Hreinsunareldur í sálartetri í Breiðholtinu....

Þar sem framkvæmdasemi mín er ekkert til að hrópa húrra fyrir, má ég til að monta mig svolítið núna. Á sunnudaginn tók ég sem sagt upp höggborinn fína, sem ég hef horft á sl. 10 mánuði, og boraði í veggina fyrir öllum myndunum mínum..... sem ég aðeins hef haft á gólfinu í 25 mánuði!! Þetta fannst mér ansi mikið afrek, og var stolt af sjálfri mér, og ég verð að segja að ég var ekki einu sinni svo afleitur borari, ég gat meira að segja borað fyrir hlutum sem þurfa tvær skrúfur til að haldast uppi.... og gat gert það beint án hallamælis, eða hvað það nú heitir. Þetta hvatti mig til frekari framkvæmda.

Í gær byrjaði ég því daginn um hádegi, eftir mjög stuttan og snöggan svefntúr eftir næturvaktina mína, og fór í Sorpu með um það bil 8 mánaða birgðir af flöskum, dósum og glerjum, sem sonur minn hefur samviskusamlega talið reglulega, enda fær hann andvirðið inn á debetkortareikning sinn. Ýmist papparusl fékk að fljóta með, næstum því þriggja metra hár dagblaðastafli sem og fullt af fötum af einkasyninum, hjólahjálmum, strigaskóm og fleiru. Það var virkilega eins og hreinsunareldur hefði farið í gegnum geymsluna mína eftir þessa ferð.

Því næst hélt ég í verslunarleiðangur..... ætlunin var að kaupa ný húsgögn á svalirnar, og það gerði ég vissulega.... en ýmislegt annað rataði ofan í innkaupakerru mína í hinum ýmsu búðum. Hvort þetta voru allt nauðsynleg og nytsamleg kaup veit ég ekki, en ég var að minnsta kosti mjög glöð yfir þeim öllum saman, en þau spönnuðu allt frá skálum, blaðagrind og púðum til þessarra blessuðu húsgagna. Mig sárvantaði svo sem ekki húsgögn, en þar sem ég hafði kveikt í garðborðinu mínu þarsíðustu áramót, þegar ég mjög svo gáfulega setti stórt útikerti ofan á það, þá fannst mér ég eiga skilið að fjárfesta í öllu nýju - svo það gerði ég.

Auðvitað þurfti að setja borðið saman en það kláraði ég með stæl á augabragði, enda vön að setja stærri hluti saman en eitt lítið borð, til dæmis heilan fataskáp hef ég sjálf skrúfað saman.... viðurkenni þó að það tók ansi mikið á.... Cool

Svo þurfti auðvitað að sópa og skúra svalirnar og það gerði ég með gleði, og fyrst ég var stödd þarna úti með græjurnar tilbúnar, fékk gasgrillið mitt yfirhalningu. Skítugir gluggar stungu í augun, svo ég bretti upp á ermarnar og tók þá í gegn í leiðinni. Ég þurfti reyndar að hugsa mig tvisvar um áður en ég hófst í það verk, enda með fullkomnunaráráttu á háu stigi og í einu gluggaþvotta-verki felast margir hlutir í mínum augum. En ég ákvað að slá afslætti á þessa áráttu í þetta skiptið, nennti ekki að standa í gluggaþvottum í fleiri klukkutíma, og hugsaði sem svo, að hvað lítið sem ég gerði þá myndu gluggarnir allavega ekki líta verr út en þeir gerðu nú þegar. Svo einföld yfirferð var látin duga..... og kemur hreint ekki svo illa út. Getur verið að ég þurfi að breyta protokolum mínum um þetta verk.... Errm .....Leyndarmál sem ég lærði af mömmu minni við gluggaþvott, en hún er master gluggaþvottanna, er að þvo með sjóðandi heitu vatni og borðediki, og EKKI pússa yfir með Ajax (þá koma rendur), heldur bara nota sköfu til að taka vatnið af gluggunum. Í Danmörku notaði ég Husholdninsspritt í vatnið, en edik er það næstbesta, að mínu mati....

Þegar húsgögnin voru komin út á svalirnar fínu, vantaði bara sólina en hún kemur örugglega. Og svo auðvitað sumarblómin, en ætli ég geti ekki plantað þeim einhverntímann á næstu tveimur vikum.

Mér fannst ég eiginlega hafa gert nóg, en ákvað samt að halda áfram með tuskuna á lofti, og strauk tveggja ára ryk af öllum myndunum sem ég loksins hafði fengið upp á veggina. Það hreinlega ilmaði af Ajax og hreingerningu heima hjá mér í gær, alveg eins og í auglýsingunum Smile

Ég endurskipulagði skrúfu- og naglakassann, enda þannig verk í algjöru uppáhaldi hjá mér.... þ.e. að raða einhverju í hólf og skúffur. Þreif trérimlana í gluggunum, skrúfaði ýmislegt smálegt sem ég hafði trassað í lengri tíma og meira að segja grillaði gómsætan mat handa okkur mæðginum áður en klukkan sló á svefn.

Mér fannst ég sko virkilega hafa verið dugleg þessa tvo daga, og er full tilhlökkunar fyrir næstu verk, sem eru ekki minni en það að mála alla íbúðina. Hvort ég næ því fyrir Barcelonaferð okkar mæðgina, í sumar eða haust er aukaatriði, aðalmálið er að nú kvíði ég því ekki lengur. Því ég veit að ég get ef ég vil Smile

Það var sæl Lilja sem lagðist á koddann sinn í gærkvöldi, pínulítið svefnþurfi eftir lítinn svefn sólarhringinn á undan.... en sem sagt mjög sæl. Sælan var ekki eins mikil þegar vekjaraklukkan hringdi inn nýjan vinnudag klukkan 6:45 í morgun, en það hafðist. Og tilfinningin þegar ég gekk inn í íbúðina í kvöld eftir langan vinnudag, er ólýsanleg. Mér fannst íbúðin sem ný, þótt þessar blessuðu myndir sem nú eru komnar á vegg séu gamlar, en allt yfirbragð heimilisins er breytt. Svo ég fékk mér hvítvínsglas, settist í sófann minn og dáðist að verki mínu.... og í laumi að sjálfri mér Tounge


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Lilja það er til eitthvað við þessu........Þú ert ofvirk

Hólmdís Hjartardóttir, 20.5.2008 kl. 23:56

2 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Vá sú var aldeilis dugleg, ég þyrfti nauðsynlega að fá nokkur svona köst og taka allt í gegn hjá mér

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 21.5.2008 kl. 00:07

3 identicon

Þetta minnir bara á mig! - Ég bara man ekki hvenær

Guðmundur Brynjólfsson (IP-tala skráð) 21.5.2008 kl. 15:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband