Hver verndar börnin?

Grein Ingibjargar Benidiktsdóttur í Morgunblaðinu í gær (miðvikudag), um örlög tveggja lítilla drengja fyrir og eftir dauða móður sinnar, fékk mig til að gráta. Áður hafði ég lesið minningargreinar um þessa ungu móður og áttaði mig strax á samhenginu þegar ég las greinina í gær. Ég þekki ekkert til málsatvika, (sem betur fer, því annars mætti ég ekki tjá mig um þetta mál), en umgjörðin og sorgin í kringum þetta mál er sláandi.

Eins og fyrr sagði, þekki ég ekkert til þessa einstaka máls, en eftir að hafa unnið sem hjúkrunarfræðingur bæði á Vogi og á Slysadeild LSH, veit ég að þetta mál er alls ekkert einsdæmi. Þá á ég við, að þetta er ekki einsdæmi um það, að ung börn missi móður sína, eða föður, vegna annars hvors eiturlyfjaneyslu, eða vegna dauða af völdum neyslunnar. Þetta er svo sorglegt, að engin orð ná yfir það.

Það er sorglegt og átakanlegt að foreldrarnir nái ekki tökum á sinni fíkn, en það er enn sorglegra og átakanlegra hve mörg börn í okkar þjóðfélagi eru að lifa sínu lífi dagsdaglega með veikum foreldrum, eða foreldri. Það eru virkilega margir foreldrar, sem eru í dagneyslu, sem enn hafa forræði yfir börnum sínum. Börnum, sem eru annað hvort í leikskóla eða grunnskóla, börnum sem oft ekki einu sinni klára grunnskóla, því flest þessarra barna fá ekki uppeldislegan aga, hvatningu eða hjálp til að stunda skóla og/eða flýja foreldra sína eins fljótt og þau hafa aldur til og enn sorglegra, þá enda þau oft í sömu sporum og uppalendur sínir.

Þegar ég var í námi í Danmörku, fengum við að sjá heimildarmynd sem heitir "De unge voksne". Þar kemur á sláandi hátt fram, hvernig það er að vera barn og alast upp á heimili með foreldri í neyslu. Mörg þessarra barna taka alla ábyrgð á bæði heimili sínu, foreldrum og systkinum, bera ótrúlega mikla sorg í brjósti sínu og óska sér betra lífs, en verður sjaldnast að ósk sinni. Á sama tíma óska þau sér einskis annars en að eiga "venjulega" foreldra, sem mæta á foreldrafundi og fótboltamót o.þ.h. með þeim. Þau lifa í stöðugum ótta við að missa, ótta og óvissu vegna hins ókunnuga, hræðslu vegna þess sem gerist næst eða vegna þess sem ekki gerist, og öll þjást þau af kvíða. Kvíða sem oftar en ekki fylgir þeim langt inn í fullorðinsárin og hefur áhrif og hamlar þeim þar. Og þótt foreldrið taki sig á seinna meir, þá eru kannski einhver ár í þroska barnsins farin forgörðum, ár sem ekki verða tekin til baka og ár sem áttu stóran þátt í því að móta persónuleika viðkomandi barns. Ár sem ALDREI er hægt að bæta upp. 

Þetta getum við boðið börnum okkar á Íslandi, þetta eru börnin sem eiga að taka við þjóðfélaginu og hugsa um okkur í ellinni.... Þetta getum við boðið þeim en á sama tíma fordæmum við uppeldi barna hjá til dæmis tveimur hommum eða tveimur lesbíum??? Það eru lög gegn því að ættleiða barn ef þú ert samkynhneigður, en ekkert sem hamlar því að þú búir barni heimili, þrátt fyrir að vera annaðhvort tímabundið, eða algjörlega vanhæfur um að annast aðra mannveru, litla eða stærri.

Fíklar eru sjúklingar. Þeir geta ekki einu sinni séð um sjálfa sig, heimili, sín fjármál, mataræði, heilsu, sínar skuldbindingar o.fl. .... hvað þá börn. Og ég segi þetta ekki af fordómum og illmennsku, heldur af þekkingu. Fíklar eru yfirleitt ekki slæmar manneskjur, en þeir eru veikar manneskjur. Þeir hafa ekki stjórn á sjálfum sér, hafa ekki stjórn yfir eigin lífi eða aðstæðum, hvað þá að þeir geti séð um að passa eitthvað jafn dýrmætt eins og lítil mannvera er, sem er vaxandi og á rétt á því að þroskast við heilbrigðar aðstæður.

Fíkill getur náð sér á strik, en í langan tíma eftir að hann sleppir fíkniefnum er hann að berjast, vinna í sjálfum sér og sínum brotna persónuleika, finna sjálfan sig eftir margra ára þoku og sjálfsvanrækslu. Sumir segja að þá hjálpi það fíklinum að hafa eitthvað til að hugsa um, en börnin okkar eiga ekki að vera hækjur foreldra sinna. Börnin okkar eru saklaus, þau völdu ekki sitt hlutskipti og þau eiga rétt á öllu því besta sem lífið getur boðið þeim.

Að mínu mati er barnaverndarnefnd of slök, hún grípur of seint inn í, gefur of marga sénsa og er of rög til að grípa inn í þegar hún ætti að gera það. Ég skil vel, að þetta allt saman sé viðkvæmt málefni, og maður verði að passa að troða engum um tær..... en betra að troða einum of oft heldur en að eyðileggja líf lítils, saklauss barns, ....sem aldrei fékk að velja hvar í heiminn það var fætt. Foreldrarnir höfðu þó allavega eitthvert val, og þótt ég viti mæta vel að það er enginn sem velur það, að verða fíkill, þá færð þú allavega tækifæri til að endurmeta þitt líf og þín gildi þegar þú verður foreldri.... Það gerist bara automatiskt þegar nýtt líf skríður út úr þínum iðrum, þá skilur þú að heimurinn snýst ekki lengur í kringum þig og þínar þarfir og hefur aldrei gert það.

Ég skil líka vel, að fólk eigi rétt á "second chance", eigi rétt á því að halda barni/börnum sínum, en hve langt á rétt barnanna, á þessi réttur foreldra að ganga? Það vita það allir sem unnið hafa með fíklum, að þeir eru með "masters gráðu" í lygum og leikaraskap. Þeir hagræða sannleikanum án þess að blikka auga, skapa aðstæður sem þú getur auðveldlega trúað ef þú ert góðviljaður, þeir sérhæfa sig í því að sortera út þær manneskjur sem eiga erfitt með að segja nei. Þú getur aldrei trúað blint því sem fíkill segir. Fíkillinn þarf að margsanna sig, áður en þú getur tekið hann trúanlegan. Og þannig er það bara. Þannig er fíknisjúkdómurinn.....

Ég er hætt að gráta, en þetta hryggir mig ennþá. Ég held áfram að sjá fyrir mér, að þessir litlu drengir gætu næstum hafa setið yfir látinni móður sinni í tvo daga, áður en einhvern hefði grunað eitthvað... Og ég er alveg fullviss um, að barnaverndarnefnd er að gera sitt besta, það er mín vitneskja um þessa stofnun, en eins og aðrar opinberar stofnanir, þá líður hún fyrir manneklu, en er þetta þá ekki bara enn eitt dæmið um það, að fólk í opinberum umönnunnarstörfum, (þ.e. þeir sem helga starf sitt því að hugsa um annað fólk), þarf að fá meira borgað til að endast í störfum sínum? Ef fólk fær ekkert borgað fyrir erfið störf, þá endist það ekki lengi, brennur fljótt út..... og hver viljið þið eiginlega að sjáið um ykkur og ykkar fólk þegar stundin kemur? Ef fólkið í landinu vill fagfólk í störfin, þá verður líka að borga fagfólkinu fyrir sín störf. Svo einfalt er það.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Þetta er svo sorglegt. Og þetta eru erfið mál sem krefjast mjög góðs starfsfólks

Hólmdís Hjartardóttir, 23.5.2008 kl. 10:54

2 Smámynd: Sigrún Óskars

Vá hvað þú skrifar vel um þetta. Þetta eru allt orð að sönnu. Vonandi verður farið vel yfir þessi mál og kannski þarf að auka við stöðugildi og / eða taka harðar á málum sem þessum. Allavega má þetta ekki koma fyrir aftur - að þetta geti gerst. Eins og þú segir þá eru fíklar með masters gráðu í lygum og þeir sem vinna við þessi málefni mega ekki trúa fíklinum í blindni.

Sigrún Óskars, 23.5.2008 kl. 17:20

3 Smámynd: Haraldur Bjarnason

Þetta er vel gert há þér  Lilja og skrifað af þekkingu

Haraldur Bjarnason, 23.5.2008 kl. 18:07

4 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Þetta og örugglega mörg önnur svipuð mál virðast vera barnaverndarnefndinni ofviða.  Öll þessi neysla á fíkniefnum á Íslandi í dag er einn versti vandinn sem við eigum við etja.  Mér fallast oft hendur þegar ég sé afleiðingarnar. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 23.5.2008 kl. 23:01

5 identicon

Faglega skrifað. Flott grein.

