Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2008

Sumarfrí í rigningunni og rómantík hjá leigubílsstjórum.....

Við systur vorum búnar að plana árlega útilegu með drengina okkar þessa vikuna, en þar sem aðeins var gott veður á Egilsstöðum og í Þórshöfn, var ákveðið að fara ekki að heiman. Vissulega hefðum við getað keyrt austur eða norðaustur, en vegna þess að ungir drengir tilheyra þessum frændahópi var það ekki talið fýsilegt að keyra svo langa leið fyrir tvær til þrjár nætur í tjaldvagni. Einnig í ljósi þess, að enga tryggingu er hægt að fá fyrir veðurspánni, svo alveg eins gæti veðrið snúist við loksins þegar við næðum austurströnd Íslands.... og síðast en ekki síst hvetur bensínverðið ekki til svona langrar keyrslu.

Veðrið þessa vikuna hefur ekki boðið upp á margskonar útivist...... ekki nennir maður að labba upp á Esjuna í grenjandi rigningu, eða ég nenni því allavega ekki. Ekki er gaman að hlaupa á línuskautum með lárétta rigningu í fangið og ekki nema allhörðustu golfarar sem hætta sér út á golfvellina í svona veðri, og þar sem ég og minn sonur tilheyrum ekki þeim hópi, þá höfum við bara setið heima og haft það kósý. Í gær fórum við ekki einu sinni úr náttfötunum......Tounge

Þannig höfum við mæðgin bara haft það huggulegt í kotinu okkar. Við leigðum okkur þrjár nýjar myndir hjá BónusVideo á þriðjudaginn og kláruðum þær í dag, auk þess að hafa horft á næstum heila seríu af Friends..... í tólfta skiptið..... Við höfum grillað, bakað bollur, sofið út, spilað, borðað girnilegar beyglur í morgunmat og nammi yfir miðjan daginn, seinnipartinn og kvöldið. Já, við getum næstum því ímyndað okkur að við séum í sumarbústað...... nema stemmningin fór aðeins af því þegar sonur minn sýndi mér grásvartar iljarnar eftir að hafa verið berfættur í íbúðinni í heilan dag. Það ýtti heldur betur við kellingunni, mér, enda ekki vanþörf á. Ryksugan var dregin fram og svo skúringafatan og skrúbburinn og svo var sko skúrað hér á bæ. Ég skal vel viðurkenna að ég hef verið ansi löt við skúringarnar síðustu mánuði en mér til varnar, þá hef ég ryksugað nokkrum sinnum og ég moppa gólfin næstum því á hverjum degi. En svartar iljar gefa manni ansi hart spark í rassinn..... ég er enn aum Crying

Núna er ég búin að ákveða það að í vetur ætla ég að fá til mín konu til að gera "þyngri" heimilisstörfin....... þ.e. að ryksuga og skúra. Þetta er eitthvað það leiðinlegasta sem ég veit og mér finnst ég stöðugt hafa þennan andskota hangandi yfir mér..... og ég er ekki fyrr búin að taka einn umgang en þörf er á næsta. Ég kynnti mér málið og komst að því að flestar þessarra kvenna koma ekki í hús fyrir minna en sjö þúsund kr. skiptið og miða þær þá við fjórar klukkustundir. Mér finnst of mikið að borga 14.000 kr. á mánuði fyrir þrif heima hjá mér, svo ég er búin að setja ferli í gang þar sem ég fæ konu einu sinni í mánuði, þar sem hún tekur ALLT rækilega í gegn, þ.e. allt sem hún getur gert á fjórum tímum. Samkvæmt systur minni, sem býr þó í miklu stærra húsnæði en ég, þá auk almennra þrifverka, strýkur hún líka yfir eldhúsinnréttinguna, tekur gluggana að innan, pússar spegla og allt annað sem fellur til. Ef þetta er gert fyrir mig einu sinni í mánuði, finnst mér ekkert mál að viðhalda íbúðinni, ég meina, það er ekki "gott" fyrir parket að vera skúrað oftar en einu sinni í mánuði og það er nú algjört max..... er það ekki? Mér leiðist ekki hið minnsta að þrífa baðherbergið, því það get ég gert á meðan ég tala í símann. Það sama gildir um það að þurrka af. Moppan fer nú svo til af stað af sjálfu sér, svo..... Allt annað en að ryksuga og skúra er piece of cake í mínum augum. 7.000 kr. á mánuði, hvað er það miðað við friðinn sem ég fæ í mitt hjarta í staðinn?? Whistling

Nú má ekki skilja það sem svo að ég sé algjör letingi, og ekki er ég heldur að reka stórt heimili..... en ég vinn 120% vaktavinnu, er oft þreytt á frídögunum mínum, langar frekar að eyða fríhelgunum í tómstundir og skemmtanir heldur en þrif..... og þegar ég er að vinna morgunvakt er ég yfirleitt ekki komin heim fyrr en um kl. 18, og þá þarf maður samt sem áður að elda, þvo þvotta, hjálpa til með heimalærdóminn og allt þetta sem venjulegar húsmæður gera. Svo þetta ætla ég að leyfa mér í vetur. Og allt er þetta skítugu tánum á syni mínum að þakka.... eða kenna. Ég er bara greinilega ekki að standa mig í þessum hluta húsmæðurhlutverksins, svo betra að láta það í annarra manna/kvenna hendur. Eins og alvöru stjórnendur gera, skiljið þið, útdeila verkefnum, ekki halda að þú getir gert allt best sjálfur...... you get the point, right? Cool

Annars að lokum, ein lítil sólskinssaga...... Ég tók leigubíl á þriðjudaginn, sem er svo sem ekki í frásögur færandi. Bílstjórinn var eldri maður sem sagði ekki mikið á leiðinni og virtist, í mínum augum, vera frekar "þunglamalegur", og þá er ég ekki að tala um líkamsstærð. Ferðin fór fram í þögn, sem hentar mér alveg ágætlega svo sem en svo þegar við komum á leiðarenda og ég var að gera upp, þá segir þessi eldri maður við mig: "Áður en þú ferð út, þá verð ég að spyrja þig, hvaða ilmvatn ertu með?" Ég hváði og reyndi á methraða að muna hvaða ilmvatni ég hafði spreyjað á mig fyrr um daginn, og hann hélt áfram: "Ég hef nú keyrt margar konurnar, en ég hef aldrei fundið jafn góða lykt af neinni konu.... hvað heitir ilmvatnið þitt?" Ég mundi það reyndar og sagði honum það, og þá sagði þessi "yndislegi" maður: "Ég ætla strax niður í Mjódd og kaupa svona ilmvatn handa konunni minni...... heldurðu að ég fái þetta ekki í apótekinu??" No need to say, en þá fannst mér maðurinn ekki hið minnsta þunglamalegur lengur og ég brosti allan hringinn þegar ég labbaði upp tröppurnar að íbúðinni minni. En æðislegt að fá svona hrós frá ókunnugum manni þegar maður síst væntir þess og viti menn, það sást aðeins í sólina eftir þetta, á annars þungbúnum júlí-sumarfríssdegi.... Rómantíkin sannarlega ekki dauð á bænum hjá þessum leigubílsstjóra, hvaða kona myndi ekki elska það að maðurinn hennar kæmi heim með ilmvatn handa henni, svona í lok vinnudags á þriðjudegi??? I know I would..... Wink

 


Skipulag í óreiðunni.....

Harla lítill tími gefist til að blogga upp á síðkastið. Ég var varla lent frá Köben og búin að pakka og þvo upp úr minni tösku, fyrr en ég þurfti að þvo og pakka ofan í töskuna fyrir einkasoninn, sem fór til Svíþjóðar á stórt fótboltamót, rúmum sólarhring eftir að ég kom inn úr dyrum. Daginn eftir að sonurinn yfirgaf landið skrapp ég í eina nótt í nýjan sumarbústað Mr. K. og pakkaði þar með enn aftur lítilræði í tösku. Þar sem sonurinn var í burtu alla vikuna og gott betur, tók ég smá vinnutörn á meðan og var svo byrjuð að pakka niður í tösku aftur í lok vikunnar. Þá var ferðinni haldið aftur með Mr. K. í sumarbústað hans, þar sem karlpeningurinn í ferðalaginu ætlaði að vera við pallasmíðar en kvenpeningurinn, sem sagt undirrituð, ætlaði að slappa af, lesa, setja myndir inn á tölvuna, vaxa fæturnar og allt hvað eina sem hægt er að gera þegar sjónvarps og internettengingar nýtur ekki við.

Lítið fór nú fyrir pallasmíðunum, fyrst vegna þess að svo gott veður var á laugadeginum að fýsilegra var að eyða honum í sólböð, afslöppun og andlega og líkamlega næringu, og svo vegna þess hve vont veður var næstu tvo dagana Cool Enda eins og vinur minn segir, þá er maður ekki að kaupa sumarbústað til þess að ætla og þurfa að stressa sig yfir hlutunum, og er ég þar hjartanlega sammála honum. Hans sjálfákveðna afslöppun varð svo til þess að lítið fór fyrir tölvumyndvinnslu, vaxmeðferðum og litun og plokkun hjá mér..... enda kom það í ljós, að engan spegilinn var heldur búið að kaupa í bústaðinn, svo ég gat leyft mér að vera illa til höfð alla helgina og degi betur..... eða kannski öllu heldur neyddist ég til þess....Wink

Ég hef nú alloft eytt mörgum dögum samfleytt með Mr. K. bæði hérlendis og erlendis, en verandi þarna með honum þessa daga í nýlegum bústaðnum, þar sem alls konar hluti vantar og mjög margt á eftir að gera, gaf mér nýja sýn á ákveðinn eiginleika/hæfileika þessa manns, eiginleika sem hingað til hefur kannski alls ekki pirrað mig en hefur að minnsta kosti oft undrað mig. Það er hvernig honum tekst alltaf að hafa ótrúlegt skipulag á óreiðunni. Á meðan ég er mjög áráttugjörn, allir hlutir þurfa að eiga sinn stað, ég veit alltaf hvar lyklarnir mínir og síminn eru, hvar ég lagði einhvern hlut frá mér og hvort það er til tannkrem, smjör eða tómatpurré í skápunum mínum, þá einhvernveginn kemst hann mjög fínt í gegnum sinn dag þótt hann viti aldrei hvar neinn hlutur er og þurfi yfirleitt að leita að bíllyklunum áður en hann gengur úr húsi. Honum er alveg sama þótt hann sé búinn að kaupa þrjá pakka af smjörva í búið í þremur verslunarferðum, en gleymi uppþvottaleginum eða lauknum jafnoft og það stressar hann ekki hið minnsta þótt hann viti ekki nákvæmlega hvar rakvélin hans er áður en hann fer að sofa fyrir vinnudag eða þótt það sé drasl á sófaborðinu þegar hann yfirgefur húsið. Samt kemur hann þrisvar sinnum fleiri hlutum í verk yfir daginn heldur en ég, sem alltaf veit hvar allt er og þar sem, að minnsta kosti á yfirborðinu, lítur allt út fyrir að vera í röð og reglu. Kannski vegna þess að ég þarf alltaf að ofurskipuleggja mig, ég eyði ómældum tíma í að útbúa lista yfir það sem ég þarf að gera, það sem vantar, það sem ég ætla að eyða næsta frídegi í og það sem ég ætla að kaupa í stofuna...... en verður því miður oftast minna úr verki og eyði svo aftur tíma í það að uppfæra tossalistana mína. Einhvern veginn færir það mér meiri sálarró að hafa á einu blaði yfirsýn yfir það sem ég þarf og ætla að gera, heldur en actually að GERA hlutina Whistling Líklega vegna þess að ég er á yfirborðinu reglusöm en mjög kaótísk í hausnum og í framkvæmdum, ég æði úr einu í annað, veit aldrei á hverju ég á að byrja og mikla fyrir mér allar stærri framkvæmdir..... og þannig liggja yfirleitt eftir mig fjölmörg ókláruð verkefni á heimilinu, ég er mikill sveimhugi og get gleymt mér í smáatriðunum en hann er algjör andstæða alls þessa. Hann bara gengur að hlutunum og framkvæmir, án þess að vera búinn að ofurhugsa hlutina út í gegn fyrst. Hann er ekkert að stressa sig yfir smáatriðunum og ef eitthvað gleymdist í bænum eða í innkaupunum í dag þá leysir hann það bara á annan hátt í stað þess að fríka yfir því. Það undrar mig hvernig maður getur haft sama hlutinn liggjandi á ákveðnum stað þar sem hann "augljóslega" á ekki heima, í fleiri vikur án þess að færa hann. Það undrar mig hvernig maður getur haft alls kyns hluti allt frá skrúfjárnum til leikfanga liggjandi á stofuborðinu án þess að það hafi áhrif á mann og mann langi til að "laga til", en á sama tíma dáist ég að þessum eiginleika í fari svona fólks, að það þrátt fyrir allt komist klakklaust og algjörlega án þess að tapa ró sinni, í gegnum dagana og ég óska þess oft að ég hefði bara agnarögn af þessum eiginleika í mínu fari Blush

Ég á líka vinkonu sem er svona og þegar við bjuggum á sama tíma í Danmörku hér í "den", þá eyddum við oft nokkrum dögum samfellt á heimilum hvor annarrar með börnin okkar saman. Hún leggur alltaf hluti frá sér bara "þar sem hún stendur", er stöðugt að týna dóti, hún blandaði saman "make-up" dótinu okkar tveggja og innihaldið úr ferðatöskunni hennar lá alltaf á víð og dreif yfir íbúðina mína þegar hún var í heimsókn...... og auðvitað stressaði mig óskaplega mikið fyrir hennar hönd....og mína, ójá ójá. Ég var alltaf hrædd um að hún myndi gleyma einhverju mikilvægu sem dætur hennar áttu, að hún fyndi ekki töskuna sína akkúrat þegar við værum orðnar of seinar að ná lestinni eitthvert eða að hún óvart myndi taka maskarann minn eða uppáhalds augnskuggann minn með sér yfir bæði Stóra- og Litlabeltið þegar hún færi aftur. Samt var hún alltaf pollróleg yfir öllu, hún gat alveg farið að sofa án þess að hún vissi hvar sokkabuxurnar af dóttur hennar væru og hún hristi nesti fram úr erminni á morgnana án þess að vera búin að skipuleggja það kvöldið áður..... á meðan ég hljóp um alla íbúð, fann til föt á strákinn minn fyrir morgundaginn, smurði nesti fyrir morgundaginn, lagaði til í eldhúsinu, setti vatn í vatnskönnuna, gekk frá leikföngum í dótakassa, tékkaði á því þrisvar hvort útidyrahurðin væri læst, sorteraði make-up dótið okkar, lagaði til eftir hana og lagði allt hennar í einn bunka á sófann..... og lagðist svo í rúmið, cirka einum og hálfum tíma á eftir henni, örugglega ekki með meiri sálarró en hún Crying

Svona vinir eru góðir fyrir mig, já eiginlega nauðsynlegir, enda er þarna um að ræða mína tvo bestu vini, og mér þykir alveg óskaplega mikið vænt um þau bæði. Þau bæta mig upp og þótt þau stressi mig pínu stundum með "umgengni" sinni og afstöðu sinni til umgengni, þá líka draga þau mig aðeins niður á jörðina og neyða mig til þess að slaka svolítið á minni afstöðu. Ég meina, heimurinn ferst jú ekkert þó það standi Cheerios skál á eldhúsborðinu þegar maður labbar úr húsi á morgnana, jafnvel ekki þótt það liggi skrúfjárn, golfkúla, svitakrem, smápeningar og geisladiskur þar líka Joyful

Þessi færsla er tileinkuð þessum tveimur bestu vinum mínum, Gullu og Mr. K. Wink

......og nú á mánudegi erum við sonurinn auðvitað bæði komin heim aftur, hvert úr sinni ferðinni, svo ég er enn á ný búin að pakka upp úr töskum og þvo tvær þvottavélar..... mind you, að ég var líka "nýbúin" að pakka niður og upp vegna Barcelonaferðar okkar mæðgina fyrir skemmstu..... já, erfitt líf fyrir skipulagsfrík.....Tounge


Hversu ódýrt skyldi það vera að dópa sig??

Enn á ný steðjar vandi að Landspítalanum, núna getur spítalinn ekki borgað lyfjabirgjum sínum, enda skal engan undra með ofurháu lyfjaverði okkar Íslendinga, ömurlegu gengi íslensku krónunnar sem á sama tíma er mjög óstöðugt. Fjárframlög Ríkisins eru mjög úr takti við það að spítalinn eigi að vera "hátækni" og veita fyrsta flokks þjónustu, gefa dýrar og flóknar lyfjagjafir á mörgum sviðum spítalans; eins og á blóðmeinafræðideild sem gjarnan borgar einar 300.000 kr. fyrir eina litla sprautu og kannski 1.200.000 kr. fyrir eina "litla" meðferð fyrir eina manneskju í eitt skipti (!!), og oftast þarf mörg fleiri skipti.... krabbameinslækningadeildin borgar jafnvel sömu upphæðir, (og oft til deyjandi sjúklinga), taugadeildin, gigtardeildin og fleiri borga jafnframt miklar fjárhæðir fyrir ýmsar lyfjagjafir til bæði göngudeildarsjúklinga og þeirra sem eru inniliggjandi. Auk allra hinna deildanna sem veita alls konar þjónustu, bæði í formi göngudeilda og ekki síst legudeilda, sem yfirleitt bera allan kostnað af lyfjanotkun sinna skjólstæðinga hverju sinni.

Allir landsmenn vilja fyrsta flokks þjónustu á þessum spítala og allir vilja bestu og dýrustu lyfjagjafirnar en enginn vill helst borga fyrir neitt. Þetta á allt að vera innifalið í okkar velferðarkerfi, er það ekki? Eða hvað??

Að sjálfsögðu eigum við að fá okkar dýru krabbameinslyfjagjafir greiddar af Ríkinu, sem og öll þau lyf sem við þurfum að taka vegna þeirra margra aukaverkana sem við megum upplifa vegna þeirra, ....og við eigum líka að fá greiddar aðrar dýrar lyfjagjafir vegna annarra sjúkdóma, en á Landspítalinn að borga fyrir gjörsamlega ALLT???

Ég vinn t.d. oft á lungnadeildinni, og þar er það mjög algengt að fólk leggist inn með sína krónísku lungasjúkdóma, en samt sem áður ÁN þess að hafa sín lífsnauðsynlegu lungnalyf með. Þetta fólk leitar til Landspítalans, með sinn lungnasjúkdóm, sem það er lífsnauðsynlega háð ákveðnum lyfjum, en fer samt út úr húsi án þeirra. Af því að þetta fólk VEIT að Landspítalinn mun sjá þeim fyrir lyfjum í þeirra innlögn á spítalann. Svo leggst þetta fólk inn á spítalann, og í stað þess að hafa sín eigin lyf með, þá Á og MUN Landspítalinn sjá þeim fyrir þeim lyfjum sem þetta fólk þarf að nota....þótt svo fólkið eigi þessi lyf liggjandi á lager heima hjá sér..... lyf sem Tryggingastofnun hefur að mestun hluta greitt fyrir nú þegar.....

..... Ég er sjálf með asthma, og nota tvenns konar lyf. Til að gefa ykkur mynd af því hvað lyfjameðferð fyrir "einfaldan" asthma kostar Ríkið og þ.a.l. Landspítalann í mörgum tilvikum, ætla ég að eftirrita síðasta kostnaðarseðil minn fyrir ykkur.

Ég hringdi á mína heilsugæslu og talaði við hjúkrunarfræðing þar, sem gaf skilaboðin áfram til míns læknis um það, að hann ætti að símsenda lyfseðil um mitt asthmalyf í það apótek sem ég óskaði. Ég fór í tiltekið apótek seinna um daginn, sótti lyfið og fékk svona reikning:

Heildarverð: 31.713.-

Hlutur TR: 28.313.-

Hlutur sjúklings: 3.400.-

Afsláttur 45%: -1541.-

Alls: 1859.-

 

Ekki veit ég hvernig þessi afsláttur er tilkominn, og fagna honum bara,en hitt slær mig, hve mikið lyfin mín kosta í raun og veru. Og ég minni ykkur á, að þótt svo peningurinn komi úr sitthvorum vasa ríkissjóðs, þá er Landspítalinn að borga fullt verð fyrir svona lyf... þ.e.a.s. án endurgreiðslu frá TR. Svo þegar asthmasjúklingar og sjúklingar með króniska lungnateppu ítrekað enda uppi á bráðamóttökum okkar landsmanna án lyfjanna sinna, sem eru þeim lífsnauðsynleg....... og mind you.... asthmasjúklingur fer varla úr húsi án lyfjanna sinna,,,,hvað þá hinn..... þá finnst mér það eiginlega ansi gróf misnotkun á okkar kerfi og mér finnst ekki að Landspítalinn eigi endalaust að "blæða" fyrir svona "skussa".

Mér finnst að fólk eigi að taka sín eigin lyf með þegar það leitar spítala og mér finnst að það eigi að nota eigin lyf fólks á meðan það liggur inni á spítala, það myndi spara spítalanum milljarða..... margt af þessu fólki fær lyfin sín send heim, innpökkuð í rúllu, og ef við notum þau ekki, þá lenda þau í ruslinu hvort sem er, sem þau og oft gera. Tryggingastofnun borgar lyfin fyrir stóran hluta af þjóðfélaginu nú þegar, krabbameinssjúklingar borga ekkert fyrir sín lyf til dæmis, svo af hverju á allur kostnaður að leggjast á Landspítlann sem er að drepast úr fjársvelti ......(???) um leið og fólk leggst inn?

Við, þ.e. LSH, myndum að sjálfsögðu borga fyrir allar nýjar lyfjagjafir, sem og öll lyf sem ætti að gefa í æð eða um aðrar inngönguleiðir, en þau lyf sem fólk er að nota hvort sem er að staðaldri, á það sjálft að borga fyrir, að mínu mati. Og það á að sjá sóma sinn í því að taka sín lyf með á spítalann þegar það kemur þangað og býst við innlögn.....eða bara alltaf í rauninni.

Þetta er mín afdráttarlausa skoðun á þessu máli.


Hvað er ekki að fúnkera hérna?....

Ég er bara eitthvað pínu tætt inni í mér núna. Kom heim frá Köben í nótt og kötturinn auðvitað búinn að ganga berserksgang hérna heima..... þótt unglingurinn sverji að hann hafi hugsað vel um hann á meðan ég var í burtu.

Ég sakna borgarinnar minnar, hennar Kaupmannahafnar. Frá hótelinu heyrði ég ysinn og þysinn frá götunum í kring, ég heyrði stöðugt í índíána"vinum" mínum á Ráðhústorginu, strætó að stoppa og taka af stað, lögreglu- og sjúkrabílasírenur "hele tiden", pulsukallana að draga pulsuvagnana sína (...og já ég segi pulsu en ekki pylsu...), hlátrasköll, drykkjulæti, rifrildi og lovemaking....(kannski mest mín eigin....Cool...)... en ég fíla þetta allt. Ég horfði á túrista láta taka myndir af sér fyrir framan TÍVOLÍ, horfði á auglýsingaskiltin á Ráðhústorginu, fólk ganga og hjóla fram hjá mér í Fiolstræde, fíklana sem eiga að vera ósýnilegir en eru mjög sýnilegir ef maður horfir í réttar áttir, Copenhagens Jass Festival í fullum gangi, Christiania og lífið þar, konurnar með blómvendi í hjólakörfunni sinni á Nörrebro, eða fólkið að kaupa kirsuber og maísstöngla frá götusalanum..... flestir chillaðir og afslappaðir. Og já, ég fíla þetta alltof vel. Ég fíla lestarnar, ég fíla strætóana, ég fíla líf þar sem maður þeysir um á hjólinu sínu og getur bara verslað það sem maður kemst með heim á hjólinu. Ég fíla hugsunarhátt Dana, að lifa fyrir daginn í dag og vildi að ég gæti tileinkað mér hann. Svona líður mér alltaf þegar ég kem frá Danmörku. Þá finnst mér ég vera svona hálftættur persónuleiki. Ég vil þetta og ég vil líka ÞETTA, en samt vil ég frekar svona, en bara ef ég gæti blandað því með pínu af þessu...... og svo framvegis.... Maður getur víst ekki bæði sleppt og haldið..... því miður Pinch

Ég hitti líka gamla vini og ég sakna þeirra óendanlega mikið og finnst ömurlegt að hafa hvorki þá né þeirra afslöppuðu nálgun til lífsins í mínu dagsdaglega lífi hérna á Íslandi. Ég sakna líka áhyggjulausa og kæruleysislega lífsins sem maður lifði á meðan maður var ennþá "bara námsmaður", þar sem maður lét hvern dag nægja sína þjáningu, hitti vini sína oft því vinnan hafði EKKI fyrsta forgang í lífinu, maður lifði stundum fyrir 20 kr. (danskar kr. sko) á dag en hafði það samt fínt, stal klósettpappír í skólanum því maður hafði ekki efni á honum sjálfur, fór í hjólatúra út í skóg með nestiskörfu og fannst það besta upplifun í lífinu, og lá bara stundum úti í skógi á teppi með hvítvín og lét sér líða vel.

Tveir gamlir vinir mínir eru dánir og ég naga mig í handarbökin fyrir að hafa ekki haldið meiri kontakt og fylgst betur með. Ég fór í gamla bæinn minn, Næstved, í fyrsta skiptið í mörg ár og sá gamla staði; gamla húsið mitt, búðina sem ég verslaði alltaf í, sjúkrahúsið þar sem ég vann, bekkinn þar sem ég hitti alltaf Mette vinkonu mína eftir vinnu, torgið í Næstved þar sem ég settist alltaf á föstudögum og drakk einn bjór með vinum þegar ég var búin að versla inn fyrir helgina. Ég var mestallan tímann með Mr. K. úti og þótt ég sé nýbúin að kyssa hann og segja bless, þá sakna ég hans líka Frown Ég sakna alls..... bara alls.... og segir það manni ekki eitthvað???

Líklega verður þetta bara vika sorgar og söknuðar, vika Danmerkur"fráhvarfs", sem ég er fyrir löngu búin að læra, að bara fylgir Danmerkurferðum mínum. Samt get ég ekki hætt að fara þangað og ég get ekki hætt að gera sjálfri mér þetta..... þetta er líklega "fíkillinn" í mér sem kallar stöðugt á þessa sjálfsrefsun. Eða kannski leiðir þetta að lokum til einhverskonar endurskoðunar á lífi manns og þeim lífsgildum sem maður hefur..... það er aldrei að vita....?Undecided


Er fjandinn í Köben eða er hann í Reykjavík??....

Heimur versnandi fer, bæði þar og hér. Það getum við séð bara við það að lesa blöðin og hlusta á fréttirnar. Verðbólgan eykst og samhliða verðtrygging lánanna okkar, kaupmáttur rýrnar, krónan er að deyja.... ef hún er þá ekki bara dáin nú þegar (?!) og íslenska efnahagskerfið stendur óstöðugum fótum þótt Geir H. Haarde standi ennþá fast á sínum og aðlagist meira og betur forsætisráðherrastólnum...., Mugabe "vann" forsetakosningarnar í Zimbabwe, börn deyja ennþá úr HIV og hungri í Afríku, börn illra stadda á Íslandi líða líka skort þótt hljótt fari, náttúruhamfarir alls staðar í heiminum "out of the blue".... Það er ekkert gaman hérna lengur. Hvað er að gerast? Er þetta upphafið að heimsendinum? Skyldum við einhversstaðar geta gripið inn í þetta ferli?

Það mætti alveg álykta sem svo að heimsendir væri í nánd..... heimskreppa, hryðjuverk, sjálfsmorðsárásir, faraldur í hungri og HIV í þróunarlöndunum og á sama tíma geysir offitufaraldur í Vesturlöndunum, vatnsskortur, olíukreppa, hækkandi verð á hráefnum allsstaðar í heiminum, heimskingjar heimsins eru ódauðlegir eins og Bush Bandaríkjaforseti, vaxandi eiturlyfjaneysla allsstaðar í heiminum.... Are we in trouble now? Woundering

Það er greinilega allt að fara til fjandans í öllum málum ..... nema ég, ég er komin til Köben, langt frá fjandanum, en kemst nær og nær efnahagsfjandanum, að minnsta kosti mínum persónulega, í hverju skrefi sem ég leyfi mér eitthvert skrattakorn. Ég ætla að leyfa mér, svona ofan í allt annað, að hafa áhyggjur af því þegar ég kem heim. Núna ætla ég bara að njóta þess að vera Lilja litla í Köben Tounge

Í Danmörku fæddist ég og bjó til tveggja ára aldurs þar sem faðir minn var við nám við Kaupmannahafnarháskóla, eldri systir mín flutti svo hingað þegar hún var tvítug og ég var 11 ára, og fórum við systur, (þ.e. ég og yngri systir mín), stundum út að heimsækja hana. Við litla systir fluttum svo á sama tíma, með sitthvorum kærastanum þó, til Danmerkur árið 2006,.....(breytt 5. júlí: vá, misreiknaði mig aðeins um 10 ár, við fluttum auðvitað út árið 1996 (!!!)....) hún bjó hérna í þrjú ár en ég ílengdist í 6 ár og náði mér í menntun í leiðinni...... og líka fullt af vinum, upplifunum og minningum, bæði góðar og mjög góðar... og slæmar og mjög slæmar. Hér lærði ég að standa á eigin fótum og hér fann ég sjálfa mig sem fullorðna. Hér mótaðist persónuleiki minn að stærstum hluta og gerði mig að þeirri manneskju sem ég er í dag. Mest þess vegna tengist ég Danmörku, og mun alltaf gera, sterkum böndum.

Ég hef farið árlega til Danmerkur alveg síðan ég flutti heim aftur, og mér finnst það varla nóg. Oft naga ég mig í handarbökin yfir því að hafa yfirleitt flutt heim frá Danmörku, og gæti vel verið að ég tæki allt mitt hafurtask saman og flytti út aftur. En þangað til, læt ég mér nægja að heimsækja...Happy

Ég kom hingað snemma í morgun. Von er á Mr. K. á sunnudaginn og ætlum við þá að eyða tæpri viku saman í skemmtilegheitum, en mér fannst tilvalið að taka forskot á sæluna og nota tímann til að hitta gamla vini, vinkonur og þefa af borginni minni einsömul. Enda sakna ég kellingarinnar, hennar Kaupmannahafnar......Blush

Ég er á hóteli við Vester Voldgade, sama hótel og ég nota alltaf, og sama hótel og við Mr. K. höfum notað áður..... þetta er fínt og gott hótel, svo af hverju að breyta? Núna er ég í single-herbergi, og mun svo færa mig yfir í herbergi okkar Mr. K. á sunnudaginn, en þetta "værelse" sem ég er í núna, er bara svo flott, að ég trúi því ekki að þetta sé leigt út sem "single-værelse". Ég er í king-size rúmi, sem ég nota tæplega einn þriðja af.... restin fer undir tölvuna mína, bækur og blöð, náttbuxur sem ég er nú þegar búin að afklæðast vegna hita og armböndin mín..... ég er með stórt og gott baðherbergi, tveir stólar og borð með glerplötu eru í herberginu, sem og skrifborð með stóli við.... og ein moskítófluga sem ég hef árángurslaust reynt að drepa. Líka er hérna sjónvarp og sjónvarpsskenkur, og það besta af öllu...... það er frí internettenging allan dvalartímann. Ekkert að borga fyrir annaðhvort klukkutíma eða sólarhring, maður er bara tengdur allan tímann sem maður er hér. Plús að þetta er smoking-room, sem gerir allt betra Smile

Í dag hefur verið 28 stiga hiti og sól í Köben, varla líft úti á götunum í miðbænum þar sem mengunin er þétt..... þótt ég sé alls enginn puritani, sko, en þá getur maður bókstaflega fundið mengunina í nefinu á svona molludögum í Kaupmannahöfn....

Ég prófaði eitt í kvöld, sem ég ekki hef prófað áður. Ég fór ein út að borða. Og mér fannst það æðislegt. Ég tók með mér bók, sat á útiveitingastað, pantaði mér pasta og hvítvín og sat svo og las "Þúsund bjartar sólir" eftir Khaled Hosseini, þann hinn sama og skrifaði Flugdrekahlauparann. Á sínum tíma grenjaði ég svo mikið yfir Flugdrekahlauparanum, að ég eiginlega þorði ekki að lesa í þessarri bók á veitingastaðnum, en hún gleypti mig fljótt, svo ég varð að panta mér einn Irish Coffee á eftir og svo bara sat ég þarna og las. Þegar það fór að kulna úti komu þjónarnir og lögðu teppi yfir axlirnar á mér, og ég, heimshornaflakkarinn, var orðin aðeins rugluð í ríminu eftir að vera nýbúin að vera í Barcelona......svo ég leit upp og brosti, kinkaði kolli og þakkaði pent fyrir mig; "Gracias....." Þótt ég væri búin að tala dönsku við þessa sömu þjóna allt kvöldið.....LoL er þetta að vera sofisticated (???), þegar þú manst ekki einu sinni hvaða tungumál þú átt að tala hverju sinni.....?Blush

Flestir túristar í Kaupmannahöfn ganga Strikið og svo voga sér út á einhverjar nokkrar hliðargötur þaðan. Við "hin" sem þekkjum Kaupmannahöfn, göngum bara stystu leið til baka, gegnum miður fagrar, þröngar götur, fram hjá alls konar búllum, hlustum á óp og köll "innfæddra Tyrkja og annarra", látum sem ekkert sé, og kannski einmitt vegna þess að maður er einn á ferð og virðist vita hvert maður stefnir, þá er maður látinn í friði.

Hugsunin hefur oft hvarflað að mér, en áþreifanlega gerði ég mér grein fyrir því í kvöld, þar sem ég þrammaði minni þekktar götur Kaupmannahafnarborgar, að hér líður mér vel og á einhvern hátt líður mér betur hérna og fíla mig meira "heima" heldur en "heima á Íslandi" í brjálæðinu, stressinu og kaupmennskunni, þar sem allir Pallar og Kallar eru í kappi við hvorn annan um það hver eigi stærsta jeppann, flottasta garðpallinn, besta fellihýsið eða fínasta ameríska grillið. Það virðist vera sem að stór hluti Íslendinga telji sig ekki vera NEITT nema að eignast einhverja svona hluti, og helst á sem skemmstum tíma, því annars gætu "ríku" vinirnir farið að undra sig á því, eftir hverju þau væru eiginlega að bíða..... Þessi hópur Íslendinga fyllir stórt hólf nú þegar, og virðist ekki eiga sér nein mörk, og ekki fyrir venjulegt fólk til að bera sig saman við. Þessi hópur virðist aldrei ánægður, þótt það sé nýbúið að kaupa fínt leðursófasett í stofuna, þá eru hýbýlin ekki fullkomin fyrr en búið er að kaupa nýja eldhúsinnréttingu líka, og borðstofuhúsgögn, og innréttingu á baðið, og svo sólpall og heitan pott og svo, og svo, og svo og svo..... þau láta einhvernveginn aldrei staðar numið, enda virðist ekki sem þessi kaup séu að færa þeim neina hamingju. Þetta er lífsfylling fyrir einn dag, og svo þarf að kaupa eitthvað nýtt. Ég meina í alvöru, út á hvað gengur lífið hjá þessu fólki? Hvað veitir þeim eiginlega hamingju? Hvað þarf til að gera þau glöð í hjartanu?? Greinilega eitthvað sem vantar, þar sem þau eru á stöðugu spani við að afla sér nýrra hluta, í stað þess að sitja á gamla sófanum og njóta lífsins með börnunum, fjölskyldu eða vinum.....Woundering

Þetta kunna Danir, þ.e. að njóta lífsins, njóta þess sem þeir eiga og eru sáttir og ánægðir með það, afla sér einhvers út frá því sem þeir eiga en ekki með lánum, hitta vini og kunningja reglulega í spjalli, yfir matarbita, í kaffisopa eða yfir "en öl", annaðhvort heima eða á torginu fyrir framan matvöruverslunina. Í Danmörku er ekki litið á þig sem alkohólista eða göturóna, þótt þú súpir af bjórflösku á almannafæri. Í Danmörku gengur lífið ekki út á það að vinna sem mest, eiga sem mest, eiga flottasta bílinn eða fara í flottustu ferðirnar. Þar gengur lífið út á það að njóta frítímanna frá vinnu, eiga sem FLESTA frítíma frá vinnu, í stað þess að eltast stöðugt við yfirvinnu eins og við gerum, njóta nútíðarinnar, njóta fjölskyldunnar og vinanna sem oftast og eyða peningum í góðan mat, góða samveru og góðar stundir frekar en flatskjái, gaseldavélar og heita potta. Í Danmörku þarftu ekki heldur að panta tíma hjá vinum þínum með þriggja vikna fyrirvara til þess að hittast, Danir eru "chillaðir" en ekki "overstressed" eins og Íslendingar og þeir vita hvernig á að "hygge sig".....Wink

 

Og ég er flutt aftur..... á morgun, eða næsta ár.... alveg á hreinu!!............

 

.................................

 

.................................

 

Úhú, gleymdi náttúrlega alveg að segja frá því, að í kvöld hitti ég líka gamla vini niður við Nyhavn, drakk fullt af bjór með þeim, alveg eins og í gamla daga. Svo kíkti ég inn til "vinar" míns, Tattoo Ole, við Nyhavn 17, en hann/þeir hafa gert öll tattooin sem ég ber á líkama mínum núna, og núna langar mig í nýtt. Svo ég kíkti aðeins á myndirnar þeirra og veðraði mínar hugmyndir fyrir þeim, Við erum búin að komast að nokkurs konar niðurstöðu, en ég ætla að bíða með að fá mér tattooið þangað til Mr. K. kemur, hann verður að vera viðstaddur..... gaman að sjokkera "soldið" gamlan mann.....Tounge


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband