum við þau átök, mæddist við að ganga fram á WC, orkaði ekki að reisa mig upp og teygja mig í vatnsglasið mitt og lá svo bara og mókti allan daginn með hálfgerðum ofskynjunum inn á milli. Þegar fór að líða að seinni parti, læddist að mér sú hugsun að ég yrði eiginlega að hrista þetta eitthvað af mér og drattast á fætur og það sem verra var, bæði okkur og köttinn vantaði eitthvað að borða, svo einhver varð að draga björg í bú. Og þessi einhver var ég Frown 

Það var ekki með glöðu geði sem ég píndi mig í sturtu og kom mér af stað í búðarferð. Það var ekki mikill þokki yfir mér í þessarri verslunarferð, í Cintamani flísbuxunum mínum með hnjám í, gömlum strigaskóm sem voru með mátulega nógu mikið eyddum hælum til þess að ég gæti troðið mér í ullarsokkum í þá, í ullarnærbol, gamalli flíspeysu og svo nýrri þar yfir og svo lopapeysunni minni þar yfir.... ég fann augnaráð unglingsstúlknanna, sem stóðu reykjandi fyrir utan Bónusvideo, lengi á bakinu á mér eftir að ég gekk fram hjá þeim og get mér til hvað þær pískruðu um mig: "Gvöð, dísus, sjá þessa hallæriskellingu, o my god....."

Fékk svitakast í Nettó, en það var ekki alveg staður né stund til að kasta af sér fötum þar, svo ég komst í gegnum þessa verslunarferð heit, móð og hóstandi, en ákvað að pizza úr frystiborðinu í Nettó yrði að duga unglingnum mínum í kvöldmat í kvöld. Mér leið eins og ég þyrfti að hamstra, eins og ég ætti ekki eftir að komast í búð aftur á næstunni, en hugsaði að ef ég ætti eftir að eyða næsta sólarhringi svona og jafnvel næstu, þá ætlaði ég ekki að þurfa að leggja á mig aðra búðarferð í þessu ástandi. Ávextir, ostar, kex, döðlur, gos og ýmislegt úr nammihillunum fékk að rjúka með í innkaupakerruna, mig ætlar sko ekki að skorta neitt næstu dagana.

Ég vona að ég fari bráðum að skríða upp á við, en ef ekki, þá ætla ég að eiga eitthvað í búinu til að narta í - það væri náttúrlega bara draumsýn að búast við því að einhver myndi útbúa eitthvað girnilegt handa mér úr þessum aðföngum, en...... 

Ég var einmitt að lesa blogg hjá einni bloggvinkonu, sem líka er veik, og hún var að lýsa því hvernig við mömmurnar getum aldrei leyft okkur að vera veikar. Við þurfum alltaf að sinna okkar skyldum og sjá um hina fjölskyldumeðlimina, í blíðu og stríðu. Mamma á bara að vera til staðar og gera það sem hún er vön, veik eða ekki. Og já, það er sko meira en satt og rétt hjá henni. Það væri nú nice ef einhver myndi einhverntímann hugsa um okkur veikar, eins og við hugsum um hina, bæði fríska og veika....

Yeah, dream on..... GetLost


Það er skömm að þessu!!!

"Þetta reddast", hefur nú löngum verið viðkvæðið hjá stjórnendum LSH. Ætli þeir séu ekki að bíða eftir því í þetta skiptið líka, þótt mjög erfitt sé að sjá á hvaða hátt það eigi að gerast.

Ég hef áður bloggað um uppsagnir skurðstofu- og svæfingahjúkrunarfræðinga, og hvaða áhrif þær muni hafa á alla starfsemi spítalans sem og öryggi okkar landsmanna - hvort sem stjórnendum takist að laða að nokkra erlenda hjúkrunarfræðinga eða ekki.

Það að yfir 90% af geislafræðingum spítalans ætli að hætta, þýðir auðvitað líka neyðarástand, því ekki viljum við biðlista inn á röntgendeildina ofan á allt annað. Þetta mun þýða, að jafnvel inniliggjandi sjúklingar á bráðadeildum, munu þurfa að bíða eftir því að komast í aðkallandi rannsóknir, innlagnir þar af leiðandi lengjast og hvað mun það kosta þjóðfélagið?? Ekki bara peninga, því það segir sig sjálft að ekki mun þetta heldur bæta álagið á nú þegar að mörgu leyti uppgefið starfsfólk, né mun þetta bæta leguplássleysið sem hrjáir spítalann..... eða ætlar Landspítalinn að gera samskonar samninga við Norðurlöndin og hann gerði við kragasjúkrahúsin svokölluðu..... og senda þá sjúklinga sem ekki komast fyrir á deildum LSH kannski til Kaupmannahafnar eða Þórshafnar?

Hvar er þessi mannauðsskrifstofa Landspítalans og hvað er hún eiginlega að gera?? Allavega ekki að passa upp á mannauð spítalans.....

Og hvenær ætlar fjármálaráðherra að losa þá fjármálakrumlu sem hans ráðuneyti heldur Landspítalanum í? Hvenær ætla fjármálaráðherra og heilbrigðisráðherra að viðurkenna það gríðarlega mikilvægi, sem liggur í starfi okkar heilbrigðisstarfsfólks, og gera alvöru samninga við okkur? Samninga sem hæfa okkar menntun, ábyrgð, þekkingu, færni og síðast en ekki síst mikilvægi í okkar þjóðfélagi. Það er virkilega skömm að ykkur, ráðherrar!!


mbl.is Algjör pattstaða – engir fundir og uppsagnir standa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Velþegin læknisaðstoð.....

Fór út að borða með stundum-nefndum Mr. K. á Sjávarkjallarann í gærkvöldi, Sjávarkjallarinn er eitt af mínum "uppáhalds"..... alltaf góður matur, góð þjónusta og mátulega fjörug og góð stemmning. Kíktum rétt aðeins stutt á eitt öldurhúsið áður en við fórum heim.

Vaknaði svo í morgun stífluð á alla kanta, lungun og nefið fullt og höfuðið eins og það væri að springa. Var með pínu hitavellu líka og beinverki, svo ég tók tvær Parkódín og lagði mig aftur. Ástandið batnaði ekki mikið, er bara búin að lifa á Parkódíni í dag, með beinverki, snörlandi nef og fljótandi augu. Býst nú ekki við því að ég taki mér neitt veikindafrí úr vinnu samt.....

Gott að maður er undir lækni(shöndum) Wink 


Ég vil enda lífið í fullnægingu eins og Woody Allen.....

Núna er ég á næturvakt á blóðmeinadeild Lsh á Hringbrautinni. Það er frekar rólegt hjá okkur í nótt, svo ég hef verið að glugga í póstinn minn. Rakst á stórskemmtilegan mail, sem ég fékk sendan frá einni samstarfshjúkku minni. Læt innihald hans fljóta hérna með.

 "Next Life" by Woody Allen

In my next life I want to live my life backwards. You start out dead and get that out of the way. Then you wake up in an old people's home feeling better every day. You get kicked out for being too healthy, go collect your pension, and then when you start work, you get a gold watch and a party on your first day. You work for 40 years until you're young enough to enjoy your retirement. You party, drink alcohol, and are generally promiscuous, then you are ready for high school. You then go to primary school, you become a kid, you play. You have no responsibilities, you become a baby until you are born. And then you spend your last 9 months floating in luxurious spa-like conditions with central heating and room service on tap, larger quarters every day and then Voila!! You finish off as an orgasm!!

I rest my case....

Alls ekki amalegt líf það..... LoL 


Hæ, ég heiti Lilja og ég er nikótínfíkill !!

Í gær fékk ég send ansi sterk skilaboð úr ýmsum áttum um það, að ég ætti að hætta að reykja. Eða allavega að íhuga það...... (eins og við reykingafólk séum ekki ALLTAF að því!).

Ég er orðin svo þreytt á því að íhuga þetta mál, stressa mig yfir því að ég sé EKKI hætt, hlusta á aðra tala um að ég ÆTTI að hætta, svekkja sjálfa mig á því að ég GETI ekki hætt og svo vinna innan um fórnarlömb reykingafíknarinnar alla daga í mörg ár - að ég var eiginlega komin á þá skoðun, og búin að ákveða það með sjálfri mér, að ég sé hætt við að hætta.... forever. Ég nenni ekki að velta mér upp úr þessu og svekkja mig lengur, ég nenni ekki alltaf að setja einhverjar tilgangslausar dagsetningar, tilkynna þær (eða ekki) til minna nákomnu, falla svo í kollhnís um sjálfa mig, eigin fíkn og eigið getuleysi, þurfa að "feisa" það að ég sé forfallin, svo ég ákvað að henda þessum byrðum af öxlum mér, með því að hugsa: Svona er ég, ég heiti Lilja og ég er nikótínfíkill and thats the way I am..... og ég ætla ALDREI að hætta!! Devil 

Þetta hefur verið mjög hentug aðstaða fyrir mig. Ég þarf ekki lengur að hugsa; "hvenær á ég að gera næstu tilraun", né þá heldur að kvíða henni. Ég þarf ekki að spá í þyngdaraukningu, af því að ég er ekkert að fara að hætta. Ég þarf ekki að spá í sjúkdómana, ég tek þeim bara af æðruleysi vegna þess að ég VEIT að þeir koma, og ég er búin að sætta mig við þá í framtíð minni fjær, og meira að segja nær. Ég meira að segja geng svo langt í minni réttlætingu fyrir reykingum mínum, að ég segi, að ég nenni hvort sem er ekkert að verða gömul í þessu þjóðfélagi, sem skapar gamla fólkinu svo lélegar aðstæður eins og okkar þjóðfélag gerir.

Ég þekki hugsunarhátt fíkla eftir að hafa unnið með þeim, og ég get sagt, að ég er engu minni fíkill en þeir - bara fíkin í annað efni. Ég díla við sjálfa mig endalaust, geri samninga við sjálfa mig og umhverfi mitt, svík annað hvert orð í þessum samningum, geri hluti á laun, hef stolið úr sparibauk sonar míns til að eiga fyrir sígarettum, kaupi sjálfa mig og verðlauna sjálfa mig (óverðskuldað, en alltaf með sígarettu), get alls ekki beðið eftir góðu hlutunum, hef meira að segja klætt mig upp seint um kvöld og hlaupið út í kaldagadda til að nálgast "stuffið" mitt og myndi fara fótgangandi úr Breiðholtinu niður á BSÍ ef ég væri sígarettulaus og kæmist ekki öðruvísi. Ég hef meira að segja látið mömmu mína senda mér sígarettur í leigubíl á jóladagsnótt eftir að hafa gleymt BÁÐUM pökkunum mínum í hennar húsum!!!  

Ég nota það líka sem réttlætingu, að það væri næsta víst, að væri ég ekki nikótínfíkill þá væri ég einhver verri fíkill, með fíkn sem léti mig missa stjórn á eigin lífi. Ég ER spennufíkill, hef yfirleitt lifað svolítið "á brúninni" og finnst það gaman.... ég er mjög öfgafull í öllu því sem ég tek mér fyrir hendur. Annaðhvort er ég í ræktinni fimm sinnum í viku, eða alls ekki. Ef ég er búin að ákveða að hjóla, þá HJÓLA ég. Ef ég ætla að gera eitthvað, þá geri ég það með stóru G, eða geri það alls ekki, og annað í þeim dúr. Það er ekkert mitt á milli hjá mér, annaðhvort er ég ÓGEÐSLEGA löt eða HYPERAKTIV. Ég er sem sagt MJÖG gott efni í fíkil, hef öll gen og alla tendensa..... var ég búin að segja það að ég er líka workaholic??

Og já, var ég búin að nefna það..... Ég heiti Lilja Bolladóttir og ég er nikótínfíkill. Með stóru N-i. Og ég var eiginlega búin að sætta mig við það.... í nafni alls hins verra sem ég gæti verið, en ég hafði eiginlega aldrei hugsað af alvöru um allt hið betra sem ég gæti verið ef ég reykti ekki. Það var eiginlega bara ekki "option" í mínu lífi. Ég var bara sátt við hlutskipti mitt sem nikótínþræll.

En auðvitað, þrátt fyrir alla afneitun, hefur maður það alltaf á bak við eyrað, að einhvern tímann verður góðu partýi að ljúka. Einhverntímann, ekki strax og ekki nærri strax en.... some day.

Ég var ekkert frekar að spá í allt þetta þegar ég vaknaði í gær en mundi ljóslifandi drauminn sem mig hafði dreymt. Þar var fyrsta "signið" um að ég ætti að hætta og nú ætla ég að birta öll þau merki sem birtust mér í gær, ótrúlegt en satt, öll á sama degi. Þetta bara hlýtur að þýða eitthvað....

1). Mig dreymdi að ég væri að kafna. Ég gat ekki andað og yfir mér stóð fjöldi heilbrigðisstarfsfólks með öndunargrímur í höndunum, sem þau voru að reyna að setja á mig til að gefa mér súrefni. En þau vildu setja svo margar grímur á mig í einu, og mér fannst ég vera að kafna ennþá meira við að fá svona grímu á mig, og hvað þá svona margar í einu. Mér fannst þau bara vera að reyna að kæfa mig og ég hafði það steklega á tilfinningunni að þau vildu mér ekki gott..... (ég gæti líka túlkað þennan draum þannig, að Landspítalinn væri að kæfa mig með ásókn sinni í mig á aukavaktir á hinar og þessar deildir, en ég kýs að setja þennan draum frekar í samhengi við annað sem ég upplifði á þessum degi....)

2). Í vinnunni vorum við að annast fólkið sem lenti í bílslysinu á Reykjanesbrautinni í gærmorgun. Við vorum bara að ræða, eins og við gerum oft eftir alvarlegri atburði, um lífið og tilveruna og einhver sagði: "Og hugsa sér, svo er sumt fólk sem er vísvitandi að reyna að drepa sig með því að reykja!" Þessum orðum var alls ekki beint til mín, enda held ég ekki einu sinni að viðkomandi starfsmaður viti að ég reyki, en þau slógu mig samt engu að síður harkalega. Já, hvað er eiginlega að manni? Í vinnunni berst maður upp á líf og dauða marga daga, upplifir ótrúlega marga skelfilega hluti, en samt er maður MJÖG meðvitað að reyna að "drepa í sjálfum sér" með þessum ógeðslega óvana.

3). Þegar ég kom heim tæmdi ég póstkassann. Meðal annars var þar fréttatímarit EONS (stendur fyrir European Oncology Nursing Society, sem er Samband krabbameinshjúkrunarfræðinga í Evrópu og ég hef verið meðlimur af síðan ég vann á krabbameinsdeildinni í nokkur ár í "denn"). Á forsíðunni var stór mynd af sígarettu sem var að brenna niður og fókus tímartisins var á lungnakrabbamein!!!

Ég var aðeins farin að taka "hintið" þarna, fannst þetta óvenju margar tilviljanir á einum og sama deginum, og hugsaði með sjálfri mér: "allt er þegar þrennt er, Lilja mín. Er þetta ekki bara rétti tíminn fyrir þig? Þarftu frekari sannanir?" (Eins og ég hafi ekki hundrað sinnum upplifað deyjandi lungnakrabbameinssjúklinga, séð þjáningar sjúklinganna með lungnateppu og ÆTTI að vera farin að fatta eitthvað í staðinn fyrir að stunda strútaleikinn.....)

En var svo sem ekki alveg komin á alvarlegu nóturnar samt. En þá kom rúsínan í pylsuendanum, einmitt þegar ég átti síst von á. Einmitt þegar ég ætlaði bara að hafa það kósý fyrir framan sjónvarpið, zappaði yfir á stöð 2 og þar var Oprah. Ég var einmitt í skapi til þess að horfa á eitthvað afslappað, sem maður gæti látið líða inn um annað og út um hitt, en.....

4). Þáttur Opruh snerist um reykingar, skaðsemi þeirra og leiðir til að hætta. Það voru viðtöl við ýmsa lækna, skoðaðar röntgenmyndir af lungunum í fólki sem hafði reykt í 10 ár, 20 ár, 30 ár ..... Sýnt myndrænt hvað gerist í lungunum þegar reykur fer ofan í þau og margt fleira. Ég hef svo sem séð þetta allt, en þetta í lok þessa dags, stakk mig aðeins meira en örlítið. Það var líka viðtal við leikarann Ben Affleck í þættinum, sem sagði sína reykingasögu, og hvernig hann setti alltaf einhver markmið: ....þegar ég verð 20 ára, þegar ég verð 25, þegar ég verð þrítugur....  Og þessir dagar komu og fóru án þess að hann hætti að reykja. Alveg eins og hjá mér .... ég hef sett þessi markmið síðan ég var 19 ára, það stendur m.a.s. á myndinni minni í stúdentsbókinni úr Verzló: "ég ætla að hætta að reykja þegar ég verð tvítug"....... já, síðan eru liðin ca. 15 ár..... þarf að segja meira um mína staðfestu versus fíkn???

Ég er hvorki mjög trúuð né hjátrúafull, en ég trúi á eitthvað æðra okkur hinum hér á jörðinni. Og ég hugsaði bara þegar ég var að horfa á Oprah: "Djöfullinn, helvítis, andskotans fjandinn sjálfur, nú verð ég að hætta! Það er einhver að reyna að senda mér mjög sterk skilaboð í dag, í allan dag OG síðustu nótt." (!!!) Og ef ég lít fram hjá þessu núna, þá er ég meiri asni og vitlausari en meira að segja ég hélt að ég gæti verið. Það er verið að senda mér skilaboð um að þetta sé síðasti séns fyrir mig.... held ég.

Svo nú, ladies and gentlemen, þá set ég dagsetninguna á 28. apríl. Ég hef ekki hugmynd um á þessarri stundu hvernig ég ætla að gera þetta, býst við að taka "cold turkey" þótt það sé ekki ráðlagt, en reynsla mín hefur sýnt að engin nikótínlyf hjálpa mér hið minnsta. Þetta þarf að gerast í hausnum á mér og bara þar. Ég ætla að nota tímann fram til 28. apríl til að undirbúa mig andlega, og ég set bara 28. apríl vegna þess að ég á afmæli 24. apríl og á frí alla helgina og vil geta REYKT (!), en líka vegna þess að þá er ennþá nógu langt í sumarfrí og allar þær freistingar sem fríið ber með sér. Ég ætla samt að nota tímann til að gera eitt af því sem doktorinn í Oprah ráðlagði: Vittu hver eru þín "sígarettumóment" og vertu búin(n) að finna við þeim bjargráð eða undankomur með einhverju öðru. Vegna þess, að þegar þú stendur þarna í fyrsta skiptið, þá áttu bara eftir að hugsa EITT:

SÍGARETTA, SÍGARETTA, SÍGARETTA.....

I will keep you posted.......

 


Ég breyti þessum snjó í sól og grænt gras !!!

Nei, nú segi ég stopp og leggst í þunglyndi og dvala!! Ég hélt að vorið væri komið og grundirnar færu að gróa, en þá er allt orðið hvítt hérna. Jólalegar snjórákir á gluggakörmunum og ég held bara að ég verði að kveikja á jólaseríunni aftur Pinch og með þessu hefst líka fuglastríðið mitt aftur, sem ég hélt að væri komið í vopnahlé allavega fram í nóvember! Ég bara neita að trúa þessu!!! Ætla að fara að sofa og dreyma sól, sumar, línuskauta og graslykt og á morgun þegar ég vakna verður þetta allt horfið!! Vitið bara til - víst kann Lilja næstum allt..... Angry

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband