Get borðað kjöt.... bara ekki rautt kjöt!!

Langflestir, sem þekkja mig í meira en tvo tíma samfellt, geta örugglega sammælst um það, að ég sé pínulítið léttklikkuð. Á góðan hátt samt.... held ég og vona, enda ekki annað hægt í stöðunni. Ég er fyrir það fyrsta ótrúlega hvatvís, sem að sjálfsögðu er bæði kostur og galli...virka oft ofvirk á fólkið í kringum mig og get verið mjög opinská um margt.

Hvatvísi mín hefur oft komið mér í vandræði því ég tala og "akta" mjög oft án þess að hugsa (þótt ég sé að reyna að temja mér annað, og gangi stundum vel í því líka... ) Oftar hefur hvatvísi mín komið skemmtilegri atburðarás af stað í mínu lífi, þar sem ég mjög oft tek ákvarðanir um, jafnvel eitthvað jafn stórt eins og útilegur og utanlandsferðir á síðustu stundu, og skapa þannig oft óvæntar aðstæður fyrir mig og mína nákomnu. Vegna hvatvísinnar, hafa stundum ótrúlegustu hlutir skoppað af mínum vörum, sem oft valda hlátri viðstaddra. En það allra besta við þessa hvatvísi er það, að ég kem yfirleitt til dyranna eins og ég er klædd, segi það sem ég hugsa og meina það sem ég segi. Það getur auðvitað mælst misjafnlega fyrir...... og gerir mig bæði vinsæla og óvinsæla....... og svo svolítið berskjaldaða í leiðinni. And that's fine by me! That's just the way I am....Cool

Annar hluti af mínum persónuleika, sem fær fólk til að halda að ég sé pínu klikkuð, er sérviska mín um ýmsa hluti. Sem eiginlega er ekki sérviska, eins og það var kallað í gamla daga, heldur bara hrein og klár áráttuhegðun. Og já, ég viðurkenni það fúslega, að ég hef haft áráttuhegðun síðan ég var MJÖG lítil - þess vegna sem fjölskyldu minni fannst ég alltaf skrýtin og erfið. Það var aldrei neitt svoleiðis, bara rétt að klæða sig í sokkana sisona, fyrir mitt leyti. Fyrir mig kostaði þetta margra mínútna nákvæmnisvinnu, þar sem allar rendur í sokkunum þurftu að liggja nákvæmlega í sömu átt, engin krumpa mátti vera í sokkunum og báðir sokkarnir þurftu að vera nákvæmlega jafn hátt á sitthvorum kálfanum áður en ég gat farið út úr húsi. Ef mér fannst önnur hárfléttan fléttuð fastar en hin, þá mátti mamma mín flétta aftur og aftur, þar til samstaða fékkst um málið. Ég undra mig á því í dag, hve lengi mamma mín var að fatta það, að auðveldast væri að gera bara eina fléttu í hárið á mér í stað þess að skipta hárinu og gera tvær. Þessar hárathafnir kostuðu tár (hjá mér) og blóð, svita og tár (hjá mömmu). Ég get nefnt mörg dæmi um allskonar hluti í þessum dúr, en ætla að láta staðar numið hérna..... um þessa hluti allavega.

Það sem ég ætlaði að tala um er það, að þótt mér hafi tekist að venja mig af mörgum áráttunum í mínu lífi, sem skipta engu máli í dag, þá eru það enn nokkrar sem halda fast í mig.

Ég var alltaf algjör bókaormur þegar ég var lítil, og ég gleypti í mig allt það sem sagt var, bæði í orði og riti. Þegar ég var á þeim aldri, sem las Enid Blyton og bækurnar um Nancy Drew, þá fann ég einhverja þörf til að vera rannsakandi í lífinu. Ég tók upp á því að vakna alltaf klukkan hálf sex á hvejum morgni í einhvern tíma. Þá læddist ég út með litla svarta vasabók, stundum fór ég í bílinn hans pabba og sat þar og skrifaði hjá mér ferðir allra sem fóru fram hjá mér á þessum tíma. Sem voru auðvitað yfirleitt aldrei aðrir en Mogga-blaðberinn og einstaka köttur. En ég skrifaði ferðir þeirra samviskusamlega niður hjá mér, hvernig fötum blaðberarnir voru í, hvort þeir væru haltir o.s.frv..

Seinna tók ég upp á öðrum hlutum. Þá æfði ég (í alvörunni) fimleika af kappi, og til þess að verða betri, þá stillti ég vekjaraklukkuna mína klukkan sex á hverjum degi, til þess að gera magaæfingar, armbeygjur, æfingar fyrir lærin og ýmislegt annað, áður en ég þyrfti að fara í skóla.

Eitt sinn tók ég upp á því að vera grænmetisæta. Hafði örugglega lesið eitthvað um grænmetisætur og ákveðið að vera eins og þær. Og ég borðaði eftir það aldrei það sem var í matinn á heimilinu. Fyrst lét mamma þetta óskipt, en svo þegar hún sá, að ég ætlaði ekki að borða það sem á borð var borið, sá að mér var alvara með þessa vitleysu, þá ákvað hún að matreiða alltaf sérstaklega fyrir mig. Og þá borðaði ég - enda aldrei verið þekkt fyrir að borða ekki. En í mörg ár þurfti mamma að setja saman sérstakan aðfangadags-matseðil fyrir mig, alveg þar til ég varð 18 ára. Þá allt í einu ákvað ég að fara að borða kjöt aftur. Bara ekki rautt. Og ekki með beinum í. Og ekki þar sem eru sinar. Og bara yfirhöfuð, ekkert kjöt, þar sem þú getur séð að kjötið hafi áður verið dýr.

Og þótt ég hafi náð að hrista alls konar áráttur af mér, þá á ég ennþá margar.... gæti verið fyndið að segja frá því seinna, en ekki núna. En í sambandi við kjötið, þá er það enn þannig, að mér finnst mjög gott að fá kjöt matreitt ofan í mig af öðrum, en það má samt ekki vera rautt. Ég lít fram hjá beinum, sinum og öðru sem fékk mig til að gubba, en bara ef aðrir sjá um að elda.

Og þannig stóð ég í kvöld, með góða nautalund, af því að sonur minn hafði óskað þess í kvöldmat í kvöld. Fyrst horfði ég á lundina og hugsaði hvort ég gæti ekki bara pakkað henni inn í álpappír án þess að gera neitt. Svo kom ég auga á þykka vöðvafestu, svo hana yrði allavega að skera í burtu, svo það gerði ég. Þá sá ég líka ýmislegt hvítt hér og þar í kjötinu, og áður en ég vissi af, þá var ég komin í mission, að skera burt allt það hvíta sem ég sá. Og ég get alveg sagt ykkur, að margt gott kjöt fékk örugglega að fjúka þar með, því ég varð að vera viss um að ég hefði skorið allt óæskilegt burt. Svo ég skar og skar og skar - af sannkallaðri áráttu og engu öðru. Þar til lítið var eftir af kjötinu....

 Mér finnst yfirnáttúrlega ógeðslegt að koma við dýrakjöt, eins og ég sagði, ég get borðað það þegar einhver annar eldar það og setur á disk fyrir mig, en ef ég þarf að sjá um undirbúninginn sjálf, já, þá er það þannig, að mig langar bara meira í ristað brauð heldur en þetta kjöt sem ég er að skera.

Og já, ég get mun frekar hreinsað upp úrgang frá mannlegum verum, skeint þeim, gripið gubbið þeirra og hugsað um á allan hátt. Ég get horft á aðgerðir þar sem hálfum innyflum er lyft út úr fólki, ég get þvegið líkum, (þ.e. dánu fólki), klætt þau og gert það sem ég þarf að gera í því samhengi, en að höndla dýrakjöt.... ég er ekki svo góð í því.... kannski af því að ég ætla mér að borða það en ekki hitt.... 

Já, svona erum við örugglega öll skrýtin á einhvern hátt..... getur vel verið að ég sé skrítnari en aðrir, en þá er ég bara stolt af því Cool


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigrún Óskars

Ég held að þú sért ekkert skrítnari en t.d. ég, þú getur allavega verið stolt af þínum sérviskum - það hafa allir einhverjar. Þetta með sokkana og flétturnar minnti mig samt á Monk (sem er í sjónvarpinu á sunnudagskvöldum - skemmtilegur karl). Ég á erfitt með að borða rautt kjöt svo ég skil þig alveg. Finnst best að meðhöndla grænmeti í eldhúsinu.

Helgarkveðjur til þín.

Sigrún Óskars, 16.5.2008 kl. 23:07

2 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

éG VIL BLÓÐUGAR STEIKUR

Hólmdís Hjartardóttir, 17.5.2008 kl. 01:00

3 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Ég ét hrátt nautakjöt með bestu list, svona buff tartar   http://www.ii2.org/user.php?nick=huxa&s=images&img=14356215  <- namm namm, í þennan rétt er notuð hrá skafin nautalund, hrá eggjarauða, hrár laukur, maltbrauð og krydd.  Ég er ekki alveg saklaus af allskonar áráttuhegðun

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 17.5.2008 kl. 01:15

4 identicon

Þegar ég var lítill var ég með svona sokka áráttuhegðun. Ég togaði alltaf sokkana fram þegar ég var búinn að fara í þá - þeir máttu m.ö.o. aldrei koma við tærnar á mér, alveg jafn langt fram hvorn sokk   Klikk!?

Hvað steikur varðar eiga þær að renna til í eigin blóði á disknum

Guðmundur Brynjólfsson (IP-tala skráð) 17.5.2008 kl. 01:31

5 Smámynd: Lilja G. Bolladóttir

Hehe, var að koma úr partýi, og bara fyndið að lesa kommentin ykkar.

Já, Guðmundur, örugglega klikk, eða allavega jafn klikk og ég. Sokkarnir voru ekki það eina sem ég var fókuseruð á..... það var bara allt.

Og þið hin.... ég get líka borðað hrátt hitt og þetta, t.d. allskonar carpattio, bara ekki ef ég þarf að matreiða það sjálf. Þá missi ég lystina... Klikk?

Lilja G. Bolladóttir, 17.5.2008 kl. 04:05

6 Smámynd: Húsmóðir

skrýtnir eru skemmtilegir

Húsmóðir, 17.5.2008 kl. 16:11

7 Smámynd: Helga Linnet

Ég hef komist að einu rosalega mikilvægu......

ÞÚ ERT SKRÝTIN

En ekkert skrýtnari en margur annar....bara sérstök.....já...og kannski líka bara einstök 

Helga Linnet, 20.5.2008 kl. 10:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband