Hæ, ég heiti Lilja og ég er nikótínfíkill !!

Í gær fékk ég send ansi sterk skilaboð úr ýmsum áttum um það, að ég ætti að hætta að reykja. Eða allavega að íhuga það...... (eins og við reykingafólk séum ekki ALLTAF að því!).

Ég er orðin svo þreytt á því að íhuga þetta mál, stressa mig yfir því að ég sé EKKI hætt, hlusta á aðra tala um að ég ÆTTI að hætta, svekkja sjálfa mig á því að ég GETI ekki hætt og svo vinna innan um fórnarlömb reykingafíknarinnar alla daga í mörg ár - að ég var eiginlega komin á þá skoðun, og búin að ákveða það með sjálfri mér, að ég sé hætt við að hætta.... forever. Ég nenni ekki að velta mér upp úr þessu og svekkja mig lengur, ég nenni ekki alltaf að setja einhverjar tilgangslausar dagsetningar, tilkynna þær (eða ekki) til minna nákomnu, falla svo í kollhnís um sjálfa mig, eigin fíkn og eigið getuleysi, þurfa að "feisa" það að ég sé forfallin, svo ég ákvað að henda þessum byrðum af öxlum mér, með því að hugsa: Svona er ég, ég heiti Lilja og ég er nikótínfíkill and thats the way I am..... og ég ætla ALDREI að hætta!! Devil 

Þetta hefur verið mjög hentug aðstaða fyrir mig. Ég þarf ekki lengur að hugsa; "hvenær á ég að gera næstu tilraun", né þá heldur að kvíða henni. Ég þarf ekki að spá í þyngdaraukningu, af því að ég er ekkert að fara að hætta. Ég þarf ekki að spá í sjúkdómana, ég tek þeim bara af æðruleysi vegna þess að ég VEIT að þeir koma, og ég er búin að sætta mig við þá í framtíð minni fjær, og meira að segja nær. Ég meira að segja geng svo langt í minni réttlætingu fyrir reykingum mínum, að ég segi, að ég nenni hvort sem er ekkert að verða gömul í þessu þjóðfélagi, sem skapar gamla fólkinu svo lélegar aðstæður eins og okkar þjóðfélag gerir.

Ég þekki hugsunarhátt fíkla eftir að hafa unnið með þeim, og ég get sagt, að ég er engu minni fíkill en þeir - bara fíkin í annað efni. Ég díla við sjálfa mig endalaust, geri samninga við sjálfa mig og umhverfi mitt, svík annað hvert orð í þessum samningum, geri hluti á laun, hef stolið úr sparibauk sonar míns til að eiga fyrir sígarettum, kaupi sjálfa mig og verðlauna sjálfa mig (óverðskuldað, en alltaf með sígarettu), get alls ekki beðið eftir góðu hlutunum, hef meira að segja klætt mig upp seint um kvöld og hlaupið út í kaldagadda til að nálgast "stuffið" mitt og myndi fara fótgangandi úr Breiðholtinu niður á BSÍ ef ég væri sígarettulaus og kæmist ekki öðruvísi. Ég hef meira að segja látið mömmu mína senda mér sígarettur í leigubíl á jóladagsnótt eftir að hafa gleymt BÁÐUM pökkunum mínum í hennar húsum!!!  

Ég nota það líka sem réttlætingu, að það væri næsta víst, að væri ég ekki nikótínfíkill þá væri ég einhver verri fíkill, með fíkn sem léti mig missa stjórn á eigin lífi. Ég ER spennufíkill, hef yfirleitt lifað svolítið "á brúninni" og finnst það gaman.... ég er mjög öfgafull í öllu því sem ég tek mér fyrir hendur. Annaðhvort er ég í ræktinni fimm sinnum í viku, eða alls ekki. Ef ég er búin að ákveða að hjóla, þá HJÓLA ég. Ef ég ætla að gera eitthvað, þá geri ég það með stóru G, eða geri það alls ekki, og annað í þeim dúr. Það er ekkert mitt á milli hjá mér, annaðhvort er ég ÓGEÐSLEGA löt eða HYPERAKTIV. Ég er sem sagt MJÖG gott efni í fíkil, hef öll gen og alla tendensa..... var ég búin að segja það að ég er líka workaholic??

Og já, var ég búin að nefna það..... Ég heiti Lilja Bolladóttir og ég er nikótínfíkill. Með stóru N-i. Og ég var eiginlega búin að sætta mig við það.... í nafni alls hins verra sem ég gæti verið, en ég hafði eiginlega aldrei hugsað af alvöru um allt hið betra sem ég gæti verið ef ég reykti ekki. Það var eiginlega bara ekki "option" í mínu lífi. Ég var bara sátt við hlutskipti mitt sem nikótínþræll.

En auðvitað, þrátt fyrir alla afneitun, hefur maður það alltaf á bak við eyrað, að einhvern tímann verður góðu partýi að ljúka. Einhverntímann, ekki strax og ekki nærri strax en.... some day.

Ég var ekkert frekar að spá í allt þetta þegar ég vaknaði í gær en mundi ljóslifandi drauminn sem mig hafði dreymt. Þar var fyrsta "signið" um að ég ætti að hætta og nú ætla ég að birta öll þau merki sem birtust mér í gær, ótrúlegt en satt, öll á sama degi. Þetta bara hlýtur að þýða eitthvað....

1). Mig dreymdi að ég væri að kafna. Ég gat ekki andað og yfir mér stóð fjöldi heilbrigðisstarfsfólks með öndunargrímur í höndunum, sem þau voru að reyna að setja á mig til að gefa mér súrefni. En þau vildu setja svo margar grímur á mig í einu, og mér fannst ég vera að kafna ennþá meira við að fá svona grímu á mig, og hvað þá svona margar í einu. Mér fannst þau bara vera að reyna að kæfa mig og ég hafði það steklega á tilfinningunni að þau vildu mér ekki gott..... (ég gæti líka túlkað þennan draum þannig, að Landspítalinn væri að kæfa mig með ásókn sinni í mig á aukavaktir á hinar og þessar deildir, en ég kýs að setja þennan draum frekar í samhengi við annað sem ég upplifði á þessum degi....)

2). Í vinnunni vorum við að annast fólkið sem lenti í bílslysinu á Reykjanesbrautinni í gærmorgun. Við vorum bara að ræða, eins og við gerum oft eftir alvarlegri atburði, um lífið og tilveruna og einhver sagði: "Og hugsa sér, svo er sumt fólk sem er vísvitandi að reyna að drepa sig með því að reykja!" Þessum orðum var alls ekki beint til mín, enda held ég ekki einu sinni að viðkomandi starfsmaður viti að ég reyki, en þau slógu mig samt engu að síður harkalega. Já, hvað er eiginlega að manni? Í vinnunni berst maður upp á líf og dauða marga daga, upplifir ótrúlega marga skelfilega hluti, en samt er maður MJÖG meðvitað að reyna að "drepa í sjálfum sér" með þessum ógeðslega óvana.

3). Þegar ég kom heim tæmdi ég póstkassann. Meðal annars var þar fréttatímarit EONS (stendur fyrir European Oncology Nursing Society, sem er Samband krabbameinshjúkrunarfræðinga í Evrópu og ég hef verið meðlimur af síðan ég vann á krabbameinsdeildinni í nokkur ár í "denn"). Á forsíðunni var stór mynd af sígarettu sem var að brenna niður og fókus tímartisins var á lungnakrabbamein!!!

Ég var aðeins farin að taka "hintið" þarna, fannst þetta óvenju margar tilviljanir á einum og sama deginum, og hugsaði með sjálfri mér: "allt er þegar þrennt er, Lilja mín. Er þetta ekki bara rétti tíminn fyrir þig? Þarftu frekari sannanir?" (Eins og ég hafi ekki hundrað sinnum upplifað deyjandi lungnakrabbameinssjúklinga, séð þjáningar sjúklinganna með lungnateppu og ÆTTI að vera farin að fatta eitthvað í staðinn fyrir að stunda strútaleikinn.....)

En var svo sem ekki alveg komin á alvarlegu nóturnar samt. En þá kom rúsínan í pylsuendanum, einmitt þegar ég átti síst von á. Einmitt þegar ég ætlaði bara að hafa það kósý fyrir framan sjónvarpið, zappaði yfir á stöð 2 og þar var Oprah. Ég var einmitt í skapi til þess að horfa á eitthvað afslappað, sem maður gæti látið líða inn um annað og út um hitt, en.....

4). Þáttur Opruh snerist um reykingar, skaðsemi þeirra og leiðir til að hætta. Það voru viðtöl við ýmsa lækna, skoðaðar röntgenmyndir af lungunum í fólki sem hafði reykt í 10 ár, 20 ár, 30 ár ..... Sýnt myndrænt hvað gerist í lungunum þegar reykur fer ofan í þau og margt fleira. Ég hef svo sem séð þetta allt, en þetta í lok þessa dags, stakk mig aðeins meira en örlítið. Það var líka viðtal við leikarann Ben Affleck í þættinum, sem sagði sína reykingasögu, og hvernig hann setti alltaf einhver markmið: ....þegar ég verð 20 ára, þegar ég verð 25, þegar ég verð þrítugur....  Og þessir dagar komu og fóru án þess að hann hætti að reykja. Alveg eins og hjá mér .... ég hef sett þessi markmið síðan ég var 19 ára, það stendur m.a.s. á myndinni minni í stúdentsbókinni úr Verzló: "ég ætla að hætta að reykja þegar ég verð tvítug"....... já, síðan eru liðin ca. 15 ár..... þarf að segja meira um mína staðfestu versus fíkn???

Ég er hvorki mjög trúuð né hjátrúafull, en ég trúi á eitthvað æðra okkur hinum hér á jörðinni. Og ég hugsaði bara þegar ég var að horfa á Oprah: "Djöfullinn, helvítis, andskotans fjandinn sjálfur, nú verð ég að hætta! Það er einhver að reyna að senda mér mjög sterk skilaboð í dag, í allan dag OG síðustu nótt." (!!!) Og ef ég lít fram hjá þessu núna, þá er ég meiri asni og vitlausari en meira að segja ég hélt að ég gæti verið. Það er verið að senda mér skilaboð um að þetta sé síðasti séns fyrir mig.... held ég.

Svo nú, ladies and gentlemen, þá set ég dagsetninguna á 28. apríl. Ég hef ekki hugmynd um á þessarri stundu hvernig ég ætla að gera þetta, býst við að taka "cold turkey" þótt það sé ekki ráðlagt, en reynsla mín hefur sýnt að engin nikótínlyf hjálpa mér hið minnsta. Þetta þarf að gerast í hausnum á mér og bara þar. Ég ætla að nota tímann fram til 28. apríl til að undirbúa mig andlega, og ég set bara 28. apríl vegna þess að ég á afmæli 24. apríl og á frí alla helgina og vil geta REYKT (!), en líka vegna þess að þá er ennþá nógu langt í sumarfrí og allar þær freistingar sem fríið ber með sér. Ég ætla samt að nota tímann til að gera eitt af því sem doktorinn í Oprah ráðlagði: Vittu hver eru þín "sígarettumóment" og vertu búin(n) að finna við þeim bjargráð eða undankomur með einhverju öðru. Vegna þess, að þegar þú stendur þarna í fyrsta skiptið, þá áttu bara eftir að hugsa EITT:

SÍGARETTA, SÍGARETTA, SÍGARETTA.....

I will keep you posted.......

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Rosalega flott færsla hjá þér kona.

Fann mig í næstum hverri einustu setningu.

Gangi þér vel.

Ég sjálf hætti um áramótin, Var búin að fá nóg , þurfti ekki að "reykja yfir mig" eins og ég gerði svo oft áður.

Notaði champix í desemberi.

Og er enn reyklaus. 100 dagar í dag . Reyklaus.is segir það !

Guðrún (IP-tala skráð) 10.4.2008 kl. 22:07

2 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Ég heiti Hólmdís og er nikotínfíkill. Hef oft hætt og jafnoft byrjað aftur. Í kvöld hjálpaði ég manni í rúmið sem er búinn að reykja annan fótinn undan sér. Hinn fóturinn er ískaldur og þrútin......Dóttir  mín 15 ára er farin að reykja

Hólmdís Hjartardóttir, 11.4.2008 kl. 01:21

3 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Ég hef oft hætt að reykja og cold turky reyndist mér best.  Ég hef hætt í rúm 4 ár og tvisvar í 18 mánuði og síðast bara í 9 mánuði og 25 daga, það var fyrir 3 árum.  Þá þyngdist ég um 16 kíló, þegar viktin sýndi 100 kg ákvað ég að fara út í búð og kaupa mér síkarettur.  Ég hef lést smá en ekki mikið.  Ég sé ennþá eftir því að hafa byrjað aftur, þar sem ég er með viðvarandi hósta meðan ég reyki   En gangi þér vel, hvernig sem þú gerir það cold turkey eða með nikótín lyfjum

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 11.4.2008 kl. 01:37

4 Smámynd: Guðrún Þorleifs

Lilja, flottur pistill hjá þér og ærlegur. Líst vel á að þú skoðir hvenær þínar reykingastundir eru og breytir þeim. Líklega góður tími til að skella sér að hjóla þarna í apríl lok

Þú massar þetta stelpa!!!

Guðrún Þorleifs, 11.4.2008 kl. 06:22

5 Smámynd: Lovísa

Flott færsla

Innlitskvitt, góða helgi

Kveðja, Lovísa.

Lovísa , 11.4.2008 kl. 10:24

6 Smámynd: Georg P Sveinbjörnsson

erm....er nýbyrjaður aftur eftir 5 ára bindindi

Georg P Sveinbjörnsson, 14.4.2008 kl. 17:43

7 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Arggggg, hvað þetta er góð færsla hjá þér!!! Mar fer svona að hugsa sinn gang fljótlega. Verð fimmtug í ágúst, kannski sniðugt að vera laus við þetta þá.

Guðríður Haraldsdóttir, 15.4.2008 kl. 15:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband