Endilega meiri forræðishyggju....

Já auðvitað eru vinstri menn hrifnir af svona forræðishyggju. Sérstaklega þar sem það hefur sýnt sig í Danmörku að sjúkdómar eru að greinast seint og illa, sem að stórum hluta má kenna tilvísanakerfinu um. Heimilislæknar þar eru undir gífurlegri pressu frá stjórnvöldum, um að tilvísa sem minnst og reyna að ráða við vandann sjálfir áður en þeir vísa til annarra og viðeigandi sérfræðinga. Ögmundur ætti kannski að líta á tölur WHO og sjá hversu aftarlega á merinni Danir sitja í greiningu og meðferð á alvarlegum sjúkdómum eins og krabbameinum og hjartasjúkdómum miðað við önnur vestræn ríki. Íslendingar eru hins vegar mjög hátt á lista þarna og má þakka það afburða góðum læknum okkar og því, að við höfum tiltölulega gott aðgengi að sérfræðilæknum.

Og hvernig hafa menn hugsað sér að láta svona kerfi ganga upp á Íslandi, þar sem 30.000 manns eru án heimilislæknis en hinir sem eiga heimilislækni, þurfa iðulega að bíða í 3-5 vikur eftir tíma hjá sínum lækni???

Við greiðum sanngjarnt gjald hjá sérfræðilæknum í dag og ég held að það sé okkur öllum í hag að geta pantað tíma beint hjá sérfræðingi ef okkur sýnist svo. Í mörgum tilfellum er það bara tvíverknaður, ómæld pappírsvinna fyrir Tryggingastofnun og óhagræðing fyrir notendur heilbrigðiskerfisins að allt þurfi að fara í gegnum heimilislækni.

Leyfið okkur nú að fá að bera ábyrgð á okkar heilsufari sjálf.


mbl.is Hlynntur valfrjálsu tilvísanakerfi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vésteinn Valgarðsson

Það er sóun á tíma sérfræðings að láta hann vera að gera eitthvað sem heimilislæknir er jafnfær um að gera. Þrýstingur á heimilislækna kemur frá stjórnendum sem hafa fyrirmæli um að herða sultarólina. Ef það eru margir án heimilislæknis og biðlistar langir, segir það okkur að það vantar fleiri heimilislækna.

Vésteinn Valgarðsson, 23.3.2009 kl. 17:18

2 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Minn heimilislæknir sagði mér að fara í heitt bað þegar ég fór til hans með þráláta verki í handlegg.

Við neyðarinnlögn var mér sagt að ég þyrfti að fara í hjartaaðgerð sem fyrst.

Sami heimilislæknir gaf mér ítrekað fúkkalyf við lungnabólgu.

Sérfræðingar skáru hinsvegar krabbamein úr sama lunga.

Ekki spyrja mig um mitt val.

Heimir Lárusson Fjeldsted, 23.3.2009 kl. 17:42

3 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Ég er líka á móti svona forræðishyggju.  Ég vil geta pantað tíma beint hjá sérfræðingi eins og verið hefur undanfarin ár. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 23.3.2009 kl. 17:57

4 Smámynd: Lilja G. Bolladóttir

Vésteinn, það er mikið rétt en ef tilvísanakerfi verður tekið upp, þá verður það nákvæmlega í höndum hvers heimilislæknis að kunna sín takmörk og eigum við þá bara að lifa upp á von og óvon um það að okkar læknir kunni sín mörk? Ég veit fjölmörg dæmi um það í Danmörku, að fólk hafi átt margar heimsóknir til heimilislæknis og farið þaðan jafnoft með hin ýmsu ráð eða lyf áður en því var tilvísað áfram og greindist þá e.t.v. með alvarlega sjúkdóma hjá sérfræðingi. Sjá til dæmis athugasemd hér að ofan frá Heimi....

Ég er hins vegar alls ekki að gera lítið úr heimilislæknum og að sjálfsögðu eru það fyrirmæli frá stjórnendum um að vísa sem sjaldnast áfram..... en ekki hverjum? Það er rétt að þegar margir eru án heimilislæknis og langur biðtími er til þeirra, er það merki um að vöntun sé á heimilislæknum, en hverju breytir það? Ætlar þú að laga það á næsta árinu? Það gerir vandamálið einungis ennþá stærr.

Heimir: Ég veit hvað þú átt við...... "reyndu að sofa meira, taktu vítamín og ertu undir miklu álagi....???" Týpisk svör í fyrstu heimsókn til heimilislæknis.

Jóna: Að sjálfsögðu. Minn heimilislæknir sendir lyfseðla fyrir mig í apótekið fyrir astmalyfjum og ég leita til hans með önnur smámál en ég vil geta pantað tíma beint hjá meltingasérfræðingi t.d. ef ég er með mikið bakflæði eða annað meltingartengt. Af hverju á ég að þurfa að eyða tíma í að heimsækja heimilislækninn fyrst, sem gerir svo ef til vill ekki annað en að vísa mér til meltingarlæknis til þess að fá magaspeglun??

Lilja G. Bolladóttir, 23.3.2009 kl. 18:15

5 Smámynd: Lilja G. Bolladóttir

Það er heldur ekki eins og við séum að fara "ókeypis" til sérfræðinganna, við borgum fyrir heimsóknirnar..... í Danmörku borgar þú ekkert þegar þér er vísað áfram af heimilislækni til sérfræðings en borgar einhverja þúsundkalla ef þú ferð til þeirra af eigin frumkvæði.

Svo má ekki gleyma því, að það var tilvísanakerfi hér á landi fyrir mörgum árum og það var lagt af. Af hverju þurfum við alltaf að fara til baka í þróunarsögunni þegar vinstri menn taka við???

Lilja G. Bolladóttir, 23.3.2009 kl. 18:18

6 Smámynd: Vésteinn Valgarðsson

Ef það á að dæma heimilislækna sem slíka út frá sögum um mistök þeirra, þá kann ég líka sögur um mistök sérfræðilækna eða óvönduð vinnubrögð, til dæmis í kring um meðgöngueftirlit og geðræn vandamál. Rétt upp hend sem finnst sanngjarnt að dæma sérfræðilækna út frá þannig sögum. Heimir vill ekki vera spurður um sitt val, en í hans sporum mundi ég athuga að finna nýjan heimilislækni.

Um fyrirmælin frá stjórnendum tók ég fram að slík fyrirmæli kæmu frá stjórnendum sem hafa fyrirmæli um að herða sultarólina, þá frá heilbrigðisráðuneytinu.

Tilvísanakerfið var lagt af hér í gamla daga vegna hagsmuna sérfræðilækna, ekki vegna hagsmuna sjúklinga eða ríkissjóðs. Slíkt flokka ég ekki undir framfarir.

Vésteinn Valgarðsson, 23.3.2009 kl. 19:19

7 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Lilja, þú segir: „Heimir: Ég veit hvað þú átt við...... "reyndu að sofa meira, taktu vítamín og ertu undir miklu álagi....???" Týpisk svör í fyrstu heimsókn til heimilislæknis.“

Þetta var svona í raun ég var bara að lýsa staðreyndum! Ég fór í sex æða hjartaaðgerð og fórnaði ca. hálfu lunga vegna krabbameins.

Heita baðið var nærri því búið að verða mér að aldurtila og fúkkalyfin verkuðu engan veginn á krabbameinið;-).

Heimir Lárusson Fjeldsted, 23.3.2009 kl. 19:33

8 Smámynd: Lilja G. Bolladóttir

Vésteinn: ég er ekki að mæla með eða á móti heimilislæknum eða sérfræðilæknum, ég er einungis að mæla á móti tilvísunarkerfinu sem slíku, mér finnst að við eigum að geta farið til sérfræðilækna í einhverri sérgrein án þess að þurfa að heimsækja heimilislækninn fyrst. Það finnst mér afturför í þjónustu við okkur, kostar okkur auka tíma og fleiri fjarvistir úr vinnu osfrv. Sumt er algjörlega borðleggjandi fyrir heimilislækna að sinna, annað erum við ekki viss um og pöntum e.t.v. tíma hjá heimilislæknum í fyrsta kasti, en sumt er þess eðlis að maður vill bara heimsækja sérfræðinginn í viðkomandi grein strax. Ef ég hef vandamál í pípulögnum mínum (kvenna sem sagt), á ég þá virkilega að þurfa að bíða fyrst margar vikur eftir heimilislækninum mínum einungis til þess að fá tilvísun til kvensjúkdómalæknis og svo bíða enn frekar eftir tíma hjá honum ???? Og svona má færa rök fyrir fleiri vandamálum. Ég er menntuð í heilbrigðisvísindum og tel mig ágætlega getað metið hvort ég telji heimilislækninn fullnægjandi eða hvort ég vilji leita strax til sérfræðings. Aðrir eiga að hafa valið. Það er ekki eins og við séum að fara ókeypis til sérfræðinganna hvort sem er.

Heimir kallinn: ég skil ekki alveg á seinna kommenti þínu hvort þú hafir haldið að ég væri að gera grín að þér í mínu svari eða gera lítið úr því...... en það var ég ekki. Ég var algjörlega sammála þér og var að lýsa viðbrögðum sem ég hef iðulega fengið þegar ég hef leitað á heilsugæslu með eitthvað...... ég hef oftast ekki labbað út með neitt sem ég vissi ekki fyrir. Sem sagt algjör tímasóun af minni hálfu

Lilja G. Bolladóttir, 23.3.2009 kl. 20:07

9 Smámynd: Lilja G. Bolladóttir

Og Vésteinn; það skiptir í raun engu máli af hverju tilvísanakerfið var lagt af, bottom-lineð er að það þjónar okkur betur sem notendum eða sjúklingum, að geta pantað tíma hjá sérfræðilæknum sjálf. Það sýna allar tölur og rannsóknir um mikilvægi þess að greinast snemma með alvarlega sjúkdóma með tilliti til væntanlegrar meðferðar og lifitíma.

Þú manst líklega hvað hjartasjúklingar voru óánægðir fyrir einhverjum misserum síðan, þegar TR og hjartalæknum tókst ekki að semja, og hjartasjúklingar þurftu í kjölfarið að leita fyrst til heimilislæknis, til þess eins að fá tilvísun til hjartalæknis.....? Jafnvel þótt þeir væru með króníska, ólæknandi hjartasjúkdóma!! Er þetta þá framtíðin fyrir alla okkar krónísku sjúklinga, t.d. nýrnasjúklinga, krabbameinssjúklinga, lungnasjúklinga, hjartasjúklinga, sjúklinga með króníska meltingarsjúkdóma, geðsjúka osfrv.? Eiga allir þessir sjúklingahópar alltaf fyrst að eyða tíma og orku í heimsókn til heimilislæknis til þess eins að fá "leyfi" til þess að heimsækja sinn eigin sérfræðing í þeirra króníska sjúkdómi?? Er þá ekki verið að auka stórlega álag á mjög fámenna stétt nú þegar, sem sagt heimilislækna? Er þá ekki verið að gera þá að einhverskonar afgreiðslumiðstöð? Eða hvernig viltu takla þetta? Fyrir marga af þessum krónísku sjúklingum er það stórátak að klæða sig og fara út úr húsi, sumir eru svo veikburða að það eyðileggur vikuna fyrir þeim að fara út einu sinni, af hverju þarf að auka á þeirra vanlíðan og draga úr þeirra orku með svona tvíverknaði?? Þetta er bara algjör vitleysa!!!!

Lilja G. Bolladóttir, 23.3.2009 kl. 20:24

10 Smámynd: Vésteinn Valgarðsson

Lilja, það er einfalt að leysa öll þessi vandamál sem þú telur upp. Fólk með króníska sjúkdóma getur fengið flýtimeðferð eða beinan aðgang; fólk sem á erfitt með fótaferð getur fengið vitjanir; biðtíma hjá læknunum er hægt að snarstytta með því að auka framboðið, og svo framvegis.

Þótt þú sért menntuð sem hjúkrunarfræðingur, þá eru flestir landsmenn það ekki. Þegar manni finnst eitthvað ekki vera eins og það á að vera, þá er eðlilegt að fólk vilji ekki taka neina sénsa. Ef það er engin sía, þá væru háls-, nef- og eyrnalæknar allan daginn að skoða börn með hor, kvensjúkdómalæknar væru með heilbrigðar óléttar konur í reglubundnu meðgöngueftirliti og meltingarfæralæknar að skrifa upp á laxerolíu.

Vésteinn Valgarðsson, 24.3.2009 kl. 00:32

11 Smámynd: Vésteinn Valgarðsson

Og annað: Ég hef ekki kynnt mér ítarlega þetta danska kerfi sem Ögmundur er hlynntur, en hvað þýðir orðið "valfrjálst" í því sambandi? Kannski að fólk geti áfram valið að fara beint til sérfræðilæknanna og borga þeim sjálft? Ef 98% Dana nota þá leið, ætli sé þá ekki óhætt að ætla að það sé eitthvað varið í hana?

Vésteinn Valgarðsson, 24.3.2009 kl. 00:36

12 Smámynd: Lilja G. Bolladóttir

Þú ert bara að tala tóma vitleysu, Vésteinn. Í fyrsta lagi....vitjanir??? hver á að vitja fólksins þegar skortur er á heimilislæknum? Það er bara læknavaktin sem sinnir vitjunum og eins langt og ég veit, þá er alltaf brjálað að gera hjá þeim. Eiga þeir að taka að sér að sinna "vitjunum" til þess eins að koma með tilvísanir til fólks??? Þá pantar nú fólk sér bara SJÚKRABÍL frekar og kemur beint á bráðamóttökur spítalanna, og ekki er á álagið þar bætandi.....

Og þú ætlar "að snarstytta biðtímann með því að auka framboðið"....væntanlega á læknum sem sérhæfa sig í heimilislækningum???? Ætlar þú að búa þessa lækna til í þínum eigin höndum eða hvað hefur þú hugsað þér? Það eru til læknar sem stunda heimilislækningar og þeir anna ekki eftirspurn nú þegar, það er alger skortur á heimilislæknum í landinu og það eru sárafáir í sérnámi í þessarri grein..... hvernig ætlar þú að AUKA FRAMBOÐ þarna? Hefur þú einhver ráð uppi í erminni sem öðrum hefur yfirsést??? Endilega komdu með þínar einföldu lausnir sem þú þykist luma á.

Flest fólk hefur "common sense" og þess vegna eru háls-nef- og eyrnalæknar EKKI alla daga að skoða börn með hor, kvensjúkdómalæknar eru EKKI alla daga að skoða heilbrigðar ófrískar konur og meltingarlæknar ERU að sinna veikara fólki heldur en því sem getur ekki kúkað. Vertu ekki svona barnalegur. Í alvöru.

Nei, þú hefur ekki kynnt þér "þetta danska kerfi", en ég hef gert það. Ég bjó í Danmörku í mörg ár, ég lærði hjúkrunarfræðina í Danmörku, ég var í verknámi á ýmsum stöðum, ég vann í danska heilbrigðiskerfinu sem og ég notaði danska heilbrigðiskerfið nokkrum sinnum vegna míns asthma og húðsjúkdóms, auk þess sem ég á son sem þurfti stundum að fara til læknis...... svo fylgdist ég líka með fréttum og hef gert nokkrar ritgerðir á þessu sviði....... svo ég tel mig vita ansi vel hvað ég er að tala um. Kynntu þér málið!!!

Við Íslendingar erum nú þegar að borga sérfræðingum sama gjald fyrir heimsókn af eigin frumkvæði og Danir borga. Munurinn er að Danir borga EKKERT ef heimilislæknirinn tilvísar þeim. Viltu endilega koma þannig kerfi á? Viltu endilega tefja afgreiðslu, stundum alvarlegra mála á þann hátt sem Ögmundur vill? Vilt þú endilega að við hröpum neðar á listanum vegna þess að það sé svo mikil forræðishyggja í gangi og að okkur sé ekki treystandi til að taka ákvarðanir sjálf varðandi okkar líkama og heilbrigði? Þótt 98% Dana noti þetta kerfi, með þeim árangri sem tölurnar sýna okkur, þá þýðir það ekki að það sé gott fyrir okkur. Þessi 98% Dana hafa einfaldlega ekkert val. Við þurfum heldur ekki að miða okkur við það versta af vestrænu löndunum.

Ég hvet þig bara eindregið til þess að kynna þér mælingar og niðurstöður Alþjóða Heilbriðgastofnunarinnar á heilbrigði, greiningu sjúkdóma og meðferð þeirra, lifitíma sjúklinga eftir greiningu, lífsgæðum þeirra, gæðum á meðferð sjúkdóma og gæðum á meðferð. Þú átt eftir að verða fyrir opinberun.....

Ég myndi allavega ekki vilja lifa við sama kerfi og 98% af Dönum gerir......

Lilja G. Bolladóttir, 24.3.2009 kl. 01:42

13 Smámynd: Sævar Einarsson

Í fyrsta lagi þarf að reka alla yfirstjórn Tryggingarstofnunar fá A - Z þetta er stofnun sem á að vinna með og fyrir fólkið er vinnur gegn því eins lengi og hugsast getur. Alla aðstoð og úrræði þarf maður að finna út sjálfur eftir ábendingar frá vinum og vandamönnum og það eitt og sér styður þann brottrekstur. Hvað varðar skrif Vésteinn Valgarðsson þá get ég sagt það að ég er sjálfur í málarekstri út af læknamisstökum vegna þess að viðkomandi læknir hafði ekki tíma til að skoða sjúklinginn því hann var að ljúka vakt og lá svo mikið á að hann lét sjúklinginn sjúkdómsgreina sig sjálfur, gáfulegt ?

Sævar Einarsson, 24.3.2009 kl. 02:52

14 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Takk fyrir góða pistla.

Ég er mjög hlynntur núverandi kerfi og vil alls ekki fá aftur gamla kerfið. Sem betur fer hef é ekki oft þurft að leita læknis, en í þau fáu skipti sem ég hef þurft á því að halda hefur það verið rétt ákvörðun að fara beint til sérfræðings.

Ég er með heimilislækni. Biðin eftir viðtali er jafnvel fáeinar vikur, en hægt er að fá viðtal hjá "einhverjum" lækni á heilsugæslustöðinni eftir um viku bið. Það er þá auðvitað ekki "heimilislæknir". Það er ástæðan fyrir því að fólk leitar frekar til læknavaktarinnar og fær þjónustu vegna smákvilla samdægurs.

Hér áður fyrr voru heimilislæknar miklu meiri "heimilislæknar". Hugsanlega er það þannig ennþá í litlum samfélögum úti á landi.  Ég vildi gjarnan sjá heimiliskæknana sinna "fyrirbyggjandi" aðgerðum. Tannlæknirinn minn hringir í mig tvisvar á ári og boðar mig í eftirlit og fyrirbyggjandi viðhald. Á þann hátt er tannheilsan í góðu lagi og allt sem fer úrskeiðis lagað jafnóðum. Væri það ekki hlutverk heimilalækna að gera eitthvað svipað, þ.e. að kalla á "sjúklinga sína í árlegt eftirlit?

Stór hluti almennings er vel upplýstur í dag og þekkir helstu einkenni margra sjúkdóma. Með hjálp Internetsins er sú þekking vafalaust miklu meiri en fyrir áratug eða svo. Svo hafa margir auðvitað verið hjá sérfræðingi vegna ákveðins kvilla áður og vita nákvæmlega hvað er að. Þá þarf ekki neinn millilið.

Ágúst H Bjarnason, 24.3.2009 kl. 07:26

15 Smámynd: Óskar Arnórsson

Vésteinn! Frá hvaða plánetu ertu! Á þremur árum myrti þetta andskotans tilvísunarkerfi yngstu systur mína, yngri bróðir minn og móðir mína! Ertu ánægður?

Fari þú og þínir talsmenn handóníts heilbrigðiskerfis á Íslandi til andskotans. Þ:ú ert talsmaður skipulagðs drápskerfis. Vonandi lendir þú í þessu herfi svo þú vitir eitthvað hvað þú talar um.

Ég er MJÖG upplýstur um krabba. Sortuæxlu sem er húðkrabbamein asnin þinn. Ég fór í skoðun til heimilislæknis sem vísaði mér á "sérfræðing" sem sagði að ég þyrfti ekkert að hafa áhyggjur.

Ég tók lán og flaug beint til Stockhólms. Fór bara inn á venjulega bráðamóttöku. Þeir slepptu mér ekki fyrr enn búið var að skera á tveimur stöðum burtu "bletti" í fyrirbyggjandi skyni. Annar bletturinn var í lægi með, enn hinn var byrjun á krabba.

Steinhaltu kjafti Vésteinn um heilbrigðiskerfi því ég veit meira um sumar tegundir af læknisfræði enn læknar sem eru með próf! Ég er EKKI með það.

Ágúst! Hoppaðu upp í rassgatið á þér með "vísindin" þín! Það er ekki eyðandi orðum á hvað þú ert illa upplýstur. Prófaðu Litlu Gulu Hænuna. Hún er fyrir börn eins og þig! Fólk þekkir ekki munin á lækni og og alvörulækni....á Íslandi alla vega. Þeir sem kunna eitthvað fara til útlanda að vinna. Þeir fá engin laun í samræmi við kunnáttu sína.

Ég var með 15.000 á tíman á Íslandi fyrir tveimur árum. Sama tímakaup og ég var með 1988 í Svíþjóð.

Heilbrigðiskerfið er hrunið fyrir löngu og engin tekur einu sinni eftir því...svei!

Amen. 

Óskar Arnórsson, 24.3.2009 kl. 08:01

16 Smámynd: Óskar Arnórsson

Sævarinn! Mikið er gaman að sjá einhvern skrifa eitthvað af viti hérna á þessari síðu.

Lilja! Sry, gleymdi að þakka þér fyrir frábæran og ÞARFAN pistil sem þyrfti að skrifa um á hverjum degi. Jóna er skynsöm. Alla vega skynsamari enn ég. Mig langar að skera upp þetta s.k. "heilbrigðiskerfi" á Íslandi, án deyfingar. Bara ólar og belti!

Er ég reiður? Já, ég er það og með fullgilda ástæðu. Móðir mín var myrt t.d af þessu kerfi. Afgreitt sem "læknamistök"...hvað svo sem það þýðir..$%&$/&%)=)(&% og svo framvegis...lamdi læknir á Borgarspítala "alveg óvart" og hann kærði ekki...

Óskar Arnórsson, 24.3.2009 kl. 08:13

17 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Sammála Vésteini.  Alla leið.

Jenný Anna Baldursdóttir, 24.3.2009 kl. 09:35

18 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Óskar. Mikið er ég undrandi á ummælum þínum í minn garð. Hvað í ósköpunum skrifaði ég sem angrar þig svo mjög? Skil ekki. Lestu aftur það sem ég skrifaði og rökstyddu mál þitt. Annars tek ég ekki þátt í umræðum á þessum nótum. Það er fyrir neðan mína virðingu.  Hvað finnst þér Lilja?

Ágúst H Bjarnason, 24.3.2009 kl. 10:36

19 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Hef ekki kynnt mér kosti þess og galla að fara aftur út í tilvísunarkerfi.  Held ég myndi vilja hafa þetta blandað.

Það er ótrúlegur fjöldi fólks, sem hreinlega hefur ekki efni á því að "heimsækja" sérfræðing - því það munar um nokkra þúsundkalla, ef þeir eru ekki til.  Upphæðin, sem TR setur sem viðmið áður en "endurgreiðsla" kemur til álita er hreinlega sumu fólki ofviða.

Það er dýrt að vera fátækur, sérstaklega ef veikindi hrjá viðkomandi.  Tilvísanakerfi myndi henta þessum hópi vel þó aðrir telji sér ekkert að vanbúnaði að borga sjálfir fyrir sérfræðiþjónustuna.

Sigrún Jónsdóttir, 24.3.2009 kl. 11:04

20 Smámynd: Haraldur Haraldsson

maður hefur af þessu mikla reynslu geng til Nýrnalæknis og Hjartalæknis,það væri að ala óstöðugan að ver alltaf að fá ávísun til þeirra hjá mínum ágæta heimilislækni Ólafi Stefánssyni,þessi foræðishyggja V.G, er bara svona og við veðum öll að standa saman á móti henni,svo þetta með sparnaðin það er ekkert sem segir okkur það!!!///Halli gamli

Haraldur Haraldsson, 24.3.2009 kl. 12:55

21 Smámynd: Vésteinn Valgarðsson

Framboðið væri auðvitað aukið með því að fjölga heimilislæknum. Ég átta mig á að Róm er ekki byggð á einum degi. Var ég að segja að kerfið ætti að vera ósveigjanlegt og undirmannað? Var ég að segja að það ætti að vera illa skipulagt og illa fjármagnað? Var ég að segja að læknar ættu alltaf að vera í tímaþröng? Þið þurfið ekki að vera að gera mér upp málflutning. Flest fólk hefur kommon sens, en það er nógu margt fólk sem hefur það ekki -- og svo er nógu margt fólk sem tekur ekki sénsinn þegar það veit ekki hvað er að gerast og veit ekki hver áhættan er. Það er ekki barnaskapur heldur sannleikur, að fjölda smámála er sinnt af sérfræðilæknum sem ættu frekar að vera að fást við eitthvað sem krefst sérfræðiþekkingar þeirra. Ef þú vinnur í heilbrigðiskerfinu áttu að vita það.

Vésteinn Valgarðsson, 24.3.2009 kl. 16:29

22 Smámynd: Lilja G. Bolladóttir

Sævari: Ég er sammála þér að TR er oft mjög þung í vöfum. Spítalinn hefur félagsráðgjafa sem leiðbeina sjúklingum um sjúkratryggingakerfið og réttindi þeirra.

Ágúst: Takk fyrir vel skrifað komment og mér finnst þetta gott innlegg hjá þér, þ.e. að heimilislæknar sinni fyrirbyggjandi aðgerðum líka.

Óskar: Ég skil alls ekki þessa reiði þína út í allt og alla. Ég get ekki séð að þú sért að svara neinum ákveðnum, og í raun ertu ekkert að svara í takt við mína færslu eða annarra komment.... eiginlega ertu bara að ausa úr skálum reiði þinnar á minni síðu. Ég kæri mig alls ekki um þessi ljótu orð þín og dónaskap í garð annarra sem skrifa hjá mér og mér finnst að þú ættir frekar að sleppa því að kommentera heldur en að hrauna svona yfir náunga þína.

Jenný: Takk fyrir innlit. Mismunandi skoðanir vel þegnar.

Sigrún: Já, það getur vel verið að einhverskonar blandað kerfi gæti gengið. Mér finnst þetta einfaldlega vera það stórt mál, að það krefjist umræðu í samfélaginu áður en breytingum verður dempt yfir okkur, kannski með slæmum afleiðingum.

Vésteinn: Ég skil þitt sjónarmið og virði þína skoðun, ef ég hef lagt þér röng orð í munn biðst ég afsökunar á því. Það var ekki ætlunin. En enn og aftur; hvernig ætlar þú að fjölga heimilislæknum??? Maður skikkar ekki ákveðinn hóp af unglæknum til að velja heimilislækningar sem sérgrein, unglæknar velja sjálfir sitt áhugasvið. Þetta er ekki eins einfalt og að auka framboð af einhverri vöru í matarverslun. Íslendingum og nýbúum fjölgar einfaldlega hraðar en fjöldi heimilislækna á landinu, ja allavega höfuðborgarsvæðinu, ráða við. Og já, ég vinn í heilbrigðiskerfinu en ég kannast ekki við það að fjöldi sérfræðinga sé að stunda almennar heimilislækningar á stofum sínum. Það gerist hins vegar á slysadeildinni en það er einungis vegna þess að þangað leitar fjöldinn allur af fólki með smákvilla og veikindi sem ekki eiga heima inni á spítalanum, einfaldlega vegna þess að það Á ENGAN HEIMILISLÆKNI TIL AÐ SNÚA SÉR TIL eða þá að biðin til þeirra er alltof löng. Og þar sem við megum ekki vísa neinum frá sem til slysadeildar leitar, meðhöndla sérfræðingarnir þar oft fólk sem ætti að hafa snúið sér til heilsugæslunnar með sín vandamál. Þannig er það nú.

Lilja G. Bolladóttir, 24.3.2009 kl. 18:12

23 Smámynd: Vésteinn Valgarðsson

Ég hef ekki statistík á reiðum höndum um hvernig vinnutími sérfræðinga skiptist, veit bara um tilfelli þess að þeir séu að sinna almennum lækningum. Ég er ekki að tala um að skikka unglækna til þess að velja sér heimilislækningar, heldur er hægt að auka framboðið á þeim með því að t.d. gera starfið meira aðlaðandi eða -- haldið ykkur nú fast -- afnema numerus clausus í læknadeild.

Vésteinn Valgarðsson, 24.3.2009 kl. 19:06

24 Smámynd: Vilborg Traustadóttir

Þetta er komið í annan hring. Ég fer bara þangað sem mér sýnist og ef það er heimilislæknis að segja mér að fara til taugasjúkdómalæknisins míns sem hefur sinnt mér í yfir 30 ár þá "detti mér allar dauðar lýs úr höfði"!!!!

Plííís, hættið við svona forræðishyggju, hún er gamaldags, hins vegar fer ég til heimilislæknisins ef ég er með bólu á rassinum eða sannanlega eitthvað sem snýr ekki að MS sjúkdóminum sem ég er með.

Vilborg Traustadóttir, 24.3.2009 kl. 21:19

25 Smámynd: Sigrún Óskars

Lilja, ég er sammála þér - vil ekki þetta tilvísunarkerfi, sem er bara forræðishyggja. En það þarf fjölgun í heimilislæknastéttinni, það gengur ekki að fjöldi manns sé án heimilislæknis. 

Ég er líka sammála því að TR er stofnun sem þarf að taka til í - þessi stofnun vinnur gegn þeim sem hún á að vinna fyrir.

Sigrún Óskars, 24.3.2009 kl. 21:28

26 Smámynd: Lilja G. Bolladóttir

Vésteinn: Claususinn var lagður af í læknadeild fyrir ca. 7-8 árum síðan. Núna eru háð inngöngupróf inn í deildina. En sannarlega má reyna að gera heimilislækningar meira aðlaðandi. Málið er bara, að þær eru alls ekkert óaðlaðandi fyrir. Hverju viltu bæta við sérgreinina til að laða fleiri unglækna í sérnám til heimilislækninga?

Vilborg: Þetta er einmitt pointið mitt. Krónískir sjúklingar eiga ekki að þurfa að fá "leyfi" frá heimilislækni sínum til að heimsækja sinn sérfræðing.

Sigrún: Sammála í öllum liðum.

Lilja G. Bolladóttir, 24.3.2009 kl. 22:48

27 Smámynd: Vésteinn Valgarðsson

Er einhver að segja að krónískir sjúklingar eigi að þurfa tilvísun fyrir hverri einustu heimsókn til sérfræðingsins sem þeir hafa farið til árum saman? Ég bara spyr, ég hef ekki heyrt það nefnilega.

Þetta er rétt hjá þér með claususinn, Lilja -- ekki man ég hvaða ár hann var aflagður, samt, en það er annar handleggur.

Vésteinn Valgarðsson, 24.3.2009 kl. 23:02

28 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

ég hef blessunarlega veriðð laus við lækna, að mestu.

en...

þegar ég fæ tannpínu, fer ég til tannlæknis.

þegar ég fæ annars konar pínu fer ég til lyflæknis

nema þegar ég fæ standpínu. þá hringi ég í vinkonu mína.

ég hef hingað til ávallt fengið bót meina minna.

Brjánn Guðjónsson, 25.3.2009 kl. 02:18

29 identicon

Sæl Lilja.

Ég ætla að hafa þetta einfallt.

Ég vil beint samband.................enga milliliði.

það er frelsi !

Kær kveðja.

Þórarinn Þ Gíslason (IP-tala skráð) 25.3.2009 kl. 05:09

30 Smámynd: Óskar Arnórsson

Ágúst! Lestu aftur yfir það sem þú skrifar! Hvernig er hægt að mæta "málefni" þegar þú sjálfur ert ekki málefnalegur? Ps. Reyndu að tala við þennan Vésteinn! Hann er rosalega "málefnalegur"...hann er brandarinn á þessu bloggi...og svo kemur þú númer 2!

Þú hefur vit, kjaftavalal en enga visku. Það er stór munur þar á.

Lilja G.! Ég er ekki að hrauna yfir neinn. Og er ekkert reiður. Svara bara bjánum sem skíta yfir fólk. Lærði þessa mállýsku á togurum.

Lokaðu bara á mig ef þér finnst ég vera dónalegur...no hard feelings... 

Óskar Arnórsson, 25.3.2009 kl. 08:16

31 identicon

Fyrir það fyrsta þá á heilbrigðiskerfið bara að vera á opnum frjálsum samkeppnismarkaði og það er vel hægt að bjóða upp á jafna þjónustu fyrir alla þótt það sé ekki í gegnum þetta ríkisbattarí.

Ég vil fá að velja minn lækni. Basta.

Er löngu vaxinn upp úr því að treysta læknum fram yfir annað fólk ef ég mögulega kemst hjá því. Ég tek ábyrgð á eigin lífi og tek sjálfstæðar ákvarðannir er varða mína heilsu. Þá vil ég ekki að kommarnir í VG taki ákvarðannir um það hvaða incompitent félagsmálacase-læknir fær heiðurinn af því að framkvæma á mér æfingar sínar og heimalærdóm. 

Rekstur heilbrigðiskerfisins á vegum hins opinbera er engan vegin ávísun á gæði og jafnrétti í aðgengi þegna að þjónustunni, alls ekki. Einungis ávísun á of mikla yfirbyggingu, skort á yfirsýn rekstrarlega, slæmum launum starfsmanna þessara stofnanna og á endanum verri þjónustu.

Einkavæðum allt þetta drasl og bjóðum út rekstur ráðuneytisins, - út með þessa stjórnmálamenn og fúskara  -:).

sandkassi (IP-tala skráð) 25.3.2009 kl. 10:07

32 Smámynd: Lilja G. Bolladóttir

Vésteinn: Einmitt vegna þess að það hafa ekki verið lagðar neinar línur um þetta kerfi enn, er ég að ræða þetta hér frá ýmsum hliðum. Þetta er víst enn bara hugmynd Ögmunds en hvort og hvenær hún verður útfærð veit ég ekki. Ég er bara að gefa mér ýmsa hluti sem mögulega gætu orðið, það getur vel verið að ef til þessa kæmi, þá yrðu einhverskonar "græn kort" hönnuð fyrir króníska sjúklinga..... það getur líka vel verið að þetta yrði að einhverju leyti blandað kerfi þannig að maður samt gæti komist milliliðalaust til sérfræðilæknis. Ætlun mín var ekki að rífast við neinn heldur einmitt að skapa umræðu um málið, því mér finnst þetta stórmál sem ekki má taka neinar vanhugsaðar ákvarðanir um. Ég þakka þér kærlega fyrir þitt innlegg í umræðuna, það hefur bara gert hana fjörlegri og aukið möguleikann á að ræða málið frá ýmsum hliðum  

Brjánn: Þú ert nú alltaf jafn yndislegur

Þórarinn: Einfalt skal það vera. Kær kveðja til þín líka 

Óskar: Ég er ekkert að fara að loka á þig, ég bið þig bara að gæta orða þinna hérna á minni síðu, þú mátt tala eins og þú vilt á þinni eigin, en ég ætlast til að fólki sé sýnd almenn kurteisi. Ég sé ekki að hvorki Vésteinn né Ágúst hafi verið að "skíta" yfir neinn og síst þig og skil alls ekki þessa heift sem kemur frá þér. Þegar ég les yfir kommentin ykkar aftur er enginn vafi á hvor ykkar, þú eða Ágúst er málefnalegri..... þið eruð alveg á sitthvoru planinu hvað það varðar. Ég verð nú bara að segja það.

Gunnar: Ég er líka á því að einkarekstur í heilbrigðiskerfinu eigi rétt á sér, enda er hann stundaður á mörgum stöðum eins og t.d. í Orkuhúsinu, Heilsuverndarstöðinni og mörgum fleiri stöðum. Svo lengi sem sjúklingar blæða ekki fyrir það með verri ríkisþjónustu þá finnst mér einkarekstur bara af hinu góða, hann léttir í mörgum tilfellum álagi af ríkisrekna batteríinu og veitir því samkeppni. Í raun getur það ekki skipt Ríkið máli hver innir verkin af hendi á meðan sjúklingum er ekki mismunað í kerfunum. Ríkið niðurgreiðir þjónustuna fyrir sjúklinginn í báðum tilfellum, eini munurinn er að það sparar sér rekstrar- og starfsmannakostnaðinn.

Lilja G. Bolladóttir, 25.3.2009 kl. 10:55

33 Smámynd: Vésteinn Valgarðsson

Það er ekkert sjálfsagðara en að ræða þessi mál fram og til baka, allar hliðar á þeim, áður en ráðist er í stórfelldar breytingar. Mér finnst bara ástæðulaust að vera að mála skrattann á vegginn. Ef grunnhugmyndin með kerfinu er slæm, þá þarf ekki að draga fram hryllingsmyndir af því hvað getur gerst ef það er illa rekið. Ég þykist ekki vera neinn sérfræðingur í þessu, veit bara að það er fullt af fólki sem leitar til sérfræðinga með mál sem er eðlilegra að heimilislæknar leysi, og að fyrir vikið er kostnaður ríkisins meiri en hann þyrfti að vera og biðlistarnir hjá sérfærðingunum lengri. Ég er almennt séð á móti einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu. Hún leiðir af sér dýrari og verri þjónustu.

Vésteinn Valgarðsson, 25.3.2009 kl. 16:55

34 Smámynd: Hrund Traustadóttir

Úff hvað ég vona heitt og innilega að við verðum ekki þessari forræðishyggju að bráð  Er sammála þér Lilja mín í öllum liðum. Þetta má bara ekki gerast

Hrund Traustadóttir, 25.3.2009 kl. 17:57

35 Smámynd: Óskar Arnórsson

Yngsta systir mín dó vegna læknamistaka, yngri bróðir minn líka, og að lokum móðir mín.

Þekki heilbrigðiskerfið á Íslandi út og inn. Það liggja bréf frá mér til Heilbrygisráðuneitis, Landlæknis og Saksóknara.

Engin svör hafa borist. Læknapróf eru til sölu í Háskóla Íslands fyrir þá sem eiga peninga og nenna ekki að læra. Þeir sem læra eitthvað og eru heiðarleigir læknar koma sér burtu af Íslandi sem allra fyrst. Að sjálfsögðu!

Kanniði bara málin sjálf.

Óskar Arnórsson, 25.3.2009 kl. 19:25

36 Smámynd: Lilja G. Bolladóttir

Vésteinn: þetta eru ekki einu sinni HRYLLINGSMYNDIRNAR, þetta eru bara viðbrögð mín við GRUNNhugmyndunum. Ef einhverjir sérfræðingar eru að sinna sjúklingum sem almennt gætu verið hjá heimilislæknum, þá er það einungis vegna þess að aðrir sérfræðingar anna eftirspurn og því að mun styttri biðtími er til annarra sérfræðinga en heimilislækna. Við borgum sjálf fyrir heimsókn okkar til sérfræðinga að stærstum hluta, það kostar okkur um fjórðung af því verði að fara til heimilislæknis, svo það skiptir Ríkið engu máli hvað við veljum. Ríkið niðurgreiðir einnig heimsóknir til heimilislækna, skal ég segja þér. Ég sé þó vel að þú ert vinstriþenkjandi og vilt gjarnan snúa aftur til fortíðar með tilheyrandi höftum, boðum og bönnum og er það vel.... ég vil hins vegar horfa fram á veginn og bæta þjónustuna við sjúklinga en ekki draga úr henni.

Hrund mín: Eigum við að ræða þetta eitthvað???

Óskar: Veistu, að nú nenni ég einfaldlega ekki að eyða fleiri orðum á þig en ætla samt að spandera nokkrum. Þú ert að hengja þig í einhver læknamistök sem eru málefninu gjörsamlega óviðkomandi, því við hin erum að tala um kosti og galla tilvísanakerfis. Þú ert að tala um lækna sem morðingja, að læknaleyfi séu til sölu hér á landi..... gerir þú þér grein fyrir því hversu alvarlegar ásakanir þú ert að koma með fram hérna. Ég hugsa meira að segja, að hægt sé að kæra þig fyrir þessi orð þín.  Þú ert svo ómálefnalegur og algjörlega úr takti við allt og alla hérna á síðunni..... t.d. hvaðan í andsk..... kemur allt í einu einhver athugasemd þín um að þú "þekkir KRABBA, og að sortuæxli er húðkrabbamein, asninn þinn", eins og þú segir við Ásgeir. Var hann eitthvað að ræða krabbamein??? Var einhver búinn að minnast orði á krabbamein? Er Ásgeir asni af því að þér líkar ekki það sem hann skrifar í mestu kurteisi sinni. Eini asninn sem ég hef séð hérna í þessum kommentum ert þú, Óskar. Þú ert svo dónalegur og ruddalegur að ég á engin orð yfir það og ég óska þess að þú skrifir ekki meira á mína síðu. Þú gerir ekkert annað en að sá illgresi í kringum þig. Og ég hef séð það á fleiri stöðum en hérna hjá mér. Og af því að þú hefur skrifað einhver bréf hingað og þangað, sem ég vel get ímyndað mér orðalag og stílbragð í, þá ert þú sjálfkjörinn sérfræðingur um heilbrigðismál á Íslandi. Góði, farðu eitthvert annað með þína kergju. Ég vil ekki sjá þetta orðbragð hérna á minni síðu. ....Og veistu hvað, ég íhugaði það eftir fyrsta kommentið þitt við þessarri færslu að loka á þig, en mér fannst athugasemdin svo stórkostlega, frámunalega, geðveikislega út í hött skrifuð, að ég hélt henni inni, bara svo að sem flestir gætu séð það. Vertu blessaður. Punktur. Ég hef hér með lokað á þig.

Lilja G. Bolladóttir, 25.3.2009 kl. 21:26

37 Smámynd: Lilja G. Bolladóttir

P.S. Ég bið þig, ÁGÚST, innilega afsökunar á að hafa í hita leiksins kallað þig Ásgeir..... ég fattaði það um leið og ég ýtti á "enter" en náði ekki að breyta því. Ég vona að það komi ekki að sök, og innihaldið til Óskars hafi skilað sér samt sem áður...... nema hann nú fari að hengja sig í þessu mismæli.....

Lilja G. Bolladóttir, 25.3.2009 kl. 21:35

38 identicon

Vésteinn virðist vera á þeirri skoðun að heilbrigðiskerfið sé vel rekið. Það eru nú ekki margir á hans bandi.

Þá segist hann vera"á móti einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu. Hún leiðir af sér dýrari og verri þjónustu." Í hvaða rekstrarkenningar vísar hann með þessu? Athyglisvert væri að fá nánari skýringar.

-----------------

Eitt af vandamálum kerfisins Lilja er hroðaleg yfirbygging. Allt of margir hjúkrunarfræðingar t.d. í yfirmannastöðum. Þetta gerist bara hjá ríkinu.  

sandkassi (IP-tala skráð) 25.3.2009 kl. 21:59

39 Smámynd: Lilja G. Bolladóttir

Sæll Gunnar: Ég hygg að heilbrigðiskerfið hafi aldrei verið vel rekið. Ég trúi því líka að mjög erfitt sé að reka þetta kerfi þar sem þú veist aldrei hvað kemur upp á á degi hverjum, hvað þá að gera áætlanir fyrir árið. Tökum sem dæmi: fyrir 5-7 árum dó fólk sem fékk mjög háa mænuskaða, þ.e. hálsbrot á efstu hálsliðum sem stungust inn í mænu og þar með lömuðu fólk fyrir neðan háls og lömuðu öndunarfærin meðtalin. Fyrir þremur árum slösuðust þrír einstaklingar á þennan hátt en var öllum bjargað. Einn sólarhringur á legudeild kostar rúmlega 100.000 kr., en einn sólarhringur á gjörgæsludeild kostar ennþá meira. Þessir einstaklingar lágu allir lengi á gjörgæsludeild..... svo á legudeildum og svo lengi á endurhæfingardeild. Þeir þurftu tvær manneskjur með sér í umönnun og hjúkrun á öllum stöðunum allan sólarhringinn. Fleiri þegar þú telur með sjúkra-, iðju- og talþjálfara. Fleiri ef þú telur með þá sem keyrðu fólkið á milli staða, hvort sem var til rannsókna eða heimsókna.  Dýr tæki, dýrar hjúkrunarvörur sem þýðir háan rekstarkostnað, dýran starfskraft því að á þessum árum þurfti að kaupa auka liðsafla frá einkafyrirtæki til að manna deildir miðað við aukið álag. Vissulega fékk Landspítalinn úthlutað peningum í fjárlögum árið áður. En hvernig getur þú úthlutað stofnun pening fyrirfram, sem veit aldrei hvað kemur inn á borðið til þeirra dag hvern?? Spítalinn fékk úthlutað ákveðinni fjárhæð, óvænt slys gerast, dýr slys gerast, farsóttir skjóta upp kollinum osfrv. ...... á þá spítalinn t.d. að loka, þegar þaki fjárlaganna hefur verið náð? Kannski að segja þegar kom að þriðja háa mænuskaðanum á einu ári; "sorry, peningarnir eru búnir, við gátum hjálpað hinum en við eigum ekki pening til að hjálpa þér?" Það er ekki hægt að reka spítala eins og hvert annað fyrirtæki, sem getur dregið úr umsvifum þegar kreppir að. Það dregur ALDREI úr umsvifum á hátæknisjúkrahúsi. Þvert á móti aukast þau ár frá ári samhliða nýrri tækni, aunknum læknavísindum, auknum kröfum almennings um betri og skilvirkari þjónustu osfrv. Hvernig á svona stofnun að mæta þessum auknu kröfum þegar sífellt eru gerðar kröfur til hennar um að skera niður, á meðan líka eru gerðar kröfur til hennar um að anna meiru og fleirum, jafnvel með færra starfsfólki en áður???

Við erum þó náttúrlega gjörsamlega sammála um yfirbyggingu ríkisstofnana almennt. Fjöldi yfirmannatitla segir ekkert til um fjölda yfirmanna, titlarnir eru einungis skraut svo hægt sé að hækka laun starfsfólksins..... sem það oftast líka á vel skilið, enda færri háskólamenntaðir meira launapíndir en einmitt starfsfólk RÍKISSPÍTALANNA. Og það veistu, að er staðreynd. 

Lilja G. Bolladóttir, 26.3.2009 kl. 00:20

40 identicon

Þetta er allt saman rétt Lilja og verður heilbrigðisþjónustan alltaf dýr og verður bara að fá að vera það.

Hitt er annað mál að ég held að fólk almennt gangi út frá því sem vísu að hjúkrunarfræðingar, læknar ect. vilji endilega starfa hjá ríkinu. Það hugsa ég að sé langur vegur.

Af hverju er þetta fólk dæmt til þess að vera ríkisstarfsmenn? Þetta viðhorf er sterkt í menntunarmálum og þótt stigsmunur sé þó á því þá er þó mjög sterkt í fólki að engin samkeppni eigi að vera á þeim markaði, en þetta eru einmitt það "markaðir".

Með fullri virðingu fyrir þeirri þjónustu sem almenningur fer fram á og á vissulega rétt á, þá eru takmörk fyrir því hve langt pólitískar hreyfingar sem dæmi eiga að halda úti stefnuskrá í þessum málum.

Það eru öfl hér sem berjast gegn einkaframtakinu leynt og ljóst. Eins og þú bentir á áðan þá er ekkert athugavert við að bjóða út rekstur. Starfsfólki myndu á endanum bjóðast betri laun. Það þíðir síðan betri þjónusta,,

sandkassi (IP-tala skráð) 26.3.2009 kl. 00:46

41 Smámynd: Vésteinn Valgarðsson

Gunnar: Tel ég að heilbrigðiskerfið hérna sé vel rekið, já? Það eru nýjar fréttir fyrir mig. Ég efast um að þú getir fundið stafkrók um það, ef þú gúglar, að ég sé ánægður með heilbrigðiskerfið. Það er hins vegar hægt að gera það mun verra en það er, og því hafa vinir þínir í hægriríkisstjórnum undanfarinna 18 ára sinnt af eljusemi.

Ég hvet þig til að lesa t.d. erindi dr. Allyson Pollock um einkarekstur í heilbrigðiskerfinu, sem hún hélt á vegum BSRB fyrir tæpu ári. Það er að segja, ef þig langar til að vita eitthvað um ókosti einkavæðingar í heilbrigðiskerfinu.

Lilja: Ef viðbrögð þín við GRUNNhugmyndinni um tilvísanakerfi eru að þá margfaldist biðlistar og fólk endi hjá einhverjum amatörum í stað lækna, þá eru bara að mála skrattann á vegginn. Ég spyr mig meira að segja af hvaða hvötum þú bregðist þannig við.

Óskar: Ef þú ert með sannanir fyrir ásökunum þínum ættirðu að snúa þér til lögreglunnar frekar en að vera að dylgja um þetta á blogginu.

Vésteinn Valgarðsson, 26.3.2009 kl. 14:15

42 Smámynd: Lilja G. Bolladóttir

Gunnar: Áfram erum við sammála um málin. Mér finnst undarlegt að fólk bregðist jafn harkalega við einkarekstri í heilbrigðiskerfinu og dæmin sýna, á meðan einkarekstur í menntakerfinu hefur verið við lýði í fjölda ára, t.d. Ísaksskóli, Verzlunarskóli Íslands, Háskóli Reykjavíkur. Enginn þessarra skóla eru "ómissandi" en vissulega alternativ fyrir nemendur og það er mín skoðun að við eigum að fá að hafa valið. Líka í heilbrigðiskerfinu. Fyrir nokkrum árum hélt Þór Sigfússon, forstjóri tryggingafélagsins Sjóvá ræðu, þar sem hann kom inn á það, að Sjóvá væri tilbúið til að koma að uppbyggingu og rekstri endurhæfingarstöðvar, þar sem fólk væri endurhæft eftir slys. Eina ríkisrekna endurhæfingardeildin er Grensásdeild, sem rekur tvær legudeildir; aðra fyrir fólk eftir heilablóðföll/blæðingar og hina fyrir fólk með mænuskaða, fólk sem hefur lent í alvarlegum slysum eða hefur misst útlim. Nú sér Grensásdeild fram á lokun á annarri af þessum deildum og þar með fækkar leguplássum úr 40 niður í 26 með mjög fyrirsjáanlegum afleiðingum, sem við skulum ekki fara nánar út í hér. Sjóvá taldi sér vera hag í, að koma að rekstri endurhæfingardeildar, þar sem það væri líka þeirra hagur (sem og okkar allra sem þjóðfélags), að fólk endurhæfðist sem fyrst og kæmist fyrr og aftur út á vinnumarkaðinn. Þetta myndi ekki kosta ríkið meira per sjúkling, en myndi aftur á móti létta álaginu töluvert af ríkisreknu endurhæfingadeildinni, stytta biðtíma eftir endurhæfingu og þar með stytta innlagnir á legudeildum Landspítalans þar sem sjúklingar bíða þar oft lengi eftir endurhæfingarplássi.... oft löngu eftir að þeirra eiginlegu sjúkrahúsmeðferð lýkur, og nota bene í miklu dýrari legurýmum heldur en á endurhæfingardeildum. Þessi hugmynd er því miður ekki enn komin til framkvæmda en ég nefni hana hér til þess að koma með dæmi um einkarekstur í samvinnu við ríkisreksturinn.

Vésteinn: HVAR og HVENÆR sagði ég að fólk myndi enda hjá AMATÖRUM Í STAÐ LÆKNA????? Ég sagði, að það væri oft margra vikna bið eftir tíma hjá heimilislæknum og ef við þann biðtíma ætti að bætast við fjöldinn allur af fólki sem aðeins vildi heimsækja heimilislækninn til þess að fá tilvísun eitthvert áfram..... já þá er það óhjákvæmilegt að biðlistarnir margfaldist. Það er augljóst. Einnig sagði ég að í tilvísunarkerfi myndaðist pressa á heimilislækna um að reyna að ráða við vandann áður en þeir vísuðu sjúklingum áfram, sem gætu aukið hættuna á að sjúkdómar væru að greinast seinna og verr, og oft á tíðum þá draga úr meðferðarmöguleikum á sjúkdómunum. Það sýnir tölfræði WHO, að sé einmitt tilfellið með tilvísunarkerfið í Danmörku, sem þú nefnir réttilega að 98% Dana búi við. Ertu búinn að kíkja á tölfræði Alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar???? Það er engin tilviljun að Danir séu jafn neðarlega á lista og staðreyndin er. Ef þér finnst hægriríkisstjórnin hafa dregið úr gæðum heilbrigðiskerfisins undanfarin 18 ár, þá ætla ég bara að minna þig á að hægrimenn hafa ekki stýrt heilbrigðisráðuneytinu nema síðustu tæp tvö árin. Manstu nokkuð hver sat í stól heilbrigðisráðherra öll hin árin?????

Ég er þó sammála þér, Vésteinn, varðandi kommentið þitt til Óskars.

Lilja G. Bolladóttir, 26.3.2009 kl. 15:57

43 Smámynd: Lilja G. Bolladóttir

Vésteinn: Ég skal útskýra nánar fyrir þér, af hverju pressa myndast á heimilislækna í tilvísunarkerfi að fyrirmynd danska kerfisins, sem er einmitt kerfið sem Ögmundur vill taka upp. Í Danmörku greiða sjúklingar eitthvað í kringum 3.-5.000 ISK fyrir heimsókn til sérfræðings ef þeir panta sér tíma upp á eigin spýtur. Ef þeir koma til sérfræðings með tilvísun upp á vasann frá heimilislækni, þá greiða þeir ekkert, og augljóslega fellur sá kostnaður þá óskiptur á ríkið. Þess vegna er danska ríkinu mikið í mun, að sem fæstum sé vísað áfram og myndar þannig pressu á heimilislæknana um að reyna að greina og meðhöndla sjúkdóma sjálfir. Sem þeir líka oft eru í standi til, t.d. ef um er að ræða háan blóðþrýsting, asthma, væga húðsjúkdóma, vægan kvíða og margt annað. Þeir eru hins vegar ekki færir um að greina flókna, alvarlega sjúkdóma og að minnsta kosti ekki að meðhöndla þá. Til þess eru sérfræðingar í ákveðnum greinum. Danska tilvísunarkerfið dregur úr aðkomu sérfræðinga að sjÉgúkdómum og seinkar aðkomu þeirra, oft með slæmum afleiðingum því sjúkdómar eru oft komnir á erfiðara stig og illviðráðanlegra þegar sjúklingarnir loksins koma inn á stofu til sérfræðingsins. Í sumum tilfellum koma þeir aldrei til sérfræðingsins heldur lenda skyndilega í bráðaheimsókn inn á spítala eftir kannski margar komur til heimilislæknis.

Ég vil samt undirstrika að ég er á engan hátt að gera lítið úr getu og hæfni heimilislækna, þeir eru færir á sínu sviði en ég óttast hvað muni gerast ef tilvísunarkerfi verður tekið hér upp að hætti Dananna.

Lilja G. Bolladóttir, 26.3.2009 kl. 16:10

44 Smámynd: Vésteinn Valgarðsson

Hægrimenn eru víðar en í Sjálfstæðisflokknum. Framsóknarflokkurinn er í aðalatriðum hægriflokkur og hefur í aðalatriðum framfylgt hægristefnu, a.m.k. frá því Halldór Ásgrímsson tók við honum. Sama má segja um Alþýðuflokk Jóns Baldvins.

Nei, ég hef ekki skoðað tölfræði WHO.

Þeir ókostir tilvísanakerfis sem þú nefnir eru ekki ókostir tilvísanakerfis sem slíks, heldur ókostir tilvísanakerfis sem er illa rekið, illa skipulagt og illa fjármagnað. Ef þú segir að heimilislæknar séu svona glámskyggnir á það hvað er að fólki, þá skil ég það þannig að þú sért að segja að þeir séu ekki starfi sínu vaxnir. Ég vona að ég sé að misskilja þig. Því gættu að: Annars vegar fyrirfinnast klaufar í öllum starfsstéttum. Hins vegar getur heimilislæknirinn eins flýtt réttri greiningu með því að vísa sjúklingi á réttan stað, frekar en að sjúklingurinn leiti sjálfur til rangs sérfræðings.

Vésteinn Valgarðsson, 26.3.2009 kl. 16:10

45 Smámynd: Lilja G. Bolladóttir

Vésteinn: I rest my case, hef ekkert meira um þetta mál að segja. Ég er ekki fylgjandi svona afturhaldshyggju né forræðishyggju sem vinstri menn boða. Lengra nær það ekki.

Lilja G. Bolladóttir, 26.3.2009 kl. 20:28

46 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Ég er ekki sammála þér með tilvísunarkerfið....það er margfalt dýrara ef allir hlaupa til sérfræðinga með það sem venjulegir heimilislæknar geta sinnt....svona er skoðanirnar misjafnar....

Hólmdís Hjartardóttir, 26.3.2009 kl. 21:06

47 Smámynd: Kristín Magdalena Ágústsdóttir

Biturð og reiði er eitthvað sem er fyrir geðlækni að meðhöndla en ekki að koma með hana á blogg, það er bara ekki viðeigandi.

Það versta sem þú gerir sjálfum þér er að þú ert ekki einu sinni tekinn alvarlega.

En ég held að þú þyrftir að leita þér aðstoðar vegna þessarar miklu reiði en ekki láta hana bitna á náunganum sem hefur aðra skoðun en þú.

Þetta er góð umræða hjá ykkur og þarft að ræða þessi mál.

Ég var einmitt að koma úr Reykjavík, þar sem ég þurfti að leita á bráðamótökuna þar vegna sonar míns sem meiddist illa á hendi. Heimilislæknirinn var ekki alveg viss hvort hann væri handleggsbrotinn eða ekki og vildi vera viss og sendi okkur til Reykjavíkur.

Þetta er þjónusta sem ekki er hægt að kvarta yfir.

Ég er ánægð með læknaþjónustuna eins og hún er í dag og er ekki tilbúin að fara í tilvísunarkerfið. Ég er sjálf með astma og þarf því að leita oft til sérfræðinga og finnst best að ég geti panntað tíma þegar mér finnst ég þurfa á því að halda.

En auðvitað getur lengi gott batnað, það er ekki málið.

Kristín Magdalena Ágústsdóttir, 26.3.2009 kl. 21:11

48 Smámynd: Óskar Arnórsson

Kristín! Ef þú ert að tala til mín, þá er aragrúi á blogginu um svona mál. Svo kemur þér ekki við hvað mér finnst óviðeigandi eða ekki.

Fólk talar um allt hér á blogginu og sína eigin persónulegu reynslu af einelti, drykkjusýki, dópisma og allt mögulegt. Ég er hvorki bitur eða reiður. Þetta er bara minn stíll í að skrifa.

Vona að sonur þinn nái sér í hendinni sem fyrst.

Óskar Arnórsson, 26.3.2009 kl. 21:26

49 Smámynd: Lilja G. Bolladóttir

Nú er ég búin að eyða út meirihluta af óviðeigandi og dónalegum athugasemdum sem hér birtust frá sama aðilanum. Athugasemdir geta því virst úr samhengi, en það gerir ekkert til. Nokkrar lét ég standa inni, eiginlega bara svo ég sé viss um að mig hafi ekki dreymt að einhver skuli láta svona hluti frá sér.

Lilja G. Bolladóttir, 26.3.2009 kl. 22:51

50 Smámynd: Lilja G. Bolladóttir

Hólmdís: Það er í lagi að hafa mismunandi skoðanir. Ég er samt á því, að meirihluti fólks leitar, og mun leita, fyrst til heimilislæknis vegna þess að það er mun ódýrara heldur en að fara til sérfræðings. Finnst samt að við eigum að hafa valið um hitt ef okkur sýnist.

Lilja G. Bolladóttir, 26.3.2009 kl. 23:31

51 Smámynd: Vésteinn Valgarðsson

Lilja: Ef þú vilt slá botninn í þetta með því að ég sé vinstrimaður og þar af leiðandi séu mínar hugmyndir afturhald og forræðishyggja, þá þú um það. Ég tel það ekki afturhald og forræðishyggju að vilja gera kerfið betra og ódýrara.

Vésteinn Valgarðsson, 27.3.2009 kl. 14:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband