Bloggfærslur mánaðarins, maí 2008

Að sjálfsögðu minnkar það, hafa þessir blessuðu borgarfulltrúar gert eitthvað sem verðskuldar aukið fylgi??

Eins og ég var mikið búin að hlakka til þess, og fagnaði því, þegar Sjálfstæðismenn loksins unnu borgina aftur, þá hafa þeir hreinlega klúðrað öllu sem þeir hafa komist með fingurna í.

Yfirstrumpurinn, Villi, með litlu strumpana í eftirdragi, sem engum er ljóst hvort þeir vilji vera eða ekki vera í þessum aðstæðum. Villi hefur teymt þá í öngstræti aftur og aftur, ítrekað komið pínlega fram opinberlega, getur ekki gefið skýringar sem halda á því klúðri sem hann kemur okkur öllum í, lýgur þegar hann getur ekki annað og lýgur svo aftur þegar hann er konfronteraður með eigin lygi. Stillir svo aumingja Ólafi upp sem skildi, þegar hann í dauðatygjunum gat myndað nýjan meirihluta, svo Ólafur geti fengið allt skítkastið sem eiginlega er ætlað Vilhjálmi.

Og hvað er búið að vinnast í borgarmálum á meðan allt þetta brambrölt hefur átt sér stað??? Eitthvað? Erum við ekki bara að borga borgarfulltrúum laun fyrir að vera í innanbúðar stríði? Hvar eru ókeypis fargjöldin fyrir ungmennin okkar í strætó, sem lofað var fyrir löngu? Hvar er nýtt hjúkrunarheimili? Hreinar götur? Fleiri hjólastígar? Lítið sem ekkert hefur verið gert, aðeins tuggið á sömu tuggunum um Vatnsmýrina og Sundabraut. En aldrei neitt ákveðið. Af hverju skyldi það taka þetta fólk, á launum borguðum af okkur, svona langan tíma að ákveða eitthvað. Ef ákvarðanatakan gengi svona hægt fyrir sig á mínum vinnustað, (slysadeild LSH), þá gerðist víst afar fátt af viti og lítil hreyfing væri á kerfinu. Hvað með að þessi borgarstjórn fari að vinna pínulítið meira effektivt??

Hvað með að tala minna og gera meira??? 

Ég hef aldrei verið Samfylkingarmanneskja, en svei mér, ef ég vil ekki bara fá Dag B. Eggertsson aftur í stólinn. Sjálfstæðisflokkurinn er búinn að klúðra sínum vinningi, Villi hefur líklega verið látinn bíða of lengi eftir völdum og vissi svo ekkert hvað hann ætti að gera við þau, loksins þegar þau féllu honum í skaut.

Ég er ekki hissa að traust til flokksins mælist svona lítið.


mbl.is Fylgi Sjálfstæðisflokks minnkar mikið í Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Björgum bönkunum!! Björgum bönkunum!!

Já, ég skil vel að ríkisstjórnin þurfi að leggja allt kapp við að bjarga bönkunum, enda eru þeir virkilega á flæðiskeri staddir!!! Bankarnir eru búnir að græða á okkur, almenningi, á tám og fingrum síðustu árin í formi okurvaxta, FIT-kostnaðar, seðilgjalda, yfirdráttarvaxta, gjalda fyrir að renna debetkortinu í gegn og allskonar svínaríi. Aldrei leyfa þeir viðskiptavinum sínum að njóta hluta hagnaðarins með þeim, ekki nema fáum útvöldum viðskiptavinum. Viðskiptavinum sem eiga innistæður, en blæða ekki tveimur krónum fyrir hverja eina sem þeir fá, viðskiptavinum sem aldrei þarf að senda ítrekunarbréf sem bankarnir rukka svo feitt fyrir. Viðskiptavinum sem ekki borga gífurlega dráttarvexti og vanskilavexti. Sem sagt, viðskipavinum sem vel hafa efni á að borga fyrir sig sjálfir og meira til.

Bankarnir eru alveg færir um að bjarga sér sjálfir. Samt þarf Stóri Bróðir að skunda inn með verndandi hendi á lofti. En skunda þeir inn og bjarga þeim heimilum sem eru virkilega illa stödd? Koma þeir til hjálpar einstæðum foreldrum sem eru að reyna að mennta sig? Eða einstæðum foreldrum yfir höfuð? Hjálpa þeir öryrkjum? Gera vel við gamla fólkið okkar, sem lagði grunninn að flestu því sem við búum við í dag? Gera þeir það sem í þeirra valdi stendur, til að lækka matvælaverð, vexti og bensínverð? Gera þeir það sem í þeirra valdi stendur til að tryggja börnum okkar góða leikskóla eða góða menntun í stofnunum með fagmenntuðu fólki á sæmandi launum? Tryggja þeir öryggi þeirra sjúku í samfélaginu með því að flæma heilbrigðisstarfsfólk frá starfi í stórum stíl vegna lélegra launa og mikils álags?   

Nei, ríkisstjórnin gerir allt sem hún getur til að halda niðri launum umönnunarstéttanna, kennarastéttarinnar og leikskólakennaranna. Hún grípur ekki til aðgerða gegn háu bensínverði, heldur uppi verndartollum, innflutningsgjöldum og öðrum ljótum gjöldum svo við getum verslað sem dýrast í matinn, er hlægilega aðgerðarlaus þótt fjölmargar fjölskyldur standi frammi fyrir því, að brátt dugi húsnæði þeirra ekki einu sinni upp í húsnæðislánið og svona mætti lengi telja. Hún reynir að klípa sem mest af því sem við fáum, alveg sama þótt hún sé stundum að margskattleggja sömu krónuna.

En bjarga bönkunum, það er alger nauðsyn í okkar þjóðfélagi í dag. Skyldu það vera bankarnir sem halda uppi þessum stjórnmálaflokkum??? Tja, ég spyr líklega heimskulega.....

Það er okkur flestum allavega, löngu ljóst að þjóðfélagið okkar í dag snýst meira um peninga en fólkið sem myndar þjóðfélagið og ríkisstjórnin er greinilega hlynnt því.


mbl.is 42 milljarðar í hagnað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Are we now wearing pyjamas night and day??....

Hvað er málið?? Þið foreldrar unglinsstúlkna, viljið þið segja mér það?

Ítrekað hef ég rekist á tvær, þrjár eða fleiri unglingsstúlkur saman, íklæddar buxum með hangandi hnjám í, bleikröndóttum, bleikköflóttum, rjómalituðum með bleikum hjörtum, Hello Kitty-bangsar þrykktir á sumar eða bara gamli góði, brúni teddy bear á aðrar. Ég undra mig alltaf jafn mikið á klæðnaði þessarra stúlkna og stend mig að því að stara í laumi.

Eru þetta náttbuxur?? Í mínum augum líta þessar buxur út eins og náttbuxur Crying Eða er þetta tískan í dag hjá stelpunum? Og ég er greinilega ekki að skilja hana.....

Að ofan virðast þær fullkomlega eðlilega klæddar, í hettupeysum, magabolum eða öðru, og jafnvel skótauið virðist eðlilegt.... týpískir Converse-skór, Van's skór eða ballerínuskór. Annað er líklega ekki IN. Enda svipar hverjum til annars, allavega svona séð úr fjarlægð með 35 ára gömlum augum..... Woundering

En.... er þetta virkilega tískuklæðnaður eða er þetta bara hentugt á unglingsárunum, að geta "hent" sér út á náttfötunum og sparað þannig örlítinn tíma?

Mér finnst þetta ótrúlega ljótur klæðnaður, en oh my God, ef þetta er í TÍSKU, þá endilega innleiðið þetta í fullorðinstískuna líka. Myndi spara mér töluverðan tíma á morgnana, ef ég gæti bara skrattast af stað í vinnuna í náttbuxunum. Maður þyrfti í raun aldrei að skipta..... náttbuxur á nóttunni, náttbuxur á daginn, náttbuxur á meðan maður eldar og samt væri maður alltaf IN og í tískunni Cool  


Ground control: Autopilot með tíðum skoðanaskiptum hér með settur á.....

Hvað getur maður, sem stjórnmálamaður, eiginlega skipt oft um skoðun á sama málefninu? Og það á ekki bara við um Ólaf, heldur fleiri í borgarstjórn. Þeir virðast alltaf vera sammála um það að vera á móti hinum þegar þeir lenda í andstæðum fylkingum, á móti því að vera sammála þegar eitthvað gott rekur á fjörurnar, án þess þó eiginlega að taka afstöðu til málefnanna. Og svo kyngja þeir öllum fyrri skoðunum þegar þeir "óvart" lenda í "ekki-andstöðunni".....

Erum við virkilega að borga þessu fólki laun fyrir að vera í sandkassaleik? Hvenær ætlar þetta fólk að fara að vinna?

Er ég ein um að hafa þessa skoðun? Eða, í daga allavega, það getur jú verið að hún hafi breyst á morgun.....


mbl.is Borgarstjóri gagnrýnir vinningstillöguna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af hverju er mannkynið svona ófullkomið?

Einn ágætur maður, setti inn komment við færslu hjá mér um daginn. Fyrir forvitnis sakir kíkti ég á bloggið hans rétt áðan og rakst þar á pistil þar sem hann fjallar um annan pistil, nefninlega hjá Jóni nokkrum Vali, þar sem hinn síðarnefndi fjallar um fóstureyðingar.

Ekki ætla ég að tjá mig um réttmæti fóstureyðinga hér og nú, til þess er málefnið allt of viðkvæmt og siðferðislegt, augljóslega margar hliðar á því og ýmsar ástæður fyrir því að konur kjósi að láta eyða fóstri..... en ég hreinlega nenni ekki út í þá umræðu akkúrat núna. Ég hef mína skoðun á málinu, en kýs að láta hana óupplýsta að svo stöddu. Því ég ætla aðeins að staldra stutt við í bloggheimum núna...... í bili allavega Wink

Það sem mig langar hins vegar að fjalla um, er síða sem ég komst inn á, eftir að hafa fyrst lesið pistil Sævarans og í framhaldi af því færslu Jóns Vals og svo kommentin hans. Þessi síða sýnir þroska fósturs yfir nokkurra vikna skeið og er nokkuð merkileg. Ég er lærður hjúkrunarfræðingur og hef lært fósturfræði, en aldrei hef ég séð slíkar myndir, sem þessi síða birtir. Reyndar set ég ákveðinn fyrirvara, þar sem efst á síðunni eru tilbeðnar einhverjar guðlegar verur, og ég hef ákveðna fordóma gagnvart slíku. Kannski eru þessar myndir af fósturþroskanum teiknaðar, þeir segja ekki en hver veit, en ég veit allavega, að þeim svipar mikið til þess sem ég hélt mig vita. Þótt aldrei hafi ég séð neitt jafn raunverulegt og þessar myndir sýna.... Og mér fannst það í rauninni svolítið merkilegt, það sem ég sá.

Það sem innlitið á þessa síðu fékk mig hins vegar mest til að hugsa um, var það, hve hratt við í rauninni þróumst úr tveimur litlum frumum, sem ekki einu sinni augað getur greint, og yfir í fullskapaða mannveru. Þetta er í raun og veru bara kraftaverk. Og hreint út sagt ótrúlegt. Að þróast úr einni lítilli púpu yfir í fullkomlega skapað meistaraverk á níu mánuðum, það má teljast ótrúlega ör þróun.

Og ef tvær frumur geta framleitt svona ótrúlega litlar, fullkomnar og fallegar verur, sem vaxa, dafna, þroskast og taka á sig mynd innan kvenlíkamans á níu mánuðum, hvernig getur þá verið að við sem heilt mannkyn stritum við sömu hlutina áratugum saman án árangurs? Með hugsandi heila, starfandi hendur og vilja til að gera allt? Hvernig getur það verið, að búið sé að berjast gegn umskurði í mörgum ríkjum, í áratugi án árangurs? Af hverju erum við enn að heyja stríð? Af hverju eru kvenréttindi ekki meiri en raun ber vitni í fjölmörgum löndum? Af hverju eru enn fordómar gegn blökkumönnum? Gegn samkynhneigðum? Af hverju erum við svona lengi að tileinka okkur nýjar hugsanir, þegar við erum svona ótrúlega fullkomin í okkar fósturþróun???

Er það kannski svo, að við erum fullkomnust sem óhugsandi lífverur, í líknarbelg móður okkar, vernduð gegn umhverfinu, nærð á ást, umhyggju og tilhlökkun? Skemmumst við um leið og við fæðumst? Eða er það umhverfið sem eyðileggur okkur? Uppeldið? Samfélagið? Heyja önnur dýr sömu baráttu áratugi eftir áratugi án árangurs eða leysa þau málin með því að bíta á barka hvors annars og éta, eða er þeirra líf alltaf það sama áratug eftir áratug?

Vissulega höfum við náð árangri á mörgum sviðum, en það virðist vera sem okkar framgangur sé helst á tæknilega sviðinu. Því ekki þróumst við mikið vitrænt. Og greinilega ekki líkamlega heldur í takt við annað, miðað við hve illa okkur gengur að frjóvga okkur án tækninnar, hve margar konur eru óánægðar með brjóstastærð sína, við rökum af okkur líkamshár sem við teljum ekki að eigi að vera þar sem þau eru og við sjúkdómavæðum öll frávik við hið eðlilega. Við flokkum okkur í kassa og bása, eltumst við hluti og stöður, erum á góðri leið með að útrýma drykkjarvatni, köllum yfir okkur breytt veðurfar og náttúruhamfarir með umhverfissvínaríi okkar og högum okkur á allan hátt heimskulega, bæði gagnvart okkur sjálfum og umhverfinu. Við höfum allar forsendur og góðan grunn, til þess að vera hinar fullkomnu verur, en af hverju erum við þá svona heimsk??

Ég verð að viðurkenna, að hvort sem þessar myndir eru falsaðar eða ekki, þá vakti það mig virkilega til umhugsunar um alls kyns heimspekileg mál.

Og ég er enn að hugsa.... Woundering


Oh, þetta mánaðarlega.....

Ég er búin að vera með einhverja ónotatilfinningu í maganum í allan dag, ekki magaverkur, heldur kvíðahnútur sem var búinn að hreiðra svona vel um sig og virtist ekkert vera á förum.

Þetta byrjaði eiginlega strax í morgun. Systursonur minn, 10 ára, var í gistingu hjá okkur og ég heyrði í strákunum í unglingsherberginu þegar ég vaknaði. Þeir í PlayStation að sjálfsögðu. Ég ákvað að blunda aðeins lengur og tókst það, á sama hátt og öðrum foreldrum tekst það á frídögum..... þ.e. með því að rumska öðru hvoru þegar kallað er: "Megum við fá Coco Puffs?" Maður vaknar eiginlega ekki en samt nóg til að kalla: "Já, elskurnar, fáið ykkur það sem þið viljið." Og hrot, sofnar strax aftur. Stuttu seinna: "Mamma, er ekki til meiri klósettpappír?" Maður hrekkur pínu upp og kallar: "Jú, hann er í skápnum undir vaskinum." Og dettur inn í sama drauminn aftur.

Svona gekk þetta fyrir sig í tvær klukkustundir, þar til ég fann að nú var vökuástandið komið til að vera. Ég var vöknuð, en nennti samt ekki á fætur. Svo ég kúrði aðeins og hugsaði um það, sem ég ætlaði að gera í dag. Engar kröfugöngur á dagskrá á mínu heimili, en ég ætlaði mér aðeins að taka til hendinni á heimilinu, taka baðherbergið í gegn, þvo gluggana, jafnvel bora fyrir nokkrum myndum í veggina. Ekkert óviðráðanlegt eða kvíðvænlegt sem sagt, en samt fann ég hnútinn byrja að myndast djúpt í kviðarholinu. Ég tók sjálfa mig á sálfræðinni og sagði mér að slaka á, það væri ekkert merkilegt að bíða mín. En samt sem áður fann ég hnútinn vaxa. Og þungur hjartsláttur fylgdi með í kaupunum. Úff, sneri mér á hina hliðina, en hnúturinn fylgdi með. Sneri sænginni við en hnúturinn varð eftir undir sænginni. Byrjaði að nudda tánum smá saman, róandi aðferð sem ég nota á sjálfa mig þegar ég er að hugsa. En allt kom fyrir ekki, hnúturinn var kominn til að vera og hans vegna var ómögulegt að dvelja áfram í bælinu.

Reif mig á fætur, sótti Moggann, hitaði kaffi og fékk mér ristað brauð, þessi fjárans hnútur skyldi þá víkja fyrir einhverju garnainnihaldi. En hann lagðist bara í stuttan dvala. Um leið og ég var búin að renna í gegnum Moggann blossaði hann upp aftur. "Hvað er í gangi", hugsaði ég. "Er ég að gleyma einhverju?" Kíkti í dagbókina mína, en engin vakt stóð til á þessum degi, svo ekki var það málið. Og ég gat ómögulega munað til þess, að ég hefði lofað mér eitthvert heldur í dag.

Ekki kom ég eins miklu í verk og ég hafði hugsað mér, en það er allt í lagi. Ég lifi vonandi fleiri daga, og ef ekki, þá hefði líka verið súrt að eyða síðasta ævideginum í gluggaþvotta. Þetta var líka bara lauslegt plan sem ég hafði sett mér, engin pressa. Bara ef ég nennti..... sem ég gerði auðvitað ekki.

Ég lá í sófanum yfir fréttunum, Friends á Stöð2, danska Trúðnum á RÚV, Law and Order, en aldrei losnaði ég við ónotatilfinninguna. Og aldrei hætti ég að nudda tánum. Hnúturinn var þungur og ég fann líka að hjartað sló óvenju þungt og hratt, svo ég hugsaði með mér, að ég nennti ekki að standa í þessu lengur. Ætlaði bara að drífa mig í rúmið. Gekk fram til að gera alla þessa venjulegu húsmæðurhluti, áður en maður getur slökkt ljósin og farið að sofa, en rak þá af tilviljun augun í lítinn stafla af umslögum. Búmm, já, það var málið! Það var 1. í mánuði og ég þurfti að fara inn á heimabankann og greiða reikninga. Damn, þetta er það eina mánaðarlega, sem ég kvíði fyrir.

Reyndar er ég í greiðsluþjónustu í bankanum mínum, og ég verð bara að viðurkenna að ég öðlaðist nýtt líf eftir að ég byrjaði í þeirri þjónustu. En þó eru nokkrir reikningar sem ekki eru greiddir af bankanum og alltaf eitthvað sem þarf að gera upp. Það sem vekur þó mesta kvíðann, er að sjá hvað ég hef fengið útborgað. Það er bæði kostur og galli, þó ívið meiri kostur, að ég fæ aldrei sömu upphæð útborgaða. Til þess vinn ég of flókna vinnu. Aldrei jafn mikið af kvöldvöktum milli mánaða, stundum mikið af næturvöktum og stundum ekki, stundum er ég dugleg að taka aukavaktir og stundum er ég löt til þess, stundum eru hátíðsdagar í mánuðinum á undan sem borga meira en allir hinir dagarnir, en allt þetta gerir, að maður hefur eiginlega ekki hugmynd um, á hverju maður á von um mánaðarmótin. Ég horfði á fjárans tölvuna og hugsaði "Onei, ekki núna...." Ég fann að kvíðahnúturinn djammaði í maganum á mér. "Æ, ég meika þetta ekki," hugsaði ég og fann mér allt mögulegt að gera áður en ég hengslaðist að tölvunni með umslagastaflann í annarri hendi. Ég dró þetta eins og ég gat, þar til ég hreinlega varð að koma mér að verki. Dró öryggislykilinn upp og skráði mig inn á heimabankann.....

.....Og eruð þið ekki að grínast? Sjaldan er maður ánægður, þegar launaseðillinn er skoðaður, (minn kemur sko rafrænt), en í kvöld varð ég bara nokkuð ánægð. Ég var reyndar búin að vera nokkuð dugleg að taka aukavaktir síðasta mánuðinn, but it's hard to keep track.... Ég borgaði og borgaði, eins og vitlaus manneskja, ýmislegt smálegt líka sem ég hafði dregið að greiða og millifærði hingað og þangað. Ég borgaði allt sem ég þurfti, átti enn eftir nóg fyrir greiðsluþjónustuna og átti samt svolítinn afgang!

Ja, það er ekki oft sem þetta gerist, en þegar það gerist er það bara gaman. Ég ýtti á "greiða" í síðasta skiptið og svo á "útskrá", dró djúpt andann og viti menn...... enginn kvíðahnútur eftir í maganum. Tounge

Svo nú get ég farið að sofa, fullkomlega róleg og þarf ekki að liggja og nudda meira saman tánum.

Góða nótt!! Sleeping


Haha, ég hlæ nú bara að ykkur, stjórnendum LSH!

Þessi fyrirsláttur stjórnenda LSH og heilbrigðisráðherra um vinnutilskipan Evrópusambandsins er náttúrlega bara út í hött. Það vita allir starfsmenn LSH og hlæja að þessarri vitleysu saman, og í sundur, þegar þeir sjá þessa vitleysu endurtekið í fréttum.

Fyrir það fyrsta, erum við ekki í Evrópusambandinu eins og okkur öllum má vera ljóst..... og fyrir það annað, þá vinnur örugglega 80% starfsfólks LSH á undanþágu frá þessarri vinnutilskipan nú þegar. (Það er greinilega þannig, að ef stjórnvöld geta ekki ákveðið hvort þau vilji vera í ESB eða ekki, þá mega þau velja og hafna hvaða reglum þeirra þau ákveða að hlíta, eða hvað.... höfum við ekkert að segja um þessi mál???)  

Það er EKKI rétt að vaktafyrirkomulagi hafi verið breytt á spítalanum síðustu ár á mörgum deildum, það ER LYGI. Og ótrúlegt að enginn skuli hafa mótmælt þessarri lygi fyrr. Nefnið okkur, heilbrigðisstarfsfólki, dæmi um deild, þar sem vaktafyrirkomulagi hefur verið breytt síðustu ár og nefnið okkur þá deild sem staðið hefur við það!! Nefnið okkur deildina nákvæmlega, eða deildarnar, svo ekkert fari á milli mála, og þá KANNSKI trúum við ykkur. En EKKI koma fram í fjölmiðlum og ljúga að bæði okkur og þjóðinni!!! Við erum langþreytt á bæði því og ykkur. 

Stjórnendur spítalans hafa í mörg ár lifað vegna þögn "þegna" sinna, öðru nafni starfsfólks, enginn mótmælir opinberlega og enginn segir neitt. Hvers vegna?? Hvers vegna gerum við aldrei neitt? Jú, vegna þess að okkur er stöðugt still upp við þann vegg, að skyldum við grípa til aðgerða eða mótmæla af einhverju tagi, þá bitnar það á þeim sem það alls ekki á að bitna á, sem sagt sjúklingunum. Okkar mótmæli ná aldrei upp á borð þeirra sem eitthvað hafa um það að segja, vegna þess að VIÐ HEILBRIGÐISSTARFSFÓLK ERUM EINMITT ALLTAF AÐ SETJA SJÚKLINGANA FRAMAR ÖLLU. En hvenær er komið nóg? Og hvenær megum við eiginlega segja stopp í nafni okkar og okkar réttinda? Hve lengi eigum við að láta valta yfir okkur af öllum?

Ég hef unnið á Landspítalanum þegar hann var háskólasjúkrahús og líka þegar hann var það ekki, og ég hef unnið þar bæði sem starfsmaður spítalans og sem starfsmaður einkarekins fyrirtækis, og samtals í þónokkur ár, ég hef unnið á 15 deildum spítalans og ég get fullyrt, að EKKI hefur verið breytt vaktafyrirkomulagi og EKKI er verið að fara eftir þessarri vinnutilskipan á þeim deildum sem ég hef unnið á. Alls staðar er lögmálið bara það, að "REDDA DEGINUM" eða redda helginni, (sama hvað hver starfsmaður kemur til með að vinna langar vaktir, hvort hann nær hvíld á milli vakta eða hversu langri hvíld skiptir stjórnendur ekki máli, og það er STAÐREYND - FUCK ÞESSARRI EURO-TILSKIPAN Í ÞEIM TILVIKUM!!! (sem eru náttúrlega mýmörg)), og það virðist líka vera í samræmi við stjórnunarhætti stjórnenda þessa "góða" spítala!!! Bjarga fyrir horn. Og alltaf á síðustu stundu. Aldrei hugsað fram í tímann og aldrei hugsað um þann mannauð sem spítalinn Á OG HEFUR! (Okkur má greinilega alltaf skipta út með annaðhvort nemum, nýútskrifuðum eða útlendingum). Skítt með hvernig þetta lítur út á morgun, eftir viku eða mánuð. Og hver á að kenna hverjum.... eggið, hænan, eða kannski Anna Stefánsdóttir, sem telur sig eiga ráð undir rifi hverju. Stjórnendur LSH hafa aldrei látið sig þetta varða, fyrr en nú þegar þeir standa opinberlega í deilum og þurfa loksins að rökstyðja sitt mál, þeir hafa ALDREI skipt sér af því fólki sem vinnur alla þá vinnu, sem spítalann og landsmenn skipta mestu máli, þeim er skítsama um allt nema það að koma vel fyrir í fjölmiðlum.... og þeir geta það ekki einu sinni. Þeir koma a.m.k. ekki vel fyrir okkar sjónir, sem til málsins þekkja.

Ástandið er öllu starfsfólki (amk. íslenskumælandi) ljóst, þetta er algjörlega ólíðandi, bæði sjúklingum og starfsfólki, verið er að ganga frá fólki með yfirvinnu SEM ÞAÐ VILL EKKI SJÁLFT, öfugt við það sem heilbrigðisráðherra heldur, sem lifir greinilega í þeirri trú, að allir séu að sækjast eftir yfirvinnu. Ekki veit ég hvernig heilbrigðisráðherra hefur hugsað sér að reka deildir, sem eiga jafnvel bara yfir að ráða um 40% af þeim mannafla sem þarf til reksturs, án yfirvinnu..... því a.m.k. hættir fólk ekki að vera veikt og eldra.... Think about that, dear minister! Starfsfólk er orðið langþreytt og meira en það, það er orðið útbrunnið, farið að hnýta hvert í annað, margir yfirmenn eru að gefast upp á ástandinu, og þá er ég AÐ SJÁLFSÖGÐU EKKI AÐ TALA UM ÆÐSTU YFIRMENN SPÍTALANS SEM LIFA Í GLERTURNI, heldur hina, því einhverra hluta vegna, þá á þessi spítali svo ótrúlega mikið af "loyal", duglegu og samviskusömu starfsfólki, (og að mínu mati ótrúlega mikið meðvirku þessu ömurlega ástandi sem þarna ríkir)..... þetta er það starfsfólk sem ber þennan spítala uppi, EKKI yfirmenn spítalans, þótt þeir vilji alltaf hljóma þannig. Þetta er starfsfólkið sem heldur deildum gangandi dag, kvöld og nótt....sama hvernig mönnunin er og sama hve veikt fólk það þarf að hugsa um, þetta er starfsfólkið sem hugsar um sjúklinga í allavega ástandi, sem hugsar um okkur öll þegar við erum veik, sinnir sinni vinnu og gerir allt eftir bestu getu og oft langt umfram það miðað við aðstæður. Það eru EKKI æðstu yfirmenn spítalans sem halda þessu batteríi gangandi, sem þó vilja alltaf láta líta út eins og þeir séu nær daglegir gestir á öllum göngum spítalans og þekki "nær allt starfsfólk með nafni".... 

En fær allt þetta frábæra starfsfólk LSH það þakkað eða metið? Fáum við jólagjöf?? Nei, við fáum ekki einu sinni JÓLAKORT frá okkar opinbera vinnustað. NEI, ALDREI, HVORKI AF YFIRMÖNNUM SPÍTALANS NÉ AF STJÓRNVÖLDUM ER OKKUR ÞAKKAРOG ÞIÐ SKYLDUÐ ÖLL SKAMMAST YKKAR.

VIРberum ykkar allra líf oft í okkar höndum, hvort sem það er byrjandi líf, tímabundin veikindi, skyndileg veikindi, slys eða langvarandi veikindi, lífslok, gleði eða sorg aðstandenda..... en VIÐ fáum aldrei nema skammir frá okkar æðstu yfirmönnum fyrir okkar framlag og eins og það væri ekki nóg, þá fáum við illa útborgað þar að auki. (Þótt svo okkur finnist gefandi að bjarga mannslífum, þá verslum við ekki í Bónus fyrir það eitt og sér, því miður - þá værum við rík...) Enda erum við langflest búin að gefa frat í ykkur, stjórnendur, fyrir löngu síðan, þótt ekkert okkar hafi gert það á jafn flottan, eða að minnsta kosti, samstilltan hátt og skurðhjúkrunarfræðingar gerðu núna. Mörg okkar hafa gert það á einhvern hátt nú þegar, bæði leynt og ljóst.

Það getur vel verið, að stjórnendur Ríkisins og LSH vilji fara að þessari Evróputilskipan, og þykist vera að því, þeir ljúga að þjóðinni að verið sé að gera þetta OG STJÓRNENDUR SPÍTALANS OG STJÓRNVÖLD LJÚGA ÞVÍ að þjóðinni að búið sé að breyta vaktafyrirkomulagi á langflestum deildum spítalans. Þetta er einfaldlega lygi eða ranghugmynd þeirra! EF þeir VÆRU  að fara að þessari tilskipan, þá væri ekki hægt að halda úti vöktum á langflestum deildum spítalans. Það væri þá, til að mynda bannað að vinna morgunvakt á eftir kvöldvakt, því samkvæmt þessarri vinnutilskipan þá á fólk að eiga 11 TÍMA FRÍ Á MILLI VAKTA. Á LSH er það algilt að þú vinnir kvöldvakt til a.m.k. 23:30 (og jafnvel lengur ef þörf er á) og mætir aftur á morgunvakt kl. 8:00. Engir 11 tímar þar í hvíld eða annað. Og ef það hentar deildinni, máttu gjarnan vinna 16-20 tíma, eða lengur, ef þú vilt.... skítt með þessa Evrópu-tilskipan þar. Þú ert stöðugt að klípa af sjálfum þér og þínu einkalífi og heilbrigði, fyrir ríkisapparat sem stöðugt vill meira og meira og meira..... fyrir ekkert. Vill helst ekki þurfa að borga þér neitt nema lágmarkslaun. Í alvöru, hvenær heldur fólk að heilbrigðisstarfsfólk fái nóg af launamisrétti og yfirgangi yfirmanna sinna?

Ég fullyrði, eftir mína viðdvöl á hinum ýmsu deildum LSH, að EKKI er búið að breyta vaktafyrirkomulagi á síðustu árum, EKKI er verið að vinna eftir vinnutilskipan Evrópusambandsins, starfsfólk er MERGSOGIÐ af spítalanum, langþreytt og útbrunnið langt fyrir aldur fram ...... og nota bene.... þetta er fólkið sem ÞIÐ treystið á í ykkar veikindum og erfiðleikum. Eeeen er verið að fara vel með okkur? Nei, engan veginn. Hvorki af stjórnendum LSH né stjórnvöldum.

En takk til ykkar allra, kæru sem hafið notið okkar í nauð og gleði og líka þakkað okkur, það er auðvitað fyrir ykkur sem við höldum áfram okkar starfi, í sátt eða ósátt við okkar stjórnendur.

 


mbl.is Vaktakerfið dregið til baka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband