21.10.2008 | 17:46
Tyggjóklessu afgreiðandi krakkar í matvörubúðunum.....
Ég versla yfirleitt í Nettó í Breiðholtinu, að minnsta kosti öll þessi stærri innkaup. Þar hef ég ítrekað tekið eftir því undanfarið að hilluverði ber ekki saman við kassaverð.
Á föstudaginn sl. tók ég eftir fimm villum á strimlinum mínum, en vegna þess að ég er húðlöt en mest vegna þess að bæði var ekki um nema nokkrar krónur að ræða og svo var löng biðröð fyrir aftan mig á kassanum.... þá nennti ég ekki að gera neitt í málinu og gekk út kyngjandi þeirri staðreynd að verslunin væri að snuða mig um nokkra tíkalla. Ég ákvað bara að kyngja staðreyndinni betur með rauðvínssopa þegar heim væri komið. Það pirraði mig þó svolítið að ég skyldi vera svo meðvituð um fólksfjöldann fyrir aftan mig, að ég skyldi ekki nenna að standa í "því veseni" að fá þessar krónur endurgreiddar frá búðinni.
Í dag var hins vegar lítið að gera í Nettó þegar ég átti smáinnkaup þar. Ég gerði eins og ég er vön, renndi yfir strimilinn minn áður en ég fór út úr búðinni. Þá tók ég eftir því að kassaverðið á 2ja lítra Coca Cola flösku var 196 kr., en það fyrsta sem blasti við fólki þegar það gekk inn í verslunina var þó stórt skilti þar sem flaskan var auglýst á 185 kr. Ég ákvað að í þetta skiptið ætlaði ég ekki að vera aumingi, ég ætlaði ekki að láta búðina komast upp með þetta oftar. Svo ég sneri aftur að kassanum, beið á meðan afgreiðslustúlkan afgreiddi eldri konu og benti svo stúlkunni á þessi mistök af þeirra hálfu. Ég sá strax að maðurinn sem var næstur í röðinni, rúllaði augunum með pirringssvip en ákvað að láta það ekkert á mig fá. Leit svo á að ég væri að gera okkur báðum greiða til lengri tíma litið.
Afgreiðslustúlkan hins vegar leit áhugalaus á strimilinn og svo á mig á meðan hún var næstum farin úr kjálkaliðnum í átökum við stærðar tyggjóklessu uppi í sér. Svo sagði hún: "Kar stendur þa'eilla?"
"Þarna", sagði ég og benti henni á skiltið sem blasti vel við okkur báðum.
Þá dæsti stelpuskrípið og sagði í mæðutón: "Ka, ætlarru að far'a æsa þig úta elleu kronnum?"
Mig langaði að stökkva yfir borðið og taka í hálsmálið á henni, svona eins og gert er í bíómyndunum en í staðinn horfði ég blákalt á hana og sagði að ég væri ekki æst, en ef ég þyrfti þess þá myndi ég hiklaust æsa mig.
Sú stutta þurfti nú að ráðfæra sig við einar þrjár aðrar áður en hún með semingi dró ellefu krónurnar mínar úr búðakassanum sínum og skellti þeim með vanþóknunarsvip á borðið.
"Þakka þér", sagði ég og brost breitt. "Ég vona að ég hafi ekki sett daginn úr skorðum fyrir þér." Og út strunsaði ég með krónurnar mínar í vasanum.
Og það er ekki af því að mig muni rassgat um þessar krónur, en þetta var bara prinsipp mál. Margar ellefu krónur verða að hundrað köllum og margir hundraðkallar verða auðveldlega að þúsundköllum, og þeir eru mun betur geymdir í mínum vasa heldur en í kassanum í Nettó, sem aflar þeirra meira að segja á óheiðarlegan eða slælegan hátt.
Svo má heldur betur fara að kenna þessum krökkum sem standa þarna við kassana, í fyrsta lagi að tala, í öðru lagi að spýta út úr sér tyggjóklessunni og í þriðja lagi að sýna viðskiptavininum kurteisi.
Hún var bara þokkalega ánægð með sig, Liljan sem rambaði með tvo poka út úr Nettó eftir hádegið í dag. That felt good, og ég ætla ekki að hika við að gera þetta aftur. Sama hvað margir fúlir kallar rúlla augum í biðröðinni fyrir aftan mig og sama þótt afgreiðslukrakkinn kafni í tyggjóklessunni sinni af vanþóknun.
Athugasemdir
Gott hjá þér Lilja. Ég mundi gera þetta sama jafnvel þótt væri út af einni krónu. Það er verst að maður þarf orðið að setja upp gleraugu til að sjá verðmiðan og hvað þá strimilinn.
Haraldur Bjarnason, 21.10.2008 kl. 17:57
Flott hjá þér. Hvað ætli þær séu margar þessar 11 krónur?
200 manns kaupa coca cola á tilboðsverðinu kr. 185.- en borga fyrir það kr. 196.- = kr. 2.200.- í gróða fyrir búðina á þessari einu vörutegund.....hvað með allar hinar vörutegundirnar, sem þeir eru að svindla á okkur með vitlausu hilluverði?
Bráðum verðum við sérfræðingar í neytenda eftirliti, og var þá kominn tími til.
Sigrún Jónsdóttir, 21.10.2008 kl. 18:01
Góð!
Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 21.10.2008 kl. 18:08
Datt í hug færsla sem ein vinkona mín úr SDB var með um daginn. Þið eigið það sameiginlegt að hafa báðar búið í DK, það kennir manni að hugsa öðruvísi um verðlag. Hér er hennar færsla
Hefði nú alveg viljað vera í Nettó og fylgjast með. Það hefði ekki tafið mig Finnst gott að fólk sé meðvitað um hvað það er að borga fyrir.
Kveðja úr Neðra
Guðrún Þorleifs, 21.10.2008 kl. 18:15
Kjarkurinn í þér kona!
Taka þessar stelpur bara upp á herðarblöðunum og segja þeim til syndanna...
Nei ég segi svona, en ég verð að viðurkenna að ég dáist af svona!
OG fyrst þú verslar við Nettó, þá fann ég í Nettó í minni heimabúð eitthvað fyrir fólk sem vill virkilega spara; Freyju "haltukjafti" karamellur 200 gr á 89 kr. pokinn!
Annars já, þá held ég að ég hefði ekki vilja vera þessi tyggjóklessuafgreiðslustúlka! Það þarf að vera kjarkaður til þess að standa við búðarkassa í dag!
Róslín A. Valdemarsdóttir, 21.10.2008 kl. 19:51
Bravo Lilja......nákvæmlega það sem við eigum að gera.
Hólmdís Hjartardóttir, 21.10.2008 kl. 20:51
Auðvitað áttu að standa á þinu. Ég hef lent í samskonar atviki í Hagkaup í Garðabæ, en þar er oft (og sjálfsagt í öðrum Hagkaupsbúðum) svínakjöt í pökkum með gulum límmiða sem á stendur 50% afsláttur á kassa, oftar en einu sinni hef ég gert athugasemd við að ég hafi ekki fengið viðkomandi afslátt og fengið endurgreitt mismunin. Það er óþolandi að ekki sé hægt að treysta kassakerfi búðanna og starfsfólkið virðist ekki heldur gera neina tilraun til að laga þetta. Eins þykir mér óþolandi ílla verðmerktar verslanir. En það er viðloðandi vandamál i mörgum verslunum.
Best að hætta að tuða, en auðvitað á fólk að standa á sínu og gott hjá fólki að fylgjast með verðlagi.
Leifur Runólfsson, 21.10.2008 kl. 21:58
Vá hvað við gætum verið skyldar vúman. Er að byrja á þessu núna, þ.e. að bera saman kassa- og hilluverð, geyma strimla og fylgjast með. Fram að þessu hef ég ekki einu sinni kíkt á mismun milli ýmissa tegunda af sömu vöru. Kastaði öllu hugsunarlaust ofan í körfuna.
Enda erum við íslenskir neytendur búin að fá það sem við eigum skilið fyrir grandvaraleysið.
Nú verða brettar upp verðkönnunarermar og ég ætla ekki að láta smáborgarann í mér skemm það.
Jenný Anna Baldursdóttir, 21.10.2008 kl. 23:01
Þau virðast ekki kunna kurteisi mörg íslensk ungmenni, og þau virðast veljast sérstaklega í afgreiðslustörfin í lágvöruverslununum. Auðvitað er það sjálfsagt að fá leiðréttingu strax án vandkvæða, ég er búin að fylgjast með hillu og kassaverði í mörg ár.
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 22.10.2008 kl. 00:48
Hehe, Haraldur, tími til að taka stækkunarglerið með sér út í búð, eins og Sherlock Holmes. Ég segi samt það sama, ég mundi gera þetta aftur, fyrir minni pening....
Sigrún; nákvæmlega, og hvað ætli svona tíkall hér og þar kosti okkur neytendur??
Jóga mín; takk, og ég stefni á það að verða betri í þessum efnum....
Guðrún; við hittumst kannski í Nettó einhvern daginn, og þá vona ég fastlega að þú efnir fyrra loforð um að vera syngjandi.....
Takk annars fyrir að benda á þessa færslu, hún var mjög skemmtileg....
Róslín stelpan mín; ég veit alveg hverjum ég ætla að gefa svona haltu-kjafti-karamellur.....
Hólmdís; takk, og já, nú skulum við vera duglegar.....
Leifur; voru þetta svínalundir??? Því foreldrar mínir búa þarna í Garðabæ og hafa ítrekað lent í þessu í Hagkaup í Garðabæ, þ.e. að sýndur afsláttur er ekki gefinn við kassann..... Mamma mín er bara frekari en ég, hún keyrði sér ferð til þess að fá afsláttinn endurgreiddann, gott hjá henni!!!
Skamm, skamm, Jenný..... þá erum við ekki skyldar, vúman..... ég tékka alltaf á verðmismun þótt ég stundum velji dýrari vöruna samt, bara e.t.v. gæðanna vegna eða vegna annars....... en við verðum að vera á verðvaktinni..... allavega passa að við séum ekki að borga meira á kassanum heldur en hilluverðið segir til um..... þú ert nú samt ágæt ....
Jæja, ætla í bólið....
Knús á ykkur öll fyrir kommentin ....
Lilja G. Bolladóttir, 22.10.2008 kl. 00:49
......og Jóna Kolbrún mín, sem læddist hérna inn á meðan ég skrifaði hitt kommentið..... já, er þetta ekki merkilegt með þessi hrokafullu, dónalegu ungmenni, sem virðast halda að við séum í versluninni fyrir þau en ekki öfugt...??? Ég veit að ég hljóma eins og gömul kelling þegar ég segi, að ég sver það, að þótt ég sé ekki gömul í árum talið, þá er samt kynslóðamunur á minni kynslóð og þessarri ungu í mannasiðum!!! Og ég stend fyllilega við það, dónaskapur, hroki og agaleysi virðist vera allsráðandi hjá yngra fólki "í dag", svo ég hljómi nú enn eldri.....
Lilja G. Bolladóttir, 22.10.2008 kl. 01:22
Skemmtilega skrifað, haltu þessu áfram, þú lifgar uppá daginn
Vilhjálmur (IP-tala skráð) 22.10.2008 kl. 12:02
Hver fær svona haltukjafti karamellu? Þú veist af litlu frænku þinni á Höfn, hún er algjör sælgætisgrís og finnst karamellur svakalega góðar
Róslín A. Valdemarsdóttir, 22.10.2008 kl. 20:37
Takk Vilhjálmur
Róslín mín, ég var langt því frá að hugsa um þig, heldur var ég að hugsa um allt annað fólk, sem ég get ekki nefnt hér opinberlega.....
Ég skal hins vegar alveg gefa þér nokkrar ekk-haltu-kjafti-karamellur einhvern tímann
Lilja G. Bolladóttir, 23.10.2008 kl. 02:59
Sæl Lilja.
Þetta er einmitt það sem þú átt alltaf að gera því þeir hugsa sem svo .Hver nennir að eltast við 2,5,7 eða 9 krónur. En það er fljótt að renna í + deildina hjá þeim ef við gerum ekkert,og í-deildina hjá okkur. Ég er buinn að gera þetta lengi og skiftir engu máli hvað það eru margir á eftir mér. Rétt skal vera rétt.
Keep on going! Kærleikskveðja
Þórarinn Þ Gíslason (IP-tala skráð) 23.10.2008 kl. 07:50
Var að líta aftur yfir bloggið og er smá að spá varðandi þessa ókurteisu tyggjóklessukynslóð. . . Hver er ástæðan fyrir þessu kunnáttuleysi þeirra í hegðun og framkomu? Hafa foreldrar þeirra verið svo mikið til staðar sem fyrirmyndir, ef við berum saman þann tíma sem þau hafa fengið með sínum foreldrum og sem við fengum sem teljum okkur kunna almenna framkomu? (...og erum við þó á sitthvoru "aldurs árinu")
Eitt af því sem ég vona að komi jákvætt út úr þessu þjóðaráfalli er að fjölskyldur í landinu fái meiri gæðatíma saman. Tíma sem er t.d. notaður í gönguferð úti í náttúrinni (kostar ekkert) frekar en hryllingsferð í verslunarmiðstöð um helgi
Hlakka til að fylgjast með þessu.
Kveðja úr Neðra
Guðrún Þorleifs, 23.10.2008 kl. 09:42
Heyrðu Lilja!
Ég var út í búð í gær og neibb, ég skal segja þér það að þau eru búin að hækka karamellurnar um heilar 200 krónur!!
En ég skal sko þyggja ekkihaltukjafti karamellur.....
Róslín A. Valdemarsdóttir, 24.10.2008 kl. 15:33
Anna Ragna Alexandersdóttir, 25.10.2008 kl. 20:22
gott hjá þér Lilja, maður á að gera þetta - rétt skal vera rétt. Ég geri þetta alltaf í Bónus (í Hafnarfirði) og það er ekkert mál að fá leiðréttingu þar.
Hagkaup í Garðabæ er illa verðmerkt og vitlaust verðmerkt - enda nennir maður ekki í svoleiðis okur-verslanir.
Sigrún Óskars, 26.10.2008 kl. 22:30
Gott hjá þér. Flott flott. Ég hef staðið sjálfa mig að því að ''nenna'' ekki að tuða yfir nokkrum krónum. Af misskilinni tillitssemi við fólkið í röðinni.
Jóna Á. Gísladóttir, 28.10.2008 kl. 22:10
Lilja, þú ert flott - ég misskildi fyrst nafnið þitt liljabolla og hélt þú værir fitubolla, en svo ertu bara Bolladóttir og engin bolla.
persóna, 30.10.2008 kl. 11:08
Maður er alltof latur við að skoða strimilinn, og sjálfur nenni ég yfirleitt ekki að standa í þessu, en ég dáist að þeim sem nenna því og ég er ekki frá því að ég geri það sama og þú næst þegar búðamafían ætlar að svindla á mér!
En þó svo að ég sé bara 24 ára, þá vil ég halda því fram að það sé mikið kynslóðarmunur á minni kynslóð og þessari "tyggjóklessu" kynslóð. Þegar ég vann í búð 15-16 ára gamall, þá var alltaf farið eftir þessu klassíska "Kúnnin hefur alltaf rétt fyrir sér". Enda er það kúnnin sem borgar launin, held þessir krakkar þurfi að gera sér grein fyrir því.
Andrir (IP-tala skráð) 31.10.2008 kl. 12:49
Yndislegt hvernig þú kemur því í ritmál hvernig þessir gríslingar tala LOL "Kar stendur þa'eilla?" þú ert snilld.
Sævar Einarsson, 1.11.2008 kl. 11:43
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.