I am sick of being sick...

Úff, ég er sko of slöpp til að böggast eitthvað á blogginu í kvöld. Ég, sem er ekki vön að fá flensur í mig, er búin að draga í mig anga af öllum umgangspestum frá áramótum. Hef í flest skiptin staðið upprétt áfram og haldið mínu striki, en í þetta skiptið varð ég að játa mig sigraða.

Ég veiktist á sunnudaginn en asnaðist auðvitað samt í vinnu á mánudaginn. Í gærmorgun komst ég bara ekki fram úr rúminu fyrir beinverkjum, hita, hósta, stífluðu nefi og höfuðverk. Mér fannst það virkilega slæmt þar sem ég átti að vera á endurlífgunarnámskeiði allan daginn, var búin að lesa heilan helling af undirbúningsefni og vildi alls ekki missa af þessu námskeiði. En ákvað að leyfa líkamanum að ráða í þetta skiptið og var heima í mínu eigin yfirlæti. Mín elskulega mamma kom við með gos handa mér (engar litabækur og liti, eins og þegar maður var lítill og veikur....) og svo eyddi ég deginum á sófanum yfir Grey´s Anatomy af flakkaranum mínum. Ég eyddi reyndar meirihluta kvöldsins yfir sama efni, og er nú eiginlega búin að horfa á alla þættina...... (psst.. Gunna, ertu ekki búin að downloada meira af þessum þáttum, mig fer að vanta.....Wink...)

Rétt áður en ég skreið upp í rúm í gærkvöldi, fékk ég algjört kuldakast, hríðskalf og þurfti meira að segja að herða mig upp til að geta sest á klósettsetuna fyrir nóttina. Ég var í flísbuxum og flíspeysu, en ákvað að fara í þykka göngusokka og sloppinn minn yfir áðurnefnda múnderingu og skreið þannig undir sæng - en var samt ennþá kalt. Vaknaði svo um miðja nótt í svitabaði dauðans..... og þetta var vísirinn að því sem koma skyldi í dag. Ég var miklu slappari í dag en í gær, fór ekki fram úr rúminu, klæddi mig í og henti af mér fötum til skiptis, þurfti að setjast upp til að hósta, svo mikið fann ég til í barkanum við þau átök, mæddist við að ganga fram á WC, orkaði ekki að reisa mig upp og teygja mig í vatnsglasið mitt og lá svo bara og mókti allan daginn með hálfgerðum ofskynjunum inn á milli. Þegar fór að líða að seinni parti, læddist að mér sú hugsun að ég yrði eiginlega að hrista þetta eitthvað af mér og drattast á fætur og það sem verra var, bæði okkur og köttinn vantaði eitthvað að borða, svo einhver varð að draga björg í bú. Og þessi einhver var ég Frown 

Það var ekki með glöðu geði sem ég píndi mig í sturtu og kom mér af stað í búðarferð. Það var ekki mikill þokki yfir mér í þessarri verslunarferð, í Cintamani flísbuxunum mínum með hnjám í, gömlum strigaskóm sem voru með mátulega nógu mikið eyddum hælum til þess að ég gæti troðið mér í ullarsokkum í þá, í ullarnærbol, gamalli flíspeysu og svo nýrri þar yfir og svo lopapeysunni minni þar yfir.... ég fann augnaráð unglingsstúlknanna, sem stóðu reykjandi fyrir utan Bónusvideo, lengi á bakinu á mér eftir að ég gekk fram hjá þeim og get mér til hvað þær pískruðu um mig: "Gvöð, dísus, sjá þessa hallæriskellingu, o my god....."

Fékk svitakast í Nettó, en það var ekki alveg staður né stund til að kasta af sér fötum þar, svo ég komst í gegnum þessa verslunarferð heit, móð og hóstandi, en ákvað að pizza úr frystiborðinu í Nettó yrði að duga unglingnum mínum í kvöldmat í kvöld. Mér leið eins og ég þyrfti að hamstra, eins og ég ætti ekki eftir að komast í búð aftur á næstunni, en hugsaði að ef ég ætti eftir að eyða næsta sólarhringi svona og jafnvel næstu, þá ætlaði ég ekki að þurfa að leggja á mig aðra búðarferð í þessu ástandi. Ávextir, ostar, kex, döðlur, gos og ýmislegt úr nammihillunum fékk að rjúka með í innkaupakerruna, mig ætlar sko ekki að skorta neitt næstu dagana.

Ég vona að ég fari bráðum að skríða upp á við, en ef ekki, þá ætla ég að eiga eitthvað í búinu til að narta í - það væri náttúrlega bara draumsýn að búast við því að einhver myndi útbúa eitthvað girnilegt handa mér úr þessum aðföngum, en...... 

Ég var einmitt að lesa blogg hjá einni bloggvinkonu, sem líka er veik, og hún var að lýsa því hvernig við mömmurnar getum aldrei leyft okkur að vera veikar. Við þurfum alltaf að sinna okkar skyldum og sjá um hina fjölskyldumeðlimina, í blíðu og stríðu. Mamma á bara að vera til staðar og gera það sem hún er vön, veik eða ekki. Og já, það er sko meira en satt og rétt hjá henni. Það væri nú nice ef einhver myndi einhverntímann hugsa um okkur veikar, eins og við hugsum um hina, bæði fríska og veika....

Yeah, dream on..... GetLost


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Undanfarin 17 ár hef ég tekið kannski 7 daga frí  frá vinnu vegna veikinda, en vinnan heima er ekki alvöru vinna bara frístundagaman húsmæðra.    Vonandi batnar þér fljótt.  Kveðja frá einni sem er með steraspray í nös og Astma púst, eftir langvarandi kvef, hóst hóst

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 17.4.2008 kl. 00:31

2 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

þetta er pestarveturinn mikli...kemur ekki aftur. Ekki fara of snemma í vinnuna....ég geri það alltaf.

Hólmdís Hjartardóttir, 17.4.2008 kl. 01:15

3 Smámynd: Óskar Arnórsson

Sæl Lilja!

Takk fyrir fyrirsögnina, hún á svo sannarlega við mig. Var að koma úr fimmtu skurðaðgerðinni vegna krabba, er skíthræddur við sjúkrahús og svo fær maður inflúensu.

Kannski af því ég er kall, fer ég stundum út í búð alveg eins og draugur og er nákvæmlega sama um hvort fólk er kannski að pískra um þetta fyrirbæri mig eða ekki. Er bæði ónæmur fyrir áliti annarra og það er ömurlegt að vera haltur og veikur og hafa ekki krafta til að gera annað en setja mat í örbylgjuofn til að borða eitthvað.

Ég á 6 börn, allt dætur,  og stundum var konan mín svo veik að hún var að klæða börnin og útbúa allt sem þau þurftu að taka með sér í skólann, en hefði eiginlega átt að vera á sjúkrahúsi.

Konur sem mæður eru svo sannarlega harðari af sér enn karla í þessum málum. Þess vegna ber ég meiri virðingu fyrir konum en körlum með nokkrum undantekningum eins og venjulega. Var að svara kommentinu þínu um Þráinn Bertelsson rithöfund og bíómyndasmið. Þekki bara ekki þennan mann neitt.

Var viðstaddur fæðingu allra minna barna. Í fyrsta skiptið steinleið yfir mig, og þurfti að stjana í kring um mig á sjúkra húsinu meira en en konuna mína sem var að fæða barn. Veit að karlar eru meiri rolur en konur, trúðu mér í því, hef langa reynslu af því að vera karl.

Þegar ég var ungur og Vigdís Finnboga dóttir var Forseti, pantaði ég tíma hjá henni því hún tók á móti öllum fyrir hádegi á skrifstofu sinni í gamla Alþingishúsinu.

Þegar ég mætti, vissi ég eitthvað ég átti að segja, gleymdi öllu sem ég var búin að undir búa að segja og sagði henni það. Hún skellihló og gaf mer djús. Bara nálægð svona stórkostlegrar manneskju eins og hún er, hefur fengið mig til að dýrka hana  og það geri ég enn.

Farðu vel með þig og ég veit að konur eru oftast miklu sterkari enn karlar þegar reyni á. Það er mín sannfæring og hef ég fullt af sönnunum fyrir því.

Vildi óska þess að þessu landi yrði stjórnað af konum eins og það leggur sig í nokkur ár svo þær gætu hreinsaað upp klúðrið sem karlar eru búnir að búa til hérna á Íslandi.

Óskar Arnórsson, 17.4.2008 kl. 15:15

4 identicon

Hæ Kjúlli Sjúlli.

Er löngu komin með fyrstu 10 þættina í 4 seríu...........kem ´essu til þín ezkan;o) Svo er framhaldið að byrja núna............

Gunna (IP-tala skráð) 17.4.2008 kl. 16:43

5 Smámynd: Lilja G. Bolladóttir

Takk fyrir kommentin ykkar

Vonandi batnar þér fljótt, Jóna. Og Hólmdís, ég er einmitt að berjast við samviskubitið yfir að ætla að vera veik heima einn dag í viðbót - ég er ennþá veik, en alveg eins og vitleysingur er ég frekar að horfa í dagafjölda frá vinnu, heldur en líkamsástandið.....

Takk Gunzo mín, hlakka sko til að fá meira að horfa á, mun skemmtilegra að taka þátt í lífinu á sjúkrahúsinu í Grey´s heldur en á LSH.... allavega miklu sætari læknar í Grey´s .....

Og sérstakar kveðjur til þín, Óskar. Takk fyrir góð komment í "gegnum tíðina" og fínar bloggfærslur á þínu bloggi. Takk líka fyrir svarkommentið þitt til mín á þínu kommentakerfi, og síðast en ekki síst, þá óska ég þér virkilega góðum bata og alls hins besta í þinni baráttu.

Lifið heil öll sömul

Lilja G. Bolladóttir, 18.4.2008 kl. 02:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband