Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2009

Jóhanna og stjórn hennar: valdagræðgi eða mistök nema hvort tveggja sé.....

Ég er ein af þeim sem hefði viljað sjá Davíð Oddsson fara úr Seðlabankanum fyrir mörgum mánuðum síðan. Ég er ein af þeim sem finnst Davíð hafa sýnt fádæman hroka í sínum embættum og yfirlýsingum/svörum, bæði sem forsætisráðherra og sem Seðlabankastjóri. Ég er ein af þeim sem finnst maðurinn hafa sýnt dómgreindarleysi í sínum yfirlýsingum opinberlega og ég er ein af þeim sem held að Davíð eigi að hluta sök í því að Bretar beittu hryðjuverkarlögum sínum á okkur Íslendinga. Ég hef aldrei verið stuðningskona Davíðs og vegna Davíðs kaus ég til að mynda ekki Sjálfstæðisflokkinn í kosningunum árið 2003, þrátt fyrir að hafa verið flokksbundin Sjálfstæðisflokknum frá 18 ára aldri. Ég get tekið sjálfstæðar ákvarðanir og tek afstöðu á móti þegar mér mislíkar gjörðir Sjálfstæðisflokksins. En ég er líka ein af þeim sem finnst að standa eigi löglega, siðferðislega og málefnalega að uppsögnum ríkisstarfsmanna. Uppsagnir ríkisstarfsmanna eiga ekki að stjórnast af hatri ákveðinna manneskja eða hópa, né heldur þeirra pólitískri heift í gegnum mörg ár.

Á síðustu umrótar mánuðum hef ég ekki einu sinni verið viss um að ég myndi kjósa Sjálfstæðisflokkinn í næstu kosningum, var jafnvel innstillt á það að veðja mínu atkvæði á Samfylkinguna, sem mér ÞÁ fannst sýna mannúðlegri stefnu, fannst meira líkleg til að grípa til aðgerða sem myndu bjarga heimilinum í landinu, aðstoða fjölskyldufólk við að komast í gegnum kreppuna og halda heimilum sínum. Og ef ekki ný ríkisstjórn hefði komið til valda eins og hún gerði, með því að ýta formanni Samfylkingarinnar til hliðar og nota hana til þess að setja Sjálfstæðisflokknum afarkosti sem og óraunhæfa slitkosti, eins og óþroskaður unglingur í ástarsambandi...... já, þá hefði ég jafnvel stutt þessa ríkisstjórn. Kannski jafnvel þótt fíflið hann Steingrímur sæti í þessarri stjórn....

En hvað hefur gerst? Ný ríkisstjórn hefur farið fram með fádæma hatri, pólitískri reiði og pólitískum hreinsunum sem enga fyrirmynd eiga sér. Nú er ég kannski einföld, en ég hélt að þetta væri bráðabirgðaríkisstjórn, hún ER ekki lýðræðislega kjörin (þótt einhverjir telji 300 - 4000 manna búsáhaldabyltingu sem lýðræði), hún hefur minnihluta á Alþingi þótt hún sé varin vantrausti af litlum hópi Framsóknarmanna (sem ofan í kaupið ætla að setja þessarri vörn sinni ákveðin skilyrði og þar með hafa bein áhrif inn í ríkisstjórnarsamstarfið). Hún er sett til bráðabirgða og hennar hlutverk er að halda okkur á floti fram að næstu kosningum. EKKI að taka stærri ákvarðanir um stjórnskipan, stjórnarskrá, stjórnarsetur, mannabreytingar, hvað þá ákvarðanir um áframhaldandi byggingu á tónlistarhúsi, sem hver veit hvað mun kosta okkur skattgreiðendur.

Ég get hreint út sagt ekki séð að ný ríkisstjórn hafi gert neitt ennþá sem gagnast okkur fólkinu í landinu að ráði. Lánin mín hækka jafnt og þétt, sama hver situr sem Forseti Alþingis eða hver situr í stjórn LÍN. Þetta eru kannski mannabreytingar sem má rökstyðja, en voru þetta virkilega svo akút mannabreytingar að ekki mátti bíða með þær þar til alvöru, lýðræðislega kjörin stjórn tæki við??

Ég held að Jóhanna Sigurðardóttir hljóti að sjá það sjálf að hún hafi verið nokkuð bráðlát og fljót á sér í sumum ákvörðunum sínum og gjörðum. Það var e.t.v. samfélagsleg sátt um það að láta Davíð víkja, en af hverju í ósköpunum gerir hún það þá ekki á réttan hátt? Eins og margir hafa réttilega bent á, þá er Jóhanna enginn nýgræðingur í pólitík, hún sat í síðustu ríkisstjórn, en lyfti hún nokkurn tímann fingri til að mótmæla peningastefnu Seðlabankans? Mótmælti hún nokkurn tímann einhverju því sem fram fór í efnahagsstjórn landsins? Nei, vegna þess að efnahagsmálin skiptu hana ekki máli, hún var að fókusera á aðra hluti. Hvað gerir hana þá svo góða til að stýra efnahagsmálunum núna? Kannski flugfreyjureynsla hennar sé tekin framar hagfræðiprófi??? Já, maður spyr bara forviða.

Jóhanna hefur gert alvarleg mistök í bréfum sínum til seðlabankastjórnar og ég held hún viti það vel. Það er meira að segja talað um það í nýjasta hefti Financial Times, hvernig hún hafi veikt traust nýrrar ríkisstjórnar og Íslands í heild sinni gagnvart IMF og alþjóðasamfélaginu með þessum aðgerðum sínum. Ef einhverjir vita það ekki, þá er staðreyndin sú að ekki má víkja opinberum starfsmanni úr starfi nema hann hafi verið áminntur og í framhaldinu ávíttur. Og var Davíð áminntur eða ávíttur í sínu starfi? Bókaði Jóhanna einhverntímann færslu á ríkisstjórnarfundi sem varðaði efnahagsstjórn Íslands? Aldrei.

Það getur vel verið að Davíð Oddsson sé umdeild persóna í landinu og fólk hafi viljað hann burt, en af hverju stendur konan þá ekki að uppsögnum á löglegan hátt? Ef Seðlabankastjórar eru BEÐNIR um að víkja, þá er þeim það í sjálfsvald sett að hlíta því. Af hverju áminnti hún þá ekki og ávítti og sagði svo upp? Hafði Jóhanna kannski engin málefnaleg rök til þess að áminna seðlabankastjóra??? Af hverju er hún svo ófagleg að birta bréf til seðlabankastjóranna opinberlega áður en þeir sjálfir fá persónulega tækifæri til að lesa bréfin? Og hvað eiga þessar pólitísku ofsóknir gegn embættismönnum þjóðarinnar að þýða? Eiga Ingimundur og Eiríkur að gjalda sinna embættisstarfa vegna þess að Davíð er mögulega óhæfur? Tveir af Seðlabankastjórunum, þeir Ingimundur og Eiríkur, hafa starfað faglega við bankann um árabil, þeir eru báðir hagfræðingar að mennt, með óblettað mannorð og starfsferil en nú skulu þeir fjúka. Ekki vegna þess að þeir séu óhæfir eða hafi gerst sekir um afglöp í starfi, heldur meira svo að ný ríkisstjórn geti "meikað steitment" í sinni stjórnartíð. Og sömuleiðis skulu tveir af ráðuneytisstjórum stærstu ráðuneytanna fjúka. Ekki af því að þeir væru óhæfir, nei, vegna þess að það lítur svo vel út í augum tilvonandi kjósenda að verið sé að taka til hendinni. Skítt með hæfni þessarra ráðuneytisstjóra, ópólitísks statuss, og skítt með það þótt Jóhanna vilji fremur nýta sér "þekkingu" síns fólks, sem í raun enga þekkingu hefur á störfunum. Eða að Jóhanna hafi í raun öllu heldur gjarnan viljað halda þessum ráðuneyisstjórum starfandi "í sérverkefnum" með alla sína þekkingu og yfirsýn en ekki sem "sitjandi" ráðuneytisstjórum. En auðvitað er það gott að koma sínu fólki að, sem gerir Jóhönnu og hennar stjórn að......  ..að hverju??? ....og verulega veikir hennar stöðu sem ráðherra.

Þarna held ég að frú Jóhanna hafi illilega misskilið hlutverk sitt og algjörlega farið fram úr sjálfri sér. Þarna held ég að hún hafi misst mikið traust meðal margra manna, og ég held að hún geri sér vel grein fyrir því þótt hún reyni að bera höfuðið hátt og setji kinnalit yfir fölvann.....

Jóhanna hefur brennt sig illilega á puttunum og það hljóta nýjustu skoðanakannanir um fylgi flokkana að sýna. Hún hafði öll tækifæri til að spila vel úr spilunum, en hún hrakti frá sér í bræði og pólitískri heift, fólkið sem mestu yfirsýnina hafði, mestu samböndin við IMF, aðalþekkinguna og viskuna um málefni IMF og þar með möguleikana á góðum og traustum samskiptum við IMF. Og ekki pólitíkusa, nei heldur embættismenn, saklausa ríkisstarfsmenn sem ekkert hafa til saka unnið en að vinna sína vinnu alltaf af heilindum, sama hvaða flokkur sat við stjórnvölinn. Þetta er hrein og klár aðför að embættismönnum og ríkisstarfsmönnum í heild sinni. Það er alveg sama hvað sumir segja, en leið IMF var EINA leið okkar út úr okkar efnahagsógöngum án skattahækkana. Og mikið held ég að konan nagi sig í handarbökin yfir fljóthugsuðum ákvörðunum, illa teknum ákvörðunum og ákvörðunum teknum í bræði. Því hún er ekkert vitlaus, hún Jóhanna, og það má vel vera að hún láti ekki á sjá en inn við beinið er ég viss um að hún óskaði þess að hún hefði farið öðruvísi að. Eins og ég sagði í fyrri færslu, þá er Jóhanna núna stödd á ólgusjó, kann ekki að synda og engir björgunarhringir nálægir, vegna þess að hún er búin að víkja þeim frá.

Niðurstöður nýjustu skoðanakannana sýna að Sjálfstæðisflokkurinn hefur 34% fylgi, Samfylking og Vinstri Grænir hafa rétt rúmlega 20% hver, Framsókn hefur um 15% fylgi og það tekur því ekki að telja aðra með. Þarna ætla ég að leyfa mér að halda því fram að ráði miklu um, að einhver hluti Sjálfstæðismanna hafi verið tvístíga í könnunum síðustu mánaða, svona rétt eins og ég. Að einhver hluti Sjálfstæðismanna hafi verið tilbúnir að gefa öðrum flokkum séns. Ekki verið vissir um hvort þeir ætli að styðja sinn flokk áfram og því svarað óákveðið eða sett fylgi sitt á hinn stjórnarflokkinn, s.s. Samfylkinguna. Nú hefur Samfylkingin hins vegar sýnt sitt rétta andlit sem sundurleitur flokkur, byrjað stjórnartíð sína með valdabrölti og ofsóknum á ríkisstarfsmenn, brugðist trausti þeirra sem voru óákveðnir og þeir því ákveðið að snúa aftur til Sjálfstæðisflokksins. Og þess vegna vona ég bara að Frú Jóhanna haldi áfram á þessarri braut. Því fleiri mistök, hvatvísar og óhugsaðar ákvarðanir, því fleiri glappaskot.... þeim mun fleiri munu kjósa Sjálfstæðisflokkinn í næstu kosningum. Vinstri stjórnir hafa aldrei gert annað en að skila þjóðarbúinu í miklu tapi, kannski með góðum félagshyggjuvilja, en þeir verða að átta sig á því að félagshyggja kostar. Og einhversstaðar þurfa peningarnir að koma frá. Ríkissjóður Íslands var skuldlaus haustið 2008. Reykjavíkurborg var skuldlaus þegar R-listinn tók við völdum í den. En hvernig var skuldastaða Reykjavíkurborgar þegar Sjálfstæðisflokkurinn tók aftur við fyrir nokkrum árum? Vonlaus. Vinstri flokkarnir hafa aldrei kunnað að fara með peninga og ákvarðanir þeirra núna um t.d. tónlistarhúsið, sýna að þeir eru ekki að hugsa um okkur skattgreiðendur. Það getur vel verið að Katrín Jakobsdóttir sé menningarlega sinnaður hippi, en eigum við að þurfa að borga fyrir hennar persónulegu baráttumál???

Ég endurtek, Vinstri flokkar hafa aldrei kunnað að fara með peninga og ég er þess fullviss um að þeir munu sýna það og sanna svo ekki verður efast um, að þeir kunna það ekki heldur í þetta skiptið. Ekki nema við blæðum sem þjóð. .....

Time will tell...... I am sure!


Ójá, pólitísk heift er vissulega rétt orð yfir þessa ríkisstjórn....

Já, ekki get ég verið annað en sammála síðustu tveimur viðmælendum í þessarri frétt. Þarna ræður pólitísk heift ríkjum, pólitík sem engin rök á fyrir sér önnur en að koma Sjálfstæðisflokknum frá völdum. Þessi heift er svo gífurleg að ekkert annað kemst að og lítur ekki út fyrir að neitt annað sé í sjónmáli hjá þessarri blessuðu nýju stjórn. Það verður gaman að sjá framan í Jóhönnu þegar hún uppgötvar að Forsætisráðuneytið ber ábyrgð á um 100 fleiri málum en hún hafði ímyndað sér, málum sem hún vissi ekki einu sinni að heyrðu undir ríkisstjórn enda kellingunni verið einblínt á félagsmálin og ég efast um að hún viti einu sinni hvað skammstöfunin IMF stendur fyrir. Það verður gaman að sjá, þegar hún rennur á rassinn vegna þess að allt í einu er hún stödd í stórum ólgusjó þar sem hún kann ekki einu sinni að synda og engir björgunarhringir eru nálægir.

Ég ætla ekki einu sinni að byrja að minnast á Steingrím Joð og Ögmund.... Guð blessi þá báða og helst í gömlu, bláu Volvo-druslunni hans Steingríms.... ætli hann fari í henni á fjöllin í sumar í stað 10 milljóna Toyota jeppans síns?? Hefði ekki verið við hæfi að hann hefði farið í einhvern búning í þessu leikriti sínu þegar leiksviðið var bílastæði Bessastaða? Kannski sett á sig hárkollu í anda Hair-söngleiksins og dansað berrassaður um.....

Vissulega athyglisvert að í vanhæfri ríkisstjórn skuli allt í einu helmingurinn vera hæfur og geta setið áfram, eða töldust þessir aðilar aldrei til ríkisstjórnar?? Djö.... hefur Ingibjörg látið taka sig í bakaríið á meðan hún var í veikindaleyfi, og það af sínum eigin flokki!! 


mbl.is Pólitískar hreinsanir og heift
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband