Brostin áramótaheit....

Ég get nú alveg farið að viðurkenna þá staðreynd fyrir sjálfri mér, að áramótaheit síðustu áramóta eru ónýt.... fyrir löngu! Ég setti engin formleg heit, en lofaði sjálfri mér í hljóði ýmsum hlutum, flestallir áttu að bæta heilsu mína og vellíðan og stuðla að hollari lífsháttum. Enga þeirra hef ég þó ennþá tekið upp, ekki að ráði að minnsta kosti Blush og ef svo vill til, að ég lifi eftir þessum "nýju" lífsreglum í meira en tvo daga í röð, finnst mér ég hafa verið svo dugleg, að ég megi verðlauna sjálfa mig þriðja daginn.... sem sagt með því að brjóta heitin.

Ég ætlaði að fara að sofa fyrir miðnætti á virkum dögum, og allavega ef ég ætti morgunvakt daginn eftir. Ekki hefur þetta nú alveg gengið eftir..... ég hef reyndar stundum farið snemma að sofa, en þá snemma um morguninn, þegar ég hef verið að koma af næturvakt. Maður fer varla mikið fyrr að sofa en kl. 9 um morguninn!! Eitt skiptið bætti ég um betur og fór að sofa kl. hálf sjö um morguninn, en þá var ég reyndar að skríða heim af djamminu Shocking..... á víst ekki mikinn heiður skilinn fyrir það skiptið!

Ég ætlaði að drekka meira vatn, keypti þessa fínu vatnskönnu sem ég ætlaði dag hvern að fylla af góðu, íslensku kranavatni og bæta út í ýmist sítrónu eða engiferrót. Ojú, jú, víst hef ég gert það, þ.e.a.s. fyllt á könnuna, en yfirleitt skipti ég svo bara um vatnið þegar sítrónan/engiferið er farið að setjast á botninn í könnunni..... og lofa sjálfri mér svo enn og aftur í hljóði, að í þetta skiptið muni ég tæma könnuna í belginn á mér en ekki í eldhúsvaskinn. Mér finnst bara kók svo miklu, miklu betra..... og í alvöru, þá væri hagnaður Vífilfells minni ef stuðningur minn við fyrirtækið kæmi ekki til.

Ég ætlaði líka að vera duglegri að borða ávexti..... úff púff, ekki veit ég af hverju ávextirnir eru miklu girnilegri í ávaxtaborðum stórmarkaðanna heldur en í körfunni á eldhúsborðinu hjá mér. Mig langar bara aldrei í þá..... allavega ekki í dag, en kannski á morgun - en þá er ég yfirleitt búin að gleyma því. Ég tek það þó fram, að ég er ekki að fylla magann af sælgæti, kökum eða kexi í staðinn, því ég er ekki svo mikil sætabrauðskelling, en einhvernveginn langar mig alltaf mest í brauð með osti þegar mig langar í millibita. Verð nú samt að monta mig af því, að einstaka sinnum hef ég skorið melónur niður og sett vínber í skál og þá höfum við mæðginin stútað því yfir sjónvarpinu. Og ég hendi aldrei alltof þroskuðu og hálfónýtu ávöxtunum í ruslið..... fuglarnir elska þá og svo baka ég bananabrauð handa unglingnum úr brúnu bönununum (eða banönunum...?)

Ég ætlaði í göngutúr a.m.k. þrisvar í viku eða allavega þar til færi að viðra aftur fyrir golfið og línuskautana mína, en einhvernveginn er maður alltaf svo latur þegar maður kemur heim, eða áður en maður fer af stað..... eða bara alltaf. Ég réttlæti þennan lið þó með því, að ég hleyp og geng ansi mikið í vinnunni, og kannski er ekkert gott að hreyfa sig of mikið heldur .... Wink  ..... og er ekki bara gamla góða heimaleikfimin best (og allavega skemmtilegust)?? Tounge

Magaæfingar átti einnig að gera á hverju kvöldi fyrir svefninn, en þar sem ég er yfirleitt að fara svo seint í svefninn, er ekki hægt að ætlast til að maður fari að tefja sig á magaæfingum. Auk þess stend ég alloft upp úr sófanum á kvöldin.... úr liggjandi stellingu, sko!!! ..... og það hlýtur nú að telja eitthvað.....

Kannski er enn von, kannski ég byrji bara eftir fermingu unglingsins...... kannski er þetta bara allt spurning um hugarfars breytingu?!? Þetta bara hlýtur að koma með vorinu, svona um leið og sjónvarpsdagskráin fer að verða ömurleg, ég bara trúi ekki öðru..... ég allavega held í vonina Cool


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Þú ert óborganleg. Ég þekki ýmislegt í þessari færslu.....

Hólmdís Hjartardóttir, 10.3.2008 kl. 02:48

2 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Hehe ég hugsa svipað og þú, á morgun ætla ég að byrja að trimma og fara í sund og labba Neshringinn með hundinn, en letin er að drepa mig ( þreytan) Bestu kveðjur Jóna Kolla

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 10.3.2008 kl. 03:14

3 Smámynd: Sigrún Óskars

Ég er löngu hætt að ákveða eitthvað í þessum dúr - stend ekki við það, þótt manni langi rosalega. Kannast við margt í færslunni, en samt er ég dugleg að fara út að labba á kvöldin, enda á ég allann útbúnað fyrir allskonar veður. Verð brjáluð í skapinu ef ég fer ekki út og það er ekki á nokkurn mann leggjandi. En það er enn tími til að taka upp áramótaheitin, ætlarðu ekki bara að byrja á þessu fyrir næstu áramót eða hvað?

Sigrún Óskars, 10.3.2008 kl. 18:17

4 Smámynd: Lilja G. Bolladóttir

Jón Arnar, I´m sorry to break your heart, en ..... ég fylgdist ekki með laugardagslögunum......  , ég er ekki Eurovision-fan í hæsta gæðaflokki.....

Lilja G. Bolladóttir, 11.3.2008 kl. 01:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband