Bloggfærslur mánaðarins, mars 2008

Og svo henti ég honum niður af bekknum....

Það er vonandi alltaf pláss fyrir skemmtilegar sögur, jafnvel sögur af slysadeildinni. Kannski eru þetta stundum svona sögur "you had to be there" en ég læt þessa samt fljóta með því það er langt síðan ég hef hlegið jafn mikið og ég gerði að þessu atviki.

Um daginn var komið með mann inn á slysadeild, sem fannst úti á götu sofandi áfengisdauða, en var einnig með ljótan skurð á höfðinu. Maðurinn var af erlendu bergi brotinn. (Nánari lýsingar óþarfar og algerlega ólöglegar!!). Okkar frábæru sjúkraflutningsmenn fluttu manninn yfir á sárabekkinn okkar á einni af sárastofunni okkar á slysó. Þar lá hann svo og hélt áfram að "sofa".

Þar sem nóg var að gera, margir sem þurftu að fá gips og fleira en ekki svo mikil "aðsókn" í sárastofuna í smá tíma, þá bjuggum við bara um manninn og settum upp grindurnar á bekknum, (svo hann myndi ekki detta út af), og sinntum því sem var meira aðkallandi akkúrat þarna.

Allt í einu kom svo hjúkka ein til mín og tilkynnti mér, að "maðurinn" minn inni á sárastofu 1, væri að detta út af bekknum, svo ég fór að tékka á honum. Hann var þá búinn að smokra sér neðar og neðar á bekkinn, og var þannig komið fyrir gæjanum þegar ég kom að, að fætur hans stóðu hálfir út af bekknum neðan frá, þannig að fætur fyrir neðan hné stóðu út af bekknum.

Við fórum þá tvö inn, ég og einn deildarlæknirinn, og reyndum að vekja manninn..... fyrst á eðlilegan hátt með því að kalla nafn hans og hrista hann og svo með "sársauka" (sérstakir staðir sem maður kemur fast við, sem eiga að vekja sársaukaviðbrögð), en maðurinn bara rétt rumskaði en aldrei nóg til þess að tala við hann.

Svo ég og læknirinn ákváðum þá, að allt í lagi væri með manninn, en betra væri ef við kæmum honum aftur almennilega upp á bekkinn, svo við hugsuðum okkur að draga hann ofar, og nota til þess lökin sem hann lá á. En til þess að við gætum gert það almennilega, væri líklega best að fá hliðargrindurnar niður á bekknum.

Og upphófst þá mikil leit mín og læknisins að réttum takka eða pinna, til að fella grindurnar niður á hliðunum.... (það eru sko örugglega til tuttugu mismunandi bekkir og græjur og maður þarf alltaf að nota hugmyndaflugið til þess að finna út úr þessum græjum.... bekkjum, hjólastólum, göngugrindum osfrv.) Mikið var að gera fyrir utan stofuna, svo í einhverju fljótræði kippti ég í einhverja græna stöng, sem ég var viss um að myndi fella niður þessar grindur. En þá, á einu sekúndubroti, féll niður neðri helmingur bekksins og maðurinn, ekki rann niður, heldur flaug niður á gólfið með fæturnar á undan. Og vaknaði, að minnsta kosti pínulítið. Nógu mikið til að segja: "Oje, je, okey, okey", og svo klifraði hann upp á bekkinn og lagðist til að sofa aftur.

Ég og læknirinn fengum þetta þvílíka hláturskast, svo við höfðum engan stjórn á hlátrinum og skellihlógum bæði.... og gátum ekki stöðvað þennan fáránlega hlátur. Maðurinn lá á bekknum, búinn að skríða upp á hann aftur, þó bekkurinn væri bara í hálfri lengd núna, og jafn óvekjandi og hann var áður, þá opnaði hann augun þarna og sagði hæðnislega: "Ja, okey, haha, haha, okey..."

Ég vonaði, að í mætti þess að hann væri bæði drukkinn og útlendingur, þá myndi hann ekki fatta hvað hefði gerst og/eða skilja af hverju við værum að hlægja, en bæði ég og læknirinn urðum að yfirgefa þessa stofu í smá stund og fá að hlægja út.

Og alltaf þegar ég sé þetta fyrir mér; þennan stóra, óvekjandi mann, sem ég, algerlega óviljandi, steypti bara á gólfið...... þá fer ég bara að brosa svolítið LoL

Það er náttúrlega algjörlega bannað að hlægja að sjúklingunum, en í þessu tilviki ákváðum við að við værum að hlægja að okkur en ekki honum, og læknirinn lýsti þessu mjög vel, þegar hann loksins gat talað vegna hláturs. Þá sagði hann: "Já, Lilja, svona er líka hægt að gera þetta....." Errm

Já, þetta er líklega svona "you had to be there"-saga, og ég vildi að ég ætti video af þessu, þar sem maður gæti "scramblað" andlit sjúklingsins en það mætti vel sjást í mig og lækninn - því oh my god, þetta var bara fyndið....


Hvenær ætlar ríkisstjórnin að vakna?

Mér finnst þetta frábært framtak hjá flutningabílstjórunum og það var sko sannarlega kominn tími til að einhver hópur stæði saman og efndi til aðgerða, þar sem það hefur sýnt sig að lítið þýðir að pípa í blöðin og útvarpið. Hvort þetta á eftir að breyta einhverju, á eftir að koma í ljós, og við verðum að vona að þessar aðgerðir muni hafa einhver áhrif.

Ég sat allavega þolinmóð, þetta eina skipti sem ég lenti í töfum vegna þessarra aðgerða, og þakkaði bara þessum bílstjórum í hljóði fyrir að gera það, sem við öll ættum að vera að gera.

Af hverju á ríkiskassinn að moka inn krónunum, núna þegar eldneytisverð er í hámarki? Af hverju á hann að græða, á meðan við öll erum að tapa? Hvers vegna getur ríkisstjórnin ekki sett bráðabirgðalög og tekið krónutölu af hverjum seldum líter í stað prósentu, og þar með stuðlað að lægra verði á eldsneyti og olíu? Þessum opinberu gjöldum af eldsneyti er væntanlega ætlað til þess að mæta kostnaði vegna mengunar, svifryks, við gatnagerð, malbikun og fleira í þeim dúr, en ég held að það þurfi engan snilling til að skilja það, að bílarnir menga ekkert meira þótt bensínið sé dýrara. Og þeir slíta ekki götunum meira þótt líterinn kosti þrjátíu krónum meira - bíll er bíll og úrgangurinn úr honum er sá sami þótt hann keyri fyrir dýrara brennsluefni.

Af hverju á rískisjóður að græða á því, að heimilin séu að blæða fyrir hærra olíverð ofan á ömurlegt efnahagsástand, sem meðal annars er ríkisstjórninni að kenna?? Þeir tala alltaf um að það verði að hjálpa bönkum landsins, sem moka inn stórfé í vexti, ýmiskonar kostnað og seðilgjöld af okkur almenningi - en hvenær ætla þeir að grípa til aðgerða sem munu hjálpa þeim mörgu heimilum sem eru nú þegar í vanda, og þeim sem sigla hraðbyri niður á við???

Spyr sá sem ekki skilur þetta aðgerðarleysi hjá ríkisstjórninni..... og veit ekki hvort hún styður svona stjórn í næstu kosningum.....


mbl.is „Ráðamenn vakni"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Life is good :-) ....þrátt fyrir yfirvofandi kreppu!

Þegar ég kom heim úr vinnunni áðan, var ég í góðu skapi. Það er gaman í vinnunni minni, þótt það sé brjálað að gera alla vaktina, ég á frábært samstarfsfólk úr öllum stéttum, sólin skín (þótt það sé skítkalt), ÍR vann Víkinga í dag 4-3 (í flokki sonar míns, sem ég bara get ekki munað hvort er 4. eða 3. flokkur....Blush ) - og sonur minn skoraði ÞRENNU(!), ég og Mr. K. ætlum út í kvöld og svo ætla ég að hitta tvær frábærar hjúkkur á einni ölstofunni og fá mér einn-tvo drykki með þeim áður en ég fer heim og hef það ennþá meira skemmtilegt með The K-man. 

Þannig að þegar ég var búin að "ordna" allt þetta venjulega, kattasandinn, uppvaskið, vökva blómin og pússa glerið í eldhússkápunum, tók ég eitt sóló með sjálfri mér, svona a-la-Lilja. Opnaði mér bjór og setti svo græjurnar í botn. Setti fyrst Space Oddity með David Bowie á þrisvar sinnum og söng háu röddina með allan tímann, á meðan ég dansaði líka eins og brjálæðingur um stofugólfið. Svo hlustaði ég á, og dansaði við, Bend and Break með Keane, sem er frábært gleðilag í mínum huga. Næst rauk smá techno í spilarann, með viðeigandi nostalgíu og á meðan ég var að dansa við það, þá rauk mjög sterk, skemmtileg og góð tilfinning í gegnum líkama minn..... sem sagt, "Vá, hvað ég er hamingjusöm!" LoL Akkúrat þarna var ég himinlifandi hamingjusöm og það var ekkert sem gat skyggt á þá hamingju. Ég fann svona gleði-, ánægju- og hamingjustraum fljúga í gegnum mig. Og ég stoppaði sko til að njóta hans Tounge

Og þá fór ég að hugsa, að það er einmitt svona stunda sem við eigum að njóta. Nógu oft erum við með áhyggjur af einhverju, að stressa okkur yfir einhverju öðru, fúl yfir einhverju þriðja eða öllu saman, hugsandi hvað líf okkar er erfitt Cool eða eitthvað þess háttar. Auðvitað er lífið aldrei bara auðvelt og okkur finnst við stundum kannski bara vera að hlaupa í súra hringi í sama farinu og sama tilgangsleysi og hundur eltir skottið á sér. Sá sem væntir stöðugrar hamingju í sínu lífi, verður ábyggilega alvarlega fyrir vonbrigðum með lífið. En þegar svona augnablik koma, þar sem maður virkilega finnur, að maður er bara nokkuð ánægður með allt..... og meira að segja svo ánægður, að manni dettur ekkert í hug sem gæti eyðilagt þetta moment of happyness þá á maður að muna að hnippa í sjálfan sig og segja: "Akkúrat núna er ég hamingjusöm/samur."

Nágrannarnir hata mig örugglega og kötturinn er skíthræddur, en mér er alveg sama, ég ætla að halda áfram að dansa við háa músik, dansa inn í sturtu, dansa út á lífið í kvöld, fagna góðum degi, góðri fjölskyldu, góðum vinum..... og góðu lífi Tounge 

Því Life is good, þrátt fyrir yfirvofandi kreppu og allt annað.....


Vesen með þvagblöðruna :-)

Ég er búin að uppgötva það, að það er ekki vekjaraklukkan sem ég vakna við á morgnana, heldur þvagblaðran mín. Þessa merku uppgötvun gerði ég í morgun, en þá svaf ég næææstum því yfir mig. Ástæðan var augljós, fannst mér, því ég hafði vaknað til að pissa kl. hálf sex um morguninn og því var ekkert sem ÞRÝSTI á mig þegar ég þurfti að vakna um klukkutíma seinna. Og klukkan dugði ekki til.

Þegar ég fór að hugsa málið, þá rifjaðist það upp fyrir mér, að í þau skipti sem ég hef vaknað of seint og verið tæp á tíma á morgnana, hef ég alltaf vaknað einhvern tímann um nóttina til þess að tæma blöðruna.

Svo nú, ofan á þá ákvörðun mína um svefntímann, þá þarf ég að finna leið til þess að hafa blöðruna mátulega fulla rétt undir klukkan sjö á morgnana, en ekki klukkan hálf sex.

Ég mun nefna þetta projekt "þvagblöðruverkefnið" mitt.

Árangurinn mun koma í ljós Wink


Ætti maður/kona að fara fyrr að sofa???....

Nú er ég aldeilis ákveðin, héðan í frá verður farið að sofa fyrir miðnætti! Um áramótin gerði ég þessu fínu heit (í hljóði, en límdi þau á örbylgjuofninn til vonar og vara); 1)fara snemma að sofa; 2)drekka meira vatn; 3)borða meira af ávöxtum; 4)gera magaæfingar.

Ég get ekki sagt að ég hafi haldið neitt af þessum áramótaheitum ennþá, en í gær horfði ég á þáttinn 60 minutes á Stöð 2, og þar var mjög svo athyglisverð frétt um svefn og svefnrannsóknir. Þar voru tekin viðtöl við lækna, sem voru að rannsaka svefn og áhrif of lítils svefns á okkar ónæmiskerfi og vitræna kerfi.

Í stuttu máli; þá er skammtímaminni okkar verra og verra því fleiri tímum af svefni sem við missum af. Það er búið að sanna það, að sofi fólk tveimur klst styttra en ráðlagt er, (7-8 tíma á sólarhring - samfellt (!)) nokkrar nætur í röð, þá gefur heilinn samskonar skilaboð og hann gefur hjá mörgum með geðtruflanir. Þ.e. að heilinn "feilar" á því að senda ýmis boðefni til framheilans, ef við erum þreytt, og gætum við því alveg sýnt einkenni þess að vera með framheilaskaða. Við verðum geðstirð, höfum minni kynhvöt, viðbragðshæfni okkar minnkar MJÖG mikið (ég vísa hér í framtakið "15 mínútur" hérna á Íslandi), geta okkar til að meta hluti réttilega minnkar og áhugi okkar á þeim efnum sem við erum að fást við dalar. Þetta eru bara nokkur af þeim atriðum, sem komu fram, en þar var farið yfir 2-3 rannsóknir fræðimanna á svefni, djúpsvefni, skorti á svefni og/eða truflunum á svefni.

Ekki minna mikilvægt er, að innkirtlasérfræðingar í Chicago hafa sýnt fram á það, að sé fólk vansvefta, er það meira svangt. Það borðar meira, vegna þess að ákveðin boðefni í heilanum senda stöðugt skilaboð sem "segja": "fylla mig, borða, fylla mig, er svangur...... " osfrv. Þannig að vansvefta fólk borðar meira en aðrir og oft án þess að vera svangt, af því að heilinn sendir þeim röng skilaboð. Ég (og örugglega allir sem þekkja mig), kannast við þetta, því ég er síétandi (þótt það sjáist ekki á holdarfarinu.... ennþá). En þetta hefur leitt til þess, að æ fleiri greinast með sykursýki af týpu II, sem áður fyrr greindist bara hjá öldruðum, offeitum og fólki með sterkum erfðavísum. Sérfræðingar segja, að fólk sem sofi minna en því sé ætlað, mæti oftar einhverri lífeðlisfræðilegri þörf með því að borða en sofa (þ.e.a.s. að bæði sendir heilinn röng boð og líka borði þeir stundum til að bæta upp fyrir þá þreytu sem þeir upplifi). Þar að auki brenglast ýmis önnur lífeðlisfræðileg starfsemi og fólk hættir að vinna úr sykri eins og það á að gera, og þar af leiðir að við erum komin með faraldur af fólki með sykursýki II, alveg eins og hinn vestræni heimur er að leiða af sér faraldur af offitu.

Í þættinum fengum við að fylgjast með "rannsóknar-fórnarlömbunum" og hvaða áhrif skortur á svefni hafði á þau, en eins tók hún Leslie, fréttaskýrandinn í 60 minutes, þátt í smá rannsókn, þar sem hennar minni, viðbragðshæfni og annað var kannað - og niðurstöðurnar voru hreint út sagt sláandi!!!

Bottom line-ið var, að ef líkaminn, menn og dýr þörfnuðust einskis svefns, af hverju væri "þróunin" þá ekki búin að eyða þessarri svefnþörf. Af hverju leggst öll veröldin af verum í meðvitundarlítinn dvala, sem skapar þeim hættu..... ef líkami þeirra hefði ekki þörf fyrir það? Við höfum þróast í ýmsar áttir, en við höfum aldrei þróast frá syfju og þreytu eða þörf fyrir að sofa...... svo eitthvað point hlýtur að vera í þessum svefni......

Ég allavega tók þetta pínu alvarlega..... ég meina, ef ég í mínu starfi er að missa viðbragðshæfni vegna svefnvenja minna, eða ef ég er svona löt kannski og áhugalaus vegna svefnvenja minna...... man ég kannski ekki það sem mamma var að segja mér í gær, vegna þess að ég er búin að sofa svo lítið síðustu ár??? Mér fannst ég alvarlega þurfa að hugsa um eitthvað.....

Mér reiknast til, að ég hafi meira og minna verið vansvefta, (skv. skilgreiningu þeirra í USA) frá því að ég var 17 ára. Það gerir sem sagt 18 ár, hvorki meira né minna, sem ég hef sofið aðeins 6 tíma á sólarhring. Vissulega hef ég tekið tarnir og bætt þetta svefnleysi upp, með því að sofa stundum 12-14 tíma eftir næturvaktir, en samt..... samkvæmt þeirra skilgreiningu, þá á maður ekki að geta bætt svefn upp, ekki til langstíma að minnsta kosti. Og ef ég er langsvefnvana, upp á næstum 20 ár, á ég mér þá viðreisnar von? Er ég ekki bara varanlega greindarskert, illa haldin og minnislaus?

Ég verð nú að viðurkenna, að ég tek ekki mark á mörgu sem kemur frá USA, og sérstaklega ekki frá stöð sem á líf sitt undir fjárframlögum og auglýsingum. En samt sem áður fékk þessi þáttur mig til þess að hugsa aðeins um minn lífsstíl og hátterni..... kannski er eitthvað til í því að maður eigi að sofa 7-8 tíma á sólarhring. Kannski er maður aðeins betri í sínu daglega starfi og andlega atgervi ef maður fær betri næturhvíld?

Svo ég ákvað það, að þar sem ég hef nú yfirleitt ekki neitt sérstakt að gera eftir miðnætti, þ.e. þá daga sem ég er ekki að vinna eftir miðnætti.... þá mætti nú alveg láta reyna á þessa kenningu. Svo frá og með í gær, þá fer ég í rúmið fyrir kl. 24 á hverju kvöldi. (Sonurinn hélt að hann væri að missa vitið, þegar ég var mætt upp í rúm fyrir kl. 23 í gærkvöldi - svo alvarlega tók ég þessa frétt!). Ég ætla að verða afburða skýr, með gott minni, frábært skap og þolinmæði og ekki vott af þunglyndi. Ég ætla að prófa þetta í nokkrar vikur, og passið ykkur bara, ef þið sjáið mig hoppandi af gleði og orku á Laugaveginum..... já passið ykkur virkilega líka á djamminu, því ég mun muna ykkur og allt sem þið segið og gerið!!!

Já, bara í það heila, passið ykkur..... because I'll be watching, hearing you and remembering everything!! LoL

OOOooog..... nú er ég að renna út á tíma.....

Góða nótt!!


EFTIR-fermingu-tíminn runninn upp.....

Jæja, langir og góðir páskar búnir og ég var í fríi næstum allan tímann - fyrir utan fermingu sem heppnaðist ótrúlega vel á skírdag Smile Allt small vel saman; kirkjuathöfnin, matur, gestir, húsrými..... og auðvitað gjafirnar (séð frá bæjardyrum sonarins). En mikið var ég fegin þegar þetta allt var búið.

Ég gerði mér grein fyrir því, að ég var búin að búa til mitt eigið tímatal, sem kallaðist fyrir og eftir fermingu. Sem sagt, margir hlutir sem ég ætlaði að takast á mínar hendur EFTIR fermingu, og margar bækurnar sem ég ætlaði að byrja að lesa EFTIR fermingu, vinirnir sem ég ætlaði að hitta EFTIR fermingu og matarboðin sem ég ætlaði að halda EFTIR fermingu. Og nú er EFTIR komið, en ég er ekki enn byrjuð að lesa, sortera myndir í framköllun, bora í veggi fyrir myndum né farin út að hlaupa Frown

Reyndar var fjölskylda mín svo vinaleg við mig, að þau stungu mig öll af yfir páskana. Gamla settið og bróðirinn fóru að hlusta á Eagles í London (bara öfundsjúk!!) og systir mín og hennar skæruliðar eru í sólarfríi á Madeira. En ég efndi þó eitt EFTIR-fermingarheit og bauð góðum vini og syni hans í mat til okkar á páskadag. Og ég verð bara að segja að það heppnaðist ansi vel..... þótt ég hafi uppgötvað á miðjum páskadegi, að borðstofuborðið mitt var reyndar ennþá í foreldrahúsum eftir fermingaveisluna og þar sem ég á ekki jeppa til að ferja borðið á milli húsa, þá var farið niður í geymslu, gamla eldhúsborðinu dröslað upp í íbúð og dekkað upp.... og það kom bara ágætlega út líka, þótt það hafi verið ansi þröngt um matinn á því Tounge

Við mæðginin fórum í bíó á föstudaginn langa og sáum loksins Brúðgumann. Ég á varla orð til að lýsa því hvað ég var hrifin af þessarri mynd. Umhverfið (Flatey á Breiðafirði) er náttúrlega bara æðislegt, leikurinn og flestir leikarar stórkostlegir, sagan góð og svo var hún bara helvíti fyndin líka..... og ég hló svo mikið yfir mörgum atriðum, að sonurinn var farinn að hálfskammast sín fyrir kellinguna, mömmu sína Blush

En svo rann páskahelgin sitt skeið á enda og alvara lífsins tók aftur við, og þá er maður ekki lengi að renna ofan í sama gamla farið. En ég mun bara dvelja stutt í farinu í þetta skiptið, því nú er farið að vora og ég er farin að skipuleggja sumarið og fríið - og þá verður maður líklegast líka að koma sér í smá form, svo ég hef trú á því að vetrardrunginn sé að sleppa af mér takinu Tounge..... I can feel it, loksins......


Kannski líknardráp??

Loksins er ég ekki að fara að sofa seint, heldur að vakna of snemma!!!! Who would think.....?? Reyndar ekkert gott við það að segja, nema það að ég náði fréttum gærdagsins núna, á stöð 2 í morgunsjónvarpinu, þ.e. endursýningu á fréttum gærdagsins.

Og svo sem ekkert fréttnæmt þar.... ekkert fram yfir þetta venjulega.... ef þú hefur ekki áhuga á forsetakosningum í USA, hentihjónaböndum ofl., þá er reyndar ekkert því til fyrirstæðu að fara að sofa aftur.

Nema, skrýtið..... ef maður á ekki að mæta í vinnu, þá er maður alveg til í að vakna á þessum tíma.... en ef ég ætti að fara að vinna eftir klukkutíma, þá myndi ég næstum gefa útlim fyrir lengri svefn.

Nema, bíddu við. frönsk kona lést eftir að hafa beðið um líknardráp!!!

Oh, well, það er of snemmt liðið á daginn til að ræða þetta - ég ætla að sofa á þessu máli, en á morgun þá ætla ég líklega að taka fyrir málið líknardráp.....

Kannski þá.....


Fyndin atvik á slysadeild.....

Okey, bara engan tíma haft til að blogga.... fermingarundirbúnigurinn á viðbúnaðarstigi 4, Mr. K. tók lengri tíma um helgina en reiknað var með og svo er mín búin að vera veik síðan á fimmtudag, samt án þess að missa dag úr vinnu- og/eða social lífi, bara á sýklalyfjum, nefspreyi og Panodili. Samt ennþá snörlandi og hóstandi með góðu bragði Errm Og svo bilaði músin, á glænýju flottu tölvunni minni ...... var bara alveg föst einhversstaðar á miðjum skjánum og ekkert hægt að hreyfa hana, svo það þurfti að grípa til aðgerða þar ofan í allar aðrar aðgerðir.

 Ætla ekkert að fara nánar út í neitt af ofangreindu, en ætla í staðinn að láta fljóta með nokkrar fyndnar athugasemdir sem féllu á "slysó" á síðustu dögum.....

1.) Eldri maður kemur inn í fylgd sonar síns. Maðurinn er með mjaðma"protesur" báðum megin, sem þýðir það, að hann hefur fengið gervimjaðmarlið settan í báðum megin. Snillingurinn ég, er að taka sjúkrasöguna hans, og segi við hann eins og ekkert sé sjálfsagðara: "Já, svo þú ert með GERVILIM báðum megin...... "

Veit ekki hvort gamli maðurinn heyrð þetta, en sonur hans gerði það allavega..... og sendi mér nokkuð skrýtið augnaráð..... Blush

2.) Deildarlæknir einn á slysó, með nokkurra ára starfsreynslu þar, var greinilega með hugann annars staðar, þegar hann sagði við einn sjúklinginn sinn: "Ég myndi vera svo GRAÐUR ef þú myndir snúa þér á hægri hliðina"...... LoL

3.) Og svo var það hæglátasta hjúkkan af okkur öllum, sem labbaði fram á biðstofu slysadeildarinnar til þess að kalla inn sjúkling, sem var af karlkyni og líka af eldra taginu. Hún rétti fram höndina til þess að heilsa honum, en hann sá það ekki, svo hún ætlaði að árétta það hátt og skýrt að hún vildi taka í SPAÐANN  á honum, en sagði til allrar óhamingju: "Ég ætlaði bara að fá að hrista SKAUFANN á þér!" LoLGrin

Já, Það er oft gaman í vinnunni og mikið hlegið að mörgu......

Þangað til seinna.....

 


Farið nú með skít og skömm og komið aldrei aftur, tíkurnar ykkar!!!

Auðvitað ætlar Anna Stefánsdóttir hjúkrunarforstjóri Landspítalans, bara að auglýsa eftir erlendum hjúkrunarfræðingum, verði staðan sú, að aðeins standi eftir um 20 hjúkrunarfræðingar á skurð-, svæfinga- og gjörgæslusviði LSH, eins og allt stefnir í núna.

Þetta er alltaf viðkvæðið hjá henni, mótmæli hjúkrunarfræðingar spítalans einhverju: "Fariði bara ef þið eruð óánægðar, ekki skulum við stjórnendur gera neitt til að koma til móts við ykkur eða gera eitthvað sem mætti draga úr óánægju ykkar. Farið þið bara, við fáum bara erlenda starfskrafta í staðinn!" Eftir allt sitt fórnfúsa starf á gólfum spítalans, endalausa yfirvinnu, manneklu sem býður "hinum" upp á að vinna á við tvo, endalausar símhringingar heim til fólks og truflanir, áreiti, óvilji til að gera vel við sitt fólk, sem þó heldur alltaf áfram að vinna sín störf vel og af samviskusemi, þá fær það ekki einu sinni vinalega kveðju þegar það hættir störfum á spítalanum, heldur bara blauta tusku í andlitið, fokkmerki og skilaboð um það, að það skipti spítalann hvort sem er engu máli hvort þú ert þarna í starfi eða ekki. Það má auðveldlega skipta þér út fyrir Pólverja.

Þetta er nú öll virðingin sem stjórnendur LSH bera fyrir starfsfólki sínu. Þá gildir einu þótt þarna sé um að ræða næstum því hundrað frábærlega hæfa hjúkrunarfræðinga, margir hverjir með áratuga reynslu á sínu sviði og enn fleiri með sérmenntun, diploma- og mastersnám í sínum fræðum. Þessa reynslu, þekkingu og hæfni telur Anna Stefánsdóttir ekki sem mannauð og skilur alls ekki að glatist þessi mannauður, glatar spítalinn miklu meira en þessum "stykkjum" af hjúkrunarfræðingum. Ég held reyndar að stjórnendur LSH viti ekkert hvað mannauður er eða yfirleitt hvað þetta orð þýðir. Þeir halda virkilega, að þeir geti flutt inn danska, sænska, pólska og filippínska hjúkrunarfræðinga og sett þá í stöður þessara hjúkrunarfræðinga, og allt muni halda áfram eins og áður. Mjög líklega mun brottfall af hæfu fólki í þessum stærðarflokki líka hafa áhrif á ánægju læknanna, sem starfa á sviðinu - og ætla stjórnendur spítalans líka bara að vinka þeim bless og jafnvel gefa þeim fokkmerkið á eftir, sem jafnan er attitudið þegar fólk yfirgefur spítalann?

Eða sjúklingarnir og aðstandendur þeirra? Gerir almenningur sér virkilega grein fyrir því hvað þessar uppsagnir þýða? Ég skal segja ykkur það. Ef þú þarft að fara í hjartaaðgerð, munt þú sem sagt ekki hafa hæft hjúkrunarfólk með reynslu til aðstoðar í aðgerðinni sjálfri. Það mun heldur ekki vera íslenskumælandi hjúkrunarfræðingur sem sér um lyfjagjafir þínar í svæfingunni, stjórnar öndunarvélinni á meðan þér er haldið lifandi með vél, skilur kannski ekki fyrirmæli svæfingarlæknisins nógu fljótt og/eða vel ef það þarf að bregðast hratt við í bráðum aðstæðum, sem vissulega geta komið upp á í aðgerðum. Á gjörgæsludeildinni, þar sem sjúklingar dvelja fyrst eftir hjartaaðgerðir, munt þú ekki hafa íslensku talandi hjúkrunarfræðing sem hjúkrar þér, veitir þér andlega og líkamlega umönnun, hefur þitt líf í sínum höndum, sér um að bregðast hratt og rétt við ef ástand þitt versnar eða þú allt í einu lendir nálægt því að vera við dauðans dyr (sem að sjálfsögðu gerist oft á dag á gjörgæsludeildunum!), og þessi hjúkrunarfræðingur mun heldur ekki geta gefið aðstandendum þínum fullnægjandi upplýsingar um þína stöðu og gang mála. Ofangreint dæmi miðast að sjálfsögðu við það, að frú Önnu TAKIST  að manna allar þessar stöður með útlendingum, ef henni tekst það ekki, já, þá erum við virkilega í vondum málum. Því án þessarra hjúkrunarfræðinga verða ekki framkvæmdar margar aðgerðir og það verður ekkert starfsfólk til að taka á móti þér á gjörgæslunni. Hvort sem þú þarft á gjörgæsluvist að halda eftir aðgerð eða önnur alvarleg veikindi, þá verður hún einfaldlega ekki í boði. Og eins manneklupíndar og hinar almennu legudeildir eru, þá er ekki líklegt að þú sem MJÖG veikur einstaklingur, sem þyrftir á gjörgæsluvist að halda, fengir viðeigandi hjúkrun og umönnun á hinum almennu deildum þessa frábæra sjúkrahúss.

Ég verð nú bara að segja, að ég skil ekki af hverju Anna Stefánsdóttir er ennþá í starfi á spítlanum. Hún er illa liðin af meirihluta hjúkrunarfræðinga LSH og er dæmi um fræðing, sem snýst gegn sinni stétt og gerir henni allt sem hún getur til miska, um leið og hún var komin með stól undir sinn afturenda. Ég skil heldur ekkert í því, að fyrst konan er þarna í starfi, af hverju hún er þá titluð hjúkrunarforstjóri, því ekki virðist hún bera hag hjúkrunar sjúklinga á spítalanum fyrir brjósti og svo sannarlega ber hún ekki hag hjúkrunarfræðinganna fyrir brjósti. Ég get alls ekki í mínum villtustu fantasíum ímyndað mér, fyrir hverra hagsmuni Anna Stefánsdóttir vinnur..... getið þið??


vantaði aðeins á síðustu færslu :-/

sá að hluti af síðustu færslu hafði dottið út....

Ætlaði bara að segja,að ekki einu sinni mér, sem finnst gaman að lifa hátt stundum, finnst sjálfsagt að gera eitthvað svona, sem greinilega er búið að prenta inn í höfuðið á óhörnuðum unglingum.

Hvað vilja þau þá þegar þau verða 17 og fá bílpróf, eða 18 og ná einhverjum öðrum áfanga, tvítug og fá stúdentspróf, og vá, eigum við bara eftir að hafa efni á því að þau gifti sig???

Spyr móðir, sem blöskrar stundum brjálæðið í samlöndum sínum....


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband