Góður dagur :-)

Jæja, ég virðist ætla að blogga smá, er allavega að byrja á minni annarri færslu!

Þetta hefur verið góður dagur, hingað til. Drengurinn fór til Ameríku í gær, og er lentur eftir smt. 16 tíma ferðalag. Skrýtið, að þegar hann var minni, þá fannst manni svona tvær vikur alveg guðdómlegar, að fá tveggja vikna frí frá því að vera mamma - en núna..... kann ég kannski ekkert annað? Er ég búin að skilgreina sjálfa mig sem svo mikla mömmu, að ég veit ekki hvað ég á að gera þegar einkabarnið er í burtu? Er þetta eins og öllum hinum líður kannski venjulega, þegar þið eruð barnlaus? Allavega sakna ég hans strax en er samt ákveðin í því, að nota tímann vel..... þótt ég sé ekki enn byrjuð á því. En það kemur, það kemur..... ætla að vera dugleg í ræktinni í næstu viku, inn á milli vaktanna minna, sko. Jafnvel nota kvöldin til að fara í bíó og á kaffihús, eitthvað sem "venjulegt" fólk sem er ekki í vaktavinnu, gerir oft í viku. Með okkur einstæðu foreldra, sem jafnframt vinnur vaktavinnu, gildir það nefninlega, að fríkvöldin frá vinnunni þýða kvöld með fjölskyldunni en ekki kvöld í SAM-bíóunum eða annað. Mann langar ekkert að vera að heiman mörg kvöld í viku, sem óneitanlega gerist þegar vaktavinna blandast inn í eðlilegt social líf - þannig að ergo, vaktavinnuforeldrar fara minna út en annað fólk. Kannski gildir öðru um okkur einstæðu foreldrana, því við eigum mömmu- og pabbahelgar - lúxus sem sambúðarfólk á ekki kost á LoL

Jæja, í nótt var ég að vinna á taugalækningadeildinni í Fossvoginum - fyrsta vaktin þar og ég var eina hjúkkan. Þetta var ekkert tiltökumál, gekk vel fyrir sig, enda held ég að maður sé orðinn ansi sjóaður í hinum ýmsu deildum, starfssviðum og í því að kynnast nýju fólki. Ég er alltaf að verða meira og meira ánægð, með að hafa hætt að vinna á Vogi og snúið mér algjörlega að Liðsinni. Það hentar fólki eins og mér, sem á það til að fá leið á því sem það er að gera, að geta skipt um starfsumhverfi, samstarfsfólk og sjúklingahópa reglulega - ég er allavega mjög ánægð. Mér finnst ekki erfitt að labba inn á nýja deild og kynnast nýju fólki og setja mig inn í nýja hluti - þetta er áskorun og mér finnst gaman að þeim Smile

Ég gerði fyrsta "góðverk" ársins þegar ég kom heim af vaktinni í morgun. Helgistundin mín er, þegar ég kem heim af næturvakt, fæ mér kók og sígó og les Moggann áður en ég fer að sofa. Á meðan ég var að lesa Moggann, varð mér litið út um gluggann og sá þar þúsundir, jæja allavega hátt í hundrað smáfugla í leit að æti - þeir sátu allir á einum og sama auða blettinum á bílastæðinu, þrátt fyrir að þar væri ekkert æti. Mamma mín er nú annáluð smáfuglakona og kannski hefur hún smitað mig eitthvað, en ég fékk svo mikla samúð með þessum greyjum, sem voru nýbúin að venjast hlýjundunum á landinu og svo allt í einu BÚMM snjór á eyjunni. Ég tók mig til og leit inn í ísskáp að leit að æti (er nú orðin ansi sérfróð um æti fugla frá mömmu minni, en skv. henni borða þeir allt, nema hrísgrjón má maður ekki gefa þeim, því þau bólgna of mikið út í maganum á þessum fljúgandi verum) - en ég fann þetta dýrindis hreindýrapaté frá því á gamlárskvöld - svolítið útjaskað og litlar líkur á því að ég hafi lyst á því í framtíðinni, en þeim er alveg sama. Svo hreindýrapaté á plastdisk og svo skar ég niður tvö epli og setti á diskinn, tölti niður í náttbuxunum og strigaskóm og stráði þessu á grasið. Ég stóð spennt við gluggann þegar ég kom upp, þetta var næstum eins og að gefa einhverjum gjöf og sjá hvort viðkomandi líkaði hún........ og viti menn, eins og þeim hefði verið vísað á staðinn af æðri máttarvöldum komu þeir fljúgandi og tylltu sér til að éta matinn - frá mér Smile Tístið í þeim heyrðist upp til mín, stoltu fuglamömmunnar, sem stóð og fylgdist með þeim út um eldhúsgluggann. Þá kom stóri krummi, en það virðist óvenju mikið af krummum í nágrenni heimilis míns - þeir voru svo sem ekki að éta eitt frá litlu fuglunum, frekar eins og þeir væru að stríða þeim - flugu í djúpum dýfum niður að fuglahrúgunni bara til þess að þyrla þeim öllum upp. Skrýtið hvernig þessir krummar "ganga" eða öllu heldur hoppa út á hlið, þeir ganga allir eins og þeir séu haltir, hafið þið tekið eftir því?? Jæja, en þarna leið mér vel, ég get kannski ekki bjargað eða breytt heiminum, en ég get bjargað nokkrum smáfuglum frá svelti snemma á laugardagsmorgni. Og með það fór ég að sofa, glöð í bragði. Eitt góðverk á dag kemur skapinu í lag Smile

Skilnaður Magna og Eyrúnar:::: Nei, kemur ekki á óvart! Ég hef í lengri tíma talað um, hve þolinmóð þessi kona hlýtur að vera..... fyrst að hleypa manninum sínum út á svona egótripp, en svo er því langt frá því lokið þegar hann loksins snýr til baka. Dilana, Dilana, Dilana....... allt virtist ganga út á að halda kontakti við gömlu félagana og halda lífi í glæðunum sem sköpuðust eftir Rock Star. Það hefur kannski gleymst að halda lífi í hjónabandinu. Ég hef allavega oft talað um það, að ég væri fyrir löngu búin að fá allavega snert af afbrýðisemi, ef ég væri Eyrún. Og hvað er þetta með sólgleraugun, Magni? Eru þau gróin við skallann á þér??? Mér finnst þau hálfglötuð, fyrirgefið, on day and night, inni og úti og alltaf á hausnum. Varla svo mikil sól hérna á Íslandi...... Kannski bara þessi nýja rock star ímynd, en maður breytir ekki bara um ímynd á einni nóttu. Jæja, nóg um það, óska þeim hins besta, sérstaklega Eyrúnu.

Jæja, best að fara að drífa sig út á djammið - vinkonan bíður og mín á enn eftir að fara í sturtu. Kemur engum á óvart sem þekkir mig, alltaf á síðasta snúningi, þótt ég verði að segja mér það til bóta að það hefur aaaaaðeeeiiiins lagast sl. vikurnar. Ég get nú náð að gera mig tilbúna á einum klukkutíma og jafnvel hálftíma (ef ég sleppi hárinu), miðað við 2 tíma áður.

Jæja, later.

Lilja


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband