Með graftarkýli í andlitinu.... ???

Annað kvöld ætlum við Mr. K. út að borða og út á lífið - örugglega finnum við líka upp á einhverju skemmtilegu. Af því tilefni, og vegna þess að nú fer að líða að árshátíðum og fermingu, ákvað ég að taka andlitið á mér sérstaklega í gegn áður en ég færi að sofa - gera eitthvað aðeins meira en þennan venjulega andllitsþvott sem flestar konur framkvæma á hverju kvöldi.

Einhverntímann las ég í einhverju kvennablaði (sem lýgur nú örugglega ekki!), að besta hrukkumeðferðin væri bananamauk. Svo þegar ég kom heim úr vinnunni um miðnætti, tók ég mátulega ofþroskaðan banana og stappaði hann vel og vandlega í skál. Mér fannst þetta nú eitthvað aðeins of auðvelt til að eiga að vinna á hrukkum, ég meina ef þetta er málið, af hverju eru þá konur yfirhöfuð með hrukkur???

Svo ég greip til minna ráða og ákvað að hella smá hunangi saman við - á það ekki að vera svo gott fyrir húðina? Ég tók eðal lífrænt Acaciu BLOSSOM Honey og bætti út í maukið - svona til að fá æskuljómann í kinnarnar í kaupbæti Tounge En líklega þyrfti nú að undirbúa húðina eitthvað aðeins fyrir þessa meðferð, ekki þýðir að smyrja svona fínerí yfir lag af dauðum húðfrumum, svo ég ákvað að scrubba andlitið svolítið fyrst. Ég scrubbaði húðina með haframjölsmaska, (sem ég reyndar á í krukku svo ég þurfti ekkert að malla neitt með það), lét það svo liggja framan í mér í 10 mínútur samkvæmt leiðbeiningum á krukkunni. Skolaði af og þerraði andlitið og gat þá hafist handa að berja á hrukkunum með bananamaukinu góða.

Það reyndist ekki eins auðvelt og ég hélt að smyrja maukinu framan í mig, það lak yfir allt baðborðið og niður á stuttermabolinn minn og svo þurfti ég að horfa upp í loftið í margar mínútur til að leyfa því að byrja að smástorkna - svona til að ég gæti haldið "andlitinu" Wink Þegar ég leit í spegilinn blasti við mér þessi ægilega sjón. Ég var eins og hinn svakalegasti unglingsstrákur á versta stigi, leit út eins og ég væri með 40 stórar, gular graftarbólur í andlitinu og eina stóra klessu á nefinu að auki!! En, beauty is pain og með það hugfast gekk ég fram og settist niður með Moggann fyrir framan mig. Þetta skyldi tolla framan í mér í a.m.k. korter áður en ég gæfist upp.

Ég heyrði köttinn nálgast eldhúsið og þegar hann var kominn inn, leit ég upp og ætlaði að heilsa honum vinsamlega. En aumingjans kötturinn snarstoppaði á eldhúsgólfinu, rak upp þetta ægilegasta vein (mjálm) þegar hann sá mig, snarsnerist svo við og spólaði á gólfinu áður en hann skaust eins og píla undir sófann í stofunni. Ég gekk fram á bað aftur og leit í spegilinn, og ef það er hægt, þá leit ég enn verr út en áður, þar sem bananaklessurnar höfðu runnið í taumum niður andlitið LoL Ég leit út eins og ég væri að rotna. Jæja, ég varð víst að játa mig sigraða af þessarri meðferð og þvo mér í framan áður en kötturinn yrði stjarfur af hræðslu við húsmóðurina.

Það verður sko spennandi að líta í spegilinn á morgun..... þótt ég hafi ekki alveg náð korteri með töframaskann framan í mér, þá hlýtur þetta að gera eitthvert gagn! Ætli ég verði bara þekkjanleg, þar sem ég sit á móti borðherra mínum á morgun Wink

Nú sit ég hér með Sleepy time te-ið mitt, jurtate með kamillu og piparmyntu..... mikið heilsusamlegra getur það nú varla orðið á föstudagskvöldi...... nema, er ekki svefninn besta fegrunarráðið??

Best að skunda sér í bælið......  

Bæó Sleeping


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Hólmdís Hjartardóttir, 1.3.2008 kl. 02:49

2 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Þú ert svo fyndin, ég hló svo mikið við að lesa þetta.  Ég ætla að prófa agúrkumaska á morgun, áður en ég fer á árshátíðina.  Ég vona að það feli baugana og hrukkurnar, fyrir kvöldið. Góða skemmtun á morgun/í kvöld

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 1.3.2008 kl. 02:51

3 Smámynd: Sigrún Óskars

Þetta var bara fyndið og aumingja kötturinn! Þú verður svo að segja okkur hvernig árangurinn varð, hvert fóru hrukkurnar?

góða skemmtun.

Sigrún Óskars, 1.3.2008 kl. 16:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband