"She brings me to all my dark places... " .....

Það er svo undarlegt með tónlist, sum vekur hjá manni gleði, önnur sorg, enn önnur minningar, góðar eða slæmar, sumir tónar vekja upp söknuð, getur bæði verið söknuður eftir gömlum tímum eða söknuður um manneskjur, jafnvel söknuður eftir tilfinningu, og svo getur önnur tónlist stressað mann.

Ekkert af þessu ofangreindu getur lýst þeim tilfinningum sem kvikna í mér þegar ég hlusta á lagið hennar Amy Winehouse, “You know I´m no good”. Ég hef heyrt lagið öðru hvoru í útvarpinu síðustu tvö árin eða svo, eins og allir aðrir, en hef nýlega uppgötvað þetta lag á I-podinum hjá syni mínum. Og síðan hefur það orðið að áráttu minni að hlusta á lagið svona þrisvar til fjórum sinnum á hæsta styrk í eyrunum einhverntímann yfir daginn. Og það er alveg sama hvaða tíma dagsins það er, alltaf vakna sömu tilfinningarnar. Og þetta eru óþægilegar og ekki góðar tilfinningar.

Fyrir það fyrsta, þá er þetta ógeðslega flott lag, finnst mér. Frábært undirspil og röddin hennar er alveg æðisleg, eiginlega betri en geðveik. Kannski vakna þessar tilfinningar af því að hún er svo yfirlýstur dópisti og ég einhversstaðar í hjarta mínu kenni í brjósti um hana, en einhvernveginn finnst mér þessar tilfinningar koma dýpra frá. Ég get bara lýst þessum tilfinningum með þessum frasa; “She brings me to all my dark places.”

Og það er þannig, þetta lag lætur mér líða ömurlega á einhvern ótrúlega góðan hátt, á sama tíma og mér finnst það ógeðslega flott.

Á einhvern óskiljanlegan hátt upplifi ég ótrúlega margar neikvæðar tilfinningar, kenndir og minningar þegar ég hlusta á þetta lag, það hellist yfir mig einhver einmanaleiki, mér verður kalt, ég fæ hjartslátt og mér líður eins og ég sé drukkin á einhverjum yfirgefnum stað og rati ekki heim. Hvorki heim frá stað né stund, né frá sjálfri mér. Ég verð einhvernveginn ráðvillt og sorgmædd, eins og ég viti ekkert hver ég er eða hvað ég vilji. En bara á meðan ég hef augun lokuð og hlusta, um leið og ég opna augun hverfur tilfinningin, allavega að mestu. Svo spila ég lagið aftur, loka augunum og upplifi nákvæmlega sömu tilfinningar aftur.

Ég hef ekki minnstu löngum til að greina, hvers vegna mér líður svona við hlustun á þessu lagi. Kannski vegna einhverra gleymdra og grafinna minninga….ég var ekkert alltaf voðalega góð við sjálfa mig á sumum af mínum yngri árum…., kannski vegna upplifana í fyrra lífi, kannski vegna einhvers mjög nærverandi í dag, kannski skiptir þetta engu máli. Ég veit bara, að ég get framkallað tilfinninguna við það að hlusta á lagið og slökkt á tilfinningunni við að hlusta ekki. Svo ég slekk og verð glöð, og kveiki og verð sorgmædd og döpur, svo slekk ég aftur og verð glöð….. Og held áfram að slökkva og kveikja, slökkva og kveikja.

Masókistinn, ég, held auðvitað alltaf áfram að kveikja og upplifa það slæma…… en mikið er gott að geta slökkt aftur ….. þegar ég er búin að velta mér nógu lengi upp úr öllu þessu slæma….

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lilja G. Bolladóttir

Takk Búkolla, ég get það líka á ýmsan hátt, en ekkert lag hefur framkallað svona neikvæðar tilfinningar síðan Sinead'O'Connor með Nothing Compares to you.... kannski mínar neikvæðu minnigar liggi þar, frá árunum 1990 og....

Who knowes and who cares??

Lilja G. Bolladóttir, 11.6.2008 kl. 23:07

2 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Ég held ég skilji þig. Tónlist hefur ólíklegustu áhrif á mann. En blessunin hún Amy er stórkostleg söngkona sem ég held að við fáum ekki að njóta lengi. Hvílík sóun. Hvað ef Jim Morrison og Janis Joplin hefðu lifað...við værum svo miklu ríkari af góðri tónlist.  Djöfuls dóp...........

Hólmdís Hjartardóttir, 11.6.2008 kl. 23:10

3 Smámynd: Erlingur H Valdimarsson

Góð tónlist á að koma róti á hugsanir manns.Og stelpuskjátan er fjandi góð söngkona..Lagið Masters of War, ())Bob Dylan) er að gera það fyrir mig þessa dagana

Erlingur H Valdimarsson, 11.6.2008 kl. 23:23

4 identicon

Nú þarft þú að verða þér út um bók eftir Aristóteles sem heitir Um skáldskaparlistina. Margt af því sem þú lýsir á sér hliðstæðu í því sem hann talar um við greiningu sína á harmleiknum. Allar góðar listir geta stundum haft - og eiga stundum að hafa - þessi áhrif sem þú útlistar svo vel.  (þetta var gáfulegasti broskallinn í boði). hahahaha 

Guðmundur Brynjólfsson (IP-tala skráð) 12.6.2008 kl. 00:45

5 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Ég nota þungarokk, þegar ég er stressuð.  Það róar mig, sérstaklega Rammstein öll lögin af Mutter diskinum.  Ef ég hlusta á það frekar hátt stillt, í tölvunni eða bílnum mínum   Hverfur allt stressið.  Ég á frekar erfitt með það að hlusta á ballöður, mér leiðast þær.  En þetta lag með Amy Winehouse er náttúrulega tær snilld, það er synd hvernig stelpan hefur farið með sig. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 12.6.2008 kl. 00:50

6 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Sammála Erlingi, góð tónlist (og önnur list) á að hreyfa við manni, gera manni hluti.

Amy er ein allra hæfileikaríkasta söngkona sem komið hefur fram lengi.

Sorglegt með veikindin hennar.

Jenný Anna Baldursdóttir, 12.6.2008 kl. 08:23

7 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Tónlist er eitt öflugasta tækið sem hrærir í tilfinningum okkar og Amy Winehouse kann svo sannarlega að fara með tónlistina í miklar sveiflur. Rosalega hæfileikarík og spurning hvort hún endi eins og Keith Richards, Janis Joplin eða Clapton, það er lifi sukkið af eða ekki eða geri eitthvað í sínum málum. Vona að hún endi með að fara leið Claptons, áður en í meira óefni er komið.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 12.6.2008 kl. 17:40

8 Smámynd: Helga Linnet

Mér leið eins og Ragnar Reykás væri að predika

Mér finns einmitt Amy rosaleg söngkona en svo hrikalega illa útlítandi að maður fær nettan hroll. Kannski er það bara málið, hún er svo ógeðfelld í útliti sökum lifnaðarháttar að maður fer í einhvern sorgar gír!!!

Velti þessu bara fyrir mér

Helga Linnet, 12.6.2008 kl. 19:53

9 identicon

Ég nota tónlist oft til að magna og minka tilfinninga rússibana hjá mér líka en þetta lag með Amy Winehouse er ekki að gera neitt fyrir mig alavega þess dagana en það lag sem þú talaðir um í svari til búkollu er að gera mikið fyrir mig. 

annars langar mig til að lát hérna fljóta með link á mynd af Amy nú og þá.

http://wowee.files.wordpress.com/2007/07/winehouse_b4_after.jpg

Mr;Magoo (IP-tala skráð) 12.6.2008 kl. 23:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband