17.8.2008 | 22:55
Væntar og óvæntar karlkynsheimsóknir.....
Sonur minn hefur verið hjá pabba sínum síðustu 10 dagana, eða það var að minnsta kosti planið. Með vaxandi aldri drengsins og auknu sjálfstæði er hann þó meira móbíll og sjálfbjarga heldur en hann var og hefur hann því verið að birtast á heimilinu okkar á öllum tímum dagsins, oft á reiðhjóli pabba síns. Reyndar eru fótboltaæfingar alla daga nema föstudaga og því hafa komur hans hingað á heimilið verið í tengslum við æfingarnar en oft hafa þær þó lengst verulega í annan endann. Sem auðvitað er allt í lagi..... ég var að vinna 16 tíma á dag alla vikuna og hafði því ekki hugsað mér að versla neitt inn til heimilisins þannig að einu aukaverkanirnar af þessum óvæntu heimsóknum og dvölum sonarins á heimilinu fyrir mig, voru eilítil matarinnkaup.
Ég hafði þó hugsað mér gott til glóðarinnar á föstudaginn. Mr. K. ætlaði að vera utanbæjar í pallasmíðum við bústaðinn sinn alla helgina en ég hafði stórfelld partýplön þar sem slysadeildin, bráðamóttakan við Hringbraut og slökkviliðið ætluðu að hafa hópeflisdag á laugadeginum með tilheyrandi djammi um kvöldið. Mig langaði samt aðeins að ná að knúsa kallinn eftir langa og erfiða vinnuviku, svo ákveðið var að herrann myndi koma í smá heimsókn til mín, á leið sinni austur seinnipartinn. Engin æfing var hjá unglingnum og því ekki von á að hann birtist skyndilega í dyrunum, íbúðin þannig "barn"laus og hægt að gera fullorðinshluti í friði....
Ég var að vinna 17 tíma næturvakt aðfaranótt föstudagsins og það var því dauðþreyttur hjúkrunarfræðingur sem skreið undir sæng klukkan 10 á föstudagsmorgni. Ég rankaði úr rotinu þegar Mr. K. hringdi til að vekja mig sjö klukkutímum seinna og skrölti fram óstyrkum fótum og ennþá með augun hálflokuð. Þau glenntust þó snarlega upp þegar ég rak augun í risaskó drengsins míns í forstofunni..... ég rauk inn í stofu og fann drenginn í mesta sakleysi í sófanum að horfa á sjónvarpið. "Bíddu, bíddu, hvað ert þú að gera hér??", nánast hvæsti ég. Hann leit upp með undrunarsvip: "Ég ætlaði í fótbolta með Ísleifi", svaraði hann. "Og af hverju eruð þið þá ekki úti í fótbolta?", hvæsti ég aftur og gat næstum ekki leynt pirringnum. "Við erum búnir að vera í fótbolta, ég nennti bara ekki að hjóla heim til pabba alveg strax", svaraði hann hinn rólegasti
Ég strunsaði inn á bað til að bursta tennur og hugsa næsta leik í stöðunni. Þó hann sé yndislegur, hann sonur minn, þá var hann ekki alveg inklúderaður í plönum mínum fyrir þennan eftirmiðdag. Ég gaf mér góðan tíma inni á baði og kom svo fram, reyndi að hljóma hin rólegasta og eins casual og ég gat: "Jóhann minn, viltu ekki fara að drífa þig til pabba þíns?"
Hann: "Jú, ég er alveg að fara." Var samt búinn að kveikja á tölvunni og leit ekki upp þegar hann svaraði. Ég reyndi að vera þolinmóð og líta út eins og það væri ekkert stress í gangi. Þegar drengurinn sýndi ekkert fararsnið á sér korteri seinna var ég orðin dálítið óþolinmóð og kallaði fram: "Jóhann minn, farðu nú að drífa þig af stað!"
Hann bara: "Já, róleg...."
Ég: "Það er líka komið svo mikið rok, drífðu þig, annars verður svo erfitt að hjóla."
Hann: "Það var líka rok þegar ég kom."
Ég gat líklega ekki leynt óþolinmæði minni lengur þegar ég nánast skipaði honum að standa upp og fara af stað. Hann var pínu hissa og spurði: "Hvað, ertu að reka mig af heimilinu mínu???"
Já, eiginlega var ég að því, þótt ég væri að reyna að fara fínt í það..... en ég meina, maður hlýtur nú að eiga rétt á smá privacy, er það ekki? Að minnsta kosti á þeim tíma sem drengurinn Á opinberlega að vera í sumarfríi hjá pabba sínum.... þá á maður ekki að eiga það á "hættu" að hann labbi inn á hvaða tíma sólarhringsins sem er.....
Þetta atvik varð til þess að ég gerði mér grein fyrir því, hvað við einstæðu foreldrarnir erum í raun heppin fyrir þessa aðrahvora helgi sem við getum ráðstafað að vild, án tillits til barna. Þessar helgar getum við sofið út, farið út úr bænum, unnið, djammað og bara gert allt sem okkur langar til án þess að þurfa að redda pössun eða vakna snemma. Þessar helgar getur maður haft alveg fullorðins. Og svo haft hinar helgarnar á móti alveg helgaðar krökkunum. Þetta er í raun algjör lúxus. Því þótt við elskum börnin okkar alveg út af lífinu, þá er nú ósköp gott að vera barnlaus öðru hvoru, er það ekki?
Ég náði barnlausa tímanum mínum með Mr. K. ..... núna er komið sunnudagskvöld, ég er búin að djamma og hvíla mig og nú er ég barasta farin að sakna drengsins míns, núna má hann alveg fara að drífa sig heim til mömmu sem elskar hann nú mest af öllu, þrátt fyrir allt.....
Athugasemdir
Rosalega hlýtur að vera erfitt að pússla þessu saman.
Jenný Anna Baldursdóttir, 17.8.2008 kl. 23:04
Ég á vinnufélaga - harðgifta konu með þrjá unglinga á heimilinu. Hún segist stundum vera komin að því að fá sér hótelherbergi með kallinum, svona rétt til að fá smá "privacy" Mér datt hún í hug þegar ég las þessa færslu !
Húsmóðir, 18.8.2008 kl. 00:50
Æ þessi börn eru bara yndisleg
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 18.8.2008 kl. 02:46
Hei og ps. Ég svaraði spurningunni þinni. Í færslunni "ferðasagan seinni hluti"
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 18.8.2008 kl. 03:08
Hæ elskan mín.
Mikið var þetta yndisleg færsla. Eitthvað svo beint frá hjartanu:o) Þú átt svo innilega skilið að vera einstaka sinnum ein út af fyrir þig og gera það sem þú vilt. Því það vitum við sem þekkjum þig að þú gefur svo mikið af þér, og ert alltaf svo góð við fólkið í kringum þig.
Gvöð (Laddi)... ég sá annars myndir af "unglingnum" þínum á Barnalandi hjá litlu systur og ég er ennþá í sjokki. Er ég búin að vera fjarstödd í mörg ár eða??? Þetta er bara fullorðin maður. Hvað gefur þú þessu að éta?
Jæja, við hittumst vonandi fljótt, knús og kossar. xxx
Gunna (IP-tala skráð) 18.8.2008 kl. 15:06
Ég er svo heppin að við hjónin fáum 2-3 daga á ári til að vera ein...nema þegar við skreppum erlendis ein....það er draumur í dós.
Nauðsynlegt að rækta samband sitt við makann en því er ekki að neita að maður er óendanlega heppin að eiga barn/börn hvernig sem þau eru.
Helga Linnet, 19.8.2008 kl. 04:22
Já, lífið á sínar ýmsu hliðar
Kveðja
Guðrún Þorleifs, 19.8.2008 kl. 06:32
Við hjónin förum einu sinni á ári á festival, þ.e.a.s. fullorðins festival sem haldið er á hótelherbergi erlendis.
Þú skrifar svo skemmtilega Lilja, mér fannst best þetta með rokið - að drífa sig að hjóla áður en það verður erfitt
Sigrún Óskars, 20.8.2008 kl. 01:47
Takk fyrir commentið , alltaf gaman að lesa bloggið þitt , kveðja Helga Björg
Helga Björg, 20.8.2008 kl. 21:03
Takk stelpur
Jón Arnar..... hvað meinarðu...??? Það er ekki "spól" heldur "hjól".........
Játa á mig allar ofanbornar sakir......
Lilja G. Bolladóttir, 21.8.2008 kl. 03:01
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.