Ferming, stjúpfjölskyldur og þakklæti......

Úff, nú er mér létt, öll helstu meginatriði í sambandi við fermingu unglingsins eru komin á hreint. Í kvöld komu barnsfaðir minn, konan hans og dætur þeirra í mat til okkar og við ræddum gestafjölda, matseðil, ákváðum pöntun á kransa- og marsipanköku, fundum mynd af ungviðinu á boðskort og ræddum hve margar kaffikönnur þyrfti til að hella upp á kaffi ofan í fjöldann. Sem sagt, öll helstu atriði komin í vinnslu. Smile

Ég er þakklát barnsföður mínum fyrir að vera svona drífandi og hafa frumkvæðið að flestu því sem snertir fermingu sonar okkar. Ég, sleðinn, kem aldrei neinu í verk, geri bara tossalista og minnislista og skil eftir alls staðar og stressa mig svo yfir því að eiga allt eftir, muna ekki hvar tossalistarnir eru og hafa allt í óvissu og óreiðu. Hann hefur virkilega gefið mér spark í rassinn, (ekki í bókstaflegri merkingu!), en hann hefur vissulega ýtt við mér og neytt mig til þess að taka ákvarðanir og að minnsta kosti sett mig í hugsunargírinn í þessu máli Undecided

Þegar þau voru farin fór ég að hugsa um, hversu mikil gæfa það er að eiga gott samband við "hina" fjölskylduna. Ég þekki svo ótalmörg dæmi um einstæðar mæður og/eða "helgarpabba", þar sem foreldrarnir nánast hatast út í hvort annað, nýja makann og nýju börnin á báða bóga. Allt sem viðkemur nýju fjölskyldunni er sem eitur í æðum hins aðilans. Öll samskipti litast svo af þessum óvinskap og það er enginn sveigjanleiki í þeirra samskiptum - jafnvel reyna þau að gera hvort öðru á móti skapi með ákvörðunum sínum sem snerta sameiginleg börn. Greiðar mót hvort öðru eru ekki inni í myndinni, að bæta við nótt eða draga frá nótt á pabbahelgum er ekki í umræðunni, fjölskylduboð á "óheppilegum" tímum fjarstæða og jólin geta verið hið mesta kvíðaefni fyrir fólk í þessum aðstæðum, að ég tali þá ekki um börn þessarra einstaklinga.

Vissulega höfum ég og barnsfaðir minn átt okkar ágreiningsefni og rifist, en ég er þakklát fyrir það, að stærsta hlutann af ævi sonar okkar, höfum við átt góð samskipti og getað talað saman. Konan hans er yndisleg og okkur semur líka vel, og það er ekki minna mikilvægt. Og eins þykir mér skipta máli að þekkja hálf- og uppeldissystkini sonar míns. Mér þykir mjög vænt um það, þegar systkini hans heilsa mér og kveðja mig með kossi og faðmlagi - það er mjög dýrmætt í mínum augum InLove

Í minni vinnu upplifi ég stöðugt sjúkdóma, dauðsföll, slys og erfiðar aðstæður fólks, og ég er alltaf að minna sjálfa mig á það að manni ber að þakka fyrir góða heilsu, góða fjölskyldu, heilbrigt barn, þakið yfir höfuðið og margt annað sem maður tekur sem sjálfsögðum hlut. En einhvernveginn man maður aldrei eftir því og er áður en maður veit af, farinn að kvarta yfir; brotinni nögl, matnum, að fá ekki tíma í klippingu þegar manni hentar, nágrannanum eða einhverju sem í raunveruleikanum skiptir nákvæmlega engu máli.

Í kvöld, þegar "hin" fjölskylda sonar míns fór, þá varð ég þakklát fyrir að eiga þau að og fyrir okkar vináttu og samskipti, án þess að þurfa að minna sjálfa mig á að vera þakklát. Þessi tilfinning kom alveg að sjálfu sér. Og þetta ætla ég núna að gera að mission - á hverjum degi ætla ég að muna að vera þakklát fyrir eitthvað sem ég að öllu jöfnu tek sem sjálfsögðum hlut. Hætta að horfa á það neikvæða í lífinu og veita þessu jákvæða meiri athygli.

.......það þýðir ekki að ég muni hætta að nöldra stundum.... en bara stundum..... Wink

Nóg í bili...........


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Sonur minn sem hefði átt að fermast núna í vor, ákvað fyrir 2 árum að fermast ekki hvorki í kirkju né hjá siðmennt. Ég reyndi að fá hann til að fermast þó ekki væri nema fyrir gjafirnar en hann sagði nei.  Hann er skrítinn unglingur minn einkasonur.  Allar 4 eldri systur hans voru fermdar, og sú yngsta verður eflaust fermd eftir 3 ár. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 27.2.2008 kl. 03:02

2 Smámynd: Lilja G. Bolladóttir

Vá, Jóna, átt þú öll þessi börn eða eru einhver hálfsystkini þarna??

Mér finnst flott þegar börn á þessum aldri taka svona sjálfstæðar ákvarðanir - svona sjálfstæð var ég ekki á þessum aldri þótt ég vissulega hafi bætt það upp seinna meir og orðið einum of sjálfstæð stundum  ...... a.m.k. að mati margra.....

Lilja G. Bolladóttir, 27.2.2008 kl. 03:09

3 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Hæ,  búin að ferma 2 stelpur.Sá um allan mat sjálf( hef nefnilega gaman að því) Fékk vinkonur í eldhúsið sjálfan fermingardaginn. Faðir þeirra kom hvergi nálægt. Það eina sem hann var beðinn að gera gerði hann tilneyddur og fúll. Yngri stelpan fór í Siðmennt. Hún vildi ekki hefðbundna fermingartertu heldur pöntuðum við flotta ístertu frá Kjörís sem komst ekki í frost hjá mér og þeir geymdu hana í 10-11. Hún vildi reyndar ekkert hefðbundið og valdi sér seviettur með rauðum hjartarhaus á!!! Allt átti að vera svart og rautt. Hjá eldri stelpunni var limegrænt og það var auðvelt að gera fallegar skreytingar með blómum og lime og ananas. Gangi þér vel,þetta er ekkert stórmál

Hólmdís Hjartardóttir, 27.2.2008 kl. 05:55

4 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Ég á öll 6 börnin sjálf og með sama manninum, var gift honum í rúm 22 ár en við vorum saman í rúm 28 ár

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 27.2.2008 kl. 10:59

5 Smámynd: Sigrún Óskars

Það er alltaf gott þegar foreldrar geta unnið saman og talað saman þótt þau séu ekki saman lengur, gott fyrir alla. Ég fermdi í fyrra unglinginn minn og sáu þeir feðgar um allt, já allt, salinn, matinn drykki.........Eg var á kafi í náminu og lét þetta allt eftir til þeirra og stóðu þeir sig frábærlega. Unglingurinn hafði líka sterkar skoðanir á öllu.

Gangi ykkur bara vel í undirbúningnum.

Sigrún Óskars, 27.2.2008 kl. 19:15

6 identicon

Vá, en flott og þroskað blogg. Vildi að það væru fleiri sem hugsuðu svona eins og þú (þegar við munum eftir því þ.e.a.s.). Híhí.

En alveg rétt hjá þér. Lífið flýgur hjá og fólk eyðir dýrmætum stundum sem aldrei koma aftur í eitthvað innantómt rugl sem skiptir akkúrat engu. Þroskinn kemur oftast með aldri og reynslu, en hjá sumum virðist þetta aldrei gerast, og það er erfitt að kenna gömlum hundi að sitja.

Gaman að fylgjast svona með þér, allt annað líf, nú vitum við allt um hvor aðra þegar við hittumst svona með fáranlega miklum fresti:o) Hef einmitt verið dugleg að blogga undanfarið eftir svolitla lægð................hey, öll erum við mannleg. Talandi um menn..........vá, trúi því varla að Spóinn sé að fermast. Er hann byrjaður að safna fyrir bílprófinu, vill hann rakvél í fermingargjöf?

Knús..................... 

Gunna (IP-tala skráð) 27.2.2008 kl. 20:48

7 Smámynd: Leifur Runólfsson

Ef fólk getur átt börn saman, þá getur það vonandi talað saman, þó ekki sé nema vegna barnsins/barnanna. En því miður er ekki ávallt um slíkt að ræða. En í mínu tilfelli gengur það yfirleitt alltaf upp að ræða málin, þó svo að við séum oft á öndverðu meiði, en við náum alltaf lendingu á endanum og sem betur fer höfum við haldið börnunum fyrir utan þau mál.

Leifur Runólfsson, 28.2.2008 kl. 01:13

8 identicon

Maður varð bara hálf snortinn við að lesa þetta blogg,verð bara að hrósa þér fyrir einlægnina sem þú berð í þínu hjarta.

Einstæður faðir (IP-tala skráð) 29.2.2008 kl. 12:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband