Færsluflokkur: Dægurmál
27.11.2008 | 19:59
Þjóð í vanda??
Jæja, ágætis bloggpása að baki, já og meira að segja mun lengri bloggpása en hún frænka mín Róslín gat haldið eftir stórar yfirlýsingar ....(hæ Róslín )... Mín pása var algjörlega ómeðvituð og ótilkynnt. Gerðist bara óvart. Bara að svona reykingapása myndi koma yfir mig einn daginn, án stórra yfirlýsinga og loforða sem ég hvort eð er enda alltaf á að þurfa að éta ofan í mig aftur innan fárra daga.
En speaking of..... nikótínfíkn mín minnir mig á frétt sem ég las fyrir nokkrum vikum, ekki svo löngu þó, (EFTIR að kreppan skall á). þar sem fréttnæmt var að Sigurður Kári og félagar ætluðu enn einu sinni að leggja fram frumvarp um að sala á léttvíni og bjór verði heimil í verslunum og að leyft verði að auglýsa þessar vörur. Þrátt fyrir að frumvarpið um áfengissöluna hafi verið fellt FIMM sinnum á Alþingi og hitt frumvarpið þrisvar. Af hverju er þeim svona mikið í mun að kýla þetta í gegn? Dugar ekki opnunartími ÁTVR þeim? Ég veit að hann dugar öllu venjulegu fólki, líka þeim sem allt í einu dettur í hug að akkúrat núna væri gaman að opna eina rauðvínsflösku og hafa það huggulegt. Slíkt fólk á yfirleitt nokkrar flöskur liggjandi og einhverja bjóra í ísskápnum, einmitt til slíkra tækifæra. Við þurfum ekki áfengið í matvöruverslanirnar þótt okkur þyki gaman að opna vínflösku við og við.
Hins vegar myndi sala á áfengi í matvöruverslunum vera stórhættuleg öllu því fólki sem berst við áfengisfíkn og afar sorgleg börnunum þeirra og öðrum aðstandendum. Ég hef unnið með áfengissjúkum og fíkniefnaneytendum og að berjast við fíkn er hræðilegt ástand fyrir alla þá sem að koma, bæði þá sjúku og fjölskyldur þeirra. Ég þekkti til fjölskyldu þar sem börnin hlupu á móti foreldrum sínum þegar þeir komu inn um dyrnar eftir vinnudag og verslunarferð, börnin hlupu til og rifu upp úr pokunum og önduðu í hvert skipti léttar þegar ekkert áfengi kom upp úr pokunum. Þau kvöld sem það kom fyrir voru þessi börn róleg og áhyggjulaus. Þorðu að fá vini í heimsókn og gátu verið börn í friði. Jafnvel spjallað við foreldra sína. Ef "Ríkis"-poki var meðal innkaupapokanna, var það ávísun á ótta, áhyggjur og kvíða fyrir þessi börn. Þau þorðu ekki að fá vini sína í heimsókn, þorðu heldur ekki að fara út úr húsi, kviðu kvöldinu sem fram undan var.... skyldu mamma og pabbi drekka þetta í kvöld?, skyldu þau fara að rífast?, skyldu þau vaka lengi og vera með læti? Eða kannski ætluðu þau bara að geyma vínið til annars dags. Einlæg von barna sem ávallt brást, því auðvitað drukku foreldrarnir alltaf aðföngin strax með mismunandi afleiðingum. En alltaf olli áfengi í pokunum þessum börnum ómældum áhyggjum. Ef áfengi væri selt í 10-11, þá myndu börn eins og þessi, aldrei eiga róleg og kvíðalaus kvöld. Þau væru aldrei "save" því pabbi gæti ennþá náð að stökkva út í búð og kaupa vín, þótt klukkan væri orðin margt og þótt það væri sunnudagur. Og þetta er bara dæmi um fjölskyldu, þar sem foreldrarnir voru þó í vinnu en misnotuðu áfengi mörg kvöld í viku. Hvað með allar hinar fjölskyldurnar, þar sem foreldrarnir eða foreldrið situr við drykkju allan daginn? Og ef að rök Sjálfstæðismanna eru, (sem ég veit reyndar ekkert um), að loka ætti fyrir sölu í matvöruverslunum á ákveðnum tímum þrátt fyrir að verslunin sjálf væri opin lengur, hver er þá ávinningurinn? Ég tel það ekkert eftir mér að fara í ákveðna verslun til að kaupa mitt rauðvín eða hvítvín, ég veit hvenær búðin er opin og plana mig einfaldlega eftir því.
Ég berst við fíkn í nikótín. Ég hef margoft reynt að hætta. Stundum í lengri tíma en oftar í skemmri. Á þeim tímum sem ég hef verið nikótínlaus hefur sígarettan sjaldan farið úr huga mér. Á þessum tímum hef ég oftsinnis keyrt úr vinnu og heim til mín upp í Breiðholt og keyrt inn á planið hjá hverri einustu sjoppu, bensínstöð og verslun á leiðinni, í því skyni að kaupa mér sígarettur og reykja "bara eina" áður en ég kem heim. Ég hef rökrætt við sjálfa mig alla leiðina; "Ég ætla bara að kaupa einn pakka" og keyrt inn á planið hjá Select.... og "Nei, ég ætla ekki að reykja í dag" og keyrt út af planinu aftur. "Jú, bara einn, svo ekki meir", svo keyri ég inn á planið hjá næstu sjoppu og held áfram að diskutera í huganum: "Lilja, auminginn þinn, þú getur alveg sleppt því að reykja í dag", og svo keyri ég út af planinu aftur. Svona gengur þetta þar til ég geng inn um dyrnar heima hjá mér og þá tekur hugsunin við: "Ætti ég að hlaupa út í sjoppu"? "Nei, ég ætla ekki", og svo klukkutíma seinna kemur sama hugsun aftur upp. Og allt kvöldið rökræði ég í huganum við sjálfa mig um það, hvort ég ætti að hlaupa út í sjoppu og kaupa mér "efnið" mitt.
Það er hægt að yfirfæra þetta á áfengissjúklinga. Ef freistingin stendur þeim alltaf til boða í matvöruverslunum, alla daga og langt fram á kvöld, þá getur lífið orðið þessu fólki enn erfiðara en það er þá þegar. Ef áfengissjúkir í bata, geta ekki einu sinni verslað í matinn án þess að freistingin standi beint fyrir framan augun á þeim, þá erum við ekki að gera þeim greiða. Mikilvægur hluti í bata áfengissjúkra er að lifa eðlilegu lífi, versla í matinn, hugsa um börnin sín, elda og reyna að eiga eðlilegt heimilislíf. Við tökum þetta af þeim með því að stilla áfengi upp í matvöruverslunum og með því gerum við engum greiða, hvorki þeim, fjölskyldum þeirra né samfélaginu í heild sinni.
Vissulega er áfengisfíkn ekki það sama og nikótínfíkn. Algjörlega ekki. Reykingar fólks hafa sjaldan eða aldrei áhrif á fjölskyldulíf þeirra, þátttöku í viðburðum fjölskyldunnar, vinnuástundun eða hegðun þess sem reykir. Vegna þess að nikótín breytir ekki meðvitund eða skynjun fólks á neinn hátt eins og áfengi og fíkniefni gera. Samt sem áður eru þetta hvorutveggja mjög sterkar fíknir og þegar fíkn tekur yfir heilann og hugsun, þá þurrkast út öll rökhugsun. Það er staðreynd. Svo það er í algjörri fáránlegri andstöðu að leggja svona frumvarp fram á meðan barist er gegn nikótíninu á þann hátt sem gert er. Læknafélagið lagði til á síðasta ársfundi sínum að nikótín yrði lyfseðilsskylt innan fárra ára. Og á meðan berjast einhverjir Sjálfstæðismenn fyrir því að aðgengi að áfengi verði auðveldara.
Það er ekki staðreynd að reykingafólk sé dýrasti sjúklingahópurinn í þjóðfélaginu en það er hins vegar staðreynd að offitusjúklingar eru það. Það er staðreynd að reykingafólk borgar MJÖG háa og eflaust réttmæta tolla og skatta af sinni fíkn, næstum 70% af hverjum keyptum sígarettupakka fer til Ríkisins og því hefur reykingafólk lagt inn töluverðar fjárhæðir fyrirfram hjá heilbrigðiskerfinu. Það er staðreynd að viðlíka há opinber gjöld eru ekki af fitandi matvælum. Það er líka staðreynd, að sá sjúklingahópur í þjóðfélaginu sem fer hvað mest vaxandi eru miðaldra áfengissjúkir. (Og þá erum við ekki að tala um gömlu góðu göturónana). Miðaldra áfengissjúkir eru oft þeir sem byrjuðu að kaupa sér bjórkippur öðru hvoru þegar bjórsala var leyfð á landinu árið 1989. Svo fór verð lækkandi á bjóri og léttvíni og þessi hópur fór að kaupa sér þessar vörur reglulega til að hafa það huggulegt. Þróunin varð þannig, að eftir ákveðinn tíma þótti það ekkert tiltökumál að fá sér bjór eða léttvínsglas þegar komið var heim úr vinnunni. Og eftir einhvern tíma urðu bjórarnir fleiri og glösin fleiri. Og eftir enn ákveðinn tíma var þetta orðið daglegt brauð. Og er það enn hjá mörgum. Þessi hópur er oft fólk í vinnu, með uppkomin börn og lítil barnabörn. Þessi hópur er á þeim aldri að hækkandi blóðþrýstingur, blóðsykur, kólesteról, hjartsláttaróregla, lungnasjúkdómar og jafnvel offitusjúkdómar eins og stoðkerfisvandamál, þunglyndi og fleira er farið að hrjá. Sumir hafa fengið blóðtappa og aðrir hjartaáföll. Sumir eitthvað annað. Þessi hópur er þess vegna oft á lyfjum og vegna drykkju gleymir þetta fólk stundum að taka lyfin sín, eða drekkur ofan í lyf sem ekki á að drekka ofan í. Þetta fólk eldist, dettur, mjaðmabrotnar, lærbrotnar, fær skurði á höfuðið, blæðingar inn á heila og sitthvað fleira. En í flestum tilfellum veldur það sínum nákomnu ómældum áhyggjum með sinni drykkju. Auk þess að kosta samfélagið formúgu.
Þurfum við endilega að auka á þessi vandamál með því að leyfa áfengi í matvöruverslanir? Er þetta ekki bara gott eins og það er? Ég veit að þetta er ekki eini þjóðfélagshópurinn sem drekkur og vandamálin eru langt frá því einskorðuð við þennan hóp. Ég ætla samt ekki að telja upp vandamálin sem tengjast drykkju yngra fólks með yngri börn, vinnutap, sálfræðileg vandamál og fleira..... og margt skelfilegt hjá yngri hópnum líka. Þetta var aðeins til að nefna dæmi.
Ég er ekki bindindismanneskja, mér finnst gaman að fá mér rauðvins- eða hvítvínsglas öðru hvoru, mér finnst gaman að opna bjór þegar sólin skín og ég ætla að grilla, fá mér rauðvínsglas á meðan ég skrifa jólakortin eða hvítvín þegar ég hitti vinkonu á kaffihúsi. Ég fæ mér örugglega hvítvínsglas oftar en margir. En ég get alveg haldið mig við áfengi í ÁTVR og þeirra opnunartíma. Og það held ég að flestir geti. Við gerum engum greiða með auknu aðgengi að áfengi. Ekki þeim sem eiga í vandræðum með áfengið, ekki fjölskyldum þeirra, ekki verslunareigendum og ekki okkur sem samfélagi.
Og ótrúlegt að á þessum tímum, þessum tímum sem eru verstu tímar okkar Íslendinga í lengri, lengri tíma..... þar sem margt fólk er niðurbrotið og margir leita í flöskuna, margir óvirkir sem riða til falls, þá skulu þessir ungu Sjálfstæðismenn ennþá vera að berjast fyrir auknu aðgengi að áfengi. Eins og það sé lykillinn að því að byggja okkar samfélag upp. Til þeirra vil ég segja: Lykillinn að traustu samfélagi felst ekki bara í peningum heldur enn þá meira í traustum fjölskyldum, fjölskyldum sem eru starfhæfar í samfélaginu og líður vel, ala upp börn með góð gildi og gott sjálfstraust, börn sem eru í íþróttum, fjölskyldur þar sem fyrirvinnurnar geta stundað sína vinnu og þar sem foreldrarnir sýna gott fordæmi. Þetta er lykillinn. Ekki að selja áfengi í matvöruverslunum.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 20:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
15.11.2008 | 21:45
Oh my God..... can we please, please.....
Ég er á því, að ekki sé einungis bloggstíflu um að kenna, heldur áhugaleysi, þreytu á umræðuefninu og dugleysi almennt, hvers vegna ég er svona löt að blogga undanfarið. Ég er örugglega ekkert ein um það að vera útivinnandi og þurfa að hlusta á oft miður vitsmunalegar umræður, þar sem hver og einn þykist alvitur....., stundum vitsmunalegar en þá er maður svo útmattaður af hinu, að maður nennir ekki einu sinni að taka þátt. Ég ræði þetta ástand þjóðarinnar við minn kæra Mr. K. og svo nokkra aðra, en OH MY GOD, can we talk about something else? Sometimes? .... ......somewhere..... anywhere, anyplace, anyhow..... ?? Bara please.... eruð þið ekkert að verða þreytt á því að vera spegill þjóðarinnar?? Ég er það allavega, og ég finn líka að það pirrar mig óstjórnlega þegar fólk segir, að ekki sé verið að GERA NEITT. Það er verið að gera fullt, sumt er ekki hægt að tala um og um þetta gildir að fæst orð bera minnsta ábyrgð. Ekki síst með tilliti til alþjóðasamfélagsins. Alþjóðasamfélagið er ALLTAF að hlusta. Og alltaf að túlka okkar orð. Kannski vildu "okkar" menn gjarnan segja OKKUR eitthvað, en þeir verða að gæta orða sinna því alheimurinn er að hlusta.
Miðað við vinnu föður míns síðastliðnar 6-7 vikurnar get ég lofað fyrir að einhverju er stöðugt verið að vinna í, og hann er EKKI í pólitískri stöðu heldur hreinni embættismannastöðu. Að minnsta kosti hefur móðir mín ekki séð manninn sinn í margar vikur, og svo er fólk að tala um að "fólkið sem ætti að vera að vinna, sé ekki að gera neitt!" Sveiattan, þetta gerir mig svo reiða, vegna þess að á meðan þið segið, að ekki sé verið að gera neitt, þá eru fjölskyldur þessarra manna, makar, börn og barnabörn ekki að sjá neitt af sínum mönnum. Því þeir eru að vinna fyrir RÍKIÐ. Reyna að finna farsæla lausn á öllu þessu. Fullt af embættismönnum vinna myrkranna á milli við einmitt það.
Ég er ekki með þessu að segja að ég sé sammála því að Davíð sitji áfram, eða að mér finnist það "cool" að Davíð hafi Geir í vasanum, mér finnst þetta Geir H. Haarde til skammar. Og hann á örugglega eftir að blæða fyrir sína trúmennsku við Davíð, hvernig svo sem stendur á henni. Geir á eftir að fá skellinn, vegna þess að með sínu loyalitet við Davíð er hann ekki einu sinni að þóknast meirihluta síns eigin flokks. Ég hef líka alveg mínar skoðanir á IMF og Gordon Brown, en það hafa líka allir þessir embættismenn. Þeim finnst sitt, en verða samt að vinna í umboði ríkisins. Svo please, hættið að segja, að ekki sé verið að vinna myrkranna á milli til að fá fram lausnir á okkar vandamálum. Ef ég heyri þetta einu sinni enn, þá á ég eftir að öskra. Bæði ég, mamma mín, dætur, synir, barnabörn og makar margra embættismanna, sem eru búnir að vinna rassgatið út úr buxunum síðustu vikurnar fyrir okkur. Og NOTA BENE, ekki á yfirvinnutaxta eins og svo margir virðast halda, þessir menn/þessar konur fá nákvæmlega sömu krónur í vasann, hvort sem unnir eru 200 eða 400 tímar í mánuði, og ég get alveg sagt ykkur að síðustu tvo mánuði, er tímafjöldinn nær 400 eða 500 tímum heldur en 200!! Og þetta fólk er alveg í sömu stöðu og við, eru með verðtryggð lán, eru að borga af húsunum sínum, fjárfestu einhverju í hlutabréfum sem nú eru töpuð og þar fram eftir götunum. Hættið að tala um þetta ástand, eins og það sé "VIÐ Á MÓTI ÞEIM".Við hver? Á móti þeim hverjum??? Við erum ÖLL í sama skítnum og við erum ÖLL saman að reyna að finna grundvöll fyrir áframhaldandi lífi hérna á Fróni. Ekkert annað. Við getum líka öll flykst á burt og látið Ísland, okkar fallega Ísland, leggjast í eyði. Við getum gert hvort sem er.
Ég er alveg sammála ýmsum mótmælum sem fara fram, og finnst það réttur okkar allra að mótmæla, en þegar fólk leggst svo lágt að setja á skilti; "DREPUM DAVÍÐ" og "HREINSUM ÍSLAND" og kastar svo eggjum og öðru í Alþingishúsið, þá eru þessi mótmæli komin á lægra plan en ég vil kenna mig við. Lái mér hver sem vill og dæmi mig líka hver sem vill. En þetta er mín skoðun og afstaða og ....okey, ekki grýta eggjum í mig, en mér er alveg sama þótt þið grýtið eggjum í blokkina mína. Mér finnst ekki þess háttar mótmæli koma okkar skilaboðum til skila.
Við erum sammála um margt, og viljum að ýmislegt breytist, en common ..... GROW UP segi ég nú bara. Ekki láta þetta fara út í múgsefjun þar sem fólk verður ekki tekið alvarlega, við skulum gera þetta á alvöru hátt frekar en svona.
Ég er ekki ánægð með ástandið. Ég vil ekki hafa Davíð í Seðlabankanum. Ég skil ekki hvers vegna Geir H. Haarde heldur áfram að verja Davíð. Ég skil ekki margt, og mér finnst annað, en eitt veit ég, og það er að það er virkilega róið að því með tvöföldum árum að koma Íslandi úr þessarri klípu sem fáir auðmenn komu okkur í. Og ég vona svo sannarlega líka að þeir fái sín málagjöld. En við skulum ekki hengja bakara fyrir smið....... (eða hvernig sem þessi málsháttur nú er, þá held ég að hann hljómi vel.... )
Ójá, sorry, að ég er grumpy þessa dagana, ég hef ekki séð pabba minn frá því í september því hann er í stöðugri vinnu fyrir RÍKIÐ, fjölskyldulífið er farið að litast af fjarveru hans stöðugt til OKKAR FJÖLSKYLDUMÁLA, mamma mín er grumpy vegna sama ástands, hann getur varla mætt í jarðafarir góðra vina vegna ástandsins í landinu, hvað þá haft tíma til að skrifa um þá minningargrein..... og á meðan stendur fólk og segir að það sé ekki verið að gera NEITT.
Já, I'm really sorry, að ég lít þetta öðrum augum en þið, en það ER VERIÐ AÐ GERA FULLT. Það er ekki hægt að tala um allt og sumir kannski skilja það bara ekki......
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 23:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
4.11.2008 | 18:57
Ég þarf að dúta.....
Úff, enn og aftur andleysi og bloggstífla, en nú er ég sest hérna og ég ætla EKKI að skrifa neitt um efnahag, ríkisstjórn, Davíð og stýrivexti eða neikvæðan viðskiptajöfnuð...... en til að skrifa um eitthvað, þá ætla ég að skrifa um, kannski ekki svo frumlegt efni, en allavega mjög frumstæða þörf mannsins..... og jú konunnar Ég ætla að skrifa um athöfnina að kúka.... ég er sem sagt komin niður á fimm ára planið í öllu þessu krepputali....
Eins og allir vita þá þurfa karlmenn að gera "númer tvö" miklu oftar en kvenmenn.... það er að minnsta kosti þannig að það fer ekki fram hjá neinum þegar athöfnin sú stendur til hjá karlpeningnum. Annaðhvort er það tilkynnt hátt og skýrt; "ég ætla á klósettið" svo allt heimilisfólk viti nú örugglega hvað nú standi til, dagblaðið eða annað blað jafnvel tekið og brotið hátíðlega saman og borið með viðhöfn inn á baðherbergið eða önnur dramatísk ritúöl viðhöfð fyrir athöfnina. Konurnar aftur á móti ganga bara inn á WC-ið og loka að sér og eru í kapphlaupi við tímann, því þær ætla að vera búnar áður en suðan kemur upp á hrísgrjónunum eða áður en Palli kemur heim með alla vini sína af fótboltaæfingu. Enginn tekur eftir því þótt þær bregði sér inn á baðherbergi öðru hvoru og enginn spáir í það þótt þær dvelji þar í einhverja stund heldur, því konur eru nú hvort eð er oft inni á baðherbergi annaðhvort að plokka augabrúnir, kreista fílapensla, prófa nýjar hárgreiðslur, testa photosvipinn eða bara einfaldlega að spegla sig frá öllum vinklum. Í minni litlu fjölskyldu sem telur tvo, gekk það meira að segja svo langt, að sonur minn lenti næstum því í slagsmálum þegar hann var fimm ára, því hann hélt því fram í staðfastri og einlægri trú sinni, að konur hvorki kúkuðu né prumpuðu. Það vildu nú félagar hans ekki gúddera... en þótt misjafn sé siðurinn á hverju heimili þá held ég því nú samt fram að að þessi athöfn, að kúka, sé nánast heilög karlmönnum á meðan hún er nauðsyn kvenfólkinu.
Í fjölskyldu einni sem ég þekki til, er karlkynið í meirihlutanum og á þeim bænum hefur heimilismóðirin oft haft á orði að eiginlega hefðu þau þurft að hafa tvö baðherbergi, þar sem þeirra eina er oftar en ekki upptekið í lengri tíma í senn þegar karlmennin þurfa öll á klósettið seinni partinn og gildir þar lögmálið að sá sem hefur stysta úthaldið fær að fara fyrst og svo koma hinir á eftir.
Þannig fær sá minnsti yfirleitt forganginn svo hans stykki endi ekki í buxunum. Hann tilkynnir einfaldlega að hann "þurfi að dúta", tekur svo spidermankallinn sinn og dundar með hann á meðan setið er á klósettinu. Næsti tekur með sér tvö Andrésblöð og stendur ekki upp af settinu fyrr en búið er að blaða í gegnum bæði blöðin. Oft þá með rautt klósettfar á lærunum. Sá elsti hefur alltaf, frá því að hann varð koppavanur, haft þann siðinn á, að hann þarf að klæða sig úr hverri spjör áður en hann getur hafist handa. Og hann vill hafa hurðina opna. Stundum liggur þó mikið á og þá nægir að fara úr að neðan áður en hann sest og svo tínir hann spjarirnar af efri hluta líkamans í rólegheitum á meðan hann situr við. Koma þá gjarnan peysa, bolur og nærbolur fljúgandi með reglulegu millibili út um dyrnar. Kannski líka Liverpool-svitabönd og hárteygja. Já, það má með sanni segja að frummaðurinn búi í þessum gaur.
Sjaldan verð ég kjaftstopp en varð það þó í eitt augnablik þegar röðin loksins kom að heimilisföðurnum. Það er greinilega af sem áður var þegar karlmennirnir tóku Moggann eða Bílablaðið inn á bað sér til félagsskaps því þessi vippaði einfaldlega lab-toppnum með inn á baðherbergið. Enda augljóst að mun auðveldara er að hafa tölvuna á lærunum meðan á þessarri heilögu athöfn karlmannanna stendur, heldur en að ráða við heilt dagblað sem allt er laust í sér og vill detta í allar áttir.
Jahá, svona fer þá nútímamaðurinn á klósettið, hugsaði ég og gat eiginlega ekki annað en hlegið. Hvað erum við komin langt frá þeim tíma þar sem mennirnir vippuðu skýlunum sínum upp og grófu svo mold yfir heila klabbið....? Heppilegt allt þetta með þráðlaust net og litlar tölvur og já, bara alla nútímatæknina..... en hvað skyldu þau hafa verið djúp rauðu förin á lærunum á þessum eftir hans setu? Tölvan með þráðlausu neti er eins og blað sem aldrei klárast. Þú getur setið endalaust við og þarna færðu í það minnsta frið til þess.....
Hér er ró og hér er friður
Hér er gott að setjast niður
Hvíla sínu þungu þanka
þar til einhver fer að banka
Þá er mál og mannasiður
að standa upp og sturta niður
Ójá, ég skil vel að þessa konu langi í tvö baðherbergi á heimilið sitt......
21.10.2008 | 17:46
Tyggjóklessu afgreiðandi krakkar í matvörubúðunum.....
Ég versla yfirleitt í Nettó í Breiðholtinu, að minnsta kosti öll þessi stærri innkaup. Þar hef ég ítrekað tekið eftir því undanfarið að hilluverði ber ekki saman við kassaverð.
Á föstudaginn sl. tók ég eftir fimm villum á strimlinum mínum, en vegna þess að ég er húðlöt en mest vegna þess að bæði var ekki um nema nokkrar krónur að ræða og svo var löng biðröð fyrir aftan mig á kassanum.... þá nennti ég ekki að gera neitt í málinu og gekk út kyngjandi þeirri staðreynd að verslunin væri að snuða mig um nokkra tíkalla. Ég ákvað bara að kyngja staðreyndinni betur með rauðvínssopa þegar heim væri komið. Það pirraði mig þó svolítið að ég skyldi vera svo meðvituð um fólksfjöldann fyrir aftan mig, að ég skyldi ekki nenna að standa í "því veseni" að fá þessar krónur endurgreiddar frá búðinni.
Í dag var hins vegar lítið að gera í Nettó þegar ég átti smáinnkaup þar. Ég gerði eins og ég er vön, renndi yfir strimilinn minn áður en ég fór út úr búðinni. Þá tók ég eftir því að kassaverðið á 2ja lítra Coca Cola flösku var 196 kr., en það fyrsta sem blasti við fólki þegar það gekk inn í verslunina var þó stórt skilti þar sem flaskan var auglýst á 185 kr. Ég ákvað að í þetta skiptið ætlaði ég ekki að vera aumingi, ég ætlaði ekki að láta búðina komast upp með þetta oftar. Svo ég sneri aftur að kassanum, beið á meðan afgreiðslustúlkan afgreiddi eldri konu og benti svo stúlkunni á þessi mistök af þeirra hálfu. Ég sá strax að maðurinn sem var næstur í röðinni, rúllaði augunum með pirringssvip en ákvað að láta það ekkert á mig fá. Leit svo á að ég væri að gera okkur báðum greiða til lengri tíma litið.
Afgreiðslustúlkan hins vegar leit áhugalaus á strimilinn og svo á mig á meðan hún var næstum farin úr kjálkaliðnum í átökum við stærðar tyggjóklessu uppi í sér. Svo sagði hún: "Kar stendur þa'eilla?"
"Þarna", sagði ég og benti henni á skiltið sem blasti vel við okkur báðum.
Þá dæsti stelpuskrípið og sagði í mæðutón: "Ka, ætlarru að far'a æsa þig úta elleu kronnum?"
Mig langaði að stökkva yfir borðið og taka í hálsmálið á henni, svona eins og gert er í bíómyndunum en í staðinn horfði ég blákalt á hana og sagði að ég væri ekki æst, en ef ég þyrfti þess þá myndi ég hiklaust æsa mig.
Sú stutta þurfti nú að ráðfæra sig við einar þrjár aðrar áður en hún með semingi dró ellefu krónurnar mínar úr búðakassanum sínum og skellti þeim með vanþóknunarsvip á borðið.
"Þakka þér", sagði ég og brost breitt. "Ég vona að ég hafi ekki sett daginn úr skorðum fyrir þér." Og út strunsaði ég með krónurnar mínar í vasanum.
Og það er ekki af því að mig muni rassgat um þessar krónur, en þetta var bara prinsipp mál. Margar ellefu krónur verða að hundrað köllum og margir hundraðkallar verða auðveldlega að þúsundköllum, og þeir eru mun betur geymdir í mínum vasa heldur en í kassanum í Nettó, sem aflar þeirra meira að segja á óheiðarlegan eða slælegan hátt.
Svo má heldur betur fara að kenna þessum krökkum sem standa þarna við kassana, í fyrsta lagi að tala, í öðru lagi að spýta út úr sér tyggjóklessunni og í þriðja lagi að sýna viðskiptavininum kurteisi.
Hún var bara þokkalega ánægð með sig, Liljan sem rambaði með tvo poka út úr Nettó eftir hádegið í dag. That felt good, og ég ætla ekki að hika við að gera þetta aftur. Sama hvað margir fúlir kallar rúlla augum í biðröðinni fyrir aftan mig og sama þótt afgreiðslukrakkinn kafni í tyggjóklessunni sinni af vanþóknun.
19.10.2008 | 21:12
Hlutirnir gætu verið verri, þökkum fyrir það sem við höfum......
Eitthvað er andleysið að hrjá mig þessa dagana, fréttirnar sem dynja á manni og umræðurnar á vinnustöðum ýta einhvernveginn ekki á það að maður sæki sér fleiri upplýsingar um efnið á bloggsíðunum. Bið ég ykkur að afsaka innlitsleysi mitt á ykkar síðu, mínir kæru bloggvinir, ég veit vel að þið eruð ekki öll að skrifa um ömurlegt efnahagsástandið, en einhvernveginn hefur hugurinn staðið til annarra hluta. Ekkert endilega betri, en þó.....
.....hafði ég í næturgistingu þrjá unga systursyni aðfaranótt laugadagsins og var það eiginlega bara veruleg upplyfting í hversdagsleikanum. Ekki séns að maður væri aðgerðarlaus í fimm mínútur í einu allt kvöldið, alltaf einhver sem hellti niður, þurfti að kúka, þurfti hreina bleyju, vildi teikna eða klemmdi putta og fór að gráta. Einhver sem var þyrstur og annar sem vildi horfa á Skoppu og Skrítlu..... ég var eiginlega mest undrandi á því, að mér skyldi takast að matreiða næstum því ekta jólaskinku með öllu tilheyrandi og takast að láta liðið borða, af uppdúkuðu borðstofuborðinu fyrir miðnætti. Og meira að segja töluvert fyrir miðnætti. Mikið voru þeir nú samt allir sætir þegar þeir voru sofnaðir..... eins yndislegir og þeir nú samt eru vakandi ...
..... Ég er annáluð B-manneskja, get auðveldlega vakað til fjögur á nóttunni við að gera nákvæmlega ekkert, og svo á móti sofið langt fram yfir hádegi daginn eftir. Þannig er sólarhringsklukkan mín. Það gerir ekkert til þótt síminn veki mig einu sinni eða tvisvar á morgnana, eða ég vakni til að koma syninum í skólann, ég get alltaf sofnað aftur djúpum, dreymandi svefni þar sem ekkert raskar ró minni. Þess vegna fannst mér það töluvert afrek að vera komin á fætur með tveimur af litlu frændunum kl. 8:12 á laugadagsmorguninn...... Ekki barasta á fætur, heldur búin að gefa morgunmat, ganga frá, þurrka upp af gólfinu nokkrum sinnum, skipta á bleyjum og klæða í föt..... finna til teiknidót og svo taka það saman, setja Alfin og íkornann, eða hvað hann nú heitir, í DVD tækið...... OG baka vöfflur fyrir kl. 10 þennan sama morgun!! Fékk reyndar hjálp við að þeyta rjómann en að öðru leyti gerði ég þetta allt hjálparlaust.... hafði meira að segja þrek til að fara í smá stund út á róló eftir hádegið..... En guð minn góður, hvað ég tek hattinn ofan fyrir systur minni, og auðvitað öllum öðrum í hennar sporum, að standa í þessu daglangt.... alla daga. Ég þyrfti heldur betur að eiga gott hleðslubatterí ef ég ætti að gera öll þessi verk alla daga ársins, auk þess að rækta sjálfa mig og vini, að ég tali nú ekki um ef maður er útivinnandi. Ég gat ekki einu sinni talað í símann á föstudagskvöldið, svo upptekin fannst mér ég vera. Og ég sem annars er vön að gera ALLA hluti með símann á öxlinni..... líklega þess vegna sem ég er svona skökk í dag, en.....
Horfði á Silfur Egils í hádeginu í dag og nenni nú eiginlega ekkert að úttala mig um það sérstaklega. Nema, þarna var tilkallaður gamall skólabróðir minn úr Verzló, held ég alveg örugglega, maður að nafni Úlfar Erlingsson, (örugglega ekki margir með því nafni og útlitið passaði nokkuð vel), og sá hafði nú margt gott til málanna að leggja, fannst mér. Ekki stjórnmálamaður og ekki involveraður í stjórnmálahreyfinguna, heldur bara ágætlega menntaður og hugsandi maður, sem ef til vill var svolítill talsmaður "okkar" þarna. Hann fær prik frá mér.....
Aðstoðarkona Ingibjargar Sólrúnar stóð sig líka þokkalega, þótt Egill hafi margsinnis reynt að tala hana í kaf..... og finnst mér reyndar að Egill megi gæta sín svolítið á því svellinu, hann verður að gefa fólki svigrúm til að svara. Einhvernveginn lítur þetta út þannig, að Agli sé svo mikið í mun að koma frá sér sínum skoðunum, að viðmælendur hans séu einungis þarna til skrauts. Að minnsta kosti stundum.
Jón Baldvin Hannibalsson, sem er eins og útdeyjandi risaeðla úr sinni pólitísku kynslóð, fannst mér ekki hafa margt málefnalegt að segja. Reyndar skrifaði hann ágæta grein í Fréttablaðið um daginn, sem margir góðir punktar voru í..... en þar hefur hann líklega haft tækifæri til að hugsa áður en hann skrifaði, öfugt við sjónvarpsviðtal, þar sem hann talaði áður en hann hugsaði, að því er mér virtist. Hann er bara stuck í pólitík níunda áratugarins, allt er Sjálfstæðisflokkurinn á móti hinum, kalda stríðið í algleymingi og í mínum augum virðist hann ekki geta horft lengra út fyrir sjóndeildarhringinn en það. Ég sver það, að mér fannst hann meira að segja einu sinni segja Alþýðuflokkurinn í staðinn fyrir Samfylkingin......
Anyway, life goes on, margir hafa tapað stórfé á hlutabréfaviðskiptum, aðrir ævisparnaði í peningasjóðum og enn aðrir vinnunni.... eða öllu af ofannefndu. Ég ætla ekki, og get ekki einu sinni leyft mér, að kvarta þótt ég hafi sama og ekkert á milli handanna núna. Ég tapaði engu, enda átti ég ekkert. Ég held vinnunni minni, allavega að því að ég best veit. Reyndar tók Landsbankinn af mér hverja einustu krónu sem ég vann mér inn síðasta mánuðinn, vegna þess að yfirdráttarheimild mín féll niður akkúrat 1. okt., og bankinn hefur ekki verið viljugur til að framlengja henni, en hey, eins og bróðir minn sagði; ég tapaði þó ekki peningnum, hann fór bara í það að greiða niður eitt dýrasta lánið sem ég hef á mínum öxlum.
Ég er heppin, alveg ótrúlega heppin því ég á það sem er dýrmætast í þessum heimi, það er góða fjölskyldu og góða heilsu. Ég á yndislega fjölskyldu og yndislega foreldra sem hafa getað hjálpað mér og eru alltaf tilbúin til þess að styðja mig. Ekki búa allir svo vel. Alls ekki. Og nota bene, Landsbankinn tók auðvitað greiðsluþjónustugreiðsluna af mér ÁÐUR en þeir lækkuðu heimildina, þannig að ég er ekki í vanskilum, engum alvarlegum að minnsta kosti.
Ég er hraust og ég er heilbrigð, ég get unnið og ég get gengið, meira að segja hlaupið ef ég þarf þess, ég á heilbrigt barn sem er mikil guðs gæfa. Ég þarf ekki að kaupa læknismeðferð, lyfjameðferð eða verða af vinnudögum vegna langveiks barns, að maður tali ekki um þær sálarkvalir sem því fylgja.
Ég get nákvæmlega ekki kvartað yfir einu eða neinu. Nema kannski meðferð Landsbankans á mér, sem dyggum viðskiptavini til margra ára. En það er önnur saga.
Og sem starfsmaður heilbrigðiskerfisins til margra ára, nánar tiltekið slysadeildarinnar síðasta árið, skal ég segja ykkur, að það er til margt verra en það að tapa peningnum sínum, hlutabréfum eða vinnunni. Vissulega eru það mjög erfið viðfangsefni og geta virst óyfirstíganleg á stundum og ég ætla alls ekki að gera lítið úr þess slags erfiðleikum, en það er ekki það versta sem getur komið fyrir þig í lífinu. Langt frá því. Trúðu mér.
Dægurmál | Breytt 20.10.2008 kl. 01:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
13.10.2008 | 01:24
Gott að kúra um helgina..... efnahagsmálin skilin eftir heima .....
Jahérna nú......
Ég er búin að eiga ótrúlega afslappandi og góða helgi með Mr. K. í sumarbústað, ekkert sjónvarp, engin nettenging, við höfum hlustað á fréttir RÚV kl. 18 og annars bara haft það gott og kúrað saman. Það var langþráð afslöppun að fá svona helgi saman, burt frá vinnu, fréttum, samtölum, viðræðum og efnahagsfréttum, enda ekkert sem stendur í mínu valdi í öllum þessum málum......
Í dag höfum við þó nokkrum sinnum heyrt glefsur af samtali Egils Helgasonar og Jóns Ásgeirs úr Silfri Egils..... og ég neita því ekki, að í fréttaleysi okkar, vakti þetta samtal nokkra forvitni.
Mér fannst ég því nokkuð heppin, að hafa óvart hitt á endursýningu af þættinum, núna rétt áðan á ríkisrásinni í sjónvarpinu......
Og fuck, hvað á maður að segja. Maður veit eiginlega ekkert hvað maður á að hugsa. Mér fannst Egill mjög beinskeyttur og góður spyrjandi, að vanda..... hann var ekkert að hlífa viðmælanda sínum, en að sama skapi fannst mér Jón Ásgeir svara vel fyrir sig, hann hélt ró sinni og fór ekki í æsta vörn..... sem mér finnst persónulega vera mjög góð kynning út á við, örugglega vegna þess að ég er yfirleitt mjög fljót í þannig vörn, þótt ekki spili svo miklir hagsmunir og fjármunir í spilið hjá mér.....
Ég var hlynnt spurningum Egils og mér fannst hann standa sig með prýði, en að sama skapi þá fannst mér stundum ráðist að Jóni Ásgeriri með of miklu offorsi... öll mál hafa tvær hliðar...... en hvað veit ég? Ekkert er eins og það var, og það verður það aldrei aftur.
Og núna var ég að hlusta á þjóðsönginn í sjónvarpinu, með tilheyrandi fánaflökti og þjóðernissinnuðum myndum, og það var ekki laust við að ég fengi smá tár í augun og fílaði svolítið með þjóðinni minni..... Vonandi fílar þjóðin líka með mér...... nú þurfum við að standa saman og ég held að við gerum það núna þegar reynir á okkur öll.....
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 03:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
8.10.2008 | 16:54
Elsku Danirnir....
Elsku, krútti Danirnir mínir, svona þekki ég þá
Þetta er sko bara fyndið og sætt.... Hvet ykkur til að horfa á vefsjónvarpið hjá ExtraBladet, linkurinn er fyrir neðan fréttina.
Söfnun fyrir Ísland | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
7.10.2008 | 04:36
Ekki meiri hagfræði og pólitík fyrir mig.... í bili.....
Þetta er búinn að vera langur og dimmur dagur, eins og Siggi stormur sagði, bæði efnahagslega og veðurfarslega. Þetta var vonandi síðast "svarti mánudagurinn" í mörg, mörg ár.
Ég er úrvinda eftir fréttaflutning síðustu daga, hver holskeflan á eftir annarri, full af neikvæðum og erfiðum orðum, efnahagshugtökum og hagfræðiskilgreiningum. Ég er þreyttari eftir síðustu 10 daga, en ég var eftir fjögurra ára hagfræðikennslu í Verzló..... nei fyrirgefið mér, ég var þar víst í fimm ár..... að minnsta kosti að nafninu til. Þó er ég viss um að forsætisráðherrann og hans samstarfsfólk er miklu, miklu þreyttara en ég...
Höfuðið á mér er orðið eins og skítugur svampur, sem hefur sogað í sig alla neikvæðnina, hrakspárnar, illt umtal um stjórnmálamenn, gjaldþrotatal, prósentutal..... já, í stuttu máli allt sem við systur kölluðum "hagfræði og pólitík" þegar við vorum litlar og pabbi var að lýsa vinnudegi sínum fyrir mömmu okkar. Þegar talið yfirgnæfði Tomma og Jenna í sjónvarpinu áttum við það til að fórna höndum og kalla fram í eldhús: "Er ekki hægt að tala um neitt annað en hagfræði og pólitík á þessu heimili?"
Og það sama segi ég núna. Ég er búin að fá mig fullsadda af þessu öllu saman. Mér er ekki farið að standa á sama, ég þarf bara á meiri jákvæðni að halda núna. Jafnvel þótt Landsbankinn sé ekki ennþá búinn að ákveða hvort hann geti afturkallað lækkunina á yfirdráttarheimildinni minni síðustu mánaðarmót, sem át upp hverja einustu krónu sem ég hafði unnið mér inn síðasta mánuðinn. Já, ég skil að bankinn þurfi á öllu sínu fé að halda þessa dagana, en trúi samt ekki að launin mín skipti þar sköpum. En, jafnvel þótt það..... þá ætla ég að hugsa um jákvæðari hluti og beina orku minni í aðra átt. Ég hef áralanga reynslu í því að vera blönk og hagsýn og gleðjast yfir litlu hlutunum í lífinu, ég finn ekki svo mikið fyrir því að þurfa að herða ólina aðeins fastar en þetta verður meiri umbylting fyrir nýríka fólkið sem bókstaflega þarf að taka stóra u-beygju í sínum lífstíl og gíra sig niður um mörg þrep.
Í jákvæðnis viðleitni minni eldaði ég góðan mat í kvöld, kveikti á fullt af kertum út um alla íbúð og átti notalega kvöldstund með syni mínum þar sem við bæði náðum að horfa á bíómynd af flakkaranum og á ofurlöggurnar í CSI NY. Eftir það tók við sjálfdekur með froðubaði, heima-vaxmeðferð, andlitsmöskum og góðum kremum, táneglurnar voru teknar í gegn, húð skröpuð af héðan og þaðan og nú er ég eins og nýsleginn túskildingur á leið í rúm með tandurhreinum rúmfötum. Og já, ég get sofið langt út á morgun, það eru verðlaunin sem ég fékk í býtti fyrir að eyða allri helginni á næturvöktum á slysadeildinni.
Já, ég er ekki frá því að þessi sjónvarps- og snyrtimeðferð hafi verið töluvert meira uppbyggjandi fyrir mig en að velta mér upp úr efnahagsástandi mínu og þjóðarinnar. Þótt ég hafi tekið einn snöggan blogghring á meðan græni maskinn harðnaði á andlitinu, þá reyndi ég alveg eins og ég gat, að blanda mér ekki í efnahags- og stjórnmálaumræðurnar, og mér tókst það.....næstum því.....
Lilja er allavega búin að kreista svampinn sinn
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 09:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
3.10.2008 | 23:07
Hvaða hlutverki gegnir Davíð Oddsson???.......
Ójá, það dylst það engum að forsætisráðherrann er þreyttur, svo þreyttur og áhyggjufullur. Hann er áhyggjufullur til augnanna og með þreytupunga undir augunum, og hann næstum fær samúð frá mér. Það getur ekki verið auðvelt að vera í forsæti þessa dagana. Faðir minn gegnir embættismannastöðu í Forsætisráðuneytinu, og hann er líka þreyttur. Svo óskaplega þreyttur. Enda hafa staðið yfir eilíf fundarhöld og ráðstefnur síðan þeir komu heim frá NewYork fyrir tæpri viku síðan. Þreytan fór ekki fram hjá mér, þegar ég horfði á pabba minn í gærkvöldi, stórir dökkir baugar undir augunum, augun þrútin og engin lífsgleðin.... allt of margar áhyggjur..... af ríkisfjármálunum.
Ég hef líka áhyggjur, og þær spanna annað svið, nefninlega bara mitt eigið fjármálasvið. Sem betur fer þarf ég ekki að finna lausn á öllu hinu, þessu stóra apparati, en ég myndi samt gjarnan vilja fá einhver svör, einhverjar skýringar, eitthvað..... eitthvað sem varpar ljósi á það sem ríkisstjórnin er að gera. Því það dylst allavega ekki mér, að eitthvað er í gangi, faðir minn hefur varla verið heima í heila viku svo eitthvað er verið að bardúsa, en af hverju þessi leynd? Eigum við ekki heimtingu á því að fá að vita hvað er í gangi? Af hverju skellir Geir H. Haarde bíldyrum sínum á fréttamann Stöðvar 2 með þjósti? Erum við bara einhver böggandi almúgur sem erum að spyrja of margra spurninga? Nei, við erum þau sem kusum þessa ríkisstjórn, þau sem borga laun þeirra, við erum þau sem byggjum landið og að sjálfsögðu eigum við skilið allt annað en hroka frá forsætisráðherra vorum. Hann er að grafa sína eigin gröf með framkomu sinni, og með því að halda Davíð í Seðlabankanum er hann algjörlega að missa sína traustu kjósendur.
Við viljum svör! Og Við viljum Davíð burtu úr Seðlabankanum. Tími Davíðs er liðinn og við líðum ekki lengur afskiptasemi hans af þeim málefnum sem koma honum ekki við, sem og afskiptaleysi hans af þeim málefnum sem koma honum við. Hann veit ekkert hvar hann á að stíga né hvar hans tími eða staður er. Hann vill vera allt í öllu, kallinn á bak við allt, þótt hann sé löngu farinn úr ríkisstjórn. Burt með Davíð!! Við erum búin að fá nóg af Davíð í gegnum tíðina. Og for crying out loud, þið í ríkisstjórn, gefið okkur einhver svör, það er það eina sem við biðjum um. Slæmar fréttir eru betri en óvissa og við eigum heimtingu á betri svörum en þeim sem við erum búin að vera að fá. Please..... you have got to be kidding me.....
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 23:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
3.10.2008 | 02:38
Oh shit og fuck, og shit og fuck.....
Kreppan er smátt og smátt að murka lífið úr okkur Íslendingum, bæði fjárhagslega og andlega. Niðurdrepandi fréttir fylla dagblöð og fréttatíma, allt hljómar á sama veg; kaupmáttur rýrnar, krónan fellur enn frekar, gengi krónunnar hefuð náð sögulegu lágmarki.....aftur (fréttir af því heyrast reyndar enn oftar og núna oft á sama deginum), von er á gjaldþrotahrinu, ekki bara fyrirtækja heldur líka heimila, vísitalan aldrei verið hærri, krónan aldrei verið lægri..... Ég sver það, að ég er hætt að lesa blöðin frá og með deginum í dag. Skuli það ekki vera nógu niðurdrepandi að kaupmáttur krónanna minna rýrnar og fólk sé að fara á hausinn í kringum mig, er það þá ekki bara sjálfspíningarhvöt að lesa um ekkert annað í dagblöðunum??
Ég vaknaði í dag og opnaði tölvuna á heimabankann minn. Til stóð að ganga frá ýmsum reikningum og millifærslum þeim sem ekki eru inni í greiðsluþjónustunni. Ég fór inn á li.is og þegar ég komst inn á mína einkasíðu blöstu við mér 0 kr. í ráðstöfun á reikningi mínum. Ég er, líkt og aðrir Íslendingar, orðin hálfdofin yfir þessu ástandi okkar, svo mér fannst það eiginlega ekki minnsta undarlegt að ég skyldi ekki eiga krónu í ráðstöfun á mínum reikningi, jafnvel þótt ég hafi unnið eins og skepna síðasta mánuðinn og tekið fullt, fullt af yfirvinnu. Ég er bara dofin. Og í þessum dofinleika mínum brá mér pínulítið, yppti svo öxlum og hugsaði: "Okey, ég á sem sagt ekki krónu. Enga krónu. Bankinn hlýtur að hafa étið allt það sem ég vann mér inn umfram skuldir." Og mér fannst það næstum ekkert skrýtið, ég hugsaði bara sem svo, að nú hlyti Landsbankinn að vera í kröggum og væri búinn að frysta allar inneignir í bankanum. Og við erum nú bara almenningur og höfum ekkert að segja um nein bankamál eða stjórnmál, svo mér fannst það eiginlega ekkert óvænt að ég allt í einu skyldi ekki eiga krónu inni á launareikningi mínum. Hvað veit ég? Og hverju ræð ég? Engu. Nákvæmlega engu. Og þeim er líka öllum skítsama um mig. Svo ég fór af stað með plan B án þess að hugsa út í óréttlæti heimsins. Hvað get ég gert? What is my plan now?
Ójú, svosem ekki margt að gera ef þú átt ekki einu sinni pening til að komast í vinnuna. Þá verður þú kannski bara að tala við heimilislækninn þinn og lýsa yfir yfirnáttúrlegu þunglyndi og fá útgefið læknisvottorð upp á það, læknisvottorð sem afsakar þig frá vinnu fram að næstu mánaðarmótum. Svo sá ég fyrir mér að ég myndi bara leggjast í kör næsta mánuðinn, sofa eins mikið og ég gæti, svo ég þyrfti sem minnst að borða og reykingunum yrði sjálfhætt, og kannski myndi ég ekki finna svo mikið fyrir því, ef ég héldi mér bara sofandi stóran hluta af sólarhringnum. Ég yrði náttúrulega að skaffa syni mínum eitthvað nesti í skólann, en ég á fullt af hveiti, svo í öllu falli gæti ég bakað nokkur brauð og stóra oststykkið sem ég á í ísskápnum dugir örugglega allavega langleiðina út mánuðinn. Einhverjar kjötpakkningar á ég líka í frystinum, sem og súpuduft í skápnum, svo við reddum okkur alveg með kvöldmat, ef við bara höfum hrísgrjónagraut í matinn einu sinni í viku. Jú, ég fann alveg út, að við gætum lifað af mánuðinn á 0 krónum, bara ef ég þyrfti ekki að fara í vinnu og við myndum lifa á okkar uppsöfnuðu birgðum..... og svo auðvitað ekki leyfa okkur neinn minnsta skapaða hlut, eins og að leigja eina dvd-mynd eða kaupa gos.... enda gætum við það ekki með 0 krónur á reikningnum.
Ég var búin að finna lausn á öllu með 0 krónur á reikningnum, sem mér fannst alveg trúanleg niðurstaða, þótt svo ég hefði unnið fyrir nærri hálfri milljón..... það hvarflaði ekki að mér að eitthvað væri að mínum útreikningum, frekar væri eitthvað stærra í okkar þjóðfélagi og hagkerfi sem ylli þessu. Ekkert kemur manni á óvart þessa dagana. Þegar ég fór að skoða málin betur þá kom í ljós að ástæðan fyrir mínum 0 krónum á reikningnum var YRÚ..... eða yfirdráttarheimild runnin út. Í öllum mínum hamagangi í vinnunni hafði ég ekki tekið eftir bréfi sem ég fékk um það, að yfirdráttarheimild mín myndi detta niður um þessi mánaðarmót og þar af leiðandi ekki verið svo séð að fá henni framlengt. Tæknilegir erfiðleikar, sem sagt. Ekkert sem ekki má laga, vonandi. Ég er enn ekki búin að fá svar, þótt svo ég hafi sent þjónustufulltrúa mínum e-mail um miðjan daginn. En þetta lagast vonandi á morgun. Annars held ég mig við plan B.
Ég náði samt að eyða einhverju út af reikningnum áður en yfirdráttarheimildin datt niður. Unglinginn á heimilinu hafði í lengri tíma dreymt um að kaupa sér ákveðinn sjónvarpsskáp og langaði að breyta sínu barnaherbergi í unglingaherbergi. En þar sem móðir hans hafði tekið sér að láni allt hans lausafé, gat hann ekkert gert, en samningar höfðu náðst um það að hann gæti eignast þennan sjónvarpsskáp núna, um þessi mánaðarmót. Þess vegna fór móðirin í verslunarleiðangur í IKEA, einhverja leiðinlegustu verslun alheimsins, í gær til þess að festa kaup á þessum margumtalaða skáp. Og skápinn fékk hún. Og eyddi meira en hálfum vinnudegi í að skrúfa og setja saman. Verð nú samt að segja IKEA það til hróss, að það vantar aldrei eina einustu skrúfu, að minnsta kosti ekki í húsgagnapakkningarnar þótt starfsfólkið sé misgáfulegt..... Öll göt á öllum spýtum og plötum passa upp á millimeter við það sem á að falla þar að, svo þótt þetta sé heilmikil handavinna og pússluspil, þá gengur samsetningin á húsgögnum þeirra alltaf upp.
Og gerði það líka í þetta skiptið. Strákurinn á núna flottan sjónvarpsskáp, með skúffum með glerframhliðum, sem rúlla á hjólum, (nota bene, ímyndið ykkur vinnuna og skrúfufjöldann við það!!), með háu baki sem hægt er að festa flatskjáinn á, sem hann keypti fyrir fermingarpeningana ....ímyndið ykkur vinnuna við það....!!! Og rísöltið er í dag, haltrandi kellingamamma, sem getur sig varla hrært fyrir harðsperrum eftir að hafa bograð yfir skrúfingum og samsetningu af þessarri mublu í fjóran og hálfan tíma..... og svo auðvitað þessi fíni skápur sem nú prýðir herbergi sonarins og gleður hann ósegjanlega mikið.
Getur maður óskað sér betri mömmu? Sem ofan í kaupið eldaði líka kvöldmat? Án þess að fá krónu fyrir..... en ég fékk þó góðan koss og mikið þakklæti frá unglingnum í gær. En hann var fyrir löngu búinn að gleyma því í dag. Því þá kom út PlayStation3 leikurinn, Fifa 2009, og þá var móðirin minnt á það, að hún ennþá skuldaði drengnum einhvern pening, og drengurinn vildi þennan pening í dag, því hann bara VARÐ að eignast Fifa 2009. Og hvað segir maður þá? Þegar allt er á versta veg og ráðstöfunarreikningurinn stóð á núlli??? Já, einmitt, þá öskraði ég á drenginn..... eins og ástandið væri honum að kenna....... en shit, hvað getur maður þolað mikla pressu á einum sólarhring???
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 02:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)