Oh, þetta mánaðarlega.....

Ég er búin að vera með einhverja ónotatilfinningu í maganum í allan dag, ekki magaverkur, heldur kvíðahnútur sem var búinn að hreiðra svona vel um sig og virtist ekkert vera á förum.

Þetta byrjaði eiginlega strax í morgun. Systursonur minn, 10 ára, var í gistingu hjá okkur og ég heyrði í strákunum í unglingsherberginu þegar ég vaknaði. Þeir í PlayStation að sjálfsögðu. Ég ákvað að blunda aðeins lengur og tókst það, á sama hátt og öðrum foreldrum tekst það á frídögum..... þ.e. með því að rumska öðru hvoru þegar kallað er: "Megum við fá Coco Puffs?" Maður vaknar eiginlega ekki en samt nóg til að kalla: "Já, elskurnar, fáið ykkur það sem þið viljið." Og hrot, sofnar strax aftur. Stuttu seinna: "Mamma, er ekki til meiri klósettpappír?" Maður hrekkur pínu upp og kallar: "Jú, hann er í skápnum undir vaskinum." Og dettur inn í sama drauminn aftur.

Svona gekk þetta fyrir sig í tvær klukkustundir, þar til ég fann að nú var vökuástandið komið til að vera. Ég var vöknuð, en nennti samt ekki á fætur. Svo ég kúrði aðeins og hugsaði um það, sem ég ætlaði að gera í dag. Engar kröfugöngur á dagskrá á mínu heimili, en ég ætlaði mér aðeins að taka til hendinni á heimilinu, taka baðherbergið í gegn, þvo gluggana, jafnvel bora fyrir nokkrum myndum í veggina. Ekkert óviðráðanlegt eða kvíðvænlegt sem sagt, en samt fann ég hnútinn byrja að myndast djúpt í kviðarholinu. Ég tók sjálfa mig á sálfræðinni og sagði mér að slaka á, það væri ekkert merkilegt að bíða mín. En samt sem áður fann ég hnútinn vaxa. Og þungur hjartsláttur fylgdi með í kaupunum. Úff, sneri mér á hina hliðina, en hnúturinn fylgdi með. Sneri sænginni við en hnúturinn varð eftir undir sænginni. Byrjaði að nudda tánum smá saman, róandi aðferð sem ég nota á sjálfa mig þegar ég er að hugsa. En allt kom fyrir ekki, hnúturinn var kominn til að vera og hans vegna var ómögulegt að dvelja áfram í bælinu.

Reif mig á fætur, sótti Moggann, hitaði kaffi og fékk mér ristað brauð, þessi fjárans hnútur skyldi þá víkja fyrir einhverju garnainnihaldi. En hann lagðist bara í stuttan dvala. Um leið og ég var búin að renna í gegnum Moggann blossaði hann upp aftur. "Hvað er í gangi", hugsaði ég. "Er ég að gleyma einhverju?" Kíkti í dagbókina mína, en engin vakt stóð til á þessum degi, svo ekki var það málið. Og ég gat ómögulega munað til þess, að ég hefði lofað mér eitthvert heldur í dag.

Ekki kom ég eins miklu í verk og ég hafði hugsað mér, en það er allt í lagi. Ég lifi vonandi fleiri daga, og ef ekki, þá hefði líka verið súrt að eyða síðasta ævideginum í gluggaþvotta. Þetta var líka bara lauslegt plan sem ég hafði sett mér, engin pressa. Bara ef ég nennti..... sem ég gerði auðvitað ekki.

Ég lá í sófanum yfir fréttunum, Friends á Stöð2, danska Trúðnum á RÚV, Law and Order, en aldrei losnaði ég við ónotatilfinninguna. Og aldrei hætti ég að nudda tánum. Hnúturinn var þungur og ég fann líka að hjartað sló óvenju þungt og hratt, svo ég hugsaði með mér, að ég nennti ekki að standa í þessu lengur. Ætlaði bara að drífa mig í rúmið. Gekk fram til að gera alla þessa venjulegu húsmæðurhluti, áður en maður getur slökkt ljósin og farið að sofa, en rak þá af tilviljun augun í lítinn stafla af umslögum. Búmm, já, það var málið! Það var 1. í mánuði og ég þurfti að fara inn á heimabankann og greiða reikninga. Damn, þetta er það eina mánaðarlega, sem ég kvíði fyrir.

Reyndar er ég í greiðsluþjónustu í bankanum mínum, og ég verð bara að viðurkenna að ég öðlaðist nýtt líf eftir að ég byrjaði í þeirri þjónustu. En þó eru nokkrir reikningar sem ekki eru greiddir af bankanum og alltaf eitthvað sem þarf að gera upp. Það sem vekur þó mesta kvíðann, er að sjá hvað ég hef fengið útborgað. Það er bæði kostur og galli, þó ívið meiri kostur, að ég fæ aldrei sömu upphæð útborgaða. Til þess vinn ég of flókna vinnu. Aldrei jafn mikið af kvöldvöktum milli mánaða, stundum mikið af næturvöktum og stundum ekki, stundum er ég dugleg að taka aukavaktir og stundum er ég löt til þess, stundum eru hátíðsdagar í mánuðinum á undan sem borga meira en allir hinir dagarnir, en allt þetta gerir, að maður hefur eiginlega ekki hugmynd um, á hverju maður á von um mánaðarmótin. Ég horfði á fjárans tölvuna og hugsaði "Onei, ekki núna...." Ég fann að kvíðahnúturinn djammaði í maganum á mér. "Æ, ég meika þetta ekki," hugsaði ég og fann mér allt mögulegt að gera áður en ég hengslaðist að tölvunni með umslagastaflann í annarri hendi. Ég dró þetta eins og ég gat, þar til ég hreinlega varð að koma mér að verki. Dró öryggislykilinn upp og skráði mig inn á heimabankann.....

.....Og eruð þið ekki að grínast? Sjaldan er maður ánægður, þegar launaseðillinn er skoðaður, (minn kemur sko rafrænt), en í kvöld varð ég bara nokkuð ánægð. Ég var reyndar búin að vera nokkuð dugleg að taka aukavaktir síðasta mánuðinn, but it's hard to keep track.... Ég borgaði og borgaði, eins og vitlaus manneskja, ýmislegt smálegt líka sem ég hafði dregið að greiða og millifærði hingað og þangað. Ég borgaði allt sem ég þurfti, átti enn eftir nóg fyrir greiðsluþjónustuna og átti samt svolítinn afgang!

Ja, það er ekki oft sem þetta gerist, en þegar það gerist er það bara gaman. Ég ýtti á "greiða" í síðasta skiptið og svo á "útskrá", dró djúpt andann og viti menn...... enginn kvíðahnútur eftir í maganum. Tounge

Svo nú get ég farið að sofa, fullkomlega róleg og þarf ekki að liggja og nudda meira saman tánum.

Góða nótt!! Sleeping


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

dásamlegt að vera plúsmegin þegar allt er greitt. Sammála með greiðsluþjónustuna.   Ég horfði bara á skítugu gluggana og gólfið smástund......fór svo að hugsa um annað

Hólmdís Hjartardóttir, 2.5.2008 kl. 01:19

2 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Ég er svo heppin að hafa allar mínar greiðslur í minni greiðsluþjónustu.  Og ég er í + enginn yfirdráttur engin kretitkortareikningur.  Ég á yfirleitt afgang um  hver mánaðarmót.

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 2.5.2008 kl. 01:28

3 identicon

Já, hlakka til þegar ég get greitt ALLA reikningana mína...að vera nemandi og búa heima hjá öryrkja, verður auðveldara yfir sumarmánuðina þegar maður er byrjaður í fullri vinnu :D En já, þessi tilfinning er góð, það er alveg dagsatt :D

Margrét Þórðardóttir (IP-tala skráð) 2.5.2008 kl. 01:35

4 Smámynd: Helga Linnet

Er þetta þá merki um að þér hafi snúist hugur með Londo beibí?  Enn opið

Helga Linnet, 2.5.2008 kl. 13:59

5 Smámynd: Lilja G. Bolladóttir

Æ, því miður Helga, ég held ekki. Ég er á leið til Barcelona í júní og í aðra ferð í byrjun júlí, og þar ætla ég mér að lifa hátt og vel, svo ég held að ég verði að láta skynsemina ráða. Ég bara nenni ekki að taka fleiri aukavaktir en ég er nú þegar að taka. Maður verður að eiga líf inn á milli. En kannski næst.....

Lilja G. Bolladóttir, 2.5.2008 kl. 19:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband