6.3.2008 | 02:18
Mannfýlur sem nágrannar.....
Ég á nágranna, sem ég ætla ekki að nafngreina, en á mínu heimili gengur hann undir nafninu "Mannfýlan". Þessi maður virðist ekki eiga sér annað líf, en að sitja um nágranna sína og gera þeim allt það sem hann getur til miska.
Hann gerir sér ferðir niður um marga stiga, bara til þess að færa hjól barnanna í blokkinni, frá "ólöglegum" stöðum og niður í hjólakjallara. Það er auðvitað hann sem ákveður hvaða staðir eru "löglegir" og hvaða staðir eru "ólöglegir".
Ef einhver gerir sér stutta ferð út fyrir aðaldyrnar og viljandi skilur þær eftir opnar (væntanlega vegna þess að þeir eiga afturkvæmt með einhvern farm stuttu síðar), þá er Mannfýlan búin að spotta þetta brot á sambýlislögunum, hleypur niður stigana, bara til þess að skella hurðinni í lás og svo upp aftur - og hann er AF léttasta skeiðinu, skal ég segja ykkur.
Sérstaka óbeit hefur hann á mér, einstæðu móðurinni, sem allajafna er annaðhvort að vinna um helgar, ekki heima eða heima í rólegheitum með syni mínum. Á þeim tveimur árum, sem ég hef búið í þessum stigagangi hef ég tvisvar sinnum haldið gleðskap sem stóð lengur en til kl. eitt eftir miðnætti og hann hringdi í bæði skiptin á lögregluna.....
Eitt sinn kom vinur minn einn að sækja mig, við ætluðum að fara út og fá okkur smá snarl. Veðrið var mjög leiðinlegt, svo vinur minn fór úr skónum fyrir utan dyrnar hjá mér, en þegar við ætluðum að fara 10 mínútum seinna, voru skórnir horfnir. Ég bankaði upp á hjá næstu nágrönnum mínum, hélt kannski að einhverjir krakkar hefðu verið að gera grín og fela skóna, en þeir bentu allir á Mannfýluna - könnuðust flestir við að hann hefði gert eitthvað svipað gegn þeim. Ég fann skóna niðri í hjólakjallara!! Þá hafði Mannfýlan greinilega verið á heimleið, gengið fram hjá mínum dyr og blöskrað svo að sjá þessa karlmannsskó þar fyrir utan, svo hann gerði sér ferð með skóna niður um 28 tröppur og svo aftur upp um þessar 28 plús 14 í viðbót - bara til að ergja mig, og sanna fyrir umheiminum hversu ömurleg manneskja hann væri, og hversu lítið annað hann hefði að gera í þessu lífi. Þegar ég bankaði upp á hjá honum, vopnuð skónum, fannst honum ekkert athugavert við það að hafa tekið skó, sem tilheyrðu honum ekki hið minnsta og grýtt þeim niður í kjallara. "Það eiga ekki að vera skór í stigaganginum!!!" ..... það skal tekið fram að það er hægt að telja það á fingrum annarrar handar, hversu oft eitthvað hefur staðið fyrir framan dyrnar mínar annað en ég og fólk sem á erindi til mín.
Einu sinni grýtti hann húsreglunum í höfuðið á syni mínum, af því að honum varð það á að opna dyrnar þegar Mannfýlunni datt í hug að banka upp á hjá mér - vegna þess að ég sló einn nagla fastann kl. 22:30, nagla sem var í gluggakarminum og hélt uppi stórum hluta af jólaseríunni. Ég meina, common, sé svoleiðis alltaf að gerast getur maður fríkað, en getur maður séð í gegnum fingur sér þegar hlutir gerast í eitt stakt skipti???
En það tók nú út yfir allan þjófabálk, þegar ég sá kallinn vera að sparka til fæðinu sem ég hafði sett út fyrir fuglana. Jú, vegna þess að það var of nálægt húsinu að hans mati - (það eru örugglega til einhverjar reglur sem kveða til um fjölda metra frá byggingum, sem leyfilegt er að gefa fuglunum að borða - greinilega stjórnar Mannfýlan því a.m.k. í okkar blokk)!! Þetta fór greinilega svo í skapið á kallinum, að hann gerði sér enn og aftur ferð, lyfti sínum rúmlega 70 ára rassi upp og hljóp niður tröppurnar, til þess að eyðileggja hádegismatinn fyrir smáfuglunum (!), hljóp upp aftur og settist í spæjarastólinn sinn..... kominn á nágrannavaktina aftur.
Ég segi nú bara: Fáðu þér líf, Mannfýlan þín!!! Og láttu okkur hin í friði. (Eða, fáðu þér einn á you know what, ef það gæti létt lundina eitthvað pínulítið).....
Athugasemdir
Hihi, aumingja þið í stigaganginum. Það er ekki gott að búa með nágranna eins og þessum. Ég er svo heppin að ég hef aldrei lent í svona. Ég hef búið í tvíbýlishúsi í 17 ár og verið frekar heppin með nágranna, nema núna!! það búa ég veit ekki hversu margir Litháar (gætu verið 8-10) á neðri hæðinni hjá mér núna, þeir eru háværir þegar þeir fá sér í glas, það er eins og þeir missi heyrnina og fara að öskra þegar þeir tala saman, svo er spiluð hávær tónlist fram eftir nóttu, sem betur fer aðallega um helgar. Kveðja Jóna Kolla
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 6.3.2008 kl. 02:36
Ég þekki svona mannfýlu í kvenmannsmynd.
Hólmdís Hjartardóttir, 6.3.2008 kl. 08:30
hmmmm...kannski er þetta einmitt ástæðan fyrir því að ég vil ekki búa í blokk!
Helga Linnet, 6.3.2008 kl. 10:32
Aumingja maðurinn er seinnilega að deyja úr leiðindum, hefur seinnilega engin samskipti við fólk að öðru leyti. Bjóddu honum í kaffi og sjáðu til hvort að hann lagist ekki. Annars gat ég ekki annað en hlegið þegar ég las þetta. En sem betur fer er ég ekki með svona nágranna. Fékk reyndar einu sinni kvörtun yfir "vekjaraklukkunni ógurlegu". En einum nágranna mínum fannst vekjaraklukkan mín hringja full hátt og full lengi. Ég passað vel upp á að það heyrðist í henni næstu daga og leyfði henni að hringja lengi, mjög lengi. Fékk ekki aftur kvörtun.
Leifur Runólfsson, 6.3.2008 kl. 20:15
ÓMG hugsaðu þér að hafa ekkert annað að gera en að vera á nágranna vaktinni. Það hlýtur að vera ömurlegt líf hjá þessum karli. Ég bý í einbýlishúsi og mínir nágrannar eru bara frábærir, sem betur fer.
Sigrún Óskars, 7.3.2008 kl. 00:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.