Bloggfærslur mánaðarins, maí 2008

Hvernig lítur helgin út??

Já, það er vinnuhelgi hjá mér, sem þýðir a.m.k. þrjár vaktir yfir helgina. En hver segir að ekki sé hægt að njóta helganna þótt maður sé að vinna?? Smile

Í fyrsta lagi vinn ég á þeim stað, sem hlýtur að vera hvað mest lifandi vinnustaður landsins, með frábæru starfsfólki, sem jafnframt eru góðir og skemmtilegir kollegar, það er aldrei lognmolla á mínum vinnustað, þú veist aldrei hvað dagurinn ber í skauti sér þegar þú mætir, ert alltaf að læra eitthvað nýtt og yfirleitt að gera eitthvað gott..... Svo þótt helgin standi á vinnu, þá þýðir það alls ekki leiðinlega viðveru einhversstaðar úti í bæ, heldur líflegt umhverfi með mörgum óvæntum uppákomum..... sérstaklega um helgar!

En ég á mér þó, sem betur fer, líf fyrir utan þessa vinnu Cool og þegar maður vinnur vaktavinnu og á sama tíma þarf að sjá fyrir barni, þá þarf maður að skipuleggja tímana á milli vakta ansi vel. Og skipuleggja tímana, sem "barnið" eða öllu heldur unglingurinn er einn heima. Þess vegna fékk ég að láni lítinn (10 ára) systurson í gærkvöldi, til að eyða kvöldinu með syni mínum á meðan ég var að vinna. Svo heppilega vill til, að hvorugum þeirra leiðist félagsskapur hins, þeir eru bestu vinir og frændur þrátt fyrir fjögurra ára aldursmun og tilvera mín myndi ekki skipta neinu máli til eða frá á þeirra skeiði núna. Þeir fengu pening í hendurnar til að panta pizzu og eitthvað aukreitis ef hugurinn myndi girnast eitthvað annað og meira, þeir spiluðu körfubolta, Playstation og horfðu á mynd í mesta bróðerni. Góð barnapía, þessi 10 ára.... Wink

Í dag fór ég eftir vinnu og keypti sumarblóm í kerin mín og pottana. Og já, ég ER búin að setja niður blómin, okey, ég veit að það er frekar snemmt, en ég veit jafnframt að ef ég leyfi þeim að standa einhverja daga í pappakassa, þá eiga þau eftir að standa þar það sem eftir lifir sumars. Svo best að drífa sig í hlutunum á meðan hugur er í kellunni.

Ekki veit ég, af hverju að mér sótti þessi gífurlega kvíðatilfinning í hvert skipti sem ég hugsaði um, að drífa mig í að bóka flugið okkar mæðgina til Barcelona. Einhvernveginn hefur það verið þannig, að ég hef ýtt því á undan mér, sett það aftast á listann yfir verkefni hvers dags, og þannig hef ég alltaf tryggt að ég "hef aldrei náð" því að bóka þetta flug...... fyrr en í gær !!! Smile Þá tryggði ég okkur flugið til Barcelona út, og til baka viku seinna. Svo nú getum við opinberlega farið að hlakka til....

Ýmsir eru nú vafalaust stressaðri en ég, og að sama skapi framtakssamari, en ég, lallarinn, var nú ekki mikið að hafa áhyggjur af hótelbókunum. Verð samt að segja mér það til framdráttar, að ég hafði svolítið kynnt mér stöðuna, framboð á hótelum, verð og annað, en ég var ekkert að flýta mér að panta eitt eða neitt. Við ætlum að vera í viku í Barcelona, og þar sem við höfum þar með ágætan tíma til að bæði skoða okkur um og slappa af, þá viljum við vera á hóteli með sundlaug. Og í síðustu viku var fullt af þannig hótelum á lausu, en í dag þegar ég kom mér loksins að því að panta hótelið, þá var nú eitthvað aðeins minna í boði. En ég brá mér í Pollýönnu-gervið og hugsaði bara, að þar með hefði ég minna að velja um, sem þýðir engan, (eða svo til), valkvíða.... Smile

Í vikunni brugðum við mæðginin okkur í keilu í Öskjuhlíðinni, sem er ekki í frásögur færandi nema vegna þess að húsmóðirin er að "drepast" úr harðsperrum í vinstri rasskinn eftir ferðina góðu, sem og vegna mikilla strengja í hægri framhandlegg. Ég er svo mikill aumingi í handleggsvöðvunum, að ég veld ekki vel fullorðinskúlunum og þarf því að spila með barnakúlunum. Ég hef haltrað pínulítið um slysadeildina síðustu tvo daga, en steininn tók þó úr fyrir aumingjamennsku minni, þegar ég fattaði að ég ætti erfitt með að setja blómin mín niður áðan..... vegna harðsperra....   Getur maður verið meiri aumingi??..... Sick

Ég hef í mörg ár lifað á löngu fornri getu í ýmsum líkamlegum listum, hef alltaf talið mér trú um að ég sé í ágætu formi þar sem ég stundaði íþróttir grimmt á mínum barns- og unglingsárum, (!!! huhumm, það er víst ansi langt síðan....), ég hef gefist upp á því að eiga kort í líkamsræktarstöðvum þar sem það þýðir yfirleitt frekar fjártap fyrir mig án ávinnings.... en allt í einu er ég að átta mig á því að ég er, ekki frekar en aðrir, alls ekkert að verða yngri og ég þarf allavega mjög fljótlega að grípa inní með einhverskonar aðgerðum. Ekki það, að ég get verið mjög aktív hjólandi, syndandi, línuskautandi, golfandi og fjallgangandi, en þetta er bara yfir sumartímann.... yfir vetrartímann reyni ég varla á neina vöðva, nema þegar ég lyfti gafflinum að munninum....., eins og Elizabeth Taylor sagði einhverju sinni um sína líkamsrækt.

En í dag ætla ég ekki að láta þessar hugrenningar trufla mig hið minnsta. Og ekki næstu viku og ekki þá þarnæstu. Enda tekur því ekki að velta sér upp úr svona málum í sumarfríum þegar markalínan er lægri en venjulega og maður má allt, í krafti þess að sólin skín einhverja daga. Núna ætla ég bara að grilla gúmmelaði mat fyrir okkur mæðgin, hlamma mér í sófann á eftir og horfa á góða mynd sem ég leigði á leiðinni heim. Svo ætla ég að borða nammi og drekka kók, bursta tennur og fara að sofa. Baka bollur í fyrramálið, setja fullt af smjöri á þær og mæta svo aftur í vinnu, full af bollum, seinni partinn.

Ef maður hefur ekki mikið val, er þetta þá ekki bara ágætis uppskrift að helgi?? Wink

P.s. því má bæta við, að í ferð okkar mæðgina í Öskjuhlíð, tókum við nokkra þythokkí-leiki, og það þarf engan dómara til að skera úr um það, hvert okkar var æstara í þessum leikjum. Ég var gjörsamlega sveitt á eftir, enda er það ágætis hreyfing á sinn hátt, að eltast við þyt-hokkí-pökk..... ég var næstum hás af æsingi og það var ÉG, en ekki sonurinn sem grátbað um fleiri leiki. Líklega vegna þess að skorataflan var í mínus í minn hag, og það gat ég ekki látið líðast. Svo ég þrælaði drengnum í gegnum hvern leikinn á eftir öðrum, þar til skorataflan var mér í hag. Þá gat ég gengið út, sveitt og glottandi feitt!!! Grin


Ögmundur beggja megin borðsins, og þiggur tvöföld laun fyrir það.....

Í dag ákváðu hjúkrunarfræðingar að hafna tilboði ríkissáttarsemjara og grípa til aðgerða. Hverjar svo sem aðgerðirnar verða, þá munu þær hafa áhrif á starfsemi spítalans fyrst og fremst, líðan og afdrif sjúklinga og almennings svo, en síðast á þeim sem aðgerðirnar ættu að bitna á, þ.e. þessum heimsku stjórnvöldum, sem ákvarða laun okkar.

Stjórnvöld vilja nefninlega að við samþykkjum sama samning og BSRB samþykkti um daginn. Samning, sem okkur finnst fyrir neðan allar hellur. Samning sem gerir lítið úr okkar menntun og eiginlega segir að menntunin sé óþörf og asnaleg. En til hamingju, félagar BSRB, ef þið eruð sátt við ykkar samning. Mér finnst hann ömurlegur og hann verður ekkert betri þótt birtar séu myndir af samningsaðilum skælbrosandi. Þessi samningur sökkar feitt!!

En yfir í aðalefnið, sem bloggið átti upphaflega að snúast um. Sem er sá skrýtni hlutur, eitthvað sem aldrei myndi koma fyrir annars staðar en í okkar litla samfélagi, sem sagt.... hvernig það geti staðist að einn og sami maðurinn standi fyrir formennsku BSRB, starfi sem krefst fullrar vinnu, og á sama tíma verið starfandi þingmaður á okkar launum, í starfi sem líka á að teljast 100% vinna.

Hvernig má það vera, að Ögmundur starfi sem formaður BSRB, félagi sem er einna stærst innan kjara- og verkalýðsfélaga landsins, félags sem er að semja við ríkið og þá í leiðinni að semja við hina stöðuna sem Ögmundur gegnir, sem sagt þingmanni. Hann sem sagt er með í því, að setja lög yfir því félagi sem hann gegnir formennsku í. Hann semur með og á móti, í hvorum stólnum sem hann situr. ....kannski þess vegna sem BSRB gerði svona ömurlegan samning núna.... (ég held að félagsmenn haldi að þeir séu að grípa gullið og eigi eftir að fatta seinna hvað þessi samningur er lélegur).

Og hvernig má það vera, að sami maðurinn fái borguð tvisvar sinnum full laun til þess að sinna jobbi, sem hann augljóslega, og eðli málsins samkvæmt, getur bara sinnt af hálfum huga? Bæði jobbin krefjast fullrar atvinnu og alveg sama hversu öflugur maður Ögmundur er, þá getur þú ekki verið í tveimur 100% störfum. Það er bara þannig.

Hvernig geta félagsmenn BSRB sætt sig við formann, sem er í fullu starfi annars staðar? Hvernig hafa þeir geð til þess að borga honum formannslaun, þegar hann er í fullri vinnu sem þingmaður? Eða getur maður kannski bara ráðið sig sem þingmann í 40% eða 50% starf?? Og hvernig getum við, landsmenn, sætt okkur við að borga þingmanni full laun, sem er í öðru og örugglega mun meira krefjandi starfi heldur en að þjóna okkar hagsmunum á landsvísu?? HVAÐ ER EIGINLEGA AÐ Í ÞESSU ÞJÓÐFÉLAGI?? Er þessi ríkisstjórn algjörlega siðferðislega blind? Og við heimsk? Af hverju mótmælum við ekki að neinu leyti???

Já, það er sko eitthvað virkilega mikið að. Ég fengi allavega aldrei borgað fyrir fulla vinnu, þegar ég væri bara að sinna henni að hálfu leyti. Af hverju fær Ögmundur að halda þessu áfram?


Við stöndum í stríði og við viljum skilning og biðjum um stuðning!!

Ég var reyndar búin að hugsa mér að blogga jákvætt í dag, en mundi svo eftir því að við hjúkrunarfræðingar erum í kjarabaráttu, svo ég ákvað að beina augum að því.

Ég er hjúkrunarfræðingur. Ég stundaði háskólanám í fjögur ár, ég skulda 4 milljónir í Lánasjóð Íslenskra Námsmanna, ég hef starfað í átta ár á mörgum mismunandi stöðum og hef mjög fjölbreytta reynslu, ég er góður starfskraftur. Eins og nánast allir hjúkrunarfræðingar sem ég hef unnið með. (Ég held að hinir slæmu sorterist automatiskt út, starfsins vegna og launanna vegna). Ég hef 262.000 kr. á mánuði í grunnlaun. Já, EFTIR mitt fjögurra ára háskólanám og EFTIR mín átta ár í starfi. Þetta eru EKKI launin sem ég byrjaði með. Þau voru mun lægri. Vissulega get ég haft meira upp úr krafsinu, en þá þarf ég líka að hafa fyrir því með ýmsum hætti, og mér dugir ekki full vinna heldur neyðist ég til, og ég undirstrika NEYÐIST til, að taka mér yfirvinnu, sem til allra lukku er nóg til af í okkar starfsgeira. 

Til upplýsinga, þá teljast grunnlaun okkar hjúkrunarfræðinga einfaldlega vera þau laun, sem við myndum vinna okkur inn fyrir 100% dagvinnu, þ.e. vinnu frá 8-16 á hverjum virkum degi vikunnar. Með fríum á helgidögum og almennum frídögum.

Myndir þú, viðskiptafræðingur, hagfræðingur, lyfjafræðingur, verkfræðingur eða annar með sambærilega menntun, sætta þig við þessi grunnlaun eftir átta ára reynslu? Þú myndir ekki einu sinni sætta þig við þetta sem byrjunarlaun, sem nýútskrifaður, en samt ert þú viðskipta- og hagfræðingur með 25% styttra háskólanám en ég, hjúkrunarfræðingurinn. Nýútskrifaður kennari fær 240.000 kr. í mánaðarlaun eftir sitt ÞRIGGJA ára nám, OG hann er í fríi um helgar og á helgidögum, á gott jólafrí og enn betra sumarfrí..... án þess að kjör hans skerðist. Og samt eru kennarar alltaf að kvarta??? 

Gætir þú lifað á þessu eftir skatta? Eftir lífeyrissjóðsgreiðslur og séreignasparnaðsgreiðslur? Eftir afborganir af íbúð? Bílarekstur? Rekstur af börnum og búi með öllu tilheyrandi? Langanir til upplyftingar öðru hverju? Fatakaupa? Alls annars? Gætir þú og myndir þú sætta þig við þessi kjör eftir fjögurra ára háskólanám og tvöfalt fleiri ár í starfi??

Nei, ekki ég heldur. En ójá, ég er svo heppin, að ég get unnið á kvöldin, um nætur, helgar og helgidaga til að bæta mér upp þetta misrétti!! I totally forgot!!

Ég er svo heppin, að ég get farið af stað til vinnu kl. 23 á kvöldin þegar barnið mitt er farið að sofa, maðurinn minn er búinn að hita upp rúmið, og allt er kyrrt og hljótt. Þá get ég farið að vinna, og ég get verið að vinna alla nóttina og komið heim þegar enginn er heima. Ég þarf kannski að setja í þvottavél þá, og jafnvel að taka aðeins til hendinni, en who cares, ég hef jú allan daginn til þess, þótt ég sé búin að vaka yfir sjúkum alla nóttina, ég er jú KONA og get alveg stytt svefntíma minn um einhverja tíma - í annanhvorn endann. Börnin koma hvort sem er heim um tvö leytið, svo það tekur því varla að leggja sig. Ég er líka vön því að vera þreytt og ósofin, enda vinn ég á þrískiptum vöktum.

Ég er líka svo heppin, að oft í viku get ég eytt deginum á snyrtistofu á meðan börnin mín eru í skólanum ... (ef launin myndu leyfa það....), eða ég get eytt deginum í kaffi með vinkonunum, hmm, ef þær væru ekki allar að vinna á meðan ég er í fríi...., ég get svo rétt hitt börnin mín þegar þau koma heim úr skólanum, áður en ég þýt af stað á kvöldvakt. Ég slepp svo við að eyða seinni partinum með börnunum, missi af öllum fótbolta- og handboltaleikjum þeirra, allar keyrslur til og frá lenda á öðrum foreldrum, ég þarf ekki að elda ofan í börnin mín því þau fá bara 1944-rétt úr örbylgjunni á meðan ég er að vinna, ég þarf ekki að hjálpa þeim með heimalærdóminn og hjúkk itt men, ég losna við að koma þeim í rúmið. Kvöld eftir kvöld og stundum mörg kvöld í viku. Vá, þvílíkur léttir.

Þriðju hverja helgi má ég svo dúsa á spítalanum og losna þar með enn undan því að eyða tíma með fjölskyldunni.... í tívolí, á McDonalds, í Húsdýragarðinum, í sunnudagsbíltúr, kaffi hjá ömmu og afa eða einhverju öðru jafn fáránlegu. Enn og aftur er ég ógeðslega heppin að vinna svona vinnu. Þar fyrir utan þarf ég oft að melda afboð í afmælisboð eða partý fjölskyldunnar og/eða vina vegna þess að ég er annaðhvort að vinna eða á að mæta í vinnu í miðju gamni. Hjúkk itt aftur.

Nokkur jól yfir starfsæfina þarf ég ekki að gefa jólagjafir, eða þannig, því ég er jú að vinna, og er það ekki nógu mikil gjöf í sjálfu sér? Frá mér til ykkar allra? 17. júní þarf ég ekki að kaupa neina bréf fána og troðast niðri í bæ, því ég er allra líklegast líka að vinna þá. Og á páskadag, best að koma krökkunum til ömmu og afa, meðan ég er að vinna, þannig losna ég við kostnaðinn af því að kaupa páskaegg. Á annan jóladag þarf ég ekki að vakna klukkan níu til að setja saman nýju jólagjafirnar, því ég var jú að vinna nóttina á undan, og á LÖGBOÐINN svefndag. Mikið djöfull er ég heppin.

Að ég skuli svo heimta aukagreiðslur fyrir öll þessi heppniskvöld, nætur og helgar. Heimta að fá greitt fyrir allt þetta frí frá börnunum mínum og fúlum eiginmanni. Það er bara algjörlega út í hött.... finnst ykkur það ekki? Þvílík frekja í okkur hjúkrunarfræðingum, þessi vinnutími er sko bara bónus fyrir okkur....

Það vilja ALLIR geta lifað af dagvinnulaunum sínum. Ef maður vinnur á álagstímum, ókristilegum tímum og helgum dögum, þá á maður að sjálfsögðu að fá álagsgreiðslu fyrir það. En maður á ekki að ÞURFA að vinna þessa tíma eins og við hjúkrunarfræðingar þurfum að gera. Það segir sig sjálft, að það er ekki mikil rútína í heimilislífi, hvað þá fastir rammar, þar sem "mamman" vinnur helming vinnu sinnar á þeim tímum sem restin af fjölskyldunni er í fríi. Ímyndið ykkur svo bara einu sinni hvernig þetta er hjá einstæðum foreldrum í þessarri stöðu. Þar fá ekki börnin einu sinni að gista í sínum eigin rúmum þrjá-fjóra daga vikunnar. Og þetta er svokallaður bónus okkar hjúkrunarfræðinga. Haha!!

Ég á skilið að fá meira en 262.000 kr. á mánuði, eftir mitt fjögurra ára háskólanám, eftir mína starfsreynslu, öflunar á þekkingu, nýtingu á reynslu og hæfni, fyrir þá ábyrgð sem ég ber í starfi, fyrir þau líf sem ég ber ábyrgð á á hverjum degi, fyrir það að hugsa oft um líf annarra á jólunum í stað minna nánustu. Ég á skilið að fá mikið meira. Og ef ég vinn á álagstímum, þá á ég að fá það borgað sem ÁLAG OFAN Á grunnlaunin mín. Ég á ekki að þurfa að vinna þessa álagsvinnu til þess að ná endum saman, ég á ekki að þurfa að vinna 40 yfirvinnutíma á mánuði til þess að geta haldið barninu mínu uppi. Ég á einfaldlega rétt á því að geta lifað af mínum mánaðarlaunum, miðuð við dagvinnu. Annað eru mannréttindabrot.

Ég er virkilega ánægð með Félag Íslenskra Hjúkrunarfræðinga í dag. Ég er glöð yfir því, að samninganefnd okkar hafnaði tilboði ríkissáttarsemjara. Nú eigum við að standa saman, sem aldrei fyrr. Við eigum að láta í okkur heyra og við eigum að koma fólki í skilning um það, hve mikilvæg stétt okkar er í þjóðfélaginu. Því allt of margir halda bara að við séum að bera djús til fólks og piss frá því. Það er tími kominn á hugarfarsbreytingu.

 


Tvíkynhneigð?

Og er eitthvað að því að vera tvíkynhneigður?? Líklega er þetta bara tilraunastarfsemi hjá stelpunni, en ef ekki, þá er það bara hið besta mál.
mbl.is Lohan vill kvænast Samönthu Ronson
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver verndar börnin?

Grein Ingibjargar Benidiktsdóttur í Morgunblaðinu í gær (miðvikudag), um örlög tveggja lítilla drengja fyrir og eftir dauða móður sinnar, fékk mig til að gráta. Áður hafði ég lesið minningargreinar um þessa ungu móður og áttaði mig strax á samhenginu þegar ég las greinina í gær. Ég þekki ekkert til málsatvika, (sem betur fer, því annars mætti ég ekki tjá mig um þetta mál), en umgjörðin og sorgin í kringum þetta mál er sláandi.

Eins og fyrr sagði, þekki ég ekkert til þessa einstaka máls, en eftir að hafa unnið sem hjúkrunarfræðingur bæði á Vogi og á Slysadeild LSH, veit ég að þetta mál er alls ekkert einsdæmi. Þá á ég við, að þetta er ekki einsdæmi um það, að ung börn missi móður sína, eða föður, vegna annars hvors eiturlyfjaneyslu, eða vegna dauða af völdum neyslunnar. Þetta er svo sorglegt, að engin orð ná yfir það.

Það er sorglegt og átakanlegt að foreldrarnir nái ekki tökum á sinni fíkn, en það er enn sorglegra og átakanlegra hve mörg börn í okkar þjóðfélagi eru að lifa sínu lífi dagsdaglega með veikum foreldrum, eða foreldri. Það eru virkilega margir foreldrar, sem eru í dagneyslu, sem enn hafa forræði yfir börnum sínum. Börnum, sem eru annað hvort í leikskóla eða grunnskóla, börnum sem oft ekki einu sinni klára grunnskóla, því flest þessarra barna fá ekki uppeldislegan aga, hvatningu eða hjálp til að stunda skóla og/eða flýja foreldra sína eins fljótt og þau hafa aldur til og enn sorglegra, þá enda þau oft í sömu sporum og uppalendur sínir.

Þegar ég var í námi í Danmörku, fengum við að sjá heimildarmynd sem heitir "De unge voksne". Þar kemur á sláandi hátt fram, hvernig það er að vera barn og alast upp á heimili með foreldri í neyslu. Mörg þessarra barna taka alla ábyrgð á bæði heimili sínu, foreldrum og systkinum, bera ótrúlega mikla sorg í brjósti sínu og óska sér betra lífs, en verður sjaldnast að ósk sinni. Á sama tíma óska þau sér einskis annars en að eiga "venjulega" foreldra, sem mæta á foreldrafundi og fótboltamót o.þ.h. með þeim. Þau lifa í stöðugum ótta við að missa, ótta og óvissu vegna hins ókunnuga, hræðslu vegna þess sem gerist næst eða vegna þess sem ekki gerist, og öll þjást þau af kvíða. Kvíða sem oftar en ekki fylgir þeim langt inn í fullorðinsárin og hefur áhrif og hamlar þeim þar. Og þótt foreldrið taki sig á seinna meir, þá eru kannski einhver ár í þroska barnsins farin forgörðum, ár sem ekki verða tekin til baka og ár sem áttu stóran þátt í því að móta persónuleika viðkomandi barns. Ár sem ALDREI er hægt að bæta upp. 

Þetta getum við boðið börnum okkar á Íslandi, þetta eru börnin sem eiga að taka við þjóðfélaginu og hugsa um okkur í ellinni.... Þetta getum við boðið þeim en á sama tíma fordæmum við uppeldi barna hjá til dæmis tveimur hommum eða tveimur lesbíum??? Það eru lög gegn því að ættleiða barn ef þú ert samkynhneigður, en ekkert sem hamlar því að þú búir barni heimili, þrátt fyrir að vera annaðhvort tímabundið, eða algjörlega vanhæfur um að annast aðra mannveru, litla eða stærri.

Fíklar eru sjúklingar. Þeir geta ekki einu sinni séð um sjálfa sig, heimili, sín fjármál, mataræði, heilsu, sínar skuldbindingar o.fl. .... hvað þá börn. Og ég segi þetta ekki af fordómum og illmennsku, heldur af þekkingu. Fíklar eru yfirleitt ekki slæmar manneskjur, en þeir eru veikar manneskjur. Þeir hafa ekki stjórn á sjálfum sér, hafa ekki stjórn yfir eigin lífi eða aðstæðum, hvað þá að þeir geti séð um að passa eitthvað jafn dýrmætt eins og lítil mannvera er, sem er vaxandi og á rétt á því að þroskast við heilbrigðar aðstæður.

Fíkill getur náð sér á strik, en í langan tíma eftir að hann sleppir fíkniefnum er hann að berjast, vinna í sjálfum sér og sínum brotna persónuleika, finna sjálfan sig eftir margra ára þoku og sjálfsvanrækslu. Sumir segja að þá hjálpi það fíklinum að hafa eitthvað til að hugsa um, en börnin okkar eiga ekki að vera hækjur foreldra sinna. Börnin okkar eru saklaus, þau völdu ekki sitt hlutskipti og þau eiga rétt á öllu því besta sem lífið getur boðið þeim.

Að mínu mati er barnaverndarnefnd of slök, hún grípur of seint inn í, gefur of marga sénsa og er of rög til að grípa inn í þegar hún ætti að gera það. Ég skil vel, að þetta allt saman sé viðkvæmt málefni, og maður verði að passa að troða engum um tær..... en betra að troða einum of oft heldur en að eyðileggja líf lítils, saklauss barns, ....sem aldrei fékk að velja hvar í heiminn það var fætt. Foreldrarnir höfðu þó allavega eitthvert val, og þótt ég viti mæta vel að það er enginn sem velur það, að verða fíkill, þá færð þú allavega tækifæri til að endurmeta þitt líf og þín gildi þegar þú verður foreldri.... Það gerist bara automatiskt þegar nýtt líf skríður út úr þínum iðrum, þá skilur þú að heimurinn snýst ekki lengur í kringum þig og þínar þarfir og hefur aldrei gert það.

Ég skil líka vel, að fólk eigi rétt á "second chance", eigi rétt á því að halda barni/börnum sínum, en hve langt á rétt barnanna, á þessi réttur foreldra að ganga? Það vita það allir sem unnið hafa með fíklum, að þeir eru með "masters gráðu" í lygum og leikaraskap. Þeir hagræða sannleikanum án þess að blikka auga, skapa aðstæður sem þú getur auðveldlega trúað ef þú ert góðviljaður, þeir sérhæfa sig í því að sortera út þær manneskjur sem eiga erfitt með að segja nei. Þú getur aldrei trúað blint því sem fíkill segir. Fíkillinn þarf að margsanna sig, áður en þú getur tekið hann trúanlegan. Og þannig er það bara. Þannig er fíknisjúkdómurinn.....

Ég er hætt að gráta, en þetta hryggir mig ennþá. Ég held áfram að sjá fyrir mér, að þessir litlu drengir gætu næstum hafa setið yfir látinni móður sinni í tvo daga, áður en einhvern hefði grunað eitthvað... Og ég er alveg fullviss um, að barnaverndarnefnd er að gera sitt besta, það er mín vitneskja um þessa stofnun, en eins og aðrar opinberar stofnanir, þá líður hún fyrir manneklu, en er þetta þá ekki bara enn eitt dæmið um það, að fólk í opinberum umönnunnarstörfum, (þ.e. þeir sem helga starf sitt því að hugsa um annað fólk), þarf að fá meira borgað til að endast í störfum sínum? Ef fólk fær ekkert borgað fyrir erfið störf, þá endist það ekki lengi, brennur fljótt út..... og hver viljið þið eiginlega að sjáið um ykkur og ykkar fólk þegar stundin kemur? Ef fólkið í landinu vill fagfólk í störfin, þá verður líka að borga fagfólkinu fyrir sín störf. Svo einfalt er það.

 


Hver nennti að horfa á þessa undankeppni?

Ég er örugglega mjög neikvæður áhorfandi, en mér fannst flest þessarra laga alveg glötuð. Nennti reyndar ekki að horfa, en hlustaði í gegnum Mogga-lestur, og mér fannst bara ekkert varið í þetta. Líklega rétt hjá Mogga-mönnum, að sviðsframkoman og umbúnaður hefur meira að segja heldur en lagið sjálft.... en jæja, verðum við ekki að vera bjartsýn fyrst tvö Norðurlönd komust í gegn um sömu undankeppnina?? ....
mbl.is Noregur og Finnland áfram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hreinsunareldur í sálartetri í Breiðholtinu....

Þar sem framkvæmdasemi mín er ekkert til að hrópa húrra fyrir, má ég til að monta mig svolítið núna. Á sunnudaginn tók ég sem sagt upp höggborinn fína, sem ég hef horft á sl. 10 mánuði, og boraði í veggina fyrir öllum myndunum mínum..... sem ég aðeins hef haft á gólfinu í 25 mánuði!! Þetta fannst mér ansi mikið afrek, og var stolt af sjálfri mér, og ég verð að segja að ég var ekki einu sinni svo afleitur borari, ég gat meira að segja borað fyrir hlutum sem þurfa tvær skrúfur til að haldast uppi.... og gat gert það beint án hallamælis, eða hvað það nú heitir. Þetta hvatti mig til frekari framkvæmda.

Í gær byrjaði ég því daginn um hádegi, eftir mjög stuttan og snöggan svefntúr eftir næturvaktina mína, og fór í Sorpu með um það bil 8 mánaða birgðir af flöskum, dósum og glerjum, sem sonur minn hefur samviskusamlega talið reglulega, enda fær hann andvirðið inn á debetkortareikning sinn. Ýmist papparusl fékk að fljóta með, næstum því þriggja metra hár dagblaðastafli sem og fullt af fötum af einkasyninum, hjólahjálmum, strigaskóm og fleiru. Það var virkilega eins og hreinsunareldur hefði farið í gegnum geymsluna mína eftir þessa ferð.

Því næst hélt ég í verslunarleiðangur..... ætlunin var að kaupa ný húsgögn á svalirnar, og það gerði ég vissulega.... en ýmislegt annað rataði ofan í innkaupakerru mína í hinum ýmsu búðum. Hvort þetta voru allt nauðsynleg og nytsamleg kaup veit ég ekki, en ég var að minnsta kosti mjög glöð yfir þeim öllum saman, en þau spönnuðu allt frá skálum, blaðagrind og púðum til þessarra blessuðu húsgagna. Mig sárvantaði svo sem ekki húsgögn, en þar sem ég hafði kveikt í garðborðinu mínu þarsíðustu áramót, þegar ég mjög svo gáfulega setti stórt útikerti ofan á það, þá fannst mér ég eiga skilið að fjárfesta í öllu nýju - svo það gerði ég.

Auðvitað þurfti að setja borðið saman en það kláraði ég með stæl á augabragði, enda vön að setja stærri hluti saman en eitt lítið borð, til dæmis heilan fataskáp hef ég sjálf skrúfað saman.... viðurkenni þó að það tók ansi mikið á.... Cool

Svo þurfti auðvitað að sópa og skúra svalirnar og það gerði ég með gleði, og fyrst ég var stödd þarna úti með græjurnar tilbúnar, fékk gasgrillið mitt yfirhalningu. Skítugir gluggar stungu í augun, svo ég bretti upp á ermarnar og tók þá í gegn í leiðinni. Ég þurfti reyndar að hugsa mig tvisvar um áður en ég hófst í það verk, enda með fullkomnunaráráttu á háu stigi og í einu gluggaþvotta-verki felast margir hlutir í mínum augum. En ég ákvað að slá afslætti á þessa áráttu í þetta skiptið, nennti ekki að standa í gluggaþvottum í fleiri klukkutíma, og hugsaði sem svo, að hvað lítið sem ég gerði þá myndu gluggarnir allavega ekki líta verr út en þeir gerðu nú þegar. Svo einföld yfirferð var látin duga..... og kemur hreint ekki svo illa út. Getur verið að ég þurfi að breyta protokolum mínum um þetta verk.... Errm .....Leyndarmál sem ég lærði af mömmu minni við gluggaþvott, en hún er master gluggaþvottanna, er að þvo með sjóðandi heitu vatni og borðediki, og EKKI pússa yfir með Ajax (þá koma rendur), heldur bara nota sköfu til að taka vatnið af gluggunum. Í Danmörku notaði ég Husholdninsspritt í vatnið, en edik er það næstbesta, að mínu mati....

Þegar húsgögnin voru komin út á svalirnar fínu, vantaði bara sólina en hún kemur örugglega. Og svo auðvitað sumarblómin, en ætli ég geti ekki plantað þeim einhverntímann á næstu tveimur vikum.

Mér fannst ég eiginlega hafa gert nóg, en ákvað samt að halda áfram með tuskuna á lofti, og strauk tveggja ára ryk af öllum myndunum sem ég loksins hafði fengið upp á veggina. Það hreinlega ilmaði af Ajax og hreingerningu heima hjá mér í gær, alveg eins og í auglýsingunum Smile

Ég endurskipulagði skrúfu- og naglakassann, enda þannig verk í algjöru uppáhaldi hjá mér.... þ.e. að raða einhverju í hólf og skúffur. Þreif trérimlana í gluggunum, skrúfaði ýmislegt smálegt sem ég hafði trassað í lengri tíma og meira að segja grillaði gómsætan mat handa okkur mæðginum áður en klukkan sló á svefn.

Mér fannst ég sko virkilega hafa verið dugleg þessa tvo daga, og er full tilhlökkunar fyrir næstu verk, sem eru ekki minni en það að mála alla íbúðina. Hvort ég næ því fyrir Barcelonaferð okkar mæðgina, í sumar eða haust er aukaatriði, aðalmálið er að nú kvíði ég því ekki lengur. Því ég veit að ég get ef ég vil Smile

Það var sæl Lilja sem lagðist á koddann sinn í gærkvöldi, pínulítið svefnþurfi eftir lítinn svefn sólarhringinn á undan.... en sem sagt mjög sæl. Sælan var ekki eins mikil þegar vekjaraklukkan hringdi inn nýjan vinnudag klukkan 6:45 í morgun, en það hafðist. Og tilfinningin þegar ég gekk inn í íbúðina í kvöld eftir langan vinnudag, er ólýsanleg. Mér fannst íbúðin sem ný, þótt þessar blessuðu myndir sem nú eru komnar á vegg séu gamlar, en allt yfirbragð heimilisins er breytt. Svo ég fékk mér hvítvínsglas, settist í sófann minn og dáðist að verki mínu.... og í laumi að sjálfri mér Tounge


Get borðað kjöt.... bara ekki rautt kjöt!!

Langflestir, sem þekkja mig í meira en tvo tíma samfellt, geta örugglega sammælst um það, að ég sé pínulítið léttklikkuð. Á góðan hátt samt.... held ég og vona, enda ekki annað hægt í stöðunni. Ég er fyrir það fyrsta ótrúlega hvatvís, sem að sjálfsögðu er bæði kostur og galli...virka oft ofvirk á fólkið í kringum mig og get verið mjög opinská um margt.

Hvatvísi mín hefur oft komið mér í vandræði því ég tala og "akta" mjög oft án þess að hugsa (þótt ég sé að reyna að temja mér annað, og gangi stundum vel í því líka... ) Oftar hefur hvatvísi mín komið skemmtilegri atburðarás af stað í mínu lífi, þar sem ég mjög oft tek ákvarðanir um, jafnvel eitthvað jafn stórt eins og útilegur og utanlandsferðir á síðustu stundu, og skapa þannig oft óvæntar aðstæður fyrir mig og mína nákomnu. Vegna hvatvísinnar, hafa stundum ótrúlegustu hlutir skoppað af mínum vörum, sem oft valda hlátri viðstaddra. En það allra besta við þessa hvatvísi er það, að ég kem yfirleitt til dyranna eins og ég er klædd, segi það sem ég hugsa og meina það sem ég segi. Það getur auðvitað mælst misjafnlega fyrir...... og gerir mig bæði vinsæla og óvinsæla....... og svo svolítið berskjaldaða í leiðinni. And that's fine by me! That's just the way I am....Cool

Annar hluti af mínum persónuleika, sem fær fólk til að halda að ég sé pínu klikkuð, er sérviska mín um ýmsa hluti. Sem eiginlega er ekki sérviska, eins og það var kallað í gamla daga, heldur bara hrein og klár áráttuhegðun. Og já, ég viðurkenni það fúslega, að ég hef haft áráttuhegðun síðan ég var MJÖG lítil - þess vegna sem fjölskyldu minni fannst ég alltaf skrýtin og erfið. Það var aldrei neitt svoleiðis, bara rétt að klæða sig í sokkana sisona, fyrir mitt leyti. Fyrir mig kostaði þetta margra mínútna nákvæmnisvinnu, þar sem allar rendur í sokkunum þurftu að liggja nákvæmlega í sömu átt, engin krumpa mátti vera í sokkunum og báðir sokkarnir þurftu að vera nákvæmlega jafn hátt á sitthvorum kálfanum áður en ég gat farið út úr húsi. Ef mér fannst önnur hárfléttan fléttuð fastar en hin, þá mátti mamma mín flétta aftur og aftur, þar til samstaða fékkst um málið. Ég undra mig á því í dag, hve lengi mamma mín var að fatta það, að auðveldast væri að gera bara eina fléttu í hárið á mér í stað þess að skipta hárinu og gera tvær. Þessar hárathafnir kostuðu tár (hjá mér) og blóð, svita og tár (hjá mömmu). Ég get nefnt mörg dæmi um allskonar hluti í þessum dúr, en ætla að láta staðar numið hérna..... um þessa hluti allavega.

Það sem ég ætlaði að tala um er það, að þótt mér hafi tekist að venja mig af mörgum áráttunum í mínu lífi, sem skipta engu máli í dag, þá eru það enn nokkrar sem halda fast í mig.

Ég var alltaf algjör bókaormur þegar ég var lítil, og ég gleypti í mig allt það sem sagt var, bæði í orði og riti. Þegar ég var á þeim aldri, sem las Enid Blyton og bækurnar um Nancy Drew, þá fann ég einhverja þörf til að vera rannsakandi í lífinu. Ég tók upp á því að vakna alltaf klukkan hálf sex á hvejum morgni í einhvern tíma. Þá læddist ég út með litla svarta vasabók, stundum fór ég í bílinn hans pabba og sat þar og skrifaði hjá mér ferðir allra sem fóru fram hjá mér á þessum tíma. Sem voru auðvitað yfirleitt aldrei aðrir en Mogga-blaðberinn og einstaka köttur. En ég skrifaði ferðir þeirra samviskusamlega niður hjá mér, hvernig fötum blaðberarnir voru í, hvort þeir væru haltir o.s.frv..

Seinna tók ég upp á öðrum hlutum. Þá æfði ég (í alvörunni) fimleika af kappi, og til þess að verða betri, þá stillti ég vekjaraklukkuna mína klukkan sex á hverjum degi, til þess að gera magaæfingar, armbeygjur, æfingar fyrir lærin og ýmislegt annað, áður en ég þyrfti að fara í skóla.

Eitt sinn tók ég upp á því að vera grænmetisæta. Hafði örugglega lesið eitthvað um grænmetisætur og ákveðið að vera eins og þær. Og ég borðaði eftir það aldrei það sem var í matinn á heimilinu. Fyrst lét mamma þetta óskipt, en svo þegar hún sá, að ég ætlaði ekki að borða það sem á borð var borið, sá að mér var alvara með þessa vitleysu, þá ákvað hún að matreiða alltaf sérstaklega fyrir mig. Og þá borðaði ég - enda aldrei verið þekkt fyrir að borða ekki. En í mörg ár þurfti mamma að setja saman sérstakan aðfangadags-matseðil fyrir mig, alveg þar til ég varð 18 ára. Þá allt í einu ákvað ég að fara að borða kjöt aftur. Bara ekki rautt. Og ekki með beinum í. Og ekki þar sem eru sinar. Og bara yfirhöfuð, ekkert kjöt, þar sem þú getur séð að kjötið hafi áður verið dýr.

Og þótt ég hafi náð að hrista alls konar áráttur af mér, þá á ég ennþá margar.... gæti verið fyndið að segja frá því seinna, en ekki núna. En í sambandi við kjötið, þá er það enn þannig, að mér finnst mjög gott að fá kjöt matreitt ofan í mig af öðrum, en það má samt ekki vera rautt. Ég lít fram hjá beinum, sinum og öðru sem fékk mig til að gubba, en bara ef aðrir sjá um að elda.

Og þannig stóð ég í kvöld, með góða nautalund, af því að sonur minn hafði óskað þess í kvöldmat í kvöld. Fyrst horfði ég á lundina og hugsaði hvort ég gæti ekki bara pakkað henni inn í álpappír án þess að gera neitt. Svo kom ég auga á þykka vöðvafestu, svo hana yrði allavega að skera í burtu, svo það gerði ég. Þá sá ég líka ýmislegt hvítt hér og þar í kjötinu, og áður en ég vissi af, þá var ég komin í mission, að skera burt allt það hvíta sem ég sá. Og ég get alveg sagt ykkur, að margt gott kjöt fékk örugglega að fjúka þar með, því ég varð að vera viss um að ég hefði skorið allt óæskilegt burt. Svo ég skar og skar og skar - af sannkallaðri áráttu og engu öðru. Þar til lítið var eftir af kjötinu....

 Mér finnst yfirnáttúrlega ógeðslegt að koma við dýrakjöt, eins og ég sagði, ég get borðað það þegar einhver annar eldar það og setur á disk fyrir mig, en ef ég þarf að sjá um undirbúninginn sjálf, já, þá er það þannig, að mig langar bara meira í ristað brauð heldur en þetta kjöt sem ég er að skera.

Og já, ég get mun frekar hreinsað upp úrgang frá mannlegum verum, skeint þeim, gripið gubbið þeirra og hugsað um á allan hátt. Ég get horft á aðgerðir þar sem hálfum innyflum er lyft út úr fólki, ég get þvegið líkum, (þ.e. dánu fólki), klætt þau og gert það sem ég þarf að gera í því samhengi, en að höndla dýrakjöt.... ég er ekki svo góð í því.... kannski af því að ég ætla mér að borða það en ekki hitt.... 

Já, svona erum við örugglega öll skrýtin á einhvern hátt..... getur vel verið að ég sé skrítnari en aðrir, en þá er ég bara stolt af því Cool


Það er komið sumar, lalalala.....

Við, á mínu heimili, elskum sumarið. Og sumarlyktin sem fyllt hefur vitin síðustu daga, hefur bara kynt undir tilhlökkunina. Gefur angan af nostalgíu sem bæði minnir mig á æskuárin, sem voru áhyggjulaus, og líka minnir þetta á öll vorin og sumrin sem við mæðginin áttum í Danmörku, þau ár sem við bjuggum þar. Þegar hægt var að kasta vetrardrunganum af sér og þar með kuldagallanum, um leið og fyrstu vorsólargeislarnir létu á sér kræla. Þá voru sandalar keyptir, pilsin dregin fram og táneglurnar lagaðar - nú var ekkert mál lengur að vakna klukkan sex og sveifla sér á hjólið með krakkann aftan á. Ljúfar minningar um mögur háskólaár, en þó mun einfaldara líf en í dag.... Smile 

Það var eiginlega fyrst að renna upp fyrir mér á síðustu dögum, að febrúar er liðinn með öllum sínum snjó og leiðindaveðri, mars með fermingarstressinu er líka liðinn, apríl með sumardeginum fyrsta og afmælinu mínu floginn burtu og kominn er miður maímánuður. Vissulega hef ég rútinert skrifað dagsetningarnar á skýrslur í vinnunni dag eftir dag, 23/2, 27/2, 14/3, 16/4 osfrv., ég hef borgað reikninga á heimabankanum hver mánaðarmót en það er meira af vana heldur en að ég hafi í raun tekið eftir því hvaða mánuður er að líða hjá. Það er núna fyrst að renna upp fyrir mér, að ég stend á þröskuldinum að sumrinu. Og mér finnst það gaman. Smile 

Hvert flugu allir hinir mánuðirnir? Ég hef heldur betur verið vel pökkuð inn í vetrarhýðið mitt, því ég hef greinilega ekki gefið mér tíma né tækifæri til að kíkja út og svipast um af alvöru. En í dag skall sumarið hressilega á mér.

Í dag var hægt að vera í sandölum. Í dag var grasalykt úti, ekta sumarlykt. Og gott ef það var ekki örlítil útlandalykt líka, þar sem rakinn í loftinu var aðeins meiri en vanalega. Sólin brosti sínu blíðasta og þótt ég væri í vinnu en ekki úti að njóta veðursins, var lundin létt. Ég var hátt uppi í spítalabyggingunni í Fossvoginum og útsýnið yfir Fossvogsdalinn, Kópavoginn og Skerjafjörðinn var dásamlegt. Allt baðað í birtu og sumaryl. Fjölmargar litlar flugvélar sóluðu um himininn, tóku á loft og lentu aftur á Reykjavíkurflugvelli, fuglarnir sungu og flugur suðuðu inni á sólbökuðum og vel upphituðum sjúkrastofunum. Í hádeginu sat starfsfólk spítalans á trébekkjum fyrir utan matsal spítalans, létt var yfir öllum, fólk spjallaði og hló.

Við grilluðum í gærkvöldi og grilllyktin út í sumarkvöldið kveikti í sumarboðanum mínum. Það rann upp fyrir mér að aðeins örstutt er í fyrri lotu sumarfrís míns. Og þar með örstutt í árlega utanlandsferð okkar mæðgina, þar sem við höldum á nýjan stað í hvert skiptið, aðeins tvö saman - eigum það sem kallast á góðri íslensku og vinsælu foreldra-sálfræði-máli "quality time" saman. Við höfum tvö sumur fyrir nokkrum árum farið í mjög góðar sólarlandaferðir og hafa þá Mr. K. og sonur verið með í för, en eftir að við mæðginin prófuðum að fara tvö ein í borgarferð til London, fannst okkur báðum við fá meira út úr samverunni í styttri borgarferðum, heldur en langri sólarferð, þar sem yfirleitt var mest flatmagað og minnst gert. Eftir það höfum við farið í eina borgarferð á ári, og að þessu sinni er förinni heitið til Barcelona þar sem við ætlum að dvelja í heila viku. Þar ætlum við að sameina það sem syni mínum finnst skemmtilegast, þ.e. að skoða sem mest af því sem borgin hefur upp á að bjóða og fara fínt út að borða á kvöldin, og svo líka að slappa af í sólinni og höfum þess vegna valið að dvelja á hóteli með sundlaug. Ég hef áður komið til Barcelona og veit því nokkuð vel hvað ég á að sýna drengnum, en fyrir utan það sem ég hef séð, er ætlunin að skoða leikvang F.C. Barcelona, Camp Nou, og líklegast verðum við að finna eins og eitt gott tívolí. Þetta tekur varla heila viku og því gefst góður tími til að slaka á í sólinni líka, lesa eins og tvær bækur og svo auðvitað versla svolítið - því ef það er einhversstaðar gaman að versla, þá er það í Barcelona (að mínu mati) Wink Dagsferð í strandbæinn Sitges (vonandi rétt stafað, gert eftir minni...) ætti bara að gera okkar ferð enn skemmtilegri - allt þetta ætlum við að gera, og koma ánægð, sólbrún og hamingjusöm til baka.

Þessar borgarferðir sem ég hef farið með syni mínum, eru að okkar mati algjör snilld. Í þessum ferðum gef ég stráknum svolítið húsbóndahlutverk, þ.e. hann fær að spreyta sig á lestarkerfunum og finna út á eigin spýtur hvernig eigi að nota metroin í hinum ýmsu borgum og hvernig best sé að komast frá A til B. Við stúderum kort af borgunum saman, sitjandi við gosbrunn einhversstaðar með samloku á milli fótanna, leggjum á ráðin saman hvernig auðveldast sé að komast á ákveðinn áfangastað og hvaða metro-stöð sé næst okkur hverju sinni. Við veljum veitingastaði saman á netinu, eða jafnóðum, og hans atkvæði gildir allavega 35% á móti mínu (Wink) Hann fær algjörlega að njóta sín svo og óskiptar athygli og samvistar móður sinnar alla þessa daga, og í sannleika sagt, þá gerist það ekki oft marga daga í röð í okkar hraða þjóðfélagi, þrátt fyrir góðan vilja og mikla skipulagningu dagsdaglega, þá er það alltaf eitthvað annað sem truflar. Þessa daga sem við eigum saman í borgarferðum okkar, eigum við bara tvö saman, við spjöllum, hlæjum, spilum saman á kvöldin, borðum fínt, borðum líka pylsur úr pylsuvögnum, dáumst að fallegum byggingum, konungshöllum, listasöfnum, villumst saman, tölum meira, leikum okkur og skemmtum okkur virkilega vel. Ég myndi ekki skipta þessum félagsskap sonar míns út fyrir nokkuð annað Smile Þetta er okkur mjög dýrmætur tími.

En svo að maður fái líka að upplifa eitthvað fullorðins í fríinu, þá ætlum við Mr. K. í eina ferð saman í seinni lotu sumarfrís míns, reyndar til borgar sem við gerþekkjum bæði inn og út, þannig að þar verður engin áhersla á skoðanaferðir, áherslan verður lögð á afslöppun, lifa í núinu, gera það sem mann langar hverju sinni og njóta lífsins.

Mjög líklega verður einnig farið í svo sem tvær útilegur í sumarfríinu, spilað fullt af golfi, við munum renna okkur á línuskautum um borgina, jafnvel farið í eina sumarbústaðarferð og helst eina fjallgöngu, en það er einnig orðin hefð í sumarfríi okkar mæðgina. Reyndar þurfti ég að draga unglinginn með í síðustu fjallgöngu, sem var fimm daga ganga frá Vatnajökli og næstum niður í Þórsmörk, en þrátt fyrir að hann hafi á endanum skemmt sér ljómandi vel og notið sín á alla kanta, þá býð ég ekki alveg í árangurinn þetta árið, þar sem drengurinn er orðinn töluvert stærri og sterkari (erfiðara að draga...) og þar að auki næstum kominn í mútur Errm

En hvað sem verður, þá lofar sumarið góðu fyrir okkur mæðginin og full ástæða til þess að byrja að hlakka til og undirbúa. Og það var hugarfarið sem einkenndi mig í dag. Alls engin leti eða svefnhöfgi sem sótti á mig seinni partinn eftir vinnu eins og oftast áður. Við drifum okkur upp í Bása með mínum góða bróður, reyndar engin frægðarför fyrir dömuna að þessu sinni..... var nálægt því að kasta golfsettinu niður á flötina svona rétt í byrjun sumars.... þrátt fyrir að vera í happa-golf-skónum mínum Undecided Tók mig til og grillaði aftur þegar við komum heim, engin leti komin yfir mig ennþá. Borðuðum yfir Grey's Anatomy (getur það orðið betra?) og eins og það væri ekki nóg, var undirbúinn matur fyrir unglinginn fyrir morgundaginn (þar sem hann þarf að sjá um sig sjálfur um kvöldið á meðan mamma hans sinnir sjúkum), svalirnar voru sópaðar og.... Já okey, svo ekkert meira. En mikið á minn mælikvarða..... Cool Mikið fyrir þann lata, sem alltaf segir "á morgun"....

En næsta skrefið er að leggja svalargólfið með tréfjölum, kaupa blóm í pottana og ný svalarhúsgögn, mála baðherbergið og jafnvel eldhúsið, hengja upp myndir, kaupa nýja skóhillu og, og og.....

Nú er ég næstum farin að nálgast það að verða manísk, og þá þekki ég Lilju mína aftur. Núna er sumarið komið í stelpuna Smile


Á ég tölvuna eða á hún mig??

Ég á góða vinkonu sem heitir XX. Þessi vinkona mín hefur átt, og á ennþá, fjöldann allan af vinum hingað og þangað um heiminn. Hún hefur verið í e-mail samskiptum við þetta fólk, svo stundum síma- og sms-sambandi við suma, einhverjir hafa komið að heimsækja hana hingað á klakann, og svo hefur hún einu sinni farið út til að hitta einn "pennavin" sinn. Mjög skemmtilegt sem sagt, nema meirihlutann af þessu fólki hefur hún aldrei hitt og mun líklegast aldrei hitta.

Fyrir nokkrum árum vorum við saman í partýi, þ.e.a.s. ég var í partýinu en hún eyddi nánast öllu kvöldinu úti í horni í sófa, að senda og taka á móti sms. Ég fór að forvitnast um það, hverjum hún væri endalaust að senda einhver sms, og hvort viðkomandi væri skemmtilegri en við öll til samans í partýinu, fyrst hún kaus að eyða tíma sínum með gemsanum sínum í spjall við einhvern fjarverandi. "Oh, Lilja, ég er að "tala" við Fabrassio, þennan í Brasilíu manstu..... oh, hann er svo skemmtilegur....", sagði hún bara full af einlægni.

Ég mundi nú ekkert eftir honum, enda hafði ég aldrei hitt manninn ekki frekar en hún. En hún hélt áfram uppteknum hætti, sótti sér öðru hvoru bjór en boraði sér svo aftur út í horn með símann sinn. Þegar mér fannst nóg komið af afskipta- og viðveruleysi vinkonu minnar, nálgaðist ég hana varlega og spurði: "Hvar í ósköpunum grefur þú upp allt þetta fólk úti í heimi??" Hún leit ekki af símanum, en sagði bara með sínu barnslega, einlæga yfirbragði, eins og ekkert væri sjálfsagðara: "Á Friend-finding-dot-com." Og fór svo að skellihlæja: "Lilja, þú verður að sjá hvað hann skrifaði síðast.... sjáðu, þetta er svo fyndið....." Svo fletti hún upp á skilaboðunum og sýndi mér, en mér gat lítið fundist það fyndið, þar sem mig vantaði algjörlega andlit og karakter til að festa við þetta skeyti. Í mínum augum var þetta gjörsamlega ópersónulegur samskiptamáti og ég lét mína kæru vinkonu XX oft heyra það á næstu mánuðum þar á eftir. 

Enda var hún svo gott sem heltekin af einhverju fólki úti í heimi, sem hún vissi svo til ekkert um, nema það sem þau vildu að hún vissi. Og ég er að meina, að hún var í djúpum samræðum við margt af þessu fólki á msn, sms, e-mail og þegar vel lá á henni, í símanum. Stundum hafði hún tekið upp á því að hringja til Brasilíu, Frakklands eða Ítalíu á fylleríi, og fékk svo himinháan gsm-reikning mánuðinn á eftir. Þetta gekk lengi, þar til hún loks fór í sjálfskipaða meðferð gegn símtölum á fylleríi.

Stundum var ég að tala við hana í síma, og heyrði þá að hún var svolítið "fjarverandi" í samtalinu, og þegar ég gekk á hana, þá jú, vissulega var hún líka í miðju msn-samtali við einhvern "hönk" úti í heimi. Stundum rákumst við óvart á hvor aðra á msn seint á kvöldin og fórum að "spjalla", en þegar fór að líða yfir 5 mínútur á milli svara hjá henni, gerði ég mér yfirleitt grein fyrir því að hún væri örugglega að spjalla við Fabrissio, Luco, Dino eða whatever, líka. Þá sleit ég samtalinu, enda nenni ég ekki að vera einhver hliðartuska í mínu eigin samtali.

Einn daginn hringdi XX í mig og tilkynnti mér, að frá og með í dag væri hún hætt að púkka upp á þessa "net"-vini sína. Hún hefði hugsað málið og sæi að hún væri að eyða mun meiri tíma í þessa ósýnilegu vini sína, heldur en sína raunverulegu vini. Oft væri hún pirruð út í börnin sín, þegar þær voru að trufla hana við tölvuna í miðju "samtali" við "vin sinn". Og stundum hefði hún hætt við að fara út, af því að það var svo mikið "krútt" í því samtali sem hún átti "við tölvuna" þá stundina. Hún var sem sagt hætt að lifa sínu eigin lífi, svo mikil var tilhlökkunin og eftirvæntingin fyrir þeim samböndum sem hún átti "on-line" við hina og þessa johns og janes do-ur. Hún sat við tölvuna öllum stundum, nennti ekki út, nennti ekki að hringja í vinkonur, en þessi langfjarlægðarsambönd fullnægðu algjörlega hennar samskiptaþörf.

Ég varð náttúrlega dauðs lifandi fegin við þessa tilkynningu XX, að geta loksins haft vinkonu mína óskipta þegar við værum saman, gat hætt að vera afbrýðisöm út í símann hennar og átti ekki lengur á hættu að hún myndi allt í einu hverfa inn í sjálfa sig og símann á miðju kvöldi. Fyrir utan það, hvað mér fannst leiðinlegt að heyra sögur af brúðkaupi Ahmed, andláti móður Dinos o.s.frv. Sögur af fólki sem ég hafði ekki hugmynd um hver væru eða hvar þau væru niðurstödd í veröldinni. Og gæti ekki verið meira sama!!

Ég minntist því þessarrar vinkonu, þegar mér fannst ég vera farin að eyða óheyrilega miklum tíma á blogginu, að lesa sögur frá hinum og þessum, kommentera hingað og þangað um málefni sem mér í raun koma ekkert við. Og jú, vissulega er gaman að lesa það sem margir bloggarar hafa að segja, en það er líka gaman að heyra það sem manns raunverulegu vinir hafa að segja. Og þegar tíminn er af skornum skammti eins og hann getur oft verið hjá útivinnandi einstæðum mæðrum, eins og líklega mörgum öðrum, þá held ég að oft sé þessum tíma betur varið í það að hringja í sína góðu vini eða já, jafnvel hitta þá. Frekar en að húka við tölvuna sína og spjalla við "ósýnilegt" fólk.

Svo þannig var, að ég tók upp á því að takmarka tölvunotkun mína, eins og ég takmarka PlayStation notkun sonar míns.... ég ætlaði fyrst bara ekkert að kíkja á bloggið í einn dag, og svo voru það tveir. Svo tók ég góða vinnutörn yfir helgina, þannig að tölvupásan var sjálfgefin. Átti svo gott heima-kósý-grill-kvöld með öllu tilheyrandi með Mr. K. á sunnudaginn og fann enga þörf fyrir að kveikja á tölvunni á mánudeginum.

En hér er ég nú, ég mun örugglega halda áfram að kíkja á bloggin ykkar áfram, bara ekki jafn oft og ekki jafn mikið og ég hef gert. Þið þurfið þó endilega ekki að takmarka ykkur við að kíkja á mitt blogg..... Wink ég mun bara ekki skrifa jafn oft og ég gerði....

En þegar maður fer að spá í það, þá er ótrúlega mikið af fólki, sem virðist hafa ótakmarkaðan tíma til að skrifa. Annaðhvort heima eða í vinnutíma, allavega sé ég hátt í 6-10 færslur á dag, á mismunandi tímum hjá mörgum sem ég kíki til jafnlega. Ég undra mig á þeim tíma sem þetta fólk hefur, fer að velta því fyrir mér hvað það gerir á daginn og er líka pínu abbó.... Blush Þetta er kannski spurning um að forgangsraða, en með þeim áráttuhugsunarhætti sem ég hef lifað með frá barnsaldri, þá er mér hollast að staldra aðeins við, og setja mörk á sjálfa mig. Áður en ég ét tölvuna eða hún mig.....

Eigið góðar stundir..... Tounge


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband