Lögreglu-fóbía...

Af einhverri óskiljanlegri ástæðu, er ég haldin löggufóbíu af verstu gerð. Ég fæ bara í magann þegar hún keyrir fyrir aftan mig, stoppar við hliðina á mér á ljósum eða er stopp á gatnamótunum gegnt mér. Ef ég sé löggu, er allt tékkað, öryggisbeltið, ljósin, taskan og piparúðinn (nei, djók). Sonur minn segir að ég sé klikkuð, því fyrir nokkrum árum ætlaði ég að taka bensín einhversstaðar en hætti við, vegna þess að það var löggubíll stopp fyrir framan bensínstöðina.... löggurnar þá væntanlega inni og það fannst mér næg ástæða til að keyra á næstu stöð. Ég keyrði inn á planið, sá löggubílinn og keyrði út af aftur, og þetta hefur sonur minn oft notað sem háð á mig, þegar hann ætlar að segja fyndnar sögur af mér í fjölskylduboðum.

Ekki það að ég hafi ástæðu til að hræðast lögregluna neitt sérstaklega, ég var kannski pínu villtur unglingur og lögreglan hafði einstaka sinni afskipti af okkur vinkonunum, en bara eins og þegar við keyrðum óvart NIÐUR Hverfisgötuna (þegar hún var ekki tvístefnugata eins og nú), fórum öfugan hring á hringtorginu við Háskólabíó og kannski 1-2 í einhverjum bæjarferðum. Vinkona mín átti pínulítinn Fiat Panda-bíl, og eitt sinn þegar við vorum fyrir utan Hlölla að fá okkur að borða, komu einhverjir strákar sem við þekktum, (gott ef einhver þeirra er ekki bara alþingismaður í dag og annar......), sem fannst það ógeðslega fyndið að raða sér í kringum bílinn, lyfta honum með okkur báðum inni í (með Hlöllann í kjaftinum), bera hann út á Aðalstræti og stilla honum þar í öfuga akstursátt. Svo rifu þeir bíllyklana úr svissinum, hlupu í felur og biðu þess sem myndi gerast. Og við gátum bara ekkert gert í málinu, þar sem við vorum ekki með bíllyklana lengur, alveg sama hvað umferðin á móti okkur flautaði og gaf okkur "fokk"-merki fyrir að stöðva Aðalstrætið algjörlega á "aðal-rúnttímanum", en eins og 17-18 ára stúlkna er von og vísa, gátum við ekkert annað en hlegið og flissað. Það er líklega óþarft að taka það fram, að lögreglunni fannst þetta ekki hið minnsta fyndið!!!

Hitt er svo annað mál, að ég hef oft séð lögregluna vera óþarflega hrottalega, (að mínu mati), og mín skoðun var lengi sú, að í lögregluna veldust að stórum hluta menn sem ekki nytu virðingar í samfélaginu, nema þegar þeir bæru þennan einkennisklæðnað, sem löggan ber. Það sama finnst mér um dyraverði, sem bara í krafti stöðu sinnar geta beitt ruddaskap, talað dónalega við fólk og sýnt vald sitt. "Hér ræð ég"-syndromið, fylgt eftir af uppþöndum brjóstkassa þoli ég bara ekki, alveg sama í hvaða stöðu fólk er sem þjáist af þessu syndromi.

Það skýtur því nokkuð skökku við, og varð mér töluvert áfall að uppgötva það, að á vinnustað mínum á Slysadeildinni, er lögreglan alltaf á vakt allar nætur og svo allan sólarhringinn um helgar. Ég get að sjálfsögðu ekki forðast kaffistofuna okkar, þar sem lögreglan heldur til mest af vaktinni..... ég þarf nú að borða, komast í kaffið og stundum sjá fréttirnar eða slaka á á nóttunni...... svo það var nokkuð ljóst að þessa hræðslu yrði ég að yfirvinna. Auk þess er lögreglan tíður gestur á Slysadeildinni, oft er hún að fylgja fólki eftir slagsmál, nauðganir, færa handtekna menn til aðhlynningar, kemur til að tala við fólk eftir ýmsa atburði osfrv. ofrv. Það má því segja, að lögreglan sé allt í einu orðinn svolítill samstarfsaðili minn núna..... Shocking Og ég verð nú að segja það, að flestir þessarra lögreglumanna eru nú bara fólk eins og við, ég skil ekki af hverju ég var að hræðast þá. Það er vel hægt að tala við þá íslenskt mannamál og sumir hafa jafnvel húmor, eins og við hin!!

Hins vegar tók ég ekki allt með í þetta dæmi. Sé fólk tekið og grunað um ölvunarakstur er það í flestum tilfellum læknavaktin, sem sér um að taka blóðprufur úr þessu fólki. Öðru máli gegnir, ef fólk hefur lent í árekstri, velt bílnum sínum eða eitthvað því um líkt og þarfnast skoðunar á Slysadeild. Þá kemur lögreglan með fólkið þangað, og við tökum blóðprufurnar úr fólki. Þessu lenti ég í um daginn, og kláraði með glæsibrag, þrátt fyrir að hafa 5 lögreglumenn standandi yfir mér - ég titraði ekki einu sinni hið minnsta Smile En svo þurftum við að fylla út eyðublað í þríriti og þá komst ég að því, að ÉG, persónulega, á að fá greiðslu frá Lögreglunni fyrir það að taka þessa blóðprufu. Og þetta er greiðsla sem nemur á annað tug þúsunda svo mann munar nú líklega alveg um hana.... ég þarf "bara" að mæta með mitt afrit af eyðublaðinu og skila inn á Lögreglustöðina á Hverfisgötunni. Og þar stendur nú hnífurinn í kúnni, eins og maður segir.

Það getur vel verið að ég hafi yfirunnið hræðslu mína við lögreglumennina sjálfa, sérstaklega þegar ég sé þá kasta þessum stóru beltum sínum, með kylfu, talstöðvum og fleiru áfast á sófann okkar á Slysó....... en bíddu, bíddu, ég var ekki alveg búin að samþykkja að þurfa að labba sjálfviljug inn á sjálfa lögreglustöðina!!!

Svo hér með auglýsi ég þennan seðil upp á greiðslu, til sölu!! LoL Þú þarft bara að borga mér andvirði hans, taka seðilinn og labba með hann inn í munn hákarlsins ógurlega...... en ég lofa, hann bítur ekki!

CryingLoLCool


Alltaf að muna að þakka..... ekki gleyma því.....

Og fyrst ég er í þakkargírnum, þá man ég eftir því, að ég lofaði um daginn að ég myndi hvern dag þakka fyrir eitthvað, sem manni finnst alla jafna alveg sjálfgefið. Svo nú byrja ég:

1). fimmtud. 6. mars: Ég er þakklát fyrir að eiga foreldra mína að - eins og ég nú alltaf er, þótt það heyrist sjaldan, en nú skal verða bót á því!!

2). miðvikud. 5. mars: Þá var ég þakklát fyrir að eiga tvo fætur að standa í, til að fóta sig í snjóleysunum þann daginn......

3). þriðjud. 4. mars: Var ég þakklát fyrir þann eiginleika minn að geta sofnað fljótt og sofið djúpt í stuttan tíma, þar sem ég átti tíma í klippingu og litun 4 tímum eftir að næturvaktinni minnni lauk Wink

4). .....þarna hefndist mér fyrir næstu þökkun á eftir, þar sem það var mikið að gera í gipsvinnunni aðfaranótt þriðjudags...... en ég get þó þakkað fyrir að það var ekki ég sem var að fá gips ........ Blush .... þakka hér með fyrir það....

5). mánud. 3. mars: Var ég þakklát fyrir það, að Íslendingar slepptu því að brjóta bein sín mikið...... svo ég þurfti ekki að setja allt of mörg gips á fólk þann dag.

6). sunnud. 2. mars: Var ég þakklát fyrir að vakna við hliðina á einhverjum, sem hélt utan um mig Wink

7). laugad. 1. mars: Var ég þakklát fyrir það, að eiga ennþá gjafakortið í Kringluna sem ég fékk í jólagjöf frá Inpro síðustu jól - það kom sér vel upp í stígvélin sem ég keypti mér þann daginn Cool

8). föstud. 29. feb: Var ég að vinna á blóðmeinadeildinni og var þakklát fyrir það að vera ekki með hvítblæði, mergfrumuæxli eða eitilfrumukrabbamein.... og þurfa ekki að ganga í gegnum þessar meðferðir sem það fólk þarf að gera..... úff, úff......

9). fimmtud. 28. feb: Var ég bara sofandi og glöð yfir því að vera allavega bara sofandi en ekki dauð.......

..............Er ég ekki alveg að komast að þeim tíma, þar sem ég lofaði að þakka á hverjum degi fyrir eitthvað.....?

Til vonar og vara......

10). miðvikud. 27. feb: Þarna kom mamma í kaffi, og þá var ég bara glöð, að ég átti kaffi til að bjóða henni upp á LoL - og glöð yfir því að eiga "gamla" konu fyrir vinkonu, sem nennir að kíkja í kaffi til mín!! Tounge

Góða nótt!


Það er gott að eiga góða foreldra !!!

Seinni partinn í dag fór ég og keypti inn fyrir fermingarskreytingar. Drengurinn vill hafa blátt og lime-grænt, svo í þeim stíl var verslað...... kerti, dúkaborðar, gerviblóm, lögð inn pöntun fyrir ferskum blómum, keyptir bakkar undir kerti, oasis-kubbar og margt fleira.

Ég get nú alveg komist í smá "ecstasy", þegar ég kemst í svona innkaupaleiðangra - mig langar í allt, og allt sem glitrar og glóir nær athygli minni..... Ég veit vel að sonurinn fílar ekkert silfrað með glitri en mig langar bara svo mikið að kaupa allt þetta dót Cool Ég ætti kannski að taka að mér að skreyta annarra manna veislur, því ég hef ótal þemu í gangi í höfðinu, get séð fyrir mér hvíta brúðkaupið, bleiku ferminguna, hráu ferminguna, ferminguna í steinastílnum og margt fleira. Það liggur við að mig langi til að ferma oftar en einu sinni núna.....

Móðir mín var með, mér til halds og trausts. Veislan fer fram á heimili foreldra minna, svo ég hélt að hún hefði betri yfirsýn yfir, hvað vantaði og hvernig borðskrauti skyldi háttað - líka var hún góð í að bremsa mig af í mínum loftköstulum. Já, þegar ég kemst á flug, þá flýg ég!!! Smile

En þegar við komum að afgreiðsluborðinu í Garðheimum, kom næstum til slagsmála milli okkar mæðgna. Hún ÆTLAÐI að borga, þau pabbi voru búin að ákveða að styrkja okkur á ýmsan hátt í fermingunni og þetta var einn af þeim hlutum sem hún ætlaði bara að gera!!! Mér fannst það dauðpínlegt..... þetta var ekki það sem ég hafði í huga, þegar ég bað hana að vera með mér að velja borðskreytingar. Og þarna var ég búin að vandra um Garðheima eins og fín frú, tínandi hitt og þetta ofan í körfuna - kannski myndi ég nota þetta, kannski ekki.... en allavega betra að hafa þetta líka með, og já, þetta líka.... osfrv. Hinir og þessir smáhlutir fengu að fjúka með í körfuna, svona fyrst ég var að þessu á annað borð Pinch Það er sko alveg öruggt að ég hefði verslað nákvæmlega eins hefði ég verið alein og borgandi, en aðeins (mikið) öðruvísi, hefði mig grunað að mamma ætlaði að taka upp kortið í lok verslunartúrsins.

Mig langaði að skila helmingnum af því sem ég hafði valið, þegar mamma heimtaði að fá að borga. Ég hefði þá kannski getað tekið aðeins ódýrari kerti, ekki þetta skrautdót, ég þurfti örugglega ekkert þessa efnisborða..... ég hefði bara valið allt öðru vísi ef ég hefði vitað það. Úff, hvað mér fannst þetta óþægilegt.

En á sama tíma hugsaði ég, vá, hvað ég er heppin að eiga svona frábæra foreldra, sem alltaf eru til staðar fyrir mig og son minn, eru alltaf viljug til að passa þegar ég er að vinna, eru til í að leggja hús undir fermingarveislu unglingsins, færa til húsgögn og hjálpa til með matargerð, eyða dögunum fyrir ferminguna í pælingar með mér og tilfæringar heima hjá sér og á allan hátt bjóða fram aðstoð sína - algjörlega óumbeðin og af fúsasta vilja. Þetta hlýtur að vera skilyrðislaus ást - og hún er það þá líklega á báða bóga InLove


Mannfýlur sem nágrannar.....

Ég á nágranna, sem ég ætla ekki að nafngreina, en á mínu heimili gengur hann undir nafninu "Mannfýlan". Þessi maður virðist ekki eiga sér annað líf, en að sitja um nágranna sína og gera þeim allt það sem hann getur til miska.

Hann gerir sér ferðir niður um marga stiga, bara til þess að færa hjól barnanna í blokkinni, frá "ólöglegum" stöðum og niður í hjólakjallara. Það er auðvitað hann sem ákveður hvaða staðir eru "löglegir" og hvaða staðir eru "ólöglegir".

Ef einhver gerir sér stutta ferð út fyrir aðaldyrnar og viljandi skilur þær eftir opnar (væntanlega vegna þess að þeir eiga afturkvæmt með einhvern farm stuttu síðar), þá er Mannfýlan búin að spotta þetta brot á sambýlislögunum, hleypur niður stigana, bara til þess að skella hurðinni í lás og svo upp aftur - og hann er AF léttasta skeiðinu, skal ég segja ykkur.

Sérstaka óbeit hefur hann á mér, einstæðu móðurinni, sem allajafna er annaðhvort að vinna um helgar, ekki heima eða heima í rólegheitum með syni mínum. Á þeim tveimur árum, sem ég hef búið í þessum stigagangi hef ég tvisvar sinnum haldið gleðskap sem stóð lengur en til kl. eitt eftir miðnætti og hann hringdi í bæði skiptin á lögregluna..... Crying 

Eitt sinn kom vinur minn einn að sækja mig, við ætluðum að fara út og fá okkur smá snarl. Veðrið var mjög leiðinlegt, svo vinur minn fór úr skónum fyrir utan dyrnar hjá mér, en þegar við ætluðum að fara 10 mínútum seinna, voru skórnir horfnir. Ég bankaði upp á hjá næstu nágrönnum mínum, hélt kannski að einhverjir krakkar hefðu verið að gera grín og fela skóna, en þeir bentu allir á Mannfýluna - könnuðust flestir við að hann hefði gert eitthvað svipað gegn þeim. Ég fann skóna niðri í hjólakjallara!! Þá hafði Mannfýlan greinilega verið á heimleið, gengið fram hjá mínum dyr og blöskrað svo að sjá þessa karlmannsskó þar fyrir utan, svo hann gerði sér ferð með skóna niður um 28 tröppur og svo aftur upp um þessar 28 plús 14 í viðbót - bara til að ergja mig, og sanna fyrir umheiminum hversu ömurleg manneskja hann væri, og hversu lítið annað hann hefði að gera í þessu lífi. Þegar ég bankaði upp á hjá honum, vopnuð skónum, fannst honum ekkert athugavert við það að hafa tekið skó, sem tilheyrðu honum ekki hið minnsta og grýtt þeim niður í kjallara. "Það eiga ekki að vera skór í stigaganginum!!!" ..... það skal tekið fram að það er hægt að telja það á fingrum annarrar handar, hversu oft eitthvað hefur staðið fyrir framan dyrnar mínar annað en ég og fólk sem á erindi til mín.

Einu sinni grýtti hann húsreglunum í höfuðið á syni mínum, af því að honum varð það á að opna dyrnar þegar Mannfýlunni datt í hug að banka upp á hjá mér - vegna þess að ég sló einn nagla fastann kl. 22:30, nagla sem var í gluggakarminum og hélt uppi stórum hluta af jólaseríunni. Ég meina, common, sé svoleiðis alltaf að gerast getur maður fríkað, en getur maður séð í gegnum fingur sér þegar hlutir gerast í eitt stakt skipti???

En það tók nú út yfir allan þjófabálk, þegar ég sá kallinn vera að sparka til fæðinu sem ég hafði sett út fyrir fuglana. Jú, vegna þess að það var of nálægt húsinu að hans mati - (það eru örugglega til einhverjar reglur sem kveða til um fjölda metra frá byggingum, sem leyfilegt er að gefa fuglunum að borða - greinilega stjórnar Mannfýlan því a.m.k. í okkar blokk)!! Þetta fór greinilega svo í skapið á kallinum, að hann gerði sér enn og aftur ferð, lyfti sínum rúmlega 70 ára rassi upp og hljóp niður tröppurnar, til þess að eyðileggja hádegismatinn fyrir smáfuglunum (!), hljóp upp aftur og settist í spæjarastólinn sinn..... kominn á nágrannavaktina aftur.

Ég segi nú bara: Fáðu þér líf, Mannfýlan þín!!! Og láttu okkur hin í friði. (Eða, fáðu þér einn á you know what, ef það gæti létt lundina eitthvað pínulítið).....


Danir eru auðvitað vænsta fólk......

Það ætti auðvitað að koma fram, að ég þekki líka fullt af Dönum, sem eru hið vænsta fólk...... þetta er bara svona, ef þú tekur meðaltalið, og við það stend ég fullkomlega, þ.e. það sem ég sagði í fyrri færslu...Cool

Danskir tækifærissinnar......

Úff og je minn eini, hvað á maður nú að gera á sunnudagskvöldum..... núna þegar "danski þátturinn" er búinn og hættur?? Þessi þáttur, sem er búinn að vera órjúfanlegur hluti af lífi mínu í næstum því hálft ár....  Við mæðginin erum búin að vera svo "hooked" á þessum þætti, að við skipuleggjum heilu kvöldin og jafnvel helgarnar í kringum þennan eina þátt.  Ég skal meira að segja viðurkenna það, að ég hef skipt vöktum til þess að missa ekki af þættinum á sunnudagskvöldum. Það er ekkert varið í það að sjá þá í endursýningu, það er eins og fyrir Liverpool aðdáendur að sjá leik sinna manna í endursýningu.....

Annars fannst mér endalokin full máttlaus miðað við allt..... ég veit ekki, en mér fannst ekki nógu mikið krútt í því, að hafa fengið að vita hver morðinginn var í þættinum á undan. Innst inni vonaði maður, að það væri ekki hann og hélt jafnvel að einhver annar grunaður ætti eftir að birtast óvænt í síðasta þættinum - það hefði verið í samræmi við undanfarann.

Hins vegar verð ég að segja, að miðað við kynni mín af mörgum Dönum, þá kemur það mér ekki á óvart, að flagð leynist undir fögru skyni.... eða þannig. Í Danmörku getur þú haldið þig eiga vini, sem ekki reynast vinir "alligevel", því Danir eru þeir mestu tækifærissinnar sem ég hef á ævi minni kynnst. Þeir eru nískir og eru alltaf að hugsa um að spara peninginn sinn, og notfæra sér allt sem þeir mögulega geta á kostnað annarra..... alltaf að reyna að fá "free ride" annaðhvort hjá ríkinu eða vinum sínum, reyna að komast sem best, auðveldast og ódýrast út úr öllum aðstæðum.... þeir eru hreinlega aldir upp við það að reyna að komast sem ódýrast út úr öllu. Það gera "janteloven". Þetta gerir þá jafnframt yfirmáta falska, svo kannski leynist einn svona "morðingi" hér og þar í dönskum fjölskyldum - ef þið skiljið hvað ég meina. Sumir myndu að minnst kosti ekki víla fyrir sér að svíkja heilu fjölskyldurnar, þótt það væri ekki á svona dramatískan hátt, en ennþá halda andlitinu og góða frontinum í eina áttina og svo djöfullega andlitinum í hina.

En þetta er kannski bara mín reynsla af nokkuð mörgum Dönum....... ???


Frat bananamauk.....

Hrukkurnar fóru nákvæmlega ekkert!!! Þær færðust bara til Crying 

More comments later......

Er hálfþunn, svo ég ætla í bælið aftur Sleeping


Svo mikið?

Af hverju kemur það hreint ekkert á óvart???
mbl.is Aðeins 9% treysta borgarstjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Með graftarkýli í andlitinu.... ???

Annað kvöld ætlum við Mr. K. út að borða og út á lífið - örugglega finnum við líka upp á einhverju skemmtilegu. Af því tilefni, og vegna þess að nú fer að líða að árshátíðum og fermingu, ákvað ég að taka andlitið á mér sérstaklega í gegn áður en ég færi að sofa - gera eitthvað aðeins meira en þennan venjulega andllitsþvott sem flestar konur framkvæma á hverju kvöldi.

Einhverntímann las ég í einhverju kvennablaði (sem lýgur nú örugglega ekki!), að besta hrukkumeðferðin væri bananamauk. Svo þegar ég kom heim úr vinnunni um miðnætti, tók ég mátulega ofþroskaðan banana og stappaði hann vel og vandlega í skál. Mér fannst þetta nú eitthvað aðeins of auðvelt til að eiga að vinna á hrukkum, ég meina ef þetta er málið, af hverju eru þá konur yfirhöfuð með hrukkur???

Svo ég greip til minna ráða og ákvað að hella smá hunangi saman við - á það ekki að vera svo gott fyrir húðina? Ég tók eðal lífrænt Acaciu BLOSSOM Honey og bætti út í maukið - svona til að fá æskuljómann í kinnarnar í kaupbæti Tounge En líklega þyrfti nú að undirbúa húðina eitthvað aðeins fyrir þessa meðferð, ekki þýðir að smyrja svona fínerí yfir lag af dauðum húðfrumum, svo ég ákvað að scrubba andlitið svolítið fyrst. Ég scrubbaði húðina með haframjölsmaska, (sem ég reyndar á í krukku svo ég þurfti ekkert að malla neitt með það), lét það svo liggja framan í mér í 10 mínútur samkvæmt leiðbeiningum á krukkunni. Skolaði af og þerraði andlitið og gat þá hafist handa að berja á hrukkunum með bananamaukinu góða.

Það reyndist ekki eins auðvelt og ég hélt að smyrja maukinu framan í mig, það lak yfir allt baðborðið og niður á stuttermabolinn minn og svo þurfti ég að horfa upp í loftið í margar mínútur til að leyfa því að byrja að smástorkna - svona til að ég gæti haldið "andlitinu" Wink Þegar ég leit í spegilinn blasti við mér þessi ægilega sjón. Ég var eins og hinn svakalegasti unglingsstrákur á versta stigi, leit út eins og ég væri með 40 stórar, gular graftarbólur í andlitinu og eina stóra klessu á nefinu að auki!! En, beauty is pain og með það hugfast gekk ég fram og settist niður með Moggann fyrir framan mig. Þetta skyldi tolla framan í mér í a.m.k. korter áður en ég gæfist upp.

Ég heyrði köttinn nálgast eldhúsið og þegar hann var kominn inn, leit ég upp og ætlaði að heilsa honum vinsamlega. En aumingjans kötturinn snarstoppaði á eldhúsgólfinu, rak upp þetta ægilegasta vein (mjálm) þegar hann sá mig, snarsnerist svo við og spólaði á gólfinu áður en hann skaust eins og píla undir sófann í stofunni. Ég gekk fram á bað aftur og leit í spegilinn, og ef það er hægt, þá leit ég enn verr út en áður, þar sem bananaklessurnar höfðu runnið í taumum niður andlitið LoL Ég leit út eins og ég væri að rotna. Jæja, ég varð víst að játa mig sigraða af þessarri meðferð og þvo mér í framan áður en kötturinn yrði stjarfur af hræðslu við húsmóðurina.

Það verður sko spennandi að líta í spegilinn á morgun..... þótt ég hafi ekki alveg náð korteri með töframaskann framan í mér, þá hlýtur þetta að gera eitthvert gagn! Ætli ég verði bara þekkjanleg, þar sem ég sit á móti borðherra mínum á morgun Wink

Nú sit ég hér með Sleepy time te-ið mitt, jurtate með kamillu og piparmyntu..... mikið heilsusamlegra getur það nú varla orðið á föstudagskvöldi...... nema, er ekki svefninn besta fegrunarráðið??

Best að skunda sér í bælið......  

Bæó Sleeping


Ferming, stjúpfjölskyldur og þakklæti......

Úff, nú er mér létt, öll helstu meginatriði í sambandi við fermingu unglingsins eru komin á hreint. Í kvöld komu barnsfaðir minn, konan hans og dætur þeirra í mat til okkar og við ræddum gestafjölda, matseðil, ákváðum pöntun á kransa- og marsipanköku, fundum mynd af ungviðinu á boðskort og ræddum hve margar kaffikönnur þyrfti til að hella upp á kaffi ofan í fjöldann. Sem sagt, öll helstu atriði komin í vinnslu. Smile

Ég er þakklát barnsföður mínum fyrir að vera svona drífandi og hafa frumkvæðið að flestu því sem snertir fermingu sonar okkar. Ég, sleðinn, kem aldrei neinu í verk, geri bara tossalista og minnislista og skil eftir alls staðar og stressa mig svo yfir því að eiga allt eftir, muna ekki hvar tossalistarnir eru og hafa allt í óvissu og óreiðu. Hann hefur virkilega gefið mér spark í rassinn, (ekki í bókstaflegri merkingu!), en hann hefur vissulega ýtt við mér og neytt mig til þess að taka ákvarðanir og að minnsta kosti sett mig í hugsunargírinn í þessu máli Undecided

Þegar þau voru farin fór ég að hugsa um, hversu mikil gæfa það er að eiga gott samband við "hina" fjölskylduna. Ég þekki svo ótalmörg dæmi um einstæðar mæður og/eða "helgarpabba", þar sem foreldrarnir nánast hatast út í hvort annað, nýja makann og nýju börnin á báða bóga. Allt sem viðkemur nýju fjölskyldunni er sem eitur í æðum hins aðilans. Öll samskipti litast svo af þessum óvinskap og það er enginn sveigjanleiki í þeirra samskiptum - jafnvel reyna þau að gera hvort öðru á móti skapi með ákvörðunum sínum sem snerta sameiginleg börn. Greiðar mót hvort öðru eru ekki inni í myndinni, að bæta við nótt eða draga frá nótt á pabbahelgum er ekki í umræðunni, fjölskylduboð á "óheppilegum" tímum fjarstæða og jólin geta verið hið mesta kvíðaefni fyrir fólk í þessum aðstæðum, að ég tali þá ekki um börn þessarra einstaklinga.

Vissulega höfum ég og barnsfaðir minn átt okkar ágreiningsefni og rifist, en ég er þakklát fyrir það, að stærsta hlutann af ævi sonar okkar, höfum við átt góð samskipti og getað talað saman. Konan hans er yndisleg og okkur semur líka vel, og það er ekki minna mikilvægt. Og eins þykir mér skipta máli að þekkja hálf- og uppeldissystkini sonar míns. Mér þykir mjög vænt um það, þegar systkini hans heilsa mér og kveðja mig með kossi og faðmlagi - það er mjög dýrmætt í mínum augum InLove

Í minni vinnu upplifi ég stöðugt sjúkdóma, dauðsföll, slys og erfiðar aðstæður fólks, og ég er alltaf að minna sjálfa mig á það að manni ber að þakka fyrir góða heilsu, góða fjölskyldu, heilbrigt barn, þakið yfir höfuðið og margt annað sem maður tekur sem sjálfsögðum hlut. En einhvernveginn man maður aldrei eftir því og er áður en maður veit af, farinn að kvarta yfir; brotinni nögl, matnum, að fá ekki tíma í klippingu þegar manni hentar, nágrannanum eða einhverju sem í raunveruleikanum skiptir nákvæmlega engu máli.

Í kvöld, þegar "hin" fjölskylda sonar míns fór, þá varð ég þakklát fyrir að eiga þau að og fyrir okkar vináttu og samskipti, án þess að þurfa að minna sjálfa mig á að vera þakklát. Þessi tilfinning kom alveg að sjálfu sér. Og þetta ætla ég núna að gera að mission - á hverjum degi ætla ég að muna að vera þakklát fyrir eitthvað sem ég að öllu jöfnu tek sem sjálfsögðum hlut. Hætta að horfa á það neikvæða í lífinu og veita þessu jákvæða meiri athygli.

.......það þýðir ekki að ég muni hætta að nöldra stundum.... en bara stundum..... Wink

Nóg í bili...........


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband