Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2008

Ferming, stjúpfjölskyldur og þakklæti......

Úff, nú er mér létt, öll helstu meginatriði í sambandi við fermingu unglingsins eru komin á hreint. Í kvöld komu barnsfaðir minn, konan hans og dætur þeirra í mat til okkar og við ræddum gestafjölda, matseðil, ákváðum pöntun á kransa- og marsipanköku, fundum mynd af ungviðinu á boðskort og ræddum hve margar kaffikönnur þyrfti til að hella upp á kaffi ofan í fjöldann. Sem sagt, öll helstu atriði komin í vinnslu. Smile

Ég er þakklát barnsföður mínum fyrir að vera svona drífandi og hafa frumkvæðið að flestu því sem snertir fermingu sonar okkar. Ég, sleðinn, kem aldrei neinu í verk, geri bara tossalista og minnislista og skil eftir alls staðar og stressa mig svo yfir því að eiga allt eftir, muna ekki hvar tossalistarnir eru og hafa allt í óvissu og óreiðu. Hann hefur virkilega gefið mér spark í rassinn, (ekki í bókstaflegri merkingu!), en hann hefur vissulega ýtt við mér og neytt mig til þess að taka ákvarðanir og að minnsta kosti sett mig í hugsunargírinn í þessu máli Undecided

Þegar þau voru farin fór ég að hugsa um, hversu mikil gæfa það er að eiga gott samband við "hina" fjölskylduna. Ég þekki svo ótalmörg dæmi um einstæðar mæður og/eða "helgarpabba", þar sem foreldrarnir nánast hatast út í hvort annað, nýja makann og nýju börnin á báða bóga. Allt sem viðkemur nýju fjölskyldunni er sem eitur í æðum hins aðilans. Öll samskipti litast svo af þessum óvinskap og það er enginn sveigjanleiki í þeirra samskiptum - jafnvel reyna þau að gera hvort öðru á móti skapi með ákvörðunum sínum sem snerta sameiginleg börn. Greiðar mót hvort öðru eru ekki inni í myndinni, að bæta við nótt eða draga frá nótt á pabbahelgum er ekki í umræðunni, fjölskylduboð á "óheppilegum" tímum fjarstæða og jólin geta verið hið mesta kvíðaefni fyrir fólk í þessum aðstæðum, að ég tali þá ekki um börn þessarra einstaklinga.

Vissulega höfum ég og barnsfaðir minn átt okkar ágreiningsefni og rifist, en ég er þakklát fyrir það, að stærsta hlutann af ævi sonar okkar, höfum við átt góð samskipti og getað talað saman. Konan hans er yndisleg og okkur semur líka vel, og það er ekki minna mikilvægt. Og eins þykir mér skipta máli að þekkja hálf- og uppeldissystkini sonar míns. Mér þykir mjög vænt um það, þegar systkini hans heilsa mér og kveðja mig með kossi og faðmlagi - það er mjög dýrmætt í mínum augum InLove

Í minni vinnu upplifi ég stöðugt sjúkdóma, dauðsföll, slys og erfiðar aðstæður fólks, og ég er alltaf að minna sjálfa mig á það að manni ber að þakka fyrir góða heilsu, góða fjölskyldu, heilbrigt barn, þakið yfir höfuðið og margt annað sem maður tekur sem sjálfsögðum hlut. En einhvernveginn man maður aldrei eftir því og er áður en maður veit af, farinn að kvarta yfir; brotinni nögl, matnum, að fá ekki tíma í klippingu þegar manni hentar, nágrannanum eða einhverju sem í raunveruleikanum skiptir nákvæmlega engu máli.

Í kvöld, þegar "hin" fjölskylda sonar míns fór, þá varð ég þakklát fyrir að eiga þau að og fyrir okkar vináttu og samskipti, án þess að þurfa að minna sjálfa mig á að vera þakklát. Þessi tilfinning kom alveg að sjálfu sér. Og þetta ætla ég núna að gera að mission - á hverjum degi ætla ég að muna að vera þakklát fyrir eitthvað sem ég að öllu jöfnu tek sem sjálfsögðum hlut. Hætta að horfa á það neikvæða í lífinu og veita þessu jákvæða meiri athygli.

.......það þýðir ekki að ég muni hætta að nöldra stundum.... en bara stundum..... Wink

Nóg í bili...........


Spelkur í stað gips?

Þetta eru auðvitað frábærar fréttir og vonandi komast þessar spelkur sem fyrst í gagnið á mínum vinnustað (slysadeildinni), en gætu þeir ekki hannað svona spelkur á hendur, þ.e. fingur og úlnliði, því þau gips er miklu erfiðara að leggja á fólk heldur en gips á fætur Undecided ......bara hugmynd.
mbl.is Nýjung leysir gifsið af hólmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flensa pensa :-(

Æ æ, nú hefur flensan bankað upp á hjá okkur..... vorum reyndar bæði drulluslöpp í gær, unglingurinn tilkynnti um magaverk þegar hann kom heim úr skóla, og það sama fékk ég á leið úr vinnu seinna um daginn, var við það að hlaupa frá innkaupakerrunni minni í Nettó til þess að fara út og æla. Bæði sváfum við á sitthvorum sófanum milli kl. 17 til 20 í gæreftirmiðdag - hann var svo lystarlaus og slappur það sem eftir lifði kvölds en ég með beinverki og kuldahroll. Núna erum við svo bæði lasin með hita Frown Kannski einasta bót í máli, að við skyldum álpast til að verða veik bæði á sama tíma...... Það er bara svo stutt síðan síðast Blush ..... og svo man maður aldrei eftir fleiri hlutum sem maður ætlaði að gera, en einmitt þegar maður er veikur.....

Það er kannski um að gera að njóta þess sem hægt er í þessum aðstæðum, það er að fara aftur upp í rúm þegar búið er að hringja í skólann..... og njóta þess að sofa lengi, lengi.....


Gott hjá Dönum - skömm að íslenskum stjórnvöldum!!!

Þetta finnst mér þarft framtak hjá dönskum yfirvöldum og mættu þau íslensku taka sér Danina til fyrirmyndar í mörgum málum sem snúa að velferð þegnanna.

Heroín-neysla í Danmörku er gríðarleg og smákrimmarnir þar af leiðandi jafnmargir - krimmar sem margir flestir eru ekki illa innrættir og alls ekki illa gefnir, en eru í smáafbrotum til þess að draga lífið fram. Með þessu framtaki frænda okkar mun þessum smáglæpum fækka til muna, öllum til góða.

Það er ömurlegt líf að vera forfallinn eiturlyfjaneytandi og sérstaklega heróínneytandi, það er enginn sem velur sér þannig líf þótt þeir leiðist út í það, oft í fikti til að byrja með - alveg eins og það veit enginn hvort hann er alkoholisti fyrr en hann byrjar að drekka í fyrsta sinn. Þetta er barningur hvern dag fyrir þetta fólk og margt þeirra óskar þess alltaf, að næsta sprauta verði sú síðasta, þeir sjá oft engan tilgang með lífinu annan en að berjast fyrir næsta skammti - og það er ekki mjög innihaldsríkt líf. Margir hverjir sjá ekki einu sinni tilgang í því að verða "clean" því þeir eru hvort sem er búnir að missa af félagslegu lestinni; fá hvergi vinnu, erfitt að fá húsnæði, fjölskyldan búin að gefast upp á þeim, jafnaldrar á annarri sólstjörnu miðað við þá, gamlir vinir farnir og gleymdir, búið að banna þeim umgengni við börnin sín (ef þeir eiga einhver) og í raun öll sund lokuð .... það er lítið sem þeir hafa að snúa sér að þótt þeir losni undan fíkninni, þetta er ömurlegt líf hvernig sem þú snýrð dæminu. Þá er ég að tala um fólk, sem hefur eytt hálfri ævinni eða meira í neyslu, það kann ekkert annað og er í raun staðnað félagslega og að mörgu leyti í andlegum þroska líka, og á sama stað í lífinu og t.d. 16 ára unglingar, og það er ekki gaman eða auðvelt að snúa þannig út í lífið kannski 36 ára eða 46 ára.

Ég vann um tíma með götu-hjúkrunarfræðingunum á Istegade í Kaupmannahöfn og upplifði þar eymd heróínfíklanna eins sterka og hún getur orðið. Við höfðum aðsetur í kirkjunni á Istegade, einmitt þar sem mesta kaup- og sala á heróíni fer fram og eymdin er sláandi. Seinna vann ég á Vogi, og þrátt fyrir að ekki séu margir heróínfíklar til á Íslandi, þá eru þeir nokkrir, en einnig eru hörðustu sprautufíklarnir (morfínfíklarnir) á Íslandi í álíka eymdarlegum sporum og "kollegar" þeirra í Danmörku. Og það er SKÖMM fyrir íslenska samfélagið að við gerum ekki betur í baráttu okkar við fíkniefnin. Íslensk stjórnvöld eru að gera nákvæmlega ekki neitt!! Á meðan morfínfíklarnir (sem og aðrir sprautufíklar) verða yngri og yngri. Okkur ber skylda til þess að taka á þessum málum með öðrum fingrum en þumal- og baugfingri - þú veist aldrei nema þitt barn verði næst fíkninni að bráð!!


mbl.is Danskir læknar skrifi upp á heróín
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Helgin sem leið svo glatt, svo glatt.......

Jæja, bara ein helgi liðin og samt svo margt búið að gerast.....

Við fengum nýjan heimilismeðlim fyrir helgina, nefninlega fressköttinn hennar Thelmu Ásdísardóttur, sem er eins árs gamall. Hún og sonur hennar komu með hann til okkar á föstudagskvöldið og aumingja greyið hljóp beint undir rúm hjá syni mínum og þaðan yfir í rúmskúffuna hans...... og þar var hann næstu tólf tímana eða svo. Daginn eftir var ég að vinna og sonur minn hringdi í ofboði og sagðist hvergi finna köttinn, en eftir langa leit kom hann í ljós á bak við þvottavélina okkar og þar var hann svo fram á nótt. Daginn eftir, sem sagt í gær, upphófst sama leitin að kettinum þegar við fórum á fætur. Við sáum að hann hafði komið við í kassanum sínum, en matinn hafði hann ekki snert og ég orðin ansi áhyggjufull yfir því að kötturinn væri að svelta sig í mótmælaskyni við heimilisskiptin. Við fundum dýrið svo uppi á einum borðstofustólnum, búinn að hálfvefja sig í borðdúkinn, og þá hófst smá eltingaleikur þar sem við reyndum að dekstra köttinn til okkar en hann hoppaði á milli stóla, þar til hann sá sér leik á borði og hljóp undir sófa - þar sem hann svo dvaldi allan daginn og langt fram á kvöld. Ég hafði í byrjun ákveðið, að gefa kettinum þann tíma sem hann þyrfti til að venjast nýjum aðstæðum, en lagðist samt reglulega á hnén og sýndi honum athygli og blíðu, og loksins, loksins..... þegar við mæðginin sátum að horfa á danska þáttinn, stakk hann snoppunni undan sófanum og fikraði sig svo varlega undir sófaborðið. Hann var svolítið hvumpinn í byrjun en allt í einu var hann farinn að mala og kurra og nudda sér upp við okkur og svo var hann ekki lengi að færa sig upp á skaftið, og stökk upp á húsmóðurina, sem lá í sófanum og hreinlega gekk yfir mig þarna í sófanum Smile Og nú er sigurinn unninn. Yndislegt malandi dýr sem tók á móti mér þegar ég kom úr vinnu í dag - en reyndar held ég að hann sverji sig svolítið í ætt við sína nýju fjölskyldu, því honum finnst greinilega gott að sofa á daginn og vaka á nóttunni!! Hann var á röltinu um íbúðina langt fram á síðastliðnu nótt og ég heyrði mjálmið í honum alveg til klukkan þrjú Shocking Ætli hann fari ekki að vakna og fara á stjá hvað úr hverju núna......

Á laugadagskvöld höfðum við aðra litla, yndislega karlkynsveru í heimsókn, nefninlega tæplega tveggja ára gamlan systurson minn, sem kom í gistingu. Sá var nú ívið fjörugri en kötturinn en ofboðslega góður og það var alveg æðislegt að hafa hann í heimsókn. Greyið litla kastaði reyndar upp yfir sig allan um miðja nótt, en svo virtist hann hinn hressasti á eftir og a.m.k. alveg nógu hress fyrir lítið páskaegg og rólótúr daginn eftir Smile Hann var svo skíthræddur við köttinn, að bara að sjá glitta í hann á bak við þvottavélina, framkallaði ægilegan grátur, svo kannski var það gott að kötturinn ákvað að halda sig til hlés þennan tíma sem drengurinn var hjá okkur......

Í gær fórum við mæðginin svo í fermingarfata-leiðangur, leiðangur sem heppnaðist vel. Eitt stykki jakkaföt, skyrta og bindi voru keypt og þetta gekk eins vel og hugsast gat. Minn drengur fílaði sig svona vel í fyrstu fötunum sem hann mátaði og ákvað að skella sér á þau, svo þá var málið búið. Ég gat nú ekki varist því að hugsa um, hve stutt það er þar til litli drengurinn minn verður að manni, þegar ég sá hann svona uppáklæddan í jakkaföt með bindi. Nú fer hann bráðum að verða of gamall til að nenna með mömmu í bíó eða keilu Frown og það er svolítið skrýtin tilhugsun.....

Daginn enduðum við í húsi foreldra minna, þar sem pabbi átti afmæli. Við vorum reyndar búin að gleyma að við ætluðum þangað, (eða öllu heldur búin að gleyma að mamma væri búin að hafa fyrir okkur), þegar við vorum í fermingarleiðangrinum í Kringlunni, svo við höfðum fengið okkur ærlega í gogginn á Stjörnutorginu. En ekki gátum við verið ókurteisir gestir foreldra minna, og svo getur maður nú alltaf aðeins á sig bætt, svo við vorum nær afvelta þegar við löbbuðum þaðan út tveimur tímum seinna Sick

Það er nú eiginlega lýsandi fyrir hugsunarhátt margra fermingarbarnanna, að frændi minn einn spurði son minn í gær: "Jæja, Jóhann, og ertu þá að verða tilbúinn fyrir ferminguna?"  "Já", svaraði minn maður.... "nema mig vantar bara skó."  "Uhumm, já, jæja....", svaraði frændinn, "en ég var eiginlega meira að hugsa um hvort þú kynnir kristinfræðin þín og vissir hver tilgangur fermingarinnar er."  Þá var nú minna um svör hjá mínum Shocking


Leit karlmanna að G-blettinum....

Þegar ég bjó í Danmörku fékk ég einu sinni afmæliskort frá vinkonu minni með eftirfarandi áletrun á:

"Hvordan kan vi forvente at mænd kan finde G-punktet hvis de ingen gang kan ramme toilettet??"  Tounge

Say no more.....


mbl.is Leitað að G-blettinum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Herbalife - my ass!

Ég vona að ég sé nú ekki að reita fjölda fólks til reiði, en þetta Herbalife er nú meiri helvítis sölubrellan. Ekki það að ég hafi nokkurn tímann látið glepjast, en ég þekki fjöldann allan af konum, sem eru obsessed af þessu, og flestar þeirra eru svo fanatískar á allt sem heitir venjulegar matarvenjur eða súkkulaðiát...... Uhuhu, mig bara hryllir við þessu rugli.

Ég skal alls ekki segja að þessar vörur séu ekki góðar, eða einhverjar þeirra að minnsta kosti. En að það sé hægt að heilaþvo heilu raðirnar af konum með þessu bulli, finnst mér fulllangt gengið.

Sumar konur sitja voðalega spekingslegar á svip með Herbalife brúsann sinn og hrista morgunmatinn sinn saman á vinnustöðum, á meðan aðrar úða í sig ristuðu brauði með marmelaði og osti. Svo hrista þær hausinn yfir kynsystrum sínum, að láta þetta ógeð (sem sagt brauðið) inn fyrir sínar varir.

Ef einhver segist langa í súkkulaði akkúrat núna, þá er Herbalife kellingin ekki langt undan, að bjóða nýjasta stykkið í framleiðslulínunni með súkkulaðibragði eða döðlum og einhverju drasli í, sem á augljóslega að vera mikið betra fyrir okkur heldur en venjulegt KitKat eða Mars.

Aumingja feitu konurnar, sem reynt hafa flest til að grennast, láta svo í örvæntingu glepjast af þessu Herbalife-kjaftæði og bætast í hóp þeirra sem sitja og hrista brúsana sína með vandlætingarsvip á vinnustöðunum - svo grennast þær um 12 kg og leggjast á hnén til að þakka Herbalife fyrir árangurinn og hætta á hristi-kúrnum sínum og byrja að éta aftur..... og bæta svo á sig 18 kg í kjölfarið. Aha, mjög góður kúr sem sagt, ef þú ætlar að lifa á þessu hristigutli það sem eftir er..... how fun is that??

Og svo síðast en ekki síst, ef þú vinnur með svona Herbalife konu, og ert að tala um þitt líf að einhverju leyti, annaðhvort að maður sé þreyttur, eða með þurra húð, hafi ekki fengið fullnægingu í gær, sé illt í tábeininu eða með túrverki --- you name it, hún á svar við því, annaðhvort krem eða pillu.

Jæja, svona eru þær nú, a.m.k. sumar af þessum Herbalife-kellingum. Látum það nú kannski vera. En ég lenti í því fyrir nokkrum árum síðan, að hitta ágætismann á bar einum í bænum, sem ég spjallaði heillengi við og ákvað svo að kíkja með "í kaffi" heim til hans á eftir. Það er skemmst frá því að segja, að við gengum inn í forstofuna heima hjá honum og svo inn fyrir hana. Og þar blasti við þessi fallegi tekk-skápur sem ég fór að dást að. Svo rak ég augun í innihald skápsins og sá að hann var fullur af Herbalife vörum. Ég sneri mér við og spurði hann hvort hann væri giftur eða byggi með systur sinni eða eitthvað því um líkt. Hann bara: "Nei, nei, ég á þetta."  "Átt þú þetta???", hváði ég. "Já, ég er að selja Herbalife", sagði þessi ekki-svo-ágæti-maður í mínum augum lengur.

Það var gott að ég var ekki komin úr skónum og svo var heldur ekki langt í útidyrahurðina - verst ég missti af taxanum sem nýlega hafði látið mig út við þetta vitleysingabæli..... en það var allt í lagi, ég er ung og hraust, létt á mér og með heilbrigða hugsun, þrátt fyrir að vera ekki á Herbalife!! Djöfullinn sjálfur, og ég sem hélt að ég hefði séð það flest......


Jólaskrautið loksins farið.....

Þá gerðist það loksins, jólaskrautið fékk að fjúka niður í geymslu og það tók nákvæmlega 35 mínútur (!!!) - ég skil vel að ég hafi séð ofsjónum yfir þessum framkvæmdum í einn og hálfan mánuð Sick Þetta er líklega eitt af því sem verður sífellt erfiðara að framkvæma eftir því sem tíminn líður, en hjúkk maður hvað ég er fegin að vera laus við þetta helv..... jólatré, eins mikið og það gladdi augað þegar það átti við! Unglingurinn byrjaði reyndar, var greinilega búinn að fá sig fullsaddann af framtaksleysi móðurinnar því það er ekki oft sem hann tekur til hendinni óumbeðinn. En þegar ég kom heim úr búðinni, var hann sem sagt búinn að tína allar jólakúlur og seríur af trénu OG brjóta tréð saman í þann kassa sem það dvelur í meirihluta ársins. Gott framtak þetta hjá honum, svo ég átti eiginlega einskis kostar völ nema að halda áfram með verkið..... Blush þótt ég væri ekki alveg búin að plana þessar framkvæmdir akkúrat í kvöld, sko.

Nefspreyið er greinilega að virka, því í staðinn fyrir að vera með þrýsting alls staðar í andlitinu, þá heyri ég alls konar undarleg hljóð inni í hausnum þegar stíflur losna og þrýstingur gefur undan, einhvern veginn svona: "ggggrrruuggg", og mann kitlar inni í hausnum í leiðinni. Nú er bara að passa sig að snýta öllu út og alls ekki sjúga upp í nefið!! Ég held að ég þurfi engin sýklalyf í þetta skiptið!! Þetta er allt að koma og ég mæti í vinnu á morgun frísk og laus við andlitsþrýsting.

Unglingurinn óskaði sér bara fisk í raspi í kvöldmatinn - það var í alvöru hans ósk!! Ég elda nú alveg stundum máltíðir a-la-Ragnar, en ekki eins oft og hann kannski, og svo er ég heldur ekkert alltaf að monta mig af því þegar ég elda eitthvað framúrskarandi, eins og sumir.......Halo Gamli góði heimilismaturinn blívur alveg.... og hann fékk líka soðnar kartöflur og gott og ferskt sallat með.....

Annars er Liverpool að spila gegn Inter Milan í meistaradeildinni akkúrat núna, svo ég má heldur ekkert vera að þessu, hvorki að elda né að skrifa.

Blessuð......


Það var nú kominn tími til!!!

Það þykir mér nú kominn tími til að ræða lestarsamgöngur á landinu, og þá helst á höfuðborgarsvæðinu. Ég skil vel að frekar óhagkvæmt sé að leggja brautarteina vítt og breitt um landið, en á höfuðborgarsvæðinu, þar sem fjarlægðir eru orðnar ansi langar og umferðaræðar mjög tepptar á ákveðnum tímapunktum - þar er þetta í raun eina lausnin til að leysa þá þungu umferð sem plagar okkur höfuðborgarbúa. Ekki fleiri akreinar, hringtorg eða mislæg gatnamót heldur lestarkerfi. Ég er alveg hissa á því að þessi möguleiki hafi aldrei verið skoðaður fyrr.

Til þess að þetta yrði hagkvæmt, þyrfti þó stór hluti höfuðborgarbúa að leggja bílum sínum, a.m.k. að hluta, og ferðast með lestum til og frá vinnu og/eða skóla. Í Evrópu er þetta alls ekki óalgengt, þ.e. að eiga bíl en ferðast samt sem áður með lestum til og frá vinnu, bíllinn er þá meira notaður um helgar og í lengri (út fyrir bæinn) og styttri keyrslum (í næsta nágrenni). Í Kaupmannahöfn, London, París og öðrum stórborgum sér maður allar tegundir fólks í lestunum; það er skólafólkið, skrifstofumenn í jakkafötum með fartölvurnar sínar, framakonur í drögtum með innkaupapoka á leið heim úr vinnu, fólk á leið á djammið, á leið á fótboltaleiki og allir þar fyrir utan. Fólkið þar veit sem er, að þú ert einfaldlega miklu fljótari að ferðast með lest sem þarf ekki að stoppa á umferðarljósum eða taka tillit til einstefnugatna, heldur keyrir bara þvert yfir (eða undir) allt saman. 

Þegar ég bjó í Danmörku fannst fólki bara heimskulegt að ætla út á "motorvejen" á ákveðnum tímum. Til hvers að sitja fastur þar í 2 klukkutíma, ef þú gast farið með lest á 40 mínútum og slappað af á meðan, lesið blöðin, drukkið kaffi og borðað rúnnstykkið þitt? Fyrir mér voru þetta stundum einu stundirnar sem ég hafði fyrir sjálfa mig í friði yfir daginn, annaðhvort til að lesa eða tala í símann. Og er það ekki það sem við öll höfum þörf fyrir í dag, meiri tíma fyrir okkur sjálf í einrúmi??


mbl.is Vilja láta skoða hagkvæmi lestarsamgangna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stíflaðar ennisholur geta haft ágætis kosti...

Ég vann 42 klst á spítalanum liðna helgi, sitt kvöldið hvort á blóðmeinadeildinni og smitsjúkdómadeildinni og svo allar nætur á slysadeildinni. Það má með sanni segja að hlýnandi veður hafi drifið fólk úr holum sínum og niður í miðbæ, það var í það minnsta ansi annasamt hjá okkur aðfaranótt sunnudagsins. Ég held ég fari með rétt mál þegar ég segi, að frá miðnætti og til kl. 8 á sunnudagsmorgun, hafi verið eitthvað yfir 80 komur á slysadeildina. Ansi fjörugt á þeim bænum, við sem vorum á vakt fengum sannarlega að vinna fyrir okkar háu launum. Ætli fólkinu sem var að djamma aðfaranótt sunnudagsins hafi liðið eins og beljum sem er sleppt úr bás og út í haga á vorin, þegar það loksins gat spókað sig og slegist í miðbænum aftur eftir erfiða vetrartíð undanfarnar vikur?

Ég er núna með ennis- og kinnholubólgu eins og hún gerist best, (eða verst), þegar maður helst ekki getur beygt sig fram fyrir sig vegna þrýstings á hinum ýmsu stöðum í andlitinu og í höfði. Eini kosturinn við þetta ástand er, að nú er ég löglega afsökuð fyrir aðgerðarleysi sem tengist ryksugu og skrúbbu. Annars á ég góðan vin sem er læknir, og ég íhugaði það að hringja í hann og biðja hann að símsenda fyrir mig sýklalyf í næsta apótek, en ákvað svo að bíða og sjá til næstu tvo daga. Það rann líka upp fyrir mér, að ég hef aldrei á æfinni farið jafn oft á sýklalyf eins og þessi ár sem ég hef þekkt þennan ágæta mann - ætli það sé ekki vegna þess að ég hef betra aðgengi að honum heldur en heimilislækninum mínum á þessum síðustu og verstu tímum? Cool

Þessar holubólgur veita mér einnig löglegt frí frá vinnu á morgun, og því var ég í kvöld mætt stundvíslega í gamla, góða sófann minn í mínar gömlu, góðu stellingar. Með nefspray í annarri höndinni, snýtupappír í hinni, fjarstýringuna að græjunum á borðinu og tölvuna ekki langt undan. Eins og ég sagði frá um daginn, þá setti bróðir minn heilan helling af afþreyingarefni inn á flakkarann minn og um daginn uppgötvaði ég Greys Anatomy. Ég hef aldrei setið yfir heilum þætti á Stöð 2, en eitthvert kvöldið í síðustu viku byrjaði ég að horfa. Þegar ég var komin í gegnum tvo þætti var ég algjörlega límd við skjáinn. Ég sat langt fram á nótt yfir þessu skurðstofudrama, sem var ekki gott því ég var geyspandi allan daginn í vinnunni næsta dag. Svo núna get ég þakkað andlitsholunum mínum fyrir enn einn hlutinn, sem sagt í kvöld (og í nótt), komst ég, nátthrafninn, enn lengra í áhorfinu að Greys, og það ekki með samviskubiti. Þetta eru alveg ágætis holur eftir allt saman Smile

En jafnvel ég veit stundum hvenær gott er að stoppa, og það myndi sem sagt vera akkúrat núna.

Góða nótt frá Lilju og holunum


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband