Mid-live-krisis mitt í efnahagskreppunni

Í dag græddi ég. Ég græddi ekki peninga en ég græddi heilt ár í tíma. Eitt ár sem ég hélt að ég hefði lifað var skyndilega ólifað. Eins ótrúlega og það má hljóma, en þannig er það samt. Því að í dag uppgötvaði ég að ég væri aðeins 35 ára en ekki 36 ára, eins og ég hef í næstum heilt ár haldið fram.

Kannski er því ekki svoleiðis um ykkur farið, en ég veit nákvæma tölu á mínum aldri þegar ég nálgast tuginn og svo e.t.v. fyrstu tvö árin eftir tuginn..... eftir það missi ég svolítið tölu á árunum og þarf oftar en ekki að reikna mig fram til þeirra. Einhversstaðar á leiðinni hef ég misreiknað mig þannig, að í nær heilt ár hef ég haldið mig ári eldri en ég er. Ég uppgötvaði þessi mistök mín fyrir tilviljun fyrr í dag, mér til mikillar gleði. Og þessi mistök eru næstum því tilefni fyrir sérstakt afmælispartý. Afmælispartý þar sem maður loksins fer niður á við í áratölu.

Ég man þá tíð þegar maður taldi dagana niður í sjálfræðisaldurinn. Hélt að allt myndi breytast þá, þar til foreldrarnir settu manni stólinn fyrir dyrnar og sögðu ákveðið, að það gæti vel verið að ég væri sjálfráða, en á meðan ég byggi undir þeirra þaki þá skyldi ég gjöra svo vel að hlýta þeirra reglum. Gott og vel eða því sem næst. Þá fór ég að telja niður í bílprófsaldurinn. Og svo kosningaaldurinn. Og svo aldurinn sem var mikilvægastur, þegar maður gat fengið afgreiðslu í Ríkinu án þess að klæða sig upp og þykjast vera annar en maður var. Eftir það var ekki mörgum áföngum að ná í aldursstiganum.

Tuttugu og fimm árin nálguðust og fóru hjá, svo komu mörg ár þar á milli og fram í þrítugsaldurinn. Þrjátíu ára, þegar búist var við miklu partýi og látum í tilefni dagsins, en var fagnað í þröngum hópi vina í mínu tilfelli. Eftir þrítugsafmælið hefur maður frekar óskað þess að tíminn standi kyrr, að maður myndi ekki eldast mikið meira enda fátt meiri krísa fyrir konu en að verða þrítug, nema ef það skyldi vera að verða fertug. Og nú nálgast sú ógnvæglega tala óðfluga.

Fjörtíu ára. Þegar mamma mín var fjörtíu ára, þá var hún "gömul" í mínum augum. En ég er svo langt frá því. Ég er ennþá tuttugu-og-eins árs í anda. En ég er fimmtíu-og-eins í reynslu og vildi ekki vera án þeirrar reynslu. Hins vegar vildi ég alveg vera tuttuguogeitthvað og eiga mína lífsreynslu. En maður getur víst ekki bæði haldið og sleppt.... Líklega verð ég að sætta mig við það, að ég er að verða 36 ára í næsta mánuði og fæ litlu breytt um það.

Eitt ár sem ég hélt að væri liðið og búið, eitt ár sem ég hélt að tímaglasið mitt hefði styst um..... er það skyndilega ekki, svo nú á ég þetta ár inni. Það er þá spurning um að nota þetta ár extra vel, þar sem ég er eiginlega að fá færi á því að nota það í annað skiptið, að einhverju leyti að fá second chance.... Svo ójá, ég hef nokkuð góða hugmynd að því hvernig ég ætla að eyða þessu ári. Ég ætla að rækta allt það sem ég hef á liðnu árið séð eftir að hafa ekki ræktað og sinnt betur. Líkama og sál skal rækta á þessu ári. Sem og vini og nærfjölskyldu. Sonur minn mun fá betri athygli, meiri tíma og meiri umönnun, það munu ömmur mínar og afi líka. Vini ætla ég að hitta oftar, ég ætla að gera þennan draum okkar mömmu um mánaðarlegan lunch að veruleika, pabbi minn mun heyra það oftar hvað mér þykir vænt um hann og Mr. K. mun fá fleiri kossa, hrós og þakkir fyrir að þola mig á mínu mid-live-krises-skeiði sem ég hlýt að vera búin að vera á síðasta árið... (ef ekki árin)..... Og allt þetta mun gerast í krafti þess að ég græddi eitt ár og fékk tækifæri til að líta til baka, auk þess sem ég mun á þessu ári eiga töluvert meiri tíma til að gefa af mér til fólksins í kringum mig heldur en undanfarin ár, þar sem að (yfir)vinna fyrir mig hefur stórminnkað þessa dagana. Og allt þetta, sem ég ætla að eyða árinu í, er aldeilis ókeypis. Kostar mig ekki neitt þar sem orð, bros, hrós og umhyggja kosta enga peninga en borga sig margfalt til baka.

Eitthvað gott hlýtur að koma út úr þessarri fjármála -og midlivekreppu, kannski ekki í veraldlegum auði en þá allavega í tíma og andlegum auði. Ég ætla að reyna að fókusera á það og vera þakklát fyrir að eiga gott fólk í kringum mig.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæl Lilja.

Til hamingju............Sjá dagar koma ár og aldir líða.

Hjá þér, og mér, trúum vér

Kær kveðja.

Þórarinn Þ Gíslason (IP-tala skráð) 11.3.2009 kl. 02:37

2 Smámynd: Einar Indriðason

Mín uppástunga?  Einfaldlega hætta að telja :-)

Virkar fyrir mig :-)

Einar Indriðason, 11.3.2009 kl. 07:43

3 Smámynd: Guðrún Þorleifs

Gríðarlegt tækifæri sem þú færð þarna!!! Lenti í þessu þegar ég var 34

Guðrún Þorleifs, 11.3.2009 kl. 09:20

4 Smámynd: Róslín A. Valdemarsdóttir

Mér finnst þú svo ung!
Sonur þinn er einu ári yngri en ég, og mamma mín er sko að verða 48!

Knús til þín frænka

Róslín A. Valdemarsdóttir, 11.3.2009 kl. 13:31

5 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Ég man alltaf hvað ég er gömul vegna þess að ég er fædd "60.  Það er erfiðara að gleyma því er maður er fæddur á heilum tug.  Ég myndi alveg þyggja svona auka ár

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 11.3.2009 kl. 17:14

6 Smámynd: Kristín Bjarnadóttir

Vá Lilja, sit hérna eftir og velti fyrir mér hvað ég myndi gera ef ég fengi einmitt svona aukaár upp í hendurnar!

Kristín Bjarnadóttir, 12.3.2009 kl. 00:22

7 Smámynd: Sigrún Óskars

Ég fór nú bara að reikna aftur - en það er eins og ég hélt - stórt stórafmæli á þessu ári .  Heppin ert þú að fá svona auka ár

Það er einmitt gott að hlúa að þeim auð sem maður kaupir ekki fyrir peninga. Ég hef alltaf gert litlar kröfur til veraldlegra gæða en það er gott að minna mann á að brosa, hrósa og sýna umhyggju. Takk Lilja    

Sigrún Óskars, 13.3.2009 kl. 17:13

8 Smámynd: Helga Linnet

hehe...ég verð 35 ára í maí...fæ svona hálfgert sjokk yfir því hvað tíminn er búinn að vera fljótur að líða!!

Helga Linnet, 20.3.2009 kl. 15:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband