Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2009
22.1.2009 | 03:56
Þurfum við þunglyndislyf ??.....
Ég horfði á umfjöllun Kompáss um þunglyndislyf núna um daginn, og líklega ekkert nema gott eitt um það að segja að málið sé tekið upp, en ég hefði vel getað hugsað mér umræðu á örlítið faglegri nótum. Mér hefur hingað til fundist Kompás-fólkið fara vel með umfjöllunarefnið, en í þetta skiptið fannst mér vanta svolítið upp á rannsóknarblaðamennsku þeirra.
Þarna var verið að fjalla um þunglyndislyf í svokölluðum SSRI-flokki, sem sagt væg geðlyf sem auka upptöku á serontonin í heilanum. Aðrir hafa líka vísað til þessarra lyfja sem gleðipilla, sem líklega óbeint vísar í hvað þau eru og til hvers þau eru ætluð, sem sagt að létta fólki aðeins lífið og/eða koma þeim yfir erfiða hjalla. Þessi lyf eru að engu leyti burðarásar við alvarlegu þunglyndi og ekki einu sinni notuð sem slík, heldur eru einungis ætluð vægu þunglyndi og vægari röskunum. Vissulega getur verið rétt, og ég hef sjálf verið þeirrar skoðunar, að geðlæknar OG heimilislæknar séu oft fljótir að grípa til lyfjanna við væg þunglyndiseinkenni, streitueinkenni, kvíða, sorg og jafnvel ástarsorg..... ég er líka þeirrar skoðunar að mikið oftar megi skoða orsakir einkennanna, (óttans, kvíðans, þunglyndisins osfrv.), og meðhöndla það, en kerfið okkar býður einfaldlega ekki upp á það.
Það er í boði huglæg atferlis meðferð á LSH, og líklega annarsstaðar en ég þekki það bara ekki. Staðreyndin er hins vegar sú að margir geðlæknar trúa ekki á önnur meðferðarúrræði og vilja frekar meðhöndla með lyfjum. Það er líka í boði alls kyns sálfræðiaðstoð, sem að mínu mati myndi örugglega gagnast stórum hluta af því fólki sem tekur þessi lyf, mun betur en lyfin sjálf. Staðreyndin í því máli er þó sú, að ríkið tekur ekki þátt í að niðurgreiða þessa sálfræðiþjónustu. Þannig þiggur fjöldi fólks lyfin frekar en ekkert, því það hefur ekki efni á því að borga þessa sálfræðiþjónustu. Stóra spurningin er svo hvort það væri hagstæðara fyrir ríkið að niðurgreiða sálfræðiþjónustuna frekar en þunglyndislyfin? Og dæmi nú hver fyrir sig.
Hins vegar má aldrei alhæfa og það sem dæmin sýna okkur er það, að þessi lyf hafa oft hjálpað fólki yfir erfiða hjalla í þeirra lífi, svo að segja komið þeim á fæturnar aftur og gert þeim kleift að takast á við sitt dagsdaglega líf þrátt fyrir vanlíðan af einhverju tagi. Stór hluti fólksins hættir á lyfjunum aftur, notar þau kannski að meðaltali í 1-3 ár og þótt tölurnar sýni litla breytingu, þá er það oft vegna þess að nýir notendur bætast við jafnt á við það að eldri detta út.
Það sem mér finnst vanta upp á faglegan þátt Kompás-fólksins að þessu sinni er það, að bæði fannst mér þeir hafa mjög þröngan og einskorðaðan hóp viðmælenda, það var aðeins rætt við EINN MJÖG VEIKAN einstakling sem varla er dæmigerður fyrir fólk með vægt þunglyndi, svo FORMANN geðlæknafélagsins og svo einn iðjuþjálfa, en hvað með alla hina sem hafa reynslu úr starfi og lífi??? Hitt er svo umfjöllun þeirra um rannsóknarniðurstöður..... það veit það hvert mannsbarn að ALLIR halda óhagstæðum niðurstöðum frá og ýta þeim hagstæðari að. Það á ekki bara við um lyfjafyrirtæki, það á við um ÖLL fyrirtæki, og við þurfum nú ekki að vera eldri en tvævetur til að vita að t.d. auglýsingar fyrirtækja ljúga gjarnan og gefa misleiðandi upplýsingar um gæði vörunnar..... og að hvaða leyti er það öðruvísi? Við gerum það meira að segja sjálf í okkar persónulega lífi, drögum úr göllunum en ýkjum kostina, bæði við okkur sjálf og ákvarðanatökur okkar..... Það er okkar neytenda að vera skeptísk á bæði auglýsingar og niðurstöður rannsókna, sérstaklega þar sem meirihluti neytenda les ekki aðrar niðurstöður en þær sem eru birtar í Morgunblaðinu eða einhverjum kvennablöðum. Þessi blöð eiga það gjarnan til að "klippa inn" einhverjar fimm línur úr niðurstöðu flókinnar rannsóknar og taka þessar fimm línur algjörlega úr samhengi við allt annað sem stóð í rannsókninni bara vegna þess að þessar línur selja vel og í kjölfarið eru heilu kvennahóparnir heilaþvegnir. Hve margir lesendur vita eiginlega hversu áreiðanleg þessi rannsókn var sem vísað er til? Var þessi rannsókn yfirleitt marktæk á vísindalegan mælikvarða? Í mörgum tilfellum lítilla kannana hefur úrtakið verið mjög lítið og varla marktækt á vísindalegan mælikvarða. Í öðrum tilfellum hefur svörunin verið slök og niðurstaðan því heldur ekki marktæk. Ég efast um að margir sjúklingar, lesendur Moggans eða Nýs Lífs liggi á kafi í vísindatímaritum eins og Læknablaðinu eða British Medical Journal osfrv., nái nokkurntímann að lesa ALLA rannsóknina og þar með að mynda sér sína eigin skoðun. Það vita það allir vísindamenn, að það gilda mjög strangar reglur um aðferðarfræði í rannsóknum og þú þarft að fara í gegnum margar síur eftirlits og leiðréttinga áður en rannsóknargrein fæst birt í virtu vísindatímariti. Og ef hún fæst birt, þá er hún virt..... og þar með marktæk. Kompás-rannsóknarblaðamenn- og konur ættu að vita betur en að slá þessu upp sem stórri umbyltingarfrétt.
Það má vel vera að það megi og þurfi að endurskoða uppáskriftir fyrir þessum vægu þunglyndislyfjum, og ég er því mjög fylgjandi. Ég er því hins vegar ekki fylgjandi, að svona "skúbb"-þáttur eins og Kompás geri þetta að umfjöllunarefni á þann hátt sem hann gerði. Mér finnst þetta ekki faglegt, því mörgu veiku fólki eru þessi lyf bráðnauðsynleg og það er ekki faglegt að sá efasemdum í áður veikan huga. Að mínu mati eru líka aukaverkanirnar stórýktar, ég hef unnið með fjölmörgu fólki á svona lyfjum og aldrei séð neinar af þessum aukaverkunum sem nefndar eru, ég hef meira að segja sjálf tekið eitt af þessum lyfjum, tvisvar sinnum í eitt ár í hvert skipti. Ég ætla ekki að gera sjálfa mig að alhæfingardæmi, en ég upplifði engar af þessum aukaverkunum og heldur engin vandræði með að hætta á lyfjunum.
Langflestum lyfjum fylgja aukaverkanir, flestum sterkum verkjalyfjum fylgja t.d. aukaverkanir eins og ógleði, hægðatregða, syfja, sljóleiki..... sterum fylgja sveppasýkingar, beinþynning, magasár/brjóstsviði, útblásinn líkami osfrv. en ég held ekki að krabbameinssjúkir myndu vilja sleppa þessum lyfjum þrátt fyrir þetta, þeir vilja frekar taka lyf við aukaverkununum heldur en að kveljast. Og að sama skapi, held ég að þunglyndir vilji oft fremur takast á við aukaverkanirnar eða taka önnur lyf við þeim, heldur en að upplifa óyfirstíganlega depurðina, sorgina, úrræðaleysið, framtaksleysið, vonleysið og svartnættið sem fylgir þunglyndinu. Það er einfaldlega nature force of survival..... þú gerir það sem þú þarft að gera í svona aðstæðum.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 04:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
10.1.2009 | 21:03
Ég finn til í hjartanu....
Ég finn verulega til í hjartanu mínu. Á síðustu dögum hef ég frétt af þremur gömlum vinkonum sem allar eru í verulegum erfiðleikum í dag vegna atvinnuleysis þeirra og maka þeirra. Allar með fullt hús af börnum á grunnskólaaldri. Engin þeirra óráðsíukona og allar ágætlega menntaðar. Eins og allir aðrir í þjóðfélaginu, höfðu þær og makar þeirra sniðið sér stakk eftir vexti í íbúðar- og húsakaupum, gert áætlanir fram í tímann miðað við sína innkomu og nú er allt fallið til jarðar og hver dagur kvíðvænlegur.
Ég veit vel að þær og fjölskyldur þeirra eru langt frá því þær einu sem eiga í miklum erfiðleikum um þessar mundir. Ég veit líka að margar fjölskyldur áttu verulega erfitt jafnvel löngu áður en kreppan skall á. Fjölmargar fjölskyldur náðu aldrei inn í góðærið og hef ég jafnan talið mína litlu tveggja manna þar á meðal. Eftir að hafa yfirfarið málin, get ég þó vel séð að síðustu árin gátum við mæðginin leyft okkur ýmislegt sem örugglega var ekki á allra færi, þótt við næðum aldrei með tærnar að hælunum á þeim sem höfðu það virkilega gott og áttu fimmþúsundkalla á milli allra fingra dagsdaglega.
Við mæðginin höfum alltaf þurft að spá í hverja krónu, versla hagstætt, gera verðsamanburð og sleppa mörgu. Það var ekki alltaf til peningur fyrir klippingu og strípum þegar hárið kallaði á það, við pöntuðum ekki pizzur heim í lok mánaðarins, stundum höfðum við ekki efni á því að fara í bíó. Við eigum ekki flatskjá eða leðursófasett, ekki stóran jeppa, ekki Kitchen Aid mixara, ekki tvöfaldan amerískan ísskáp með vatns- og ísmolavél, engin fín málverk, ekki rúmteppi úr dýrum húsgagnabúðum eða fullt af fínum, ónotuðum fötum hangandi inni í skáp. Við eigum gamla eikarborðstofuborð foreldra minna sem þau fengu í brúðkaupsgjöf, reyndar með nýjum stólum, gömlu borðstofuskápar foreldra minna standa einnig stoltir í minni stofu í dag, eldhússtólarnir eru úr gamalli sambúð bróður míns, stofuborðið mitt keypti ég í verslun sambærilegri Hagkaupum á mínum námsárum í Danmörku. Ef við mæðginin leyfðum okkur lúxus í einhverri mynd þá blæddum við fyrir það í öðrum innkaupum. En við eyddum pening, svo sannarlega eyddum við pening en okkar peningur fór í annað. Og ég sé það núna að þótt ég hafi aldrei talið mig njóta góðærisins þá höfum við alveg eytt verulegum fjárhæðum í alls konar hluti sem líklega verða að teljast til góðæris, hluti og upplifanir sem kannski var ekki á allra færi að gera..... þótt margir hafi getað gert hvorutveggja.
Við höfum ferðast töluvert, átt mjög margar góðar upplifanir í útlöndum og spókað okkur bæði á sólarströndum og í stórborgum þar sem við höfum þrammað um gamlar byggingar og kirkjur, skoðað merka staði og borðað á veitingastað tvisvar á dag.... bæði tvö ein og í fylgd með Mr. K. og syni. Við höfum farið í nokkrar fjallgöngur um hálendi Íslands og fjölmargar útilegur víðsvegar um landið. Við höfum haldið dýrar grillveislur með vinum og fjölskyldu. Við höfum farið í fótboltaferðir, bæði með félagi einkasonarins og til að horfa á Liverpool spila. Við höfum líka lagt áherslu á að komast í leikhús a.m.k. einu sinni á ári og við höfum farið út að borða oftsinnis. Ekkert af þessu telur í veraldlegum eigum en það telur virkilega í stundarglasinu sem mælir góðar minningar og samverustundir. Og einhvernveginn yljar það betur akkúrat núna heldur en fínt leðursófasett og flatskjár. Því þótt stofusjónvarpið taki heilmikið pláss aftur fyrir sig, þá er fín mynd á því og það er mjög áhorfanlegt. Auk þess getum við tengt myndavélina okkar við það og horft á myndirnar okkar úr öllum okkar ferðum, fjallgöngum og útilegum. Og sófarnir okkar duga fyllilega þótt þeir séu nokkurra ára gamlir.
Ég tel mig heppna því ég held vinnunni minni. Vissulega finn ég fyrir samdrætti bæði vegna hækkandi afborgana á lánum, hækkandi matvöruverðs og því að yfirvinna á LSH hefur dregist verulega saman og það hefur hingað til verið yfirvinnan sem hefur haldið okkur hjúkrunarfræðingum á floti. En ég hef í það minnsta vinnu. Og ég er nógu heilbrigð til að komast til og frá vinnu. Ég get farið sjálf á fætur, þarf ekki aðstoðarfólk til að klæða mig og hjálpa mér með mínar daglegu athafnir. Sonur minn er heilbrigður og hraustur og ég á góða fjölskyldu. Ég veit að þetta má sín kannski ekki mikils ef þú átt ekki fyrir mat ofan í fólkið þitt og sjálfan þig, en þetta er samt þakkarvert og ég ætla að vera þakklát fyrir að vera svona heppin. Af einskærum vana til þess að pirra mig, lít ég inn í ísskápinn minn í kvöld og pirra mig á því að koma ekki gosflösku þar inn því hann er svo fullur. Auðvitað á ég að þakka fyrir að eiga fullan ísskáp af mat og hafa efni á því að kaupa gos.
Sumir hafa haft það betra en við síðustu árin og sumir verra. Ég ætla ekki að velta mér upp úr því, því ég er fullkomlega ánægð með okkar líf eins og það hefur verið. Okkur hefur raunverulega ekki skort neitt þótt ég hafi oft pirrað mig á því að geta ekki gert og keypt meira og alltof oft borið mig saman við þá sem meira höfðu..... en við höfum haft það gott og við höfum virkilega upplifað fullt. Það kreistir hjarta mitt að sjá fólk og fjölskyldur riða til falls, mörg þeirra höfðu það mikið betra en mín litla fjölskylda síðustu árin en það fær mig ekkert til að finna minna til með þeim. Við eigum öll að finna til samkenndar núna. Ef ég gæti á einhvern hátt hjálpað þeim sem standa illa núna um mundir þá myndi ég gera það með glöðu geði og það finnst mér að við eigum öll að gera. Það þarf ekki að vera í formi peninga því við getum hjálpað á margan annan hátt. Við getum boðið hvort öðru í kvöldmat, gefið notuðu fötin af börnunum okkar til þeirra sem eiga börn á líku reki, keyrt saman í vinnu, boðið barnapössun, deilt Mogganum eða hvað sem er. Og ef einhverntímann er þörf á því að við stöndum saman sem þjóðfélag og styðjum við hvort annað, þá er það núna.
Dægurmál | Breytt 11.1.2009 kl. 00:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (29)
7.1.2009 | 23:12
Comeback....
Sæl og blessuð öll aftur. Og gleðilegt ár til ykkar allra með þökkum fyrir öll góðu samskiptin og skoðanaskiptin á liðnu ári. Ég hef haft gaman af þessu öllu, hef haft gaman af því að lesa ykkur og eiga skoðanaskipti við ykkur, er meira að segja farið að þykja pínu vænt um sum ykkar.... en ég ætla ekki einu sinni að þykjast hafa fylgst með ykkur síðustu vikurnar. Ég fann bara þörf hjá sjálfri mér til þess að draga mig algjörlega út úr bloggsamfélaginu og beina orku minni í aðrar áttir tímabundið. Ég las fréttir, horfði á fréttir, hlustaði á spjallþætti, sat á kaffistofum Landspítalans, í matarboðum, fjölskylduboðum, átti samskipti við mína nánustu og hlustaði og tók stöðugt þátt í umræðum um ástandið í samfélaginu og ég viðurkenni að ég fékk einfaldlega nóg. Það varð of mikið fyrir mig að sækja mér fleiri skoðanir, skoðanaskipti og umræður á öðrum stöðum en þeim sem ég var neydd til að vera á hverju sinni. Og blogginu gat ég sleppt og varð einfaldlega að sleppa til þess að hafa orku fyrir aðra og mikilvægari hluti í lífi mínu. Og sé ekki hið minnsta eftir því.
Ég hef alls ekki orðið skoðanalaus vegna þess að ég hætti að blogga í einhvern tíma, en núna ætla ég ekki að eyða svona miklu púðri í að viðra mínar skoðanir á netinu. En af því að ég er hugsandi, frek og ákveðin.... og alveg jafn reið og þið, þá ætla ég að tjá mig smá, og bara smá um nokkur mál. Öllum frítt að lesa og öllum frítt að dissa.
Fyrir það fyrsta, þá horfði ég á fréttirnar í kvöld, þær sem vörðuðu niðurskurð og sameiningu í heilbrigðiskerfinu..... í fáum orðum, þá er ég sammála yfirlækninum á Skt. Jósefsspítala: auðurinn liggur ekki í veggjum og tækjum, hann liggur í fólkinu, sem sagt MANNAUÐURINN. Og mannauðurinn er það sem okkar annars ágæta heilbrigðiskerfi en ekki alltaf jafn ágæti Landspítali, (eða skyldi maður frekar segja stjórn Landspítalans), hafa yfirleitt litið framhjá og meira að segja litið niður á. Að minnsta kosti ekki litið á fólkið sem þar starfar með sína reynslu og hæfni sem auð að neinu tagi. Það er staðreynd. Hitt er annars ágætt, að okkar heilbrigðisráðherra ætli sér nú ekki enn einu sinni að tjalda til einnar nætur heldur horfa til framtíðar. Það er þá altíð eitthvað nýtt í okkar stjórnkerfi svona yfirleitt, að fólk horfi lengra fram í tímann en til næstu þriggja ára eða svo. Það hefði auðvitað verið best ef fólk hefði hugsað á þennan hátt þegar sameining Borgarspítalans og Landspítalans átti sér stað með miklum tilfærslum og MJÖG miklum kostnaði árið 2002. Nú lítur það út sem svo, að bæði eigi að færa margar deildar milli húsa aftur (tilbaka), með sameiningu bráðamóttakanna tveggja..... og forgive me að ég hafi skoðun þótt ég sé starfsmaður LSH, en þetta eru mínir peningar líka sem verið er að handfjatla með öllum þessum tilfæringum fram og tilbaka og I AM ALLOWED TO HAVE AN OPPINION. Thank you very much.
Annað sem viðkemur okkur heilbrigðisstarfsfólki, eða að minnsta kosti hjúkrunarfræðingum; þá kom það fram í fréttum Stöðvar 2 í kvöld, þar sem tekið var dæmi um kaupmátt hjóna, að meðaltekjur "Önnu" og "Bjarna" séu 300.000 og 350.000 á mánuði. Ég aflaði mér stúdentsprófs frá Verzlunarskóla Íslands, svo fjögurra ára háskólamenntunar og hef núna nær 10 ára starfsreynslu sem hjúkrunarfræðingur..... og eftir allt það þá er ég greinilega samt undir meðaltekjunum, meira að segja LÆGRI meðaltekjunum, þ.e. 300.000. Ég er það ekki eftir mánaðarstrit á kvöldvöktum, helgarvöktum og næturvöktum, ekki eftir vaktir á aðfangadagskvöld eða jóladagsmorgun, en ef ég væri að vinna í dagvinnu eingöngu, sem flest fólk miðar sig við, þá er ég með skitnar 298.000 kr. í mánaðarlaun. EFTIR 10 ÁRA STARFSREYNSLU og margar launahækkanir þar sem ég fór í gegnum allskonar framgangskerfi búin til af Landspítalanum. Ímyndið ykkur hvar ég byrjaði í þessum moderna launastiga Landspítalans. Aha, undir lágmarkslaunum, eftir miðlungs langt háskólanám. Mér finnst þetta ansi skítt. Ég er í raun ekki með mikið hærri laun en ófaglærðir sem fá borguð lágmarkslaun og það er önnur staðreynd. Think about that.
Annars að allt öðru af því að ég nenni ekki að vera stöðugt neikvæð. Ég fór í Ríkið um daginn til að kaupa eina rauðvínsflösku. Ég borgaði með 5.000 kalli og fékk svo til baka 7.000 krónur, þ.e. einn 5.000 kr. seðil og tvo 1.000 kr. seðla plús einhverja smápeninga. Mín spontant viðbrögð voru þau að benda afgreiðslukonunni á það, að ég hefði nú borgað með 5.000 kr. seðli og ætti því varla að fá meira til baka heldur en ég hefði borgað. Hún sýndi varla nein viðbrögð, bara hrifsaði til sín peninginn aftur, hvorki baðst afsökunar á því að hafa gefið vitlaust tilbaka (sem hefði verið rétt, hefði hún gefið of lítið til baka en greinilega ekki þegar því er öfugt farið), en hún þakkaði ekki heldur fyrir að ég skyldi hafa bent henni á þessi mistök. Maðurinn fyrir aftan mig fór samt að hlægja og sagði: "Mikið djöfull ert þú heiðarleg á þessum síðustu og verstu tímum!".....
og það fékk mig til að hugsa. Ég er alin upp við heiðarleika og hreinskipti, við komum hreint fram og við stelum ekki og við skilum því til baka sem ekki er okkar. Sem sagt gildi sem við flest töldum við lýði í okkar þjóðfélagi ...... HINGAÐ TIL. En nú hefur komið á daginn að margir hafa hagað sér óheiðarlega, ósiðlega, tekið til sín eitthvað með óheiðarlegum hætti, verið stjórnað af græðgi, margir hafa viljað meira og meira þótt þeir hafi átt nóg. Okkur finnst RÍKIÐ hafa hlunnfarið okkur, staðið vörð um ranga hagsmuni, meira að segja klappað á bakið á græðgisköllunum og svo þegar allt fer á hausinn, þá eigum við samt að borga brúsann!! HEFÐI ÉG KANNSKI BARA ÁTT AÐ HALDA KJAFTI OG TAKA ÞENNAN AUKA 5.000 KALL????? Ég gæti litið á það þannig, að Ríkið sé að hafa af mér ómælda peninga í gegnum vaxtastefnu sína, verðbólgu, stimpilgjöld, glataða krónu, peningamálastefnu, ranga efnahagsstjórnun, Icesave-reikninga, hækkun á áfengisverði osfrv. ....Sumir myndu líta á það sem svo að það væri ekki einu sinni þjófnaður að labba út úr ÁTVR með 5.000 kalli meira en þeir ættu að fá með réttu, þeir væru bara einfaldlega að fá eitthvað tilbaka af því sem búið er að taka frá okkur. Og ég get skilið það sjónarmið. Totally.
En okey, það getur vel verið að það séu margir rotnir karakterar í þessu þjóðfélagi, en ég ætla ekki að vera ein af þeim. Ég hefði alveg getað tekið við þessum auka fimmþúsundkalli og labbað í burtu og ég veit að maðurinn fyrir aftan mig í röðinni hefði bara "give me five" í laumi fyrir að hafa haft þennan pening af ÁTVR og hefði ekki sagt til mín..... en ég ÆTLA EKKI AÐ VERA EIN AF ÞESSUM KARAKTERUM. Ég á þó það, að ég á mjög lítið í veraldlegum eigum, ég skulda margfalt meira en það sem ég á, en ég á þó minn heiðarleika, mitt stolt og mína reisn og ég get alltaf labbað burt frá mínum viðskiptum með höfuðið hátt og samviskuna í lagi. Og það finnst mér skipta máli. Bara að það skipti fleiri máli í þessu þjóðfélagi en mig..... en það er önnur saga.
Ég er hætt að reykja!! Er ekki búin að reykja síðan 1. janúar 2009 kl. 23:57. Ég ákvað að verða reyklaus á þeim tímapunkti, sem sagt ekki akkúrat á áramótunum heldur sólarhringi seinna. Enginn trúði á mig enda ætlaðist ég ekki til þess og gerði fremur lítið úr þessum ætlunum mínum..... hef líka oftast svikið þessi reyklausu loforð mín svo í þetta skiptið sagði ég þetta bara svona í framhjáhlaupi, sagðist ekki nenna að diskutera þetta frekar, ég skildi ef enginn trúði þessu, en það eina sem skiptir máli er að ég trúi á sjálfa mig. Ég ætla ekki að monta mig of mikið fyrirfram, en ég er ekki búin að reykja síðan. Og ef ég tel dagana rétt, þá er ég búin að spara tæplega 5.000 krónur á þessum dögum!!! Þessum fáu dögum, hugsið ykkur það. Ég og Mr. K. fórum upp í bústað á föstudaginn og komum ekki heim fyrr en seint á mánudagskvöld og allan þann tíma reykti ég ekki. Ég segi sko ekki að ég hafi ekki hugsað um sígarettur, allt var öðruvísi, hvítvínið bragðaðist öðruvísi og ég nennti eiginlega ekki á fætur á laugadeginum af því að mér fannst ég ekki hafa neitt til þess að vakna fyrir. Mr. K. sagði við mig þegar helgin var hálfnuð, að hann hefði hálfkviðið helginni, af því að ég er nú þekkt fyrir að vera mjög skapstór manneskja, svo hann var varla að bjóða í þessa helgi með mér á mínum fyrstu reykleysisdögum..... en viti menn, ég var ljúf sem lamb, ótrúlegt en satt. (Bara spyrjið hann!). Alvöru challengið kom þegar ég var á leið heim af næturvakt á þriðjudagsmorgun og fór fram hjá hverri sjoppunni og bensínstöðinni á eftir annarri og hugsaði í hvert skipti: "Ætti ég ekki bara að kaupa mér einn pakka, bara til að fá eina????" Og í alvöru, mig langaði bara SVO MIKIÐ Í EINA, ekki allan pakkann, svo það sem stoppaði mig var hugsunin um það hvað ég ætti þá að gera við restina af pakkanum..... Varla henda honum.... ekki reykja hann.... kannski geyma, en þá væri hann stöðug freisting fyrir mig ....... og shit, þetta er erfitt, but I´m hanging there..... stillllllllll........
Jæja, loka issue, og þið fyrirgefið svona langa færslu eftir svona langt hlé. En í sumarbústaðarferð okkar Mr. K. um helgina, kom hann til að gefa mér olnbogaskot, svolítið harkalegt og beint á augnbeinið. Þarf varla að taka það fram að það var algjörlega óvart. Og þótt við hlypum beint inn til að kæla augað og beinið og allt þar um kring, þá fékk ég þetta myndarlega glóðarauga. Og þar kemur að svolítið merkilegu tabú í okkar samfélagi. Okey, ég fékk glóðarauga, og öllum finnst það mjög pínlegt. En af hverju? Og eftir þessa upplifun mína þá verð ég að segja að þetta er mjög merkilegt, þ.e. hvernig samfélagið lítur á glóðarauga hjá konum.
Ef maður mætir einhversstaðar með glóðarauga þá hugsum við flest samstundis, að hann sé slagsmálahundur og hafi lent í slagsmálum á síðasta djammi. Ef kona mætir með glóðaraugua þá erum við öll hugsandi um það hvort maðurinn hennar hafi lamið hana. Og þetta er í raun svolítið merkilegt, af hverju við erum svona fordæmandi um þessa hluti..... ég er engin undantekning. En það eru sko í raun hundrað hlutir sem geta valdið glóðurauga.
Ég sagði mömmu minni á mánudegi að ég væri með glóðarauga og hún spurgði mig strax hvort ég ætlaði ekki að melda mig "veika" í vinnunni!!! Why the hell??? Glóðarauga er bara marblettur, okey, kannski á óheppilegum stað af því að hann er svo sýnilegur, en ef ég hefði labbað á borð og fengið slæmt mar á lærið, þá myndi ég varla hringja mig inn veika í vinnuna??? Af því að ég væri marin á lærinu?? Er það?
Það versta við glóðarauga á konum er það, að fólk á það til að tala bara við mann en "kann ekki við" að spyrja hvað gerðist. Ef maður mætir með brotinn putta, með handlegginn í fatla, stórt sár á höfði eða haltrandi..... þá hikar enginn við að spyrja: "Hvað kom fyrir þig??" En ef þú mætir með glóðarauga, þá færðu bara augngotur og kannski vorkunnaraugu en enginn þorir að spyrja. Sem betur fer vinn ég á slysadeildinni og þar erum við alltaf að taka við konum eftir heimilisofbeldi og ég held að ég sé einstaklega heppin með starfsfélaga, því ég hafði alveg haft áhyggjur af þessu fyrirfram. Því það kemur eitthvað svo asnalega út ef þú ert að afsaka þig fyrirfram og maður vill frekar að fólk spyrji bara heldur en ekki..... til allrar lukku þá vinn ég með svo góðu fólki að allir spurðu mig bara beint út, hvað hefði komið fyrir, og þar með var þetta ekkert vandræðalegt. En ég viðurkenni sko alveg, að ég hef örugglega sömu hugsanir og flestir þegar ég mæti konum með glóðarauga. Við þurfum að spá svolítið í þetta, finnst mér.
Ég vinn samt með einni, einstakri hjúkku, (svo ég fái að nota þetta orð sem sumum HJÚKRUNARFRÆÐINGUM finnst niðrandi, en mér ekki), en hún tók mig afsíðis og vildi alvarlega tala við mig, því hún vildi gefa mér færi á að tala, ef ég væri beitt heimilisofbeldi og ég verð að segja, að svona vinnufélagar eru líka ómetanlegir. Mér þykir ósegjanlega vænt um það, að einhverjum af mínum vinnufélugum þyki það vænt um mig og sýni mér svona augljóslega að SHE CARES ABOUT ME og hún vildi sko virkilega gefa mér tækifæri til þess að opna mig ef það væri eitthvað sem væri að hrjá mig..... sem til allrar lukku var og er ekki. En ef svo væri og hefði verið, þá væri það gulls ígildi að vita af svona góðri samhjúkku og þessi góði hjúkrunarfræðingur heitir Sólveig A..... (og ef þú lest þetta Sólveig, þá skoraðir þú nokkuð mörg stig hjá mér þarna).
But, here I am, með mitt glóðarauga í góðum gír, skrifandi bloggfærslu, ógeðslega reið eins og allir í þjóðfélaginu yfir okkar ömurlega ástandi. En ég ætla ekki að láta þetta éta mig að innan og eyða allri minni orku. Ég á yndislega fjölskyldu, frábæran ungling sem ég ennþá get sagt að ég "eigi" og ráði yfir, ég hef yndislegan mann til að halla mínu höfði að og halda utan um og ég hef vinnu, sem mér þar að auki finnst skemmtileg og ég á frábært samstarfsfólk. Ég get borgað flesta mína reikninga en ég á, eins og allir aðrir, stöðugt minna og minna og minna til að lifa af. Og ég er ekki að segja að það verður bara að hafa það, en þegar ég mótmæli þá verður það ekki með grímu yfir andlitinu og einhverjar tvíræðar setningar. Ég hef ekki hingað til verið þekkt fyrir að liggja á mínu eða halda kjafti, en eins og "okkar" mótmæli hafa þróast, fólk sem segist vera að tala fyrir þjóðina, þá verð ég bara að segja fyrir mitt leyti, að þau eru ekki að mínu skapi. Og það verður fólk bara að virða. Ég verð bara að fá að mótmæla á minn hátt og ég finn lítin samhljóm í því sem hefur verið að gerast undanfarið á götum borgarinnar og í anddyrum ýmissa bygginga. Ég finn mig ekki meðal þeirra sem eru að brjóta rúður og ráðast með offorsi inn í stjórnarbyggingar. Ég mótmæli á minn hátt og aðrir á sinn hátt og þar við situr.
Takk fyrir mig, mínir bloggvinir.
Dægurmál | Breytt 8.1.2009 kl. 01:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)