14.6.2008 | 23:57
Ertu að fokking kidda mig???.....
Við mæðginin erum stödd í Barcelona, erum hér á öðrum degi. Í gær fórum við út seinni partinn, bæð íklædd einhverskonar peysum og vorum svo að grillast í þeim, fórum úr og létum þessar peysur sem við þurftum að hafa í eftirdragi, pirra okkur það sem eftir lifði kvölds.
Í dag sagði ég því við einkasoninn, að við skyldum skilja blessuðu peysurnar eftir heima, jafnvel þótt það væri hálfskýjað. Ég sagði honum að það væri heitt samt. Svo út fórum við peysu- og jakkalaus, ég meira að segja ermalaus. Þegar við vorum búin að ganga smá, sitja á veitingastað og fá okkur kalda drykki, var mér orðið kalt, svo ég hugsaði með mér, að ég þyrfti bara að stökkva einhversstaðar inn og kaupa mér eina slæðu til að bregða yfir axlir og bak. Við gengum búð, úr búð í búð, og aldrei fann ég neitt sem minnti hið minnsta á slæðu. Af einhverjum ástæðum var ég búin að stilla höfuðið inn á slæðu og sá því ekki möguleikann í því að kaupa mér litla skyrtu, gollu eða jakka.... slæða skyldi það vera, en enga slæðu fann ég. Við þrömmuðum áfram og mér fannst vindurinn í Barcelona verða kaldari og kaldari, og örvænting mín jókst, því við vorum hvergi nærri á leið heim. Þá gengum við fram á Burberry búð og ég hugsaði í einfeldni minni; .... ef einhversstaðar eru til slæður, þá er það í Burberry..... svo inn gengum við og gengum beint fram á heilt borð af slæðum og treflum.... (skyldi vera stór markaður fyrir trefla í Barcelona???).
Ég vildi ekki þessar týpisku brún-rauðköflóttu Burberry-slæður, því mér finnst þær einfaldlega ljótar, og vil heldur ekki ganga um eins og lifandi auglýsingaskilti fyrir ákveðna vöru, svo ég valdi mér eina ákaflega fallega, hárauða með gullþráðum í.... tók mig samt innan við eina mínútu að velja, enda ætlaði ég slæðunni ekki stórt og mikið hlutverk í lífinu, valdi hana meira í stíl við outfit dagsins heldur en af praktískum ástæðum til framtíðar. Ég sagði við soninn, að ég vissi að hún væri örugglega rándýr, en ég væri desperat af kulda og ég bara YRÐI að eignast eitt stykki slæðu áður en við héldum áfram með dagsplanið. Greip þess vegna slæðuna, án þess að kíkja á verðið, (viljandi), og gekk að afgreiðsluborðinu til að borga fyrir lifesaverinn. Mér var vel tekið, afgreiðslumaðurinn hneigði sig fyrir mér, pakkaði slæðunni inn í silkipappír, setti í voða fínan poka og batt slaufu á hann, slaufu úr silki. Pokinn kyrfilega merktur Burberry . Ég horfði á athafnirnar, mjög svo þolinmóð.... eða þannig..... hugsaði bara; get ég ekki bara fengið helv... slæðuna and that´s it!!... Ætlaði hvort sem er að rífa hana beint upp úr pokanum og slá henni um axlirnar....
En hann gaf sér góðan tíma, renndi svo kortinu mínu í gegnum vélina sína og rétti mér kurteisislega kvittunina til að skrifa undir. Ég hafði ekki hugsað mér að líta á verðið, en gerði það óvart samt. Og ég get sagt ykkur, að mér varð ekkert meira kalt eftir það. Ég kvittaði, beið svo spennt eftir að fá kampavínsglas með herlegheitunum, en fékk ekkert. Svo ég labbaði hnípin út og hugsaði hvern andskotann ég væri búin að gera. Hjartað barðist svo ótt að mér var heitt í marga klukkutíma á eftir, ég tók aldrei slæðuna góðu upp..... enda fór sólin að skína aftur, fljótlega eftir að ég hafði borgað 245 FOKKING EVRUR FYRIR EINA FOKKING SLÆÐU!!!
Strákurinn hló að mér eins og brjálaður og ég sagði honum að halda kjafti. Svo sneri ég upp á handlegginn á honum og kleip hann, (djók), og hótaði honum öllu illu ef hann segði ömmu sinni, sem sagt mömmu minni frá þessu (ekki djók). Ég sagði honum hins vegar að hann myndi svelta næstu dagana vegna þessarra asnalegu kaupa móður hans. Ég lét hann samt ekki svelta í kvöld, það byrjar á morgun...
Við fórum svo að skoða Dómkirkjuna, tókum fullt af myndum og ég passaði mig sko vel á því, að hafa hinn rándýra Burberry -poka með á myndunum. Í hvert skipti sem sonurinn smellti af, spurði ég hann hvort pokinn væri ekki örugglega með á myndinni, enda reiknast mér til að pokinn einn sé stöðutákn, sem kosti örugglega 4.000 kr. í það minnsta. Eins gott að sýna það eins mikið og ég get, af því að ég er merkja- og stöðutáknafrík með meiru
Núna stendur pokinn fíni, með slæðunni flottu, á gólfinu í hótelherbergi okkar mæðgina.... ég vonast til að geta skilað þessum verstu kaupum sem ég hef gert á ævi minni, en ef ekki..... djöfull skal ég skarta mikið rauðu um hálsinn næstu tíu árin eða svo!!! Ekki af því að mér leiðist fallegir hlutir, en ég þoli ekki hluti sem eru dýrir bara af því að þeir eru merktir ákveðnum framleiðanda. Ég þoli ekki merkjavöru bara vegna þess að hún er merkjavara..... ég hefði getað keypt mér fimm skyrtur í H&M, eða tvenna jakka í Zöru eða tvennar gallabuxur í Miss Sixty fyrir þennan pening..... en ein helvítis asnaleg slæða fyrir 24..... ég get ekki einu sinni sagt upphæðina til enda....
P.s. ....þess skal getið, bara til að gera smán mína enn stærri, að ég keypti mér mjög sæta slæðu/hálsskraut í sölubás fyrir utan dómkirkjuna, sem kostaði aðeins 5 EVRUR (!!!) - og er miklu flottari en þessi rándýra Burberry-fokking-slæða....
Athugasemdir
Mikið rosalega er ég sammála syni þínum -> !!!!!
Ég "vorkenni" þér þó líka smá, leiðinlegt að lenda í þessu, en samt ótrúlega týpískt eitthvað. Dýr föt eru oftast nær ekkert betri en þau sem eru ódýrari, ótrúlegt, en þetta er staðreynd!
Eigið góða daga þarna í Barcelona
Róslín A. Valdemarsdóttir, 15.6.2008 kl. 00:06
oOho tæpar 30.000 krónur fyrir eina slæðu Vonandi getur þú skilað henni og fengið endurgreitt Góða skemmtun í fríinu ykkar.
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 15.6.2008 kl. 00:11
Ég er í kasti. Ég var nærri búin að gera það sama úti í London í janúar inni í lúxusbúð. Var að fara að borga yndislegu rauðu ullarslána (kasmír) þegar mér var litið á verðmiðann. 200 pund takk fyrir kærlega.
Jenný Anna Baldursdóttir, 15.6.2008 kl. 00:23
245x121 er = 29.645
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 15.6.2008 kl. 00:48
ojbarasta!
Svona mikið fyrir eina slæðu, er hún ekki með ekta gullþráðum, allavega silki???
Róslín A. Valdemarsdóttir, 15.6.2008 kl. 00:56
Já, já, Jóna..... just rub it in.....
Ég var ekki búin að reikna þetta svona nákvæmlega, hélt að þetta væri cirka 25.000 kr. og fannst nóg um, en þú alveg ferð með þetta. Ef ég væri alkohólisti, þá myndi ég segja að þetta væri allt þér að kenna!! .... (af því að þeir kenna alltaf öllum öðrum en sjálfum sér um allt sem þeir gera miður í lífinu, sko.....)
Ég er að skammast mín og mun skammast mín alveg þangað til á morgun, svo nenni ég ekki meir. Lífið er of stutt til að velta sér upp úr "gömlum syndum".... vona samt að ég geti skilað helvítis druslunni.....
Lilja G. Bolladóttir, 15.6.2008 kl. 01:00
....og já Jenný, ég er líka í kasti.... köstum, loftköstum, næstum því uppköstum yfir þessarri heimsku minni.....
Jóna.... er búin að svara þér....
Og Róslín, nei nei, elskan mín, ekki einn einasti ekta þráður í þessarri flík.... held ég.... ég þori ekki einu sinni að opna pokann....!!!
Lilja G. Bolladóttir, 15.6.2008 kl. 01:14
Ef þú færð henni ekki endurskilað, þá verðuru bara að selja hana á svörtum markaði, og selja hana a.m.k. á 60 þúsund krónur, hvorki meira né minna!
En mér finnst skrítið að ég hafi ekki heyrt um þetta merki, enda engin merkjafrík heldur svo það skiptir voða litlu
Róslín A. Valdemarsdóttir, 15.6.2008 kl. 02:32
Bara skila bullinu og halda áfram með "merkjalaust" líf þítt humm... en er hægt að skila svona?
Góða daga í Barcelona
Guðrún Þorleifs, 15.6.2008 kl. 05:17
.....þetta er eiginlega gott á þig.....það er greinilegt að allar hvatningar Neytendasamtakanna og fleiri um að skoða hillluverð hafa farið fram hjá þér....það á ekki bara við þegar þú ferð í Bónus...en mikið djö er ég sammála þér um þessar merkjavörur.....svo er stór hluti af þessu framleiddur á sama stað af sama fólki, í sömu vélum og merkjavörurnar....það er endalaust hægt að plata fólk með því... þetta hefur verið mjög áberandi í myndavélabransanum í áratugi og reyndar í hvers kyns rafeindavörum. Nú er það komið yfir í bílana. Kaupir Chevrolet framleiddan í Kóreu os.frv....bara að blása á þetta rugl og kaupa það ódýrast....skilaðu fokk...slæðunni....en þú veist að sólarljósið er óhollt í of miklum mæli, kveðja þarna suður úr sólinni á "klakanum"
Haraldur Bjarnason, 15.6.2008 kl. 07:23
Það sem kuldinn getur fengið fólk til að gera ;-) en þú átt alla mína samúð og ég vona að þú getir skipt þessu í eitthvað almennilegt, en ætli það sé hægt í þessari búð? Og hugsa sér, fullt af fólki á fullt af svona fötum, hvort sem það kaupir þau af efnum eða vanefnum, ég er nefnilega sammála þér að köflótta mynstrið er ekki fallegt. Eina slíkt sem fyrirfinnst á heimilinu hjá mér eru rúmföt sem dóttir mín valdi sér - í Rúmfatalagernum!
En hafðu það virkilega gott í Barcelona. Kom þangað í fyrsta sinn í góðu (slæðu)veðri í nóvember og naut þess vel. Mágur minn er búsettur í Barcelona og stór hópur tengdafjölskyldunnar og vinnufélaga þeirra fór í langa helgarferð til þessarar fallegu borgar.
Anna Ólafsdóttir Björnsson, 15.6.2008 kl. 09:02
Vertu bara ánægð með slæðuna. Svo er pokinn auðvitað fjölnota
(Þessi athugasemd var æfing í því að vera jákvæður)
Guðmundur Brynjólfsson (IP-tala skráð) 15.6.2008 kl. 09:11
Reyndi ekkert á Burberry í dag, enda sunnudagur og allar fínar búðir lokaðar. Fórum hins vegar að skoða Ólympíuleikvanginn og á Picasso-sýningu, í kláfaferð upp í fjöllin og vorum að koma "heim" af því flottasta gosbrunna- og ljósashowi sem ég hef á ævi minni séð..... (hef reyndar ekki séð þau mörg) .....þetta var geðveikt.
Á morgun ætla ég að mæta í Burberry-búðina með fína pokann og spila mig ákaflega ljóshærða, segja að ég kunni ekki að reikna í huganum og ég hafi gert stór mistök!! Vona að þau miskunni sig yfir mig, því þótt ég eigi fyrir slæðunni þá langar mig miklu meira að eyða þessum peninga í eitthvað annað og skemmtilegra.
Takk fyrir kommentin ykkar og góða nótt frá Barcó
Lilja G. Bolladóttir, 15.6.2008 kl. 22:25
ííííha....ógeðslega fyndið
Getur held ég gleymt því að fá endurgreitt en ég skil þig svooooo vel.
Helga Linnet, 16.6.2008 kl. 11:38
Good luck !! ---"ljóska"
Haraldur Bjarnason, 17.6.2008 kl. 17:49
eða....það er nú það, vonandi fórstu til Montserrat. kveðja frá Húsavík
Hólmdís Hjartardóttir, 18.6.2008 kl. 12:07
Ertu farin að ganga með slæðu?
Guðrún Þorleifs, 18.6.2008 kl. 18:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.