Ég þarf að dúta.....

Úff, enn og aftur andleysi og bloggstífla, en nú er ég sest hérna og ég ætla EKKI að skrifa neitt um efnahag, ríkisstjórn, Davíð og stýrivexti eða neikvæðan viðskiptajöfnuð...... en til að skrifa um eitthvað, þá ætla ég að skrifa um, kannski ekki svo frumlegt efni, en allavega mjög frumstæða þörf mannsins..... og jú konunnar Wink Ég ætla að skrifa um athöfnina að kúka.... ég er sem sagt komin niður á fimm ára planið í öllu þessu krepputali....

Eins og allir vita þá þurfa karlmenn að gera "númer tvö" miklu oftar en kvenmenn.... það er að minnsta kosti þannig að það fer ekki fram hjá neinum þegar athöfnin sú stendur til hjá karlpeningnum. Annaðhvort er það tilkynnt hátt og skýrt; "ég ætla á klósettið" svo allt heimilisfólk viti nú örugglega hvað nú standi til, dagblaðið eða annað blað jafnvel tekið og brotið hátíðlega saman og borið með viðhöfn inn á baðherbergið eða önnur dramatísk ritúöl viðhöfð fyrir athöfnina. Konurnar aftur á móti ganga bara inn á WC-ið og loka að sér og eru í kapphlaupi við tímann, því þær ætla að vera búnar áður en suðan kemur upp á hrísgrjónunum eða áður en Palli kemur heim með alla vini sína af fótboltaæfingu. Enginn tekur eftir því þótt þær bregði sér inn á baðherbergi öðru hvoru og enginn spáir í það þótt þær dvelji þar í einhverja stund heldur, því konur eru nú hvort eð er oft inni á baðherbergi annaðhvort að plokka augabrúnir, kreista fílapensla, prófa nýjar hárgreiðslur, testa photosvipinn eða bara einfaldlega að spegla sig frá öllum vinklum. Í minni litlu fjölskyldu sem telur tvo, gekk það meira að segja svo langt, að sonur minn lenti næstum því í slagsmálum þegar hann var fimm ára, því hann hélt því fram í staðfastri og einlægri trú sinni, að konur hvorki kúkuðu né prumpuðu. Það vildu nú félagar hans ekki gúddera... en þótt misjafn sé siðurinn á hverju heimili þá held ég því nú samt fram að að þessi athöfn, að kúka, sé nánast heilög karlmönnum á meðan hún er nauðsyn kvenfólkinu. 

Í fjölskyldu einni sem ég þekki til, er karlkynið í meirihlutanum og á þeim bænum hefur heimilismóðirin oft haft á orði að eiginlega hefðu þau þurft að hafa tvö baðherbergi, þar sem þeirra eina er oftar en ekki upptekið í lengri tíma í senn þegar karlmennin þurfa öll á klósettið seinni partinn og gildir þar lögmálið að sá sem hefur stysta úthaldið fær að fara fyrst og svo koma hinir á eftir.

Þannig fær sá minnsti yfirleitt forganginn svo hans stykki endi ekki í buxunum. Hann tilkynnir einfaldlega að hann "þurfi að dúta", tekur svo spidermankallinn sinn og dundar með hann á meðan setið er á klósettinu. Næsti tekur með sér tvö Andrésblöð og stendur ekki upp af settinu fyrr en búið er að blaða í gegnum bæði blöðin. Oft þá með rautt klósettfar á lærunum. Sá elsti hefur alltaf, frá því að hann varð koppavanur, haft þann siðinn á, að hann þarf að klæða sig úr hverri spjör áður en hann getur hafist handa. Og hann vill hafa hurðina opna. Stundum liggur þó mikið á og þá nægir að fara úr að neðan áður en hann sest og svo tínir hann spjarirnar af efri hluta líkamans í rólegheitum á meðan hann situr við. Koma þá gjarnan peysa, bolur og nærbolur fljúgandi með reglulegu millibili út um dyrnar. Kannski líka Liverpool-svitabönd og hárteygja. Já, það má með sanni segja að frummaðurinn búi í þessum gaur.

Sjaldan verð ég kjaftstopp en varð það þó í eitt augnablik þegar röðin loksins kom að heimilisföðurnum. Það er greinilega af sem áður var þegar karlmennirnir tóku Moggann eða Bílablaðið inn á bað sér til félagsskaps því þessi vippaði einfaldlega lab-toppnum með inn á baðherbergið. Enda augljóst að mun auðveldara er að hafa tölvuna á lærunum meðan á þessarri heilögu athöfn karlmannanna stendur, heldur en að ráða við heilt dagblað sem allt er laust í sér og vill detta í allar áttir.

Jahá, svona fer þá nútímamaðurinn á klósettið, hugsaði ég og gat eiginlega ekki annað en hlegið. Hvað erum við komin langt frá þeim tíma þar sem mennirnir vippuðu skýlunum sínum upp og grófu svo mold yfir heila klabbið....? Heppilegt allt þetta með þráðlaust net og litlar tölvur og já, bara alla nútímatæknina..... en hvað skyldu þau hafa verið djúp rauðu förin á lærunum á þessum eftir hans setu? Tölvan með þráðlausu neti er eins og blað sem aldrei klárast. Þú getur setið endalaust við og þarna færðu í það minnsta frið til þess.....

Hér er ró og hér er friður

Hér er gott að setjast niður

Hvíla sínu þungu þanka

þar til einhver fer að banka

Þá er mál og mannasiður

að standa upp og sturta niður

Ójá, ég skil vel að þessa konu langi í tvö baðherbergi á heimilið sitt......


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Róslín A. Valdemarsdóttir

!
Ég telst ekki sem kvenmaður samkvæmt þessu, þar sem ég segi alltaf heimilsfólkinu frá því þegar ég ætla á klósettið eða að ég þurfi á klósettið... ( reyndar bara til að gera þeim til (ó)geðs....)

Það að geta sagt fólki að maður sé farin á klósett hlýtur að skýra útaf fyrir sig hve mikinn húmor fólk hefur fyrir sjálfu sér!

Róslín A. Valdemarsdóttir, 4.11.2008 kl. 19:10

2 Smámynd: Haraldur Bjarnason

Eins og hún hornfirska frænka þín segir Lilja, þá er ég varla karlmaður miðað við þessa lýsingu.

Haraldur Bjarnason, 4.11.2008 kl. 19:51

3 Smámynd: Lilja G. Bolladóttir

 .....þetta á líka bara við meirihluta fólks, líklega fellur hornfirska frænka mín hún Róslín undir annan katagori og þú undir þann þriðja.....

Og kannski ekki, þetta átti bara að vera færsla langt frá öllu öðru sem við erum endalaust að tyggja á..... mátti alveg fá fólk til að brosa

Lilja G. Bolladóttir, 4.11.2008 kl. 20:07

4 Smámynd: Lilja G. Bolladóttir

Ég held samt að það sé fullt af húsmæðrum sem kannast við þessa lýsingu af förum drengja þeirra, bæði stórra og smærri, á WC-ið......

Lilja G. Bolladóttir, 4.11.2008 kl. 20:21

5 Smámynd: Róslín A. Valdemarsdóttir

Hvað er katagori? Allltaf er ég að læra eitthvað nýtt!
og á meðan ég man, ég er ekki hornfirsk fyrir fimm aura...... kannski tíu, en ekki fimm!

Róslín A. Valdemarsdóttir, 4.11.2008 kl. 20:22

6 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

þetta er nú algert skítablogg

Hólmdís Hjartardóttir, 4.11.2008 kl. 20:24

7 Smámynd: Lilja G. Bolladóttir

Ohhhh, what a shit......

Lilja G. Bolladóttir, 4.11.2008 kl. 21:35

8 Smámynd: Sigrún Óskars

þú ert óborganleg - allt í einu rifjaðist upp fyrir mér þegar börnin kölluðu: "koddað geina mig"    

Sigrún Óskars, 4.11.2008 kl. 22:08

9 Smámynd: Guðrún Þorleifs

"Skal vi lave pølser"?

Guðrún Þorleifs, 5.11.2008 kl. 06:41

10 Smámynd: Húsmóðir

man eftir þessu tímabili " maaaammmmaaaa, ég þarf að kúka með ( og svo kom nafnið á bókinni sem var í uppáhaldi þá stundina ) "  og þá var eins gott að þurfa ekki á klósettið á næstunni.  Það var reyndar alveg viðbúið að hinn bróðirinn þyrfti að kúka akkúrat á sama tímabili.  Því var yfirleitt bjargað með appelsínugulum plastkoppi og svo sátu þeir bræður saman í skítalyktinni og skoðuðu sitthvora bókina.   Dááááásamlegar 10-15 mínútur í friði og ró fyrir mömmuna   Svo heyrðist "búúúiiiinnnn " og þá mátti mamman gjöra svo vel að fara inn á bað í tvöfalda skítalyktina og skeina tvo kúkarassa.    

Húsmóðir, 5.11.2008 kl. 09:47

11 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Fullkomið "hægðarapp" hjá hjúkkunni. Búúúiiin.......að lesa

Sigrún Jónsdóttir, 5.11.2008 kl. 11:40

12 Smámynd: Róslín A. Valdemarsdóttir

Úff, ég var að taka eftir því rétt áðan, rétt fyrir tíma að ég sagði yfir krakkana sem eru í Söguáfanganum, og reyndar voru eiginlega bara strákar komnir að ég þyrfti alveg svaaakalega að pissa...

Róslín A. Valdemarsdóttir, 5.11.2008 kl. 15:01

13 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

OOOhhh Shit, nokkra rassana hefur maður skeint um æfina.     Skemmtileg færsla hjá þér, svona er maður ekki að hugsa um svona dags daglega. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 6.11.2008 kl. 02:08

14 identicon

Hæ elsku Lilja mín.

Hahahaha, guð þetta með lap-toppinn er náttl. bara hin mesta snilld. Fyrst finnst manni þetta eitthvað hálf-ógeðslegt, en svo hugsar maður, hey, fyrst að það er í lagi að fara með blað, af hverju ekki tölvu? Hehe. Já, eitt klósett með svona marga karlmenn er skiljanlega erfið þraut og húsmóðirin hefur alla mína samúð:o) Frábært annars að lesa nýtt blogg frá þér, svona létt og skemmtilegt, ekki um helvítis hagfræði og pólitík Sakna þín skvís, hér er allt brjál í vinnunni hjá mér, maður er alveg búin á því, en þó þakklátur fyrir að hafa vinnu. Ég ætla að halda í þá bjartsýni að við hittumst vonandi fljótlega dúllan mín. Þú veist alla vegna að ég hugsa alltaf til þín. Knús og kremj

Gunna (IP-tala skráð) 10.11.2008 kl. 15:20

15 Smámynd: Helga Linnet

ég er nú svo heppin að það er bara einn karlmaður á þessu heimili...en ég skil þetta samt vel

Skemmtilegur pistill

Helga Linnet, 12.11.2008 kl. 22:21

16 Smámynd: Kristín Bjarnadóttir

þú ert nú meiri snillingurinn

ég hló og hló

kv.Didda

Kristín Bjarnadóttir, 15.11.2008 kl. 00:05

17 Smámynd: Sævar Einarsson

Mig langar að benda ykkur á þessa færslu hjá mér ef ég má -->
Sævarinn vill EKKI skoða ESB-aðild !

Sævar Einarsson, 15.11.2008 kl. 11:23

18 Smámynd: Lilja G. Bolladóttir

Sérstakar kveðjur til þín, Didda mín, takk fyrir að lesa  ....en að sjálfsögðu líka þakkir til ykkar hinna, kæru bloggvina.

Lilja G. Bolladóttir, 15.11.2008 kl. 20:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband