7.1.2009 | 23:12
Comeback....
Sæl og blessuð öll aftur. Og gleðilegt ár til ykkar allra með þökkum fyrir öll góðu samskiptin og skoðanaskiptin á liðnu ári. Ég hef haft gaman af þessu öllu, hef haft gaman af því að lesa ykkur og eiga skoðanaskipti við ykkur, er meira að segja farið að þykja pínu vænt um sum ykkar.... en ég ætla ekki einu sinni að þykjast hafa fylgst með ykkur síðustu vikurnar. Ég fann bara þörf hjá sjálfri mér til þess að draga mig algjörlega út úr bloggsamfélaginu og beina orku minni í aðrar áttir tímabundið. Ég las fréttir, horfði á fréttir, hlustaði á spjallþætti, sat á kaffistofum Landspítalans, í matarboðum, fjölskylduboðum, átti samskipti við mína nánustu og hlustaði og tók stöðugt þátt í umræðum um ástandið í samfélaginu og ég viðurkenni að ég fékk einfaldlega nóg. Það varð of mikið fyrir mig að sækja mér fleiri skoðanir, skoðanaskipti og umræður á öðrum stöðum en þeim sem ég var neydd til að vera á hverju sinni. Og blogginu gat ég sleppt og varð einfaldlega að sleppa til þess að hafa orku fyrir aðra og mikilvægari hluti í lífi mínu. Og sé ekki hið minnsta eftir því.
Ég hef alls ekki orðið skoðanalaus vegna þess að ég hætti að blogga í einhvern tíma, en núna ætla ég ekki að eyða svona miklu púðri í að viðra mínar skoðanir á netinu. En af því að ég er hugsandi, frek og ákveðin.... og alveg jafn reið og þið, þá ætla ég að tjá mig smá, og bara smá um nokkur mál. Öllum frítt að lesa og öllum frítt að dissa.
Fyrir það fyrsta, þá horfði ég á fréttirnar í kvöld, þær sem vörðuðu niðurskurð og sameiningu í heilbrigðiskerfinu..... í fáum orðum, þá er ég sammála yfirlækninum á Skt. Jósefsspítala: auðurinn liggur ekki í veggjum og tækjum, hann liggur í fólkinu, sem sagt MANNAUÐURINN. Og mannauðurinn er það sem okkar annars ágæta heilbrigðiskerfi en ekki alltaf jafn ágæti Landspítali, (eða skyldi maður frekar segja stjórn Landspítalans), hafa yfirleitt litið framhjá og meira að segja litið niður á. Að minnsta kosti ekki litið á fólkið sem þar starfar með sína reynslu og hæfni sem auð að neinu tagi. Það er staðreynd. Hitt er annars ágætt, að okkar heilbrigðisráðherra ætli sér nú ekki enn einu sinni að tjalda til einnar nætur heldur horfa til framtíðar. Það er þá altíð eitthvað nýtt í okkar stjórnkerfi svona yfirleitt, að fólk horfi lengra fram í tímann en til næstu þriggja ára eða svo. Það hefði auðvitað verið best ef fólk hefði hugsað á þennan hátt þegar sameining Borgarspítalans og Landspítalans átti sér stað með miklum tilfærslum og MJÖG miklum kostnaði árið 2002. Nú lítur það út sem svo, að bæði eigi að færa margar deildar milli húsa aftur (tilbaka), með sameiningu bráðamóttakanna tveggja..... og forgive me að ég hafi skoðun þótt ég sé starfsmaður LSH, en þetta eru mínir peningar líka sem verið er að handfjatla með öllum þessum tilfæringum fram og tilbaka og I AM ALLOWED TO HAVE AN OPPINION. Thank you very much.
Annað sem viðkemur okkur heilbrigðisstarfsfólki, eða að minnsta kosti hjúkrunarfræðingum; þá kom það fram í fréttum Stöðvar 2 í kvöld, þar sem tekið var dæmi um kaupmátt hjóna, að meðaltekjur "Önnu" og "Bjarna" séu 300.000 og 350.000 á mánuði. Ég aflaði mér stúdentsprófs frá Verzlunarskóla Íslands, svo fjögurra ára háskólamenntunar og hef núna nær 10 ára starfsreynslu sem hjúkrunarfræðingur..... og eftir allt það þá er ég greinilega samt undir meðaltekjunum, meira að segja LÆGRI meðaltekjunum, þ.e. 300.000. Ég er það ekki eftir mánaðarstrit á kvöldvöktum, helgarvöktum og næturvöktum, ekki eftir vaktir á aðfangadagskvöld eða jóladagsmorgun, en ef ég væri að vinna í dagvinnu eingöngu, sem flest fólk miðar sig við, þá er ég með skitnar 298.000 kr. í mánaðarlaun. EFTIR 10 ÁRA STARFSREYNSLU og margar launahækkanir þar sem ég fór í gegnum allskonar framgangskerfi búin til af Landspítalanum. Ímyndið ykkur hvar ég byrjaði í þessum moderna launastiga Landspítalans. Aha, undir lágmarkslaunum, eftir miðlungs langt háskólanám. Mér finnst þetta ansi skítt. Ég er í raun ekki með mikið hærri laun en ófaglærðir sem fá borguð lágmarkslaun og það er önnur staðreynd. Think about that.
Annars að allt öðru af því að ég nenni ekki að vera stöðugt neikvæð. Ég fór í Ríkið um daginn til að kaupa eina rauðvínsflösku. Ég borgaði með 5.000 kalli og fékk svo til baka 7.000 krónur, þ.e. einn 5.000 kr. seðil og tvo 1.000 kr. seðla plús einhverja smápeninga. Mín spontant viðbrögð voru þau að benda afgreiðslukonunni á það, að ég hefði nú borgað með 5.000 kr. seðli og ætti því varla að fá meira til baka heldur en ég hefði borgað. Hún sýndi varla nein viðbrögð, bara hrifsaði til sín peninginn aftur, hvorki baðst afsökunar á því að hafa gefið vitlaust tilbaka (sem hefði verið rétt, hefði hún gefið of lítið til baka en greinilega ekki þegar því er öfugt farið), en hún þakkaði ekki heldur fyrir að ég skyldi hafa bent henni á þessi mistök. Maðurinn fyrir aftan mig fór samt að hlægja og sagði: "Mikið djöfull ert þú heiðarleg á þessum síðustu og verstu tímum!".....
og það fékk mig til að hugsa. Ég er alin upp við heiðarleika og hreinskipti, við komum hreint fram og við stelum ekki og við skilum því til baka sem ekki er okkar. Sem sagt gildi sem við flest töldum við lýði í okkar þjóðfélagi ...... HINGAÐ TIL. En nú hefur komið á daginn að margir hafa hagað sér óheiðarlega, ósiðlega, tekið til sín eitthvað með óheiðarlegum hætti, verið stjórnað af græðgi, margir hafa viljað meira og meira þótt þeir hafi átt nóg. Okkur finnst RÍKIÐ hafa hlunnfarið okkur, staðið vörð um ranga hagsmuni, meira að segja klappað á bakið á græðgisköllunum og svo þegar allt fer á hausinn, þá eigum við samt að borga brúsann!! HEFÐI ÉG KANNSKI BARA ÁTT AÐ HALDA KJAFTI OG TAKA ÞENNAN AUKA 5.000 KALL????? Ég gæti litið á það þannig, að Ríkið sé að hafa af mér ómælda peninga í gegnum vaxtastefnu sína, verðbólgu, stimpilgjöld, glataða krónu, peningamálastefnu, ranga efnahagsstjórnun, Icesave-reikninga, hækkun á áfengisverði osfrv. ....Sumir myndu líta á það sem svo að það væri ekki einu sinni þjófnaður að labba út úr ÁTVR með 5.000 kalli meira en þeir ættu að fá með réttu, þeir væru bara einfaldlega að fá eitthvað tilbaka af því sem búið er að taka frá okkur. Og ég get skilið það sjónarmið. Totally.
En okey, það getur vel verið að það séu margir rotnir karakterar í þessu þjóðfélagi, en ég ætla ekki að vera ein af þeim. Ég hefði alveg getað tekið við þessum auka fimmþúsundkalli og labbað í burtu og ég veit að maðurinn fyrir aftan mig í röðinni hefði bara "give me five" í laumi fyrir að hafa haft þennan pening af ÁTVR og hefði ekki sagt til mín..... en ég ÆTLA EKKI AÐ VERA EIN AF ÞESSUM KARAKTERUM. Ég á þó það, að ég á mjög lítið í veraldlegum eigum, ég skulda margfalt meira en það sem ég á, en ég á þó minn heiðarleika, mitt stolt og mína reisn og ég get alltaf labbað burt frá mínum viðskiptum með höfuðið hátt og samviskuna í lagi. Og það finnst mér skipta máli. Bara að það skipti fleiri máli í þessu þjóðfélagi en mig..... en það er önnur saga.
Ég er hætt að reykja!! Er ekki búin að reykja síðan 1. janúar 2009 kl. 23:57. Ég ákvað að verða reyklaus á þeim tímapunkti, sem sagt ekki akkúrat á áramótunum heldur sólarhringi seinna. Enginn trúði á mig enda ætlaðist ég ekki til þess og gerði fremur lítið úr þessum ætlunum mínum..... hef líka oftast svikið þessi reyklausu loforð mín svo í þetta skiptið sagði ég þetta bara svona í framhjáhlaupi, sagðist ekki nenna að diskutera þetta frekar, ég skildi ef enginn trúði þessu, en það eina sem skiptir máli er að ég trúi á sjálfa mig. Ég ætla ekki að monta mig of mikið fyrirfram, en ég er ekki búin að reykja síðan. Og ef ég tel dagana rétt, þá er ég búin að spara tæplega 5.000 krónur á þessum dögum!!! Þessum fáu dögum, hugsið ykkur það. Ég og Mr. K. fórum upp í bústað á föstudaginn og komum ekki heim fyrr en seint á mánudagskvöld og allan þann tíma reykti ég ekki. Ég segi sko ekki að ég hafi ekki hugsað um sígarettur, allt var öðruvísi, hvítvínið bragðaðist öðruvísi og ég nennti eiginlega ekki á fætur á laugadeginum af því að mér fannst ég ekki hafa neitt til þess að vakna fyrir. Mr. K. sagði við mig þegar helgin var hálfnuð, að hann hefði hálfkviðið helginni, af því að ég er nú þekkt fyrir að vera mjög skapstór manneskja, svo hann var varla að bjóða í þessa helgi með mér á mínum fyrstu reykleysisdögum..... en viti menn, ég var ljúf sem lamb, ótrúlegt en satt. (Bara spyrjið hann!). Alvöru challengið kom þegar ég var á leið heim af næturvakt á þriðjudagsmorgun og fór fram hjá hverri sjoppunni og bensínstöðinni á eftir annarri og hugsaði í hvert skipti: "Ætti ég ekki bara að kaupa mér einn pakka, bara til að fá eina????" Og í alvöru, mig langaði bara SVO MIKIÐ Í EINA, ekki allan pakkann, svo það sem stoppaði mig var hugsunin um það hvað ég ætti þá að gera við restina af pakkanum..... Varla henda honum.... ekki reykja hann.... kannski geyma, en þá væri hann stöðug freisting fyrir mig ....... og shit, þetta er erfitt, but I´m hanging there..... stillllllllll........
Jæja, loka issue, og þið fyrirgefið svona langa færslu eftir svona langt hlé. En í sumarbústaðarferð okkar Mr. K. um helgina, kom hann til að gefa mér olnbogaskot, svolítið harkalegt og beint á augnbeinið. Þarf varla að taka það fram að það var algjörlega óvart. Og þótt við hlypum beint inn til að kæla augað og beinið og allt þar um kring, þá fékk ég þetta myndarlega glóðarauga. Og þar kemur að svolítið merkilegu tabú í okkar samfélagi. Okey, ég fékk glóðarauga, og öllum finnst það mjög pínlegt. En af hverju? Og eftir þessa upplifun mína þá verð ég að segja að þetta er mjög merkilegt, þ.e. hvernig samfélagið lítur á glóðarauga hjá konum.
Ef maður mætir einhversstaðar með glóðarauga þá hugsum við flest samstundis, að hann sé slagsmálahundur og hafi lent í slagsmálum á síðasta djammi. Ef kona mætir með glóðaraugua þá erum við öll hugsandi um það hvort maðurinn hennar hafi lamið hana. Og þetta er í raun svolítið merkilegt, af hverju við erum svona fordæmandi um þessa hluti..... ég er engin undantekning. En það eru sko í raun hundrað hlutir sem geta valdið glóðurauga.
Ég sagði mömmu minni á mánudegi að ég væri með glóðarauga og hún spurgði mig strax hvort ég ætlaði ekki að melda mig "veika" í vinnunni!!! Why the hell??? Glóðarauga er bara marblettur, okey, kannski á óheppilegum stað af því að hann er svo sýnilegur, en ef ég hefði labbað á borð og fengið slæmt mar á lærið, þá myndi ég varla hringja mig inn veika í vinnuna??? Af því að ég væri marin á lærinu?? Er það?
Það versta við glóðarauga á konum er það, að fólk á það til að tala bara við mann en "kann ekki við" að spyrja hvað gerðist. Ef maður mætir með brotinn putta, með handlegginn í fatla, stórt sár á höfði eða haltrandi..... þá hikar enginn við að spyrja: "Hvað kom fyrir þig??" En ef þú mætir með glóðarauga, þá færðu bara augngotur og kannski vorkunnaraugu en enginn þorir að spyrja. Sem betur fer vinn ég á slysadeildinni og þar erum við alltaf að taka við konum eftir heimilisofbeldi og ég held að ég sé einstaklega heppin með starfsfélaga, því ég hafði alveg haft áhyggjur af þessu fyrirfram. Því það kemur eitthvað svo asnalega út ef þú ert að afsaka þig fyrirfram og maður vill frekar að fólk spyrji bara heldur en ekki..... til allrar lukku þá vinn ég með svo góðu fólki að allir spurðu mig bara beint út, hvað hefði komið fyrir, og þar með var þetta ekkert vandræðalegt. En ég viðurkenni sko alveg, að ég hef örugglega sömu hugsanir og flestir þegar ég mæti konum með glóðarauga. Við þurfum að spá svolítið í þetta, finnst mér.
Ég vinn samt með einni, einstakri hjúkku, (svo ég fái að nota þetta orð sem sumum HJÚKRUNARFRÆÐINGUM finnst niðrandi, en mér ekki), en hún tók mig afsíðis og vildi alvarlega tala við mig, því hún vildi gefa mér færi á að tala, ef ég væri beitt heimilisofbeldi og ég verð að segja, að svona vinnufélagar eru líka ómetanlegir. Mér þykir ósegjanlega vænt um það, að einhverjum af mínum vinnufélugum þyki það vænt um mig og sýni mér svona augljóslega að SHE CARES ABOUT ME og hún vildi sko virkilega gefa mér tækifæri til þess að opna mig ef það væri eitthvað sem væri að hrjá mig..... sem til allrar lukku var og er ekki. En ef svo væri og hefði verið, þá væri það gulls ígildi að vita af svona góðri samhjúkku og þessi góði hjúkrunarfræðingur heitir Sólveig A..... (og ef þú lest þetta Sólveig, þá skoraðir þú nokkuð mörg stig hjá mér þarna).
But, here I am, með mitt glóðarauga í góðum gír, skrifandi bloggfærslu, ógeðslega reið eins og allir í þjóðfélaginu yfir okkar ömurlega ástandi. En ég ætla ekki að láta þetta éta mig að innan og eyða allri minni orku. Ég á yndislega fjölskyldu, frábæran ungling sem ég ennþá get sagt að ég "eigi" og ráði yfir, ég hef yndislegan mann til að halla mínu höfði að og halda utan um og ég hef vinnu, sem mér þar að auki finnst skemmtileg og ég á frábært samstarfsfólk. Ég get borgað flesta mína reikninga en ég á, eins og allir aðrir, stöðugt minna og minna og minna til að lifa af. Og ég er ekki að segja að það verður bara að hafa það, en þegar ég mótmæli þá verður það ekki með grímu yfir andlitinu og einhverjar tvíræðar setningar. Ég hef ekki hingað til verið þekkt fyrir að liggja á mínu eða halda kjafti, en eins og "okkar" mótmæli hafa þróast, fólk sem segist vera að tala fyrir þjóðina, þá verð ég bara að segja fyrir mitt leyti, að þau eru ekki að mínu skapi. Og það verður fólk bara að virða. Ég verð bara að fá að mótmæla á minn hátt og ég finn lítin samhljóm í því sem hefur verið að gerast undanfarið á götum borgarinnar og í anddyrum ýmissa bygginga. Ég finn mig ekki meðal þeirra sem eru að brjóta rúður og ráðast með offorsi inn í stjórnarbyggingar. Ég mótmæli á minn hátt og aðrir á sinn hátt og þar við situr.
Takk fyrir mig, mínir bloggvinir.
Athugasemdir
Gleðilegt ár Lilja mín og til hamigju með reykleysið!
Hólmdís Hjartardóttir, 7.1.2009 kl. 23:30
Sæl og blessuð og velkomin til baka
Mikið var þetta skemmtileg færsla hjá þér. Góð samantekt!
Ég get nú ekki annað en hlegið að þessu með glóðuraugað. Þetta er svo satt hjá þér. Manni finnst glóðurauga alltaf svo grunsamlegt hahaha
Ég er líka hætt að reykja. Í annað skiptið á ævinni. Var einmitt að blogga um þetta. Ég kalla þig góða ef þú ert að hætta bara si sona cold turkey manneskja. En gangi þér ooooofsalega vel. Við stöndum í þessu saman.
Jóna Á. Gísladóttir, 7.1.2009 kl. 23:31
Jenný Anna Baldursdóttir, 8.1.2009 kl. 00:02
Ooooo, ég les þetta á morgun! Þú ert nú meiri að setja svona langa færslu fyrir svefninn...
Ég verð samt að segja að ég er svooo ótrúlega ánægð með það að þú skulir vera hætt að reykja. Áfram Liiiiljaaaa
Knús á þig frænka mííín
Róslín A. Valdemarsdóttir, 8.1.2009 kl. 00:10
Innlitskvitt.
Gleðilegt nýtt ár. Til hamingju með að vera hætt að reykja. Gangi vel með það.
Glóðaraugað já.... hmm.... gastu ekki málað hitt augað svipað blátt, og þóst svo vera nýkomin af furðufataballi, þar sem þú hafir verið geimvera? Já, og vera með loftnet! Fullkomna myndina!
Hmm.... ok, ég farinn að sofa, áður en ég breyti þér yfir í 7 fætt MARS-búa skrímsli.......
:-)
Einar Indriðason, 8.1.2009 kl. 00:31
Velkomin aftur til bloggheima, reyklaus og marin. Gleðilegt ár.
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 8.1.2009 kl. 01:14
Gleðilegt nýtt ár :)
Kjartan Pétur Sigurðsson, 8.1.2009 kl. 01:19
Takk bloggkjaftarnir mínir allir saman Mikið gaman að vera komin aftur þó ég lofi ekki neinu með framhaldið..... samt gaman að hitta á ykkur hér. Takk fyrir heillaspár um reykingar, eins og allir sannir reykingamenn vita, þá tekur maður einn dag í einu og svo ekki söguna meir!!!
Jóna mín, ég styð þig sko líka í þinni baráttu, ert þú að nota einhver nikótínlyf?? Ég á nebbla fullt af plástrum og öðru sem ég sé að ég mun aldrei nota, þetta er eitthvað meira spurning um það að hafa eitthvað á milli fingranna hjá mér, svo þú mátt fá þetta hjá mér ef það hjálpar.....??
Hlakka annars til nýs árs með ykkur, bloggvinir
Lilja G. Bolladóttir, 8.1.2009 kl. 02:11
Sæl elsku hjúkkan mín og velkomin aftur á boggið. Til hamingju með reykleysið. Vonandi tekst það hjá mér líka.
Haraldur Bjarnason, 8.1.2009 kl. 06:02
Váááá!!!
Æði að vakna svona alltof snemma, kíkja í tölvuna of spjalla við litla barnið mitt í Ammríkuhreppi og koma svo inn á bloggið og viti menn Liljan með svona líka fína bloggfærslu. Hefði nú hitað kaffi ef ég hefði átt von að endurkoman væri í dag/nótt.
Óska þér alls góðs í reykingamálunum. Hver dagur sem líður er fottur áfangi!
Hvað endist svona glóðarauga lengi? Bara að spá hvort ég gæti þekkt þig á því, í mjólkurkælinum eða við kassann í Nettó næstu vikur.
Rétt hjá þér með viðhorfið til glóðaraugans. Man þegar minn lenti í slysinu, þá fékk hann "þokkalegt" glóðarauga ásamt öllu hinu. Þá hugsuðum við: Maðurinn laminn af konunni (jafnréttið þú veist), svo ég sagði bara: settu á þig sólgleraugun maður eða ég lem þig aftur. . . Bílif mí or not
Guðrún Þorleifs, 8.1.2009 kl. 06:05
vá hvað er gaman að fá þig aftur - þú hefur svo skemmtilegar og einbeittar skoðanir á hlutunum og kannt að koma þeim frá þér.
Gangi þér vel "reyklaus með glóðarauga" og ég er sammála með hana Sólveigu ef þetta er sama Sólveig og vann með mér á slysó um árið.
Sigrún Óskars, 8.1.2009 kl. 17:34
Takk elsku vinir
Halli minn, nú á ég lot of catching up to do, gott að það er helgi fram undan, hlakka til að kíkja á þig og þínar ótvíræðu skoðanir
Elsku Guðrún, þú ert greinilega á leið til Íslands bráðum og munum við án efa rekast á hvor aðra í Nettó, ég get alveg sagt þér að eins og THE EYE lítur út núna, þá mun það ekki hverfa á næstu dögum..... nú er ég græn niður á miðja kinn en ennþá með svarta rönd......
Elsku Búkolla, gleðilegt ár til þín líka og hlakka til að kíkja á þig!!
Og Sigrún, ég kem ALLTAF aftur!! Takk fyrir þitt komment og þetta er örugglega sama Sólveig, það eru nú ekki til margar Sólveigar Aðalsteins sem hafa unnið á slysó í hundrað ár...!!!!!
Lilja G. Bolladóttir, 9.1.2009 kl. 20:17
Það var þá aldeilis bunan, ertu með einhvern rembing??... haahahaha djók.
Sko, elsku besta frænka mín, ég þoli ekki þegar fólk leiðréttir mig og ég þoli ekki að leiðrétta fólk ( gæti alltaf misskilið ). En það er spurði en ekki spurgði.. BARA til að benda þér á það sjáðu til!
Gaf mér loksins tíma til að lesa færsluna þína, enda komin í mína sveitasælu (Kópavogurinn).
En það er ekki annað að gera en að vera heiðarleg - við erum þokkalega frænkur. Reyndar er ég svo heiðarleg að ef ég fæ minna en ég á að fá þá þori ég ekki að segja það.
Mamma þín hugsar eins og mamma mín greinilega, þessar mæður sko! Mamma einmitt lenti í slysi í sinni vinnu þegar hún var að reyna einhverja þraut hjá krökkunum með eitthvað prik, stíga yfir það og blablabla, (hún er skólaliði), og fékk svo prik beint fyrir neðan munninn, örlítið á skábeint samt. Minnir að hún hafi ekki mætt í vinnuna í einn dag, hún skammaðist sín svo - fólk horfði einmitt mikið á hana. Enda lítið samfélag.
En mig langar til að sjá þetta glóðurauga þitt, ég myndi pottþétt hlæja, því þetta var jú af slysförum....
Haltu áfram að vera reyklaus, því reykingar stytta lífið (og kostar fólk alveg morðfjár!). Er alltaf að minna systur mína á það. Hún byrjaði 15-16 ára. Fyndið þar sem mér dettur það ekki til hugar, né að drekka. Það er samviskan og hreinskilnin uppmáluð.
Eigðu góða helgi!
Knús
Róslín A. Valdemarsdóttir, 10.1.2009 kl. 00:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.