EFTIR-fermingu-tíminn runninn upp.....

Jæja, langir og góðir páskar búnir og ég var í fríi næstum allan tímann - fyrir utan fermingu sem heppnaðist ótrúlega vel á skírdag Smile Allt small vel saman; kirkjuathöfnin, matur, gestir, húsrými..... og auðvitað gjafirnar (séð frá bæjardyrum sonarins). En mikið var ég fegin þegar þetta allt var búið.

Ég gerði mér grein fyrir því, að ég var búin að búa til mitt eigið tímatal, sem kallaðist fyrir og eftir fermingu. Sem sagt, margir hlutir sem ég ætlaði að takast á mínar hendur EFTIR fermingu, og margar bækurnar sem ég ætlaði að byrja að lesa EFTIR fermingu, vinirnir sem ég ætlaði að hitta EFTIR fermingu og matarboðin sem ég ætlaði að halda EFTIR fermingu. Og nú er EFTIR komið, en ég er ekki enn byrjuð að lesa, sortera myndir í framköllun, bora í veggi fyrir myndum né farin út að hlaupa Frown

Reyndar var fjölskylda mín svo vinaleg við mig, að þau stungu mig öll af yfir páskana. Gamla settið og bróðirinn fóru að hlusta á Eagles í London (bara öfundsjúk!!) og systir mín og hennar skæruliðar eru í sólarfríi á Madeira. En ég efndi þó eitt EFTIR-fermingarheit og bauð góðum vini og syni hans í mat til okkar á páskadag. Og ég verð bara að segja að það heppnaðist ansi vel..... þótt ég hafi uppgötvað á miðjum páskadegi, að borðstofuborðið mitt var reyndar ennþá í foreldrahúsum eftir fermingaveisluna og þar sem ég á ekki jeppa til að ferja borðið á milli húsa, þá var farið niður í geymslu, gamla eldhúsborðinu dröslað upp í íbúð og dekkað upp.... og það kom bara ágætlega út líka, þótt það hafi verið ansi þröngt um matinn á því Tounge

Við mæðginin fórum í bíó á föstudaginn langa og sáum loksins Brúðgumann. Ég á varla orð til að lýsa því hvað ég var hrifin af þessarri mynd. Umhverfið (Flatey á Breiðafirði) er náttúrlega bara æðislegt, leikurinn og flestir leikarar stórkostlegir, sagan góð og svo var hún bara helvíti fyndin líka..... og ég hló svo mikið yfir mörgum atriðum, að sonurinn var farinn að hálfskammast sín fyrir kellinguna, mömmu sína Blush

En svo rann páskahelgin sitt skeið á enda og alvara lífsins tók aftur við, og þá er maður ekki lengi að renna ofan í sama gamla farið. En ég mun bara dvelja stutt í farinu í þetta skiptið, því nú er farið að vora og ég er farin að skipuleggja sumarið og fríið - og þá verður maður líklegast líka að koma sér í smá form, svo ég hef trú á því að vetrardrunginn sé að sleppa af mér takinu Tounge..... I can feel it, loksins......


Kannski líknardráp??

Loksins er ég ekki að fara að sofa seint, heldur að vakna of snemma!!!! Who would think.....?? Reyndar ekkert gott við það að segja, nema það að ég náði fréttum gærdagsins núna, á stöð 2 í morgunsjónvarpinu, þ.e. endursýningu á fréttum gærdagsins.

Og svo sem ekkert fréttnæmt þar.... ekkert fram yfir þetta venjulega.... ef þú hefur ekki áhuga á forsetakosningum í USA, hentihjónaböndum ofl., þá er reyndar ekkert því til fyrirstæðu að fara að sofa aftur.

Nema, skrýtið..... ef maður á ekki að mæta í vinnu, þá er maður alveg til í að vakna á þessum tíma.... en ef ég ætti að fara að vinna eftir klukkutíma, þá myndi ég næstum gefa útlim fyrir lengri svefn.

Nema, bíddu við. frönsk kona lést eftir að hafa beðið um líknardráp!!!

Oh, well, það er of snemmt liðið á daginn til að ræða þetta - ég ætla að sofa á þessu máli, en á morgun þá ætla ég líklega að taka fyrir málið líknardráp.....

Kannski þá.....


Fyndin atvik á slysadeild.....

Okey, bara engan tíma haft til að blogga.... fermingarundirbúnigurinn á viðbúnaðarstigi 4, Mr. K. tók lengri tíma um helgina en reiknað var með og svo er mín búin að vera veik síðan á fimmtudag, samt án þess að missa dag úr vinnu- og/eða social lífi, bara á sýklalyfjum, nefspreyi og Panodili. Samt ennþá snörlandi og hóstandi með góðu bragði Errm Og svo bilaði músin, á glænýju flottu tölvunni minni ...... var bara alveg föst einhversstaðar á miðjum skjánum og ekkert hægt að hreyfa hana, svo það þurfti að grípa til aðgerða þar ofan í allar aðrar aðgerðir.

 Ætla ekkert að fara nánar út í neitt af ofangreindu, en ætla í staðinn að láta fljóta með nokkrar fyndnar athugasemdir sem féllu á "slysó" á síðustu dögum.....

1.) Eldri maður kemur inn í fylgd sonar síns. Maðurinn er með mjaðma"protesur" báðum megin, sem þýðir það, að hann hefur fengið gervimjaðmarlið settan í báðum megin. Snillingurinn ég, er að taka sjúkrasöguna hans, og segi við hann eins og ekkert sé sjálfsagðara: "Já, svo þú ert með GERVILIM báðum megin...... "

Veit ekki hvort gamli maðurinn heyrð þetta, en sonur hans gerði það allavega..... og sendi mér nokkuð skrýtið augnaráð..... Blush

2.) Deildarlæknir einn á slysó, með nokkurra ára starfsreynslu þar, var greinilega með hugann annars staðar, þegar hann sagði við einn sjúklinginn sinn: "Ég myndi vera svo GRAÐUR ef þú myndir snúa þér á hægri hliðina"...... LoL

3.) Og svo var það hæglátasta hjúkkan af okkur öllum, sem labbaði fram á biðstofu slysadeildarinnar til þess að kalla inn sjúkling, sem var af karlkyni og líka af eldra taginu. Hún rétti fram höndina til þess að heilsa honum, en hann sá það ekki, svo hún ætlaði að árétta það hátt og skýrt að hún vildi taka í SPAÐANN  á honum, en sagði til allrar óhamingju: "Ég ætlaði bara að fá að hrista SKAUFANN á þér!" LoLGrin

Já, Það er oft gaman í vinnunni og mikið hlegið að mörgu......

Þangað til seinna.....

 


Farið nú með skít og skömm og komið aldrei aftur, tíkurnar ykkar!!!

Auðvitað ætlar Anna Stefánsdóttir hjúkrunarforstjóri Landspítalans, bara að auglýsa eftir erlendum hjúkrunarfræðingum, verði staðan sú, að aðeins standi eftir um 20 hjúkrunarfræðingar á skurð-, svæfinga- og gjörgæslusviði LSH, eins og allt stefnir í núna.

Þetta er alltaf viðkvæðið hjá henni, mótmæli hjúkrunarfræðingar spítalans einhverju: "Fariði bara ef þið eruð óánægðar, ekki skulum við stjórnendur gera neitt til að koma til móts við ykkur eða gera eitthvað sem mætti draga úr óánægju ykkar. Farið þið bara, við fáum bara erlenda starfskrafta í staðinn!" Eftir allt sitt fórnfúsa starf á gólfum spítalans, endalausa yfirvinnu, manneklu sem býður "hinum" upp á að vinna á við tvo, endalausar símhringingar heim til fólks og truflanir, áreiti, óvilji til að gera vel við sitt fólk, sem þó heldur alltaf áfram að vinna sín störf vel og af samviskusemi, þá fær það ekki einu sinni vinalega kveðju þegar það hættir störfum á spítalanum, heldur bara blauta tusku í andlitið, fokkmerki og skilaboð um það, að það skipti spítalann hvort sem er engu máli hvort þú ert þarna í starfi eða ekki. Það má auðveldlega skipta þér út fyrir Pólverja.

Þetta er nú öll virðingin sem stjórnendur LSH bera fyrir starfsfólki sínu. Þá gildir einu þótt þarna sé um að ræða næstum því hundrað frábærlega hæfa hjúkrunarfræðinga, margir hverjir með áratuga reynslu á sínu sviði og enn fleiri með sérmenntun, diploma- og mastersnám í sínum fræðum. Þessa reynslu, þekkingu og hæfni telur Anna Stefánsdóttir ekki sem mannauð og skilur alls ekki að glatist þessi mannauður, glatar spítalinn miklu meira en þessum "stykkjum" af hjúkrunarfræðingum. Ég held reyndar að stjórnendur LSH viti ekkert hvað mannauður er eða yfirleitt hvað þetta orð þýðir. Þeir halda virkilega, að þeir geti flutt inn danska, sænska, pólska og filippínska hjúkrunarfræðinga og sett þá í stöður þessara hjúkrunarfræðinga, og allt muni halda áfram eins og áður. Mjög líklega mun brottfall af hæfu fólki í þessum stærðarflokki líka hafa áhrif á ánægju læknanna, sem starfa á sviðinu - og ætla stjórnendur spítalans líka bara að vinka þeim bless og jafnvel gefa þeim fokkmerkið á eftir, sem jafnan er attitudið þegar fólk yfirgefur spítalann?

Eða sjúklingarnir og aðstandendur þeirra? Gerir almenningur sér virkilega grein fyrir því hvað þessar uppsagnir þýða? Ég skal segja ykkur það. Ef þú þarft að fara í hjartaaðgerð, munt þú sem sagt ekki hafa hæft hjúkrunarfólk með reynslu til aðstoðar í aðgerðinni sjálfri. Það mun heldur ekki vera íslenskumælandi hjúkrunarfræðingur sem sér um lyfjagjafir þínar í svæfingunni, stjórnar öndunarvélinni á meðan þér er haldið lifandi með vél, skilur kannski ekki fyrirmæli svæfingarlæknisins nógu fljótt og/eða vel ef það þarf að bregðast hratt við í bráðum aðstæðum, sem vissulega geta komið upp á í aðgerðum. Á gjörgæsludeildinni, þar sem sjúklingar dvelja fyrst eftir hjartaaðgerðir, munt þú ekki hafa íslensku talandi hjúkrunarfræðing sem hjúkrar þér, veitir þér andlega og líkamlega umönnun, hefur þitt líf í sínum höndum, sér um að bregðast hratt og rétt við ef ástand þitt versnar eða þú allt í einu lendir nálægt því að vera við dauðans dyr (sem að sjálfsögðu gerist oft á dag á gjörgæsludeildunum!), og þessi hjúkrunarfræðingur mun heldur ekki geta gefið aðstandendum þínum fullnægjandi upplýsingar um þína stöðu og gang mála. Ofangreint dæmi miðast að sjálfsögðu við það, að frú Önnu TAKIST  að manna allar þessar stöður með útlendingum, ef henni tekst það ekki, já, þá erum við virkilega í vondum málum. Því án þessarra hjúkrunarfræðinga verða ekki framkvæmdar margar aðgerðir og það verður ekkert starfsfólk til að taka á móti þér á gjörgæslunni. Hvort sem þú þarft á gjörgæsluvist að halda eftir aðgerð eða önnur alvarleg veikindi, þá verður hún einfaldlega ekki í boði. Og eins manneklupíndar og hinar almennu legudeildir eru, þá er ekki líklegt að þú sem MJÖG veikur einstaklingur, sem þyrftir á gjörgæsluvist að halda, fengir viðeigandi hjúkrun og umönnun á hinum almennu deildum þessa frábæra sjúkrahúss.

Ég verð nú bara að segja, að ég skil ekki af hverju Anna Stefánsdóttir er ennþá í starfi á spítlanum. Hún er illa liðin af meirihluta hjúkrunarfræðinga LSH og er dæmi um fræðing, sem snýst gegn sinni stétt og gerir henni allt sem hún getur til miska, um leið og hún var komin með stól undir sinn afturenda. Ég skil heldur ekkert í því, að fyrst konan er þarna í starfi, af hverju hún er þá titluð hjúkrunarforstjóri, því ekki virðist hún bera hag hjúkrunar sjúklinga á spítalanum fyrir brjósti og svo sannarlega ber hún ekki hag hjúkrunarfræðinganna fyrir brjósti. Ég get alls ekki í mínum villtustu fantasíum ímyndað mér, fyrir hverra hagsmuni Anna Stefánsdóttir vinnur..... getið þið??


vantaði aðeins á síðustu færslu :-/

sá að hluti af síðustu færslu hafði dottið út....

Ætlaði bara að segja,að ekki einu sinni mér, sem finnst gaman að lifa hátt stundum, finnst sjálfsagt að gera eitthvað svona, sem greinilega er búið að prenta inn í höfuðið á óhörnuðum unglingum.

Hvað vilja þau þá þegar þau verða 17 og fá bílpróf, eða 18 og ná einhverjum öðrum áfanga, tvítug og fá stúdentspróf, og vá, eigum við bara eftir að hafa efni á því að þau gifti sig???

Spyr móðir, sem blöskrar stundum brjálæðið í samlöndum sínum....


Það er svo greinilega af, sem áður var - og það þykir mér miður....

Sonur minn er að fara á árshátíð grunnskóla síns annað kvöld. Miðinn kostar 4.000 kr. og inni í því er þriggja rétta máltíð og hálfur líter af gosi. "Hversdagslegur klæðnaður er óheimill", er skýrt tekið fram á árshátíðarmiðanum.

Bíddu nú við, ég hef ýmislegt við þetta að athuga. Hvað er hversdagslegur klæðnaður? Er bannað að mæta í gallabuxum (þeim sömu og maður notar stundum í skólanum) og í skyrtu? Hálf þjóðin fer út að skemmta sér í sömu gallabuxunum og hún notar hversdagslega, en puntar "outfittið" með fallegum bolum/skyrtum, skóm eða töskum osfrv...... Á ég að senda drenginn minn í fermingarklæðunum, sem a.m.k. áður fyrr þóttu nær heilög fyrr en á fermingardag, eða á ég ofan á fermingarkostnaðinn, að bæta við árshátíðardressi. Þetta er líklega mun minna mál fyrir strákana en stelpurnar og vorkenni ég bara foreldrum stúlkna í þessum árgangi.

Og hvað með foreldra sem eiga kannski eitt fermingarbarn, en svo tvö eða jafnvel þrjú börn, í "unglingadeildinni". Þau eru að halda stóra fermingarveislu með tilheyrandi kostnaði, en þá dettur inn þessi árshátið, sem kostar 4.000 kr. per haus - tveimur dögum fyrir fyrsta fermingardag, og það með þessum skilyrðum, að bannað sé að vera í sínum hversdagslegu fötum. Erum við ekki búin að ganga full langt í því að kenna börnunum okkar að snobba???

Árshátíð Seljaskóla er haldin í Gullhömrum í Grafarvogi, og svo þegar ég fór að spyrja drenginn minn út í það, hvernig "fólk" ætlaði að koma sér þangað, þá kom í ljós að hann var nú þegar búinn að fá far - í bíl afa eins vinar síns, sem lítur næstum því út eins og "limmó", en er "bara" lincoln.... En það kom í ljós, að sumir skólafélagarnir höfðu pantað sér limmó!!!

Ég segi nú bara um leið og ég sýp hveljur......  VÁÁÁ. Common, þetta er nú bara árshátíð fyrir 13-15 ára krakka!! Af hverju þurfa 13 ára krakkar, sem enn eiga langt í bílpróf, að "arrive" á árshátíðina í limmó?? Ég hef tvisvar sinnum keyrt í limmó, einu sinni í Bandaríkjunum í útskriftarferðinni minni, þar sem okkur fannst við vera að "treata" okkur geðveikt, og svo í annað sinn þegar við héldum upp á afmæli vinkonu minnar, og vildum koma henni á óvart. Og í bæði skiptin var þetta stórmál og okkur fannst þetta öllum frábært!! Þetta var ekki eitthvað sem við vorum vön eða eitthvað sem við litum á sjálfsagt, en nú eru 13 ára krakkaskrattar, að heimta að keyra á árshátíð í limmósínu.............. !!!

Og þau mega ekki vera í neinum af sínum venjulegu fötum, og eiga að borða þríréttað líka..... já, það er sko af það sem áður var, þegar árshátíð grunnskólanema var bara smá diskó á einhverjum af stöðum bæjarins.

Og ég get ekki látið vera að spyrja: Hverjir eru það, sem viðhalda háum lífsstandardi þjóðarinnar? Ekki taka börnin upp á þessu af sjálfu sér! Vita þau yfirhöfuð að maður getur pantað sér limmó, eða er ég bara ógeðslega "halló"? Ég vil bara biðja þá foreldra, sem eru svona æst í að koma sínum börnum inn í "þotuliðið", að bíða, og leyfa blessuðum krökkunum að velja sjálf hvað þau vilja. Þau eru bara 13 ára, og ég veit að tímarnir breytast og mennirnir með, en vá, ekki einu sinni mér, (sem þó þyk

 

 


Áreiðanleiki..........

Óneitanlega vekur það athygli, hve mikil þáttaka var í kosningunum, eða mest 25%!!! Segir þetta til um félagsvitund fólks og/eða málskilning?? Það vekur auðvitað athygli, að fyrirsögnin skuli vera jafn villandi og hún er... "yfirgnæfandi hluti kjósenda vilja þetta.... "  þegar það ætti að hljóma; "aðeins 25% tóku afstöðu þegar þetta var rætt, og xxx margir kusu jákvætt.... " ....eða á mannamáli, þetta mörg prósent kjósa þennan samning..... og svo kemur svolítið seinna, en það var reyndar aðeins 25% þátttaka!!!

Mjög áreiðanlegt.... !!!


Hverskonar samningar???

Okey, okkur langar til að vita, hvað þeir höfðu, hvað þeir fá nú og hvað þeir telja sig hafa grætt við þessa samninga......

Ef það er einhver sem vill vera svo vænn og svara því..... ég spyr bara af forvitni en ekki af því að ég er að gagnrýna..... ekki ennþá allavega!! Mér leikur í það minnsta forvitni á, hvað þið eruð að fá í laun, svo ég geti notað það sem viðmiðun í mínum yfirvofandi kjarasamningum!!!


mbl.is Kjarasamningarnir samþykktir með miklum meirihluta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Brostin áramótaheit....

Ég get nú alveg farið að viðurkenna þá staðreynd fyrir sjálfri mér, að áramótaheit síðustu áramóta eru ónýt.... fyrir löngu! Ég setti engin formleg heit, en lofaði sjálfri mér í hljóði ýmsum hlutum, flestallir áttu að bæta heilsu mína og vellíðan og stuðla að hollari lífsháttum. Enga þeirra hef ég þó ennþá tekið upp, ekki að ráði að minnsta kosti Blush og ef svo vill til, að ég lifi eftir þessum "nýju" lífsreglum í meira en tvo daga í röð, finnst mér ég hafa verið svo dugleg, að ég megi verðlauna sjálfa mig þriðja daginn.... sem sagt með því að brjóta heitin.

Ég ætlaði að fara að sofa fyrir miðnætti á virkum dögum, og allavega ef ég ætti morgunvakt daginn eftir. Ekki hefur þetta nú alveg gengið eftir..... ég hef reyndar stundum farið snemma að sofa, en þá snemma um morguninn, þegar ég hef verið að koma af næturvakt. Maður fer varla mikið fyrr að sofa en kl. 9 um morguninn!! Eitt skiptið bætti ég um betur og fór að sofa kl. hálf sjö um morguninn, en þá var ég reyndar að skríða heim af djamminu Shocking..... á víst ekki mikinn heiður skilinn fyrir það skiptið!

Ég ætlaði að drekka meira vatn, keypti þessa fínu vatnskönnu sem ég ætlaði dag hvern að fylla af góðu, íslensku kranavatni og bæta út í ýmist sítrónu eða engiferrót. Ojú, jú, víst hef ég gert það, þ.e.a.s. fyllt á könnuna, en yfirleitt skipti ég svo bara um vatnið þegar sítrónan/engiferið er farið að setjast á botninn í könnunni..... og lofa sjálfri mér svo enn og aftur í hljóði, að í þetta skiptið muni ég tæma könnuna í belginn á mér en ekki í eldhúsvaskinn. Mér finnst bara kók svo miklu, miklu betra..... og í alvöru, þá væri hagnaður Vífilfells minni ef stuðningur minn við fyrirtækið kæmi ekki til.

Ég ætlaði líka að vera duglegri að borða ávexti..... úff púff, ekki veit ég af hverju ávextirnir eru miklu girnilegri í ávaxtaborðum stórmarkaðanna heldur en í körfunni á eldhúsborðinu hjá mér. Mig langar bara aldrei í þá..... allavega ekki í dag, en kannski á morgun - en þá er ég yfirleitt búin að gleyma því. Ég tek það þó fram, að ég er ekki að fylla magann af sælgæti, kökum eða kexi í staðinn, því ég er ekki svo mikil sætabrauðskelling, en einhvernveginn langar mig alltaf mest í brauð með osti þegar mig langar í millibita. Verð nú samt að monta mig af því, að einstaka sinnum hef ég skorið melónur niður og sett vínber í skál og þá höfum við mæðginin stútað því yfir sjónvarpinu. Og ég hendi aldrei alltof þroskuðu og hálfónýtu ávöxtunum í ruslið..... fuglarnir elska þá og svo baka ég bananabrauð handa unglingnum úr brúnu bönununum (eða banönunum...?)

Ég ætlaði í göngutúr a.m.k. þrisvar í viku eða allavega þar til færi að viðra aftur fyrir golfið og línuskautana mína, en einhvernveginn er maður alltaf svo latur þegar maður kemur heim, eða áður en maður fer af stað..... eða bara alltaf. Ég réttlæti þennan lið þó með því, að ég hleyp og geng ansi mikið í vinnunni, og kannski er ekkert gott að hreyfa sig of mikið heldur .... Wink  ..... og er ekki bara gamla góða heimaleikfimin best (og allavega skemmtilegust)?? Tounge

Magaæfingar átti einnig að gera á hverju kvöldi fyrir svefninn, en þar sem ég er yfirleitt að fara svo seint í svefninn, er ekki hægt að ætlast til að maður fari að tefja sig á magaæfingum. Auk þess stend ég alloft upp úr sófanum á kvöldin.... úr liggjandi stellingu, sko!!! ..... og það hlýtur nú að telja eitthvað.....

Kannski er enn von, kannski ég byrji bara eftir fermingu unglingsins...... kannski er þetta bara allt spurning um hugarfars breytingu?!? Þetta bara hlýtur að koma með vorinu, svona um leið og sjónvarpsdagskráin fer að verða ömurleg, ég bara trúi ekki öðru..... ég allavega held í vonina Cool


Takk sól!

Ég gleymdi að þakka í dag....... Blush

Og í dag ætla ég að þakka fyrir sólina, sem kíkti á okkur og yljaði, að minnsta kosti mér, um hjartaræturnar og annars staðar Wink 

Stofugluggarnir líta ekki vel út, þegar sólin skín á þá óþvegna, og þar með varð sólin til þess að ég tók mig til og þvoði gluggana.

Takk sól Smile


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband