Lögreglu-fóbía...

Af einhverri óskiljanlegri ástæðu, er ég haldin löggufóbíu af verstu gerð. Ég fæ bara í magann þegar hún keyrir fyrir aftan mig, stoppar við hliðina á mér á ljósum eða er stopp á gatnamótunum gegnt mér. Ef ég sé löggu, er allt tékkað, öryggisbeltið, ljósin, taskan og piparúðinn (nei, djók). Sonur minn segir að ég sé klikkuð, því fyrir nokkrum árum ætlaði ég að taka bensín einhversstaðar en hætti við, vegna þess að það var löggubíll stopp fyrir framan bensínstöðina.... löggurnar þá væntanlega inni og það fannst mér næg ástæða til að keyra á næstu stöð. Ég keyrði inn á planið, sá löggubílinn og keyrði út af aftur, og þetta hefur sonur minn oft notað sem háð á mig, þegar hann ætlar að segja fyndnar sögur af mér í fjölskylduboðum.

Ekki það að ég hafi ástæðu til að hræðast lögregluna neitt sérstaklega, ég var kannski pínu villtur unglingur og lögreglan hafði einstaka sinni afskipti af okkur vinkonunum, en bara eins og þegar við keyrðum óvart NIÐUR Hverfisgötuna (þegar hún var ekki tvístefnugata eins og nú), fórum öfugan hring á hringtorginu við Háskólabíó og kannski 1-2 í einhverjum bæjarferðum. Vinkona mín átti pínulítinn Fiat Panda-bíl, og eitt sinn þegar við vorum fyrir utan Hlölla að fá okkur að borða, komu einhverjir strákar sem við þekktum, (gott ef einhver þeirra er ekki bara alþingismaður í dag og annar......), sem fannst það ógeðslega fyndið að raða sér í kringum bílinn, lyfta honum með okkur báðum inni í (með Hlöllann í kjaftinum), bera hann út á Aðalstræti og stilla honum þar í öfuga akstursátt. Svo rifu þeir bíllyklana úr svissinum, hlupu í felur og biðu þess sem myndi gerast. Og við gátum bara ekkert gert í málinu, þar sem við vorum ekki með bíllyklana lengur, alveg sama hvað umferðin á móti okkur flautaði og gaf okkur "fokk"-merki fyrir að stöðva Aðalstrætið algjörlega á "aðal-rúnttímanum", en eins og 17-18 ára stúlkna er von og vísa, gátum við ekkert annað en hlegið og flissað. Það er líklega óþarft að taka það fram, að lögreglunni fannst þetta ekki hið minnsta fyndið!!!

Hitt er svo annað mál, að ég hef oft séð lögregluna vera óþarflega hrottalega, (að mínu mati), og mín skoðun var lengi sú, að í lögregluna veldust að stórum hluta menn sem ekki nytu virðingar í samfélaginu, nema þegar þeir bæru þennan einkennisklæðnað, sem löggan ber. Það sama finnst mér um dyraverði, sem bara í krafti stöðu sinnar geta beitt ruddaskap, talað dónalega við fólk og sýnt vald sitt. "Hér ræð ég"-syndromið, fylgt eftir af uppþöndum brjóstkassa þoli ég bara ekki, alveg sama í hvaða stöðu fólk er sem þjáist af þessu syndromi.

Það skýtur því nokkuð skökku við, og varð mér töluvert áfall að uppgötva það, að á vinnustað mínum á Slysadeildinni, er lögreglan alltaf á vakt allar nætur og svo allan sólarhringinn um helgar. Ég get að sjálfsögðu ekki forðast kaffistofuna okkar, þar sem lögreglan heldur til mest af vaktinni..... ég þarf nú að borða, komast í kaffið og stundum sjá fréttirnar eða slaka á á nóttunni...... svo það var nokkuð ljóst að þessa hræðslu yrði ég að yfirvinna. Auk þess er lögreglan tíður gestur á Slysadeildinni, oft er hún að fylgja fólki eftir slagsmál, nauðganir, færa handtekna menn til aðhlynningar, kemur til að tala við fólk eftir ýmsa atburði osfrv. ofrv. Það má því segja, að lögreglan sé allt í einu orðinn svolítill samstarfsaðili minn núna..... Shocking Og ég verð nú að segja það, að flestir þessarra lögreglumanna eru nú bara fólk eins og við, ég skil ekki af hverju ég var að hræðast þá. Það er vel hægt að tala við þá íslenskt mannamál og sumir hafa jafnvel húmor, eins og við hin!!

Hins vegar tók ég ekki allt með í þetta dæmi. Sé fólk tekið og grunað um ölvunarakstur er það í flestum tilfellum læknavaktin, sem sér um að taka blóðprufur úr þessu fólki. Öðru máli gegnir, ef fólk hefur lent í árekstri, velt bílnum sínum eða eitthvað því um líkt og þarfnast skoðunar á Slysadeild. Þá kemur lögreglan með fólkið þangað, og við tökum blóðprufurnar úr fólki. Þessu lenti ég í um daginn, og kláraði með glæsibrag, þrátt fyrir að hafa 5 lögreglumenn standandi yfir mér - ég titraði ekki einu sinni hið minnsta Smile En svo þurftum við að fylla út eyðublað í þríriti og þá komst ég að því, að ÉG, persónulega, á að fá greiðslu frá Lögreglunni fyrir það að taka þessa blóðprufu. Og þetta er greiðsla sem nemur á annað tug þúsunda svo mann munar nú líklega alveg um hana.... ég þarf "bara" að mæta með mitt afrit af eyðublaðinu og skila inn á Lögreglustöðina á Hverfisgötunni. Og þar stendur nú hnífurinn í kúnni, eins og maður segir.

Það getur vel verið að ég hafi yfirunnið hræðslu mína við lögreglumennina sjálfa, sérstaklega þegar ég sé þá kasta þessum stóru beltum sínum, með kylfu, talstöðvum og fleiru áfast á sófann okkar á Slysó....... en bíddu, bíddu, ég var ekki alveg búin að samþykkja að þurfa að labba sjálfviljug inn á sjálfa lögreglustöðina!!!

Svo hér með auglýsi ég þennan seðil upp á greiðslu, til sölu!! LoL Þú þarft bara að borga mér andvirði hans, taka seðilinn og labba með hann inn í munn hákarlsins ógurlega...... en ég lofa, hann bítur ekki!

CryingLoLCool


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Hólmdís Hjartardóttir, 8.3.2008 kl. 23:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband