Þjóð í vanda??

Jæja, ágætis bloggpása að baki, já og meira að segja mun lengri bloggpása en hún frænka mín Róslín gat haldið eftir stórar yfirlýsingar ....(hæ Róslín Wink )... Mín pása var algjörlega ómeðvituð og ótilkynnt. Gerðist bara óvart. Bara að svona reykingapása myndi koma yfir mig einn daginn, án stórra yfirlýsinga og loforða sem ég hvort eð er enda alltaf á að þurfa að éta ofan í mig aftur innan fárra daga.

En speaking of..... nikótínfíkn mín minnir mig á frétt sem ég las fyrir nokkrum vikum, ekki svo löngu þó, (EFTIR að kreppan skall á). þar sem fréttnæmt var að Sigurður Kári og félagar ætluðu enn einu sinni að leggja fram frumvarp um að sala á léttvíni og bjór verði heimil í verslunum og að leyft verði að auglýsa þessar vörur. Þrátt fyrir að frumvarpið um áfengissöluna hafi verið fellt FIMM sinnum á Alþingi og hitt frumvarpið þrisvar. Af hverju er þeim svona mikið í mun að kýla þetta í gegn? Dugar ekki opnunartími ÁTVR þeim? Ég veit að hann dugar öllu venjulegu fólki, líka þeim sem allt í einu dettur í hug að akkúrat núna væri gaman að opna eina rauðvínsflösku og hafa það huggulegt. Slíkt fólk á yfirleitt nokkrar flöskur liggjandi og einhverja bjóra í ísskápnum, einmitt til slíkra tækifæra. Við þurfum ekki áfengið í matvöruverslanirnar þótt okkur þyki gaman að opna vínflösku við og við.

Hins vegar myndi sala á áfengi í matvöruverslunum vera stórhættuleg öllu því fólki sem berst við áfengisfíkn og afar sorgleg börnunum þeirra og öðrum aðstandendum. Ég hef unnið með áfengissjúkum og fíkniefnaneytendum og að berjast við fíkn er hræðilegt ástand fyrir alla þá sem að koma, bæði þá sjúku og fjölskyldur þeirra. Ég þekkti til fjölskyldu þar sem börnin hlupu á móti foreldrum sínum þegar þeir komu inn um dyrnar eftir vinnudag og verslunarferð, börnin hlupu til og rifu upp úr pokunum og önduðu í hvert skipti léttar þegar ekkert áfengi kom upp úr pokunum. Þau kvöld sem það kom fyrir voru þessi börn róleg og áhyggjulaus. Þorðu að fá vini í heimsókn og gátu verið börn í friði. Jafnvel spjallað við foreldra sína. Ef "Ríkis"-poki var meðal innkaupapokanna, var það ávísun á ótta, áhyggjur og kvíða fyrir þessi börn. Þau þorðu ekki að fá vini sína í heimsókn, þorðu heldur ekki að fara út úr húsi, kviðu kvöldinu sem fram undan var.... skyldu mamma og pabbi drekka þetta í kvöld?, skyldu þau fara að rífast?, skyldu þau vaka lengi og vera með læti? Eða kannski ætluðu þau bara að geyma vínið til annars dags. Einlæg von barna sem ávallt brást, því auðvitað drukku foreldrarnir alltaf aðföngin strax með mismunandi afleiðingum. En alltaf olli áfengi í pokunum þessum börnum ómældum áhyggjum. Ef áfengi væri selt í 10-11, þá myndu börn eins og þessi, aldrei eiga róleg og kvíðalaus kvöld. Þau væru aldrei "save" því pabbi gæti ennþá náð að stökkva út í búð og kaupa vín, þótt klukkan væri orðin margt og þótt það væri sunnudagur. Og þetta er bara dæmi um fjölskyldu, þar sem foreldrarnir voru þó í vinnu en misnotuðu áfengi mörg kvöld í viku. Hvað með allar hinar fjölskyldurnar, þar sem foreldrarnir eða foreldrið situr við drykkju allan daginn? Og ef að rök Sjálfstæðismanna eru, (sem ég veit reyndar ekkert um), að loka ætti fyrir sölu í matvöruverslunum á ákveðnum tímum þrátt fyrir að verslunin sjálf væri opin lengur, hver er þá ávinningurinn? Ég tel það ekkert eftir mér að fara í ákveðna verslun til að kaupa mitt rauðvín eða hvítvín, ég veit hvenær búðin er opin og plana mig einfaldlega eftir því.

Ég berst við fíkn í nikótín. Ég hef margoft reynt að hætta. Stundum í lengri tíma en oftar í skemmri. Á þeim tímum sem ég hef verið nikótínlaus hefur sígarettan sjaldan farið úr huga mér. Á þessum tímum hef ég oftsinnis keyrt úr vinnu og heim til mín upp í Breiðholt og keyrt inn á planið hjá hverri einustu sjoppu, bensínstöð og verslun á leiðinni, í því skyni að kaupa mér sígarettur og reykja "bara eina" áður en ég kem heim. Ég hef rökrætt við sjálfa mig alla leiðina; "Ég ætla bara að kaupa einn pakka" og keyrt inn á planið hjá Select.... og "Nei, ég ætla ekki að reykja í dag" og keyrt út af planinu aftur. "Jú, bara einn, svo ekki meir", svo keyri ég inn á planið hjá næstu sjoppu og held áfram að diskutera í huganum: "Lilja, auminginn þinn, þú getur alveg sleppt því að reykja í dag", og svo keyri ég út af planinu aftur. Svona gengur þetta þar til ég geng inn um dyrnar heima hjá mér og þá tekur hugsunin við: "Ætti ég að hlaupa út í sjoppu"? "Nei, ég ætla ekki", og svo klukkutíma seinna kemur sama hugsun aftur upp. Og allt kvöldið rökræði ég í huganum við sjálfa mig um það, hvort ég ætti að hlaupa út í sjoppu og kaupa mér "efnið" mitt.

Það er hægt að yfirfæra þetta á áfengissjúklinga. Ef freistingin stendur þeim alltaf til boða í matvöruverslunum, alla daga og langt fram á kvöld, þá getur lífið orðið þessu fólki enn erfiðara en það er þá þegar. Ef áfengissjúkir í bata, geta ekki einu sinni verslað í matinn án þess að freistingin standi beint fyrir framan augun á þeim, þá erum við ekki að gera þeim greiða. Mikilvægur hluti í bata áfengissjúkra er að lifa eðlilegu lífi, versla í matinn, hugsa um börnin sín, elda og reyna að eiga eðlilegt heimilislíf. Við tökum þetta af þeim með því að stilla áfengi upp í matvöruverslunum og með því gerum við engum greiða, hvorki þeim, fjölskyldum þeirra né samfélaginu í heild sinni.

Vissulega er áfengisfíkn ekki það sama og nikótínfíkn. Algjörlega ekki. Reykingar fólks hafa sjaldan eða aldrei áhrif á fjölskyldulíf þeirra, þátttöku í viðburðum fjölskyldunnar, vinnuástundun eða hegðun þess sem reykir. Vegna þess að nikótín breytir ekki meðvitund eða skynjun fólks á neinn hátt eins og áfengi og fíkniefni gera. Samt sem áður eru þetta hvorutveggja mjög sterkar fíknir og þegar fíkn tekur yfir heilann og hugsun, þá þurrkast út öll rökhugsun. Það er staðreynd. Svo það er í algjörri fáránlegri andstöðu að leggja svona frumvarp fram á meðan barist er gegn nikótíninu á þann hátt sem gert er. Læknafélagið lagði til á síðasta ársfundi sínum að nikótín yrði lyfseðilsskylt innan fárra ára. Og á meðan berjast einhverjir Sjálfstæðismenn fyrir því að aðgengi að áfengi verði auðveldara.

Það er ekki staðreynd að reykingafólk sé dýrasti sjúklingahópurinn í þjóðfélaginu en það er hins vegar staðreynd að offitusjúklingar eru það. Það er staðreynd að reykingafólk borgar MJÖG háa og eflaust réttmæta tolla og skatta af sinni fíkn, næstum 70% af hverjum keyptum sígarettupakka fer til Ríkisins og því hefur reykingafólk lagt inn töluverðar fjárhæðir fyrirfram hjá heilbrigðiskerfinu. Það er staðreynd að viðlíka há opinber gjöld eru ekki af fitandi matvælum. Það er líka staðreynd, að sá sjúklingahópur í þjóðfélaginu sem fer hvað mest vaxandi eru miðaldra áfengissjúkir. (Og þá erum við ekki að tala um gömlu góðu göturónana). Miðaldra áfengissjúkir eru oft þeir sem byrjuðu að kaupa sér bjórkippur öðru hvoru þegar bjórsala var leyfð á landinu árið 1989. Svo fór verð lækkandi á bjóri og léttvíni og þessi hópur fór að kaupa sér þessar vörur reglulega til að hafa það huggulegt. Þróunin varð þannig, að eftir ákveðinn tíma þótti það ekkert tiltökumál að fá sér bjór eða léttvínsglas þegar komið var heim úr vinnunni. Og eftir einhvern tíma urðu bjórarnir fleiri og glösin fleiri. Og eftir enn ákveðinn tíma var þetta orðið daglegt brauð. Og er það enn hjá mörgum. Þessi hópur er oft fólk í vinnu, með uppkomin börn og lítil barnabörn. Þessi hópur er á þeim aldri að hækkandi blóðþrýstingur, blóðsykur, kólesteról, hjartsláttaróregla, lungnasjúkdómar og jafnvel offitusjúkdómar eins og stoðkerfisvandamál, þunglyndi og fleira er farið að hrjá. Sumir hafa fengið blóðtappa og aðrir hjartaáföll. Sumir eitthvað annað. Þessi hópur er þess vegna oft á lyfjum og vegna drykkju gleymir þetta fólk stundum að taka lyfin sín, eða drekkur ofan í lyf sem ekki á að drekka ofan í. Þetta fólk eldist, dettur, mjaðmabrotnar, lærbrotnar, fær skurði á höfuðið, blæðingar inn á heila og sitthvað fleira. En í flestum tilfellum veldur það sínum nákomnu ómældum áhyggjum með sinni drykkju. Auk þess að kosta samfélagið formúgu.

Þurfum við endilega að auka á þessi vandamál með því að leyfa áfengi í matvöruverslanir? Er þetta ekki bara gott eins og það er? Ég veit að þetta er ekki eini þjóðfélagshópurinn sem drekkur og vandamálin eru langt frá því einskorðuð við þennan hóp. Ég ætla samt ekki að telja upp vandamálin sem tengjast drykkju yngra fólks með yngri börn, vinnutap, sálfræðileg vandamál og fleira..... og margt skelfilegt hjá yngri hópnum líka. Þetta var aðeins til að nefna dæmi.

Ég er ekki bindindismanneskja, mér finnst gaman að fá mér rauðvins- eða hvítvínsglas öðru hvoru, mér finnst gaman að opna bjór þegar sólin skín og ég ætla að grilla, fá mér rauðvínsglas á meðan ég skrifa jólakortin eða hvítvín þegar ég hitti vinkonu á kaffihúsi. Ég fæ mér örugglega hvítvínsglas oftar en margir. En ég get alveg haldið mig við áfengi í ÁTVR og þeirra opnunartíma. Og það held ég að flestir geti. Við gerum engum greiða með auknu aðgengi að áfengi. Ekki þeim sem eiga í vandræðum með áfengið, ekki fjölskyldum þeirra, ekki verslunareigendum og ekki okkur sem samfélagi.

Og ótrúlegt að á þessum tímum, þessum tímum sem eru verstu tímar okkar Íslendinga í lengri, lengri tíma..... þar sem margt fólk er niðurbrotið og margir leita í flöskuna, margir óvirkir sem riða til falls, þá skulu þessir ungu Sjálfstæðismenn ennþá vera að berjast fyrir auknu aðgengi að áfengi. Eins og það sé lykillinn að því að byggja okkar samfélag upp. Til þeirra vil ég segja: Lykillinn að traustu samfélagi felst ekki bara í peningum heldur enn þá meira í traustum fjölskyldum, fjölskyldum sem eru starfhæfar í samfélaginu og líður vel, ala upp börn með góð gildi og gott sjálfstraust, börn sem eru í íþróttum, fjölskyldur þar sem fyrirvinnurnar geta stundað sína vinnu og þar sem foreldrarnir sýna gott fordæmi. Þetta er lykillinn. Ekki að selja áfengi í matvöruverslunum. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Á meðan starfsfólk verslana er vart af fermingaraldri er ekki hægt að leyfa sölu áfengis í búðunum.    En víðast í Evrópu geturðu keypt léttvín og bjór í matvöruverslunum.  Alkoholistinn byrgir sig upp hvort sem er.

Hólmdís Hjartardóttir, 27.11.2008 kl. 21:00

2 Smámynd: Róslín A. Valdemarsdóttir

Hææææ frææænkaaa *risastórtveif*

Það þarf nú ekki að segja svona rosalega fallegt um mig sko, ég bara varð, þetta var svo flott mynd sko. Annars kemur ekki blogg frá mér fyrr en eftir 3. des aftur, svo gættu þín ker-lingin....

En reykir þú? Ekki datt mér það í hug!

Róslín A. Valdemarsdóttir, 27.11.2008 kl. 21:07

3 Smámynd: Lilja G. Bolladóttir

Er það Hólmdís? Það getur verið að "alvöru" alkóholistinn geri það, en allir hinir sem eru að berjast við að reyna að forðast freistingarnar? Og ég er að tala um þá sem ekki þá sem eru í aktívri neyslu og drykkju, hinir munu alltaf redda sér um sín efni anyway.  Hér erum við MJÖG ósammála, kæra bloggvinkona...... Þetta mun ekki verða til góðs.

En kæra Róslín frænka mín, ég hélt að þú hefðir ætlað að halda bloggpásu fyrir löngu sko, fyrir einhverjum mánuðum fékk ég póst frá þér um það, en svo gastu ekki setið á skoðunum þínum, litla kellingin mín

Lilja G. Bolladóttir, 27.11.2008 kl. 21:12

4 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Frábær pistill Lilja og góðar hugleiðingar, takk fyrir

Sigrún Jónsdóttir, 27.11.2008 kl. 21:38

5 Smámynd: Helga Linnet

Þegar þú kemur aftur úr óskilgreindu blogg-fríi, kemurðu með stæl :)

Ég hef aldrei horft á þessa sölu vína í matvöruverslunum með sömu augum og þú. Hef verið of grunn....eða eitthvað. Það er nokkuð mikið til í þessu að með sölu léttvíns í matvöruverslunum, ýtum við undir fíknina. Ég er forsjá eins og þú og fer í vínbúðina 1-2 í mánuði og kaupi mér eina rauðvín/hvítvín.

Ég hef ekki átt við áfengis- tóbaks- eða fíkniefnafíkn að stríða en hinsvegar hef ég átt við matarfíkn að stríða og freistingarnar í verslunum eru ótrúlegar.

Öll höfum við okkar djöful að draga og spurning hvernig við vinnum úr því.

Með rauðvínshittinginn...þá er ég til hvenær sem er. Það ert þú sem þarft að segja til. Ég er ekki í vaktavinnu eins og sumir  Endilega sendu mér skilaboð anytime.

Helga Linnet, 27.11.2008 kl. 21:43

6 Smámynd: Róslín A. Valdemarsdóttir

Ég er sko ENGIN kerling - svo sjáðu til elsku besta frænka mín, þá ætlaði ég að birta færslu sem ég ætlaðist ekki til að margir myndu lesa - en svo sko bara var hún svo ógeðslega vitlaust skrifuð (á ensku sko) að ég vildi það ekki..

Heeyrðu þú, ef þú hefur tíma þá verð ég í bænum 6. des til 8. des, svona ef þú hefur áhuga á að hitta litlu kellingu frænku þína í örskotsstundu!

Róslín A. Valdemarsdóttir, 27.11.2008 kl. 21:44

7 Smámynd: Kristín Bjarnadóttir

þú ert snillingur Lilja mín!

Kristín Bjarnadóttir, 27.11.2008 kl. 22:19

8 Smámynd: Guðrún Þorleifs

Váááá.........  ég var orðin nikótín-, áfengis- og offitubömmer á meðan ég las bloggið, fann þrýstinginn, hjartsláttinn, spikið og löngunina. Svo "rann af mér". Ég fattaði að ég var að lesa vel skrifað og hnitmiðað bloggið þitt, að ég reyki ekki, kaupi vínið mitt og bjórinn í áfengisverslunum, afar sjaldan í stórmörkuðum og aldrei á bensínstöðvum, að ég er farin að hreyfa mig aftur og verð því ekki tjökkuð upp ef ég fell. Að ég styð þig í að hætta að reykja, styð mig í að fara aftur á fullt í hreyfingu, styð hollustu og gleði og já við vitum hvað skiptir máli ....

Humm.... smá blogg hér vegna þess hve mér létti þegar ég fattaði að ég þjáðist ekki af þessu öllu  

GN

Guðrún Þorleifs, 27.11.2008 kl. 22:31

9 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Ég er líka alfarið á móti því að áfengi sé selt í matvöruverslunum.  Ef fólk ætlar að drekka þarf það að sýna fyrirhyggju og kaupa áfengið á opnunartímum Áfengisverslananna.  Samt held ég að enginn drekki óvart, það hlýtur að vera einlægur brotavilji þegar fólk sem hefur enga stjórn á drykkjunni.  Alkoholisminn er hræðilegur sjúkdómur, ég hef fengið fólk beint af Vogi á barinn til mín.  Ef það eru fastakúnnar neita ég að selja þeim áfengi, segi bara að það sterkasta sem það fái, sé kaffi eða te.  En það virkar ekki á neinn, fólk fer í burtu og kemur svo seinna fullt.   

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 28.11.2008 kl. 01:13

10 Smámynd: Lilja G. Bolladóttir

Ég hef aldrei spilað mig dómara yfir neinum, hvorki þegar ég vann á Vogi né síðar.... ef fólk vill drekka þá verður það að gera það, ef fólk vill dópa þá verður það líka að gera það, en hvorugt leyfist undir mínu eftirliti..... hvorki á Vogi né á öðrum stöðum í heilbrigðiskerfinu, þar sem maður hittir þetta fólk mjög, mjög oft. Reglan er einföld á LSH: ef þú ert í neyslu, þá ertu ekki á sama tíma að njóta meðferðar vegna fráhvarfa. Sumir vilja hafa báða hluti og snúa heilbrigðiskerfinu eftir sínu höfði og forsendum, og þá er það einfaldlega þannig: Svo lengi sem þú ætlar að hljóta meðferð hér gegn þínum kvillum, þá ferðu eftir okkar reglum. Ef ekki þú gerir það, þá verður þú bara að sjá um þig sjálf/ur.

Lilja G. Bolladóttir, 28.11.2008 kl. 03:41

11 Smámynd: Lilja G. Bolladóttir

Djöfull góð regla, reyndar, finnst mér  Er algjörlega búin að fá svo mikið af fíklum í mína umsjá, sem ætla að hafa allt "their way" og við sem heilbrigðiskerfið eigum að stilla okkur inn eftir þeirra þörfum, sem er algjörlega óásættanlegt gagnvart öllum.

Og ég veit, að allir sem þekkja mig, vita að ég hef ekki minnstu fordóma gagnvart þessum sjúklingahópi.... þeir eiga rétt á meðferð eins og við hin, en það verður að setja þeim afar stöng mörk, sem mér finnst að við eigum að vera enn harðari í að gera, heldur en við erum....

Anyway.... góða nótt  ....er í fríi fram á mánudag og finnst ég þess vegna komin í nokkurskonar sumarfrí......

Lilja G. Bolladóttir, 28.11.2008 kl. 03:48

12 identicon

já það er nefnilega eitthvað við þessa setningu "það er ekki hægt að hjálpa þeim sem ekki vilja hjálpa sér sjálfir" ...

Ásta Kristín Svavarsdóttir (IP-tala skráð) 29.11.2008 kl. 14:21

13 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Mér finnst þetta frábær pæling og hárrétt hjá þér.

Annars held ég að Sigurðar Kára verði minnst fyrir þetta lúxusvandmál hans og baráttuefni.

Hann er ekki maður stórra hugsjóna.

Ég brjálast ef bjórinn og vínið fer í búðir og auðveldar þar með aðgengi að því fyrir börn og hrjáða.

Jenný Anna Baldursdóttir, 29.11.2008 kl. 23:38

14 Smámynd: Sigrún Óskars

Vá hvað ég er sammála þér Lilja, ekki vín í matvörubúðirnar. Ég er líka sammála þér með reykingafólk vs fólk sem er of feitt. Þú þarft að hætta reykja fyrir hjartaaðgerð en þú þarft ekki að megra þig til að fá gerfilið í hné. og reykingafólkið er ekki dýrast fyrir heilbrigðiskerfið - offitusjúklingar eru á mjög dýrum lyfjum (maga- ,gigtar-,  þunglyndis -  og hjartalyfjum), sem kosta okkur helling.

Takk fyrir góðan pistil

Sigrún Óskars, 2.12.2008 kl. 15:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband