15.5.2008 | 01:08
Það er komið sumar, lalalala.....
Við, á mínu heimili, elskum sumarið. Og sumarlyktin sem fyllt hefur vitin síðustu daga, hefur bara kynt undir tilhlökkunina. Gefur angan af nostalgíu sem bæði minnir mig á æskuárin, sem voru áhyggjulaus, og líka minnir þetta á öll vorin og sumrin sem við mæðginin áttum í Danmörku, þau ár sem við bjuggum þar. Þegar hægt var að kasta vetrardrunganum af sér og þar með kuldagallanum, um leið og fyrstu vorsólargeislarnir létu á sér kræla. Þá voru sandalar keyptir, pilsin dregin fram og táneglurnar lagaðar - nú var ekkert mál lengur að vakna klukkan sex og sveifla sér á hjólið með krakkann aftan á. Ljúfar minningar um mögur háskólaár, en þó mun einfaldara líf en í dag....
Það var eiginlega fyrst að renna upp fyrir mér á síðustu dögum, að febrúar er liðinn með öllum sínum snjó og leiðindaveðri, mars með fermingarstressinu er líka liðinn, apríl með sumardeginum fyrsta og afmælinu mínu floginn burtu og kominn er miður maímánuður. Vissulega hef ég rútinert skrifað dagsetningarnar á skýrslur í vinnunni dag eftir dag, 23/2, 27/2, 14/3, 16/4 osfrv., ég hef borgað reikninga á heimabankanum hver mánaðarmót en það er meira af vana heldur en að ég hafi í raun tekið eftir því hvaða mánuður er að líða hjá. Það er núna fyrst að renna upp fyrir mér, að ég stend á þröskuldinum að sumrinu. Og mér finnst það gaman.
Hvert flugu allir hinir mánuðirnir? Ég hef heldur betur verið vel pökkuð inn í vetrarhýðið mitt, því ég hef greinilega ekki gefið mér tíma né tækifæri til að kíkja út og svipast um af alvöru. En í dag skall sumarið hressilega á mér.
Í dag var hægt að vera í sandölum. Í dag var grasalykt úti, ekta sumarlykt. Og gott ef það var ekki örlítil útlandalykt líka, þar sem rakinn í loftinu var aðeins meiri en vanalega. Sólin brosti sínu blíðasta og þótt ég væri í vinnu en ekki úti að njóta veðursins, var lundin létt. Ég var hátt uppi í spítalabyggingunni í Fossvoginum og útsýnið yfir Fossvogsdalinn, Kópavoginn og Skerjafjörðinn var dásamlegt. Allt baðað í birtu og sumaryl. Fjölmargar litlar flugvélar sóluðu um himininn, tóku á loft og lentu aftur á Reykjavíkurflugvelli, fuglarnir sungu og flugur suðuðu inni á sólbökuðum og vel upphituðum sjúkrastofunum. Í hádeginu sat starfsfólk spítalans á trébekkjum fyrir utan matsal spítalans, létt var yfir öllum, fólk spjallaði og hló.
Við grilluðum í gærkvöldi og grilllyktin út í sumarkvöldið kveikti í sumarboðanum mínum. Það rann upp fyrir mér að aðeins örstutt er í fyrri lotu sumarfrís míns. Og þar með örstutt í árlega utanlandsferð okkar mæðgina, þar sem við höldum á nýjan stað í hvert skiptið, aðeins tvö saman - eigum það sem kallast á góðri íslensku og vinsælu foreldra-sálfræði-máli "quality time" saman. Við höfum tvö sumur fyrir nokkrum árum farið í mjög góðar sólarlandaferðir og hafa þá Mr. K. og sonur verið með í för, en eftir að við mæðginin prófuðum að fara tvö ein í borgarferð til London, fannst okkur báðum við fá meira út úr samverunni í styttri borgarferðum, heldur en langri sólarferð, þar sem yfirleitt var mest flatmagað og minnst gert. Eftir það höfum við farið í eina borgarferð á ári, og að þessu sinni er förinni heitið til Barcelona þar sem við ætlum að dvelja í heila viku. Þar ætlum við að sameina það sem syni mínum finnst skemmtilegast, þ.e. að skoða sem mest af því sem borgin hefur upp á að bjóða og fara fínt út að borða á kvöldin, og svo líka að slappa af í sólinni og höfum þess vegna valið að dvelja á hóteli með sundlaug. Ég hef áður komið til Barcelona og veit því nokkuð vel hvað ég á að sýna drengnum, en fyrir utan það sem ég hef séð, er ætlunin að skoða leikvang F.C. Barcelona, Camp Nou, og líklegast verðum við að finna eins og eitt gott tívolí. Þetta tekur varla heila viku og því gefst góður tími til að slaka á í sólinni líka, lesa eins og tvær bækur og svo auðvitað versla svolítið - því ef það er einhversstaðar gaman að versla, þá er það í Barcelona (að mínu mati) Dagsferð í strandbæinn Sitges (vonandi rétt stafað, gert eftir minni...) ætti bara að gera okkar ferð enn skemmtilegri - allt þetta ætlum við að gera, og koma ánægð, sólbrún og hamingjusöm til baka.
Þessar borgarferðir sem ég hef farið með syni mínum, eru að okkar mati algjör snilld. Í þessum ferðum gef ég stráknum svolítið húsbóndahlutverk, þ.e. hann fær að spreyta sig á lestarkerfunum og finna út á eigin spýtur hvernig eigi að nota metroin í hinum ýmsu borgum og hvernig best sé að komast frá A til B. Við stúderum kort af borgunum saman, sitjandi við gosbrunn einhversstaðar með samloku á milli fótanna, leggjum á ráðin saman hvernig auðveldast sé að komast á ákveðinn áfangastað og hvaða metro-stöð sé næst okkur hverju sinni. Við veljum veitingastaði saman á netinu, eða jafnóðum, og hans atkvæði gildir allavega 35% á móti mínu () Hann fær algjörlega að njóta sín svo og óskiptar athygli og samvistar móður sinnar alla þessa daga, og í sannleika sagt, þá gerist það ekki oft marga daga í röð í okkar hraða þjóðfélagi, þrátt fyrir góðan vilja og mikla skipulagningu dagsdaglega, þá er það alltaf eitthvað annað sem truflar. Þessa daga sem við eigum saman í borgarferðum okkar, eigum við bara tvö saman, við spjöllum, hlæjum, spilum saman á kvöldin, borðum fínt, borðum líka pylsur úr pylsuvögnum, dáumst að fallegum byggingum, konungshöllum, listasöfnum, villumst saman, tölum meira, leikum okkur og skemmtum okkur virkilega vel. Ég myndi ekki skipta þessum félagsskap sonar míns út fyrir nokkuð annað Þetta er okkur mjög dýrmætur tími.
En svo að maður fái líka að upplifa eitthvað fullorðins í fríinu, þá ætlum við Mr. K. í eina ferð saman í seinni lotu sumarfrís míns, reyndar til borgar sem við gerþekkjum bæði inn og út, þannig að þar verður engin áhersla á skoðanaferðir, áherslan verður lögð á afslöppun, lifa í núinu, gera það sem mann langar hverju sinni og njóta lífsins.
Mjög líklega verður einnig farið í svo sem tvær útilegur í sumarfríinu, spilað fullt af golfi, við munum renna okkur á línuskautum um borgina, jafnvel farið í eina sumarbústaðarferð og helst eina fjallgöngu, en það er einnig orðin hefð í sumarfríi okkar mæðgina. Reyndar þurfti ég að draga unglinginn með í síðustu fjallgöngu, sem var fimm daga ganga frá Vatnajökli og næstum niður í Þórsmörk, en þrátt fyrir að hann hafi á endanum skemmt sér ljómandi vel og notið sín á alla kanta, þá býð ég ekki alveg í árangurinn þetta árið, þar sem drengurinn er orðinn töluvert stærri og sterkari (erfiðara að draga...) og þar að auki næstum kominn í mútur
En hvað sem verður, þá lofar sumarið góðu fyrir okkur mæðginin og full ástæða til þess að byrja að hlakka til og undirbúa. Og það var hugarfarið sem einkenndi mig í dag. Alls engin leti eða svefnhöfgi sem sótti á mig seinni partinn eftir vinnu eins og oftast áður. Við drifum okkur upp í Bása með mínum góða bróður, reyndar engin frægðarför fyrir dömuna að þessu sinni..... var nálægt því að kasta golfsettinu niður á flötina svona rétt í byrjun sumars.... þrátt fyrir að vera í happa-golf-skónum mínum Tók mig til og grillaði aftur þegar við komum heim, engin leti komin yfir mig ennþá. Borðuðum yfir Grey's Anatomy (getur það orðið betra?) og eins og það væri ekki nóg, var undirbúinn matur fyrir unglinginn fyrir morgundaginn (þar sem hann þarf að sjá um sig sjálfur um kvöldið á meðan mamma hans sinnir sjúkum), svalirnar voru sópaðar og.... Já okey, svo ekkert meira. En mikið á minn mælikvarða..... Mikið fyrir þann lata, sem alltaf segir "á morgun"....
En næsta skrefið er að leggja svalargólfið með tréfjölum, kaupa blóm í pottana og ný svalarhúsgögn, mála baðherbergið og jafnvel eldhúsið, hengja upp myndir, kaupa nýja skóhillu og, og og.....
Nú er ég næstum farin að nálgast það að verða manísk, og þá þekki ég Lilju mína aftur. Núna er sumarið komið í stelpuna
Athugasemdir
Ég fyllist orku við þennan lestur
Hólmdís Hjartardóttir, 15.5.2008 kl. 01:21
Yndisleg færsla, ég fann lykt af nýslegnu grasi í dag, hérna í nágrenni mínu og þá fannst mér sumarið vera komið
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 15.5.2008 kl. 01:46
Maður fékk bara sumarið í hjartað. Þið eigið gott að vera fara til Barcelona - æðisleg borg og æðislegar búðir - æðislegur markaður.........
Njóttu sólarinnar - sumarið er komið!
Sigrún Óskars, 15.5.2008 kl. 11:08
Flott að sjá hvernig þú ræktar sambandið við guttann
Guðmundur Brynjólfsson (IP-tala skráð) 15.5.2008 kl. 20:11
Sólarkveðjur frá Als. Ég er svo lítið í blogginu þegar veðrið er svona gott. . .
Guðrún Þorleifs, 16.5.2008 kl. 08:33
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.