Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2008
27.11.2008 | 19:59
Þjóð í vanda??
Jæja, ágætis bloggpása að baki, já og meira að segja mun lengri bloggpása en hún frænka mín Róslín gat haldið eftir stórar yfirlýsingar ....(hæ Róslín )... Mín pása var algjörlega ómeðvituð og ótilkynnt. Gerðist bara óvart. Bara að svona reykingapása myndi koma yfir mig einn daginn, án stórra yfirlýsinga og loforða sem ég hvort eð er enda alltaf á að þurfa að éta ofan í mig aftur innan fárra daga.
En speaking of..... nikótínfíkn mín minnir mig á frétt sem ég las fyrir nokkrum vikum, ekki svo löngu þó, (EFTIR að kreppan skall á). þar sem fréttnæmt var að Sigurður Kári og félagar ætluðu enn einu sinni að leggja fram frumvarp um að sala á léttvíni og bjór verði heimil í verslunum og að leyft verði að auglýsa þessar vörur. Þrátt fyrir að frumvarpið um áfengissöluna hafi verið fellt FIMM sinnum á Alþingi og hitt frumvarpið þrisvar. Af hverju er þeim svona mikið í mun að kýla þetta í gegn? Dugar ekki opnunartími ÁTVR þeim? Ég veit að hann dugar öllu venjulegu fólki, líka þeim sem allt í einu dettur í hug að akkúrat núna væri gaman að opna eina rauðvínsflösku og hafa það huggulegt. Slíkt fólk á yfirleitt nokkrar flöskur liggjandi og einhverja bjóra í ísskápnum, einmitt til slíkra tækifæra. Við þurfum ekki áfengið í matvöruverslanirnar þótt okkur þyki gaman að opna vínflösku við og við.
Hins vegar myndi sala á áfengi í matvöruverslunum vera stórhættuleg öllu því fólki sem berst við áfengisfíkn og afar sorgleg börnunum þeirra og öðrum aðstandendum. Ég hef unnið með áfengissjúkum og fíkniefnaneytendum og að berjast við fíkn er hræðilegt ástand fyrir alla þá sem að koma, bæði þá sjúku og fjölskyldur þeirra. Ég þekkti til fjölskyldu þar sem börnin hlupu á móti foreldrum sínum þegar þeir komu inn um dyrnar eftir vinnudag og verslunarferð, börnin hlupu til og rifu upp úr pokunum og önduðu í hvert skipti léttar þegar ekkert áfengi kom upp úr pokunum. Þau kvöld sem það kom fyrir voru þessi börn róleg og áhyggjulaus. Þorðu að fá vini í heimsókn og gátu verið börn í friði. Jafnvel spjallað við foreldra sína. Ef "Ríkis"-poki var meðal innkaupapokanna, var það ávísun á ótta, áhyggjur og kvíða fyrir þessi börn. Þau þorðu ekki að fá vini sína í heimsókn, þorðu heldur ekki að fara út úr húsi, kviðu kvöldinu sem fram undan var.... skyldu mamma og pabbi drekka þetta í kvöld?, skyldu þau fara að rífast?, skyldu þau vaka lengi og vera með læti? Eða kannski ætluðu þau bara að geyma vínið til annars dags. Einlæg von barna sem ávallt brást, því auðvitað drukku foreldrarnir alltaf aðföngin strax með mismunandi afleiðingum. En alltaf olli áfengi í pokunum þessum börnum ómældum áhyggjum. Ef áfengi væri selt í 10-11, þá myndu börn eins og þessi, aldrei eiga róleg og kvíðalaus kvöld. Þau væru aldrei "save" því pabbi gæti ennþá náð að stökkva út í búð og kaupa vín, þótt klukkan væri orðin margt og þótt það væri sunnudagur. Og þetta er bara dæmi um fjölskyldu, þar sem foreldrarnir voru þó í vinnu en misnotuðu áfengi mörg kvöld í viku. Hvað með allar hinar fjölskyldurnar, þar sem foreldrarnir eða foreldrið situr við drykkju allan daginn? Og ef að rök Sjálfstæðismanna eru, (sem ég veit reyndar ekkert um), að loka ætti fyrir sölu í matvöruverslunum á ákveðnum tímum þrátt fyrir að verslunin sjálf væri opin lengur, hver er þá ávinningurinn? Ég tel það ekkert eftir mér að fara í ákveðna verslun til að kaupa mitt rauðvín eða hvítvín, ég veit hvenær búðin er opin og plana mig einfaldlega eftir því.
Ég berst við fíkn í nikótín. Ég hef margoft reynt að hætta. Stundum í lengri tíma en oftar í skemmri. Á þeim tímum sem ég hef verið nikótínlaus hefur sígarettan sjaldan farið úr huga mér. Á þessum tímum hef ég oftsinnis keyrt úr vinnu og heim til mín upp í Breiðholt og keyrt inn á planið hjá hverri einustu sjoppu, bensínstöð og verslun á leiðinni, í því skyni að kaupa mér sígarettur og reykja "bara eina" áður en ég kem heim. Ég hef rökrætt við sjálfa mig alla leiðina; "Ég ætla bara að kaupa einn pakka" og keyrt inn á planið hjá Select.... og "Nei, ég ætla ekki að reykja í dag" og keyrt út af planinu aftur. "Jú, bara einn, svo ekki meir", svo keyri ég inn á planið hjá næstu sjoppu og held áfram að diskutera í huganum: "Lilja, auminginn þinn, þú getur alveg sleppt því að reykja í dag", og svo keyri ég út af planinu aftur. Svona gengur þetta þar til ég geng inn um dyrnar heima hjá mér og þá tekur hugsunin við: "Ætti ég að hlaupa út í sjoppu"? "Nei, ég ætla ekki", og svo klukkutíma seinna kemur sama hugsun aftur upp. Og allt kvöldið rökræði ég í huganum við sjálfa mig um það, hvort ég ætti að hlaupa út í sjoppu og kaupa mér "efnið" mitt.
Það er hægt að yfirfæra þetta á áfengissjúklinga. Ef freistingin stendur þeim alltaf til boða í matvöruverslunum, alla daga og langt fram á kvöld, þá getur lífið orðið þessu fólki enn erfiðara en það er þá þegar. Ef áfengissjúkir í bata, geta ekki einu sinni verslað í matinn án þess að freistingin standi beint fyrir framan augun á þeim, þá erum við ekki að gera þeim greiða. Mikilvægur hluti í bata áfengissjúkra er að lifa eðlilegu lífi, versla í matinn, hugsa um börnin sín, elda og reyna að eiga eðlilegt heimilislíf. Við tökum þetta af þeim með því að stilla áfengi upp í matvöruverslunum og með því gerum við engum greiða, hvorki þeim, fjölskyldum þeirra né samfélaginu í heild sinni.
Vissulega er áfengisfíkn ekki það sama og nikótínfíkn. Algjörlega ekki. Reykingar fólks hafa sjaldan eða aldrei áhrif á fjölskyldulíf þeirra, þátttöku í viðburðum fjölskyldunnar, vinnuástundun eða hegðun þess sem reykir. Vegna þess að nikótín breytir ekki meðvitund eða skynjun fólks á neinn hátt eins og áfengi og fíkniefni gera. Samt sem áður eru þetta hvorutveggja mjög sterkar fíknir og þegar fíkn tekur yfir heilann og hugsun, þá þurrkast út öll rökhugsun. Það er staðreynd. Svo það er í algjörri fáránlegri andstöðu að leggja svona frumvarp fram á meðan barist er gegn nikótíninu á þann hátt sem gert er. Læknafélagið lagði til á síðasta ársfundi sínum að nikótín yrði lyfseðilsskylt innan fárra ára. Og á meðan berjast einhverjir Sjálfstæðismenn fyrir því að aðgengi að áfengi verði auðveldara.
Það er ekki staðreynd að reykingafólk sé dýrasti sjúklingahópurinn í þjóðfélaginu en það er hins vegar staðreynd að offitusjúklingar eru það. Það er staðreynd að reykingafólk borgar MJÖG háa og eflaust réttmæta tolla og skatta af sinni fíkn, næstum 70% af hverjum keyptum sígarettupakka fer til Ríkisins og því hefur reykingafólk lagt inn töluverðar fjárhæðir fyrirfram hjá heilbrigðiskerfinu. Það er staðreynd að viðlíka há opinber gjöld eru ekki af fitandi matvælum. Það er líka staðreynd, að sá sjúklingahópur í þjóðfélaginu sem fer hvað mest vaxandi eru miðaldra áfengissjúkir. (Og þá erum við ekki að tala um gömlu góðu göturónana). Miðaldra áfengissjúkir eru oft þeir sem byrjuðu að kaupa sér bjórkippur öðru hvoru þegar bjórsala var leyfð á landinu árið 1989. Svo fór verð lækkandi á bjóri og léttvíni og þessi hópur fór að kaupa sér þessar vörur reglulega til að hafa það huggulegt. Þróunin varð þannig, að eftir ákveðinn tíma þótti það ekkert tiltökumál að fá sér bjór eða léttvínsglas þegar komið var heim úr vinnunni. Og eftir einhvern tíma urðu bjórarnir fleiri og glösin fleiri. Og eftir enn ákveðinn tíma var þetta orðið daglegt brauð. Og er það enn hjá mörgum. Þessi hópur er oft fólk í vinnu, með uppkomin börn og lítil barnabörn. Þessi hópur er á þeim aldri að hækkandi blóðþrýstingur, blóðsykur, kólesteról, hjartsláttaróregla, lungnasjúkdómar og jafnvel offitusjúkdómar eins og stoðkerfisvandamál, þunglyndi og fleira er farið að hrjá. Sumir hafa fengið blóðtappa og aðrir hjartaáföll. Sumir eitthvað annað. Þessi hópur er þess vegna oft á lyfjum og vegna drykkju gleymir þetta fólk stundum að taka lyfin sín, eða drekkur ofan í lyf sem ekki á að drekka ofan í. Þetta fólk eldist, dettur, mjaðmabrotnar, lærbrotnar, fær skurði á höfuðið, blæðingar inn á heila og sitthvað fleira. En í flestum tilfellum veldur það sínum nákomnu ómældum áhyggjum með sinni drykkju. Auk þess að kosta samfélagið formúgu.
Þurfum við endilega að auka á þessi vandamál með því að leyfa áfengi í matvöruverslanir? Er þetta ekki bara gott eins og það er? Ég veit að þetta er ekki eini þjóðfélagshópurinn sem drekkur og vandamálin eru langt frá því einskorðuð við þennan hóp. Ég ætla samt ekki að telja upp vandamálin sem tengjast drykkju yngra fólks með yngri börn, vinnutap, sálfræðileg vandamál og fleira..... og margt skelfilegt hjá yngri hópnum líka. Þetta var aðeins til að nefna dæmi.
Ég er ekki bindindismanneskja, mér finnst gaman að fá mér rauðvins- eða hvítvínsglas öðru hvoru, mér finnst gaman að opna bjór þegar sólin skín og ég ætla að grilla, fá mér rauðvínsglas á meðan ég skrifa jólakortin eða hvítvín þegar ég hitti vinkonu á kaffihúsi. Ég fæ mér örugglega hvítvínsglas oftar en margir. En ég get alveg haldið mig við áfengi í ÁTVR og þeirra opnunartíma. Og það held ég að flestir geti. Við gerum engum greiða með auknu aðgengi að áfengi. Ekki þeim sem eiga í vandræðum með áfengið, ekki fjölskyldum þeirra, ekki verslunareigendum og ekki okkur sem samfélagi.
Og ótrúlegt að á þessum tímum, þessum tímum sem eru verstu tímar okkar Íslendinga í lengri, lengri tíma..... þar sem margt fólk er niðurbrotið og margir leita í flöskuna, margir óvirkir sem riða til falls, þá skulu þessir ungu Sjálfstæðismenn ennþá vera að berjast fyrir auknu aðgengi að áfengi. Eins og það sé lykillinn að því að byggja okkar samfélag upp. Til þeirra vil ég segja: Lykillinn að traustu samfélagi felst ekki bara í peningum heldur enn þá meira í traustum fjölskyldum, fjölskyldum sem eru starfhæfar í samfélaginu og líður vel, ala upp börn með góð gildi og gott sjálfstraust, börn sem eru í íþróttum, fjölskyldur þar sem fyrirvinnurnar geta stundað sína vinnu og þar sem foreldrarnir sýna gott fordæmi. Þetta er lykillinn. Ekki að selja áfengi í matvöruverslunum.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 20:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
15.11.2008 | 21:45
Oh my God..... can we please, please.....
Ég er á því, að ekki sé einungis bloggstíflu um að kenna, heldur áhugaleysi, þreytu á umræðuefninu og dugleysi almennt, hvers vegna ég er svona löt að blogga undanfarið. Ég er örugglega ekkert ein um það að vera útivinnandi og þurfa að hlusta á oft miður vitsmunalegar umræður, þar sem hver og einn þykist alvitur....., stundum vitsmunalegar en þá er maður svo útmattaður af hinu, að maður nennir ekki einu sinni að taka þátt. Ég ræði þetta ástand þjóðarinnar við minn kæra Mr. K. og svo nokkra aðra, en OH MY GOD, can we talk about something else? Sometimes? .... ......somewhere..... anywhere, anyplace, anyhow..... ?? Bara please.... eruð þið ekkert að verða þreytt á því að vera spegill þjóðarinnar?? Ég er það allavega, og ég finn líka að það pirrar mig óstjórnlega þegar fólk segir, að ekki sé verið að GERA NEITT. Það er verið að gera fullt, sumt er ekki hægt að tala um og um þetta gildir að fæst orð bera minnsta ábyrgð. Ekki síst með tilliti til alþjóðasamfélagsins. Alþjóðasamfélagið er ALLTAF að hlusta. Og alltaf að túlka okkar orð. Kannski vildu "okkar" menn gjarnan segja OKKUR eitthvað, en þeir verða að gæta orða sinna því alheimurinn er að hlusta.
Miðað við vinnu föður míns síðastliðnar 6-7 vikurnar get ég lofað fyrir að einhverju er stöðugt verið að vinna í, og hann er EKKI í pólitískri stöðu heldur hreinni embættismannastöðu. Að minnsta kosti hefur móðir mín ekki séð manninn sinn í margar vikur, og svo er fólk að tala um að "fólkið sem ætti að vera að vinna, sé ekki að gera neitt!" Sveiattan, þetta gerir mig svo reiða, vegna þess að á meðan þið segið, að ekki sé verið að gera neitt, þá eru fjölskyldur þessarra manna, makar, börn og barnabörn ekki að sjá neitt af sínum mönnum. Því þeir eru að vinna fyrir RÍKIÐ. Reyna að finna farsæla lausn á öllu þessu. Fullt af embættismönnum vinna myrkranna á milli við einmitt það.
Ég er ekki með þessu að segja að ég sé sammála því að Davíð sitji áfram, eða að mér finnist það "cool" að Davíð hafi Geir í vasanum, mér finnst þetta Geir H. Haarde til skammar. Og hann á örugglega eftir að blæða fyrir sína trúmennsku við Davíð, hvernig svo sem stendur á henni. Geir á eftir að fá skellinn, vegna þess að með sínu loyalitet við Davíð er hann ekki einu sinni að þóknast meirihluta síns eigin flokks. Ég hef líka alveg mínar skoðanir á IMF og Gordon Brown, en það hafa líka allir þessir embættismenn. Þeim finnst sitt, en verða samt að vinna í umboði ríkisins. Svo please, hættið að segja, að ekki sé verið að vinna myrkranna á milli til að fá fram lausnir á okkar vandamálum. Ef ég heyri þetta einu sinni enn, þá á ég eftir að öskra. Bæði ég, mamma mín, dætur, synir, barnabörn og makar margra embættismanna, sem eru búnir að vinna rassgatið út úr buxunum síðustu vikurnar fyrir okkur. Og NOTA BENE, ekki á yfirvinnutaxta eins og svo margir virðast halda, þessir menn/þessar konur fá nákvæmlega sömu krónur í vasann, hvort sem unnir eru 200 eða 400 tímar í mánuði, og ég get alveg sagt ykkur að síðustu tvo mánuði, er tímafjöldinn nær 400 eða 500 tímum heldur en 200!! Og þetta fólk er alveg í sömu stöðu og við, eru með verðtryggð lán, eru að borga af húsunum sínum, fjárfestu einhverju í hlutabréfum sem nú eru töpuð og þar fram eftir götunum. Hættið að tala um þetta ástand, eins og það sé "VIÐ Á MÓTI ÞEIM".Við hver? Á móti þeim hverjum??? Við erum ÖLL í sama skítnum og við erum ÖLL saman að reyna að finna grundvöll fyrir áframhaldandi lífi hérna á Fróni. Ekkert annað. Við getum líka öll flykst á burt og látið Ísland, okkar fallega Ísland, leggjast í eyði. Við getum gert hvort sem er.
Ég er alveg sammála ýmsum mótmælum sem fara fram, og finnst það réttur okkar allra að mótmæla, en þegar fólk leggst svo lágt að setja á skilti; "DREPUM DAVÍÐ" og "HREINSUM ÍSLAND" og kastar svo eggjum og öðru í Alþingishúsið, þá eru þessi mótmæli komin á lægra plan en ég vil kenna mig við. Lái mér hver sem vill og dæmi mig líka hver sem vill. En þetta er mín skoðun og afstaða og ....okey, ekki grýta eggjum í mig, en mér er alveg sama þótt þið grýtið eggjum í blokkina mína. Mér finnst ekki þess háttar mótmæli koma okkar skilaboðum til skila.
Við erum sammála um margt, og viljum að ýmislegt breytist, en common ..... GROW UP segi ég nú bara. Ekki láta þetta fara út í múgsefjun þar sem fólk verður ekki tekið alvarlega, við skulum gera þetta á alvöru hátt frekar en svona.
Ég er ekki ánægð með ástandið. Ég vil ekki hafa Davíð í Seðlabankanum. Ég skil ekki hvers vegna Geir H. Haarde heldur áfram að verja Davíð. Ég skil ekki margt, og mér finnst annað, en eitt veit ég, og það er að það er virkilega róið að því með tvöföldum árum að koma Íslandi úr þessarri klípu sem fáir auðmenn komu okkur í. Og ég vona svo sannarlega líka að þeir fái sín málagjöld. En við skulum ekki hengja bakara fyrir smið....... (eða hvernig sem þessi málsháttur nú er, þá held ég að hann hljómi vel.... )
Ójá, sorry, að ég er grumpy þessa dagana, ég hef ekki séð pabba minn frá því í september því hann er í stöðugri vinnu fyrir RÍKIÐ, fjölskyldulífið er farið að litast af fjarveru hans stöðugt til OKKAR FJÖLSKYLDUMÁLA, mamma mín er grumpy vegna sama ástands, hann getur varla mætt í jarðafarir góðra vina vegna ástandsins í landinu, hvað þá haft tíma til að skrifa um þá minningargrein..... og á meðan stendur fólk og segir að það sé ekki verið að gera NEITT.
Já, I'm really sorry, að ég lít þetta öðrum augum en þið, en það ER VERIÐ AÐ GERA FULLT. Það er ekki hægt að tala um allt og sumir kannski skilja það bara ekki......
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 23:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
4.11.2008 | 18:57
Ég þarf að dúta.....
Úff, enn og aftur andleysi og bloggstífla, en nú er ég sest hérna og ég ætla EKKI að skrifa neitt um efnahag, ríkisstjórn, Davíð og stýrivexti eða neikvæðan viðskiptajöfnuð...... en til að skrifa um eitthvað, þá ætla ég að skrifa um, kannski ekki svo frumlegt efni, en allavega mjög frumstæða þörf mannsins..... og jú konunnar Ég ætla að skrifa um athöfnina að kúka.... ég er sem sagt komin niður á fimm ára planið í öllu þessu krepputali....
Eins og allir vita þá þurfa karlmenn að gera "númer tvö" miklu oftar en kvenmenn.... það er að minnsta kosti þannig að það fer ekki fram hjá neinum þegar athöfnin sú stendur til hjá karlpeningnum. Annaðhvort er það tilkynnt hátt og skýrt; "ég ætla á klósettið" svo allt heimilisfólk viti nú örugglega hvað nú standi til, dagblaðið eða annað blað jafnvel tekið og brotið hátíðlega saman og borið með viðhöfn inn á baðherbergið eða önnur dramatísk ritúöl viðhöfð fyrir athöfnina. Konurnar aftur á móti ganga bara inn á WC-ið og loka að sér og eru í kapphlaupi við tímann, því þær ætla að vera búnar áður en suðan kemur upp á hrísgrjónunum eða áður en Palli kemur heim með alla vini sína af fótboltaæfingu. Enginn tekur eftir því þótt þær bregði sér inn á baðherbergi öðru hvoru og enginn spáir í það þótt þær dvelji þar í einhverja stund heldur, því konur eru nú hvort eð er oft inni á baðherbergi annaðhvort að plokka augabrúnir, kreista fílapensla, prófa nýjar hárgreiðslur, testa photosvipinn eða bara einfaldlega að spegla sig frá öllum vinklum. Í minni litlu fjölskyldu sem telur tvo, gekk það meira að segja svo langt, að sonur minn lenti næstum því í slagsmálum þegar hann var fimm ára, því hann hélt því fram í staðfastri og einlægri trú sinni, að konur hvorki kúkuðu né prumpuðu. Það vildu nú félagar hans ekki gúddera... en þótt misjafn sé siðurinn á hverju heimili þá held ég því nú samt fram að að þessi athöfn, að kúka, sé nánast heilög karlmönnum á meðan hún er nauðsyn kvenfólkinu.
Í fjölskyldu einni sem ég þekki til, er karlkynið í meirihlutanum og á þeim bænum hefur heimilismóðirin oft haft á orði að eiginlega hefðu þau þurft að hafa tvö baðherbergi, þar sem þeirra eina er oftar en ekki upptekið í lengri tíma í senn þegar karlmennin þurfa öll á klósettið seinni partinn og gildir þar lögmálið að sá sem hefur stysta úthaldið fær að fara fyrst og svo koma hinir á eftir.
Þannig fær sá minnsti yfirleitt forganginn svo hans stykki endi ekki í buxunum. Hann tilkynnir einfaldlega að hann "þurfi að dúta", tekur svo spidermankallinn sinn og dundar með hann á meðan setið er á klósettinu. Næsti tekur með sér tvö Andrésblöð og stendur ekki upp af settinu fyrr en búið er að blaða í gegnum bæði blöðin. Oft þá með rautt klósettfar á lærunum. Sá elsti hefur alltaf, frá því að hann varð koppavanur, haft þann siðinn á, að hann þarf að klæða sig úr hverri spjör áður en hann getur hafist handa. Og hann vill hafa hurðina opna. Stundum liggur þó mikið á og þá nægir að fara úr að neðan áður en hann sest og svo tínir hann spjarirnar af efri hluta líkamans í rólegheitum á meðan hann situr við. Koma þá gjarnan peysa, bolur og nærbolur fljúgandi með reglulegu millibili út um dyrnar. Kannski líka Liverpool-svitabönd og hárteygja. Já, það má með sanni segja að frummaðurinn búi í þessum gaur.
Sjaldan verð ég kjaftstopp en varð það þó í eitt augnablik þegar röðin loksins kom að heimilisföðurnum. Það er greinilega af sem áður var þegar karlmennirnir tóku Moggann eða Bílablaðið inn á bað sér til félagsskaps því þessi vippaði einfaldlega lab-toppnum með inn á baðherbergið. Enda augljóst að mun auðveldara er að hafa tölvuna á lærunum meðan á þessarri heilögu athöfn karlmannanna stendur, heldur en að ráða við heilt dagblað sem allt er laust í sér og vill detta í allar áttir.
Jahá, svona fer þá nútímamaðurinn á klósettið, hugsaði ég og gat eiginlega ekki annað en hlegið. Hvað erum við komin langt frá þeim tíma þar sem mennirnir vippuðu skýlunum sínum upp og grófu svo mold yfir heila klabbið....? Heppilegt allt þetta með þráðlaust net og litlar tölvur og já, bara alla nútímatæknina..... en hvað skyldu þau hafa verið djúp rauðu förin á lærunum á þessum eftir hans setu? Tölvan með þráðlausu neti er eins og blað sem aldrei klárast. Þú getur setið endalaust við og þarna færðu í það minnsta frið til þess.....
Hér er ró og hér er friður
Hér er gott að setjast niður
Hvíla sínu þungu þanka
þar til einhver fer að banka
Þá er mál og mannasiður
að standa upp og sturta niður
Ójá, ég skil vel að þessa konu langi í tvö baðherbergi á heimilið sitt......