Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2008
28.4.2008 | 02:02
Eldur laus og góð helgi..... yeah!!!!
Ó jæja, rétt að kvitta inn eftir ógeðslega góða afslöppunarhelgi í sumarbústað. Í þessum sumarbústað var ekki til klukka, engin vinna og engin börn. Það var borðað þegar maginn sagði já, opnuð góð vínflaska þegar heilinn sagði já, sofið þegar maður var þreyttur og vakað þegar maður var glaður. Ekki skemmdi fyrir góður félagsskapur Mr. K. sem tókst að fullkomna helgina. Af hverju getur ekki lífið bara verið svona, en líklega er það vegna þess að svona helgar eru algjört stílbrot í hversdagsleikann, sem þær eru svona góðar
Og svo er komið sunnudagskvöld, og ég get farið að kvíða nýrri vinnuviku. Ekki af því að mér þyki vinnan mín leiðinleg, en það er bara svo miklu skemmtilegra og betra að vera í fríi.....
Við vorum í seinna fallinu heim í kvöld, af ýmsum (góðum) ástæðum. Ég undraði mig aðeins á hvíta rykinu sem þakkti teppið í stigaganginum mínum, á leiðinni upp með draslið mitt. En ekkert mikið. Ég var svo sem ekki mikið að spá í þetta. Þar til ég hitti dóttur nágranna míns, sem tilkynnti mér, að eldur hefði kviknað í íbúð foreldra hennar fyrr í dag. Út frá þvottavélinni þeirra. Það hafði víst verið pínu action, bæði slökkvilið, lögregla og sjúkrabílar mætt á vettvang..... minn unglingur sem átti að vera heima að læra, hafði samt ekki tekið eftir neinu....??? Spurning hvað hann var að gera á þessum tíma.....
Þetta mun vera í þriðja skiptið síðan ég flutti inn fyrir nákvæmlega tveimur árum, sem eldur kviknar í stigaganginum okkar. Ætli ég sé "save" hérna?? Ég verð auðvitað að taka það fram, að mínir uppáhaldsnágrannar slösuðust ekkert... sem betur fer.
Jæja, stigagangurinn verður þrifinn á morgun, og ég held að við séum að fá magnafslátt á djúphreinsingu af teppum, það hlýtur bara að vera..... Það verður allavega leitun að hreinni teppum en í stigaganginum okkar....
Dægurmál | Breytt 29.4.2008 kl. 00:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
25.4.2008 | 02:23
Hvað á maður eiginlega að segja við svona......?
Góður afmælisdagur minn að kveldi kominn Ég orðin 35 ára, og fannst það ekki hið minnsta hræðilegt. Mér fannst það mun verra þegar ég varð 30 ára, en þetta var bara piece of cake!!
Ég er nú voðalega lítil afmæliskelling fyrir mína eigin hönd.... mér finnst mjög gaman að mæta í afmæli annarra og ég elska að kaupa og gefa afmælisgjafir, en einhvernveginn finnst mér ekki eins gaman að halda upp á minn eigin dag, og finnst eiginlega bara óþægilegt að þurfa að þiggja gjafir frá öðrum. Þótt ég hræðist nú alls ekki spotlightið, sko....
Ég er samt svo heppin, að litla systir mín ungaði út sínum síðasta akkúrat á afmælisdegi mínum, svo mér er borgið næstu 10-15 árin eða svo. Hún heldur alltaf flottar veislur á afmælisdegi drengsins, og þar get ég mætt og slegið þrjár flugur í einu höggi, þ.e. þegið veitingar, hitt fjölskylduna og tekið við gjöfunum mínum.... án þess að þurfa að lyfta litla fingri sjálf. Já, tillitssöm systir þetta....
Ég reyndar eigna mér líka pínu nafnið á syninum, hann heitir Guðlaugur, en G-ið í mínu nafni stendur einmitt fyrir Guðlaug (ég í höfuðið á minni mjög heitt elskuðu langömmu sem dó fyrir 24 árum síðan..... vá (!!!) hvað maður er orðinn gamall þegar maður setur þetta svona fram....)..... já okey, ég veit að föðurafi drengsins heitir líka Guðlaugur og líklega er hann að mestu leyti skírður í höfuð hans, en maður má nú gefa sér einhverja smá hluti, er það ekki....
Ég hafði mjög meðvitað skipulagt mínar vaktir þannig, að ég hafði skilað öllu af mér á miðvikudagsmorgni, þegar ég kláraði næturvakt auk þess að hafa unnið helgina á undan líka, og átti þar með 5 daga langt helgarfrí. Þetta frí hafði ég hugsað mér að nota annaðhvort til að skreppa til útlanda, hafa það virkilega notalegt heima við eða fara í sumarbústað og þá helst vildi ég taka minn góða vin, Mr. K., með.
Ég er reyndar Sauður, þótt stjörnumerkið heiti Naut og þess vegna var ég lítið sem ekkert byrjuð að vinna í þessum málum fyrr en um og eftir síðustu helgi. Þá byrjaði ég að viðra sumarbústaða-hugmynd fyrir vini mínum og fannst svolítið skrítið, hve dræmt hann tók í. Ég er skorpukelling og er alltaf á síðustu stundu, bæði í hugsun, orðum og gerðum, svo þótt svo ég hafi vitað af mínu langa helgarfríi í langan tíma, þá var ég aldeilis ekki að innvía aðra í það, heldur reiknaði bara með að þeir tækju skorpuna með mér þegar mér hentaði..... og myndu þannig líka ákveða einn, tveir og þrír eitthvað skemmtilegt með mér.
En svolítið stóð á svörum frá mínum góða vini og var jafnvel farið að ergja mig pínu að hann gæti ekki sagt af eða á, um fyrrnefnda sumarbústaðaferð...nú þegar ég var búin að ákveða sumarbústaðaferð en ekki eitthvað annað. Svo þegar ég setti honum úrslitakosti, fór hann undan í flæmingi og sagðist þurfa að fá að hringja í mig eftir smá stund..... Upphófst þá æsileg atburðarás, sem ég vissi ekkert um fyrr en eftir á.
Þannig var, að mín frábæra litla systir og minn besti bróðir, voru búin að vera að plana surprise-partý fyrir mig nk. laugadagskvöld. Þau höfðu haft Mr. K. með í ráðum, en þar sem systir mín er líka mjög önnum kafin kona, var hún ekki búin að fá alla hluti á hreint, mest hvað varðaði mætingu af gestum. Minn vinur vissi ekki hvort verða myndi af partýinu eða ekki, og var þess vegna í smá klemmu þegar ég fór að þrýsta á hann um svör hvað varðaði okkar escape out of town um helgina. Svo hann hringdi í systur mína og sagði örvæntingafullur, að nú væri ég að ýta á svör og hann yrði að svara mér sem fyrst. Mín góða systir tók þá eitt stykki maraþonhlaup við símann, hringdi í allar mínar vinkonur og sagðist verða að fá svar NÚNA um mætingu, sendi sms eins og brjáluð manneskja til frænkna og annarra.... þetta tók náttúrlega allt sinn tíma og á meðan beið ég heima mjög svo óþolinmóð og undrandi á því að heyra ekkert í mínum vini.
Loksins, loksins hringdi hann og þá með jákvæðu svari um helgardvölina utan bæjar, en líka með útskýringu á töfunum..... Hann sagði mér frá plani systkina minna og ég gat skilið að hann hefði verið í smá klemmu. Systur minni fannst ekki að hún fengi nógu góð og skýr svör frá viðmælendum sínum, svo hún vildi ekki taka sénsinn á því, að eyðileggja fyrir okkur góða helgi, svo hún sagði Mr. K. að við skyldum halda okkar plönum og hún myndi droppa surprise-partýinu.
Það var sko ekki laust við að ég fengi sektarkennd..... Ekki grunaði mig þetta hið minnsta, en vá hvað mér finnst systkini mín æðisleg að hafa verið að plana eitthvað svona fyrir mig. Samkvæmt móður minni, voru þau búin að plana hvað þau ætluðu að hafa að borða fyrir gestina, hvernig bollu ætti að bjóða upp á í fordrykk og svo voru þau búin að safna víni í einhvern tíma svo fólk gæti blandað sér drykki eftir eigin þótta það sem eftir lifði kvölds. Þótt þau myndu ekki einu sinni þekkja stóran hluta af gestunum fyrirfram, þá ætlaði systir mín að leggja til hús, öll fjölskyldan ætlaði að hjálpast að við að útbúa einhverja rétti, þau ætluðu að kaupa inn í bollu og annað og já, bara virkilega gera þetta að góðu kvöldi fyrir mig, kellinga-systur þeirra og dóttur.
Úff, ég fór næstum því að grenja, ég var svo snortin yfir þessarri hugmynd og þessu framtaki þeirra. Og ég fékk líka samviskubit yfir því að hafa lagt svona ofuráherslu á það að komast burt yfir helgina. Ég var einhvernveginn, algjörlega óafvitandi, búin að setja alla í klemmu og það alla, sem voru að keppast að því að gera mér glaðan dag..... En hvað vissi ég svo sem??
Þótt þetta partý verði ekki að veruleika héðan í frá, þá skal ég segja ykkur, að ég virkilega elska systkini mín fyrir að hafa ætlað að gera þetta fyrir mig... fyrir mig!!. Mér náttúrulega þykir óendanlega vænt um þau fyrir, en vá, þetta hefði mig aldrei grunað, og mér þykir enn dýpra vænt um þau núna. Og ef svona hugsun frá ástvinum er ekki til að fullvissa mann um að einhverjum þykir vænt um mann og sé að hugsa um og til og allt um mann, hvað þá???
Ég er sko virkilega snortin yfir þessu, og það er ekki með sama hugarfari sem ég fer í bústaðinn á morgun. Ég ætla auðvitað að njóta þess í botn og njóta félagsskapar Mr. K. og eiga algjöra afslöppunarhelgi með góðum mat, góðu víni, gönguferðum, pottaferðum og öllu öðru. En dísús, hvað svona partý hefði verið skemmtilegt!!!.
Ég hef enn val, segir systir mín mér í kvöld. En hvernig á maður að velja.... Oh my god hvað lífið getur verið erfitt, eða þannig. Ef þetta er það versta sem maður þarf að hafa áhyggjur af og velta sér upp úr.......... ja, þá getur lífið nú varla verið svo erfitt, er það?
Ég segi bara takk, takk og takk, mín elskulega fjölskylda fyrir að vilja mér vel.
Óska ykkur öllum góðrar helgi, ég kvitta út hér með fram yfir helgina. Mun hafa öðrum hnöppum að hneppa...... bæði til og frá
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 02:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
23.4.2008 | 21:27
Fyrir hvern er hver, einhver og sumhver að vinna?
Ekki var ég á staðnum þarna, heldur sá bara myndir í sjónvarpinu eins og langmestur meirihluti landsmanna. Það er ekki spurning að mörgum finnist lögreglan hafa gengið of harkalega fram og hálfgerð múgæsing (bæði innan raða lögreglumanna og hinna) hafi myndast. Hitt er hins vegar staðreynd, að lögreglan eru opinberir starfsmenn að sinna sínu starfi, oft eftir fyrirmælum sem þeir hafa lítið að segja um, og það er ólöglegt að hindra þá í starfi - á hvaða hátt sem er.
Ég var, eins og áður sagði, ekki á staðnum og get lítið tjáð mig um það sem gerðist þar, annað en það sem valið var að við fengjum að sjá. Hins vegar vil ég tjá mig um viðtölin sem ákveðið fólk var fengið í, bæði í Ísland í dag og í Kastljósinu.
Fyrst horfði ég á Ísland í dag á Stöð 2 og þar á bæ var greinilegt, að menn stóðu frekar gegn lögreglunni í þessum aðgerðum, heldur en með. Fannst mér að minnsta kosti. Líklega vegna þess að sá miðill er ekki ríkisrekinn og þarf ekki að svara fyrir málflutning sinn að sama skapi og RÚV þarf. Ekki það, að mér hafi fundist neitt að því. Mér finnst alveg sjálfsagt að einhver miðill taki að sér að veita aðhald, hvort sem það er lögreglunni eða öðrum. Allir geta gert betur, og allir eiga að læra af gjörðum sínum og það á ekki að hlífa lögreglunni frekar en öðrum opinberum stéttum, eða í það heila, hvaða stétt sem er.
Hjá RÚV fannst mér flutningurinn frekar hallast að málstað lögreglunnar, þótt hann hafi eflaust átt að vera hlutlaus. Jóhanna Vilhjálms fannst mér, næstum opna samtal sitt við Sturlu, talsmann vörubílsstjóra, á ásakandi hátt og kom þannig mjög æstum manni fyrir, í mikla varnarstöðu. Það kom lítið af viti út úr þessu viðtali, að mínu mati, bæði vegna spurninga Jóhönnu og þó mest vegna þess hve æstur Sturla var. Hann svaraði alls ekki spurningunum sem fyrir hann voru lagðar, heldur hjakkaðist í sama farinu sífellt, um að þetta væri allt ríkisstjórninni að kenna. Hann var "upptjúnnaður" áður en hann mætti í hús og sagði lítið af viti. Mér finnst reyndar að bílstjórar ættu að gera sjálfum sér greiða, og finna annan talsmann fyrir sig, vegna þess að Sturla kemur ekki vel fyrir. Segir fátt málefnalegt og virkar bara of æstur í öllum sínum málflutningi.... að mínu mati. Hann ásakar bara hingað og þangað, er með rifrildis- og æsingstón í röddinni og kemur sér aldrei að aðalefninu. Að saka ríkisstjórnina um að þvælast um hvippinn og hvappinn finnst mér ekki koma baráttu vörubílsstjóra við, málefni okkar á Íslandi snúast um fleiri hluti en olíverð og álögur á það, og það væri líka ábyrgðalaust af ríkisstjórnarmönnum að einblína eingöngu á það á meðan svo margt er að gerast í heims- og efnahagsmálum. Það er líka mikilvægt að styrkja bæði viðskiptasambönd og þjóðarsambönd á ýmsan hátt, sem er ástæða þessa þvælings ríkisstjórnarmanna og fleiri á milli landa. Það er alveg öruggt, að það er ekki vegna þess að þeim finnist gaman að vera á eilífum þvælingi, fjarri ástvinum, gistandi á hótelum og bíðandi á flugvöllum hingað og þangað um heiminn. (Segi ég bara af þekkingu, sem dóttir embættismanns í þessu þjóðfélagi....) Án þess að ég sé að afsaka andvaraleysi þeirra í nákvmælega þessu máli, en við verðum samt að horfa á það, að þessir menn vinna oft 16 tíma vinnudag og þurfa líklega eins og aðrar stéttir að forgangsraða verkefnum sínum. Jóhanna Vilhjálms á hins vegar lof skilið fyrir það, að halda ró sinni í þessu viðtali - ég hefði átt erfitt með að sitja á móti jafn ómálefnalegum manni og mér finnst Sturla vera. Ætli RÚV sé að einhverju leyti ritskoðuð???
Heldur bætti Helgi Seljan í seglin þegar hann þjarmaði ofurlítið að aðstoðarlögreglustjóra, en hann gerði það vel. Og að sama skapi fannst mér Hörður svara vel. Hann sagði að allar aðgerðir lögreglunnar þyldu skoðun og skoðað yrði hvort þeir hefðu brugðist of harkalega við. Mér fannst þetta gott viðtal og mun málefnalegra heldur en uppsöfnuð reiði Sturlu nokkrum mínútum fyrr.
Á Stöð 2 var greinilegt, að þeim fannst aðgerðir lögreglu of harkalegar, og mér finnst það líka fínt að það skíni í gegn í þeirra fréttaflutningi. Þeir eru ekki háðir neinum, hvorki pólitískt né á annan hátt, svo þeir mega líklega hafa aðeins óhlutlausari skoðun heldur en kollegar þeirra hjá ríkisapparatinu. Og mér fannst líka Stöð 2 opnari og sanngjarnari í sínum málflutningi. Þeir leyfðu mörgum að tala, sýndu bæði myndir af agressivum lögreglumönnum og eggjakastandi mótmælendum. Mér fannst við fá réttari mynd af því sem gerðist, hjá Stöð 2.
En svo ég fái að segja mína skoðun..... Það er rétt hjá Birni Bjarnasyni, sem mér fannst reyndar koma óvenjuvel út úr sínu viðtali, að ríkisstjórnin getur ekki stjórnað heimsmarkaðsverði á olíu. EN HÚN GETUR LÆKKAÐ SÍN OPINBERU GJÖLD Á ÞESSA VÖRU, og það er það sem þetta snýst um og sem ríkisstjórnin bara blakar eyrum við. Mér finnst GEIR H. HAARDE hafa komið illa út úr þessu máli, bæði er hann lítið að skipta sér af þessu, sem klárlega hefur mjög negatív áhrif á afkomu margra heimila og svo talaði hann líka af þjósti og á niðurlægjandi hátt í garð bæði vörubílsstjóra og okkar allra, í þetta eina skipti sem hann opnaði munninn um þessar aðgerðir. Árni fjármálaráðherra hefur heldur ekki riðið feitum hesti í þessum aðgerðum, að mínu mati. Hann bara heldur áfram að kjafta sig út úr öllu, eins og hann hefur ávallt gert með allt annað. Og samgöngumálaráðherra má líka fá smá sneið..... hvað er hann eiginlega að gera annað en að plana einhver göng hingað og þangað um landið þar sem fáar hræður búa?? AF HVERJU ER ENGINN Í RÍKISSTJÓRNINNI AÐ TAKA ÞETTA MÁL ALVARLEGA???
Er það kannski svo, eins og bílstjórar segja, að þessir menn eru bara að sinna því sem þá skiptir mestu máli, en eru að láta sig það litlu varða, þótt heimili og fyrirtæki séu að verða gjaldþrota vegna þeirra aðgerðarleysis? Af hverju í ósköpunum snýst allt um það að bjarga bönkunum, BÖNKUNUM, sem í mörg ár hafa hagnast á okkur öllum hinum..... af hverju ekki AÐ BJARGA OKKUR? Okkur sem nú borga laun þessarra ráðamanna og blæða fyrir allt, hvort sem það eru bankarnir eða ríkisstjórnin sem gera afglöp??
Já, ég bara spyr..... og þótt það skíni líklega ekki í gegn í þessum pistli, þá ER ég sjálfstæðiskona, en meira að segja sjálfstæðiskonu getur verið nóg boðið.....
Mótmælin fóru úr böndunum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 21:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
21.4.2008 | 22:49
....gerði alla öfundsjúka með snilldartöktum í Básum....
Lét loksins verða af ferð í Bása í Grafarholti í kvöld, þótt reyndar ég væri alveg að guggna á ákvörðuninni þegar klukkan var farin að ganga í kvöldfréttir og rassinum á mér var farið að líða óhuggulega vel í sófanum mínum. Sonur minn er búinn að vera að ýta á eftir mér í nokkrar vikur og var búinn að fá bróður minn í lið með sér, svo ég átti mér varla nokkra málsvörn. Lítið hvísl, þar sem ég stakk upp á því að þeir færu bara tveir á meðan ég myndi leggja mig, var púað snögglega niður af þeim tveimur.
Svo í Bása héldum við, vopnuð kylfum og hönskum. Ég er náttúrlega óheyrilega lélegur golfari, óþolinmóð í þokkabót og ekki bætir nett áráttuhegðun mín á taktana. Það tekur óneitanlega á taugarnar, þegar ég er búin að eyða meira en heilli mínútu í að stilla mér upp, tékka á vegalengd frá tá að kúlu, muna að beygja hnén, lyfta úlnliðunum, passa að gripið sé rétt, minna mig á í hálfum hljóðum að snúa kylfuhausnum upp í aftursveiflunni, horfa á kúluna og EKKI rétta úr mér of snemma.....í höfðinu á mér glymur rödd breska golfkennarans míns: "hit the ti, hit the ti" og ég er gífurlega einbeitt..... og svo búmm, slæ ég þetta feikilega vindhögg, svo ég snýst næstum í hálfhring á eftir. Það er vægast sagt ergilegt og fyrir manneskju eins og mig er það nánast óbærilegt. Oft langar mig að grýta kylfunni í næsta vegg, krossleggja hendur á brjósti og tilkynna: "Ég er hætt!!" (Eins og öllum væri ekki líka sama....)
En svo koma góðir dagar og þá er gaman. Við fórum í skvísu-golfferð til Spánar síðastliðið vor, 7 kellingar saman og þar fór ég í fyrsta skipti heilar 18 holur. Fram að þeirri ferð hafði ég aldrei haft úthald og þolinmæði í meira en 9 holur..... ég var meira að segja farin að telja niður á cirka 5. holu og farin að hugsa: "fer þetta ekki að vera búið...." Endalaus hlaup að leita að kúlunni minni, stingur í magann þegar ömurleg högg komu, barátta við sandgryfjur og annað í þeim stíl fannst mér ágætt upp að vissu marki, en fyrir manneskju sem er með fullkomnunaráráttu, gífurlegt keppnisskap og tapsár eftir því, getur þetta tekið aðeins of mikið á taugarnar. Þar til ég loksins náði sveiflunni! Eftir þrautseigju og þolinmæði míns breska pro-golf-kennara í sólinni á Spáni og nokkur hvítvínsglös.
Og þá náði ég henni. Og þegar ég var búin að fatta, að ég gæti bara slegið ágætlega, þá vildi ég ekki hætta. Golfvöllurinn var minn og hann hefði alveg mátt vera 36 holur mín vegna, loksins þegar sveiflan var komin. Ég sýndi meira að segja snilldartakta í spænsku sandgryfjunum og hlaut í kjölfarið viðurnefnið "bucker-babe" en því miður entist gleðin aðeins í tvo daga. Svo var ég aftur orðin léleg. Um sumarið fannst mér ég svo komin aftur á byrjunarreit. Ekkert nema léleg högg. Og þá nennti ég þessu ekki meira það árið. Ég var hætt.... í bili að minnsta kosti. Og svo enginn vafi væri um málið, þá gekk ég hátíðlega með golfsettið niður í kjallara og placeraði því innst inni í geymslu.
Það var því með nokkrum kvíða sem ég dröslaði golfsettinu á bakinu upp á aðra hæðina í Bása í kvöld. Ég ætlaði sko bara að slá 30 kúlur. Alls ekki meira, ef ég þá myndi endast þessar 30. En svo gekk bara svona skrambi vel, svo kúlurnar urðu 50 og svo allt í einu 50 í viðbót! Ég reyndi allar kylfurnar, rifjaði upp öll tækniatriðin sem ég hef lært og reyndi að taka sjálfa mig ekki of hátíðlega. Og viti menn, ég hitti barasta kúluna í 85% tilfella og nokkur höggin voru bara nokkuð áreynslulaus. Á minn mælikvarða. Ég reyndi að bera mig ekkert of mikið saman við flottu gæjana þarna, sem slógu svo small í, hverja kúluna á eftir annarri lengra en augu mín eygðu. Borið saman við sjálfa mig var ég bara nokkuð góð.... og ég fór glöð heim.
Reyndar skelf ég pínu í vinstri höndinni núna og verkjar í bæði litla puttann og einn lófavöðvann, ekki laust við að harðsperrur séu að byrja að myndast í framhandleggsvöðvunum en það er bara vegna þess að langt er síðan ég hélt síðast á golfkylfu. Bara merki um það að ég hafi tekið duglega á. Það er allavega EKKI af því að ég kreisti kylfuna svo fast að það sé eins og líf mitt velti á því hve fast ég haldi.... það er það EKKI!! Þið getið bara sjálf litið út eins og þið ætlið að drepa mann með kylfunni. Og hana nú!
Dægurmál | Breytt 22.4.2008 kl. 00:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
20.4.2008 | 20:43
Gamlir hlutir með sögu og sál....
Suma daga er maður bara fúll á móti og í vondu skapi án þess í raun að hafa ástæðu til þess. Dagurinn í dag var svoleiðis dagur hjá mér. Án nokkurrar ástæðu. Ég mætti í vinnu kl. 8 í morgun og ég var bara ekki í góða grín- og spjallskapinu mínu. Þegar vinnudegi lauk fór það í taugarnar á mér, að það blési köldu og ekki sæist í sólina. Við vorum búin að hugsa okkur að fara upp í Bása og slá golfkúlur, en sú hugmynd kveikti ekki lengur í mér þegar heim var komið. Ég hugsaði með hryllingi til matseldar svo ég var ekki lengi að samþykkja eigin hugmynd um að panta pizzu heim. Meira að segja kötturinn fór í taugarnar á mér, eins og uppáþrengjandi ástmaður, kom mjálmandi á móti mér um leið og ég gekk inn um dyrnar og lagðist svo á bakið og glennti sig fyrir framan mig. Nú skyldi klóra..... hmm, ég ekki alveg í skapinu, sko.... með hausverk eða eitthvað því um líkt....
Og ohh, hefur alltaf verið svona ljótt heima hjá mér? Alltaf þessir sömu sófar (sem þó eru bara þriggja ára....), kattahár á borðstofustólunum (og svo blótaði ég kettinum fyrir að fara úr hárum), ennþá sprungin pera inni á baðherbergi, svo sem bara búin að vera sprungin í 3 vikur án þess að pirra mig að ráði fyrr en núna, en....., skóhillan brotin síðan frændurnir voru í fótboltaleik hérna inni fyrir mörgum mánuðum og af hverju ætli mér finnist svona mikið mál að fara í Ikea og kaupa nýja fokking skólhillu? Ennþá liggur höggbor á gólfinu inni í svefnherberginu mínu og myndastafli stendur (myndarlega) á bak við hurðina í sama herbergi - eins og ég væri nýflutt en er þó búin að búa hér í tvö ár. Einhverra hluta vegna kem ég mér bara ekki að verki í þessum málaflokki. Hvenær ætli ég fari að koma mér að því að koma einhverju skikki á, þó ekki væri nema suma hluti hérna á þessu heimili.
Alltaf sama sjónin sem blasir við manni þegar maður kemur heim. Dö, dö og dö. Alveg sama hvert maður lítur. Ég hafði mest löngun til að henda öllu út og kaupa allt nýtt inn, og fá þar að auki konu til mín, sem myndi taka allt í gegn OG bora í veggina fyrir þessum blessuðu myndum. Pirringurinn yfir ástandi heimilisins og eigin framtaksleysi var alveg að sliga mig hérna seinni partinn.
Til að leggjast ekki algjörlega í kör og volæði setti ég góða músík á og ákvað að taka aðeins til hendinni. Ekki mikið, bara aðeins að þurrka allavega af. Músíkin lyfti mér pínulítið upp og ég fór aðeins mýkri höndum um tuskuna, og hlutina mína, eftir því sem lundin léttist. Og þá gat ég meira að segja farið að sjá ýmislegt sjarmerandi við íbúðina mína og innanstokksmuni. Langflestir hlutirnir mínir eiga sér einhverja sögu, ekki neina merkilega kannski, en sögu engu að síður.
Borðstofuskápana mína keyptu foreldrar mínir sér fyrir þrjátíu árum. Þeir voru rándýrir og eiginlega fyrstu dýru hlutirnir sem þau keyptu sér - mjög fallegir, úr dökkum viði í enskum sveitastíl. Þessir skápar hafa fylgt mér í gegnum alla mína æsku og foreldrum mínum enn lengur, en þegar þau seldu húsið sitt fyrir nokkrum árum, höfðu þau ekki lengur pláss fyrir þessa skápa. Svo mér buðust þeir og þykir mér ótrúlega vænt um þessar mublur.
Einn lampann minn keypti ég mér á blönku námsárum mínum, hann var ef til vill ekki svo dýr, en ég þurfti samt að skera niður í matarinnkaupum í einhvern tíma fyrir okkur mæðgingin á móti lampa-útgjöldunum, en hvað hann veitti mér mikla gleði. Þó ekki sé fyrir annað, þá held ég alltaf upp á þennan lampa, því ég man hve lítið þurfti til að gleðja mann á þeim árum.
Stofuborðið mitt keypti ég líka á námsárum mínum, og hvað ég þurfti að hafa mikið fyrir því að koma því heim í hús. Ég fékk lánaðan bíl og litla kerru hjá vini mínum og svo keyrðum ég og vinkona mín ca. 70 km til að sækja borðið. Hún var ekki með bílpróf svo ég keyrði bílinn, en ég kunni hins vegar ekki að bakka bíl með svona kerru aftan í. Úr þeirri athöfn varð stórskemmtileg minning sem alltaf fær mig til að brosa.... endaði reyndar með því að ég þurfti að húkka kerruna af bílnum og draga hana á handafli yfir bílaplanið hjá vörugeymslunni, öðrum viðskiptavinum bæði til hláturs og öryggis.
Einn blómapott held ég sérstaklega upp á. Í honum var blóm sem besti vinur minn gaf mér, þegar ég flutti í fyrstu íbúðina mína eftir að ég sneri heim úr námsmannaútlegðinni í Danmörku. Blómið er reyndar löngu dautt en potturinn stendur áfram, nú með gerviblómi í..... en samt til minningar um góða vináttu.
Inni á gólfi hjá syni mínum stendur grænn kistill, mjög hentugur fyrir ýmislegt smádót sem maður veit ekkert hvað á að gera við. Millilendir yfirleitt allt í kistlinum áður en því er svo hent svona ári seinna. Þennan kistil smíðaði litla systir mín í skólasmíði þegar hún var tíu ára, og ég man alltaf eftir því þegar hún kom dröslandi honum heim, rosalega montin með sig. Enda mátti hún vel vera það. Hvernig kistillinn endaði á mínu heimili, er mér hulin ráðgáta en hér er hann okkur mæðginum til prýðis og góðra nota.
Í herbergi mínu stendur gamalt skrifborð, sem vinkona móðursystur minnar gaf mér þegar ég var átta ára. Á einni skúffunni er ennþá límmiði með Bambi, sem ég hef sett þar..... já fyrir margt löngu, þegar ég var ljóshærð, saklaus og með tíkarspena. Við þetta skrifborð stóð ég löngum stundum þegar ég var smástelpa og hamraði á eldgamla rafmagnsritvél sem mér hafði áskotnast. Það var þegar ég var harðákveðin í því að verða rithöfundur þegar ég yrði stór, og í neðstu skrifborðsskúffunni eru meira að segja ennþá allar þær sögur sem ég framleiddi sem krakki. Aldrei nokkurn tímann mun ég losa mig við þetta skrifborð. Aldrei.
Í eldhúsinu hangir gamaldags kryddskápur, einn af fáum hlutum sem hafa verið boraðir hérna upp (!!). Þessi skápur er í uppáhaldi, hann fékk ég í jólagjöf frá systrum mínum fyrir ca. 10 árum. Þá var ég líka blankur háskólanemi og hafði dáðst að þessum skáp í ákveðnum búðarglugga í Danmörku í marga mánuði, en aldrei tímt að kaupa hann. Hann er svolítið "sumó", þ.e.a.s. hann myndi í raun sóma sér betur í sumarbústað, en ég elska hann, þótt hann sé eiginlega allt of lítill fyrir öll kryddin mín, þá er hann mikil eldhúsprýði..... finnst mér allavega.
Ég á kaffistell, hvítt postulín með bláum blómum. Með því fylgir oggulítil mjólkurkanna og sykurkar, voðalega dúkkulegt, en þetta stell átti langamma mín, sem gekk bara undir nafninu "amma langa" hjá okkur frændsystkinum. Þetta er ekki "nýmóðins", eins og hún hefði orðað það, en mér þykir afar vænt um þetta kaffistell. Bara vegna þess að hún átti það og nú á ég það.
Í eldhúsglugganum mínum stendur gerðarleg, feit en mjög smart olíuflaska með alls kyns kryddum í. Elsta, besta vinkona mín dröslaði þessarri flösku með sér í handfarangri frá Ameríku fyrir nokkrum árum, því hún þekkti hana Lilju sína og vissi að þetta væri einmitt eitthvað sem mig myndi langa í. Sem var mikið rétt hjá henni, en nokkrum vikum seinna sá hún nákvæmlega eins flösku í búð í Kringlunni og fannst þá bara fyndið að hafa haft svona fyrir millilandaflutningunum af einmitt þessarri flösku. En einmitt þess vegna finnst mér vænt um hana! Já, bæði flöskuna og vinkonuna.
Já, sumir hlutir hafa fylgt mér lengi. Í pottaskápnum má finna lítinn skaftpott með dæld í botninum. Dældin er síðan ég var 19 ára og komst þannig í pottinn þegar ég lamdi einn gamlan kærasta og fyrsta sambúðing í hausinn með pottinum, ég held nú ekkert sérstaklega upp á pottinn af þeim sökum, en þetta er mjög góður eggjapottur. Og svo má alltaf brosa að hinu.....
Okey, það eru ekki allir hlutir á mínu heimili keyptir í Mirale, Heima eða Epal, en mér þykir samt ósköp vænt um þá velflesta. Þeir hafa fylgt mér lengi, eiga sér smá sögu, minna á gamla tíma og eru fullkomlega nothæfir. Auk þess sem það eru þessir hlutir sem láta mér líða HEIMA.
Og eftir eina svona yfirferð á heimili mínu, er ég ekki frá því að skapið sé aðeins betra..... aðeins sáttari við guð og menn, sjálfa mig og heimili mitt
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 20:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
19.4.2008 | 01:39
Túttilísa og Hlessilísa
Þegar ég var lítil átti ég mér tvær ímyndaðar vinkonur.... ímyndaðar eða ekki, það lá alltaf á milli hluta. Mamma mín spilaði með þegar ég talaði um þær, en örugglega fannst henni dóttir sín bara vera "doldið spes".
Stóru systur minni fannst ég bara klikkuð, og hún vék aldrei frá þeirri skoðun, og finnst það líklega ennþá.... að vissu leyti.
En sama hvað þeim fannst, þá átti ég þessar tvær vinkonur, sem hétu þeim mjög svo frumlegu og óþekktu nöfnum; Túttilísa og Hlessilísa. Og þetta er ekkert grín. Það kannast allir í minni fjölskyldu við Túttilísu og Hlessilísu....
Öllum fannst ég hvort eð er smá skrýtin... meira að segja foreldrar mínir fóru ekkert leynt með það að þeim fyndist ég ekki eins og önnur börn.... þau keyptu einu sinni stuttermabol handa mér, þar sem á var letrað með silfurstöfum: "Dont try to understand me.... just love me...." Kannski pínulítið táknrænt fyrir allt sem átti eftir að koma....
En Túttilísa og Hlessilísa fylgdu mér í mörg ár, alveg frá því að ég var um það bil tveggja ára og þar til ég fór í skóla..... þá hurfu þær á mjög dularfullan hátt.... já svona á Enid Blyton hátt....
Ég sat oft löngum stundum sem barn og lék við sjálfa mig, talaði við sjálfa mig, bjó til sögur og samtalsþætti, rifrildi og já.... ég bjó til heilu leikþættina algjörlega ein. Mamma sagði alltaf að ég hefði mjög fjörugt ímyndunarafl. Og aðrir kinkuðu bara skilningsríkir kolli, og urðu svo undarlegir á svipinn.
Ég varð allt í einu rangeygð og þurfti að fara í aðgerð þegar ég var þriggja ára. Ég man mjög vel eftir þessu, ég var alls ekkert hrædd vegna þess að Túttilísa var líka rangeygð og þurfti að fara í aðgerð á sama tíma og ég. Ég næstum man eftir henni á spítalanum, hún var alltaf að kíkja til mín og lét mér líða vel og mér fannst ég alls ekki sú eina í heiminum sem "óvart" hefði orðið rangeygð.
Móðir mín hlustaði þegjandi og samsinnandi á alls konar sögur mínar af þeim stöllum Túttilísu og Hlessilísu, en það runnu á hana tvær grímur einhverju sinni, þegar við vorum að koma heim úr KRON (þeirri, gömlu góðu búð), og við vorum að marsera inn í íbúðina, öll fjölskyldan... pabbi skellti útidyrahurðinni og ég fékk kast: ......"Hey, ætlarðu bara að skella á hana Túttilísu???" Og svo kastaði ég mér grenjandi í gólfið.....
Eða þegar móðir mín kom að mér þar sem ég æddi um gólf, haldandi um klofið og alveg að pissa í mig - og mamma mín sagði: "Lilja mín, drífðu þig á klósettið....." Og ég, sú litla, sirka þriggja, fjögurra ára sagði: "Nnnnneeeeiiii, ég get það ekki, Hlessilísa er á klósettinu...."
Þá var ekki laust við að mamma hnyklaði brýrnar, fengi smá hroll niður eftir bakinu og hugsaði með sjálfri sér: "Damn......"
Hún mamma mín hefur svo sem oft síðar hugsað "damn", "damn", "damn", þótt ekki væri það lengur yfir Túttilísu og Hlessilísu.... en við höfum öll spurgt okkur þeirrar spurningar: "hverjar voru þær og hvert fóru þær???"
18.4.2008 | 16:10
Með kökk í hálsinum í morgunsárið.....
Það var yndislegt sumarveður, einhversstaðar mikið sunnar í Evrópu, algjörlega áhyggjulaust og tímalaust líf. Ég flatmagaði á sólbekk við sundlaugarbakkann, rauður kokteill í glasi á borðinu við hliðina á mér, sólarvörnin lá í skugga undir bekknum, tímarit lágu við fætur mínar en ég var of löt til að lesa. Lá bara og skoðaði mannlífið undan barðstóra stráhattinum mínum, hlustaði á krakkana svamla í lauginni og naut svala andvarans sem straukst yfir sólbrúnan líkamann öðru hvoru. Bekkurinn við hliðina á mér tilheyrði mínum heittelskaða, en hann var auður í augnablikinu. Minn elskaði hafði greinilega brugðið sér eitthvað frá, ætli ég hafi ekki verið hálfsofandi þegar hann tilkynnti mér hvert hann ætlaði. Handklæðið hans lá hálfrakt í kuðli á bekknum, björglasið hans tómt og sandalarnir hans á bak og burt.
Umm, ég dæsti, þetta var bara notalegt líf. Við tvö ein í sólarfríi, ekkert í heiminum sem truflaði, nákvæmlega ekkert. Aðeins við tvö að njóta lífsins og hvors annars. Ég dæsti meira, tók sopa af kokteilnum sem var orðinn heitur í sólinni, hélt áfram að njóta lífsins og fylgdist áhugalaus með fólkinu í kringum mig. En úpps, þarna var eitthvað sem stakk í augun.
Ég spottaði minn heittelskaða, þar sem hann kom gangandi í rólegheitum eftir gangstéttinni í töluverðri fjarlægð. Hann virtist ekkert vera að flýta sér, gekk hlæjandi og óþarflega nálægt einhverri gorgeous gellu. Það virtist fara mjög vel á með þeim og ég fékk þungan afbrýðisemissting í magann. Þau strolluðu eftir gangstéttinni og öðru hvoru rákust fingur þeirra saman, ekki óvart bjóst ég við, þar sem ég fylgdist laumulega með þeim á meðan ég þóttist vera sofandi. Þau fóru í sitthvora áttina rétt áður en þau komu að okkar sundlaugarsvæði, en á splittsekúndu áður en hún sneri sér frá honum strauk hann höndinni niður eftir bakinu á henni. Og ég skynjaði það bara eins og konur skynja, að einhver straumur var á milli þeirra.
Stingurinn í maganum á mér var nú orðinn að sárum verk og mér fannst best að þykjast vera sofandi þegar minn maður hlammaði sér niður á sólbekkinn við hliðina á mér, og kyssti mig EKKI.
Um kvöldið sagði hann mér, að hann ætlaði út að borða með hjónum sem hann hefði kynnst við kokteilbarinn fyrr um daginn, en ég mætti alveg koma með. Ég mátti alveg koma með. Hvort ég vildi koma með? Var þetta frí ekki lengur að snúast um okkur og okkur að gera eitthvað saman? Var ég nú orðin einhver sem MÁTTI koma með ef ég vildi? Í mínu eigin fríi með mínum heittelskaða. Needless to say, þá var þessi gorgeous gella að sjálfsögðu annar helmingur þessarra hjóna sem hann hafði kynnst, og þessi málsverður átti líklega að snúast um að minn elskaði gæti daðrað við hana og hún strokið sólbrúnu fótleggjum sínum við hans undir borðinu á meðan hún myndi hlæja að öllu sem kæmi út úr hans munni.
Það reif í hjartað mitt af sársauka og afbrýðisemi. Það var stór kökkur í hálsinum á mér, kökkur sem samanstóð af reiði, höfnun, undrun, niðurlægingu og þessum óbærilega sársauka. Ég var brjáluð, en kom engu orði upp, sama hvað ég reyndi. Ég opnaði munninn oft en út komu bara einhver óskiljanleg hljóð. Þar til ég fór að gráta.
..................
Þannig vaknaði ég í morgun hálfgrátandi, með sáran afbrýðisemissting í brjóstinu og bálreið út í einhvern mann, sem er ekki einu sinni til í raunveruleikanum! Ég á mér engan heittelskaðan og draumnum þóknaðist ekki að setja andlit á þessa karlkynsveru sem rak svona rýting í bakið á mér í mínu himneska fríi, engu að síður var það mjög ljóst að hann væri MINN....... Ég var í fúlu skapi og með þungan hjartslátt fram undir hádegi. Reið og sár út í andlitslausa mannveru, sem aðeins hafði verið til í nokkrar mínútur í mínu eigin höfði í mínu eigin meðvitundarleysi..... og alls ekki á suðrænni sólarströnd heldur bara í mínu eigin rúmi í Breiðholtinu..... Mikið var ég þó fegin að minn raunveruleiki var í Breiðholtinu þessa stundina, en ekki í þessum aðstæðum suður frá, en ég réð samt ekki við þessa sterku óþægilegu tilfinningu, sem undirmeðvitund mín hafði kveikt á. Hvert í ósköpunum á maður eiginlega að beina svona tilkominni reiði??
Eflaust geta einhverjir sálfræðingar gert sér mat úr þessum draumförum mínum og skellt fram allskonar kenningum um bældar tilfinningar og kenndir í undirmeðvitund minni, en plís, ég frábið mér þesskonar psycho-analysum.
Mig dreymir bara betur næst.....
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 20:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
17.4.2008 | 03:01
Laun heimsins eru vanþakklæti
Einhverju sinni samdi ég við son minn, eða öllu heldur þá samdi hann við mig um það, að ég myndi kaupa Sýn 2 (eða Stöð 2 sport 2 eða hvað það heitir núna) og hann myndi taka algjörlega að sér uppvaskið á heimilinu í staðinn. Eitthvað hefur þetta nú farist fyrir síðustu vikurnar, ég kem yfirleitt heim og ekkert hefur verið gert í eldhúsinu, og ekkert gerist þar heldur þótt ég sé komin heim og hummi, hósti og röfli yfir aðgerðarleysinu.
Ég get svo sem alveg séð í gegnum fingur mér, þegar strákurinn hefur átt langan dag með löngum skóladegi og æfingum, en hey..... minn dagur er líka mjög langur oft á tíðum, svo af hverju á ég að gefa undan hér?
Mér varð þó svolítið um í kvöld, þegar ég bað drenginn minn um einfalda hluti, og fékk fýlusvip á móti.
Ég: Jóhann minn, ertu svo til í að sækja þvottinn okkar niður í þvottahús?
(uhumm, þvottinn okkar..... þetta eru náttúrlega meira og minna fötin hans sem eru þvegin hérna og hengd upp. Ekki það, að ég sé alltaf í skítugum fötum, en vinn náttúrlega í þannig vinnu að ég er alltaf í hvítu fötunum í vinnunni og mín föt því mjög sparlega notuð, rétt í og úr vinnu og eitthvað pínu fyrir utan það....)
Hann: Ohh, ég þarf ALLTAF að vera að gera eitthvað... (með viðeigandi fýlusvip)
Ég hugsa: Je, right, alltaf að gera eitthvað..... eins og hvað???
Ég hugsa meira: Okey, hann er með unglingaveikina, ætla bara að taka á þessu á rólega háttinn.....
Svo ég segi: Jóhann minn, af því að ég er lasin og treysti mér ekki niður....
Hann með semingi og tilheyrandi pirringshljóðum: OOOkkkeeeyy.....
Og þau voru þung skrefin fyrir unglinginn niður í þurrkherbergið og upp aftur og sami fýlusvipurinn þegar hann dömpaði taukörfunni á forstofugólfið; voila, verkefnið unnið, ekkert endilega að bera taukörfuna inn í stofu til mömmu gömlu, hún getur bara sótt körfuna hingað fram í forstofu.... - hvað þá að honum dytti í hug að brjóta tauið saman!
Ég: Takk elskan. Ertu til í að koma með körfuna hingað inn?
Hann: Bíddu, átti ég ekki bara að ná í þetta tau???
(Körfunni svo sparkað inn í stofu)
Stuttu seinna ætlaði ég að byrja á nestissmurningum....
Ég: Jónann!!!
Hann: Hvvvaaaððð? (í fýlutón)
Ég: Hvað viltu í nesti á morgun?
Hann: É'veit'a'kki
Ég: Nennirðu að koma fram og velja þér djús og hvaða mjólkurmat þú vilt?
Hann: Ohh, okey.....
Svo líður og bíður.... og hún bíður og aldrei kemur unglingurinn.....
Ég: Ertu að koma?
Hann: Dísús, ég er að klára leikinn.....
Ég alveg að missa þolinmæðina: Komdu þér hérna fram á stundinni.
(eins og ég sé að smyrja þetta nesti fyrir sjálfa mig, og hundveik í þokkabót!!)
Þung skref heyrast úr barnaherberginu; plamp, plamp, plamp....
Hann: Hvaða æsingur er þetta? Mér er alveg sama hvað ég fæ með í nesti. Smyrðu bara eitthvað.
Ég: Jóhann minn, smyrðu þetta þá bara sjálfur, ef þetta er svona rosalega erfitt fyrir þig.... það er ekki eins og ÉG ætli að borða þetta á morgun.....
Og svo kom hin vanalega ræða mæðra við vanþakklát börn sín, um allt það sem þær eru að gera og hvað þau meta það lítið og blabla, mín var svo bara krydduð því að ég væri sárveik í ofanálg, og búin að fara að versla líka svona veik, og samt að gera allt þetta fyrir hann og, og, og og.....
Minn kippti sér nú lítið upp við það....
Hann: Humm, nei, ég var ekkert að segja að ég ætlaði að gera þetta sjálfur. (Leit svo inn í ísskápinn).... : Ég skal bara hafa svona trópí með og svona dagmál og .... getur þú ekki bara gert einhverja samloku, mér finnst svo leiðinlegt þegar ég veit hvað er á henni fyrirfram....
Þá bráðnaði nú móðurhjartað pínulítið.... nú, svo það var það sem þetta snerist um, þeim unga finnst gaman að láta koma sér á óvart. Svo kveikti kvikindið á sér inní mér....
Já, ég skal koma þér á óvart, unglingur..... héðan í frá getur þú smurt þitt eigið nesti!!! Enda löngu orðinn nógu gamall til þess. Er þetta nógu mikið á óvart fyrir þig??
Svar ekki enn komið, enda er ég, agalausa foreldrið, ekki búin að skella þessum óvænta glaðningi í fésið á unglingnum.....
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 03:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
16.4.2008 | 22:55
I am sick of being sick...
Úff, ég er sko of slöpp til að böggast eitthvað á blogginu í kvöld. Ég, sem er ekki vön að fá flensur í mig, er búin að draga í mig anga af öllum umgangspestum frá áramótum. Hef í flest skiptin staðið upprétt áfram og haldið mínu striki, en í þetta skiptið varð ég að játa mig sigraða.
Ég veiktist á sunnudaginn en asnaðist auðvitað samt í vinnu á mánudaginn. Í gærmorgun komst ég bara ekki fram úr rúminu fyrir beinverkjum, hita, hósta, stífluðu nefi og höfuðverk. Mér fannst það virkilega slæmt þar sem ég átti að vera á endurlífgunarnámskeiði allan daginn, var búin að lesa heilan helling af undirbúningsefni og vildi alls ekki missa af þessu námskeiði. En ákvað að leyfa líkamanum að ráða í þetta skiptið og var heima í mínu eigin yfirlæti. Mín elskulega mamma kom við með gos handa mér (engar litabækur og liti, eins og þegar maður var lítill og veikur....) og svo eyddi ég deginum á sófanum yfir Grey´s Anatomy af flakkaranum mínum. Ég eyddi reyndar meirihluta kvöldsins yfir sama efni, og er nú eiginlega búin að horfa á alla þættina...... (psst.. Gunna, ertu ekki búin að downloada meira af þessum þáttum, mig fer að vanta........)
Rétt áður en ég skreið upp í rúm í gærkvöldi, fékk ég algjört kuldakast, hríðskalf og þurfti meira að segja að herða mig upp til að geta sest á klósettsetuna fyrir nóttina. Ég var í flísbuxum og flíspeysu, en ákvað að fara í þykka göngusokka og sloppinn minn yfir áðurnefnda múnderingu og skreið þannig undir sæng - en var samt ennþá kalt. Vaknaði svo um miðja nótt í svitabaði dauðans..... og þetta var vísirinn að því sem koma skyldi í dag. Ég var miklu slappari í dag en í gær, fór ekki fram úr rúminu, klæddi mig í og henti af mér fötum til skiptis, þurfti að setjast upp til að hósta, svo mikið fann ég til í barkanum við þau átök, mæddist við að ganga fram á WC, orkaði ekki að reisa mig upp og teygja mig í vatnsglasið mitt og lá svo bara og mókti allan daginn með hálfgerðum ofskynjunum inn á milli. Þegar fór að líða að seinni parti, læddist að mér sú hugsun að ég yrði eiginlega að hrista þetta eitthvað af mér og drattast á fætur og það sem verra var, bæði okkur og köttinn vantaði eitthvað að borða, svo einhver varð að draga björg í bú. Og þessi einhver var ég
Það var ekki með glöðu geði sem ég píndi mig í sturtu og kom mér af stað í búðarferð. Það var ekki mikill þokki yfir mér í þessarri verslunarferð, í Cintamani flísbuxunum mínum með hnjám í, gömlum strigaskóm sem voru með mátulega nógu mikið eyddum hælum til þess að ég gæti troðið mér í ullarsokkum í þá, í ullarnærbol, gamalli flíspeysu og svo nýrri þar yfir og svo lopapeysunni minni þar yfir.... ég fann augnaráð unglingsstúlknanna, sem stóðu reykjandi fyrir utan Bónusvideo, lengi á bakinu á mér eftir að ég gekk fram hjá þeim og get mér til hvað þær pískruðu um mig: "Gvöð, dísus, sjá þessa hallæriskellingu, o my god....."
Fékk svitakast í Nettó, en það var ekki alveg staður né stund til að kasta af sér fötum þar, svo ég komst í gegnum þessa verslunarferð heit, móð og hóstandi, en ákvað að pizza úr frystiborðinu í Nettó yrði að duga unglingnum mínum í kvöldmat í kvöld. Mér leið eins og ég þyrfti að hamstra, eins og ég ætti ekki eftir að komast í búð aftur á næstunni, en hugsaði að ef ég ætti eftir að eyða næsta sólarhringi svona og jafnvel næstu, þá ætlaði ég ekki að þurfa að leggja á mig aðra búðarferð í þessu ástandi. Ávextir, ostar, kex, döðlur, gos og ýmislegt úr nammihillunum fékk að rjúka með í innkaupakerruna, mig ætlar sko ekki að skorta neitt næstu dagana.
Ég vona að ég fari bráðum að skríða upp á við, en ef ekki, þá ætla ég að eiga eitthvað í búinu til að narta í - það væri náttúrlega bara draumsýn að búast við því að einhver myndi útbúa eitthvað girnilegt handa mér úr þessum aðföngum, en......
Ég var einmitt að lesa blogg hjá einni bloggvinkonu, sem líka er veik, og hún var að lýsa því hvernig við mömmurnar getum aldrei leyft okkur að vera veikar. Við þurfum alltaf að sinna okkar skyldum og sjá um hina fjölskyldumeðlimina, í blíðu og stríðu. Mamma á bara að vera til staðar og gera það sem hún er vön, veik eða ekki. Og já, það er sko meira en satt og rétt hjá henni. Það væri nú nice ef einhver myndi einhverntímann hugsa um okkur veikar, eins og við hugsum um hina, bæði fríska og veika....
Yeah, dream on.....
Dægurmál | Breytt 17.4.2008 kl. 03:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
15.4.2008 | 12:11
Það er skömm að þessu!!!
"Þetta reddast", hefur nú löngum verið viðkvæðið hjá stjórnendum LSH. Ætli þeir séu ekki að bíða eftir því í þetta skiptið líka, þótt mjög erfitt sé að sjá á hvaða hátt það eigi að gerast.
Ég hef áður bloggað um uppsagnir skurðstofu- og svæfingahjúkrunarfræðinga, og hvaða áhrif þær muni hafa á alla starfsemi spítalans sem og öryggi okkar landsmanna - hvort sem stjórnendum takist að laða að nokkra erlenda hjúkrunarfræðinga eða ekki.
Það að yfir 90% af geislafræðingum spítalans ætli að hætta, þýðir auðvitað líka neyðarástand, því ekki viljum við biðlista inn á röntgendeildina ofan á allt annað. Þetta mun þýða, að jafnvel inniliggjandi sjúklingar á bráðadeildum, munu þurfa að bíða eftir því að komast í aðkallandi rannsóknir, innlagnir þar af leiðandi lengjast og hvað mun það kosta þjóðfélagið?? Ekki bara peninga, því það segir sig sjálft að ekki mun þetta heldur bæta álagið á nú þegar að mörgu leyti uppgefið starfsfólk, né mun þetta bæta leguplássleysið sem hrjáir spítalann..... eða ætlar Landspítalinn að gera samskonar samninga við Norðurlöndin og hann gerði við kragasjúkrahúsin svokölluðu..... og senda þá sjúklinga sem ekki komast fyrir á deildum LSH kannski til Kaupmannahafnar eða Þórshafnar?
Hvar er þessi mannauðsskrifstofa Landspítalans og hvað er hún eiginlega að gera?? Allavega ekki að passa upp á mannauð spítalans.....
Og hvenær ætlar fjármálaráðherra að losa þá fjármálakrumlu sem hans ráðuneyti heldur Landspítalanum í? Hvenær ætla fjármálaráðherra og heilbrigðisráðherra að viðurkenna það gríðarlega mikilvægi, sem liggur í starfi okkar heilbrigðisstarfsfólks, og gera alvöru samninga við okkur? Samninga sem hæfa okkar menntun, ábyrgð, þekkingu, færni og síðast en ekki síst mikilvægi í okkar þjóðfélagi. Það er virkilega skömm að ykkur, ráðherrar!!
Algjör pattstaða – engir fundir og uppsagnir standa | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 13:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)