Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2008

Velþegin læknisaðstoð.....

Fór út að borða með stundum-nefndum Mr. K. á Sjávarkjallarann í gærkvöldi, Sjávarkjallarinn er eitt af mínum "uppáhalds"..... alltaf góður matur, góð þjónusta og mátulega fjörug og góð stemmning. Kíktum rétt aðeins stutt á eitt öldurhúsið áður en við fórum heim.

Vaknaði svo í morgun stífluð á alla kanta, lungun og nefið fullt og höfuðið eins og það væri að springa. Var með pínu hitavellu líka og beinverki, svo ég tók tvær Parkódín og lagði mig aftur. Ástandið batnaði ekki mikið, er bara búin að lifa á Parkódíni í dag, með beinverki, snörlandi nef og fljótandi augu. Býst nú ekki við því að ég taki mér neitt veikindafrí úr vinnu samt.....

Gott að maður er undir lækni(shöndum) Wink 


Ég vil enda lífið í fullnægingu eins og Woody Allen.....

Núna er ég á næturvakt á blóðmeinadeild Lsh á Hringbrautinni. Það er frekar rólegt hjá okkur í nótt, svo ég hef verið að glugga í póstinn minn. Rakst á stórskemmtilegan mail, sem ég fékk sendan frá einni samstarfshjúkku minni. Læt innihald hans fljóta hérna með.

 "Next Life" by Woody Allen

In my next life I want to live my life backwards. You start out dead and get that out of the way. Then you wake up in an old people's home feeling better every day. You get kicked out for being too healthy, go collect your pension, and then when you start work, you get a gold watch and a party on your first day. You work for 40 years until you're young enough to enjoy your retirement. You party, drink alcohol, and are generally promiscuous, then you are ready for high school. You then go to primary school, you become a kid, you play. You have no responsibilities, you become a baby until you are born. And then you spend your last 9 months floating in luxurious spa-like conditions with central heating and room service on tap, larger quarters every day and then Voila!! You finish off as an orgasm!!

I rest my case....

Alls ekki amalegt líf það..... LoL 


Hæ, ég heiti Lilja og ég er nikótínfíkill !!

Í gær fékk ég send ansi sterk skilaboð úr ýmsum áttum um það, að ég ætti að hætta að reykja. Eða allavega að íhuga það...... (eins og við reykingafólk séum ekki ALLTAF að því!).

Ég er orðin svo þreytt á því að íhuga þetta mál, stressa mig yfir því að ég sé EKKI hætt, hlusta á aðra tala um að ég ÆTTI að hætta, svekkja sjálfa mig á því að ég GETI ekki hætt og svo vinna innan um fórnarlömb reykingafíknarinnar alla daga í mörg ár - að ég var eiginlega komin á þá skoðun, og búin að ákveða það með sjálfri mér, að ég sé hætt við að hætta.... forever. Ég nenni ekki að velta mér upp úr þessu og svekkja mig lengur, ég nenni ekki alltaf að setja einhverjar tilgangslausar dagsetningar, tilkynna þær (eða ekki) til minna nákomnu, falla svo í kollhnís um sjálfa mig, eigin fíkn og eigið getuleysi, þurfa að "feisa" það að ég sé forfallin, svo ég ákvað að henda þessum byrðum af öxlum mér, með því að hugsa: Svona er ég, ég heiti Lilja og ég er nikótínfíkill and thats the way I am..... og ég ætla ALDREI að hætta!! Devil 

Þetta hefur verið mjög hentug aðstaða fyrir mig. Ég þarf ekki lengur að hugsa; "hvenær á ég að gera næstu tilraun", né þá heldur að kvíða henni. Ég þarf ekki að spá í þyngdaraukningu, af því að ég er ekkert að fara að hætta. Ég þarf ekki að spá í sjúkdómana, ég tek þeim bara af æðruleysi vegna þess að ég VEIT að þeir koma, og ég er búin að sætta mig við þá í framtíð minni fjær, og meira að segja nær. Ég meira að segja geng svo langt í minni réttlætingu fyrir reykingum mínum, að ég segi, að ég nenni hvort sem er ekkert að verða gömul í þessu þjóðfélagi, sem skapar gamla fólkinu svo lélegar aðstæður eins og okkar þjóðfélag gerir.

Ég þekki hugsunarhátt fíkla eftir að hafa unnið með þeim, og ég get sagt, að ég er engu minni fíkill en þeir - bara fíkin í annað efni. Ég díla við sjálfa mig endalaust, geri samninga við sjálfa mig og umhverfi mitt, svík annað hvert orð í þessum samningum, geri hluti á laun, hef stolið úr sparibauk sonar míns til að eiga fyrir sígarettum, kaupi sjálfa mig og verðlauna sjálfa mig (óverðskuldað, en alltaf með sígarettu), get alls ekki beðið eftir góðu hlutunum, hef meira að segja klætt mig upp seint um kvöld og hlaupið út í kaldagadda til að nálgast "stuffið" mitt og myndi fara fótgangandi úr Breiðholtinu niður á BSÍ ef ég væri sígarettulaus og kæmist ekki öðruvísi. Ég hef meira að segja látið mömmu mína senda mér sígarettur í leigubíl á jóladagsnótt eftir að hafa gleymt BÁÐUM pökkunum mínum í hennar húsum!!!  

Ég nota það líka sem réttlætingu, að það væri næsta víst, að væri ég ekki nikótínfíkill þá væri ég einhver verri fíkill, með fíkn sem léti mig missa stjórn á eigin lífi. Ég ER spennufíkill, hef yfirleitt lifað svolítið "á brúninni" og finnst það gaman.... ég er mjög öfgafull í öllu því sem ég tek mér fyrir hendur. Annaðhvort er ég í ræktinni fimm sinnum í viku, eða alls ekki. Ef ég er búin að ákveða að hjóla, þá HJÓLA ég. Ef ég ætla að gera eitthvað, þá geri ég það með stóru G, eða geri það alls ekki, og annað í þeim dúr. Það er ekkert mitt á milli hjá mér, annaðhvort er ég ÓGEÐSLEGA löt eða HYPERAKTIV. Ég er sem sagt MJÖG gott efni í fíkil, hef öll gen og alla tendensa..... var ég búin að segja það að ég er líka workaholic??

Og já, var ég búin að nefna það..... Ég heiti Lilja Bolladóttir og ég er nikótínfíkill. Með stóru N-i. Og ég var eiginlega búin að sætta mig við það.... í nafni alls hins verra sem ég gæti verið, en ég hafði eiginlega aldrei hugsað af alvöru um allt hið betra sem ég gæti verið ef ég reykti ekki. Það var eiginlega bara ekki "option" í mínu lífi. Ég var bara sátt við hlutskipti mitt sem nikótínþræll.

En auðvitað, þrátt fyrir alla afneitun, hefur maður það alltaf á bak við eyrað, að einhvern tímann verður góðu partýi að ljúka. Einhverntímann, ekki strax og ekki nærri strax en.... some day.

Ég var ekkert frekar að spá í allt þetta þegar ég vaknaði í gær en mundi ljóslifandi drauminn sem mig hafði dreymt. Þar var fyrsta "signið" um að ég ætti að hætta og nú ætla ég að birta öll þau merki sem birtust mér í gær, ótrúlegt en satt, öll á sama degi. Þetta bara hlýtur að þýða eitthvað....

1). Mig dreymdi að ég væri að kafna. Ég gat ekki andað og yfir mér stóð fjöldi heilbrigðisstarfsfólks með öndunargrímur í höndunum, sem þau voru að reyna að setja á mig til að gefa mér súrefni. En þau vildu setja svo margar grímur á mig í einu, og mér fannst ég vera að kafna ennþá meira við að fá svona grímu á mig, og hvað þá svona margar í einu. Mér fannst þau bara vera að reyna að kæfa mig og ég hafði það steklega á tilfinningunni að þau vildu mér ekki gott..... (ég gæti líka túlkað þennan draum þannig, að Landspítalinn væri að kæfa mig með ásókn sinni í mig á aukavaktir á hinar og þessar deildir, en ég kýs að setja þennan draum frekar í samhengi við annað sem ég upplifði á þessum degi....)

2). Í vinnunni vorum við að annast fólkið sem lenti í bílslysinu á Reykjanesbrautinni í gærmorgun. Við vorum bara að ræða, eins og við gerum oft eftir alvarlegri atburði, um lífið og tilveruna og einhver sagði: "Og hugsa sér, svo er sumt fólk sem er vísvitandi að reyna að drepa sig með því að reykja!" Þessum orðum var alls ekki beint til mín, enda held ég ekki einu sinni að viðkomandi starfsmaður viti að ég reyki, en þau slógu mig samt engu að síður harkalega. Já, hvað er eiginlega að manni? Í vinnunni berst maður upp á líf og dauða marga daga, upplifir ótrúlega marga skelfilega hluti, en samt er maður MJÖG meðvitað að reyna að "drepa í sjálfum sér" með þessum ógeðslega óvana.

3). Þegar ég kom heim tæmdi ég póstkassann. Meðal annars var þar fréttatímarit EONS (stendur fyrir European Oncology Nursing Society, sem er Samband krabbameinshjúkrunarfræðinga í Evrópu og ég hef verið meðlimur af síðan ég vann á krabbameinsdeildinni í nokkur ár í "denn"). Á forsíðunni var stór mynd af sígarettu sem var að brenna niður og fókus tímartisins var á lungnakrabbamein!!!

Ég var aðeins farin að taka "hintið" þarna, fannst þetta óvenju margar tilviljanir á einum og sama deginum, og hugsaði með sjálfri mér: "allt er þegar þrennt er, Lilja mín. Er þetta ekki bara rétti tíminn fyrir þig? Þarftu frekari sannanir?" (Eins og ég hafi ekki hundrað sinnum upplifað deyjandi lungnakrabbameinssjúklinga, séð þjáningar sjúklinganna með lungnateppu og ÆTTI að vera farin að fatta eitthvað í staðinn fyrir að stunda strútaleikinn.....)

En var svo sem ekki alveg komin á alvarlegu nóturnar samt. En þá kom rúsínan í pylsuendanum, einmitt þegar ég átti síst von á. Einmitt þegar ég ætlaði bara að hafa það kósý fyrir framan sjónvarpið, zappaði yfir á stöð 2 og þar var Oprah. Ég var einmitt í skapi til þess að horfa á eitthvað afslappað, sem maður gæti látið líða inn um annað og út um hitt, en.....

4). Þáttur Opruh snerist um reykingar, skaðsemi þeirra og leiðir til að hætta. Það voru viðtöl við ýmsa lækna, skoðaðar röntgenmyndir af lungunum í fólki sem hafði reykt í 10 ár, 20 ár, 30 ár ..... Sýnt myndrænt hvað gerist í lungunum þegar reykur fer ofan í þau og margt fleira. Ég hef svo sem séð þetta allt, en þetta í lok þessa dags, stakk mig aðeins meira en örlítið. Það var líka viðtal við leikarann Ben Affleck í þættinum, sem sagði sína reykingasögu, og hvernig hann setti alltaf einhver markmið: ....þegar ég verð 20 ára, þegar ég verð 25, þegar ég verð þrítugur....  Og þessir dagar komu og fóru án þess að hann hætti að reykja. Alveg eins og hjá mér .... ég hef sett þessi markmið síðan ég var 19 ára, það stendur m.a.s. á myndinni minni í stúdentsbókinni úr Verzló: "ég ætla að hætta að reykja þegar ég verð tvítug"....... já, síðan eru liðin ca. 15 ár..... þarf að segja meira um mína staðfestu versus fíkn???

Ég er hvorki mjög trúuð né hjátrúafull, en ég trúi á eitthvað æðra okkur hinum hér á jörðinni. Og ég hugsaði bara þegar ég var að horfa á Oprah: "Djöfullinn, helvítis, andskotans fjandinn sjálfur, nú verð ég að hætta! Það er einhver að reyna að senda mér mjög sterk skilaboð í dag, í allan dag OG síðustu nótt." (!!!) Og ef ég lít fram hjá þessu núna, þá er ég meiri asni og vitlausari en meira að segja ég hélt að ég gæti verið. Það er verið að senda mér skilaboð um að þetta sé síðasti séns fyrir mig.... held ég.

Svo nú, ladies and gentlemen, þá set ég dagsetninguna á 28. apríl. Ég hef ekki hugmynd um á þessarri stundu hvernig ég ætla að gera þetta, býst við að taka "cold turkey" þótt það sé ekki ráðlagt, en reynsla mín hefur sýnt að engin nikótínlyf hjálpa mér hið minnsta. Þetta þarf að gerast í hausnum á mér og bara þar. Ég ætla að nota tímann fram til 28. apríl til að undirbúa mig andlega, og ég set bara 28. apríl vegna þess að ég á afmæli 24. apríl og á frí alla helgina og vil geta REYKT (!), en líka vegna þess að þá er ennþá nógu langt í sumarfrí og allar þær freistingar sem fríið ber með sér. Ég ætla samt að nota tímann til að gera eitt af því sem doktorinn í Oprah ráðlagði: Vittu hver eru þín "sígarettumóment" og vertu búin(n) að finna við þeim bjargráð eða undankomur með einhverju öðru. Vegna þess, að þegar þú stendur þarna í fyrsta skiptið, þá áttu bara eftir að hugsa EITT:

SÍGARETTA, SÍGARETTA, SÍGARETTA.....

I will keep you posted.......

 


Ég breyti þessum snjó í sól og grænt gras !!!

Nei, nú segi ég stopp og leggst í þunglyndi og dvala!! Ég hélt að vorið væri komið og grundirnar færu að gróa, en þá er allt orðið hvítt hérna. Jólalegar snjórákir á gluggakörmunum og ég held bara að ég verði að kveikja á jólaseríunni aftur Pinch og með þessu hefst líka fuglastríðið mitt aftur, sem ég hélt að væri komið í vopnahlé allavega fram í nóvember! Ég bara neita að trúa þessu!!! Ætla að fara að sofa og dreyma sól, sumar, línuskauta og graslykt og á morgun þegar ég vakna verður þetta allt horfið!! Vitið bara til - víst kann Lilja næstum allt..... Angry

Sólin, gleðin og kynlegir kvistir í lífi mínu.....

Óhó hó, I'm alive now. Sólin skín og vorið er að koma Smile

Friðsæl morgunstund með Moggann, kaffibollann og Rás1 í útvarpinu - ekki af því að ég sé orðin svo gömul að ég þoli ekki síbylju annarra útvarpsstöðva, heldur finnst mér stundum svo róandi að hlusta á Rás1.... þótt ég sé eiginlega ekkert að hlusta, heldur frekar láti RÚV skapa þægileg bakgrunnshljóð fyrir mig. Minnir mig einhvernveginn á gamla daga, þegar skólinn byrjaði kl. 13 á daginn, mamma var að stússast eitthvað í heimilisverkum og ekkert annað var á boðstólum í útvarpinu en Rás1. Og í minningunni skein sólin auðvitað alltaf þegar maður var lítill Cool Minnir mig líka á helgarmorgna hjá afa og ömmu, þar sem ég elskaði að gista fjarri áreiti frá systkinum mínum - afi í sólríkri stofunni í Barmahlíðinni að lesa blöðin, kallaði öðru hvoru fram til að lesa upp einhverjar spennandi fréttir eða hneykslast á einhverju sem hann las, Rás1 á fullu úr gamla útvarpinu hans, tifið í stóru stofuklukkunni þeirra og amma að gera sig tilbúna til að fara eitthvert; í sund, í bæinn, í heimsókn eða eitthvert annað - og alltaf fékk ég að fljóta með.

Niður af litlum flugvélum berst inn um gluggann, ég heyri bjölluna í Ölduselsskóla hringja inn úr frímínútum og stuttu seinna stöðvast hlátrasköllin og krakkaópin sem ég heyri alltaf óminn af. Einn nágranni minn er að klippa greinar af trjánum hjá sér með vélsög og hundurinn hans geltir öðru hvoru í garðinum hjá honum. Minn litli kisi vill ekki koma inn af svölunum, er búinn að hreiðra um sig í einum garðstólnum þar - vill svo heppilega til fyrir hann að húsfreyja hans setti einhverntímann í vetur baðmottuna sína út, akkúrat í þennan stól..... ákvað svo að kaupa nýja en hefur einhverra hluta vegna aldrei hundskast til að henda þeirri gömlu.... núna er þetta ágætis hægindastóll fyrir kisa. Einhversstaðar heyrist í vinnuvél og annar nágranni minn er að sópa og skrapa bílaplanið okkar með tilheyrandi hljóðum. Og akkúrat í þessu heyri ég í, og sé, þyrlu Landhelgisgæslunnar (bara að hún sé ekki að lenda með neinn slasaðan við vinnustað minn.....)

En engin af þessum hljóðum trufla mig hið minnsta. Ég fagna þeim öllum því þau boða vorið og gleðina. Ég heyri líka öðru hvoru í vindinum og veit að hann er kaldur, en í dag leiði ég það hjá mér! Það fær ekkert eyðilagt þá sumarstemningu sem þessi fallegi morgunn hefur laumað inn í litla hjartað mitt. Mér er alveg sama þótt Esjan blasi við mér með hvíta húfu.... það eina sem vantar er ómurinn af sláttuvélum, lykt af grasi og lykt af grilli. En þetta er allt að nálgast, skal ég segja ykkur.

.....en aftur að nágranna mínum sem er þessa stundina að sópa bílaplanið. Ég hef stundum fylgst með honum, ég á oft lausa morgna annaðhvort áður en ég fer á vakt eða eftir að ég kem heim af næturvakt. Hann býr ekki í sömu blokk og ég, (við deilum sama stóra bílastæðinu íbúar tveggja blokka) og ég kann engin deili á þessum manni. Ég veit ekki hvað hann gerir eða hvort hann vinnur úti yfirhöfuð. Hann er að minnsta kosti alltaf heima þegar ég er heima. Og alltaf að stússast eitthvað utandyra.

Ég hef stundum kallað hann "fuglamanninn", því hann er mjög iðinn við að gefa smáfuglunum á veturna, og iðulega er hann í fuglastríði við mig. Hann gefur fuglunum á ákveðnum stað yst á bílastæðinu, en ég letinginn, gef þeim yfirleitt bara rétt fyrir utan gangstéttina að útidyrahurðinni minni - ég nenni ekki að labba lengra með fæðið þeirra, finnst að fuglarnir eigi auðveldara með að færa sig úr stað en ég..... Hann er mikið duglegri við að hugsa um fuglana heldur en ég er, svo iðulega er fuglahrúgan við hans "veitingahús". Það kemur þó fyrir, að ég setji eitthvað mjög girnilegt út; ávexti, afganga af kjöti, ávaxtasallat í þeyttum rjóma (já, fuglarnir ELSKA það), kæfu eða paté sem er að renna út á tíma eða eitthvað í þeim dúr. Þá auðvitað flykkjast fuglarnir að mínu "veitingahúsi", og það þolir nágranni minn ekki. Ég held að honum finnist hann "eiga" smáfugla hverfisins og ég held að hann fylgist með þeim og því, hvort þeir hafi "klárað af disknum sínum", því ef þeir yfirgefa hans stað fyrir minn stað, þá er hann umsvifalaust mættur út með eitthvað til að lokka þá til baka til sín. Ég er líka mikil keppnismanneskja, svo mér finnst ekki að hann eigi að lokka fuglana frá minni hrúgu, svo þá mæti ég aftur út og þá með eitthvað enn girnilegra en gamlar og hálfbrúnar perur og fæ fuglana aftur á mitt band. Nágranninn grefur þá eitthvað annað upp en gamalt brauð og er mættur út á bílaplan. Ég stend við eldhúsgluggann og fylgist grannt með, og mæti svo aftur út með kjötafgangana og áður en komið er hádegi, er ég farin að ganga á forða okkar mæðgina í ísskápnum - því í ást og stríði er allt leyfilegt, og þetta er definitly stríð!!  ....Milli okkar, því ég held að fuglunum sé nokk sama á hvorum staðnum þeir éta. Það er líklega skondnast að vera áhorfandi að þessu stríði og sjá fuglahrúguna færa sig á milli tveggja staða mörgum sinnum á sama morgninum á meðan við hlaupum til skiptis út eins og brjálaðar manneskjur LoL .....önnur á bleikröndóttum náttbuxum og Van´s skóm af syni sínum (ég) og hin alltaf í blárri úlpu með svarta húfu og í flauelsbuxum (hann).

Þegar nágranni minn er ekki að gefa fuglunum er hann að dytta að bílnum sínum. Stundum sé ég hann koma gangandi yfir planið og setjast inn í bílinn og keyra af stað. En ekki langt, því hann er oft bara að fara út til að snúa bílnum við í stæðinu..... merkileg athöfn sem ég hef oft furðað mig á!

Stundum er hann að tína rusl upp í kringum blokkirnar, og á hann miklar þakkir skildar fyrir það. Stundum er hann að gera úttekt á einhverju, virðist vera. Þá gengur hann um og horfir í kringum sig, stoppar svo öðru hvoru og skrifar eitthvað niður hjá sér.... ég vona allavega að hann sé ekki að taka út hvaða gluggar séu hreinastir í hverfinu....

En núna er þessi góði maður sem sagt að sópa þetta óendanlega stóra bílaplan hér fyrir framan eldhúsgluggann minn. Hann er búinn að vera að sópa og skrapa í einn og hálfan tíma, en það sér ekki mikið á planinu ..... ekki ennþá. Fyrir mér væri þetta eins og að ætla að moka sjóinn upp með plastfötu, en ég held líka kannski, að þessi elska sé ekki alveg eins og fólk er flest......

Og kannski ég ekki heldur...... erum við ekki bara öll einstök hvert á sinn hátt? Smile

Ég ætla að fagna þessum góða granna mínum eins og öllu öðru á þessum góða degi, og ég held svei mér þá að kveikt verði í grillinu í kvöld... í fyrsta skiptið í ár. Svona dagar eru bara til að njóta!! Tounge

 


Offita....

Þetta er mun alvarlegra mál, en margir gera sér grein fyrir. Offita er ekki það sama og vera lítillega of þungur, offita er hæstastigið í þessum málaflokki. Offita er vaxandi vandamál, talið er að einn af hverjum þremur einstaklingum í heiminum eldri en tvítugt, séu of feitir og um 27% barna og unglinga í heiminum eru of feit.  Samkvæmt skilgreiningu WHO (Alþjóða Heilbrigðisstofnuninni) er talað um offitufaraldur ef hlutfall of feitra fer yfir 20% (!!)

Offita kostar heilbrigðiskerfið EKKI minni pening en reykingar. Skv. WHO eru um 9% af útgjöldum heilbrigðiskerfisins tilkomin vegna offitu og er fyrirséð að þetta hlutfall eigi bara eftir að aukast. Offita hefur geysileg áhrif á alls kyns þætti heilbrigðis okkar og veldur mörgum sjúkdómum, svo sem hjarta- og æðasjúkdómum, sykursýki, sjúkdómum og verkjum í stoðkerfi okkar, kæfisvefni, ýmsum krabbameinum og oft á tíðum fylgir einnig þunglyndi offitu, fyrir utan það að of feitir lifa við verulega skert lífsgæði. Margar stórar rannsóknir sýna að offita er aðalorsök snemmdauða, offita einstaklins eykur notkun hans á heilbrigðisþjónustu um 36% og lyfjanotkun um 77% !! Ofan á kostnað heilbrigðiskerfisins bætist samfélagslegur kostnaður, sem kemur til af minnkaðri atvinnuþátttöku, fleiri veikindadögum, ótímabærri örorku ofl.  

Eins og ég tók fram áður, kostar offita þjóðfélagið ekki minni pening en reykingar. Eini munurinn er sá, að reykingafólk tekur virkan þátt í sínum kostnaði með því að greiða há opinber gjöld af sinni neyslu. Af hverjum sígarettupakka sem kostar um 600 kr., borgar reykingamaðurinn um 400 kr. til ríkissjóðs. Í Danmörku, þar sem reykingar eru hvað mestar á Vesturlöndunum, hafa verið gerðar rannsóknir sem sýna fram á það, að reykingafólk hefur í gegnum opinber gjöld af sígarettum, margborgað fyrir sínar sjúkrahúslegur og lyfjakostnað, og það er kaldhæðnislegt að segja það, en satt engu að síður, þá lifir reykingafólkið að öllu jöfnu mun styttra en aðrir og fá þá, eðli málsins samkvæmt, ekki greiddan sinn lífeyri, þarf ekki á sjúkrahúsum að halda eftir sinn dauða og munu heldur ekki þurfa öldrunarpláss á hjúkrunarheimilum - og spara þannig þjóðfélaginu þær áhyggjur og þann kostnað, með því að kveðja lífið fyrr en aðrir.

Nú má ekki misskilja mig þannig, að ég sé að mæla með reykingum, síður en svo. Þessi ræða var inngangur að því sem ég vil segja nú. Í ljósi þessarra staðreynda finnst mér að ríkisstjórnin ætti að grípa til aðgerða og það strax. Innflutningsgjöld, tollar og virðisaukaskattur eiga að vera mun hærri á óholla vöru og að sama skapi á þessi kostnaður að vera eins lágur og hægt er á grænmeti, ávexti, kornmeti og aðrar hollustuvörur. Ríkisstjórnin þarf að hvetja fólk til að neyta hollrar vöru, og ég veit svo sem að hún er að gera það í gegnum Lýðheilsustöð með ýmsum átökum, en ríkisstjórnin verður líka að gera fólki það kleift kostnaðarlega. Það á ekki að vera ódýrara að fæða fjögurra manna fjölskyldu á McDonalds heldur en að elda fisk eða kjúkling, með fullt af grænmeti og hrísgrjónum þar heima. Það á ekki að vera ódýrara að kaupa örbylgjurétt í stórmarkaði heldur en t.d. að kaupa fiskrétt til að taka með sér heim hjá Fylgifiskum. Þegar virðisaukaskattur var lækkaður á ýmsum vörum í fyrra, átti ekki gos að fylgja með í þeim aðgerðum, eins og það gerði.

Flestar rannsóknarniðurstöður benda á það, að við séum í raun búin að missa af lestinni með fullorðna fólkið í þjóðfélaginu, það sé of seint í rassinn gripið að ætla að gera eitthvað markvisst fyrir það, en að fókusinn þurfi að beinast að börnunum og unga fólkinu í löndunum með fyrirbyggjandi aðgerðum, fræðslu og í raun ala þau upp frá blautu barnsbeini með það í huga að forða þeim frá offitu. Það er eina leiðin til að stöðva þennan offitufaraldur. Með aukinni atvinnuþáttöku kvenna og hærra vinnuhlutfalli okkar allra, ganga börnin okkar meira sjálfala, en t.d. mín kynslóð gerði og hvað þá kynslóðirnar á undan. Framboð á óhollustu og ýmis konar áreiti í þjóðfélaginu á börnin okkar er gífurlegt, og það á ekki að vera svona auðvelt og "ódýrt" fyrir þau að stökkva út í næstu sjoppu og kaupa sér hamborgara og kók. Það á að vera alger sparivara, eins og það var fyrir kynslóðirnar á undan þeim. Ríkisstjórnin þarf að stuðla að því, í samvinnu við heimilin, leikskólana og skólana, að kynna holla matvöru fyrir börnunum strax á unga aldri.  Í Danmörku, þar sem minn sonur eyddi öllum sínum leikskólaárum, var ávaxtatími einu sinni á dag. Þá voru ávextir settir á borð og allir áttu að velja sér ávöxt/ávexti og setjast á dýnu til að borða á meðan það var lesin fyrir þau saga. Þetta var líka raunin í barnaskólanum sem hann gekk í. Dýrt? Nei, ekki get ég ímyndað mér það, að kaup á ávöxtum af hálfu sveitarfélaganna og hins opinbera vegi hátt á móti þeim ávinningi sem þjóðfélagið allt hlýtur af svona einfaldri aðgerð, þótt árangurinn eigi ef til vill ekki eftir að koma fram fyrr en áratugum seinna. Það þarf að hugsa þetta mál í stóru samhengi, hugsa til framtíðarinnar og hafa það hugfast að árangur mun ekki koma í ljós fyrr en þessi kynslóð vex upp.

Ég geri mér grein fyrir því að þetta eitt og sér, mun ekki valda neinni u-beygju, heldur er bara liður í mörgu fleira sem þarf að gera. Hreyfin er annað sem þarf að taka á. Eitt af markmiðum Lýðheilsustöðvar er að börn og unglingar hreyfi sig a.m.k. fimm daga vikunnar í 60 mínútur í senn. Nú hafa ekki allir foreldrar efni á því að leyfa börnum að stunda íþróttir í frítíma sínum, börnin hafa kannski ekki áhuga heldur, svo með því að setja hreyfingu inn í grunnskólana mætti leggja lóð á þessar vogaskálar því þar næst til allra og öllum er skylt að taka þátt. Í aðalnámskrá grunnskólanna er kveðið á um uppeldishlutverk þeirra. Hún segir líka til um þann lágmarkstíma sem skólum ber að bjóða nemendum í einstökum námsgreinum. Samkvæmt núgildandi aðalnámskrá eiga nemendur að fá þrjár kennslustundir í viku í íþróttum, sem þar eru skilgreindar sem leikfimi, sund, dans og leikir. Fyrir venjulegan leikmann, eins og mig, virðist það ekki vera mikið mál að bæta tveimur stundum í viku, við þessa námsskrá. Það má vel samtvinna hreyfingu við aðra kennslu, og ég held ekki að börnin myndu bera skaða af því að læra minni landafræði eða eðlisfræði á kostnað hreyfingar.

Þegar talið berst að hreyfingu, finnst mér líka að ríkisstjórnin ætti að gera okkur fullorðna fólkinu það auðveldara að stunda hreyfingu, því þrátt fyrir að það sé kannski of seint að ætla að afþyngja okkur, þá hefur hreyfingin margvísleg fyrirbyggjandi áhrif sem eru margsönnuð. Það hafa ekki allir efni á því að borga 5-12000 kr. á mánuði í líkamsræktarsal, og svo eru líklega enn fleiri sem finna ekki tíma til þess með vinnu sinni og heimilishaldi. Ég veit að sum stéttarfélög veita styrki til líkamsræktar, en hvað ef ríkið veitti stöðvunum fé svo þær gætu lækkað sinn rekstrarkostnað og þá boðið kortin sín ódýrari? Eða ef við fengjum þrjá tíma á viku, á launum, til að stunda einhverskonar líkamsrækt? Hefðum kost á því að stunda líkamsrækt í vinnutíma? Ég veit að þetta yrði mjög erfitt og líklega mjög flókið að hafa eftirlit með einhverju í þessum stíl, en þetta eru bara hugmyndir, sem kannski væri hægt að útfæra á einhvern hátt. Ríkisstjórnin á að sjálfsögðu ekki að bera ábyrgð á okkar heilbrigði, en ef sannað er að hreyfing og mataræði hafa margvísleg áhrif á heilsuna og geta dregið úr heilbrigðiskostnaði, þá finnst mér sjálfsagt að hún geri það sem í hennar valdi stendur til þess að stuðla að því að við lifum "rétt". Lýðheilsustöð er einmitt stofnuð með það í huga, er það ekki?

Árið 2001 gaf Heilbrigðis- og (þáverandi) tryggingamálaráðuneytið út skýrslu, þar sem langtímamarkmið voru sett í heilbrigðismálum til ársins 2010. Þessi markmið voru svo endurskoðuð árið 2006, en það vekur athygli og er mjög sláandi að í þessarri skýrslu eru engin markmið sett á sviði þess að draga úr ofþyngd og offitu þjóðarinnar. Maður skyldi ætla, að þessi mikli kostnaður ríkisins vegna offitufaraldurs myndi kalla á auknar aðgerðir á þessu svið. Breyting á lifnaðarháttum er mikilvægust í þessarri baráttu, árangursríkast er að fyrirbyggja offitu og nauðsynlegt að ná til barna snemma á lífsleiðinni. Það er í raun ekki eftir neinu að bíða....

P.s. ef einhver skyldi halda að ég sé að grípa þessar staðreyndir og tölur úr lausu lofti, þá skal tekið fram að ég (ásamt öðrum) skrifaði verkefni um þetta málefni í mastersnámi mínu í Háskóla Íslands í haust, og allar tölur og fullyrðingar eru eftir áreiðanlegum og staðfestum heimildum.


mbl.is Offitufaraldur á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Ég ætla að fá eina golfkylfu, takk!"

Í kvöld brugðum við sonurinn okkur af bæ og fórum í mat til systur minnar og fjölskyldu hennar. Þau eyddu páskunum á sólarströnd og er því þónokkuð síðan við sáumst síðast. Mér þykir alltaf jafngaman að sjá ungana hennar þrjá, þótt eitthvað virðist aðdáun þeirra á mér dvína með hækkandi aldri þeirra... Blush 

Sá yngsti ljómaði út að eyrum þegar hann sá mig og endurtók nafn mitt og frænda síns í sífellu, þótt hann sé varla talandi. Hann var líka óþreytandi að sýna mér bílana sína og leyfa mér að renna þeim niður brekkuna í leikfangabílahúsinu sínu, einum í einu, og svo tveimur og fleirum saman.... og aftur og aftur og aftur.  

Mér tókst að kreista koss og knús út úr þessum í miðjunni, þeim sama og vildi næstum flytja til mín fyrir tveimur árum..... Tounge .....en á þeim tíma var hann líka "seldur", eftir að ég tók þá bræður með okkur í útilegu á Arnarstapa. (Snilldar, kænskubragð það, sem greinilega þarf að endurtaka öðru hvoru til að verðskulda hrifningu litlu frænda sinna....) En í kvöld var staðan þannig, að þegar ég nennti ekki að spila við hann oftar Veiðimann, var líka lokað fyrir athygli hans á mér! 

Sá elsti lét sig hafa það að kyssa "gömlu töntu" og svo var hann rokinn upp á loft með syni mínum, og sá ég hann lítið meira, fyrir utan þegar þeir frændur gleyptu í sig matinn, áður en þeir ruku með látum upp aftur. Sá elsti ætlar þó að koma og gista í mínum húsum annað kvöld, en ég held ekki að það sé minn félagsskapur sem trekki að.... ekki í þetta skiptið heldur Wink

Við systur áttum notalega kvöldstund, eins og alltaf þegar við hittumst og þar sem heimilisfaðirinn er erlendis í vinnuferð, gátum við hlustað á smá stelputónlist, slúðrað og skipst á bæði kjaftasögum og hversdagslegum sögum - við fengum okkur meira að segja pínulítið rósavín. (Ekki það að maðurinn hennar sé leiðinlegur, það er bara alltaf pínu öðruvísi að hittast tvær.... eins og örugglega allar systur þekkja) Tounge

Systur minni hafði ekki unnist tími til að koma fermingargjöfinni til sonar míns, áður en þau héldu af stað í ferðina sína, svo hún var dregin fram í kvöld. Ég hafði ráðlagt henni svolítið varðandi gjöfina, og þar sem ég vissi að unglingurinn minn, myndi fá fínan golfpoka í fermingargjöf, fannst mér tilvalið að hún gæfi honum kylfu í safnið. Strákurinn á einfalt golfsett fyrir byrjendur, og mér fannst alger vitleysa að kaupa einhverjar rándýrar kylfur handa honum, því það er alveg gefið að þeim þarf að skipta ört út á næstu árum, í takt við vaxandi lengd hans. En góðan pútter getur maður vel átt í nokkur ár þótt svo maður sé að vaxa, maður getur þá bara fært sig upp á skaftið eftir því sem árin líða..... og þá meina ég BARA upp á skaftið á kylfunni, en ekki í neinu öðru samhengi!! Devil

Systir mín sagði farir sínar ekki sléttar úr golfbúðinni. Hún hefur ekki hundsvit á golfi, en hafði farið í Hole in One í Bæjarlindinni eins og ég benti henni á. Stúlkan sú, hún litla systir mín, er þvílík pæja, með sítt ljóst hár, gengur ALLTAF um á háum hælum (líklega vegna þess að hún er svo "lítil" LoL.....), er alltaf flott klædd, vel máluð, með fínar snyrtistofuneglur og hún trassar aldrei að fara í litun og plokkun eins og stóra systir hennar á það til að gera. Hún stormar um eins og hún eigi heiminn, inn og út úr búðum, skellir bílhurðinni með stæl og brunar af stað í jeppanum sínum með fínu sólgleraugun sín.

Það er svona heimsborgaryfirbragð yfir henni, svo ég var ekkert hissa að heyra það, að þegar það klingdi í hurðarbjöllunum í Hole in One og hún gekk inn í golfbúðina, hafi afgreiðslumennirnir báðir (eða allir þrír) þust að til að fá að afgreiða hana. (Ég get bara búið mér til myndir í mínu höfði, eftir hennar sögu, og ég er viss um að mínar myndir eru ekki fjarri lagi - allavega mun skemmtilegra að ímynda sér að þetta hafi gerst nokkurnveginn svona):

Litla systir mín þeytir upp hurðinni í Hole in One og stormar öruggum skrefum inn. Hún tekur ekkert eftir því, að augu afgreiðslumannanna standa á stilkum og þeir "dissa" sína kúnna til að fá að afgreiða þessa skvísu. Lillan mín verður smá skelkuð þegar hún sér stærð búðarinnar og úrvalið, því hún kann ekkert að velja úr því, en sú stutta er nú ekki vön að láta slá sig út af laginu. Svo hún sveiflar ljósa hárinu og snýr sér að þeim afgreiðslumanni sem stendur næst henni og segir hátt og skýrt: "Ég ætla að fá eina golfkylfu!"

Sá heppni, sem hún beindi orðum sínum til, verður voða upp með sér, að hann skuli fá að afgreiða þessa golfpæju, (hún gæti alveg eins verið eins og ljóshærð Catarina Zeta Jones..... hvað vita þeir, hún hlýtur allavega að spila golf fyrst hún er þarna stödd), gengur til hennar og fer að spyrja hana nánar út í þessa kylfu sem hún ætli að kaupa.

Og hennar orð (pínulítið stílfærð): "Oh my God, Lilja, ég ætlaði bara að kaupa eina kylfu og hann fór að tala um eitthvað járn og spýtur..... ég meina, common, eru virkilega framleiddar kylfur úr spýtum???" (hneykslisvipur dauðans fylgir þessu kommenti). .....Eins og golfarar vita, hefur maðurinn væntanlega verið að spyrja hana hvort hún væri að leita sér að "járni" eða "tréi". Hann var ekki einu sinni byrjaður að fara út í nein númer, þyngdir eða gráður.....

Það kom flatt upp á mína þegar hún var spurð nánar út í kylfuna sem hana langaði að festa kaup á, en hún var ekki lengi að skella örygginu aftur upp. "Nú, hún ætlaði bara að kaupa eina golfkylfu." Maðurinn var örugglega byrjaður að fatta það, að hún væri engin golfpæja, en pæja var hún engu að síður, svo hann hóf að telja upp allskyns kylfur; ætlaði hún að fá járn til að slá langt, kannski járn til að slá hátt og stutt, eða jafnvel til að slá upp úr sandgryfjum, driver, minna tré, pútter eða......  "Já pútter", kallaði hún um leið og hún þekkti eitthvað af því sem hann var að tala um. Já, það var einmitt pútter sem hún ætlaði að fá. Hjúkk, málinu lokið.... hélt hún. En þá kom það, hvaða merki vildi hún og hverskonar pútter var hún að spá í. (Þarna get ég alveg ímyndað mér að andlitið hafi svolítið sigið á dömunni....)

Maðurinn lét þá systur mína í hendurnar á yngri sölumanni, sem byrjaði líka að spyrja hana út úr, en þá beygði sá eldri sig að hinum og sagði lágt: "Hún er enginn golfari, sko..." LoL Svo yngri sölumaðurinn tók upp auðveldu söluaðferðina, og sagði henni eiginlega bara hvað hún ætti að kaupa.

Þannig fór, að systir mín þáði ráðleggingar yngri sölumannsins og keypti það sem hann taldi besta kostinn handa litla fermingarfrænda hennar. Og gekk svo stolt út úr golfbúðinni með kylfuna sína í hendinni, (hafði reyndar líka keypt nokkrar kúlur, bara svo þeir myndu halda að hún hefði eitthvað vit á þessu öllu saman), skellti bílhurðinni á jeppanum, smellti á sig sólgleraugunum og brunaði í burtu.... og bar ennþá höfuðið hátt!

Það var ekki fyrr en hún stoppaði á næsta rauða ljósi, sem hún leyfði sér að þurrka svitaperlurnar af enninu og efri vörinni. Og dæsti: "Dísús Kræst, maður".... áður en hún skrúfaði græjurnar í botn og brunaði af stað á grænu Wink

Ég sver (!!) að þessi saga af henni systur minni er EKKI ýkt, aðeins lítillega stílfærð Tounge Sagan sýnir bara, hvað hún var tilbúin til að leggja á sig, til að kaupa góða gjöf, sem son minn langaði í..... og hún er bara yndislegust, þessi elska.

..... systir mín, litla systir mín. Hún er minni en minnsti puttinn sem er á mér, og hún kann ekki að tala, með engar tennur upp'í sér..... systir mín, litla systir mín....

(Takk fyrir góða sögu, Þórunn, og hressilegt hláturskast fyrr í kvöld!!) InLove


Vakandi sofandi.....

Í dag, í vinnunni, vorum við að tala um unglingana okkar, hætturnar sem leynast á þeirra vegum á næstu árum og margt í þeim stíl. Í kjölfarið fórum við að tala um okkar eigin unglingsár, og hvers konar unglingar við vorum.

Ekki ætla ég að láta fylgja með skrautlegustu sögurnar, sem voru ansi margar, en ætla að "ganni" að láta eina syfjusögu fylgja hér.

Mamma mín vann í Tryggingastofnun Ríkisins og þannig voru hæg heimatökin fyrir mig, að fá sumarvinnu þar þegar ég fékk aldur til. Ég byrjaði að vinna þar 14 ára gömul og vann á svokallaðri sjúkratryggingadeild. Þegar þetta var, voru ennþá til sjúkrasamlög, svo mikill hluti af okkar vinnutíma, fór í það að reikna út útlagðan kostnað sjúkrasamlaganna í sambandi við hitt og þetta, og endurgreiða þeim. Við sáum líka um afgreiðslu á hjálpartækjum, (ekki kynlífshjálpartækjum þó Wink ), afgreiðslur og greiðslur fyrir glasafrjóvganir, greiðslur til sérfræðilækna fyrir ríkishluta þeirra fyrir sérfræðiaðstoð og margt fleira.

Ég man, að ég var stærstan hluta sumarsins að reikna út einhverjar greiðslur fyrir apótek, hin og þessi í hinum og þessum landshlutum. Þá var ekki til neitt tölvukerfi, svo við lögðum saman á gamaldags reiknivélum og heftuðum gamaldags strimla við hvern reikning sem við gáfum út. Við handskrifuðum líka allar kvittanir, en deildarstjóri okkar þurfti alltaf að fara yfir reikningsgerð okkar og samþykkja þær.

Vinna mín gekk vel lengst framan af, en svo eins og flestir unglingar, þá lenti ég í tímabili þar sem vinirnir og djammið skipti mestu máli. Maður var kannski ekki djammandi öll kvöld, en eyddi ófáum tímunum á "rúntinum", að vakta hús "tilvonandi kærasta", keyra á milli tilgangslausra staða, fara í bíó og stundum á Gaukinn (þótt við langt því frá hefðum aldur til!). Ég var gjörsamlega vansvefta dag eftir dag, og oft hélt ég varla höfðinu í vinnunni á daginn, vegna þreytu og syfju.

Ég upplifi svo sem þessa þreytu stundum líka núna í vinnunni, en það hjálpar mér mikið, að ég er stöðugt á ferðinni á fótunum í minni vinnu í dag, og styrkir mig í leiðinni í þeirri trú, að kyrrsetu-vinna myndi alls ekki henta mér....

Eitt skiptið var ég að reikna út reikninga fyrir Laugavegsapótek, og þetta var löngu áður en öll apótek hétu Lyfja eða Lyf og Heilsa - þarna voru til sjálfstæðir apótekarar, og maður var í reglulegu sambandi við apótekarann í hverju apóteki. Ég var sem sagt að reikna út endurgreiðslu fyrir Laugavegsapótek og var búin að sitja fyrir framan tölvuna og reiknivélina hálfan morguninn, með hálfopin augu af syfju og áhugaleysi. Ég var svo búin að tvíreikna út ákveðna niðurstöðu, sem átti sem sagt að vera sú upphæð sem þetta tiltekna apótek myndi fá frá Ríkinu, og það eina sem ég átti eftir, var að skrifa (handskrifa) kvittunina.

Ég var ansi syfjuð en ætlaði að skrifa þessa kvittun og svo rísa upp úr sætinu og fá mér ferskt loft, sem sagt, klára það sem ég var að gera..... samviskusemin að drepa mann.... eða þannig Cool

Svo ég skrifaði þessa tilteknu kvittun fyrir greiðslu og undirskrifaði, reis svo upp og gekk yfir að borði yfirmanns míns, sem eins og lög gerðu ráð fyrir, átti að fara yfir mína vinnu og samþykkja.

Korteri seinna kallaði yfirmaður minn mig til sín, og ég gekk til hennar allsendis róleg, enda var ég alltaf vön að skila mínu vel (þrátt fyrir mína syfju á stundum). Hún spurði mig svo, hvort ég væri búin að fara alveg yfir þessa reikninga, og já, ég taldi mig vera búna að því. En eitthvað hefur athyglisgáfuna og árverknina verið farið að vanta í lok starfsins við þennan tiltekna reikning, því hún lagði hann fyrir framan mig og sagði, að reikningurinn sjálfur væri óaðfinnanlegur, en það væri kvittunin sem hún hefði eitthvað smáræði út á að setja.

Í mínu grandaleysi og fullkomna öryggi um, að ég hefði unnið mína vinnu vel, greip ég kvittunina og sagði: "Og hvað er að kvittuninni?" Leit svo um leið á hana og las stílunina á kvittuninni, þar sem það stóð orðrétt:

                                  Laugavegsapótek

                                  180 metrar

                                  hallandi

 

(Í stað Laugavegsapótek, eitthvert götunafn og númer og svo átti póstnúmer og bæjarfélag að standa neðst.....) .....LoL

Skriftin var samt fullkomin, var aðeins farin að vera "laus" í neðstu línunni en að öðru leyti virkaði hún, eins og þetta væri skrifað í bestu (með)vitund. Ég hafði þó mjög greinilega sofnað OG verið dreymandi þegar ég skrifaði kvittunina!! Og dreymt eitthvað um halla, metra og vegalengdir (mjög ólíkt mér, sem er ekki mjög eðlisfræðilega eða tölulega þenkjandi að  eðlisfari.... Tounge)


Ég styð ykkur, mótmælabílstjórar!

Þið eruð bara frábærir, þið bílstjórar sem eruð að efna til þessarra mótmæla og tapa vinnustundum og pening á því í leiðinni, í okkar allra þágu!

Ég styð ykkur 100% og mér er alveg sama þótt ég tefjist eitthvað á mínum leiðum vegna aðgerða ykkar. Vildi bara að ég gæti verið með í þessarri flottu aðgerð.

Vonandi gerist eitthvað í hausunum á ríkisstjórnarmönnum í kjölfarið!!!


mbl.is Þingforseti tekur við mótmælum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband