Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2008

Enn eitt nýárið......

Þá er enn eitt nýárið gengið í garð, eða öllu heldur fauk það inn. Ég náði mér nú í gubbupest á gamlársdag, svo kvöldið var tekið mjög rólega, eyddi því með Kjartani gamla (minn eigin og íslenski mr. Big) og syni hans - aðeins öðruvísi en planað var en þar sem maginn var ekki upp á sitt besta var partýskapið ekki upp á marga fiska. Sem var kannski jafngott, því daginn eftir hafði pabba boðið mér að koma með á Bessastaði, þar sem hann átti að veita stórriddarakrossinum viðtöku.

Það var stolt dóttir, og algjörlega óþunn, sem horfði á forsetann hengja orðuna um háls pabba síns um miðjan nýársdag. Pabbi vissi reyndar ekkert að stórriddarakrossinn væri hengdur um hálsinn, heldur hélt hann að orðan væri næld í barminn eins og þessi "venjulegi" riddarakross, þannig að hann hélt jafnvel að forsetinn ætlaði að kirkja hann, þegar hann vatt sér aftur fyrir pabba og fór að reyra eitthvað að hálsinum á honum. Wink Á eftir var boðið upp á kampavín og svo voru Bessastaðir opnaðir fyrir alls konar "fyrirfólki" í þjóðfélaginu. Ég ákvað nú bara að njóta staðar og stundar eins og forsetinn hvatti fólk til - líka þar sem litlar líkur eru á því að ég verði boðin þarna í hús aftur á þessum degi Wink Gaman að sjá hverjir teljast góðu þegnar þessa þjóðfélagsins og hljóta heimboð forsetans í nýársboð. Það er þó skemmst frá því að segja, að þetta var skemmtileg upplifun, ég tók í höndina á nokkrum ráðherrum og sendiherrum, að ógleymdum forsetahjónunum sjálfum, en fáa þekkti ég nú þarna.... ekki fyrr en við vorum við það að fara, þá gekk inn Hreiðar Már bankastjóri með meiru, gamall vinur og miðstjórnarfélagi úr Verzló, sem ég hef örugglega ekki séð í 15 ár. Rétt náði að heilsa upp á hann og smella kossi á kinnina á honum. Gleymdi samt að biðja hann að strika út yfirdráttinn minn hjá KB.... Cool 

Nú er bara að bíða eftir þrettándanum, svo það sé hægt að taka niður jólatréð og sprengja síðustu raketturnar og svo ætti allt að fara að ganga sinn vanagang aftur hjá mér eftir langt og gott jólafrí. Ég hef ekki átt svona jólafrí síðan ég var í skóla og mér fannst ég hafa unnið vel fyrir því, þetta eru búnir að vera letidagar í bland við hangikjöt og jólaboð en nú tekur alvara lífsins við aftur. Ég veit ekki alveg hvar eða hvenær ég fer að vinna aftur, stend á smá krossgötum innan fyrirtækisins en það skýrist líklega á næstu dögum. Þannig að það er um að gera að njóta þessarra síðustu daga, og það ætla ég að gera. Þarf þó að fara að snúa sólarhringnum við aftur. Best að byrja strax!

Þangað til næst.......


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband