23.9.2008 | 20:13
Ísland fyrir unga fólkið, eða gamla.... BULL SHIT!!! ...Ísland fyrir ráðherrana!!! YEAH...
Ég stend á krossgötum þessa dagana. Ég er einstæð móðir með einn ungling á framfæri, ég er með fjögurra ára háskólamenntun auk fjölmargra kúrsa, námskeiða og háskólakúrsa á mastersstigi, en laun mín fyrir þessa menntun, eftir nærri 10 ára starfsreynslu, duga varla mér og syni mínum til framfærslu. Ég þakka bara guði fyrir að ég er ekki einstæð með þrjú börn og enga háskólamenntun. Þá væri ég á Félagsmálastofnuninni, það er alveg næsta víst.
Ég vinn aldrei minna en 100% vinnu, miklu oftar um 120% vinnu, og slaki ég á einn mánuðinn, þá vinn ég það upp þann næsta með því að vinna kannski 140-160% vinnu. Samt er ég alltaf að ströggla. Ég leyfi mér alveg einhverja hluti, eins og til dæmis reyki ég, sem kostar stórfjár, og við förum til útlanda á hverju ári, en í staðinn eyðum við ekki miklu í föt, húsgögn og annað því um líkt, a.m.k. ekki föt á mig. Unglingurinn er auðvitað unglingur, sem stækkar og þroskast og þarf stöðugt ný föt og stækkar stöðugt upp úr skónum sínum, hann þarf líka að fylgjast svolítið með í tískunni. Hann æfir fótbolta, og íþróttir eru ein besta forvörn fyrir vímuefni af hverju tagi og þess vegna borga ég með gleði fyrir það, að hann skuli haldast í fótboltanum.... en það þarf að borga félagsgjöld, kaupa gervigrasskó og takkaskó jafnóðum og hann vex upp úr þeim gömlu, þótt það sjái varla á þeim gömlu, hann er bara að vaxa svo hratt. Ég, hins vegar, eyði hvort eð er nær öllum mínum tíma í hvítum sjúkrahúsfötum, svo mér nægir að eiga föt til að komast í og úr vinnu, og svo nokkur dress til að fara út að djamma, sem reyndar gerist æ sjaldnar, og svo kannski ein stígvél og eina kápu..... then I'm set.....
Ég er að kaupa mína fyrstu eigin íbúð og það var ekki létt verk og hefði alls ekki verið mögulegt fyrir mig, nema foreldrar mínir hefðu hjálpað mér verulega, sem þau gerðu og get ég aldrei þakkað þeim nóg fyrir þann stuðning. Ég átti líka nokkrar skuldir frá námsárunum, því það lifir engin einstæð móðir af 80.000 kr. á mánuði, eins og ég fékk greitt mánaðarlega á mínum námsárum..... og oft minna, þar sem ég lærði í Danmörku fékk ég greitt samkvæmt genginu hverju sinni og fékk oft minna fyrir lánið en planið var. Þar af leiðandi safnaði maður sér óneitanlega einhverjum yfirdráttarlánum og jafnvel öðrum lánum, sem maður í dag sýpur seyðið af. Plús það að í dag er ég að borga rúmlega eins mánaðartekjur á ári, í afborganir af þessum "góðu" námslánum.
Ég fæ útborguð X- laun og af þeim fer stór hluti í greiðsluþjónustu, sem sér svo um að borga flesta mína föstu reikninga, og þar inni í eru tryggingar, LÍN, afborganir af skuldabréfum, RÚV (fyrst maður hefur ekkert val um það (!!)), orkuveitan, skólamatur fyrir krakkann og sitthvað fleira. Símareikning, Visa, Moggann og Stöð 2 sé ég sjálf um, því ég vil geta haft um það val, hvort ég kaupi þá þjónustu frá mánuði til mánaðar. Starfs míns vegna, vil ég hafa Stöð2 og Stöð2 sport2 í áskrift, því sonur minn ver mörgum kvöldum einn heima á meðan ég er að vinna, og þá finnst mér það viss sárabót fyrir hann að hafa aðgang að fjölbreyttari dagsskrá í sjónvarpinu, auk þess sem hann elskar auðvitað fótboltann á íþróttarás Stöðvar 2. Lái mér hver sem vill, en svona vil ég hafa það. Og mér finnst að ég ætti að hafa svigrúm til þess að leyfa syni mínum þetta, sem sárabætur fyrir það að mamma hans er að heiman fleiri, fleiri kvöld mánaðarins. Og jú, hann "vinnur" örlítið fyrir því með því að vaska upp á heimilinu ....stundum....
Um nokkurra mánaða skeið hef ég haldið saman kvittunum úr matarbúðum sem ég hef verslað við. Um daginn gerði ég upp septembermánuð, þótt hann sé ekki búinn, og hafði ég þá þegar eytt meira en helmingi af ráðstöfunartekjum okkar í mat. Og þá var ég samt búin að "highlæta" og draga frá ýmsan ónauðsynlegan kostnað, þ.e. kaup á einhverju sem má vel missa sín, en ég gjarnan vil hafa og eiga til að skapa hlýlegra andrúmsloft á mínu heimili, eins og t.d. kerti(!), gos, kex og ýmsa smáhluti. Það er vel ekki bannað í kreppunni að hafa það kósý og gott heima hjá sér, eða hvað??? Ég held allavega ekki að ráðherrar okkar neiti sér um þennan kostnað, þótt þeir séu mjög duglegir við að hvetja okkur hin til að spara.
Spurningin er: Hvar eigum við að spara, hæstvirtur ráðherra? Eigum við að spara í ljósanotkun, klósettpappír, hætta að þvo fötin okkar eða fara í sturtu í sundlaugunum í staðinn fyrir heima hjá okkur???? Svara þú mér því, Geir Hæsti Haarde eða Árni dýralæknir. Hvar eruð þið að spara? Segið okkur það. Eruð þið bara að éta nautahakk í staðinn fyrir piparsteik eða T-bone? Eruð þið að taka strætó í stað þess að keyra um í einkabílum? Eruð þið að handþvo þvottinn ykkar til að spara rafmagn?? Eruð þið að margnota fötin ykkar til að spara efnahreinsun á þeim, sem er á kostnað ríkisins?
Mér þætti gaman að vita hvar okkar "hæstvirtu", (og ég set það í gæsalappir, vegna þess að í mínum augum eru þeir ekkert hæst.... eitt eða neitt), herrar eru að spara, fyrst þeir eru svo duglegir að predikera fyrir okkur að spara í einkaneyslunni.
Einn vinnufélaga minna minntist á það í dag, að hún ætlaði að flytja erlendis um jólin. Og hún hvatti mig til að koma með. Við eigum syni á svipuðum aldri, myndum flytja í alþekktan Íslendingabæ í Svíþjóð, gætum leigt saman 200 fermetra hús fyrir minna en það sem við hvor um sig erum að borga í afborganir af okkar, minna en 100 fermetra húsnæði, við myndum vinna sömu vinnu fyrir hærri laun og það sem mestu skiptir, fá meira fyrir þá peninga sem við ættum eftir þegar búið væri að borga fastar skuldbindingar. Við gætum lifað lífinu, borðað gott og leyft okkur einhverja smáhluti án þess að vera með í maganum í þrjá mánuði á eftir. Og já, ég verð að segja, að ég er alvarlega farin að íhuga þennan kost. Flytja af þessu landi, þar sem maður er kúgaður af glataðri mynt, einokun í flugfargjöldum, óheyrilega dýru matvælaverði, háum vöxtum og verðtryggingu. Ég er farin að skoða íbúðir í Svíþjóð og stefni á að flytja í vor þegar unglingurinn klárar þennan bekk.
Og það sem verra er, ég er ekki ein um að íhuga þetta. Ég vinn á mjög fjölmennum vinnustað og á þeim vinnustað eru margir að hugsa sér til hreyfings, og þá, að huga á flutning til annarra landa. Er þetta það sem íslenska ríkisstjórnin er að reyna að fá fram? Er þetta það sem hún vill? Að missa stóran hluta af sínum vinnandi ungmennum, sem nota bene eru líka háskólamenntaðir, til erlendra ríkja, vegna þess að íslenska ríkið er svo ófjölskylduvænt, óhagstætt, of óstöðugt, gerir allt sem það getur til þess að erfiða ungu fólki íbúðarkaup, er með endalausar verðtryggingar á öllu, óstöðuga verðbólgu og yfirhöfuð ömurlegt efnahagsástand til að lifa og búa við. Við erum unga fólkið sem eigum eftir að ráða yfir landinu, en mörg okkar hafa ekki einu sinni áhuga á því, við viljum bara flýja landið okkar, og helst ekki koma aftur.... íslenska ríkið er að missa dampinn og ekki bara það, íslenska ríkið er hið nýja Pólland....eða Eistland, Lettland, Litháen. Fólk er að flýja héðan í stórum stíl á meðan stjórnvöld segja að það sé allt í lagi.... Everything´s gonna be all right og allt það kjaftæði.... Well, it ain't.....
Nei, við erum mörg sem getum gert betur. Okkar starfskrafta er óskað í mörgum löndum þar sem hagstæðari efnahagsskilyrði eru, og að sjálfsögðu flýjum við og sækjum í þann kost. Við höfum val og við munum nýta okkur það. Og kannski er íslenska ríkisstjórnin þá fyrst að ná fram vilja sínum; að losna við margar gagnrýnisraddir svo hún geti farið sínu fram með sínum fautaskap.
Ég er farin að huga að mínum flutningi frá þessu landi. Ég vil geta lifað góðu lífi án þess að myrða mig á vinnunni. Ég vil geta borðað góðan mat án þess að blæða fyrir það. Og ég vil geta ferðast, án þess að Icelandair sé stöðugt að hafa mig að fífli.
Adios Islandos.....
Athugasemdir
Ég er ekki alveg að skilja nöldrið í þessum sem ráða á þessum klaka!
Erum við ekki tvöhundruðþúsund manna þjóð? Ein af þeim hæðstu á Lífskjaralistanum, og því ætti kostnaður að vera minni - eða laun hærri og kostnaður haldist.
Ekki veit ég hvernig foreldrar mínir komast af með eitt barn í Háskóla ( þau borga held ég allan kostnað + húsnæði ), eitt 25 ára sem býr enn heima hjá sér að hluta til en vinnur þó fyrir sér sjálft og einn ungling - mamma vinnur sem skólaliði, sem fær líklega helmingi minni laun en kennarar og sér um þrif og útiveru krakkanna. Og pabbi hjá íþróttafélagi, á svona pínuponsu litlum stað, krummaskuði sem fáir sem ekki eiga ættingja/kunningja, búa ekki eða hafa ekki búið á geta bent á á landakorti... og til þess að einfalda málið þá er Nettó eina matvörubúðin!....
Æ - hvað veit ég, ég er bara vitlaus unglingur....
Þetta getur ekki verið gott með þig og Jóhann!
( En verð bara að bæta því við að mér finnst það rökrétt hugsað hjá þér að hafa stöð 2 og stöð 2 sport, fyrir Jóhann! )
Róslín A. Valdemarsdóttir, 23.9.2008 kl. 20:37
Lilja mín þetta er tónninn sem ég heyri í kringum mig. Og ég heyrði í fréttunum áðan viðtal við Pólverja á heimleið sem sögðu að lífiðð á Íslandi væri bara vinna. Og við hefðum það ekki betra en fólk í Póllandi. Ég er orðin dauðþreytt á eilífðarþrældómi sem bitnar síðan á börnunum....bara til að geta eitthvað gert annað en að borða og sofa...En þetta er svo sannarlega fyrirséð fólk fer að týnast í burtu....
Hólmdís Hjartardóttir, 23.9.2008 kl. 20:54
Þetta er allavega ekki tíminn til að flytja til Islands
Guðrún Þorleifs, 23.9.2008 kl. 20:57
Ég skora á þig Lilja að fá þessa grein birta í Fréttablaðinu (fleiri, sem lesa það en Mbl).
Láglaunastefna stjórnvalda mun að lokum lækka þann gæðastimpil, sem ísl. heilbrigðisþjónusta hefur haft. Og þetta ástand hefur haft langan aðdraganda, er ekkert að byrja núna á þessum síðustu og verstu.
Sigrún Jónsdóttir, 23.9.2008 kl. 21:03
Frábær pistill. Þetta er ótrúlegt. Greiðsluþjónustan mín hækkaði um 40 þúsund núna í sumar, allir reikningar höfðu hækkað svo mikið. Finn illa fyrir því. Matarreikningurinn hefur líka hækkað um 10-15 þúsund á mánuði og þykir samt ekki hár. Hver tímir að kaupa læri eða hrygg í sunnudagsmatinn núna? Ekki ég. Skil vel að þú íhugir að flytja til útlanda.
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 23.9.2008 kl. 21:34
Góður pistill hjá þér mín kæra. Get sko tekið undir þetta með þér. Man eftir sömu stöðu þegar ég var að byrja og hélt að allt mundi batna, það hefur lítið sem ekkert skánað og nú versnar það bara ef eitthvað er. Mér finnst að þú ættir að fá þessa grein birta í Fréttablaðinu. Go girl.
Ásdís Sigurðardóttir, 23.9.2008 kl. 21:42
ég get nú kanski ekki mikið sagt þar sem ég bý erlendis og í landi þar sem kreppan getur ekki haft mikil áhrif þar sem það tíðkast ekki mikið að fólk taki lán fyrir hlutonum , en sjálf er ég nú að berjast hækkandi húsnæðislán og annað þess háttar á Íslandi það sem ég skil ekki alveg í þessu öllu er af hverju er fólk svona yfir höfuð enþá að taka þátt í þessu ? af hverju er fólk ekki búið að stræka á að launin þeirra séu lögð inn á banka til þess að skapa veltu hjá bönkonum veitaki það er altalað hér hvað allt er að fara til fjandans í efnahagslífi Íslendinga virðast flestir hér vita það þó ótrúlegt sé , mér finst ég heira fólk kvarta mikið undan þessu en einhvern veginn eins og enginn hafirænu á að stoppa þetta eða mótmæla þessu auðvitað átt þú að geta lifað mjög sómasamlegu lífi eftir þína mentun og tala nú ekki um ef þú ert að vinna rúmlega 100% vinnu en ég held að á meðan engin gerir neitt annað en að tala um það þá séu hlutirnir bara að fara að versna því miður , ég held að fólk þurfi yfir höfuð að hafa mikið og sterkt hald til að hristast ekki frá borði í þessum ólgusjó sem íslenskt efnahgslíf er að ganga í gegnum segi bara gó for it girl þú hefur það sem þarf túllan á réttum stað og toppstykkið í lagi ;)
Helga Björg, 23.9.2008 kl. 21:44
Þetta er frábær færsla og ég tek undir hvert orð.
Það er ekki lúxus að vilja hafa heimilið sitt þannig að manni geti liðið vel.
Með kertum og kexi.
Andskotinn.
Ég vil gjarnan sjá þennan pistil í Mogga eða Fréttablaði.
Sendu inn kona.
Takk kærlega fyrir mig.
Jenný Anna Baldursdóttir, 23.9.2008 kl. 21:48
Þetta er mjög góður pistill hjá þér. Ég er sjálf að verða hálf vitlaus á þessu ástandi hér. Er að kafna úr útgjöldum. Langar mest að flytja eitthvað í burtu. Ég leyfði mér í gær að kaupa mér brjóstahaldara og þar með borðum við grjónagraut út mánuðinn
Þetta er annars ömurlegt ástand í þjóðfélaginu og ekki skrítið að fólk sé að hugsa sér til hreyfings og fara úr landi.
Margrét St Hafsteinsdóttir, 23.9.2008 kl. 21:49
Það eru allir að kafna og springa nema þeir í ríkisstjórninni... þeir vita ekkert hvað er í gangi og þeim er skítsama líka að manni sýnist.
DoctorE (IP-tala skráð) 23.9.2008 kl. 21:55
Frábær pistill sem lýsir lífi margra í hnoskurn. Sumir ver staddir þó, hafa ekki undan mánaðalegum aforgunum o.s.frv. Það má ekkert bera út af, svo mikið er víst.
Skil vel pælongar um atvinnu erlendis, hef sjáf verið í þannig þankagangi um hríð og er það í fyrsta sinn í áratugi sem ég læt mér virkilega detta þessi möguleiki í hug. Hef unnið eins og þú, sjaldan undir 150-160% vinnu. Lífsgæðin eftir því.
Hvet þig til að senda pistilinn áfram í fjölmiðla.
Guðrún Jóna Gunnarsdóttir, 24.9.2008 kl. 00:31
Sæl Lilja.
"Myrða mig á vinnunni", ég hef aldrei heyrt EINS VEL AÐ ORÐI KOMIST eins og þú segir með þessum orðum. Þetta er frábær pistill og þú gefur fólki "smá" innsýn í líf þitt og ekki ert þú í svokölluðum lágtekjuhópum.
Veistu það Lijla mín að þetta er búið að vera svona allt of lengi að yfirstéttirnar sjá um sig og sína en hinir mega eiga sig.
Samt baka allir saman, sömu kökuna ,sem á að seðja alla.Nú verður fólkið í landinu að fara að vinna í því að GERA EITTHVAÐ RÓTTÆKT,svo að almenningur komist sómasamlega af. Enn og aftur. þetta er frábær grein hjá þér. Haltu áfram að segja fólki frá.
Gangi þér og þínum sem best.
Þórarinn Þ Gíslason (IP-tala skráð) 24.9.2008 kl. 00:54
Æðislegur og raunsannur pistill hjá þér, þú verður að senda hann til allra dagblaðanna. Þessi lesning er holl fyrir alla. Ég get ekki leyft mér margt en ég keypti mér miða á Mamma Mia Sing-A-Long sýninguna í Háskólabíó næsta laugardag. Það er lúxus að geta farið í bíó tvisvar á ári. Svo fer ég í eina utanlandsferð á ári sem kostar u.þ.b 30.000. Það er allur lúxusinn sem ég get leyft mér.
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 24.9.2008 kl. 00:59
Þessi pistill segir allt sem segja þarf, en mogginn myndi aldrei vilja birta hann, sendu hann á fréttablaðið. Mér finnst vanta nýjan flokk á þing og sópa þessum siðspillta sjálftökuliði sem þar situr svo áratugum skiptir og afkomendur þeirra fá þingsetuna í arf, það vantar flokk almennings á þing, almennilegan VERKAMANNAFLOKK er ekki samansafn af valdasjúku fólki sem ber litla sem ENGA virðingu fyrir almenning nema korteri fyrir kosningar.
Sævar Einarsson, 24.9.2008 kl. 01:24
Bloggaraflokkurinn Sævar...Það vantar sannarlega nýtt blóð á þing. Það er ekkert sældarlíf að þurfa alltaf að vinna ca 120% vinnu að jafnaði yfir árið til að geta veitt sér eitthvað eða bara til að standa undir húsnæðsskuldbindingum
Hólmdís Hjartardóttir, 24.9.2008 kl. 01:30
Svo ætla ég að"kommentera" einu sinni enn og þá ertu komin inn í heitarumræður og fleiri lesa pistilinn.
Hólmdís Hjartardóttir, 24.9.2008 kl. 02:01
Bara til að kommentera á síðustu færslu.... úff Hólmdís, hvað þýðir það??
Lilja G. Bolladóttir, 24.9.2008 kl. 02:26
Lilja mín það tókst. Kíktu á "heitar umræður" á blogginu. Nú verður pistillinn þinn virkilega lesinn....sem er mjög gott mál. Ég er sjálf með 2 rándýra unglinga reyki og drekk rauðvín og bjór. Fer að jafnaði einu sinni á ári til útlanda ( ekki í verslunarferðir) er búin að fá nóg af þrældómi
Hólmdís Hjartardóttir, 24.9.2008 kl. 02:44
En annars langar mig að segja; takk þið öll fyrir ykkar komment, takk fyrir að lesa og segja ykkar skoðun. Mér þykir "ógisslega" vænt um það
Okey, svo ég byrji á byrjuninni and "take you down from the start":....segir maður ekki svona á engilsaxnesku......??
Elsku Róslín frænka, ég skil svo vel þitt komment, mínir foreldrar voru í þessum "pakka", en var þó faðir minn, og er, mjög háttsettur embættismaður innan ríkisins. Samt voru ekkert til of miklir peningar á mínu heimili á mínum uppvaxtarárum..... verð þó að leiðrétta eitt, sem ég veit að er bara mistök hjá þér vegna þess að þú ert svo greind, en við erum "náttla" rúmlega ÞRJÚhundruð þúsund á Íslandi en ekki tvö.....
Hólmdís: já ég er sammála, ef lífsgæði okkar eru ekki betri en í Póllandi, austantjaldsríki, þaðan sem menn flúðu til að öðlast betra líf..... ég meina, hvað er að gerast í okkar þjóðfélagi?? ... Er svo alveg sammála þér að mér finnst ekki líf mitt þjóna neinum tilgangi, ef það er bara til þess að vakna til vinnu, til þess að vinna fyrir húsnæði og mat og nauðsynjum.... getur vel verið að ég sé gjörspillt Íslandsdrós, en ég efa það þó, ég sé bara ekki alveg tilganginn í því að vinna og vinna og vinna, bara til þess að hafa enga skemmtun út úr því. Þá hlýtur eitthvað að vera að..... annaðhvort hjá mér eða ÞEIM..... já, það náttúrlega þjónar þeirra hagsmunum að við teljum okkur vera spillt ef við fáum enga ánægju út úr lífinu og við hljótum að vera svona hrikalega meðvirk ef okkur finnst þetta allt í lagi..... en shit, nei, mér finnst það ekki, ég var ekki fædd á jörðina bara til þess að sjá fyrir mér, einhverja ánægju átti ég að fá út úr þessu öllu, er það ekki??
Guðrún: Nei, EKKI flytja til Íslands, það voru stærstu mistökin sem ég gerði í mínu lífi, að flytja aftur hingað..... eftir að hafa samt haft það gott í Danmörku, þótt ég væri fátækur námsmaður þar í landi og allt það.... ég hafði þó lífsfyllingu.......
Sigrún: hvort það er láglaunastefna stjórnvalda eða bara stefna þeirra almennt.... ég er bara ekki hlynnt því lífi sem við erum neydd til þess að lifa hér. Ég átti mikið betra líf sem mjög fátækur námsmaður, í landi þar sem ekki var stöðugt horft í lífsstatusinn, þar sem þú gast bara verið þú sjálfur á þínu hjóli, kaupandi í Netto og Super Brugsen og "öll dýrin í skóginum voru samt vinir". Hérna heima er attitudið svolítið þannig; ef þú átt ekki bíl og notar strætó, þá ert aumingi, Ef þú eltist við lágvörutilboðin, þá ertu líka aumingi. Ef þú kaupir þér vodka og sprite en ekki mohijto, þá ertu hallærislegur. .....Samfélagið er stöðugt að dæma þig út frá þvi sem þú gerir hérna á Íslandi, og ég bara þoli það ekki. Þetta þekki ég ekki frá Danmörku, þar sem ég "lærði" að verða fullorðin..... og ég nenni ekki að lifa eftir þessum stöðlum, ég vil bara lifa eftir mínum eigin..... ....getur einhver skilið það??
Ólafur: takk fyrir þitt innlegg, ég er sammála hverju orði....
Búkolla mín: ég sá þín orð og ég svaraði þér "privat" .... svona okkar á milli. Þykir mikið vænt um það sem þú skrifaðir og skil þig vel.... ... xxx
Gurrí; nákvæmlega, reikningurinn minn í greiðsluþjónustinni fór upp um tuttugu og eitthvað þúsund núna á síðustu mánuðum...... og ég skil hvað þú meinar með lambahrygginn og það stuff, en málið er að ég vil frekar leyfa mér svona "smá"hluti einstakasinnum og svo svelta fyrir það í staðinn seinna. Veit ekki af hverju ég er að láta bjóða mér þetta...... en ætla ekki að gera það mikið lengur .....
Ásdís mín; takk fyrir hrósið ..... kannski mun ég birta þetta á öðrum vettvangi, en þetta er allavega byrjun, er það ekki??
Helga Björg: já, ég innilega vona, og vinn samkvæmt því, að toppstykkið sé í lagi :-/
Jenný; met þín orð mikils, og ég er sammála þér, að svo litlir hlutir sem kertaljós og kósýness ættu ekki að teljast til lúxus-lífernis...... Oh my god.... fuck.......
Margrét: ég þekki þetta, ef þú leyfir þér einn lítinn hlut, þá þarf maður að herpa saman í einhvern tíma á eftir í staðinn.... skyldi eiginkonur ráðherrana skorta brjóstahaldara??? Ætla að skoða myndir af þeim mjög nákvæmlega hér eftir......
DoktorE: einmitt, maður er að kafna í skuldum sínum. Þess vegna sem ég sé það sem betra líf að búa og vinna erlendis, þá fær maður allavega meira fyrir afgangspeninginn sinn heldur en hér.....
Guðrún Jóna: segi það sama og hér að ofan, eini hvatinn er auðvitað glötuð staða krónunnar og óstöðugleiki sífelldur..... hvernig stendur á þessum óstöðugleika í efnahagsmálum hérlendis?????
Takk, takk og takk Þórarinn, þitt álit og þín orð skipta mig máli :-) .... og já, vinnan er að myrða mig að mörgu leyti, félagslega, móðurlega og í sambandi við það að geta haft eðlileg samskipti á eðlilegum tímum sólarhringsins.... auk þess sem vinnan er smátt og smátt að murka úr mér lífið, en það er nú bannað að segja það, er það ekki??? ...... Ég er ekkert frábrugðin öðrum stéttum LSH, spítalinn vill fá sem mest út úr mér án þess að gefa neitt á móti.... það er ætlast til þess að þú sért í hálfgerðri sjálfboðavinnu og alltaf móttækilegur fyrir hugmyndum þessa apparats, svo lengi sem þú vinnur þarna, þú átt alltaf að vera málsvari þessa apparats, en er þessi spítali nokkurn tímann málsvari þinn? Nei, aldrei. Það er líklega ástæða þess að starfsmenn spítalans eru svo unloyal sem þeir eru, vegna þess að þeir fá aldrei neitt á móti því sem þeir gefa..... nema einhver lúsarlaun frá ríkinu :-/ já, þannig er það nú...
Jóna Kolbrún mín; ég veit að þú getur ekki leyft þér margt og ég ætti örugglega ekki að leyfa mér að kvarta..... en ég bara óska mér meira og betra.... ég vann til þess og ég vil fá það metið. Ég veit að þú vannst líka til þess og þú átt að krefjast meira. Við eigum öll skilið að fá að njóta lífsins jafn mikið og við vinnum, við eigum ekki bara að vera að vinna til þess að eiga þak yfir höfuðið, við eigum meira skilið en það eftir okkar strit.
Jæja, Sævari og Hólmdís: Eigum við ekki bara að drífa í þessu og stofna okkar eigin flokk??? Í alvöru. Flokk almennings sem er kominn með nóg af því að valtað sé yfir það með lygi og prettum og yfirbreiðslum. Flokk fólks sem vill geta lifað ágætu lífi á mannsæmandi launum? Fólk sem vill lífsgæði sem eru ekki endilega fólgin í nýjasta lampanum frá Epal?? Ég er opin fyrir umræðum..... og þá meina ég í alvöru......
Í alvöru von um góðar undirtektir, hver sem er er velkominn..... lets do it!
Lilja G. Bolladóttir, 24.9.2008 kl. 03:51
En elsku Hólmdís, ég veit ekki hvað "heitar umræður" er, og þó svo ég hafi lent í þeim, þá sést það ekki á lesendatölum mínum..... kannski ekki nógu spennandi titill....???
Anyway, þá er mér nok sama um þetta bloggsamfélag, í rauninni. Mér þykir vænt um mína fáu og traustu bloggvini, sem alltaf kíkja við hjá mér og sem ég lít líka alltaf við hjá. Mér þykir gaman að eiga við ykkur skoðanaskipti, lesa ykkar skoðanir, heyra ykkar skoðanir á því sem ég hef að segja, mér þykir meira að segja mjög vænt um það þegar þið kommenterið á mínar færslur, en líf mitt snýst samt ekki í kringum bloggið. Ég lít á það sem vettvang til að koma fram með mínar skoðanir á hinum ýmsu málum, heyra annarra skoðanir á sömu málum og öðrum, þetta er ágætis þjóðfélagsspegll.
Mér þykir ofurvænt um ykkur, mína traustu vini, ég hlakka alltaf til að lesa kommentin ykkar og líka til að lesa ykkar blogg...... annað skiptir mig í raun voða litlu máli :-/ ...... takk til ykkar, mínu kæru bloggvinir, það er eins og sagt er, gæðin segja meira en magnið
Lilja G. Bolladóttir, 24.9.2008 kl. 04:04
Takk fyrir að leiðrétta mig - ég er að læra í svo gömlum bókum sko... ekkert að marka þessar tölur sem koma uppúr þeim!
Róslín A. Valdemarsdóttir, 24.9.2008 kl. 10:24
Passaðu þig á að vekja ekki Geir Haarde, hann er sofandi í glerkúlunni sinni. Ég skil þig vel, það eru allir að kafna og að drepast í þessu ruglástandi sem er á klakanum.
Sem betur fer bauðst mér vinna í Kanada, verð þar meðan þetta andskotans rugl gengur yfir, og kannski lengur
Norðanmaður, 24.9.2008 kl. 12:25
Flottur og einlægur pistill. Vonandi helst þú á landinu samt sem áður, ekki bara vegna þess að þú þraukir heldur að hagur fari að vænkast!
Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 24.9.2008 kl. 12:53
Góður pistill og ég skil þig mjög vel. Það er eins og íslendingar skilji ekki um hvað lífsgæði eiga að snúast..þau eru ekki bara um peninga og flottheit og óendanlega vinnu heldur eins og þú segir.... að lifa félagslega, móðurlega og geta sinnt öllum þessum mismunandi hliðum á lífinu á mannsæmandi hátt. Góð líkingin með kertaljós og kex..hljómar eins og öreigar á pappakassa að gera sér dagamun en segir sitt um hvað við erum farin að gera okkur að góðu þessa óendanlegu óráðssíu stjórnamálamannanna...sem virðast lítið hafa vitið en þeim mun meira af eiginhagsmunakænsku.
Bjakk!!!
Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 24.9.2008 kl. 15:27
Flottur pistill sem snertir okkur öll
Brynja skordal, 24.9.2008 kl. 15:27
Ég linkaði á þessa færslu Lilja þannig að fleiri sjái hana.
Hún á fullt erindi við flesta.
Jenný Anna Baldursdóttir, 24.9.2008 kl. 15:44
Frábær pistill og ég er svo sannarlega sammála þeim hér að ofan sem vilja sjá þetta í fréttablaðinu.
Dísa Dóra, 24.9.2008 kl. 16:07
Þarfur pistill hjá þér. Mér finnst svo sannarlega að þetta eigi að fara í stærri blöð. Þetta vekur fólk til umhugsunar.
Helga Linnet, 24.9.2008 kl. 16:20
Sammála! Út með stjórnvöld og "hæstvirta" eitthvað ... trúða!
Einar Indriðason, 24.9.2008 kl. 16:54
Góð færsla...það eru svo margir að hugsa einmitt þetta og eru í sömu sporum og þú...takk fyrir mig.
Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir, 24.9.2008 kl. 17:26
Vá, eins og pikkað út úr mínum puttum!! Asskoti kemurðu þessu vel frá þér. Segi eins og margir aðrir: Fá þetta birt í Fréttablaðinu! Ótrúlegt hvernig valtað er yfir okkur á þessu skeri.
Hugarfluga, 24.9.2008 kl. 17:32
Frábærlega skemmtilega vel skrifað, þetta er nefnilega staðan á Islandi í hnotskurn. Sendu mail til frettablaðsins og reyndu að fá þetta birt góða.
Einn sem fylgist vel með ástandinu á islandi úr fjarlægð (Noregi)
Vilhjálmur C Bjarnason (IP-tala skráð) 24.9.2008 kl. 19:07
Takk aftur, þið öll
Og takk, Jenný mín, fyrir linkinn, that means a lot to me
Lilja G. Bolladóttir, 24.9.2008 kl. 19:11
Lilja mín ég er að upplifa þetta dæmi í þriðja sinn á ævinni. Þegar ég og mín elskuleg þáverandi keyptum okkar fyrstu íbúð árið 1982 jókst verðbólgan og íbúðaverðið tvöfaldaðist á byggingartímanum. Svo komust Steingrímur og Þorsteinn Palsson til valda ( hann þykist vera einhver frelsandi engill í dag) og ákváðu að banna vísitölu á laun en létu vísitölu lána halda áfram. Verðbólgan fór ekki í 14%, hún fór í 130%. Þarna tapaði ég minn fyrstu íbúð og núna eru 558 þúsund eftir af síðast láninu af henni, þegar ég er orðinn 53 ára....ekki flýja...lánin þín fara ekkert....ÞRAUKAÐU....þetta kemur.
Haraldur Bjarnason, 24.9.2008 kl. 22:51
Fósturlandsins Freyjur að að fara í Víking "það er mjög slæm þróun"
þessi pistill hjá þér er ískaldur veruleikinn hjá of mörgum. "not good"
Vona að þér vegni vel og þú njóttir blessunar í öllu .
takk fyrir mjög svo skilvirka og flotta grein Lilja
Gísli Torfi, 24.9.2008 kl. 23:04
Þú getur ekki kvartað yfir dræmum undirtektum mín kæra. Hvenær er stofnfundur bloggaraflokksins?
Hólmdís Hjartardóttir, 24.9.2008 kl. 23:59
Sæl, er hérna vegna þess að Jenný kellan setti hlekk já á færsluna.
Verð nú nokkuð svo að taka undir með Haraldi og svo verð ég nú að segja að þótt margt sé gott í Sverige og mér hafi líkað þar vel í þann tíma sem ég dvaldi tvivegis þar, þá er það nú engin Paradís og vandamálin hverfa nú ekki bara við að flytja þangað. Þá er nú tekjuskattur þar hærri en hér og verðlag í svo mörgu í raun ekkert lægra en hér á munaðarvörum til dæmis.Þú gefur núverandi vinnustað ekki háa einkun, er einhver tygging fyrir því að sænskar sambærilegar stofnanir séu betri hvað viðmót gagnvart starfsfólki varðar? Veit ekki, en þykist hins vegar vita að svíar hafa eins og við glímt við sömu vandamál og í heilbrigðiskerfinu, þenslu og æ meiri kosnað við reksturinn vegna t.d. hækkandi aldurs þjóðarinnar hlutfallslega, dýrari lækningaaðferða (sem þó ættu fyrr eða síðar að borga sig og teljast því jákvæðar) m.a.
Þeir hafa svo reynt að markaðsvæða kerfið eitthvað, íllu eða góðu heilli, og svo framvegis, þannig að ég veit ekki alveg hvort mikið öðruvísi yrði fyrir þig að skipta yfir. Svo held ég að þarna hafi líka komið upp sömu vandamálin og hér, í eða með markaðstilraunum, skortur á faglærðum t.d. sjúkraliðum og hjúkrunarfræðingum m.a. vegna misgóðra kjara, sem þekkjast jú þar sem hér.
En svo aðeins varðandi sumt sem þú nefnir í alveg ágætri grein, þá get ég auðvitað ekki vorkennt þér að sóa góðum hluta af tekjunum í reykingasubbuskapin. Alltaf að koma ný úrræði til hjálpar að hætta og það veistu auðvitað vel. Hvað svo drengin varðar, þá hefði ég haldið hvað fótboltaskóna varðar að hægt væri að selja lítt slitna eða ekki skó til annara yngri sem gætu notað og þar með sparað sér eitthvað í leiðinni?
Og hvernig er það, ekki má gleyma að þú færð borgað með drengnum, bæði frá ríki í formi barnabóta og svo á hann væntanlega föðurdýr?
Þú tekur þessu nú ekki ílla, skil auðvitað vel hvað þú ert að fara, en dreg í efa að til langframa allavega sé neitt betra að fara til SVíþjóðar. (og sænksu strákarnir eru nú upp til hópa litlir sjarmörar, verð að láta það flakka með haha!)
En ef þú móðgast yfir þessu, þá skammar þú bara Jenfokelluna, allt henni að kenna!
Magnús Geir Guðmundsson, 25.9.2008 kl. 01:27
Góð samantekt hjá þér Lilja, ég var að spá í að gefa eitthvert langt og gott komment á þessa færslu hjá þér. En ég sé ekki þörf á að bæta neinu við annars mjög málefnalega grein hjá þér um hvernig það er að búa á Íslandi í dag. Ég segi bara eins og sumir hér á undan "Go for it" ...
Er annars einhverju að tapa?
Kjartan Pétur Sigurðsson, 25.9.2008 kl. 07:22
Sammála, hef verið að gantast með að flytja af landi brott en það er að síga í raunveruleikann með það grín. Góð skrif hjá þér kona góð.
Rut Sumarliðadóttir, 25.9.2008 kl. 09:33
Þetta er mjög góður pistill hjá þér.Og hvað eigum við að gera
Anna Ragna Alexandersdóttir, 25.9.2008 kl. 14:12
Flytjum bara öll til Serbíu - lágt verðlag (en laun kannske ekkert til að hrópa húrra fyrir) og gott veður. Og flækingshundar til að klappa!
Tinna Gunnarsdóttir Gígja, 25.9.2008 kl. 14:53
Mikið skil ég þig að vilja fara af landi brott. Ef ég hefði sömu menntun og þú, sem er eftirsótt og gjaldgeng alls staðar í heiminum, væri ég ekki lengi að kippa upp tjaldhælunum.
Helga Magnúsdóttir, 25.9.2008 kl. 19:07
Hvað segirðu Lilja mín, er þetta komið í eitthvað af blöðunum?
Róslín A. Valdemarsdóttir, 25.9.2008 kl. 21:00
Snilldarpistill Lilja! Og það eru þúsundir á Íslandi i dag sem gltu tekið undir með þér. Ísland er komin með "skrípastjórn" og ekki búandi hér fyrir neinn nema sem æa núg af peningum. Launafólk á engan sjens nema þræla sér út. Þú átt að senda þessa grein í ÖLL blöð! Veruleikafirrtir ráðamenn eru komnir í "koma" yfir ástandinu og það eru engar leiðréttingar á leiðinni. ég er fluttur aftur til Svíþjóðar.
Sem dæmi: ég keypti 560 fm hús í Norður Sviþjóð því við vorum með 6 börn. Það kostaði það sama og léleg 2ja herbergja íbúð í Vesturbænum. Það er sama verð á mat í Svíþjóð í dag, og var 1988 þegar ég flutti þangað fyrst. Þjóðfélagið er gert og uppbyggt fyrir fjölskyldur.
Að vísu voru Svíar plataðir inn í ESB og eru enn að súpa seyðið af því. Þða kom af stað atvinnuleysi og allskonar vandamálum sem þeir eru enn að glíma við.
Ég hef engar tilfinningar lengur í sálft landið, Ísland, enn enn tengdur fólki þar. Landið er bara einangruð eyja, hvorki fallegt né byggilegt að neinu leyti í mínum augum. Mjög óintresant land og vorkenni ég öllum sem búa þar og þurfa að búa sér til ímyndaða mynd af landinu sem "besta land í heimi".
Ég er algjörlega frelsaður frá svona hugmyndum. Þær eru ekki raunsæjar. Það fólk sem stjórnar þessu landi er með ant- félagslegar hugmyndir og að nota fólk eins og þræla þykir sjálfsagður hlutur.
Bara mín skoðun og ég vona að ég verði aldrei svo sjúkur í höfðinu að ég flytji þangað nokkurtíma aftur.
Tinna Gunnarsdóttir er með EKTA íslenskt komment! :) Bara þessi tegund af móral er nóg til að vilja koma sér til meiginlansins og vera innan almennilegt fólk, búa á fallegum stað og láta sér líða vel.
Og maður þarf ekki 18 tíma vinnudag til að eiga í sig og á. Það er ekkert á Íslandi fyrir mig sem er eftirsóknarvert og þess vegna vil ég ekki vera þar. Svo einfalt er það nú bara...
Óskar Arnórsson, 26.9.2008 kl. 00:33
Vá, hvað ég þakka ykkur öllum góðar undirtektir Þið eruð nú bara alveg stórkostleg. Ég svaraði svo mörgum ofar og held eins og einhver líka sagði, að það sé litlu við að bæta svo sem.....
Langar þó að kommenta á eitt sem þú segir Magnús Geir; ónei, að sjálfsögðu er ég ekki móðguð, langt frá því, allar skoðanir eru gjaldgengar og vel þegnar. Líklega margt til í því sem þú segir um Svíþjóð, ég hef þó búið í Danmörku í 6 ár og þekki núna þónokkra sem eru í sérnámi í Svíþjóð, og láta þau öll vel af dvölinni, þá er ég líka mikið að hugsa til þess hve mikið fjölskylduvænna land það er en Ísland. Gæti svo sem vel farið til DK aftur, en líka spennandi að prófa eitthvað nýtt. Varðandi það sem þú segir um barnabætur og meðlag, jú vissulega á barnið mitt föður sem borgar meðlag, en eins og allir einstæðir foreldrar vita, þá hrökkva 20.000 kr. á mán. ekki langt í framfærslu af barni. Varðandi barnabæturnar, þá tilheyri ég þessarri millistétt á Íslandi, sem ég hef áður skrifað um.... fæ því ágætis tekjur á pappírnum en skulda hins vegar mikið á móti, átti ekkert þegar ég kom úr námi, er að basla við að eignast brot úr þakinu hérna yfir höfuð okkar, borga meira en mánaðartekjur á ári til LÍN og þetta er sannast sagna raunveruleikinn fyrir marga nýháskólamenntaða. Ágætis laun á blaðinu, en ekki svo mikið eftir þegar búið er að borga fasta liði.... barnabætur eru tekjutengdar og eru þær því ekki mikið til að tala um, þannig séð, þótt auðvitað séu allir þúsundkallar gripnir fegins hendi.
Annars vil ég bara þakka ykkur aftur fyrir lesturinn og fyrir að gefa ykkur tíma til að segja ykkar skoðun
Lilja G. Bolladóttir, 26.9.2008 kl. 01:14
Þessi færsla er hrein snilld hjá þér,það þyrfti að fá þessa grein hjá þér birta í mogganum eða hér á mbl..já eða fríblöðunum.
Landi, 26.9.2008 kl. 09:56
Lilja mín.
Skrifaðu í blöðin.Það eru mikið fleirri sem lesa þau heldur en bloggið !
Þú ert góður penni og talar fyrir hönd svo margra.
Go girl.
Guðrún Erla Sumarliðadóttir, 30.9.2008 kl. 22:05
Lilja, einhvernvegin fór þess færsla fram hjá mér - Þú ert brjálæðislega góður penni og ættir að ráða þig sem "lausapenna" hjá blöðunum. Bara beint í moggan með þennan pistil.
Sigrún Óskars, 5.10.2008 kl. 12:32
Þetta er frábær grein hjá þér Lilja, og svo rétt. Ég geri eins og allir hinir og skora á þig að fara með þetta í Fréttablaðið.
Væri gaman að sjá þig í Kastljósi líka bara.. Þú ert svo sannarlega með nefið fyrir neðan munninn! Gott hjá þér!
Lára Ósk (IP-tala skráð) 6.10.2008 kl. 10:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.