Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2007
15.1.2007 | 01:15
Um daginn og veginn og tjörnina
Jæja, búið að vera nóg að gera hjá Liljunni. Drengurinn ennþá í útlöndum, og ég bara búin að vera að vinna og vinna og vinna. Nú er hann búinn að vera í burtu í 9 daga, og ég var að fatta það þegar ég setti í þvottavél í dag, að þetta var fyrsta vélin sem ég setti í síðan hann fór !! - og þetta voru meira að segja rúmfötin mín sem ég var að þvo í dag, svo það telst nú ekki með sem svona hversdagsþvottur. En ég er náttúrlega ekki alltaf úti að leika mér og að leika mér að því að brjóta ís á pollum í strigaskóm, en ekki kuldaskóm, af því að það er ekki nógu coooolll. Jæja, fór út á lífið með Maju pæju á laugadagskvöldinu fyrir viku síðan - vá, er það virkilega vika síðan!! Það var bara mjög gaman, kom alveg á óvart, þar sem ég var ekki beint í djammgírnum áður en ég fór út. Ég hitti marga, en týndi auðvitað Maríu, en það gerist nú yfirleitt þegar við förum saman. HItti svo Helgu og Einar yfir á Rex, en þar var eitthvað partý sem var beint í framhaldi af afmæli sem einhver flugþjónn hélt. Mjög gaman líka, því venjulega er ekki sérstaklega gaman á Rex, ekki svo ég muni nýlega. Kom samt frekar seint heim, nógu seint til að mæta Fréttablaðs-stráknum í forstofunni - jæja, ég gat þá kippt blaðinu með mér upp en hafði nú ekki orku til að lesa það fyrr en á mánudeginum. Ekki af því að ég svaf allan daginn, heldur af því að ég fór að vinna seinni partinn á sunnudeginu og vann fram á mánudagsmorgun. Á miðvikudaginn byrjaði ég svo í skólanum, í kúrs í heilsuhagfræði ........ já sumir mega vel hlægja og hugsa um mig að læra hagfræði. Þótt ég hafi nú ekki beint brillerað í hagfræðinni í Verzló, er ekki efi í mínum huga, að ég get lært þetta fag eins og allir aðrir, bara þegar mig langar til þess. Ég var nú heldur ekkert of sleip í stærðfræðinni í Verzló, ég held ég hafi fengið 2 á stúdentsprófi, en það var bara vegna þess að ég hafði engan áhuga á stærðfræði. Nokkrum árum seinna tók ég stærðfræði í Verkfræðiháskóla í Danmörku, tók hana þá upp á sama plan og stærðfræðideildirnar í MR og Verzló gera, og þá fékk ég nú 9 - HAHA. Þótt ég hafi ekki skilið kennarann í næstum 3 mánuði, þá lærði ég bara eftir bókinni og sýnidæmunum. Ef ég nú klára masterinn í þessu fagi, mun ég kallast Heilsuhagfræðingur, og þá held ég að ég verði að senda gamla hagfræðikennaranum mínum, honum Valdimari Hergeirssyni, afrit af skirteininu mínu - bara svona að gamni. Því hann hafði nú oft ekki mikla trú á mér í þessu fagi. Hann sagði meira að segja einu sinni við mig: "Og þú, Lilja, sem átt svona kláran hagfræðing sem pabba." Jæja, við sjáum til, sjáum til. Eftir skólann á miðvikudagskvöldið ákvað ég að ganga niður í bæ, ætlaði að hitta Maríu vinkonu á kaffihúsi þar. Ég gekk framhjá háskólabyggingunum, eftir Hringbrautinni og svo Tjarnargötu og Bjarkargötu, og það var svo fallegt að ganga þarna. Snjór yfir öllu og meira að segja tvær turtildúfur á skautum á tjörninni - mig langar á skauta. Þetta er nú með fallegri stöðum að ganga á í veðri sem þessu. Ákvað að bíða eftir Maju í Iðuhúsinu, alltaf gaman að skoða bækur og svo gæti ég fengið mér cappucino uppi ef hún myndi láta bíða lengi eftir sér. Hitti þá Hjálmar, gamla buddy, einn af Pizza Hut staffinu frá því í gamla daga. Hef sko ekki séð hann í öruggleg 10 ár, en það var ekki að heyra. Við kjöftuðum heillengi og svo þegar María kom, kjöftuðum við enn lengur, þannig að við Maja eyddum eiginlega öllum kaffihúsatímanum okkar þarna, standandi fyrir framan afgreiðsluborðið hans (hann er sko að vinna þarna). Ég átti að mæta á næturvakt kl. 23, svo við María rétt náðum að fá okkur Caffe latte á Café Paris og svo pylsur á BB, áður en ég þurfti að þjóta. En gaman samt. Daginn eftir fór ég í jarðaförina hennar Jóhönnu Björnsdóttur, læknis. Hún lést eftir hestaslys daginn fyrir gamlársdag, mjög sorglegt. Það var svo mikið af fólki í kirkjunni, að margir stóðu - í sjálfri Hallgrímskirkju. Jóhanna var yndisleg kona, eins og auðvitað allir vita sem þekktu hana. Ég á alltaf pínu bágt með mig í jarðaförum, hvort sem ég þekkti viðkomandi mikið eða lítið, jafnvel þótt ég sé þar til að sýna samúð mína öðrum. Þetta gekk þó ágætlega hjá mér þar til kistan var borin út, það var svo sorglegt að hugsa að hún lægi í kistunni, og að sjá dætur hennar, sem á rúmum 5 árum eru búnar að missa báða foreldra sína af slysförum. Þarna gat ég ekki haldið aftur af mér lengur. Mér finnst undanfarið, svo mörg hrikaleg slys hafa gerst, og mér finnst að við eigum virkilega að fara að vera þakklát fyrir það sem við höfum og njóta þess, í staðinn fyrir stöðugt að æða áfram og lengra í lífsgæðakapphlaupinu, þar sem hlutir eins og brotin nögl eru nóg til að eyðileggja daginn, því það þarf auðvitað að laga þessa nögl sem fyrst. Ég ætla allavega að reyna að forgangsraða öðruvísi, setja tímann heima með syni mínum ofar því að eignast nýjan sjónvarpsskáp eða nýja hátalara. Við megum þakka fyrir hvern dag sem við eigum, og það er ekki víst að við myndum vilja liggja t.d. á morgun á banalegu, og hafa eytt síðasta deginum eins og við eyddum deginum í dag. Ég ætla að hafa þetta á bak við eyrað héðan í frá. Ég tók maraþon svefndag yfir helgina, svaf í heila 14 tíma í einum rykk, án þess einu sinni að opna auga. Hún var náttúrlega kærkomin þessi hvíld, þar sem lítið hafði farið fyrir henni innan um allar næturvaktirnar og allt hitt sem ég þurfti að gera í síðustu viku. En ég bætti um betur, var vakandi í ca. 2 tíma og svaf svo aftur í aðra 10!! Var nú hálfringluð þegar ég vaknaði seint eftir hádegi í dag, en dreif mig og reif allt af rúminu hjá mér, viðraði sængurnar og setti hreint á rúmið (og nýtt, því ég fékk ný rúmföt í jólagjöf, ummm, hlakka til að fara að sofa í kvöld) Fór svo í langan göngutúr um mitt elskulega Breiðholt og kom stálslgin inn - mundi þá að ég hafði líklega ekki borðað neitt síðan aðfaranótt laugadagsins, svo úr því varð að bæta. Það var bara ekkert gott til, því það var eins með verslunarferðir og þvottinn - það hafði ekkert verið keypt inn síðan unglingurinn fór til Ameríku. Úff, nú skil ég piparsveinana, sem alltaf eru með tóman ísskáp og jafnvel eldhúsþurrkur til að skeina sér á klósettinu Jæja, þetta bjargaðist með brauði úr frystinum, og svo er ég búin að liggja og lesa Konungsbók Arnaldar Indriðasonar - mjög góð, finnst mér! Ég ætlaði reyndar í bíó í kvöld, en þetta var miklu betra, rólegt kvöld heima í náttfötunum með bók, tv, kók og nammi (því nóg er til af sælgæti á þessu heimili, jólanammið flæðir út úr nammiskúffunni, þar sem við mæðginin erum ekki miklir nammigrísir). Ég náði meira að segja að ryksuga stigaganginn, en það er aðeins vika síðan ég átti að skila honum af mér...... Á morgun erum við systurnar að fara í lunch hjá Önnu frænku, sem er móðursystir mín en gengur ekki undir öðru nafni í allri fjölskyldunni en Anna frænka. Hún kom til landsins á gamlársdag svo það er kominn tími á að hitta hana. Tvíburarnir Ásthildur og Anna Maja koma líka, svo það verður örugglega gaman - ég hlakka til Um kvöldið ætlum við systkinin að hittast og undirbúa eitthvað fyrir afmælið hans pabba, en hann verður 60 ára í febrúar, kallinn. Við ætlum að semja ræðu og útbúa kannski slide show eða finna upp á einhverju sniðugu. Ég ætlaði að reyna að ná fyrirlestri á LSH um "kulnun hjúkrunarfræðinga í starfi", myndi langa til að heyra þennan fyrirlestur en hann verður að víkja ef lunchinn dregst. Ég get nú ekki eytt hverjum einasta degi inná þessum spítala, þótt mér þyki vinnan mín skemmtileg!! Jæja, best að fara að kúra sig í hreina rúminu mínu í nýju rúmfötunum, namminamm. Þangað til næst, take care!! |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.1.2007 | 21:36
Góður dagur :-)
Jæja, ég virðist ætla að blogga smá, er allavega að byrja á minni annarri færslu! Þetta hefur verið góður dagur, hingað til. Drengurinn fór til Ameríku í gær, og er lentur eftir smt. 16 tíma ferðalag. Skrýtið, að þegar hann var minni, þá fannst manni svona tvær vikur alveg guðdómlegar, að fá tveggja vikna frí frá því að vera mamma - en núna..... kann ég kannski ekkert annað? Er ég búin að skilgreina sjálfa mig sem svo mikla mömmu, að ég veit ekki hvað ég á að gera þegar einkabarnið er í burtu? Er þetta eins og öllum hinum líður kannski venjulega, þegar þið eruð barnlaus? Allavega sakna ég hans strax en er samt ákveðin í því, að nota tímann vel..... þótt ég sé ekki enn byrjuð á því. En það kemur, það kemur..... ætla að vera dugleg í ræktinni í næstu viku, inn á milli vaktanna minna, sko. Jafnvel nota kvöldin til að fara í bíó og á kaffihús, eitthvað sem "venjulegt" fólk sem er ekki í vaktavinnu, gerir oft í viku. Með okkur einstæðu foreldra, sem jafnframt vinnur vaktavinnu, gildir það nefninlega, að fríkvöldin frá vinnunni þýða kvöld með fjölskyldunni en ekki kvöld í SAM-bíóunum eða annað. Mann langar ekkert að vera að heiman mörg kvöld í viku, sem óneitanlega gerist þegar vaktavinna blandast inn í eðlilegt social líf - þannig að ergo, vaktavinnuforeldrar fara minna út en annað fólk. Kannski gildir öðru um okkur einstæðu foreldrana, því við eigum mömmu- og pabbahelgar - lúxus sem sambúðarfólk á ekki kost á Jæja, í nótt var ég að vinna á taugalækningadeildinni í Fossvoginum - fyrsta vaktin þar og ég var eina hjúkkan. Þetta var ekkert tiltökumál, gekk vel fyrir sig, enda held ég að maður sé orðinn ansi sjóaður í hinum ýmsu deildum, starfssviðum og í því að kynnast nýju fólki. Ég er alltaf að verða meira og meira ánægð, með að hafa hætt að vinna á Vogi og snúið mér algjörlega að Liðsinni. Það hentar fólki eins og mér, sem á það til að fá leið á því sem það er að gera, að geta skipt um starfsumhverfi, samstarfsfólk og sjúklingahópa reglulega - ég er allavega mjög ánægð. Mér finnst ekki erfitt að labba inn á nýja deild og kynnast nýju fólki og setja mig inn í nýja hluti - þetta er áskorun og mér finnst gaman að þeim Ég gerði fyrsta "góðverk" ársins þegar ég kom heim af vaktinni í morgun. Helgistundin mín er, þegar ég kem heim af næturvakt, fæ mér kók og sígó og les Moggann áður en ég fer að sofa. Á meðan ég var að lesa Moggann, varð mér litið út um gluggann og sá þar þúsundir, jæja allavega hátt í hundrað smáfugla í leit að æti - þeir sátu allir á einum og sama auða blettinum á bílastæðinu, þrátt fyrir að þar væri ekkert æti. Mamma mín er nú annáluð smáfuglakona og kannski hefur hún smitað mig eitthvað, en ég fékk svo mikla samúð með þessum greyjum, sem voru nýbúin að venjast hlýjundunum á landinu og svo allt í einu BÚMM snjór á eyjunni. Ég tók mig til og leit inn í ísskáp að leit að æti (er nú orðin ansi sérfróð um æti fugla frá mömmu minni, en skv. henni borða þeir allt, nema hrísgrjón má maður ekki gefa þeim, því þau bólgna of mikið út í maganum á þessum fljúgandi verum) - en ég fann þetta dýrindis hreindýrapaté frá því á gamlárskvöld - svolítið útjaskað og litlar líkur á því að ég hafi lyst á því í framtíðinni, en þeim er alveg sama. Svo hreindýrapaté á plastdisk og svo skar ég niður tvö epli og setti á diskinn, tölti niður í náttbuxunum og strigaskóm og stráði þessu á grasið. Ég stóð spennt við gluggann þegar ég kom upp, þetta var næstum eins og að gefa einhverjum gjöf og sjá hvort viðkomandi líkaði hún........ og viti menn, eins og þeim hefði verið vísað á staðinn af æðri máttarvöldum komu þeir fljúgandi og tylltu sér til að éta matinn - frá mér Tístið í þeim heyrðist upp til mín, stoltu fuglamömmunnar, sem stóð og fylgdist með þeim út um eldhúsgluggann. Þá kom stóri krummi, en það virðist óvenju mikið af krummum í nágrenni heimilis míns - þeir voru svo sem ekki að éta eitt frá litlu fuglunum, frekar eins og þeir væru að stríða þeim - flugu í djúpum dýfum niður að fuglahrúgunni bara til þess að þyrla þeim öllum upp. Skrýtið hvernig þessir krummar "ganga" eða öllu heldur hoppa út á hlið, þeir ganga allir eins og þeir séu haltir, hafið þið tekið eftir því?? Jæja, en þarna leið mér vel, ég get kannski ekki bjargað eða breytt heiminum, en ég get bjargað nokkrum smáfuglum frá svelti snemma á laugardagsmorgni. Og með það fór ég að sofa, glöð í bragði. Eitt góðverk á dag kemur skapinu í lag Skilnaður Magna og Eyrúnar:::: Nei, kemur ekki á óvart! Ég hef í lengri tíma talað um, hve þolinmóð þessi kona hlýtur að vera..... fyrst að hleypa manninum sínum út á svona egótripp, en svo er því langt frá því lokið þegar hann loksins snýr til baka. Dilana, Dilana, Dilana....... allt virtist ganga út á að halda kontakti við gömlu félagana og halda lífi í glæðunum sem sköpuðust eftir Rock Star. Það hefur kannski gleymst að halda lífi í hjónabandinu. Ég hef allavega oft talað um það, að ég væri fyrir löngu búin að fá allavega snert af afbrýðisemi, ef ég væri Eyrún. Og hvað er þetta með sólgleraugun, Magni? Eru þau gróin við skallann á þér??? Mér finnst þau hálfglötuð, fyrirgefið, on day and night, inni og úti og alltaf á hausnum. Varla svo mikil sól hérna á Íslandi...... Kannski bara þessi nýja rock star ímynd, en maður breytir ekki bara um ímynd á einni nóttu. Jæja, nóg um það, óska þeim hins besta, sérstaklega Eyrúnu. Jæja, best að fara að drífa sig út á djammið - vinkonan bíður og mín á enn eftir að fara í sturtu. Kemur engum á óvart sem þekkir mig, alltaf á síðasta snúningi, þótt ég verði að segja mér það til bóta að það hefur aaaaaðeeeiiiins lagast sl. vikurnar. Ég get nú náð að gera mig tilbúna á einum klukkutíma og jafnvel hálftíma (ef ég sleppi hárinu), miðað við 2 tíma áður. Jæja, later. Lilja |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.1.2007 | 03:57
Engin fyrirsögn
Jæja, þá er maður bara farinn að blogga...... var nú enn og aftur vakandi of lengi og var að leika mér í tölvunni, og datt inn á að prófa þetta. Veit ekki hvort það verður að einhverju í framtíðinni, en allt í lagi að prófa. Við litla fjölskyldan erum að undirbúa ferð Jóhanns til Ameríku á næstu dögum, hann er auðvitað rosa spenntur en ég aðeins farin að kvíða fyrir að sjá ekki gæjann í heilar 2 vikur. Ég er eitthvað að stressa mig yfir að þurfa að gera svo mikið, en svo þegar ég stoppa sjálfa mig aðeins af, þá er þetta ekkert mál. Mér finnst ég bara alltaf vera að undirbúa eitthvað, fyrst afmæli drengsins, jólin, áramótin og svo þetta - en ég er nú alveg þekkt fyrir að mikla fyrir mér litla hluti. Þarf að læra að slaka aðeins á og takmarka í hugsunum. Annars gengu áramótin vel fyrir sig hérna á bænum, foreldrar mínir í mat og drykk, við skutum þó nokkru upp en fannst áramótaskaupið ömurlegt. Ég hef annars heyrt skiptar skoðanir á því, sumir fíluðu það vel og öðrum fannst það glatað. Ég var allavega ekki að fatta húmorinn í því - fannst bara að það væri verið að hafa mig að fífli, að ég skyldi sitja yfir þessu og vera stöðugt að bíða eftir einhverju skemmtilegu. Kvöldið fyrir gamlárskvöld var annars prófraun mín í því að halda stórt heimili. Var að passa fyrir Þórunni systur og Sidda, einn 8 mánaða, annan 3ja ára og þriðja 8 ára ..... plús minn 12 ára gaur. Ég verð nú bara að segja það að ég lít systur mína öðrum augum eftir þessa reynslu. Einn grátandi á gólfinu á meðan annar hellti niður og hinir tveir voru að rífast....... nei, þetta var sko ekki svona allan tímann, en á meðan á því stóð var ég algjörlega upptekin af því að sinna börnunum, og þegar síminn hringdi, þá fannst mér ég vera svo busy að ég gat ekki einu sinni svarað símanum Ég ætlaði að elda kjúklingabringur ofan í liðið en sá fljótt að það yrði mér ofviða - ég gat bara alls ekki tekið mér svo stórt hlutverk í hendur á meðan ég var að sinna svona mörgum börnum, svo heimsend pizza varð maturinn þetta kvöld . Líklega kemst þetta í æfingu, en ég skil ekki hvernig systir mín fer að þessu, og samt gera allt annað........ undirbúa þvílíku kaffiboðin, halda sér fínni og sætri, hugsa um heimilið og það er alltaf fínt hjá henni!!! Mér fannst ég varla komast á klóið! En þetta var yndislegt, Þórunn mín, ég er sko alveg til í að taka þetta verkefni að mér aftur - mér tókst meira að segja að svæfa þann minnsta!! Jæja, í bili ætla ég ekki að segja neitt meira, klukkan er orðin alltof margt og þótt ég sé í fríi á morgun, þá er nú ágætt að fara og halla sér núna. Kannksi og kannski ekki geri ég eitthvað meira í þessu bloggi - nú er ég allavega með síðu og svo sé ég bara til Góða nótt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 03:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.1.2007 | 03:31
Fyrsta bloggfærsla
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)