Guðmundur Brynjólfsson (IP-tala skráð) 23.5.2008 kl. 23:05

6 Smámynd: Lovísa

Vel skrifað hjá þér.

Því miður þekki ég vel til þessa máls.

Maður fyllist af svo miklu hjálparleysi að geta ekki gert neitt. 

Lovísa , 24.5.2008 kl. 11:44

7 Smámynd: Guðrún Þorleifs

Góður pistill! Tek undir skoðanir þínar. Við þurfum að tak próf til að aka bíl en að eignast barn og ala það upp . . .

Guðrún Þorleifs, 24.5.2008 kl. 18:17

8 Smámynd: Óskar Arnórsson

..Já..ef fólk bara vissi hvernig þetta ástand er í raun og veru, áhugaleysið, úrræðaleysið, aulaganginn, biðlistanna á meðferðarheimilum, kunnáttuleysið..

Ég er löngu hættur að tilkynna þó ég viti um börn í umsjá snarruglaðra foreldra til félgsmálafulltrúa eða barnaverndar! Nenni ekki að tala við fólk sem hefur nákvæmlega engan áhuga! Eða blindfulla foreldra skiljandi eftir smábörn hjá hassreykjandi barnapiu meða þau fara að djamma á laugardagshvöldi!

Skipti mér ekki af þessu lengur. Fólk finnur bara út úr þessu sjálft. Svo deyr einhver fíkill! Þá skilja þetta allir voða vel í eina eða tvær vikur og svo fer það bara í búnkan með hinum málunum...ruglsýstem...búin að sjá þetta alltsaman og kem ekki nálægt þessu með töngum... 

Óskar Arnórsson, 26.5.2008 kl. 09:18

9 Smámynd: Helga Linnet

VÁ!

Ég fann svo mikið til þegar ég las þennan góða pistil frá þér. Maður er svo ljóshærður að maður leiðir ekki hugann að þessum efnum, eða maður lokar augunum og lætur sem þetta er ekki til.

Ég þekki sjálf nokkur svona dæmi eins og þú lýsir. Annað skiptið nagaði ég mig í handarbakið lengi vel fyrir að tilkynna ekki vanrækslu barnsins á kostnað eiturlyfja. Frétti það svo nokkrum árum síðar að barnið var tekið af móðurinni og frétti það ekki löngu eftir það að kjörforeldrar ættleiddu barnið. Ég tók þeim fréttum fagnandi.

Mér finnst að þessi pistill ætti að rata inn í Morgunblaðið....pottþétt. Gæti opnað augu almennings til þess að almenningur vakni og hugsi aðeins útfyrir lóðarmörkin sín.

Helga Linnet, 26.5.2008 kl. 12:58

10 Smámynd: Óskar Arnórsson

Það þarf að gefa félagsmálabatteríinu og ábyrgðarfólki þar duglegt spark í afturendan svo það vakni. MBL vill ekki birta greinar eftir mig. Finnst ég of árásargjarn. Ég er það líka! Enn get staðið við hverja einustu setningu sem ég skrifa..börn eru með MJÖG takmörkuð réttindi á Íslandi..því miður. Í Svíþjóð væri búið að reka og jafnvel handtaka sumt fólk sem er ráðið til að gæta bara á Íslandi..

Væri kannski ekki vitlaus hugmynd að halda fyrirlestu í Háskólabíói um þessi mál. Hef verið fyrirlesari í 20 ár oig á ekki í neinu vandræðum með að uoolýsa fólk um óþægilega hluti..og tala eingöngum hluti sem ég VEIT, og aldrei um hluti sem ég HELD..það er smá munur á þessu.. 

Óskar Arnórsson, 27.5.2008 kl. 00:23

11 identicon

"Ég er löngu hættur að tilkynna þó ég viti um börn í umsjá snarruglaðra foreldra til félgsmálafulltrúa eða barnaverndar! Nenni ekki að tala við fólk sem hefur nákvæmlega engan áhuga! Eða blindfulla foreldra skiljandi eftir smábörn hjá hassreykjandi barnapiu meða þau fara að djamma á laugardagshvöldi!"

Það er nú einfaldlega samfélagsleg skylda þín, Óskar Arnórsson, að tilkynna um þá hluti sem þú nefnir hér að ofan. Að gera slíkt EKKI lýsir nú - tja, ég veit nú bara ekki alveg hverju?

Guðmundur Brynjólfsson (IP-tala skráð) 27.5.2008 kl. 09:37

12 Smámynd: Óskar Arnórsson

..það lýsir Guðmundur minn að fólk sem á að bregðast við svona málum hlustar ekki á svona tilkynningar! Það væri helst að fara með hvert einasta mál til blaðamanns fyrst. Það er það eina sem virðist virka. Ég tilkynnti t.d. um fíkniefnasala til fíknefnalögreglu í Reykjavík, sem er að selja amfetamín allan sólarhringin í sömu blokk og ég bý í, enn það skeður ekki neitt!  Það er ekkert athugað og hann er í fullum gangi ennþá segja mér nágrannar.  Sama á við  fjölskyldur þar sem allt er á hvolfi, gamalt fólk sem ekki fær aðstoð og á lagalegan rétt á því. Það skeður ekki neitt þar heldur. Það vill svo til að ég kynntist innviðum "velferðarríkissins" á Íslandi í gegn um veikindi móður minnar sem er dáinn ekki fyrir löngu síðan.  Ég veit náhvæmlega hvaða samfélagskyldur  eru . Enn kerfið sem á að taka við þessum tilkynningum er sofandi eða ferir ekkert. Nákvæmlega ekkert! Nema það verði umræða í dagblöðum.  Ég er einn af fórnardýrum félagsmála sjálfur þegar ég var barn,. Var sendur í sveit ekki langt frá Breiðuvík. hefðu líklegasst lent þar, enn það var fullt. HUNDRUÐIR MANNA TILKYNNTU ÁRUM SAMAN HVAÐ VAR AÐ SKE ÞARNA! það tók aðeins 50 ár að vakna og taka á því máli. Ef þú ert í aðstöðu að breyta einhverju til batnaðar í þessu rolukerfu okkar, þá er það borgaraleg skylda þín að gera það! Er það ekki rétt hjá mér! Ég á 6 börn og sem betur fer ól ég þau upp í Svíþjóð þar sem svona rugl gæti aldrei viðgengist. Ég er búin að vera á Íslandi  í stuttan tíma eftur 20 ára fjarveru, og þetta þjóðfélag er vægast sagt ljótt í félagslegum málum.  Ég nenni ekki að tala við fólk sem hefur engan áhyga fyrir því sem maður segir við það, og ég geri ráð fyrir að þú myndi gera það nákvæmlega sama eftir mína reynslu.  Ég er að undirbúa flutning til útlanda og það verða aðrir að sjá um svona mál enn ég. Ég er búin að gera eins vel og ég get. Það vantar samstöðu almennings í þessum málum, því miður. Takk fyrir kommentið, ég skil vel að þú verðir sjokkeraður, ég varð það líka þegar ég fór að skilja hvernig þetta kerfi er í raunveruleikanum. Þetta er lýsing á félagsmálkerfinu, en ekki mér. Velkominn í heimsókn og spalla um þessi mál ef þessi málaflokkur er þér hugleikin. Ég er í símaskránni...

Óskar Arnórsson, 27.5.2008 kl. 10:30

13 identicon

Ég er ekkert sjokkeraður. Ég er eldri en tvæ vetur. Maður á að tilkynna um vanræsklu á börnum - sama hvað tautar og raular með félagsmálayfirvöld. Og sama hvaða skoðun maður hefur á þeim. Maður á ekki að sitja hjá - af því að manni líkar ekki eitthvað kerfi (sem vafalaust er gallað). Maður á að gera sitt.

Ég geri orð Bertold Brechts að mínum og segi:

"Tali aðrir um sína smán, ég tala um mína." 

Guðmundur Brynjólfsson (IP-tala skráð) 27.5.2008 kl. 11:23

14 Smámynd: Óskar Arnórsson

ég varð sjálfur fyr hreinu helvíti sem barn og ekki trúði mér nokkur maður. gefu mér ráð hvert á ég að hringja um nýjasta málið! Gömul kona í Hafnarfirði sem getur ekki farið út í búð sjálf. Að tala við Félagsþjónustunna er ég búin að gera mörgum sinnum. Í hvert skipti sem ég hringi verð ég að endurtaka alla sögunna. ég er ekki félagsþjónusta. Enn ég hef farið áfóar ferðirnar til að hjálpa þessari gömlu konu sem ekkert hefur gert af sér nema verða gömul. ég geri þín orð að mínum!

" Tali aðrir um sína smán, ég tala um mína" og ég skal svo sannarlega segja þér allt um mig ef þú vilt.

Ég veit að þér gengur gott eitt til, enn kannski höfum við sitthvora reynsluna. ég er með pappíra upp á það að ég er svo sannarlega búin að gera mitt og meira enn það.

Tómlæti almennings gagnvart börnum og gamalmennum er alveg hrikalegur. Ef þú getur komið einhverju til skila sem ég kem ekki í gegn, sendu mér þá bara símanúmerið þitt og þá tilkunni ég allt til þín og þú kemur þessu á þá staði þar sem eitthvað er gert í málunum. Mér hefur því miður ekki tekist að finna fólkið sem hefur áhuga á vitneskjum mínum sem ég er skyldugur að tilkynna, meðal annars starfs míns vegna!

Viltu taka að þér að vera milligöngumaður? Ég yrði svo sannarlega þakklátur. Þú hefur það fram yfir marga hér á blogginu að svara alla vega og súnir þessu meiri áhuga enn gengur og gerist. það er ekki á hverjum degi sem maður fær viðbrögð frá einhverjum sem getur þó talað um þetta af einhverju viti.

því það gerir þú!

Enn það þarf að láta verkin tala, og það er vandamálið. þess vegna er ég gjörsamlega búin að gefast upp á þessu, enda orðin heilsuleus á að berjast við þessar vindmyllur sem þetta kerfi raunverulega er. Spurðu t.d. aðstandendur fatlaðra barna hvernig þeim gengur að fó fólk í kerfinu að fylgja Íslenskum lögum... 

Óskar Arnórsson, 27.5.2008 kl. 13:00

15 identicon

Tilvitnuð orð BB eru nú meint í víðara samhengi og eru ekki einstaklingsmiðuð - og því ekki ósk um vitneskju um persónulega hagi eins eða neins. Ég hélt að það þarfnaðist ekki útskýringar.

Guðmundur Brynjólfsson (IP-tala skráð) 27.5.2008 kl. 18:31

16 Smámynd: Lilja G. Bolladóttir

Jahérna nú, heitar umræður á blogginu mínu.... og ég alveg fjarstödd....

Óskar minn, ég verð nú að segja að ég er algjörlega sammála Guðmundi í þessu máli. Alveg sama hvað þér finnst um kerfið, þá er það skylda þín að tilkynna um vanrækslu barna, ég tala nú ekki um ef þú starfar í faginu, (eins og þú segir að þú gerir), þá er það beinlínis hluti af starfi þínu, hvort sem þér líkar kerfið betur eða verr. Ekki keyrir þú eins og vitleysingur, bara af því að þér líkar ekki við lögregluna, eða hvað?? Eða stelur úr búðum, vegna þess að verðlagið er hærra en þér líkar??

Mér finnst þú taka rangan pól í hæðina og líka snúa umræðunni upp í annað en hún snerist um... ég held að við séum öll sammála um gamla fólkið, en það var ekki það sem var verið að ræða um, og ekki gott að rugla saman málefnum þeirra eldri og þeirra yngri, enda um mjög ólík málefni að fjalla.

Ef maður hættir að tilkynna svona mál, bara vegna þess að maður nær ekki eyrum nokkurs manns, þá lýsir maður uppgjöf og getur vel eins hætt því sem maður er að gera.... það er mitt álit!!

Takk fyrir kommentin, öll sömul, ójá, líka þú Óskar  Við erum nú engir bloggóvinir þótt við séum ósammála stöku sinnum.....

Lilja G. Bolladóttir, 27.5.2008 kl. 22:23

17 Smámynd: Lilja G. Bolladóttir

Og ef ég má bæta við, þá er það ekki mín reynsla af barnaverndarnefnd, að hana skorti áhugann eða "sympatíuna", hana skortir hreinlega fólk til að sinna öllum þeim málum sem lenda á þeirra borði. Sem eru fjöldamörg og fjölgar bara milli ára, málin verða flóknari og fleiri á sama tíma og starfsfólki fækkar. Það vinnur enginn í barnaverndarnefnd af hugsjón einni, fólk vill líka fá viðunandi laun fyrir það sem það gerir. Og þar held ég að hnífurinn standi í kúnni. Svo einfalt er það.

Lilja G. Bolladóttir, 27.5.2008 kl. 22:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband