19.2.2008 | 03:46
Stíflaðar ennisholur geta haft ágætis kosti...
Ég vann 42 klst á spítalanum liðna helgi, sitt kvöldið hvort á blóðmeinadeildinni og smitsjúkdómadeildinni og svo allar nætur á slysadeildinni. Það má með sanni segja að hlýnandi veður hafi drifið fólk úr holum sínum og niður í miðbæ, það var í það minnsta ansi annasamt hjá okkur aðfaranótt sunnudagsins. Ég held ég fari með rétt mál þegar ég segi, að frá miðnætti og til kl. 8 á sunnudagsmorgun, hafi verið eitthvað yfir 80 komur á slysadeildina. Ansi fjörugt á þeim bænum, við sem vorum á vakt fengum sannarlega að vinna fyrir okkar háu launum. Ætli fólkinu sem var að djamma aðfaranótt sunnudagsins hafi liðið eins og beljum sem er sleppt úr bás og út í haga á vorin, þegar það loksins gat spókað sig og slegist í miðbænum aftur eftir erfiða vetrartíð undanfarnar vikur?
Ég er núna með ennis- og kinnholubólgu eins og hún gerist best, (eða verst), þegar maður helst ekki getur beygt sig fram fyrir sig vegna þrýstings á hinum ýmsu stöðum í andlitinu og í höfði. Eini kosturinn við þetta ástand er, að nú er ég löglega afsökuð fyrir aðgerðarleysi sem tengist ryksugu og skrúbbu. Annars á ég góðan vin sem er læknir, og ég íhugaði það að hringja í hann og biðja hann að símsenda fyrir mig sýklalyf í næsta apótek, en ákvað svo að bíða og sjá til næstu tvo daga. Það rann líka upp fyrir mér, að ég hef aldrei á æfinni farið jafn oft á sýklalyf eins og þessi ár sem ég hef þekkt þennan ágæta mann - ætli það sé ekki vegna þess að ég hef betra aðgengi að honum heldur en heimilislækninum mínum á þessum síðustu og verstu tímum?
Þessar holubólgur veita mér einnig löglegt frí frá vinnu á morgun, og því var ég í kvöld mætt stundvíslega í gamla, góða sófann minn í mínar gömlu, góðu stellingar. Með nefspray í annarri höndinni, snýtupappír í hinni, fjarstýringuna að græjunum á borðinu og tölvuna ekki langt undan. Eins og ég sagði frá um daginn, þá setti bróðir minn heilan helling af afþreyingarefni inn á flakkarann minn og um daginn uppgötvaði ég Greys Anatomy. Ég hef aldrei setið yfir heilum þætti á Stöð 2, en eitthvert kvöldið í síðustu viku byrjaði ég að horfa. Þegar ég var komin í gegnum tvo þætti var ég algjörlega límd við skjáinn. Ég sat langt fram á nótt yfir þessu skurðstofudrama, sem var ekki gott því ég var geyspandi allan daginn í vinnunni næsta dag. Svo núna get ég þakkað andlitsholunum mínum fyrir enn einn hlutinn, sem sagt í kvöld (og í nótt), komst ég, nátthrafninn, enn lengra í áhorfinu að Greys, og það ekki með samviskubiti. Þetta eru alveg ágætis holur eftir allt saman
En jafnvel ég veit stundum hvenær gott er að stoppa, og það myndi sem sagt vera akkúrat núna.
Góða nótt frá Lilju og holunum
Athugasemdir
skemmtileg lesning... já 80 kvikindi .. það ætti kannsi að hafa beina útsendingu frá lansanum á laugardagskvöldum í staðinn fyrir alla þessa lækna og löggu þætti í sjónvarpinu..
Gísli Torfi, 19.2.2008 kl. 04:02
Snilldarhugmynd hjá Gísla, redda lélegum fjárhag spítalanna með raunveruleikaþáttum af Lansanum!!! Fólk virðist elska raunveruleika þætti miðað við áhorfið hér í DK. Íslendingar eru varla mikið öðruvísi
Svo væri hægt að fylgjast með einstaka starfsmönnum prívat og þar með væru þeir búnir að hífa upp sín laun. Þetta er bara að gera sig, ég er sannfærð.
Guðrún Þorleifs, 19.2.2008 kl. 09:08
Hvað segiru Lilja mín...ertu viss um að hann hafi bara skrifað uppá sýklalyf þessi læknir?!
Helga Linnet, 19.2.2008 kl. 11:39
Hehehe, nei kannski líka sterkar Íbúfen einstaka sinnum ....
Lilja G. Bolladóttir, 19.2.2008 kl. 20:03
Góðar hugmyndir hjá ykkur, Gísli og Guðrún - þyrfti samt örugglega meiriháttar yfirhalningu hjá persónuvernd, a.m.k. hvað sjúklingana varðar. Hvað mig varðar, humm, ekki myndi ég borga fyrir að horfa á mitt einkalíf.... ég myndi kannski spýta í lófana og gera það meira spennandi ef einhver væri að fylgjast með.....
Lilja G. Bolladóttir, 19.2.2008 kl. 23:50
Þessar andlitsholubólgur hafa líka verið að hrella mig með hita og látum. Hef þó ekki enn farið til læknis.
Gaman að þessum skrifum þínum og mér líst vel á raunveruleikaþátt frá lansanum á annatíma
Margrét St Hafsteinsdóttir, 22.2.2008 kl. 23:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.