Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2008

Hvenær ætla stjórnvöld að opna augun fyrir þessum vanda?

Þetta er töluverður fjöldi fólks sem hefur greinst á síðasta ári og hlaut náttúrlega einhverntímann að koma að þessu. Ýmsir starfsmenn í heilbrigðiskerfinu hafa í mörg ár bent á nauðsyn þess að sprautufíklar hafi aðgengi að hreinum sprautum og nálum, án þess að borga fyrir þær, en stjórnvöldum hefur ekki fundist það forgangsefni. Þessi áhöld kosta náttúrlega peanuts miðað við kostnað heilbrigðiskerfisins af sýktum einstaklingum, lyfjagjöfum til þeirra og ýmissa veikinda sem veiklað ónæmiskerfi hefur í för með sér. Þegar HIV greinist hjá einstaklingi í þessum hópi, er ekki að spyrja að því, að fleiri smit muni fljótlega koma í ljós, eins og nú hefur komið á daginn. 

Einhverntímann á síðasta ári var frétt í Morgunblaðinu, með fyrirsögnina: "HIV greint í hópi fíkla", eða eitthvað á þá leið. Í þeirri frétt kom fram, að nú fyndist landlækni það mikilvægt, að sprautufíklarnir fengju aðgengi að ókeypis áhöldum, þ.e. sprautum og nálum. Núna fyrst var það orðið mikilvægt. Það er nú eiginlega alveg dæmigert fyrir íslensk stjórnvöld, að það á alltaf að byrgja brunninn eftir að allir eru dottnir ofan í hann í stað þess að fyrirbyggja aðstæðurnar. Setja plástur á sárið í stað þess að koma í veg fyrir það.


mbl.is Þrettán greindust með HIV smit á síðasta ári
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Má maður taka þetta úr skeið??

Var að vinna á slysadeildinni í dag, og þar var læknastúdent frá Hollandi, einn af mörgum frá Hollandi sem hafa verið á LSH þennan veturinn. Þetta er ekki í frásögur færandi, nema vegna þess að einfaldur tungumálamisskilningur okkar á milli, minnti mig á annað mjög skemmtilegt atvik, sem átti sér stað fyrir nokkrum árum.

Þannig var að hnáta ein frá Íslandi, var í læknanámi í Þýskalandi en ákvað að koma heim og vinna á LSH eitt sumarið. Við vorum báðar við vinnu á lungnadeildinni þennan dag og höfðum til meðhöndlunar konu, sem meðal fleiri einkenna hafði hvimleiðan svepp í leggöngunum. Ég sagði læknanemanum frá þessu, og hún ætlaði að kíkja yfir hvaða meðferð væri best við þessum kvilla. Hún lagðist yfir okkar íslensku lyfjaskrá og komst að því að lyfið Pevaryl væri mest notað við svona sveppi í leggöngunum.

Eitthvað kom þó ekki heim og saman í huga stúlkunnar og líklega hefur henni þótt aðferðir Íslendinga til að lækna þennan svepp, í hæsta máta undarlegar. Því hún kom til mín og sagði lágróma: "Segðu mér, Lilja, er ekki "supp" (stytting fyrir lyf í stílaformi), örugglega stílar?"  "Jú,jú", sagði ég, "nema þetta eru auðvitað vaginal stílar sem við erum að tala um" (vagina=leggöng og því vaginal stílar, stílar sem ætlað er að stinga þar inn).  Hún andvarpaði djúpt og sagði: "Já, okey, vegna þess að það stendur í Lyfjaskránni gefist í skeið." (!!!)

Vá, hvað við erum mikið búin að hlæja að þessu á spítalanum LoL LoL, ekki að henni, heldur að þessum fyndna misskilningi.

Sorry, Kata, ef þú lest þetta einhverntímann Cool - þetta var bara of fyndið til að segja ekki frá!

Jæja, er farin að elda.......


Nova hvað???

P.s. sökum athyglisbrests míns hef ég ekki einu sinni tekið eftir þessarri margumtöluðu auglýsingu á hliðarlínunni frá Nova, og sökum einbeitningarskorts þá truflar hún mig ekki hið minnsta. Ég einfaldlega leiði hana hjá mér!! Smile

Svona getur nú lífið verið þægilegt fyrir okkur!!


Er ég ofvirk með athyglisbrest??

Ég las grein í Mogganum um daginn, um ofvirkni og athyglisbrest hjá fullorðnum, og eftir það sannfærðist ég enn frekar um að ég væri haldin báðum kvillunum.... í mjög mismunandi mæli þó.

1. ofvirkir geta sjaldnast unnið 9-5 vinnu, sérstaklega ekki kyrrsetu vinnu eins og skrifstofuvinnu -> ég myndi hreinlega deyja úr leiðindum ef ég þyrfti að mæta á sama staðinn, á sama tíma alla daga og sitja í sama stólnum við sömu tölvuna. Ég myndi frekar vinna í Bónus því þar gæti ég allavega fært mig á milli kassa og stundum fengið að raða í hillur eða vera í mjólkurkælinum! Ég vil hafa líf og fjör í kringum mig og helst ekki vinna með sama fólkinu á hverjum degi - og alls ekki gera sömu hlutina dag eftir dag! Ergo, vaktavinna á spítalanum hentar mér súper dúper - nóg af lífi og fjöri og skemmtilegu fólki (og sjúklingum).

2. þeir sem um er rætt eiga erfitt með að standa í biðröðum  -> tíminn hjá mér líður aldrei jafn lengi og þegar ég þarf að bíða, og þurfi ég að sitja fundi eða fræðslu, get ég ekki hætt að líta á klukkuna. Ekki af því að mér leiðist efnið, ég á bara voða erfitt með að sitja svona lengi kyrr og halda athyglinni allan tímann. Ég er alltaf farin að spá í varalitinn á einhverri konunni, eða tölurnar á skyrtunni hjá öðrum eða eitthvað í þeim stíl, og ef mér leiðist extra mikið þá fer ég að ímynda mér hvers konar maka fyrirlesarinn eigi.... Og dett um leið út úr ýmsu öðru....... Ég get ekki einu sinni haldið athyglinni almennilega í rifrildum, því það má helst ekkert trufla mig á meðan - ég get alveg farið að spá í hvað tennurnar eru asnalegar í rifrildaranum mínum þegar hann segir "ess" eða "þonn" og þannig misst af einhverju sem hann er að segja á meðan. 

3.  Ofvirkir eiga fleiri sambönd á bakinu en aðrir fullorðnir einstaklingar -> Amen. Ekki af því að það hafi eitthvað sérstakt verið að mínum fyrrverandi, a.m.k. ekki neitt sem aðrir sáu, en ég finn alltaf eitthvað til að sannfæra sjálfa mig um að það sé eitthvað betra handan við hornið..... og kannski ekki einu sinni neitt betra, bara eitthvað nýtt og öðruvísi..... Og að fá mig í samband, það getur reynst þrautin þyngri.... Devil

4.  ......eiga erfitt með að skipuleggja sig og fresta oft að byrja á stærri verkefnum  -> ójá, Sick - erfitt og illmögulegt að koma sumum hlutum í framkvæmd, þeir vaxa mér bara svo ótrúlega í augum þegar ég hugsa um þá, að það að byrja á þeim væri hálfgert kraftaverk af minni hálfu.

a) hver sem þekkir mig, kannast ekki við "ritgerðirnar", "verkefnin", "fyrirlestrana" og annað, sem ég gat ekki rætt um við aðra af sektarkennd yfir óbyrjuðu verki, og svo sat Lilja nánast sleitulaust síðustu 3 sólarhringana fyrir skiladag...... (ekki það, að reyndar hefur mér alltaf gengið rosalega vel að læra og í skóla) Smile 

b) það getur vel tekið mig plús þrjár vikur, að hringja í þjónustufulltrúann í bankanum, eða Orkuveituna, Lánasjóðinn eða you name it.... öllum minna skemmtilegum símtölum er auðvelt fyrir mig að fresta - alltaf hægt að finna afsökun fyrir því að gera þetta frekar á morgun. (Úff púff, og ég sem á að ferma í vor - ímyndið ykkur píninguna fyrir mig!)

c) fresta öllu fram á síðustu stundu - þá eru engir back-up dagar til lengur og ég verð bara að gera hlutina. Sit þess vegna oft uppi með ótrúlegustu, í raun auðveldustu hluti í heimi..... alveg á síðasta séns.

5.  ......skipta oft um vinnu  -> já, reyndar var ég lengi í fyrstu vinnunni minni (eftir háskólaútskrift) en þegar ég loksins skipti vegna óánægju, rann það upp fyrir mér að maður á aldrei að vinna nokkurstaðar þar sem maður er óánægður. Og í mínum bransa er það nú bara kostur að hafa prófað ýmsa hluti. Kem til baka að þessu eftir eitt ár, ef ég er þá enn að vinna á slysó, þá stenst þessi kenning ekki!!

6.  .....eiga erfitt með að einbeita sér  -> reyndar er þetta tvískipt í mínu lífi, því ég á í engum erfiðleikum með að einbeita mér í vinnunni, en í einkalífinu er ég svolítið rjúkandi úr einu í annað. Kem heim úr Nettó með fullt af innkaupapokum, fer svo inn á bað til að ganga frá handsápu, tannkremi ofl., en sé í leiðinni að það þarf að pússa baðherbergisspegilinn, svo ég geri það svona rétt á meðan ég er þar. Þá man ég eftir að ég þarf að setja í þvottavél, svo þá fer ég að gera það - og ganga frá þvotti. Og þá sé ég að það er heldur betur kominn tími á að yfirfara sokkaskúffuna hjá unglingnum mínum, svo ég geri það líka. Labba svo fram og man þá að ég er ekki enn búin að ganga frá úr innkaupapokunum. (please, kannast ekki einhver við þetta??) Ég minni stundum á þessa óþreyjufullu í berjamó, þið vitið, þessa sem stökkva alltaf frá einu lynginu til annars án þess að klára að tína af lynginu. Og ófá eru þau skiptin sem ég þurfti nauðsynlega að taka fataskápinn í gegn í miðjum prófum, eða skrifa jólakortin eða þrífa eldhúsinnréttinguna - það var bara bráðnauðsynlegt að koma þessum hlutum í verk akkúrat á þessum tíma Pouty

7.  Ofvirkir eru oft mjög "spontant" persónuleikar og tala og akta oft áður en þeir hugsa hlutina til enda  -> uhumm..... Shocking það hefur nú ýmislegt fokið úr mínum munni, sem betur hefði verið látið ósagt - á misjafnlega mikilvægum stöðum. Óþarflega hreinskilin get ég líka verið - líka við yfirmenn mína, en ég leyfi mér að telja það mér til kosta, a.m.k. stundum. Og oftar en einu sinni hef ég ákveðið utanlandsferðir með minna en tveggja daga fyrirvara. Ójá, maður lifir bara einu sinni - carpe diem er minn hugsunarháttur Joyful

8.  Þetta fólk er mjög oft hálfgerðir spennufíklar  -> ekki hálfgerður heldur alger. Dæmi nú hver fyrir sig, sem þekkir mig!! (þ.m.t. ótrúleg óstundvísi sem nákunnugum þykir oft ekki vera neitt annað, en aðstæður sem ég skapa fyrir sjálfri mér (og öðrum) til að fá adrenalínið upp). Öðrum til mikilla hjartsláttatruflana. 

9.  Ljósi punkturinn er, að ofvirkir einstaklingar með athyglisbrest eru oft frámunalega skemmtilegt fólk Wink (skv. Mbl), fólk sem er fljótt að hugsa og átta sig á aðstæðum, fljótt að aðlaga sig (líklega vegna þess að þeir eru ekki vanir reglu í lífinu hvort sem er), spontant, eiga skemmtileg tilsvör á hverju strái og reytir af sér brandarana. Þannig er ég að sjálfsögðu líka!! Smile Og mikið meira til Tounge


Summary...

Jæja, mín er greinilega byrjuð að vinna aftur og eins og oft áður þegar ég tek mig til, þá er unnið mikið - svona tarnavinna hentar mér ágætlega en kemur óneitanlega niður á ýmsu öðru...... eins og t.d. blómstrandi rykkúlunum undir borðstofuborðinu og þeirri staðreynd að jólatréð stendur ennþá fullskreytt inni í stofunni Undecided Ég þurfti að hóta vini sonar míns um daginn, svo það myndi ekki fréttast til fyrirmyndarmæðranna í hverfinu, að mamma hans Jóhanns væri með jólin hjá sér ennþá í febrúar!

Ég er orðin ríkisstarfsmaður aftur eftir nokkurra ára hlé, og því fylgir að ég þarf að vera búin að plana sumarfrístímann minn í lok febrúar. Úff, og ég sem get ekki einu sinni planað næstu viku, hvað þá meira Gasp Þetta er óneitanlega svolítil pressa, og ef það er eitthvað sem fólk í nautsmerkinu þolir ekki, þá er það að þurfa að ákveða eitthvað undir pressu. Ég er nú samt svo heppin að ég fæ ekki að taka allt sumarfríið mitt í einu, og alls ekki yfir hásumarið, svo það léttir vissulega svolítið á pressunni!

Annað hefur valdið mér hugarangri, og það er að tölvan mín sótti sér einhverja flensu, líklega víruspest. Hún stórhægði á vinnuhraðanum þar til hún loksins gafst eiginlega upp, allavega á netvinnunni. Það tók heila eilífð að komast inn á netið og svo fraus hún þar æ ofan í æ. Ég tók því skyndiákvörðun a la Lilja í gær og skellti mér eftir vinnu í Elko og keypti nýjan grip, og það ekkert smá flotta tölvu Smile Svo nú get ég aftur skráð skoðanir mínar og fengið útrás fyrir innbyrgða reiði mína í garð Sjálfstæðisflokksins, sem er að fokka öllu upp í borginni minni. Ég nenni ekki að eyða fleiri orðum í það mál í bili, en mér finnst að Geir H. Haarde ætti að vakna upp og gera eitthvað í málunum áður en Vilhjálmur jarðar Sjálfstæðisflokkinn. Að sjálfsögðu á bara að kippa manninum út úr þessu öllu saman, fyrst hann ekki sér sóma sinn í að segja af sér sjálfur. Meira helv.... ......!

Fyrst ég var stödd í Elko á annað borð og í stórinnkaupum, ákvað ég að tími væri til að nútímavæðast enn frekar og fá mér líka flakkara. Minn elskulegi bróðir var með mér í för, þar sem hann hefur mesta vitið á svona græjum af öllum þeim sem ég þekki. Ég keypti sjónvarpsflakkara með mörg hundruð GB disk, og svo tók bróðir minn nýja flakkarann minn með sér heim og kóperaði allar sínar bíómyndir, sjónvarpsþætti og síðast en ekki síst alla tónlistina sína yfir á flakkarann. Hann kom svo í heimsókn í dag og tengdi græjuna við sjónvarpið og kenndi mér að nota hana, hvernig ég ætti að setja efni af tölvunni yfir á flakkarann og hvernig ég gæti á auðveldasta háttinn unnið með þetta - og vá hvað ég er glöð. Þetta er ekkert smá sniðugt...... ég vissi ekki að tvö lítil tæki með snúru gætu fært mér slíka gleði..... allavega ekki tæki í þessum notkunarflokki Wink Á morgun ætla ég að taka allar ljósmyndirnar mínar af gömlu tölvunni og setja yfir á flakkarann (því sá hluti gömlu tölvunnar virkar ennþá, sem betur fer!), og þá fer kannski að styttast í það að ég fari að sortera og senda í framköllun eitthvað af myndum síðustu ára!!

Svo er á dagskránni að hefja bumbubana-átak, ekki þó með bumbubananum fræga, heldur á að byrja rólega og taka á mataræðinu. Ég hef nú verið blessunarlega laus við að vera feit, en hef þó aukið mittisummálið svolítið síðustu árin, og ég er farin að átta mig á því, að það mun ekki minnka af sjálfu sér, svo aðgerða er þörf á þessu sviði. Best að byrja strax!

Jæja, nóg í bili, er allavega búin að láta vita að ég er ennþá lifandi og ég mun örugglega setjast fljótlega aftur við nýju, flottu tölvuna mína. Er farin að sofa núna Sleeping

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband