18.6.2008 | 20:57
Með bros á vör og kurteisi í handfarangrinum.....
Spánverjar eru glaðir, sérstaklega núna þegar þeir eru nýbúnir að jafna leikinn við Grikki. En þeir eru samt glaðir, glaðir og vingjarnlegir. Ég hef tekið eftir því. Þeir eru ekki æðandi um göturnar með stress- og fýlusvip eins og Íslendingar, þeir víkja fyrir öðrum, bjóða náunganum sæti áður en þeir setjast sjálfir, brosa til ókunnugra, gefa sénsa, ryðjast EKKI fram fyrir mann í röðum og biðjast afsökunar ef þeir rekast utan í mann. Já þetta heitir víst að vera kurteis og vingjarnlegur og mættu Íslendingar svo sannarlega læra brot af þessum góðu siðum Spánverja . að mínu mati.
Við mæðginin erum búin að þramma göturnar í Barcelona þverar og endilangar, þeysast um neðanjarðar í neðanjarðarkerfinu og erum bara nokkuð montin með okkur, hve vel okkur hefur gengið að rata. Ég hef verið í Barcelona áður, en einhvernveginn áttaði ég mig ekki eins vel á borginni í það skiptið. Kannski á ég það til að stóla of mikið á ferðafélaga minn þegar ég ferðast með fullorðnum og átta mig því ekki eins á hlutunum eins og þegar ég er ábyrgari aðilinn í ferðinni, en kannski má líka kenna bjórþambi og leigubílatúrum um óáttun mína í fyrri ferð minni til Barcelona.... En eftir þessar tvær ferðir mínar hingað er ég ástfangin af bæði borg og búum, og ég er búin að ákveða að búa hérna í einhverja mánuði einhvern tímann . Ég ætla að fara í spænskunám og vinna fyrir mér við hvað sem er. Mér er alveg sama hvort ég afgreiði á bar eða vinni í miðasölunni í dómkirkjunni. Skiptir ekki máli. Ég er búin að reyna að sannfæra son minn um ágæti þess að búa hérna, en hann segist ekki vilja gera það, nema hann fengi atvinnumannasamning við F.C. Barcelona, þannig að nú þarf bara að toga í nokkra spotta ..
Speaking of við fórum að skoða leikvang F.C. Barcelona, Camp Nou, í dag og þvílíkur leikvangur. Hann tekur eitthvað um 100.000 manns í sæti, áhorfendastúkurnar eru margra hæða og efstu hæðirnar eru svo snarbrattar að mig svimaði við að horfa á þær. En djö gæti ég ímyndað mér, að væri gaman að horfa á leik á þessum leikvangi, og set ég það hér með líka á listann; What to do in the future. Það var bara mögnuð upplifun að sjá þetta með eigin augum. Auk þess fengum við að sjá búningsherbergi liðsins, með spa-potti, nuddbekkjum og kæli með drykkjum og kampavínsfötu .. fyrir góðu dagana. Ég fékk m.a.s. mynd af mér með Ronaldhino og Etoo, reyndar tölvugerða en mér er alveg sama. Strákurinn fékk að kyssa meistaradeildarbikarinn og fékk mynd af sér með bikarinn í fanginu, svo allir eru glaðir!!
Annars hef ég tekið eftir ýmsu í Spánarför minni að þessu sinni .. Spænskar mömmur þurrka líka hor úr nebbanum á börnunum sínum, þær draga samt ekki börnin á eftir sér um göturnar heldur leiða þau við hliðina á sér. Spánverjar sópa göturnar með strákústum (!!), gömul, spænsk hjón á bekk að kyssast eru jafnsæt og gömul, íslensk . nema gömlu, íslensku hjónin myndu aldrei sitja saman á bekk í almenningsgarði og kyssast . Spánverjum er sama þótt þeir ferðist milli staða eins og síld í tunnu í Metro-inu, þeir brosa samt og nota tímann til að lesa. Á Spáni keyra skvísurnar á mótorhjólum í háhæluðum skóm. Spánverjar glápa ekki á næsta mann og hvíslast á um hann, né snúa þeir sér við í hneykslan, hvort sem þeir mæta tveimur pönkurum, Araba með túrban eða mjög feitri konu í bleikum jogginggalla .. það er kannski helst að þeir snúi sér við á eftir mér, en það er önnur saga ..
Íbúar Barcelona eru vanir mannmergð, þeir eru vanir fjölbreytileika mannkynsins bæði í kynþáttum, líkamsbyggingum og fatasmekk. Þeir kippa sér ekki upp við neitt og undra sig ekki á neinu. Halda bara sínu striki og brosa. Fyrr en við Íslendingar getum tileinkað okkur svona hugsunarhátt getum við ekki kallað Reykjavík heimsborg. Þannig er það nú bara.
Jæja, loksins sól í Barcelona og við ætlum að gleypa hana fyrri partinn á morgun, þannig að Proxima Estacio er .. rúmið fyrir mig. Þetta er ég búin að læra í spænsku, lærði þetta í neðanjarðarlestunum .. lofar góðu, ekki satt??
P.S. Spánn var að vinna Grikkland 2-1 svo kannski maður skreppi aðeins niður og kíki á stemninguna á götunum fyrst .. svo í rúmið.... nema maður hitti eitt stykki sætan Spánverja...jú, þá verður það kannski líka rúmið..... nei djók
Dægurmál | Breytt 20.6.2008 kl. 22:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
14.6.2008 | 23:57
Ertu að fokking kidda mig???.....
Við mæðginin erum stödd í Barcelona, erum hér á öðrum degi. Í gær fórum við út seinni partinn, bæð íklædd einhverskonar peysum og vorum svo að grillast í þeim, fórum úr og létum þessar peysur sem við þurftum að hafa í eftirdragi, pirra okkur það sem eftir lifði kvölds.
Í dag sagði ég því við einkasoninn, að við skyldum skilja blessuðu peysurnar eftir heima, jafnvel þótt það væri hálfskýjað. Ég sagði honum að það væri heitt samt. Svo út fórum við peysu- og jakkalaus, ég meira að segja ermalaus. Þegar við vorum búin að ganga smá, sitja á veitingastað og fá okkur kalda drykki, var mér orðið kalt, svo ég hugsaði með mér, að ég þyrfti bara að stökkva einhversstaðar inn og kaupa mér eina slæðu til að bregða yfir axlir og bak. Við gengum búð, úr búð í búð, og aldrei fann ég neitt sem minnti hið minnsta á slæðu. Af einhverjum ástæðum var ég búin að stilla höfuðið inn á slæðu og sá því ekki möguleikann í því að kaupa mér litla skyrtu, gollu eða jakka.... slæða skyldi það vera, en enga slæðu fann ég. Við þrömmuðum áfram og mér fannst vindurinn í Barcelona verða kaldari og kaldari, og örvænting mín jókst, því við vorum hvergi nærri á leið heim. Þá gengum við fram á Burberry búð og ég hugsaði í einfeldni minni; .... ef einhversstaðar eru til slæður, þá er það í Burberry..... svo inn gengum við og gengum beint fram á heilt borð af slæðum og treflum.... (skyldi vera stór markaður fyrir trefla í Barcelona???).
Ég vildi ekki þessar týpisku brún-rauðköflóttu Burberry-slæður, því mér finnst þær einfaldlega ljótar, og vil heldur ekki ganga um eins og lifandi auglýsingaskilti fyrir ákveðna vöru, svo ég valdi mér eina ákaflega fallega, hárauða með gullþráðum í.... tók mig samt innan við eina mínútu að velja, enda ætlaði ég slæðunni ekki stórt og mikið hlutverk í lífinu, valdi hana meira í stíl við outfit dagsins heldur en af praktískum ástæðum til framtíðar. Ég sagði við soninn, að ég vissi að hún væri örugglega rándýr, en ég væri desperat af kulda og ég bara YRÐI að eignast eitt stykki slæðu áður en við héldum áfram með dagsplanið. Greip þess vegna slæðuna, án þess að kíkja á verðið, (viljandi), og gekk að afgreiðsluborðinu til að borga fyrir lifesaverinn. Mér var vel tekið, afgreiðslumaðurinn hneigði sig fyrir mér, pakkaði slæðunni inn í silkipappír, setti í voða fínan poka og batt slaufu á hann, slaufu úr silki. Pokinn kyrfilega merktur Burberry . Ég horfði á athafnirnar, mjög svo þolinmóð.... eða þannig..... hugsaði bara; get ég ekki bara fengið helv... slæðuna and that´s it!!... Ætlaði hvort sem er að rífa hana beint upp úr pokanum og slá henni um axlirnar....
En hann gaf sér góðan tíma, renndi svo kortinu mínu í gegnum vélina sína og rétti mér kurteisislega kvittunina til að skrifa undir. Ég hafði ekki hugsað mér að líta á verðið, en gerði það óvart samt. Og ég get sagt ykkur, að mér varð ekkert meira kalt eftir það. Ég kvittaði, beið svo spennt eftir að fá kampavínsglas með herlegheitunum, en fékk ekkert. Svo ég labbaði hnípin út og hugsaði hvern andskotann ég væri búin að gera. Hjartað barðist svo ótt að mér var heitt í marga klukkutíma á eftir, ég tók aldrei slæðuna góðu upp..... enda fór sólin að skína aftur, fljótlega eftir að ég hafði borgað 245 FOKKING EVRUR FYRIR EINA FOKKING SLÆÐU!!!
Strákurinn hló að mér eins og brjálaður og ég sagði honum að halda kjafti. Svo sneri ég upp á handlegginn á honum og kleip hann, (djók), og hótaði honum öllu illu ef hann segði ömmu sinni, sem sagt mömmu minni frá þessu (ekki djók). Ég sagði honum hins vegar að hann myndi svelta næstu dagana vegna þessarra asnalegu kaupa móður hans. Ég lét hann samt ekki svelta í kvöld, það byrjar á morgun...
Við fórum svo að skoða Dómkirkjuna, tókum fullt af myndum og ég passaði mig sko vel á því, að hafa hinn rándýra Burberry -poka með á myndunum. Í hvert skipti sem sonurinn smellti af, spurði ég hann hvort pokinn væri ekki örugglega með á myndinni, enda reiknast mér til að pokinn einn sé stöðutákn, sem kosti örugglega 4.000 kr. í það minnsta. Eins gott að sýna það eins mikið og ég get, af því að ég er merkja- og stöðutáknafrík með meiru
Núna stendur pokinn fíni, með slæðunni flottu, á gólfinu í hótelherbergi okkar mæðgina.... ég vonast til að geta skilað þessum verstu kaupum sem ég hef gert á ævi minni, en ef ekki..... djöfull skal ég skarta mikið rauðu um hálsinn næstu tíu árin eða svo!!! Ekki af því að mér leiðist fallegir hlutir, en ég þoli ekki hluti sem eru dýrir bara af því að þeir eru merktir ákveðnum framleiðanda. Ég þoli ekki merkjavöru bara vegna þess að hún er merkjavara..... ég hefði getað keypt mér fimm skyrtur í H&M, eða tvenna jakka í Zöru eða tvennar gallabuxur í Miss Sixty fyrir þennan pening..... en ein helvítis asnaleg slæða fyrir 24..... ég get ekki einu sinni sagt upphæðina til enda....
P.s. ....þess skal getið, bara til að gera smán mína enn stærri, að ég keypti mér mjög sæta slæðu/hálsskraut í sölubás fyrir utan dómkirkjuna, sem kostaði aðeins 5 EVRUR (!!!) - og er miklu flottari en þessi rándýra Burberry-fokking-slæða....
Dægurmál | Breytt 15.6.2008 kl. 22:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
11.6.2008 | 22:46
"She brings me to all my dark places... " .....
Það er svo undarlegt með tónlist, sum vekur hjá manni gleði, önnur sorg, enn önnur minningar, góðar eða slæmar, sumir tónar vekja upp söknuð, getur bæði verið söknuður eftir gömlum tímum eða söknuður um manneskjur, jafnvel söknuður eftir tilfinningu, og svo getur önnur tónlist stressað mann.
Ekkert af þessu ofangreindu getur lýst þeim tilfinningum sem kvikna í mér þegar ég hlusta á lagið hennar Amy Winehouse, You know I´m no good. Ég hef heyrt lagið öðru hvoru í útvarpinu síðustu tvö árin eða svo, eins og allir aðrir, en hef nýlega uppgötvað þetta lag á I-podinum hjá syni mínum. Og síðan hefur það orðið að áráttu minni að hlusta á lagið svona þrisvar til fjórum sinnum á hæsta styrk í eyrunum einhverntímann yfir daginn. Og það er alveg sama hvaða tíma dagsins það er, alltaf vakna sömu tilfinningarnar. Og þetta eru óþægilegar og ekki góðar tilfinningar.
Fyrir það fyrsta, þá er þetta ógeðslega flott lag, finnst mér. Frábært undirspil og röddin hennar er alveg æðisleg, eiginlega betri en geðveik. Kannski vakna þessar tilfinningar af því að hún er svo yfirlýstur dópisti og ég einhversstaðar í hjarta mínu kenni í brjósti um hana, en einhvernveginn finnst mér þessar tilfinningar koma dýpra frá. Ég get bara lýst þessum tilfinningum með þessum frasa; She brings me to all my dark places.
Og það er þannig, þetta lag lætur mér líða ömurlega á einhvern ótrúlega góðan hátt, á sama tíma og mér finnst það ógeðslega flott.
Á einhvern óskiljanlegan hátt upplifi ég ótrúlega margar neikvæðar tilfinningar, kenndir og minningar þegar ég hlusta á þetta lag, það hellist yfir mig einhver einmanaleiki, mér verður kalt, ég fæ hjartslátt og mér líður eins og ég sé drukkin á einhverjum yfirgefnum stað og rati ekki heim. Hvorki heim frá stað né stund, né frá sjálfri mér. Ég verð einhvernveginn ráðvillt og sorgmædd, eins og ég viti ekkert hver ég er eða hvað ég vilji. En bara á meðan ég hef augun lokuð og hlusta, um leið og ég opna augun hverfur tilfinningin, allavega að mestu. Svo spila ég lagið aftur, loka augunum og upplifi nákvæmlega sömu tilfinningar aftur.
Ég hef ekki minnstu löngum til að greina, hvers vegna mér líður svona við hlustun á þessu lagi. Kannski vegna einhverra gleymdra og grafinna minninga .ég var ekkert alltaf voðalega góð við sjálfa mig á sumum af mínum yngri árum ., kannski vegna upplifana í fyrra lífi, kannski vegna einhvers mjög nærverandi í dag, kannski skiptir þetta engu máli. Ég veit bara, að ég get framkallað tilfinninguna við það að hlusta á lagið og slökkt á tilfinningunni við að hlusta ekki. Svo ég slekk og verð glöð, og kveiki og verð sorgmædd og döpur, svo slekk ég aftur og verð glöð .. Og held áfram að slökkva og kveikja, slökkva og kveikja.
Masókistinn, ég, held auðvitað alltaf áfram að kveikja og upplifa það slæma en mikið er gott að geta slökkt aftur .. þegar ég er búin að velta mér nógu lengi upp úr öllu þessu slæma .
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 23:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
8.6.2008 | 23:38
Fordómar og for-dómar.....
Flest þykjumst við vera fordómalaus, en svo þegar betur er að gáð, leynast þeir allnokkrir í hugarskotum okkar allra. Margir þykjast ekki vera á móti samkynhneigðum, af því að nú á dögum þykir það bera vott um heimsku, en þeir vilja samt ekki að þjálfari fótboltaliðs sonarins sé hommi, hann gæti farið að reyna við strákana, og úpps ef þeir beygja sig niður, sem þeir eðli málsins samkvæmt þurfa oft að gera á æfingum.....
Sumir þykjast ekki hafa neitt á móti innflytjendum, en þegar til kastanna kemur, vilja þeir ekki fá innflytjendur sem nágranna .. úpps aftur, það er ekki það sama að hafa enga fordóma og fá kvikindin í bakgarðinn hjá sér. Ég hef til dæmis ekkert á móti krókódílum, en ég vil samt ekki hafa einn slíkan á svölunum mínum.
Stundum tekur fólk afstöðu til mála, án þess að kynna sér nein rök á bak við þau. Það hefur bara svona af því bara-afstöðu eða fylgir afstöðu annarra, af því að það er ekki nógu sjálfstætt til að taka eigin afstöðu .. já, eða of latt til að nenna því, eða öllu verra of heimskt til að taka raunhæfa afstöðu......
Ég viðurkenni að ég hef ýmsa svona fordóma, þ.e. byggða á engum rökum. Ekki gegn samkynhneigðum, enda deili ég skoðun Andreu Jónsdóttur, útvarpskonu og tónlistargúrús með meiru, að flestir hafi í sér bisexualt element .. en það er önnur saga. Ekki hef ég heldur fordóma gagnvart innflytjendum, þótt mér finnist að stjórnvöld eigi að gæta hófs þar og læra af mistökum annarra Norðurlanda í því málefni.
Ég hef hins vegar mikla og órökstudda fordóma gegn Herbalife vörunum, hef aldrei prófað þær og mun aldrei gera, veit ekkert hvort þær eru góðar eða slæmar, en sölumenn Herbalife fara geðveikt í taugarnar á mér. Þeir eru jafn uppáþrengjandi með sína vöru og mormónar með sína trú ..
Sem minnir mig á, að ég hef líka fordóma gegn Vottum Jehóva, án þess að þekkja einn einasta Vott og án þess að hafa sótt samkomu hjá þeim. Vegna þess að afstaða þeirra til blóðgjafa finnst mér heimskuleg og asnaleg. Á því byggi ég mína fordóma.
Grasalækningar finnst mér líka svolítið ýkt fyrirbæri, örugglega kennir margt góðra grasa þar, en mér finnst stundum verið að kynda undir vonir og væntingar hjá þeim sem minnst mega sín, þ.e. mikið sjúkum, með grasalækningum. Fólk sem að öllum líkindum er deyjandi, grípur í grasalækningar sem síðasta hálmstráið, eyðir formúgu í þessa vitleysu og deyr svo samt. Þrátt fyrir að hafa drukkið jurtaseyðið, étið kapsúlur með heilagri blöndu í og smurt sig með grasaolíu ofan og neðan.
Fólk sem hefur áráttu fyrir höfuðbeina-spjaldhryggsmeðferðum, segir að maður eigi að taka routerinn sinn úr sambandi yfir nóttina, vegna þess að annars sofi maður svo illa og verði útúrgeislaður, trúir því að ef ég ýti á ákveðinn punkt á kinnbeininu minnki ég stress mitt og þar fram eftir götunum, hef ég ákaflega lítinn tolerance fyrir. Án þess að vita hvort þau fari með rétt mál eða ekki. Ég þoli bara ekki þeirra uppátroðslu í minn garð, með sín fræði, í hvert skipti sem ég nefni einhvern krankleika. Ég nenni heldur ekki að hlusta á óumbeðinn fyrirlestur, í hvert skipti sem ég set sykur, gosdrykk eða aðra bannvöru inn fyrir mínar varir í þeirra augsjá. Ég bara hreinlega þoli það ekki!
Í gær, eða öllu heldur í nótt, uppgötvaði ég svo nýja fordóma hjá mér. Ég hafði skellt mér á djammið í góðum félagsskap og eins og oft vill verða, nálgast mann einhverjir karlmenn. Vilja chatta, dansa, jafnvel bjóða í glas en allir hafa síðasta lokamarkmiðið, þ.e. .. ja, þið getið líklega alveg sjálf getið ykkur til um það. Nema hvað, þar sem ég var stödd á staðnum B5 í Bankastræti, vindur sér að mér ágætlega huggulegur karlmaður, og líka á þeim aldri sem mér finnst í lagi að tala við . þ.e.a.s. hann var ekki 18 ára .. Ég talaði við hann í örskamma stund, eða þar til hann einhverra hluta vegna sneri sér við og ég sá að aftan á gallajakkanum hans stóð: HARD ROCK CAFÉ, AMSTERDAM. Ég var farin áður en hann sneri sér aftur við, slíkir voru fordómar mínir gagnvart karlmönnum, sem ganga í gallajökkum merktum Hard Rock Café. Mér var alveg sama, hvern mann jakkinn geymdi, ég felldi þarna harkalegan dóm, dæmdi innihaldið af umbúðunum. Vonandi missti ég ekki af mannsefni mínu þarna
Anyway, þá var ég þó mjög for-dæmandi, þegar ég spáði fyrir um lok Baugsmálsins. Ég hélt því alltaf fram að Ríkið myndi ekki hafa mikið upp úr krafsinu þar, bæði eru Baugsfeðgar og samstarfsmenn of auðugir til þess að þurfa að stinga undan einhverjum nokkrum milljónum, og svo eru þeir líka nógu ríkir til þess að ráða góða endurskoðendur til þess að fela slíkar uppákomur ef þeir þyrftu. Hver ætli beri ábyrgð á þessu rugli sem við erum nú að blæða og borga fyrir? Var öfundsýkin þarna alveg að fara með Seðlabankastjórann okkar eða á hann einhverjar óuppgerðar sakir við þessa menn, sakir sem hann lætur okkur landsmenn borga fyrir. Tja, ég bara spyr .. allt leyfist þessum köllum og kellum án þess að við fáum að greiða atkvæði um fyrirfram .. við bara kjósum og borgum svo fyrir vitleysuna eftir á, þegjandi og hljóðalaust .. Eða kannski ekki alveg hljóðalaust, ég er allavega að baula núna!! And I´m not happy with this shit!!!
Dægurmál | Breytt 9.6.2008 kl. 01:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
8.6.2008 | 18:04
Og viljum við ganga í ESB?
Áminning til þeirra sem eru fylgjandi Evrópusambandinu. Ísland mun engu ráða þar, mun hafa lítil áhrif, eins og aðrar örþjóðir í ESB, við munum þurfa að gefa upp okkar sérstöðu og aðlaga okkur að þörfum og áherslum annarra og stærri þjóða. Danir eru ekki ánægðir með sína aðild að sambandinu og kannanir í Danmörku í dag og síðustu ár sýna, að flestir Danir vilja ganga úr Evrópusambandinu aftur.
Við þurfum að íhuga það vel, eftir hverju við erum að sækjast í rauninni, ef við viljum inngöngu í Evrópusambandið. Við erum alls ekkert illa stödd án þess.
Danir segja að ESB hafi keyrt yfir þá í hvalamáli | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
8.6.2008 | 16:34
Hægðir í ýmsum útgáfum.....
Á stofugangi, á ónefndri deild um daginn, spurði líka ónefndur læknir, sjúkling einn hvort hann hefði heilbrigðar hægðir. Sjúklingurinn varð ekki hvumsa, vissi líklega hvað fólst í spurning læknisins, en ég staldraði aðeins við þessa spurning. Heilbrigðar hægðir? Hvað er nú það? Er það ef þú hefur hægðir einu sinni á dag, eða annanhvorn dag? Hafa heilbrigðar hægðir sérstakt útlit og þéttleika?? Dökkbrúnan lit eða ljósbrúnan? Bara fyndið að velta þessu fyrir sér, finnst mér
Hins vegar held ég að það sé nokkuð víst, að heilbrigðisstarfsfólk sé með hægðir á heilanum, svona eins og gamla fólkið. Ég komst að því, þegar ég fór í 5 daga fjallgöngu síðasta sumar, og svo skemmtilega vildi til að í hópnum voru af tilviljun fimm hjúkrunarfræðingar úr hinum ýmsu áttum. Allar áttum við til orð yfir það sem fyrir augu bar, og allar líktum við mörgu af því við ýmis konar hægðir. Þetta er eins og barnaniðurgangur, þetta er nú alveg eins og týpískar sýklalyfjahægðir, þetta er næstum eins og algjör fituskita, (orð, sem örugglega bara heilbrigðisstarfsfólk þekkir!) og þetta líkist morfín-aftúrkreistingi ..(annað orð sem líklega bara heilbrigðisstarfsfólk þekkir). Eitt skiptið sátum við svo í himneskri náttúrulaug, þar sem mjög svo órætt slím var í botninum, þá greip einn karlmaðurinn lúkufylli af slíminu, lyfti því upp og sagði: Stelpur, eins og hvernig hægðir eru þetta? Við vorum náttúrulega ekki lengi að svara því. Þetta voru eins og Clostridium hægðir, eða jafnvel eins og Noro hægðir, bætti ein við. Skák og mát
Einhverju sinni lenti ég líka í því, að Toyotan mín startaðist ekki, alveg sama hvað ég reyndi. Ég þrjóskaðist við, en að lokum játaði ég mig sigraða og tók leigubíl í vinnuna. Þaðan hringdi ég svo í Toyota-umboðið og spurði hvað gæti verið vandamálið. Starfsmaðurinn tjáði mér að það væri stýrislás á bílnum, en ég er nú ekki svo ljóshærð, að ég hafi ekki vitað það, þetta var eitthvað annað og meira en einfaldur stýrislás. Þá spurði hann mig, hvort það gæti verið að bíllykillin hefði komist í snertingu við snjóinn .. það var nefninlega mjög snjóþungt þennan dag Og jú, ég hélt það nú, enda hafði ég misst bíllyklana í götuna rétt áður en ég fór inn í bílinn. Hann taldi þá líklegast að snjór og bleyta hefði lekið niður í svissinn og frosið þar, og því hefði ég ekki getað startað bílnum. En þetta væri ekkert mál, ég ætti einfaldlega að taka lásaolíu og sprauta henni ofan í svissinn. Ég varð pínu hugsi og kom svo með einfalda spurning: Á ég þá bara að taka venjulega laxerolíu og dúndra henni þarna niður??? Starfsmaðurinn var þögull í smá stund og sagði svo: Ég sagði ekki LAXEROLÍU, ég sagði lásaolíu!! Ég áttaði mig strax og baðst afsökunar, sagði honum að ég væri hjúkrunarfræðingur og væri með hægðir og hægðalyf á heilanum
Þetta er nú meiri skíta færslan
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 17:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
6.6.2008 | 00:27
Fuck it!!!
Nú er ég fukking brjáluð út í þetta blogg, er þrisvar búin að skrifa nær sömu færsluna og svo BÚMM, allt í einu dettur hún alveg út, og allt hverfur. Ég er þrjósk, en djöfull maður, ég er ekki svona þrjósk, nenni ekki að sitja eins og fífl fyrir framan eitthvað tæki sem ákveður bara að detta út, þegar því hentar, svo ég gefst upp..... í kvöld....
Veit ekki hvort ég nenni að reyna við þessa færslu aftur, á fyrir höndum marga daga með tvöföldum vöktum og svo góða djammhelgi, og svo er ég bara farin til Barcelona til að hafa það gott. Svo líklega á ég ekki eftir að skrifa mikið næstu dagana/vikurnar.
Segið mér samt, er þetta að koma fyrir ykkur? Dettur allt út, þegar þið eruð búin að sitja og skrifa kannski í korter eða svo....? Eða kemur þetta einhverntímann fyrir? Djö.... fer þetta í taugarnar á mér. Og ekki á þær bætandi.
Jæja, játa mig sigraða í kvöld fyrir tölvufíflinu, er farin að sofa.
Djö..., helv...., andsk..... tölvuheimur.....
4.6.2008 | 02:00
Lengi getur vont versnað....
Stjórn Bandaríkjanna ætlar greinilega að gera sitt til þess að vinna aftur vinsældir sínar, eða þannig. Ferðamönnum í USA hefur fækkað umtalsvert síðustu árin, en ekki ætla þeir að gera það auðveldara fyrir þá einstaklinga sem þó nenna að standa í þessu veseni til að sækja land og þjóð heim.
Lengi getur vont versnað - hversu langt ætla stjórnvöld í USA að ganga í paranoiu??
Ekki nenni ég til Bandaríkjanna, segi eins og einhver annar nefndi, það er nóg af áhugaverðum og spennandi stöðum í öllum öðrum álfum heimsins, svo ekki verður maður af ferðalögunum þótt maður sniðgangi Bandaríkin!
Hertar reglur um ferðir til Bandaríkjanna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
3.6.2008 | 00:14
Nostalgía í Nettó.....
Ég er bókaormur og hef alltaf verið. Í gamla daga beið ég hálfa vikuna eftir að bókabíllinn kæmi í "Kjöt og Fisk" á föstudögum og þá fór ég og fékk lánaðar 10 bækur, sem var hámark, og var iðulega búin með þær allar á þriðjudegi. Og þá hófst biðin aftur.
Þegar ég varð eldri, var það nánast helgiathöfn fyrir mig að taka strætó niður í bæ og fara á gamla góða Borgarbókasafnið. Þá tók ég strætó númer 14 niður að Lækartorgi, labbaði svo með hátíðarsvip upp tröppurnar við Menntaskólann í Reykjavík, og þóttist vera að æfa mig fyrir komandi ár..... (því fór nú samt sem fór, og ég eyddi menntaskólaárunum í Verzló, en ekki MR, en þetta var ágætis æfing samt....). Með enn meiri hátíðarsvip gekk ég upp tröppurnar að Borgarbókasafninu, sem mér fannst sérlega tígurlegar, og mér fannst alltaf sérstakur andi og lykt inni á safninu og ég naut þess að eyða heilu eftirmiðdögunum þarna inni. Ég gat svo ekki beðið eftir því að komast heim aftur og byrja að lesa.
Í dag les ég ekki eins mikið og ég vildi gera. Ég tek svolítið svona lestrartarnir og les margar bækur á stuttum tíma og svo les ég kannski ekki eina bók í 10 mánuði. En þetta stoppar mig alls ekki í því að kaupa bækur, því það að hlakka til að lesa góða bók, er næstum eins góð tilfinning og í raun og veru að lesa hana. Þess vegna er ég alltaf með bókastafla á náttborðinu mínu, af bókum sem ég ætla að lesa næst. Og þegar ég finn á mér, að bráðum fari að róast í kringum mig, og ég geti brátt gripið bók í hönd, þá fer ég að safna í næsta stafla.... því maður verður að hafa eitthvað til að hlakka til!!
Nú á ég fyrir höndum sumarfrí, fyrri lotu bara eftir nokkra daga og seinni lotu aðeins nokkrum vikum seinna. Og þá sé ég fyrir mér nokkur kvöldin, bæði á hótelum erlendis og í rúminu heima á björtum sumarnóttum, mig með góða bók í hönd. Þess vegna geng ég með augun sérstaklega vel opin fyrir bókum þessa dagana, bæði í stórmörkuðum og svo kíki ég reglulega í Eymundsson.
Í dag rakst ég svo á bók, sem hrakti mig og mínar hugsanir nær 20 ár aftur í tímann. Þessi bók heitir Dagbók góðrar grannkonu, eftir Doris Lessing. Þannig er, að fyrir nær 20 árum átti ég góðan vin og svona, what shall we call it, ..... helgarbólfélaga. Við eyddum öllum helgum saman, mömmu minni til mikillar gremju, þar sem hann var svolítið eldri en ég og svo skildi hún ekki þetta "helgarstand" á stelpunni. Einn sunnudagsmorguninn, eins og svo oft áður, vaknaði ég heima hjá þessum dreng og stuttu seinna þurfti hann að fara út til þess að sækja vin sinn eitthvert.... líklega koma honum heim úr einhverjum ógöngum... Hann sagðist koma fljótlega aftur svo ég hélt bara áfram að kúra. Líklega lenti hann í skemmtilegra "geimi" en mér, litlu Liljunni, en Liljan hélt áfram að bíða og kúra, og kúra og bíða. Þar til henni fór að leiðast pínulítið. Ég var samt of hrædd og feimin við mömmu hans til að þora að fara fram og fá að hringja, mind you of that fact, að í þá daga voru engir gsm-símar.... ....svo ég var eiginlega stuck þarna. Þá rak ég augun í þessa bók á náttborði hans, sem var einmitt Dagbók góðrar grannkonu, greip hana og byrjaði að lesa.
Ég komst ansi langt inn í bókina áður en minn góði vinur sneri aftur, en á þeim tímapunkti var mér alveg sama. Ég var algjörlega dottin inn í þessa bók, og mér fannst hún virkilega góð. Aldrei náði ég að klára bókina góðu og ekki man ég í dag um hvað hún fjallaði, ég gæti ekki einu sinni gefið grófa innihaldslýsingu á henni núna. En ég man að mér þótti hún góð. Kannski var það unglingsandinn sem sveif yfir vötnum þennan tíma, kannski var það hálfþynnkan, óvissan og óþreyjan í biðinni, kannski var það andinn sem sveif yfir sambandi mín við þennan unga mann, kannski óþroski minn....
En allavega, þegar ég sá þessa bók í dag, þá greip ég hana án þess að hugsa mig um og án þess að lesa aftan á hana. Einhver nostalgíu-hugsun flaug í gegnum höfuðið á mér, allt í einu var ég aftur 18 ára, aftur á Tunglinu eða á Gauknum að svipast um eftir þessum góða vini mínum, (mind you again of the lack of mobils....), Sined O'Connor, Cure, Pixies og U-2 fílingur komu upp í hugann, ég var stödd á Verzló-böllum, í hagfræðiprófum, að læðast heim um helgar allt of seint, nýkomin með bílpróf...... nostalgía um litla stelpu sem var í hringiðu þess að finna sjálfa sig. Og mér þykir nú "soldið" vænt um þessa litlu stelpu sem vaknaði í endurminningunni og líka um þær minningar og tilfinningar sem örsnöggt flugu í gegnum huga minn þegar ég leit á titilinn á bókinni.
Þess vegna keypti ég hana. Hvort hún er góð, á eftir að koma í ljós. En kaupin færðu mér allavega smá gleði í hjarta. Gleði og ánægjubros yfir gömlum minningum og gleði yfir því að vera ekki lengur 18 ára. Thank God. And thank God for the mobils, too.....
......þess má til gamans geta, að Twin Peaks, bæði þættirnir og tónlistin úr þáttunum færa mér nákvæmlega þessarri sömu tilfinningu, og sýnin af bók Doris Lessing gerði í dag. Þetta er einhver svona sérstök "18-ára-tilfinning" og í hugarskoti mínu get ég meira að segja fundið lyktina af því shampoo sem ég notaði þá...... Skrýtinn þessi hugur manns....
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 01:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
31.5.2008 | 20:20
Hvernig lítur helgin út??
Já, það er vinnuhelgi hjá mér, sem þýðir a.m.k. þrjár vaktir yfir helgina. En hver segir að ekki sé hægt að njóta helganna þótt maður sé að vinna??
Í fyrsta lagi vinn ég á þeim stað, sem hlýtur að vera hvað mest lifandi vinnustaður landsins, með frábæru starfsfólki, sem jafnframt eru góðir og skemmtilegir kollegar, það er aldrei lognmolla á mínum vinnustað, þú veist aldrei hvað dagurinn ber í skauti sér þegar þú mætir, ert alltaf að læra eitthvað nýtt og yfirleitt að gera eitthvað gott..... Svo þótt helgin standi á vinnu, þá þýðir það alls ekki leiðinlega viðveru einhversstaðar úti í bæ, heldur líflegt umhverfi með mörgum óvæntum uppákomum..... sérstaklega um helgar!
En ég á mér þó, sem betur fer, líf fyrir utan þessa vinnu og þegar maður vinnur vaktavinnu og á sama tíma þarf að sjá fyrir barni, þá þarf maður að skipuleggja tímana á milli vakta ansi vel. Og skipuleggja tímana, sem "barnið" eða öllu heldur unglingurinn er einn heima. Þess vegna fékk ég að láni lítinn (10 ára) systurson í gærkvöldi, til að eyða kvöldinu með syni mínum á meðan ég var að vinna. Svo heppilega vill til, að hvorugum þeirra leiðist félagsskapur hins, þeir eru bestu vinir og frændur þrátt fyrir fjögurra ára aldursmun og tilvera mín myndi ekki skipta neinu máli til eða frá á þeirra skeiði núna. Þeir fengu pening í hendurnar til að panta pizzu og eitthvað aukreitis ef hugurinn myndi girnast eitthvað annað og meira, þeir spiluðu körfubolta, Playstation og horfðu á mynd í mesta bróðerni. Góð barnapía, þessi 10 ára....
Í dag fór ég eftir vinnu og keypti sumarblóm í kerin mín og pottana. Og já, ég ER búin að setja niður blómin, okey, ég veit að það er frekar snemmt, en ég veit jafnframt að ef ég leyfi þeim að standa einhverja daga í pappakassa, þá eiga þau eftir að standa þar það sem eftir lifir sumars. Svo best að drífa sig í hlutunum á meðan hugur er í kellunni.
Ekki veit ég, af hverju að mér sótti þessi gífurlega kvíðatilfinning í hvert skipti sem ég hugsaði um, að drífa mig í að bóka flugið okkar mæðgina til Barcelona. Einhvernveginn hefur það verið þannig, að ég hef ýtt því á undan mér, sett það aftast á listann yfir verkefni hvers dags, og þannig hef ég alltaf tryggt að ég "hef aldrei náð" því að bóka þetta flug...... fyrr en í gær !!! Þá tryggði ég okkur flugið til Barcelona út, og til baka viku seinna. Svo nú getum við opinberlega farið að hlakka til....
Ýmsir eru nú vafalaust stressaðri en ég, og að sama skapi framtakssamari, en ég, lallarinn, var nú ekki mikið að hafa áhyggjur af hótelbókunum. Verð samt að segja mér það til framdráttar, að ég hafði svolítið kynnt mér stöðuna, framboð á hótelum, verð og annað, en ég var ekkert að flýta mér að panta eitt eða neitt. Við ætlum að vera í viku í Barcelona, og þar sem við höfum þar með ágætan tíma til að bæði skoða okkur um og slappa af, þá viljum við vera á hóteli með sundlaug. Og í síðustu viku var fullt af þannig hótelum á lausu, en í dag þegar ég kom mér loksins að því að panta hótelið, þá var nú eitthvað aðeins minna í boði. En ég brá mér í Pollýönnu-gervið og hugsaði bara, að þar með hefði ég minna að velja um, sem þýðir engan, (eða svo til), valkvíða....
Í vikunni brugðum við mæðginin okkur í keilu í Öskjuhlíðinni, sem er ekki í frásögur færandi nema vegna þess að húsmóðirin er að "drepast" úr harðsperrum í vinstri rasskinn eftir ferðina góðu, sem og vegna mikilla strengja í hægri framhandlegg. Ég er svo mikill aumingi í handleggsvöðvunum, að ég veld ekki vel fullorðinskúlunum og þarf því að spila með barnakúlunum. Ég hef haltrað pínulítið um slysadeildina síðustu tvo daga, en steininn tók þó úr fyrir aumingjamennsku minni, þegar ég fattaði að ég ætti erfitt með að setja blómin mín niður áðan..... vegna harðsperra.... Getur maður verið meiri aumingi??.....
Ég hef í mörg ár lifað á löngu fornri getu í ýmsum líkamlegum listum, hef alltaf talið mér trú um að ég sé í ágætu formi þar sem ég stundaði íþróttir grimmt á mínum barns- og unglingsárum, (!!! huhumm, það er víst ansi langt síðan....), ég hef gefist upp á því að eiga kort í líkamsræktarstöðvum þar sem það þýðir yfirleitt frekar fjártap fyrir mig án ávinnings.... en allt í einu er ég að átta mig á því að ég er, ekki frekar en aðrir, alls ekkert að verða yngri og ég þarf allavega mjög fljótlega að grípa inní með einhverskonar aðgerðum. Ekki það, að ég get verið mjög aktív hjólandi, syndandi, línuskautandi, golfandi og fjallgangandi, en þetta er bara yfir sumartímann.... yfir vetrartímann reyni ég varla á neina vöðva, nema þegar ég lyfti gafflinum að munninum....., eins og Elizabeth Taylor sagði einhverju sinni um sína líkamsrækt.
En í dag ætla ég ekki að láta þessar hugrenningar trufla mig hið minnsta. Og ekki næstu viku og ekki þá þarnæstu. Enda tekur því ekki að velta sér upp úr svona málum í sumarfríum þegar markalínan er lægri en venjulega og maður má allt, í krafti þess að sólin skín einhverja daga. Núna ætla ég bara að grilla gúmmelaði mat fyrir okkur mæðgin, hlamma mér í sófann á eftir og horfa á góða mynd sem ég leigði á leiðinni heim. Svo ætla ég að borða nammi og drekka kók, bursta tennur og fara að sofa. Baka bollur í fyrramálið, setja fullt af smjöri á þær og mæta svo aftur í vinnu, full af bollum, seinni partinn.
Ef maður hefur ekki mikið val, er þetta þá ekki bara ágætis uppskrift að helgi??
P.s. því má bæta við, að í ferð okkar mæðgina í Öskjuhlíð, tókum við nokkra þythokkí-leiki, og það þarf engan dómara til að skera úr um það, hvert okkar var æstara í þessum leikjum. Ég var gjörsamlega sveitt á eftir, enda er það ágætis hreyfing á sinn hátt, að eltast við þyt-hokkí-pökk..... ég var næstum hás af æsingi og það var ÉG, en ekki sonurinn sem grátbað um fleiri leiki. Líklega vegna þess að skorataflan var í mínus í minn hag, og það gat ég ekki látið líðast. Svo ég þrælaði drengnum í gegnum hvern leikinn á eftir öðrum, þar til skorataflan var mér í hag. Þá gat ég gengið út, sveitt og glottandi feitt!!!
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 20:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)