22.1.2009 | 03:56
Þurfum við þunglyndislyf ??.....
Ég horfði á umfjöllun Kompáss um þunglyndislyf núna um daginn, og líklega ekkert nema gott eitt um það að segja að málið sé tekið upp, en ég hefði vel getað hugsað mér umræðu á örlítið faglegri nótum. Mér hefur hingað til fundist Kompás-fólkið fara vel með umfjöllunarefnið, en í þetta skiptið fannst mér vanta svolítið upp á rannsóknarblaðamennsku þeirra.
Þarna var verið að fjalla um þunglyndislyf í svokölluðum SSRI-flokki, sem sagt væg geðlyf sem auka upptöku á serontonin í heilanum. Aðrir hafa líka vísað til þessarra lyfja sem gleðipilla, sem líklega óbeint vísar í hvað þau eru og til hvers þau eru ætluð, sem sagt að létta fólki aðeins lífið og/eða koma þeim yfir erfiða hjalla. Þessi lyf eru að engu leyti burðarásar við alvarlegu þunglyndi og ekki einu sinni notuð sem slík, heldur eru einungis ætluð vægu þunglyndi og vægari röskunum. Vissulega getur verið rétt, og ég hef sjálf verið þeirrar skoðunar, að geðlæknar OG heimilislæknar séu oft fljótir að grípa til lyfjanna við væg þunglyndiseinkenni, streitueinkenni, kvíða, sorg og jafnvel ástarsorg..... ég er líka þeirrar skoðunar að mikið oftar megi skoða orsakir einkennanna, (óttans, kvíðans, þunglyndisins osfrv.), og meðhöndla það, en kerfið okkar býður einfaldlega ekki upp á það.
Það er í boði huglæg atferlis meðferð á LSH, og líklega annarsstaðar en ég þekki það bara ekki. Staðreyndin er hins vegar sú að margir geðlæknar trúa ekki á önnur meðferðarúrræði og vilja frekar meðhöndla með lyfjum. Það er líka í boði alls kyns sálfræðiaðstoð, sem að mínu mati myndi örugglega gagnast stórum hluta af því fólki sem tekur þessi lyf, mun betur en lyfin sjálf. Staðreyndin í því máli er þó sú, að ríkið tekur ekki þátt í að niðurgreiða þessa sálfræðiþjónustu. Þannig þiggur fjöldi fólks lyfin frekar en ekkert, því það hefur ekki efni á því að borga þessa sálfræðiþjónustu. Stóra spurningin er svo hvort það væri hagstæðara fyrir ríkið að niðurgreiða sálfræðiþjónustuna frekar en þunglyndislyfin? Og dæmi nú hver fyrir sig.
Hins vegar má aldrei alhæfa og það sem dæmin sýna okkur er það, að þessi lyf hafa oft hjálpað fólki yfir erfiða hjalla í þeirra lífi, svo að segja komið þeim á fæturnar aftur og gert þeim kleift að takast á við sitt dagsdaglega líf þrátt fyrir vanlíðan af einhverju tagi. Stór hluti fólksins hættir á lyfjunum aftur, notar þau kannski að meðaltali í 1-3 ár og þótt tölurnar sýni litla breytingu, þá er það oft vegna þess að nýir notendur bætast við jafnt á við það að eldri detta út.
Það sem mér finnst vanta upp á faglegan þátt Kompás-fólksins að þessu sinni er það, að bæði fannst mér þeir hafa mjög þröngan og einskorðaðan hóp viðmælenda, það var aðeins rætt við EINN MJÖG VEIKAN einstakling sem varla er dæmigerður fyrir fólk með vægt þunglyndi, svo FORMANN geðlæknafélagsins og svo einn iðjuþjálfa, en hvað með alla hina sem hafa reynslu úr starfi og lífi??? Hitt er svo umfjöllun þeirra um rannsóknarniðurstöður..... það veit það hvert mannsbarn að ALLIR halda óhagstæðum niðurstöðum frá og ýta þeim hagstæðari að. Það á ekki bara við um lyfjafyrirtæki, það á við um ÖLL fyrirtæki, og við þurfum nú ekki að vera eldri en tvævetur til að vita að t.d. auglýsingar fyrirtækja ljúga gjarnan og gefa misleiðandi upplýsingar um gæði vörunnar..... og að hvaða leyti er það öðruvísi? Við gerum það meira að segja sjálf í okkar persónulega lífi, drögum úr göllunum en ýkjum kostina, bæði við okkur sjálf og ákvarðanatökur okkar..... Það er okkar neytenda að vera skeptísk á bæði auglýsingar og niðurstöður rannsókna, sérstaklega þar sem meirihluti neytenda les ekki aðrar niðurstöður en þær sem eru birtar í Morgunblaðinu eða einhverjum kvennablöðum. Þessi blöð eiga það gjarnan til að "klippa inn" einhverjar fimm línur úr niðurstöðu flókinnar rannsóknar og taka þessar fimm línur algjörlega úr samhengi við allt annað sem stóð í rannsókninni bara vegna þess að þessar línur selja vel og í kjölfarið eru heilu kvennahóparnir heilaþvegnir. Hve margir lesendur vita eiginlega hversu áreiðanleg þessi rannsókn var sem vísað er til? Var þessi rannsókn yfirleitt marktæk á vísindalegan mælikvarða? Í mörgum tilfellum lítilla kannana hefur úrtakið verið mjög lítið og varla marktækt á vísindalegan mælikvarða. Í öðrum tilfellum hefur svörunin verið slök og niðurstaðan því heldur ekki marktæk. Ég efast um að margir sjúklingar, lesendur Moggans eða Nýs Lífs liggi á kafi í vísindatímaritum eins og Læknablaðinu eða British Medical Journal osfrv., nái nokkurntímann að lesa ALLA rannsóknina og þar með að mynda sér sína eigin skoðun. Það vita það allir vísindamenn, að það gilda mjög strangar reglur um aðferðarfræði í rannsóknum og þú þarft að fara í gegnum margar síur eftirlits og leiðréttinga áður en rannsóknargrein fæst birt í virtu vísindatímariti. Og ef hún fæst birt, þá er hún virt..... og þar með marktæk. Kompás-rannsóknarblaðamenn- og konur ættu að vita betur en að slá þessu upp sem stórri umbyltingarfrétt.
Það má vel vera að það megi og þurfi að endurskoða uppáskriftir fyrir þessum vægu þunglyndislyfjum, og ég er því mjög fylgjandi. Ég er því hins vegar ekki fylgjandi, að svona "skúbb"-þáttur eins og Kompás geri þetta að umfjöllunarefni á þann hátt sem hann gerði. Mér finnst þetta ekki faglegt, því mörgu veiku fólki eru þessi lyf bráðnauðsynleg og það er ekki faglegt að sá efasemdum í áður veikan huga. Að mínu mati eru líka aukaverkanirnar stórýktar, ég hef unnið með fjölmörgu fólki á svona lyfjum og aldrei séð neinar af þessum aukaverkunum sem nefndar eru, ég hef meira að segja sjálf tekið eitt af þessum lyfjum, tvisvar sinnum í eitt ár í hvert skipti. Ég ætla ekki að gera sjálfa mig að alhæfingardæmi, en ég upplifði engar af þessum aukaverkunum og heldur engin vandræði með að hætta á lyfjunum.
Langflestum lyfjum fylgja aukaverkanir, flestum sterkum verkjalyfjum fylgja t.d. aukaverkanir eins og ógleði, hægðatregða, syfja, sljóleiki..... sterum fylgja sveppasýkingar, beinþynning, magasár/brjóstsviði, útblásinn líkami osfrv. en ég held ekki að krabbameinssjúkir myndu vilja sleppa þessum lyfjum þrátt fyrir þetta, þeir vilja frekar taka lyf við aukaverkununum heldur en að kveljast. Og að sama skapi, held ég að þunglyndir vilji oft fremur takast á við aukaverkanirnar eða taka önnur lyf við þeim, heldur en að upplifa óyfirstíganlega depurðina, sorgina, úrræðaleysið, framtaksleysið, vonleysið og svartnættið sem fylgir þunglyndinu. Það er einfaldlega nature force of survival..... þú gerir það sem þú þarft að gera í svona aðstæðum.
Athugasemdir
Sæl Lilja.
Mjög góður og yfirgripsmikill pistill hjá þér.
Satt best að segja á eins og þú segir að fara varlega í notkun lyfja,hvort það eru geðlyf eða annars konar lyf.
Ég hef séð undraverðan bata og engan bata og og negatívan bata.
Og allar þessar aukaverkanir hef ég séð. Á öðrum og sjálfum mér. Ég þarf stundum að taka lungnastera (decortin) og ekki er það aukaverkunarlaust eins og við vitum.
En lyf lækna
og lyf lækna ekki.
Kveðja.
Þórarinn Þ Gíslason (IP-tala skráð) 22.1.2009 kl. 05:17
Góð að vanda.
Oft er lækninging fólgin í að finna orsökina. Sálgæsla/viðtöl/stuðningur er vanmetin þáttur í nútímasamfélagsmynd.
Ég er sannfærð um að ef mamma fósturbarnsins míns hefði fengið meiri uppbygggingu og stuðning frá kerfinu í stað þess að það gerðist "óvinur" hennar, því hún fellur ekki inn í normal hegðun, væri hún ekki í dag alvarlega þunglynd kona, rétt að verða fertug. Búin á því. Efni í langt blogg ef út í það væri farið.
Guðrún Þorleifs, 22.1.2009 kl. 11:56
Ég er sammála þér Lilja að umfjöllunin var frekar grunn. Ekki mikið farið í útskýringar og viðtöl við fleiri lækna og ummönnunar aðila.
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 23.1.2009 kl. 00:48
mjög áhugaverð grein !
takk fyrir uppl.
KærleiksLjós frá konu í Lejrekotinu
steinaSteinunn Helga Sigurðardóttir, 24.1.2009 kl. 09:04
Alltaf ertu jafn góð Lilja. Kompás er "skúbb"þáttur - enda er hann að hætta. Mér fannst líka ótrúlegt að tala bara við einn "sjúkling" - fundu þeir engan annann? eða var þessi þáttur gerður í fljótfærni eins og maður hefur á tilfinningunni?
Ódýrasta leiðin fyrir manneskju með vægt þunglyndi er að fá lyf, kannski erum við að biðja læknanna um lyfin. Mér finnst samt margir of fljótir að ná í lyfseðil og afgreiða málið.
Sigrún Óskars, 25.1.2009 kl. 14:36
Takk fyrir góðan pistil
Hólmdís Hjartardóttir, 3.2.2009 kl. 12:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.